Reykjavík – P.E. Kristian Kålund
Í Wikipedia segir eftirfarandi um P.E. Kristian Kålund, en hann skrifaði m.a. „Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877„. Þar fjallar hann um helstu sögustaði Íslands. Einn þeirra er Reykjavík.
„Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.
Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna.
Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4. Kaalund fékk doktorsnafnbót 8. maí 1879 fyrir hluta þessa verks (kaflann um Norðlendingafjórðung).
Eftir að hann kom frá Íslandi, varð hann (1875) kennari við Metropolitanskólann í Kaupmannahöfn (aðjúnkt 1880), en lét af því starfi vorið 1883, þegar hann varð ritari Árnanefndar og bókavörður við Handritasafn Árna Magnússonar. Mikilvægasta verk hans þar, var heildarskrá um handritasafnið, sem kom út í tveimur bindum 1889–1894. Slíka skrá hafði sárlega vantað, og nokkrir gert atlögu að verkinu, m.a. Jón Sigurðsson forseti, en með verki Kaalunds varð safnið loks aðgengilegt fræðimönnum. Árið 1900 gaf hann út sambærilega skrá yfir forn íslensk og norsk handrit í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn og Háskólabókasafninu. Þar birti Kaalund ítarlega ritgerð um söfnun og varðveislu handritanna fornu.
Sem bókavörður við Árnasafn, og ritari í Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur (frá stofnun þess 1879) og í Fornritanefnd Fornfræðafélagsins (eftir Konráð Gíslason 1891), hafði Kaalund mikil áhrif á útgáfustarfsemi á sviði íslenskra fornrita, og gaf sjálfur út nokkur rit. Mikilvægust er vönduð útgáfa hans á Sturlunga sögu 1906–1911. Útgáfa hans á Palæografisk Atlas, með fjölda sýnishorna af dönskum, norskum og íslenskum handritum, hafði mikla þýðingu fyrir rannsóknir á þróun skriftar á Norðurlöndum á fyrri öldum.
Á síðustu árum sínum fékkst Kaalund einkum við sögu Árnasafns, og gaf út heimildir um líf og starf stofnandans, Árna Magnússonar. Hefur hann eflaust ætlað að setja kórónuna á það verk með ítarlegri ævisögu Árna, en hann dó frá því verki.
Í Íslandsför sinni lærði Kristian Kaalund að tala íslensku, og bar síðan hlýjan hug til þjóðarinnar. Fékk hann brátt áhuga á sögu Íslands á síðari öldum, sem kom honum að gagni þegar hann skrifaði æviágrip fjölda Íslendinga í Dansk biografisk leksikon, 1887–1905, og greinar um Ísland i Nordisk konversations-leksikon, 3. útg.
Þegar Kristian Kaalund varð sjötugur, 1914, gaf Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn út afmælisrit honum til heiðurs, með æviágripi hans eftir Finn Jónsson og greinum sex íslenskra fræðimanna. Afmælisrit til dr. Phil. Kr. Kålunds, bókavarðar við Safn Árna Magnússonar, 19. ágúst 1914, Kaupmannahöfn.
Kristian Kaalund var ógiftur og barnlaus. Við fráfall hans, 1919, arfleiddi hann Hið íslenska fræðafélag að öllum eigum sínum.
Hann varð félagi í Vísindafélaginu í Kristjaníu 1899, í Vísindafélaginu danska (Videnskabernes Selskab) 1900 og Sænska vísindafélaginu (Kungliga vitterhets-, historie- og antikvitets akademien) 1910. Hann varð riddari af Dannebrog 1907. Hið íslenska bókmenntafélag kaus hann heiðursfélaga 1897.
