Rústir Garðakirkju – Árni Óla
Árni Óla skrifaði um „Rústir Garðakirkju“ í Lesbók Morgunblaðsins ári 1951:
„Nú var það einn góðan veðurdag í sumar, að jeg hitti kunningja minn á götu og hann sagði: „Þú ættir að fara og skoða Garðakirkju, jeg er viss um að þjer þykir hún merkileg.“
Jeg ljet ekki segja mjer þetta tvisvar, steig upp í Landleiðabílinn og ók til Hafnarfjarðar. Og svo lagði jeg land undir fót, eins og svo ótal margir kirkjugestir höfðu áður gert. En nú eru gömlu göturnar horfnar og akvegir komnir í staðinn.
Það er ekki nema svo sem fjögurra rasta vegur frá Hamarskotslæk út að Görðum, og Hafnarfjarðarbær hefur nú teygt sig hálfa leiðina. Vegurinn liggur út með ströndinni. Hjer hefur hrauntlóðið fallið fram í sjó og má enn, eftir margar aldir sjá hverjar hamfarir hafa átt sjer stað, þegar glóandi hraunið og sjórinn mættust og alt varð hjer í eima og mökk, en ógurlegar gufusprengingar tættu hraunbreiðuna sundur, mynduðu gíga og turnuðu hálfstorknuðu hrauninu upp í hrannir og hrauka. Sumir þessir sprengjugígar eru nú grasi grónir í botninn, skemtilegar hvosir, þar sem er skjól í öllum áttum. En fram í sjóinn ganga svipill sker á aðra hönd og bera enn vitni um hver ákefð og þungi hefur verið í áhlaupi hraunstraumsins. Sjórinn varð að þoka undan því og um aldir hefur hann lamið þessar klappir og reynt að brjóta þær niður, en ekki tekist.
Út á móts við Skerseyri liggur vegurinn yfir djúpa gjá eða hraunhvos og er þar hátt ofan af honum til beggja handa. Niðri í gjótunni liggja stórir steyptir steinar, þrístrendir og toppmyndaðir og líklega um metra á hæð. Steina þessa ljet herstjórnin steypa hjer á árunum og raðaði þeim á veginn. Var ætlunin að þvergirða veginn með þeim, ef til bardaga kæmi á landi. Eftir að herinn var farinn var þessum ferlíkjum velt ofan í gjótuna, en þeir eru, ásamt svo fjölda mörgu óðru, talandi tákn um það, að hernámsliðið bjóst við því í alvöru, að Þjóðverjar mundu gera innrás hjer.
Jeg er að svipast um hvort jeg sjái ekki turninn á Garðakirkju. En hann er hvergi sýnilegur. Þegar jeg kem út á móts við Bala hitti jeg unga og fallega stúlku og jeg dirfist að spyrja hana:
— Er langt út að Garðakirkju?
— Nei, hún er þarna, eða rústirnar af henni. Og hún bendir mjer á grátt hús og þaklaust fram undan.
— Hvenær var hún rifin? spurði jeg.
— Það eru mörg ár síðan, sagði hún. Turninn var orðinn svo ljelegur, að menn voru hræddir um að hann mundi hrynja. Og svo var hann rifinn og alt innan úr kirkjunni. En steinveggirnir standa enn.
Til hvers var kunningi minn að segja mjer að skoða kirkju, sem er alls ekki til? hugsaði jeg. Og í hálfgerðum vandræðum sagði jeg svo upphátt:
— Hvernig stóð á því að kirkjan hjer var lögð niður?
Það kom gletnissvipur á stúlkuna: — Þeir stofnuðu fríkirkju í Hafnarfirði og þá varð sóknarnefndin dauðhrædd um að allir Hafnfirðingar mundu verða fríkirkjumenn. Þeir mundu ekki nenna að ganga út að Garðakirkju, þegar kirkja væri komin í Hafnarfirði, og því ekki um annað að gera en flytja Garðakirkju til þeirra.
