Reykjanesviti – skilti II
Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Tvö þeirra eru um vitana, annars vegar á Valahnúk og hins vegar á Vatnsfelli. Um fyrrnefnda vitann segir:
„Fyrsti ljósvitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 8.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með koparhvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaðu á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.
Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar og speglar í vitanum fóru í gólfið. Næstu nætt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn.
Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum fram á brún. Því var ákveðið að reisa nýjan vita á Vatnsfelli og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908.
Grjótið hér til hægri eru leifar vitans.
Hleðslan til vinstri eru leifar geymsluhússins sem þjónaði vitanum.“