Kristian Kaalund ferðaðist um allt Ísland til þess að skoða og skrá þekkta sögustaði og sögusvið Íslendingasagna. Í bók sinni, Bidrag til en topografisk-historisk Beskrivelse af Island eða Íslenskir sögustaðir, lýsir Kaalund landslaginu og fornum minjum sem hann taldi að tengdust Íslendingasögum eða vörpuðu ljósi á þær. Einnig skráði hann sagnir og munnmæli sem tengdust rústum og fornum grafhaugum. Hann notaði margskonar heimildir og studdist t.d. við örnefni og staðbundnar hefðir auk eigin athugana á rústum sem hann skoðaði. Hann bar vettvangsathuganir sínar saman við upplýsingar sem hann fann í sóknarlýsingum og gögnum frá Konunglegu fornminjanefndinni í Danmörku auk margvíslegra annarra heimilda. Árið 1882 gaf Kaalund út ritgerðina eða “Icelandic Antiquities”, þar sem að hann skráði niður alla þekkta heiðna grafstaði. Hann efaðist um að það væri mikill fjöldi af heiðnum grafreitum vegna þess að fyrstu landnámsmennirnir komu til landsins á seinni hluta 9. aldar og svo var kristnin tekin upp árið 1000, samkvæmt Íslendingabók og Landnámabók .
Í leiðangri sínum leitaðist Kaalund við að fara á alla þá staði sem getið er í Íslendingasögunum (nokkur svæði urðu þó útundan), lýsa þeim rústum sem taldar voru tengjast sögunum og átta sig á staðháttum m.a. með tilliti til þess hvort leiðalýsingar sagnanna væru raunhæfar. Hann taldi að með því að skoða staðhættina mætti varpa ljósi á óskýr atriði í sögunum og jafnvel skera úr um hvaða textar væru upprunalegastir þar sem sögurnar voru varðveittar í mismunandi gerðum. En hann hafði líka áhuga á því að varpa almennu ljósi á söguöldina með því að skoða staðhætti og fornleifar og lagði því líka áherslu á að skoða ummerki um stofnanir þjóðveldisins, hof og þing. Hann athugaði marga slíka staði þó þeirra væri ekki endlilega getið í sögunum og lagði víða grunninn að frekari rannsóknum. Hann skráði t.d. um 60 staði þar sem hann taldi að hof hefðu verið í heiðni, m.a. á Hofstöðum í Mývatnssveit þar sem Daniel Bruun átti seinna eftir að gera mkikinn uppgröft og þar sem mikla rannsóknir fóru aftur fram 1991-2002.
Kaalund kom einnig á marga af þeim stöðum sem taldir eru hafa verið þingstaðir á þjóðveldisöld og tókst á við þann vanda að reyna að skilgreina slíka staði útfrá minjum sem sáust á yfirborði. Á mörgum slíkum stöðum fann hann þyrpingar af ferhyrndum rústum, sem hann taldi vera búðir, og svo annaðhvort ferhyrndar eða hringlaga rústir sem hann taldi vera dómhringa. Á sumum þingstaðanna taldi hann einnig hafa verið þingbrekku. Mjög oft voru það örnefni eins og „þing“ eða „búð“ sem komu honum á sporið þar sem hann leitaði þingstaða.
Kaalund beitti hvergi uppgrefti við rannsóknir sínar en lýsingar hans og skilgreiningar á minjastöðum lögðu grundvöllinn að frekari rannsóknum á næstu áratugum. Hið Íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og áttu rannsóknarmenn þess, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur Jónsson frá Minna Núpi, eftir að heimsækja flesta þá staði sem Kaalund skráði, enduskoða sumar af túlkunum hans en þó oftar að bæta við ítarlegri lýsingum. Stórt hlutfall friðlýstra minjastaða í dag var fyrst lýst af Kristian Kaalund.“
Í ritinu um Íslenska Sögustaði (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), skrifar P.E. Kristian Kålund m.a. um Sunnlendingafjórðung. Þar getur hann um „sögustaðinn“ Reykjavík, sem fyrr segir:
Gullbringusýsla – Reykjavík
Þetta landsvæði er mestur hluti þess flæmis, er Ingólfur nam, fyrsti og frægasti landnámsmaðurinn. Settist hann að í Reykjavík, en næsta umhverfi bæjar varð búland hans. Land það er Ingólfur á eftir að lokum, er eigi mjög stórt miðað við hið mikla flæmi er hann nam í upphafi, þ.e. milli Hraunsholtslækjar og Úlfarsár. Hraunsholtslækur rennur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog. Úlfarsá kemur úr Hafravatni, rennur til vesturs sunnan við Úlfarsfell, beygir síðan til vesturs vestan við Lambhaga og fellur í litla vík sem nefnist Blikastaðakró. Úlfarsá breytir síðan um nafn, nefnist Korpustaðaá eða Korpa, fyrst sennilega aðeins neðri hlutinn í grennd við Korpúlfsstaði. Í þessu landi Ingólfs eru þó Vífilsstaðir, land það er hann gaf Vífli leysingja sínum.