Já, stundum kemur fjallið til Múhameds. Fyrir hundrað árum rúmum voru ekki nema fjögur eða fimm timburhús í Hafnarfirði. En smám saman tók hann að seiða til sín fólk. Jafnvægið í sókninni raskaðist. Garðahverfið, þar sem áður var mest þjettbýli, hvarf í skugga Hafnarfjarðar þegar hann reis á legg. Árið 1910 eru talin 228 hús í Hafnarfirði. Það var því eðlilegt að Hafnfirðingar gætu ekki unað því að sækja kirkju að Görðum, en vildu koma upp kirkju hjá sjer.
En þá var of dýrt fyrir Garðhverfinga að standa straum af sinni kirkju. Þeir kusu heldur að sækja kirkju til Hafnarfjarðar. Fólkinu fór líka fækkandi eftir því sem Hafnarfjórður óx. Þeir höfðu reist sjer skólahús skamt frá kirkjustaðnum. Nú eru skólaskyld börn svo fá í hverfinu, að það borgar sig ekki heldur að halda þar uppi skóla, svo börnunum er komið til kenslu að Bjarnastöðum eða í Hafnarfjörð og skólahúsið stendur autt. Þetta er eitt af tímanna táknum um þá þjóðflutninga, sem fara fram hjer innan lands.
En þetta breytist. Fólkið kemur aftur. Hafnarfjörður á fyrir sjer að þenjast út. Bygðin færist út með firðinum og gleypir einhvern tíma Garðahverfið. Og þegar svo er komið og mikil bygð er risin þar upp, þá þarf að koma þar bæði kirkja og skóli. Þá verður Garðakirkja endurreist og þá rís þar stórt og fagurt skólahús.
Jeg er kominn að Görðum. Þar hefur eitt sinn verið voldugur grjótgarður umhverfis túnið, en liggur nú hruninn og utan við hann er komin vírgirðing. Akbraut liggur heim túnið og skamt fyrir vestan hana stendur kirkjurústin gnapandi og einstæðingsleg, því að kirkjan hefur ekki staðið í kirkjugarðinum heldur utan við hann. Hún horfir tómum gluggatóftum út og suður og burstháir stafnar gnæfa yfir umhverfið. Veggirnir eru eitthvað um fjögurra metra háir, en stafnarnir helmingi hærri, því að rishæðin hefur verið álíka og vegghæð. Að innanmáli er kirkjutóftin 17 metrar á lengd og 8 á breidd. Öll er hún hlaðin úr íslensku grjóti og er hleðslan tvöföld, höggnir steinar í ytri hleðslu en óhöggnir í innri hleðslu og bundnir saman með steinlimi. Svo hafa allir veggir verið sljettaðir að utan og eins inni í aðalkirkjunni. Sjest enn á austurgafli boglína svo hátt uppi sem hvelfingin hefur náð.
En að innanverðu á vestri burstinni er hleðslan ber. Er snildar handbragð á henni og sýnir að þar hafa verið menn að verki, sem enn kunnu að hlaða sljetta og lóðrjetta veggi úr óhöggnu grjóti. Það munu fáir leika nú orðið og þess vegna er þessi bygging stórmerkileg, og þykir mjer ólíklegt að hún eigi nokkurn sinn líka hjer á landi. Hjer er byggingarlag, sem þyrfti að varðveitast, ef þess er nokkur kostur. Lítið á þennan háa og sljetta stafn, hlaðinn úr smáu grjóti, eins og það kom fyrir. Lítið á hleðsluna umhverfis dyrnar og hina bogadregnu glugga. Og segið mjer svo hvort þjer eruð mjer ekki sammála um að hjer sje íslensk byggingarlist, er sje þess virði að bún sje varðveitt. Að vísu er hún ekki svo gömul, að hún geti talist forngripur. En sje hún varðveitt, verður hún forngripur með tímanum, og mun þá þykja mjög merkilegur forngripur, er menn mundu ekki vilja missa fyrir nokkurn mun.
Um Garðapresta
Garðakirkja var upphaflega helguð Pjetri postula. Prestatal hennar nær aftur til ársins 1284 og hafa þar setið margir merkir menn. Þar var Böðvar prestur Jónsson, er druknaði i Ölfusá 1518 ásamt dóttur sinni og fjölda manns (sumir segja 30, aðrir 40 eða 50). Var fólk þetta að koma úr pílagrímsför til krossins helga í Kaldaðarnesi. Þar var sjera Jón Ólafsson (um 1527—30) afi Jóns Egilssonar annálaritara og sjera Ólafs í Vestmannaeyum, er Tyrkir handtóku.
