Raufarhólshellir I

Raufarhólshellir
Ætlunin var að fara inn í Raufarhólshelli í Þrengslum, en alls mun hellirinn vera um 1360 metrar að lengd, en meginlínan er um 900 m og dýptin um 32 m. Sú saga hefur fylgt Raufarhólshelli að í honum hafi verið komið krukku með jarðneskum leifum síðustu manna úr útdauðum indíánaþjóðflokki við Magellansund.
RaufarhólshellirOpið inn í hellinn er bæði aðgengilegt og stórt. Eftir að inn er komið má sjá hvar loftið hefur fallið á nokkrum stöðum á leiðinni inn. Þetta er einn fjölfarnasti hraunhellir á Íslandi. Auk þess er hann lengstur hraunhellanna utan Hallmundarhrauns. Hellirinn sveigir undir þjóðveginn til suðvesturs og upp í rennslisstefnuna. Þar sem vegurinn liggur yfir Raufarhólshelli er hætta á ferðum. Þakið yfir hellinum, sem í upphafi var um 10 m á þykkt, er nú aðeins um 3-4 metrar. Búið er að hreinsa úr hellinum allar fagrar hraunmyndanir, dropsteina og hraunstrá og nú má sjá þar leifar af kyndlum, kertavax, filmuhylki, niðursuðudósir, plastpokar og fleira er nútímafólk gæti hugsanlega haft gaman að því að skoða við aðstæður, sem þarna eru.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Innst í hellinum er fallegur hraunfoss, eða hann hefur a.m.k. einhvern tímann verið fallegur. Fyrir ofan fossinn má komast inn lítil þröng göng og skríða nokkra metra áfram inn í skemmtilega kúlu þar sem nokkrir menn komast fyrir. Gamlar sagnir greina frá dropsteinum í hellinum. Margir þeirra voru um hálfur meter á hæð. Enginn dropsteinn er nú eftir í Raufarhólshelli og lýsir það vel umgegni um hella, sem aðgengilegir eru hverjum og einum.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Raufarhólshellir er mjög hruninn og því erfiður yfirferðar nema innst þar sem lítið hefur hrunið úr hellisloftinu. Ís er einnig fremst í hellinum og því oft hált á grjótinu og erfitt að komast þar um. Þá er ekki síst nauðsynlegt að hafa góða fyrirhyggju á bæði ljósabúnaði, sem nota á, og þeim er hægt er grípa til ef hann bregst því myrkrið er mikið um langan veg.Þessi ferð var hins vegar farin til að kanna hvort framangreind sögn gæti átt við rök að styðjast. Sagan segir að þegar Magellan sigldi um heimsins höf og í hringferð um jarðskorpuna, hafi hann komið sem nú er Magellansund. Þá bjó þar þjóðflokkur indíána er var að deyja út. Sótt geisaði og voru einungis þrír af ættflokknum eftir. Var svo um mælt og handsalað að jarðneskar leifar índíánanna yrðu settar í krukku að þeim brenndum og henni komið fyrir á friðsælasta stað, sem til væri á jörðinni. Indíánarnir dóu og staðið var við samningana.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Ösku þeirra var komið fyrir í krukku og einhverjir tóku að sér að efna loforðið og fylgja efndunum eftir. Þeir tóku sig upp og fóru með krukkuna til friðsællar eyju í norðurhöfum. Þar var krukkunni komið fyrir í stórum og löngum helli eftir hátíðlega athöfn. Áletrun var skilin eftir því til vitnis. Nafni eyjarinnar var haldið leyndri af skiljanlegum ástæðum.
Þegar komið er u.þ.b. 300 metra inn í Raufarhólshelli er skilti á veggnum. Erfitt er að koma auga á það á bak við stóran stein eftir bugðu á göngunum. Á þessu skilti er sagt frá atvikinu…. Krukkan stendur þar hjá ef vel er að gáð. Þetta er eina indíánaathöfnin af þessum toga hér á landi sem vitað er um.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson 1990.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.