Reykjavík hét áður Reykjarvík, í Íslendingabók Raikjarvic. Vík nefnist staðurinn í Kjalnesinga sögu, sem er skáldsaga. Hér er einn merkasti staður landsins, það er óhætt að segja en þó einn af þeim sem sjaldnast er nefndur í fornum sögum.
Sennilega hefur ætt Ingólfs átt Reykjavík alllengi. Þorsteinn sonur Ingólfs var stofnandi Kjalarnesþings. Hans sonur var Þorkell máni, en Harðar saga Grímkelssonar segir að hann hafi búið þar. Hann lifði samkvæmt vitnisburði sgana svo hreinlega sem kristnir menn, er best eru siðaðir, og virðist helst hafa haft hugboð um kristnina. Síðan þegja allar heimildir um Reykjavík langan tíma. Árið 1616 fær Kristján IV jörðina ásamt kirkju í skiptum fyrir nokkrar aðrar jarðir. Var Reykjavík á allvænleg jörð. Magnús Ketilsson segir í Forordinger II, 265, að nokkurn hluta jarðarinnar virðist krúnan þó hafa átt síðan 1590 (sjá Finnur Jónsson Hist. eccl. III. 35), það ár flæmdi sem sé konunglegur befalingsmaður, Laurids Kruse, Orm Narfason frá nokkrum hluta jarðarinnar, Reykjavík, en við móður hans og þrjá bræður voru makaskiptin gerð árið 1616.
Árið 1786 fékk Reykjavík kaupstaðaréttindi ásamt nokkrum öðrum verslunarstöðum, þegar verslun var gefin frjáls öllum dönskum þegnum.
Reistir höfðu verið veglegir bústaðir á landareignum umhverfis Reykjavík handa ýmsum hinna æðri embættismanna, en nú fluttust þeir smám saman til bæjarins, stiftamtmaðurinn þegar 1816, eftir að fangahúsinu hafði verið breytt í þeim tilgangi og samtímis fjölgaði íbúum bæjarins mjög hratt, miðað við aðstæður. Um aldmót voru íbúar Reykjavíkur 300, 1840 var íbúatalan um 900, 1870 var hún komin upp í 2000 og þessi aukning virðist ætla að halda áfram.
Nú er Reykjavík ekki svo lítilfjörlegur bær að sjá, húsin eru dreifð yfir tiltölulega stórt landsvæði, því þau eru ekki sambyggð, heldur standa stök og umhverfis þau er afgirtur blettur eða lítill garður; utan við bæinn sjálfan standa svo að segja á allar hliðar hópar af torfhúsum, svokallaðir bæir, en þetta eru bústaðir hinna mörgu fiskimanna. Húsin í bænum eru eru nær öll hin svokölluðu timburhús, þ.e. grindamúr og timburklædda að utan, en loft og skilrúm hið innra eru einnig úr tré. Þessi hús eru smekklega máluð og vel við haldið, geta þau verið snotur að sjá, þegar men hafa vanist timburklæðningunni.
