Ölkelda

Ölkelda (úr öl + kelda sem þýðir í fornnorsku „uppspretta“ eða „lind“) er uppspretta vatns sem inniheldur koltvísýring, en hann á uppruna sinn í storknandi kviku í iðrum jarðar.
Olkleda-22Ölkeldur eru kaldar eða rétt volgar uppsprettur sem finnast á háhitasvæðum og oft í jöðrum þeirra. Yfirleitt eru þær járnmengaðar og bragðvondar og vatnið rauðbrúnleitt, jafnvel svo liti heilu lækina. Þær þekkjast á Hengilsvæðinu (Hengladalir). Vatn úr þeim köldustu sem mest ólga af kolsýrunni er drekkandi þótt brúnleitt sé.
Kolsýruhverir og –laugar með kalkútfellingum koma fyrir á nokkrum háhitasvæðum, einkum við jaðra þeirra, eða þar sem virknin er dvínandi. Vatnið í þeim er grunnvatn fremur en yfirborðsvatn.
Kolsýran á Hengilssvæðinu er hugsanlega orðin til við afgösun í jarðhitageyminum þar sem koltvíoxíð og vetni (H2) berst upp í kaldara vatnskerfi og þéttist (Knútur Árnason & Ingvar Þór Magnússon 2001). Við slíkar aðstæður má ætla að ofan í berginu finnist talsvert af frumbjarga örverum sem nota vetni sem orkugjafa og framleiða metan (CH4) úr vetninu og kolsýrunni.
Um ölkeldur á Íslandi er fjallað í grein eftir Stefán Arnórsson (Eldur er í Norðri, Reykjavík, Sögufélag 1982, bls. 401-407). Ölkelduvatn, sem getur verið ýmist kalt eða heitt, hefur verið skilgreint þannig að samanlagður styrkur karbónats (CO2 + HCO3- + CO3–) í því sé 1 gramm eða meira per lítra vatns. Fyrir hérlent ölkelduvatn undir 100 stiga hita telur Stefán Arnórsson í ofannefndri grein rétt að setja mörkin við 0,3 grömm/lítra.
Olkelda-23Það er mikils vert að fá góða læknishjálp þegar sjúkdóm ber að höndum en betra er þó að halda heilsunni og þurfa aldrei að sjá framan í lækninn,” sagði Guðmundur Björnsson landlæknir í almennum fyrirlestri sem hann flutti á annan dag jóla fyrir 100 árum. En hvað gerði fólk fyrr á tímum til að halda heilsunni? Á 18. öld jókst áhugi á heilbrigðismálum meðal upplýstra manna og eitt af því sem þeir töldu mikilvægt var að njóta óspilltra afurða náttúrunnar eins og til dæmis ávaxta og vatns, en vatn er ekki bara vatn.
Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar segir að á Íslandi séu sex tegundir af drykkjarvatni. Það eru jökulvatn, mýravatn, bergvatn, uppsprettu- og lindarvatn, kaldavermsl og hveravatn. Jökulvatn er ekki drukkið nema í neyð enda varla hæft til neyslu. Mýravatn kemur úr brunnum sem eru grafnir og í botnin sest gulur ryðleir en ofan á bláleit skán. Þetta vatn er barkandi á bragðið og veldur aldrei neinum óþægindum. Bergvatn er samheiti yfir ár- og lækjarvatn og það er ætíð kalt, tært, heilnæmt og algerlega bragðlaust.

