Reykjanesskagi – Dyngjur

Hraun

Dyngjur myndast á löngum tíma í þunnfljótandi flæðigosum þar sem kvikan streymir langar leiðir. Vísindamenn segja að stöðugt flæði þunnrar kviku af miklu dýpi, eins og í gosinu í Geldingadölum, sé sterk vísbending um að þar sé dyngja í mótun. Langflestar dyngjur á Íslandi mynduðust fyrir um það bil tíu þúsund árum. Eldvirknin getur staðið yfir í mörg ár, jafnvel áratugi.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja.

Íslenskar dyngjur eru á rekbeltum um allt land. Flestar eru ekki meira en þrír kílómetrar í þvermál og um 100 metra háar. Þekktustu dyngjurnar eru líklega Skjaldbreiður og Trölladyngja, en fleiri eru til dæmis Þráinsskjöldur, Sandfellshæð og Hrútagjárdyngja á Reykjanesskaganum.

Dyngjur eru sérstök gerð af eldstöðvum sem í fyrstu atrennu eru skilgreindar með útliti sínu – hringlaga skildir með gíg á toppi. Frægust þeirra er Skjaldbreiður, „Ógna skjöldur bungubreiður / ber með sóma réttnefnið“ með orðum Jónasar Hallgrímssonar í kvæðinu Skjaldbreiður.

Dyngjur

Dyngjur á Reykjanesskaga frá síðustu 14.000 árum.

Myndun þeirra hér á landi hefur verið tengd ísaldarlokunum, því þær hafa flestar eða allar myndast fyrir meira en 6000 árum, og langflestar fyrir 8000-12000 árum. Því er sú hugmynd uppi að þær tengist risi landsins eftir að ísaldarjökullinn hvarf skyndilega, og hafi þrýstiléttir valdið mikilli bráðnun í jarðmöttlinum undir Íslandi. Rannsóknir benda til þess að fyrstu árþúsundin eftir að ísaldarjökullinn hvarf hafi eldvirkni, í rúmmáli á tímaeiningu talið, verið yfir 30 sinnum meiri en nú, og þar eiga dyngjurnar stærstan þátt.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Dyngjur eru bæði smáar og stórar – hinar smæstu eru 1/100 rúmkílómetri, til dæmis er Háleyjarbunga við Reykjanes 0,013 km3, en hinar stærstu eins og Skjaldbreiður og Trölladyngja kunna að vera allt að 50 km3 að rúmmáli. Sé aðeins miðað við rúmmál þessara dyngja ofan við flatlendið í kring, er það 15-20 km3, en þyngdarmælingar benda til þess að þykk hraun liggi undir þeim. Jafnframt má líta svo á að sumir stapar (til dæmis Herðubreið og Hlöðufell) séu í rauninni dyngjur sem urðu til í gosum undir bráðnandi jökli við lok ísaldar. Eiríksjökull er stærstur þeirra, 50 km3.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Talið er að stóru dyngjurnar, að minnsta kosti, hafi myndast í langvarandi, hægfara hraungosi úr einum gíg, því ella hefði hraunið runnið langar leiðir frá eldstöðinni eins og til dæmis varð í sprungugosum sem mynduðu Þjórsárhraun fyrir 8700 árum (25 km3), Eldgjárhraun um 934 (20 km3) og Skaftáreldahraun 1783 (15 km3). Þorleifur Einarsson (1968) lýsir dyngjum svo: „Flatir reglulegir hraunskildir úr þunnum hraunlögum sem myndast við flæðigos er þunnfljótandi hraunkvika streymir upp um kringlótt gosop mánuðum eða árum saman.“ Hliðarhalli dyngja er minni en 8° og oft er halli ekki meiri en 1-5°.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Dyngjuhraun eru ætíð þunn og beltuð helluhraun. Nær ekkert hraunrennsli er á yfirborði, heldur rennur kvikan í göngum oft langar leiðir og vellur síðan upp hér og þar. Tæmist þessi göng liggja eftir hraunhellar, sumir mjög langir. Slíkir hraunhellar eru allalgengir í dyngjuhraunum.
Eftir að gígur Surtseyjar lokaðist fyrir aðgangi sjávar og hraun tók að renna hlóðst upp „dyngja“ ofan á túffsökklinum. Hins vegar má um það deila hvort Surtseyjargosið hafi verið raunverulegt dyngjugos, þótt langt væri, því það sker sig frá öllum öðrum dyngjum í efnasamsetningu bergsins — alkalískt en ekki lágalkalískt — og var auk þess ekki tengt landrisi. Hvort svo hafi verið, kann að vera deila um keisarans skegg, en kemur þó málinu við þegar því er spáð að við Upptyppinga austan við Öskju kunni að vera von á dyngjugosi í framtíðinni. Þar væri efnasamsetningin að vísu „rétt“ en tengsl við landris ekki.

Atlantshafshryggur

Reykjanesgosbeltið og Mið-Atlantshafshryggurinn.