Samhliða stækkun bæjarins hefur fækkað arfsögnum um fornminjar. Í bréfi til Finns Magnússonar þegar 1821 kvartar presturinn t.d., sem þá var yfir því, að þar í sókn séu alls engar sögulegar minjar. E.Ó. (1041, bls.) skýrir frá, að enn megi sjá í Reykjavík tóftina (í sambandi við notkun orðsins „tóft“ er ef til vill ekki ónauðsynlegt að taka fram, að í þessu riti er það notað í íslenskri sérmerkingu; þýðir það sem sé veggur þaklaustar byggingar ásamt rýmingu innan þeirra, eða leifar húss, þar sem þakið er horfið) af skipsnausti Ingólfs, sem nefndist Ingólfsnaust, en um það veit nú enginn, ekki þekkist heldur nafnið Ingólfsbrunnur um vatnsbólið góða í Reykjavík, sem Skúli Magnússon minnist á í lýsingu sinni á Gullbringu- og Kjósarsýslu; miðað við legu legu hans og gæði vatnsins mætti ætla, að hann væri hinn sami og helsti brunnur bæjarins nú í hinni gömlu aðalgötu (Aðalstræti).“
- -(Innskot; saga Reykjavíkur er ekki bara saga landnámsmanns, höfðingja og annarra stórbusa. Hún er ekki síður saga almúgans. Meðal þeirra var Sæfinnur Hannesson); Ingólfsbrunnur, milli húsanna Aðalstrætis 7 og 9, var eitt aðalvatnsból Reykjavíkur um langt skeið en þangað sóttu Víkurbæirnir og aðrir nálægir bæir vatn sitt. Brunnurinn hefur gengið undir ýmsum nöfnum eins og víkurpóstur, vatnspóstur og prentsmiðjupóstur. Heitið vatnspóstur kom til eftir að í hann var sett dæla og menn töluðu um að „pósta“ upp vatninu en nafnið prentsmiðjupóstur kom til eftir að Landsprentsmiðjan var flutt úr Viðey í næsta hús við brunninn. Notkun brunnsins lagðist af með lagningu vatnsveitunnar árið 1909. Talið er að um aldamótin 1900 hafi 34 brunnar verið í Reykjavík.
Með vaxandi þéttbýlismyndun varð til sérstök stétt fólks sem sá um að bera vatn í hús heldra fólks, svonefndir vatnsberar. Einn þessara vatnsbera var Sæfinnur Hannesson, betur þekkur sem Sæfinnur með sextán skó. Kemur nafngiftin til af því að það var siður Sæfinns að klæða sig í mörg lög af fötum og jafnvel mörg pör af skóm, sumir segja allt að átta pör! Eins og með aðra vatnsbera þá var litið niður á Sæfinn og sagt var að hópur krakka hafi gert sér það að leik að elta hann um bæinn og syngja þessa vísu:
Sæfinnur með sextán skó,
sækir vatn og ber heim mó.
Á ‘ann festir aldrei ló,
af því hann er gamalt hró.
Saga Sæfinns Hannessonar lýsir vel mannlegum harmleik og hversu stutt er á milli samfélagslegar viðurkenningar og útskúfunar. Sæfinnur var sagður hafa verið ósköp venjulegur unglingur, vel gefinn og myndarlegur. Hvað svo gerðist veit kannski enginn en sagan segir að stóra ástin í lífi hans hafi svikið hann í tryggðum með þeim afleiðingum að Sæfinnur beið hennar allt sitt líf og safnaði peningum til að undirbúa afturkomu hennar. Sæfinnur brotnaði endanlega þegar fleti hans og eigum var hent úr útihúsi við Glasgow-verslunina í nærliggjandi fjöru. Þetta gerðist 10. júlí 1890 en Sæfinnur lést árið 1896.
„Reykjavík er, og ekki síst á Íslandi sjálfu, onlbogabarn náttúrunnar. Í nágrenni bæjarins er lítið um grösugt jafnlendi, sem er ímynd frjósemi og blómlegs landbúnaðar og íbúarnir telja fremsta skilyrðu fagurs landslags. Fyrir handan (þ.e. fyrir sunnan) tjörnina liggur mýrardrag þvert yfir nesið, en annars ber fyrir augu aðeins gróðurlausar hæðir þaktar stórgrýti og hnullungum, smáum og stórum, hin svonefndu „holt“ eða flöt malarflæði, sem nefnast „melar“, allt með moldarlit og ömurlegt útlits.
Til uppbótar fyrir óskemmtilegt útlit hið næsta, getur fjærsýnið aftur á móti verið miklu fallegra. Handan Kollafjarðar, innsta hluta Faxaflóa, sem er nokkurra mílna breiður, svífa sjónir til að festast þeim mun lengur við hinn hrífandi bogadregna fjallbálk, sem afmarkar útsýni til norðurs. Þar liggja eins og í boga þrjú fjöll, Esja, Skarðsheiði og Akrafjall og virðast mynda samfellda röð, enda þótt hin síðarnefndu séu aðskilin frá Esju með löngum og mjóum firði, Hvalfirði.
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Kristian_Kaalund
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 1-15.
-https://afangar.com/atvinnusaga/ingolfsbrunnur/