Í Lesbók Mbl. þann 31. janúar 1954 fjallaði Árni Óla um “Lífið fyrir aldamótin 1900“. Um var að ræða frásögn sem hann hafði eftir Stefáni Filippussyni um fyrstu langferð hans, 18 ára gamall, frá Fljótshverfi vestur að Höfnum á Reykjanesi.
“Þetta gerðist árið 1888. Þá hafði foreldrum mínum enn eigi tekizt að koma sér upp nægilegum bústofni eftir felliveturinn 1882. Var oft þröngt í búi á þessum árum, því að börnin voru mörg og sjaldnast færra en 12 manns í heimili. Það var því afráðið að senda mig suður í Hafnir til Sigurðar Benediktssonar í Merkinesi, sem var hálfbróðir móður minnar. Skyldi ég vera hjá honum á vertíðinni sem matvinnungur…
Seinni hluta dags náðum við tíu saman Þorlákshöfn í grenjandi stórhríð og treystumst ekki að fara lengra. Okkur var vísað til gistingar í sjóbúð og var þar köld aðkoma, jafnmikið frost inni sem úti og marhálmurinn í bælunum gaddaður. Við spurðum fólkið hvort við gætum ekki fengið eitthvað heitt að láta í okkur, en því var dauflega tekið….
Snemma var lagt á stað næsta morgun. Þegar upp á Selvogsheiðina kom, var þar talsverð ófærð. Færðin fór að skána þegar vestur fyrir Herdísarvík kom. Þar úti í hrauninu komm við að dys, og var svo sem sjálfsagt að hver maður kastaði steini í hana. Mér þótti þetta ófagur leikur, en varð þó að gera sem hinir. Seinna frétti ég að þetta ætti að vera dys þeirra Herdísar og Krýs, sem fyrstar bjuggu á bæum þeim, sem við þær eru kenndir, en spurngu þarna af geðofsa út af beit. Skammt þaðan var mér sagt að héti Mjöltunnuklif. Að Krýsuvík komum við um kvöldið og gistum hjá Árna Gíslasyni sýslumanni, sem nýlega var fluttur þangað frá Kirkjubæjarklaustri. Þá var nýkominn til hans í fóstur frændi minn, Stefán Stefánsson, sem síðar varð alkunnur ferðamaður og nú er sagt að haldi vörð um Kleifarvatn…
Nú var haldið á stað til Grindavíkur. Ekkert rennandi vatn er á þeirri leið og tók marga að þyrsta illilega. En á melhól nokkrum um miðja vega stendur stór steinn, sem Drykkjarsteinn er nefndur. Honum fylgir sú blessun, að aldrei þrýtur vatn í holi, sem í hann er og hefir mörgum ferðamanninum komið sér vel.
Seinna hluta dags komum við til Þorkötlustaðahverfis í Grindavík. Þar voru allir félagr mínir ráðnir í skiprúm, svo ég varð nú eins og staki hrafninn á haustþingi. En úr þessu rættist betur en á horfðist, því að Jón Benónýsson bauðst til að fylgja mér út í Hafnir eftir tvo daga.
Á leiðinni komum við að einhverju koti í Staðarhverfinu og var okkur boðið kaffi, Þarna áttu heima karl og kerling og virtist mér þau ánægð með hlutskipti sitt í lífinu, en á annað eins heimili hefi ég aldrei komið á ævi minni. Þarna var baðstofugreni með moldargólfi. Innst við stafn hafði verið lagður timburfleki á gólfið og þar hamaðist karl á þófi, svo að svitinn bogaði af honum. Voðin hafði verið undin upp úr stækri keitu, svo hún skyldi þæfast betur, og á ég engin orð til að lýsa þeim þef, sem þarna var inni, því ofan í keituþefinn bættist, að reyk lagði inn göngin framan úr eldhúsinu, þar sem kerling var að elda við þang. Mér varð þegar óglatt er ég kom inn, en ekki vildi ég þó fara út. Svo kom kerling með kaffið, og tók þá ekki betar við, því að það var gert úr brimsöltum sjó. Sá ókostur var á brunnum í Grindavík að sjór flæddi inn í þá með flóði og varð að sæta sjávarföllum þegar vatn var sótt. Um leið og ég bragðaði á kaffinu, ætlaði að líða yfir mig. Þó komst ég einhvern veginn út á hlað og þar kom spýan upp úr mér og engdist ég sundur og saman. Aumingja konan kom þá út og skildi ekkert í hvað að mér gengi og var víst hrædd um að ég mundi enda ævi mína þarna við bæardyr hennar.