Eftir hann kom sjera Þórður Ólafsson, er dreymdi drauminn um Hannes hirðstjóra Eggertsson. — Hannes hafði látið taka Týla Pjetursson af lífi 1524 fyrir rán og gripdeildir. Árið 1530 varð Hannes bráðkvaddur í náðhúsinu á Bessastöðum. Þá dreymdi sjera Þórð að maður kom til hans og mælti: „Furðar yður hversu snögglega Hannes dó?“ Prestur kvað já við.
„Ekki skal yður undra það,“ mælti draummaður, „því að Hannes drap Týla og Týli drap Hannes.“
Sjera Jón Kráksson, hálfbróðir Guðbrands biskups (þeir voru synir Helgudóttur Jóns Sigmundssonar lögmanns) var kominn að Görðum 1569. Hjá honum dó Gísli biskup Jónsson á vísitatiuferð hinn 30, ágúst 1587.
Árið eftir tók Knútur Steinsson hirðstjóri Hlið á Álftanesi ásamt hjáleigum undan Garðakirkju, en ljet hana fá Vífilsstaði í staðinn. Í makaskiftabrjefinu lofaði hann að Garðakirkju skyldi árlega greidd ein tunna mjöls, vegna afgjaldsmismunar á þessum jörðum. En þegar Enevold Kruse varð valdsmaður, kom upp fjandskapur á milli hans og sjera Jóns Krákssonar, og til þess að hefna sín á presti, tók hann þessa mjöltunnu af Garðakirkju og hefur hún ekki goldist síðan. Sjera Jón Kráksson var grafinn í Garðakirkjugarð. Á legsteini hans var þessi áletrun: „Hjer hvílir sá frómi mann sjera Jón Kráksson, sem lifði trúlega, kendi siðlega, deyði loflega, ljóma mun eilíflega. Rjettlatir fara frá ógæfu og hvílast í sínum svefnhúsum.“ Hann dó 3. mars 1622, 89 ára að aldri. Dóttir hans var Margrjet kona Gísla lögmanns Hákonarsonar. Móðir hennar var Jarþrúður Þórólfsdóttir Eyólfssonar, en kona Eyólfs var Ásdís, systir Ögmundar biskups Pálssonar. — Biskup gaf Þórólfi systursyni sínum jarðirnar Laugarnes og Engey. Þess vegna komust þær jarðir í eigu Gísla lögmanns.
Eftir sjera Jón varð prestur í Görðum; Ólafur sonur hans, er jafnan skrifaði sig Ólaf Jónsson Kráksson. Hann var einlægur maður og bersögull og kom sjer því ekki vel við valdsmenn á Bessastöðum. Einu sinni er hann messaði í Bessastaðakirkju, kom vín og brauð ekki svo skjótt á altarið sem hann vildi, og sendi hann þá eftir hvoru tveggja heim að Görðum. Þá var Holger Rosenkrantz höfuðsmaður og notaði hann þetta tækifæri til þess að skylda Garðapresta að leggja framvegis vín og brauð til Bessastaðakirkju.
Þorkell Arngrímsson var prestur í Görðum 1658—1677. Hann var sonur Arngríms lærða á Melstað og Sigríður Bjarnadóttir, er kölluð var „kvennablómi“ af friðleik sínum. Þorkell prestur stundaði kálgarðarækt og þótti það nýlunda á þeim dögum. Hann var góður læknir og segir sagan að hann gæti læknað sár fjarverandi manna, ef honum væri sent blóð úr sárinu. Sonur hans var Jón biskup Vídalín, og var hann fyrst prestur í Görðum 1696—98.
Björn Jónsson Thorlacíus var prestur í Görðum 1720—1746. Laundóttir hans hjet Steinunn. Árið 1737 eignaðist hún barn og kendi það Skúla Magnússyni, er þá var sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, en hann vildi ekki gangast við því. Þá varð sjera Björn reiður og kvað honum eigi skyldi hlýða að gera dóttur sinni vansæmd. Gekk hann svo fast að Skúla að hann giftist Steinunni 15. sept. 1737. Má af slíku marka hver skörungur sjera Ólafur hefur verið, því að Skúli landfógeti ljet ekki sinn hlut fyrir neinum miðlungsmönnum.
