Björn Hróarsson hellafræðingur, stofnandi Hellarannsóknafélags Íslands og FERLIRshúfuhafi fékk árið 2007 erlend rannsóknaverðlaun fyrir verk sitt, Íslenskir hellar.
Enska hellafélagið The Shepton Mallet Caving Club velur og verðlaunar árlega mesta stórvirki félagsmanna í hellarannsóknum. Verðlaunin eru kennd við hellarannsóknarmanninn Bryan Ellis en hann teiknaði einmitt kortið af Raufarhólshelli árið 1970. Það kort er í bókinni Íslenskir hellar.
Verðlaunin eru bæði peningaverðlaun og farandstytta af hellakönnuði. Fyrir nokkrum árum fékk Hayley Clark þessi verðlaun fyrir kort af hellinum Flóka sem birt er í bókinni Íslenskir hellar ásamt upplýsingum um verðlaunin. Á aðalfundi félagsins nýverið fékk Björn Hróarsson þessi verðlaun fyrir bókina Íslenskir hellar. Er það í fyrsta sinn sem einstaklingur sem ekki er Breti fær þessi verðlaun. Á heiðursskjali sem verðlaunum fylgdu segir: “The SMCC Bryan Ellis Award – 2007 – Presented to Björn Hróarsson for the outstanding Íslenskir hellar”.
Á verðlaunaskjalinu er einnig ljósmynd af verðlaunastyttunni.
Björn er vel að verðlaununum kominn, enda bók hans bæði stórvirki á íslenskan mælikvarða og einstök í sinni röð í veraldarsögunni.