Sé dyngjugos hins vegar skilgreint sem langvarandi basalt-hraungos á kringlóttum gíg, gætu komandi kynslóðir hugsanlega orðið vitni að slíku gosi, enda verða frægustu dyngjugosin á Hawaii, óháð áhrifum ísaldar. Vegna þess hve miklu stærri dyngjur Hawaii og fleiri Kyrrahafseyja eru en hinar íslensku, gera sumir fræðimenn mun á þeim — nefna hinar íslensku „lava shields“ (hraunskildi) en hinar stóru „shield volcanoes“. Í báðum tilvikum vísar orðið skjöldur (e. shield) til lögunar þessara eldstöðva eingöngu. Raunar má geta þess í lokin að nafngiftin dyngja fyrir hraunskildina byggist sennilega á misskilningi: Á ferð sinni um Ódáðahraun 1898 mun Þorvaldur Thoroddsen hafa talið Trölladyngjur vera nafn á eldstöð þeirri sem síðan nefnist Trölladyngja, en átti hins vegar við fjöll þau sem nú nefnast Dyngjufjöll.

Geldingadalir

Geldingadalir í Fagradalsfjalli – eldgos.

Dyngjugos á Reykjanesskaga byrja sennilega í flestum tilvikum sem sprungugos. Vísbendingar um slíkt má sjá í Fagradalsfjallskerfinu og víðar. Virknin færist síðan smám saman í einn gíg og þróast í sígos sem stendur lengi, jafnvel nokkur ár í stærstu dyngjunum. Hraunframleiðsla er talin lítil eða kringum fimm rúmmetrar á sekúndu. Líklegt er að lengri tími gefist til að bregðast við ógn af þeirra völdum en sprungugosa.

Hegðun og framgangur dyngjugosa eru allvel þekkt. Í aðalgígnum myndast oftast hrauntjörn, full að börmum, sem síðan tæmist út í rásir sem liggja frá honum (hellakerfi) þegar streymi að neðan hættir, eins og til dæmis í Sandfellshæð. Dæmi eru um að hraun stígi aftur upp og fylli gíginn. Ef hraunrásirnar eru þá stíflaðar, flæðir yfir gígbarmana (Þráinsskjöldur), en líka getur kvikan troðist sem innskot undir gígsvæðið og belgt það upp (Hrútagjá).

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Gee og fleiri töldu mikið hraunmagn og frumstætt berg hafa fylgt röskun á þyngdarjafnvægi sem varð við hraða bráðnun jökla í lok ísaldar. Hraunkvika sem þá leitaði upp úr möttli, gat náð til yfirborðs án þess að hægja á sér í skorpunni og breytast að ráði við kvikublöndun, uppbræðslu eða hlutkristöllun. Einkum gæti þetta átt við pikríthraunin og stærstu dyngjurnar, Sandfellshæð og Þráinsskjöld.
Pikríthraunin eða pikrítdyngjurnar eru eldri en ólivínbasaltdyngjurnar, þar sem afstaðan til þeirra sést. Elstu pikrítdyngjurnar eru samkvæmt því um og yfir 14.000 ára. Þær eru litlar, mega kallast ördyngjur, nema þrjár eða fjórar smádyngjur: Háleyjabunga, Lágafell, Vatnsheiði og Dimmadalshæð. Efnismagn í þeim er líklega innan við 0,1 rúmkílómetri. Pikríthraun eru ekki þekkt í Krýsuvíkurkerfinu.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

Næst eftir pikrítgosin fylgdu tvö stór dyngjugos. Þá hlóðust Sandfellshæð og Þráinsskjöldur upp, auk nafnlausrar dyngju norðan við Hraunsels-Vatnsfell. Aðrar níu dyngjur dreifast á allan eftirjökulstímann (sjá töflu). Tvær af þeim eru af óvissum aldri, Selvogsheiði og Heiðin há, en eru þó meira en 7500 ára. Þær eru báðar í flokki stórdyngna, meira en einn rúmkílómetri. Næstu sjö dreifast á nokkur þúsund ára tímabil. Sú elsta þeirra er um 7000 ára, en sú yngsta, Stóribolli, líklega um 2500 ára. Auk þeirra dyngna sem hér hafa verið taldar upp og sýndar eru í töflunni, má nefna að Breiðdalshraun, sem líklega er frá tíundu öld, ber einkenni dyngju, en það er beltótt helluhraun og ólivínríkt, að minnsta kosti sú álman sem liggur frá gígnum norður í Breiðdal.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.

Allar dyngjurnar nema þrjár þær elstu og Hrútagjárdyngjan eru í Brennisteinsfjallakerfi. Ekki verður séð hvort dyngjugosin fylgi gosskeiðum sprunguhraunanna í tíma, til þess vantar fleiri og nákvæmari aldursgreiningar. Flestar yngri dyngjurnar eru tímasettar með hjálp öskulaga.

Ein dyngjan er ótalin hér að ofan, en það er nafnlaus slík á milli Stóra-Lambafells og Kleifarvatns í Krýsuvík. Sjá má barma hennar austan við veginn gegnt Hádegishnúk. Gígurinn hefur nú fyllst af sandi og leir.

Heimildir:
-https://nyr.ruv.is/frettir/innlent/2021-03-23-gaeti-ordid-fyrsta-nyja-dyngjan-a-islandi-i-3000-ar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=56348
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81329
-https://jokull.jorfi.is/articles/jokull1986.36/jokull1986.36.011.pdf

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ISOR af Reykjanesskaga.