Olkelda-24

Uppsprettu- og lindarvatn er eftirsóttast því það er léttara, kaldara og tærara. Kaldavermsl er ennþá kaldara og tærara en uppsprettuvatnið. Það er einnig heilnæmara og meira hressandi en allar aðrar bragðlausar vatnstegundir og það frýs ekki á vetrum. (Heyrt hef ég þá sögu að á stríðsárunum hafi bandarískir hermenn frétt af kaldavermsli og náð sér í vatn á brúsa. Síðan hafi þeir hellt því á bílvélar sem nokkurs konar frostlög en það virkaði auðvitað ekki og vélarnar sprungu í næsta frosti.) Hveravatn er víða notað til drykkjar þar sem það er lyktarlaust og auðveldara er að ná því en öðru vatni. Þegar það hefur kólnað er það kælandi svalt og bragðgott og þótt það sé lykt af vatninu þá er það oftast bragðlaust. Sagt er að menn kenni aldrei lasleika eða óþæginda af hveravatni.
Ölkelduvatn var ekki talið meðal þessara vatnstegunda enda hafði það sérstaka eiginleika. Ölkeldur hafa jafnan þótt merkilegt náttúrufyrirbæri og fyrir þær sakir dregið að sér athygli og á 18. öld voru þær rannsakaðar sem hugsanlega ein af helstu auðsuppsprettum landsins.
Olkelda-25En hvað er ölkelda? Skilgreiningin í Ferðabókinni er sú að ölkeldur eru “uppsprettur sem eru auðugar af málmsöltum og með bragðmiklu vatni”. Þessi skilgreining dugar alveg enn í dag en í raun er hún miklu flóknari eins og fram kemur í grein Stefáns Arnórssonar prófessors í bókinni Eldur er í norðri.
Í Íslenskri orðabók segir um ölkeldur “lind með köldu vatni sem ólgar af kolsýru líkt og það sjóði”. Ölkelda er vatnsuppspretta þar sem vatnið er blandað koldíoxíði sem kemur úr kviku í iðrum jarðar. Þær finnast víða um land, heitar og kaldar, en einkum þar sem gosbelti er undir og úti um allan heim eru ölkeldur og sumar mjög þekktar sem heilsulindir. Þessi tengsl eru svo náin að í Íslenskri samheitaorðabók er samheitið fyrir ölkeldu, heilsulind.
Ólafur Olavius ferðaðist um landið til rannsókna tveimur áratugum síðar en Eggert og Bjarni og hann gaf vatninu einnig sérstakan gaum. “Öllum er kunnugt hversu frábærlega vatnið er nytsamlegt og hve mikil áhrif það hefur á heilsu og líf manna og dýra,” segir hann. Ólafur bendir réttilega á að víða um Evrópu séu heilsulindir sem séu mikið sóttar af fólki til lækninga og Ísland gæti hugsanlega orðið nokkurs konar heilsuparadís enda hafi það “ómetanleg auðæfi heilnæms lauga- og ölkelduvatns”.

Olkelda-26

Hann taldi að það yrði landinu til mests gagns ef hægt væri að útrýma sjúkdómum en margir þeirra orsökuðust einmitt af óheilnæmu vatni og slæmu fæði. Lækning við mörgum sjúkdómum og kvillum væri hins vegar böð og vatnsneysla ef hvort tveggja væri í hæsta gæðaflokki eins og hérlendis.
Rannsóknir Eggerts og Bjarna og síðan rannsóknarleiðangur Ólafs vöktu athygli í Danmörku og Jón Eiríksson konferesráð, hinn óþreytandi baráttumaður fyrir bættum hag Íslands, fékk því til leiðar komið að ölkelduvatn var sent til Danmerkur til frekari rannsókna.
Þorlákur Ísfjörð sýslumaður og Hallgrímur Bachmann fjórðungslæknir sendu á annað hundrað flöskur af ölkelduvatni til Kaupmannahafnar haustið 1778. Vatnið var rannsakað af Aaskov líflækni og Weber lyfjafræðingi og síðar einnig af Abildgaard prófessor en þessar rannsóknir voru mun víðtækari og nákvæmari en Eggert og Bjarni höfðu gert á sínum tíma.
Aaskov líflæknir tók saman skýrslu um málið og sendi Jóni Eiríkssyni en niðurstaðan um gagnsemi ölkeldna var sú sama og hjá öðrum. Íslenska ölkelduvatnið var sambærilegt við það besta erlendis eins og til dæmis Seltzer, Pyrmont og Spa. Hvers vegna væri þá ekki hægt að byggja upp heilsuhæli á Íslandi og selja vatn þaðan í stórum stíl? Ekkert varð úr þeim ráðagerðum en ásókn í ölkelduvatn mun eitthvað hafa aukist á 19. öld.
Konrad Maurer ferðaðist um Ísland árið 1858 og skoðaði m.a. nafnkenndar ölkeldur.
Olkelda-27Jón Hjaltalín, sem var landlæknir á árunum 1855-1881, hafði mikla trú á lækningamætti vatnsins. Árið 1840 kom út í Kaupmannahöfn Lækningakver eftir hann en þá hafði hann nýlokið doktorsprófi í læknisfræði við háskólann í Kiel í Þýskalandi. Jón hafði verið í Þýskalandi í nokkur ár og kynnt sér geðveikrahæli og vatnslækningar en helstu sérfræðingar á því sviði voru þýskir. Hann var læknir í danska hernum um tíma en stóð síðan fyrir því að reist væri vatnslækningastofa í Klampenborg á Sjálandi og þar starfaði hann á árunum 1845-1851. Jón var einn helsti hugmyndasmiður og baráttumaður fyrir úrbótum í heilbrigðismálum allt frá því að hann lauk námi þar til hann hætti störfum. Hann var alla tíð umdeildur og lenti upp á kannt við marga samferðamenn sína enda lagði hann sig allan fram um að ná þeim markmiðum sem hann taldi nauðsynleg og var þá ekki ætíð með hugann við pólitískan leikaraskap.

