Sagnakvöld I – Kálfatjörn, kirkjan og nágrenni

Kálfatjörn

Eftirfarandi er úr erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju þann 19. janúar 2006 – „Munir og minjar á Kálfatjörn og nágrenni og sagnir þeim tengdar„.

Kálfatjörn „Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á sagnakvöld í Kálfatjarnarkirkju sem haldið er á vegum leiðsögumanna Reykjaness ses og í samvinnu við Minjafélag Vatnsleysustrandar og Mark – Hús ehf.
Í kvöld munum við bjóða ykkur upp á sögulegan fróðleik og að því loknu er kaffi í boði í þjónustuhúsinu hér við hliðina. Við áætlum að dagskráin taki tæplega tvær klukkustundir hér í kirkjunni og endi í þjónustuhúsinu.
Ég ætla að segja ykkur frá helstu munum og minjum hér á Kálfatjörn og hér í kring og sögnum þeim tengdum.

Camp Dailey

Viktor Guðmundsson leiðsegir.

Viktor Guðmundsson er innfæddur Vogamaður. Hann mun segja okkur frá fræknum formönnum sem voru uppi á síðari hluta 19. aldar þegar útvegurinn var í miklum blóma hér á Ströndinni og íbúafjöldinn tvöfaldaðist yfir vetrarvertíðina. Ómar Smári Ármannsson er vel þekktur en hann er mikill göngugarpur og er búinn að þræða Suðurnesin fram og aftur og kynna sér margar minjar og skrá þær og mynda og hægt er lesa um ferðir hans á vefslóðinni FERLIR. Hann ætlar í kvöld að segja okkur frá seljabúskap sem var mikið stundaður hér fyrr á öldum og sýna okkur myndir af minjum sem enn má sjá frá þeim búskap.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason.

Þorvaldur Örn Árnason er Vogamaður og mikill náttúruunnandi. Hann ætlar að fá okkur til að taka lagið á milli atriða og spila undir á gítar. Snæbjörn Reynisson, Vogamaður, mun segja nokkur orð fyrir hönd minjafélagsins.
Eins og þið sjáið þá ákváðum við að vera dálítið þjóðleg í kvöld og klæðumst því íslenskum lopapeysum bæði gamaldags þ.e. hnepptum og beinum og nýmóðins með rennilás og aðskornum. Íslensku peysurnar eru gott dæmi um það hvernig hið gamla getur orðið nýmóðins en það er kannski það sem við viljum koma áleiðis til ykkar í kvöld þ.e að minna ykkur á allar þeir verðmætu minjar og sagnir sem til eru á þessu svæði í von um að þær megi varðveitast og verða að nýjum fróðleik fyrir þá sem á eftir koma.

Norðurkot Hér á Kálfatjörn eru margar minjar og sagnir þeim tengdar. Hér hafa margir fróðir og merkir menn búið og sem betur fer er ýmislegt sem hefur varðveist bæði ritað og hljóðritað. Í efni mínu um muni og minjar á Kálfatjörn og sagnir þeim tengdar styðst ég aðallega við heimildir s.s.:

1. Erindi sem Erlendur Magnússon á Kálfatjörn flutti þegar kirkjan átti 50 ára afmæli og birt var í riti sem gefið var út í tilefni af 100 ára afmæli kirkjunnar, 11. júní 1993.
2. Lýsingu á örnefnum í Kálfatjarnarhverfi sem Örnefnastofnun safnaði og höfundar eru synir Erlendar þeir Gunnar og Ólafur Erlendssynir.
3. Fróðleik frá þeim systrum Ingibjörgu og Herdísi Erlendsdóttur sem ég kynntist og þær miðluðu mér.

Kálfatjörn 1978

Kálfatjörn 1978.