Guðlaugur Þorgeirsson var prestur í Görðum 1747—1781. Hann tók að sjer að gera veðurathuganir fyrir þá Eggert Ólafsson og Bjarna Pálsson, og helt því síðan áfram til æviloka, eða um nær 30 ára skeið. Munu það vera hinar fyrstu samfeldu veðurathuganir, sem gerðar voru hjer á landi.
Markús Magnússon var næsti prestur í Görðum (1781—1825). Hann var stiftprófastur og því bar honum að þjóna biskupsembætti þegar Hannes biskup Finnsson féll frá, og var það þá eitt af biskupsverkum hans að hann vígði dómkirkjuna í Reykjavík. Svo var hann í biskupskjöri, en féll fyrir Geir Vídalín. Hann stofnaði ásamt Jóni Sveinssyni landlækni fyrsta lestrarfjelag hjer á landi, og var það fyrir Gullbringusýslu, Kjósarsýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Hann hafði mikla garðrækt hjá sjer og árið 1787 fekk hann 10 rdl. verðlaun hjá landbústjórnarfjelaginu fyrir garðahleðslu. Munu það vera garðar hans sem enn sjer rústirnar af umhverfis túnið.
Síðan sátu jafnan þjóðkunnir menn í Görðum: Árni biskup Helgason 1825—1858, Helgi Hálfdanarson 1858—1867, Þórarinn Böðvarsson 1868—1895, Jens Pálsson 1895—1912.
Við prestkosningu þá er fram fór eftir fráfall sjera Jens Pálssonar, voru fimm prestar í kjöri. Voru þeim greidd atkvæði eins og hjer segir: Þorsteinn Briem 505, Björn Stefánsson 152, Guðmundur Einarsson 64, Árni Þorsteinsson 13 og Árni Björnsson 9. Þetta var í marsmánuði 1913. En mánuði seinna var haldinn fundur í Hafnarfirði og samþykkt að stofna þar fríkirkjusöfnuð. Þetta taldi sjera Þorsteinn Briem vera vantraust á sig og afsalaði sjer því embættinu. Um sumarið fór því aftur fram prestkosning og voru enn 5 umsækjendur. Þá fellu atkvæði svo, að sjera Árni Björnsson á Sauðárkróki var kosinn með 113 atkvæðum, Guðmundur Einarsson fekk 98, Björn Stefánsson 80, Sigurbjörn Á. Gíslason 5 og Hafsteinn Pjetursson ekkert atkvæði. Hinum nýkjörna presti var þá jafnframt gert að skyldu að flytjast til Hafnarfjarðar, ef kirkja yrði reist þar fyrir söfnuðinn. Sjera Árni var seinasti prestur í Görðum. Hann sat þar til 1928, en fluttist þá í Hafnarfjörð.
Ýmislegt um Garðakirkju
Akurgerði hjet jörð inst í Hafnarfirði og var hún eign Garðakirkju. Árið 1677 var hún tekin handa kaupmönnum, en Garðakirkja látin fá í staðinn 1/2 Rauðkollsstaði í Hnappadalssýslu, en vegna fjarlægðar varð kirkjan að selja þá jörð. Akurgerðisland eyddist smám saman af sjávargangi, og segir sjera Árni Helgason í sóknarlýsingu um 1840: „Enginn veit nú hve mikið land Akurgerði fylgdi, það hefur dankað svona, að kaupmenn sem eiga Akurgerði, eigna sjer ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamarskotslæk, og prestar í Görðum hafa ei ákært.“ Eftir þessu að dæma virðist hann hafa álitið að kaupmenn hafi sölsað undir sig meira land en þeim bar, jafnharðan og Akurgerðisland eyddist.
Kirkjuland heitir fyrir ofan bygðina, frá Elliðavatns og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi, og upp undir fjöllin. Þar áttu Garðar selstöðu og þar var haft í seli fram um 1832. Um 1840 var sett þar rjett fyrir Garðahrepp, hin svonefnda Gjáarrjett, sem enn stendur.
