Óseyri – örnefni
Gísli Sigurðsson skráði eftirfarandi um Óseyri við Hafnarfjörð, sem var einn þeirra mörgu dæmigerðu bæja fjarðarins frá því um aldamótin 1900, sem nú sést hvorki tangur né tetur af. Hafnfirðingar hafa, því miður, verið helst til of latir við að varðveita minjar um uppruna sinn…
Gísli Sigurðsson.
„Óseyri var upphaflega þurrabúð. En bráðlega var ræktað út Óseyrartún, rúmlega tveggja kýrgrasvöllur. Eftir að Bjarni Sívertsen eignaðist báðar jarðirnar Hvaleyri og Ófriðarstaði var þurrabúð þessari veitt til túnsins sinn hluturinn úr hvorri jörð. Túnið var umgirt Óseyrartúngörðum; Suðurtúngarði og Vesturtúngarði. En með fram Ósnum var Sjávargarðurinn allt austur fyrir Óseyrarbæ sem stóð í austurhluta túnsins en austan hans var Óseyrarhóll. Óseyrarhúsið var reist á gamla bæjarstæðinu. Það var byggt úr viði St. James-Barkinum [Jamestown] sem strandaði suður í Höfnum.
Fyrsta nafn á þessu býli var Ósmynni og einnig var það kallað Timburmannsbær eða Timburmannshús. Munnmæli eru um býli þetta: Óseyri á tún sitt og beit utan túns fyrir hest í hafti og kýr í grind“. Þar sem kotið stoð upphaflega var lágur hóll eða bali, nefndist Kothóll.
Hafnarfjörður 1900 – Óseyri og Hvaleyrarlón fjær og Flensborg fremst.
Heiman frá bæ lá Óseyrartraðir út í Óseyrarhliðið á Suðurtúngarðinum. Þaðan lá svo Óseyrargatan suður um Óseyrarbankann eða Bankann en þar var vetrarstaða fiskiskipa og viðgerðarstöð lengi. Frá bænum lá Kotgatan að Óseyrarkoti sem stóð í Vesturtúninu miðju. Í kotinu bjuggu þau Skál-Rósa og Gísli maður hennar fram til 1855. Eftir það fór kotið í eyði og byggðist ekki aftur upp. Sjávargatan lá heiman frá bæ norður í Sjávarhliðið við Óseyrarvörina. Ofan vararinnar var Skiptivöllurinn og Óseyrarbúðin og vestan við vörina Óseyrarhrófið.
Austurvörin var austan í Hólnum en þar voru skipin sett upp þegar lágsjávað var eða þegar straumur var harður út úr Ósnum.
Óseyri – örnefni skv. skráningu Gísla Sigurðssonar.
Óseyrarósinn eða Ósinn var oft mjög straumþungur, sérstaklega var straumurinn þungur út úr Ósnum. Í gamankvæði frá 1910 er ósinn nefndur Flensborgarós. Óseyrartjörnin liggur hér með fram túninu að norðan, allt suður í Hvaleyrartjarnarós gegnt Skiphól. Vestan túnsins var í eina tíð Óseyrarreitur, fiskþurrkunarreitur, en þar vestan var Óseyrarmýri og þar var Óseyrarlindin en þangað var vatnið sótt til neyslu og Lindargata frá lindinni og heim til bæjar. Í Suðurtúngarði var upphaflega fjárhús. Seinna var því breytt og þá reis hér upp Óseyrarkotið, Nýja- eða Bærinn eins og kotið var einnig kallað en þá var húsið komið á Óseyri. Sunnan túngarðsins lá svo Alfaraleiðin.“
Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Óseyri – Gísli Sigurðsson.
Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.