Kaldavermsl-21

Hér mætti minnast á Tómas Stokkmann lækni í leikriti Henriks Ibsens, Þjóðníðingurinn, en hann stóð fyrir því að koma upp heilsuböðum í heimabæ sínum en lenti síðan í útistöðum við ýmsa fyrirmenn bæjarins vegna þess að vatnið var mengað. Jón Hjaltalín var líklega stundum á svipuðum nótum og Tómas Stokkmann. Af skrifum hans sem eru mikil að vöxtum má sjá hvaða aðferðum hann beitti við sjúklinga og hugmyndir hans um sjúkdóma. Lækningakver hans ber keim af því sem þá var vinsælast í Evrópu og hann hafði kynnt sér sérstaklega en það voru vatnslækningar. Jón taldi að hægt væri að lækna flesta sjúkdóma með “eintómu vatni” og þar á meðal þá sem hann þekkti hvað best en það voru geðveiki og holdsveiki. Hann segir til dæmis um þá sem eru óðir að “eitthvert hið besta meðal við æði er að baða sjúkling jafnaðarlega í köldu vatni og hætta eigi fyrr en honum er orðið mjög kalt í hvert sinn. Líka er einkar gott að leggja kalda bakstra á höfuð honum og láta hann við og við fara í volg fótaböð”. (Þessar aðferðir voru raunar enn viðhafðar áratugum síðar á Kleppi.) Vitleysu (Dementria) var líka hægt að lækna með vatni vegna þess að “sjúkdómur þessi er oftast nær komin af meini í heilanum og mænukerfinu og þess vegna eru köld böð og einkanlega steypiböð og fossböð þeim einkar holl”.
Jón notaði einnig ölkelduvatn til lækninga eins og Konrad Maurer segir frá og í ævisögu Matthíasar Jochumssonar, Sögukaflar af sjálfum mér, er eftirfarandi frásögn. “Eitt sumar meðan ég bjó í Reykjavík hafði hún (þ.e. Ástríður dóttir hans) legið í barnsfararsótt. Tók ég hana þá suður til mín og kom vinur minn dr. Hjaltalín henni í það sinn til heilsu meðal annars með því að láta hana daglega, vikum saman, drekka ölkelduvatn blandað víni.” Fjölmörg önnur dæmi eru um að fólk þakki heilsu sína ölkelduvatni og lagði á sig langt ferðalag til að fá slíkt vatn.
Olkelda-37Í Konungsskuggsjá er sagt að ekki sé hægt að reisa hús yfir ölkelduna og vatnið missi bragð og kraft ef það er flutt burtu. Það eru því ákveðin álög á staðnum og vatninu sem mönnum ber að virða svo hægt sé að nýta sér kraftinn. Það sama kemur fram í síðari frásögnum enda eru öll heilsuhæli reist við uppspretturnar og hvers vegna ekki gera það sama hérlendis. Það er ekki einungis hveravatnið, hvort heldur það er í Bláa lóninu eða í Hveragerði, og blávatnið úr Gvendarbrunnum sem er heilnæmt heldur einnig ölkelduvatnið. Milljónir manna um allan heim sækja í heilsulindir ölkelduvatnsins vegna þess að það telur sig fá bót meina sinna þar. Hinn frægi Hoffmann sem skrifaði lærða doðranta um ölkelduvatn á 18. öld sagði meðal annars: “Vissulega játa ég það sjálfur með óbrigðulli sannfæringu að ég vildi ekki vera læknir ef ég þekkti ekki dyggðir vatnanna og þá sérstaklega ölkelduvatnsins.” Þótt það kunni að reynast erfitt að sanna hollustu ölkelduvatns með nútímavísindum þá er næsta víst að vatnið skaðar engan. Bólu-Hjálmar taldi sig hafa fengið bót meina sinna um tíma af ölkelduvatni en hann lagði það á sig að ganga úr Skagafirðinum út á Snæfellsnes til að drekka af heilsulindunum.
Íslenska ölkelduvatnið er auðlind sem við eigum að nýta eins og við nýtum annað vatn. Það vatn sem við getum nú keypt í flöskum úti í búð er ágætt til síns brúks en ekkert kemur í staðinn fyrir “gjöf frá náttúrunni” eins og Konrad Maurer benti á.
