Orrustuhóll – rétt
Orrustuhóll er í Orrustuhólshrauni sunnan við Litla-Skarðsmýrarfjall. Í lýsingu frá árinu 1703 segir að „fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orrustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.“ Önnur lýsing segir að „austan undir hrauninu er Orrustuhóll. Gömul sögn kveður á um, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. Engin mannvirki sjást þar nú.“
Kolbeinn Guðmundsson telur sig hafa fundið þessar gömlu réttir eftir lýsingunni frá 1703. Hann segir „réttirnar hafa verið fast við hólinn suðvestanverðan. Hefir þar verið að miklu leyti sjálfgert aðhald. Hóllinn annars vegar og hraunbrúnin hins vegar. Hvort tveggja snarbratt, svo að lítið hefir þurft að hlaða. Réttunum hefir verið skipt í tvennt. Vestari hlutinn talsvert minni. Dilkar hafa ekki verið eins og nú tíðkast í réttum. Aðaldyr snúa í austur, og hafa þær verið um 2 faðmar að vídd.“
Suðvestan við Orrustuhól er alldjúp gjá með bröttum veggjum sem liggur í sveig frá austri til suðvesturs. Hún er um 15-20 m breið og alls um 70 m löng og hækkar botninn mjög til vesturs og dregst gjáin þar saman. Austurendinn opnast út á gróið hraunið sunnan og austan við hólinn en að vestan er yngra og úfnara hraun sem gjáin er í. Þar sem gjárbotninn verður ósléttur vestantil og fer að hækka mikið hefur verið hlaðið steinum fyrir og eru þeir mjög mosagrónir. Tveir stórir steinar í botninum gætu verið komnir þangað af sjálfum sér en sunnan við þá er greinileg hleðsla, um 1,5 m löng og um 3 umför. Engin önnur mannvirki eru greinileg á þessum stað en gjáin hefur verið mjög gott aðhald af náttúrunnar hendi og hefur þó þurft að hlaða fyrir austurendann en þar sjást engar hleðslur. Gjáin er gróin í botnin, en hrunið hefur ofan í hana, nú síðast allmikið bjarg í jarðskjálfta í júní 1998.
Í annarri lýsingu segir að „eftir bardagann í Orrusturhólsréttum áttu Ölfussingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfussingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali]. Í seinni tíma skrifum þetta ár segir að „þegar riðið var fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.“
Smjörþýfi er þúfótt og grösugt sléttlendi. Hengladalsáin hefur fyrrum runnið um lægri hraunbreiðu að austanverðu eftir að Orrustuhólshraunið rann og hindraði framgang árinnar. Áirn virðist hafa runnið vítt og breitt um hraunið uns hún hafði fyllt það og sléttað sæmilega vel af framburði sínum úr grenndarhlíðunum Skarðsmýrarfjalla. Ofar og austar er Ölkelduhálsrétt þeirra Grafningsmanna.
Eftir árummyndunina standa hrauneyjar og er ein þeirra, norðarlega í þýfinu, sýnum stærst. Horfir „op“ hennar að Henglinum. Minni „eyjar“ eru sunnar og austar. Við leit þversum í Smjörþýfi, en um hana liggur forn leið, sem enn markar fyrir, fannst ekki fyrrnefnd rétt. Ólíklegt má telja að sýnilegir hlaðnir veggir fyrir u.þ.b. 130 árum hafi horfið með öllu. Telja má nokkuð líklegt að áin hafi á þeim tíma haldið sig nokkurn veginn á þeim stað, sem hún rennur nú, næst hrauninu, enda verið stýrt af mannavöldum um allnokkurt skeið. Sjá má svonefnd „ísstopp“ á tveimur stöðum í ánn, hið efra mun stærra, enda gert með nútímalegri tækni. Fyrirbæri þetta eru stíflur í ánni. Var hún „leidd“ úr farvegi sínum að hraunkanti Orrustuhólshrauns þar sem hún hvarf undir það. Kom vatnið síðan upp í ræktarlandinu austur undir Kömbunum, enda var tilgangurinn með framkvæmdinni að auka grasvöxt þar. Þurfti að endurtaka stíflugerðina árlega, enda ruddi áin sig jafnan að vorlagi.
Ekki er óraunhæft að ætla að menn hafi álitið framangreinda hrauneyju, en reiðgatan leggur framhjá henni, hafa verið nefnda fjárrétt, enda virðist hún vera slík úr fjarlægð. Ef grannt er skoðað er ekki að sjá að grjótið hafi verið hreygt þar af mannavöldum, þó gæti þar virst að óathuguðu máli bæði rétt og dilkar.
Sumir töldu að Hengladalaáin hafi, að hluta til eftir þessar aðfarir, komið upp í Kaldárbotnum og birst sem Kaldá stutta vegarlengd, áður en hún hvarf undir hraunið að nýju.
Aðhaldið, eða réttin við Orrustuhól, var skoðað. Svo skemmtilega vill til að austan nefndrar hrauntraðar þar sem réttin á að hafa verið, er upplýsingaskilti, vegfarendum til fróðleiks og ekki síst til staðfestingar um að þeir séu á réttum stað. Á því stendur m.a.:
„Gömul sögn segir að hér við Orrustuhól hafi verið gömul sundurdráttarrétt. Nafnið á að hafa verið dregið að því að eitt sinn hafi slegið í brýnu milli réttarmanna Ölfussunga og Suðurnesjamanna, og hafi þeir barist á hólnum. Hálfdán Jónsson greinir frá þessu í lýsingu Ölfusshrepps 1703.“
Víða á landinu eru til sagnir eins og þessi um deildu milli héraðsmanna sem áttu eða samliggjandi afréttarlönd. Þó að hægt sé að draga afréttarmörk með afgerandi hætti á korti hafa slíkar línur jaft litla þýðingu þegar kom að smölun á haustin og þurftu nágrannabyggðir að hafa samstarf um göngur og réttir svo að allt fé kæmist til skila. Slíkt samstarf var yfirleitt í föstum skorðum, en gat vitanlega leitt til deilna. Til dæmis var fjallmönnum mikið kappsmál að koma með sem flest fé til rétta. Kom þá fyrir að skærur yrðu milli leitarflokka þegar farið var út fyrir leitarmörkin til að ná í fé til að bæta í safnið.
Frábært veður.