Garðakirkja átti um miðja fyrri öld alt Garðahverfi og auk þess þessi býli: Hamarskot, Vífilsstaði, Hraunsholt og Selskarð. Hamarskotsland fekk Hafnarfjarðarkaupstaður keypt árið 1913, samkvæmt lagaheimild. Skúli Magnússon segir í sýslulýsingu sinni að þá sje 32 býli í Garðakirkjusókn, þar af voru 11 konungseign, 19 eign Garðakirkju og aðeins 2 bændaeign…
Syðsta býlið í sókninni var Lónakot, en það hafði eyðst af sjávargangi 1776. Gekk þá sjór yfir túnið, reif upp allan grassvörð, fylti bæjarhúsin og vörina með grjóti og möl. Sjera Árni Helgason segir að þau munnmæli gangi að út af þessu hafi bóndinn þar orðið svo sturlaður að hann hafi fyrirfarið sjer, og síðan hafi enginn þorað að búa þar. En Skúli Magnússon segir að margar skoðunargerðir hafi farið fram á jörðinni, og þar sje hvergi 30 ferálna stór blettur, sem hægt sje að gera að túni. Þó var bygð tekin upp aftur í Lónakoti um 1840.
Árið 1781 eru áhöld um fólksfjölda í Garðasókn og Reykjavík. Þá eru taldir 385 íbúar í Garðasókn en 394 í Reykjavík. En talsverður munur virðist hafa verið á lífskjörum manna í þessum tveim ur sóknum, hvað þau hafa verið betri í Garðasókn. Þar var þá 41 bóndi, 14 hjáleigumenn og 34 þurrabúðarmenn. En í Reykjavíkursókn voru 8 bændur, 24 hjáleigubændur og 59 þurrabúðarmenn. Kvikfjáreign þessara manna var samtals (tölurnar fyrir Reykjavík í svigum): kýr 112 (69), kvígur 5 (1). naut 2 (1), kálfar 3 (2), ær 200 (20), sauðir 116 (9), hross 146 (106). Samkvæmt þessu eru rúmlega 3 menn um hverja kú í Garðasókn, en 5 1/2 um hverja kú í Reykjavík. Í Garðasókn eru tæplega tveir um hverja á, en nær 20 í Reykjavík. Og þegar þess er nú gætt, að þá var altaf fært frá, sjest best hvað viðurværi hefur verið betra í Garðasókn vegna þess að þeir höfðu miklu meiri mjólk en Reykvíkingar. Og svo eiga þeir í Garðasókn sauði til frálags, en Reykvíkingar sama sem sauðlausir.
Lengstum mun hafa verið torfkirkja í Görðum. En timburkirkja er komin þar fyrir 1853. (Það ætti að vera kirkjan, sem Vellýgni Bjarni bjargaði. Hann var að koma úr róðri í dimmviðri og sá þá einhverja svarta flyksu í loftinu. Hann náði í hana og var þetta þá Garðakirkja. Hafði hún fokið. En Bjarni flutti hana í land og skilaði henni á sinn stað). Þessi kirkja var orðin ófær til messugerðar árið 1878, og heíur hún því sjálfsagt verið orðin nokkuð gömul, líklega bygð snemma á 19. öld. Um þetta leyti var sjera Þórarinn Böðvarsson prestur í Görðum. Vildi hann að kirkjan væri rifin og ný sóknarkirkja reist í Hafnarfirði, þar sem meginþorri sóknarbarnanna var. En því fekst ekki framgengt. Og svo var steinkirkjan bygð í Görðum 1879. Þótti hún þá veglegt hús.
Upp úr aldamótunum fór íbúum Hafnarfjarðar að fjölga mjög ört, og komu þá upp raddir um að þangað skyldi kirkjan flutt. Var sjera Jens Pálsson því meðmæltur, en það fórst þó fyrir. En árið 1910 afhenti hann sóknarnefnd Garðakirkju til umsjónar og fjárhalds.