“Sumar ölkeldur bafa í sjer brennisteinssúrt járn, og eru þær sterkari og áhrifameiri en þær, sem að eins hafa í sjer hið kolasúra járnið. Úr þeim verður að drekka með varkárni, því að drekki menn of mikið af slíku ölkelduvatni í einu, er hætt við, að það valdi innantökum, en að öðru leyti eru þær mjög kröptugar. Í Henglafjöllum eru margar ölkeldur; þær eru ljúffengar, en eigi mjðg sterkar; flestar þeirra eru heitari en ölkeldurnar fyrir vestan. Ölkeldurnar á Ölkelduhálsi, suðaustanvert við Henglafjöll, hafa í sjer talsvert kolasúrt natron og kali, og mundu því einkar góðar gegn magoaleysisgigt, enda hef jeg heldur sjeð góð áhrif af því vatni gegn veiklun í mænukerfinu.”
Kaldavermsl-22Í Þrengslum í Miðdal vestan megin við ána er stór kalksteinshver undir bröttum klettavegg, fast við ána. Hverinn myndar stóran kalksteinsstall og eru aðaluppspretturnar ofan á stallinum. Vatn úr mörgum smáuppsprettum koma hinsvegar fram undan stallinum og í mölinni til beggja handa, m.a ofan í ánni. Heitasta uppsprettan ofan á stallinum kemur upp í djúpri gjótu eða opi fast við klettinn. Vatnið var tært og hitastig þess var 91°C. Framar á stallinum var önnur talsvert kaldari uppspretta (39°C). Þar virtist vatn koma 72 upp um nokkur smáaugu innan um smásteina og grjót húðað talsverðum kalksteinsútfellingum. Grjótið hefur sennilega hrunið niður úr klettinum og mátti sjá nýhrunið grjót ofan á stallinum. Kalksteinsstallurinn er nokkuð farinn að láta á sjá, orðinn grár og farinn að molna og plöntur hafa tekið sér bólfestu í hliðum hans. Ástæðan er greinilega sú að heitt vatn seytlar ekki lengur fram af honum og nær ekki að viðhalda útfellingunum. Ofan á honum eru hinsvegar nýlegar útfellingar þar sem heitt hveravatnið leikur um. Grænar örveruskánir mátti sjá á klettunum ofan við heitara augað ásamt rauðbrúnum útfellingum. Talsverður grænn þörungavöxtur var í volgum eða köldum pollum á stallinum. Ljósmosagrænar og bleikar örveruslikjur var einnig að sjá á kalksteinsútfellingunum þar sem vatn seytlaði ekki reglulega en þar var hitastigið einungis á bilinu 4-17°C.
Ölfusvatnslaugar eru austan undir Hengli, þyrping hvera og kalklauga. Hverirnir eru í brekkunni ofan við laugarnar, aðallega gufuhverir. Töluverður brennisteinn er í þeim. Laugarnar eru á dálitlum bala (voru fyrrum nefndar Hagavíkurlaugar, en eftir landuppskipti færðust þær inn í Ölfusvatnsland). Þar hafa fyrrum verið goshverir. Gospípa þess stærsta er 1,5 m á vídd og í henni smáólga af loftbólum og lítið rennsli af um 70°C heitu vatni. Hrúðurbunga, 50×50 m að stærð, er umhverfis. Hún er úr kalkhrúðri. Hverir og laugar austan við Hengil frá austanverðum Innstadal inn að Ölfusvatnslaugum eru með kolsýruríku vatni og ölkeldur koma fyrir. Koldíoxíð er kvikugas sem einkum ber á í háhitakerfum þegar innskotsmassi, hér sennilega gömul kvikuþró, í rótum þeirra storknar.

Heimild m.a.:
-Laugardaginn 10. febrúar, 2001 – Menningarblað/Lesbók eftir Ólaf Ísberg, sagnfræðing.
-Sæmundur fróði, 1. árg. 1874, bls. 188.
-Mat á umhverfisáhrifum jarðvarmavirkjana í Hverahlíð og við Ölkelduháls, Athugun á lífríki hvera – Unnið fyrir Orkuveitu Reykjavíkur nóvember 2006, Sólveig K. Pétursdóttir, Tryggvi Þórðarson, Steinunn Magnúsdóttir, Guðmundur Óli Hreggviðsson.
-isor.is

Ölfusvatnsölkelda

Ölfusvatnsölkelda.