Smátt og smátt hresstist ég af útiloftinu, en ekki áræddi ég að fara inn aftur, því að ég þóttist vita að þá mundi líða yfir mig. Vildi ég því komast sem fyrst af stað.
Heldum við Jón nú út á Reykjanes. Þar vildi hann að ég hvíldi mig, því að enn var ég fárveikur, Þarna bjó þá Jón Gunnlaugsson, vitavörður, og tók okkur opnum örmum. Þar fengum við góðan mat og gott kaffi, og náði ég mér þá að mestu eftir áhrifin af keituþefnum og sjókaffinu.
Að Merkinesi náðum við svo um kvöldið til Sigurðar frænda. Þótti þá fótabragð mitt heldur krumfengið, því að ég var með skóvörpin um öklana, enda hafði ég ekki lagt upp í ferðina nema með eina leðurskó.”
Stefán lýsir síðan vist sinni að Merkinesi. Þar var m.a. Ingigerður Jónsdóttir, bróðurdóttir Ketils eldra í Kotvogi. Hún var matselja og harðdugleg. Vildi löngum slá í brýnu milli hennar og sjómannanna, þegar hver heimtaði sitt lúðustykki upp úr pottinum. Stefán var duglegur að afla eikar. Hann reri yfir að Ósabotnum og reif þar upp eik úr stórum skipskrokk, sem allir Hafnamenn sóttu í eldivið. Stundum varð hann að flytja eikina á hesti. Ef ekki náðist í eik varð að brenna þurrkuðum þönglum, en það var lélegt eldsneyti og gekk þá illa að koma suðunni upp á 12 fjórðunga potti. Oft varð Stafán að fara upp í heiði til þess að rífa lyng handa kúnni og kindunum. Kúnni eini var ætlað hey, en í harðindum vildi slæðast nokkuð af því í hesta og kindur, og varð því að rífa lyng líka handa kúnni. “Mér þótti þetta leið atvinna, enda var það sú mesta rányrkja, sem hugsast gat, að rífa lyngið þangað til svart flag var eftir. Það er ekki von að Reykjanesskagi sé gróðurríkur, þar sem lyngið hefur verið rifið öldum saman jafnskjótt og það reyndi að festa rætur og skapa gróðurmold.”
Stefán fór frá Merkinesi á lokadaginn og lagði land undir fót. “Ég gekk yfir túnin í Staðarhverfinu og þótti mér þar ljótt um að litast. Vetur gamli hafði haft gripageymsluna fyrir bændur. Þar voru grindhoruð hross og eitt fallið úr megurð eða sandsótt. Strigi var saumaður utan um töglin á hrossunum svo að fé skyldi ekki naga allt hár af stertunum á þeim vegna hungurs. Þar sá ég líka fé, sem klætt hafði veið í striga, því að það hefði etið ullina hvað af öðru.”
Á Þorkötlustöðum fékk Stefán fylgd þriggja karlmanna og sjóbúðar ráðskonu er ætluðu austur í Fljótshlíð. “Svo vorum við beðin fyrir 4 tryppi að reka þau upp á heiði. Þau voru svo horuð og lúsug að við gátum ekki látið þau bera pokana okkar og losuðum okkur því fljótt við þau.” Gruggugt vatn var í tveimur holum í Drykkjarsteini. “Þurrtæmdum þær og fengum þó ekki nóg. Ekkert gátum við talað saman fyrir þorsta, en þegar við komum til Krýsuvíkur fengum við sýrublöndu, – og mikill himnaríkisdrykkur var það. Síðan var haldið áfram austur í Herdísarvík. Þar ætluðum við að matast, en það var ekki hægt fyrir mývargi og enginnn maður heima, svo ekki komumst við í bæinn. Við héldum svo fyrir ofan vatn, til þess að losna við Vogsósana og komum að Stakkahlíð. Þar hvíldum við og átum. Þar lá á hlaðvarpanum tryppi svo horað að það gat ekki staðið á fótunum, en annað skjögraði þar í kring um það. Svo var haldið austur að Ölfusá í sama steikjandi hitanum uns farið var á ferju yfir frá Óseyrarnesi og haldið yfir að Eyrarbakka.” Þetta var ein dagleið.
Heimild:
-Lesbók Mbl, sunnudaginn 31. janúar 1954, Árni Óla, bls. 54 – 58.