Eins og fyr getur höfðu Hafnfirðingar stofnað fríkirkjusöfnuð 1913 og sama árið reistu þeir veglega kirkju handa sjer. Leist þjóðkirkjusöfnuðinum þá ekki á blikuna, svo að þá um sumarið var fengið leyfi til þess að Garðakirkja yrði lögð niður og ný kirkja reist í Hafnarfirði. Var byrjað að grafa fyrir grunni hinnar nýu kirkju þá um haustið og komst hún upp ári síðar en fríkirkjan. Þá var talað um að selja Garðakirkju, en það fórst fyrir og var hún látin standa, en gripir hennar fluttir í hina nýju kirkju í Hafnarfirði. Tveimur árum seinna (1916) bundust 10 menn samtökum um að kaupa hina gömlu Garðakirkju og ætluðu að halda henni við. Flestir þeirra eru nú dánir og af kirkjunni er ekki annað eftir en steinveggirnir.
Gamlar kirkju í Hafnarfirði
Nú voru risnar upp tvær nýar kirkjur í Hafnarfirði, eftir að staðurinn hafði verið kirkjulaus í hartnær tvær aldir. En áður höfðu verið þar tvær kirkjur.
Á Hvaleyri var kirkja í kaþólskum sið. Jörðin hafði snemma verið gefin Viðeyarklaustri, en kirkjunnar er fyrst getið á dögum Steinmóðs ábóta Bárðarsonar í Viðey (1444—1481). Hún á þá Hvaleyrarland. Í vísitatiubók Gísla biskups Oddssonar á árunum 1632—37 er lýsing á kirkjunni og segir að hún hafi verið með þremur bitum á lofti auk stafnbita. Í Jarðabók Árna og Páls er talin hálfkirkja á Hvaleyri og sögð liggja undir Garða og þar messað þrisvar á ári. Þetta var graftarkirkja og sást til skamms tíma móta fyrir kirkjugarðinum. Hún var lögð niður með konungsboði 17. maí 1765 og er þá nefnd bænhús. Mun hún seinast hafa verið svokölluð fjórðungskirkja og aðeins fyrir heimafólk.
Hina kirkjuna reistu Hamborgarkaupmenn þegar þeir versluðu í Hafnarfirði og er hennar fyrst getið 1537. Ekki vita menn nú hvar hún hefur staðið, en talið sennilegt að hún hafi verið á Óseyri, sunnan við fjörðinn. Kirkja þessi hefur verið timburkirkja og vönduð, því að þess er getið að hún hafi verið með koparþaki. Þessi kirkja var auðvitað óháð Skálholtsstól og þess vegna eru litlar heimildir um hana. Þó finst getið þriggja presta, sem þar voru á árunum 1538—1552.
Hinn 24. apríl 1608 skipaði Kristján IV. svo fyrir, að öll hús Þjóðverja hjer á landi, þau er stæði á jarðeignum kirkju eða konungs, skyldu rifin, og sennilega hefur þá kirkjan líka verið rifin.
Kirkjugarður í eyði
Kirkjugarðurinn í Görðum er umgirtur grjótgarði á þrjá vegu, en trjegirðingu á einn veg. Hann er nokkuð stór, þegar miðað er við kirkjugarða í sveit. En hann varð þó of lítill vegna þess hvað sóknarfólkið er margt. Um átta ára skeið eftir að Garðakirkja var lögð niður, voru öll slík frá Hafnarfirði flutt þangað til greftrunar. En þá var svo komið, þrátt fyrir það að kirkjugarðurinn hafði verið stækkaður, að hann var út grafinn. Og þá rjeðust Hafnfirðingar í það að gera nýan kirkjugarð hjá sjer á svokölluðum Öldum, sunnan og ofan við bæinn, og fór fyrsta greftrunin fram þar í mars 1921. Síðan er Garðakirkjugarður í eyði, eins og kirkjan, en samt hefur verið jarðað í honum við og við, vegna þess að menn hafa viljað láta ættingja hvíla saman.
„Nautgæfa fóðurgrasið grær“ á leiðunum í Garðakirkjugarði eins og í öðrum kirkjugörðum. Og hann hefur verið sleginn og taðan er komin í bagga, sem liggja þar í garðinum. Það er verið að hirða túnið og þessir baggar verða fluttir til hlöðu fyrir kvöldið.“
Sjá fróðleik um endurreisn Garðakirkju HÉR og HÉR.
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 47. tbl. 24.12.1951, Rústir Garðakirkju – Árni Óla, bls. 585-591.