Allt þetta fróða fólk er nú því miður látið og hvílir hér í garðinum utan einn bróðirinn Ólafur Erlendsson sem er vel hress og verður níræður á þessu ári. Ég ræddi við hann og tók samtalið upp til varðveislu. Einnig fræddi sonur Ingibjargar, Friðrik H. Ólafsson mig en hann er hér fæddur og alinn upp.
Kálfatjarnarkirkja og næsta nágrenni.
Árið 1200 er fyrst getið kirkju hér og þá í sambandi við rekamörk kirkjunnar. Telja má víst að þá hafi kirkja verið búin að standa hér um nokkurt skeið, því þegar eftir kristnitökuna voru kirkjur reistar í flestum byggðarlögum landsins.
KálfatjörnKirkjustaðurinn getur því verið mjög gamall en með fullri vissu um 800 ára gamall. 1397-1450 er Kálfatjarnarkirkja nefnd Péturskirkja í kaþólskri tíð tileinkuð Pétri postula. Margir prestar hafa setið á Kálfatjörn og ætla ég ekki að fara út í alla þá sögu en nefna þó séra Stefán Thorarensen sem er hér prestur til 1886, í 29 ár. Hann var mikið sálmaskáld og sálmaþýðandi eins og sjá má í sálmabókum en mjög sálmar eru eignaðir honum. Séra Árni Þorsteinsson sat í 33 ár eða til 1919. Hann var síðasti presturinn sem sat hér á Kálfatjörn, því Kálfatjarnarsókn lagðist til Garðaprestakalls 1907.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919 sett ofan á loftmynd. ÓSÁ

Í þau tæp 500 ár sem Kálfatjörn var prestsetur er getið að 15 prestar hafi setið hér og þeir þjónað til jafnaðar 34 ár. Það segir heilmikið um hversu gott brauð þetta hefur verið. Því prestar fóru ekki að fá laun frá ríkinu fyrr en seint á 19.öld en fyrir þann tíma var það jörðin og hlunnindi hennar sem skiptu máli hversu efnaðir prestar urðu. Kirkjan sem var á undan þessari var byggð 1863, og því aðeins 30 ára gömul þegar þessi var byggð. Mun hún hafa verið of lítil fyrir söfnuðinn sem var á þeim tíma 6-700 manns og 10-12 hundruð á vertíðinni.

Goðhóll

Hinn 15. maí 1892 eru fermd 25 börn í kirkjunni og daginn eftir er byrjað að rífa hana og hafist handa við byggingu nýrrar kirkju. Sjálfboðaliðsvinna kom þá þegar til sögunnar og var mjög mikil. Fyrir byggingu grunnsins stóð Magnús Árnason steinsmiður. Hann bjó þá í hreppnum í Holti í Hlöðuneshverfi. Er grunnurinn hið mesta snilldarverk enda var það haft eftir yfirsmið kirkjunnar Guðmundi Jakobssyni að hann hefði ekki reist hús á jafnréttum grunni, sem þessum. Allt efni kirkjunnar var flutt á dekkskipi og skipað upp hér, á árabátum, öllum unum við, en stórtré lögð á fleka og róin til lands, aðrir tóku svo við og báru upp hingað heim og var mikið kapp í mönnum að verkið gengi fljótt og vel fyrir sig. Þá voru eigi bílar til að létta og flýta ferðum.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja 1930.

Þegar farið var að höggva til grindina kom í ljós að efni vantaði í fótstykki forkirkjunnar þrátt fyrir að allt hafi verið mjög nákvæmlega útreiknað áður en bygging hófst. Þótti það bagalegt og til tafar, því til að fá þetta efni þurfti að manna skip með 8-10 mönnum og fara til Reykjavíkur til að fá það. En þá kemur frétt um að stórt tré hafi rekið á fjörur kirkjunnar, inn á svokölluðum Réttum. Reyndist tré þetta vera “kjölsvín” úr skipi og mældist 8 x 9 tommur að gildleika og 34 feta langt. Var tréð því svo mátulegt í þau 3 stykki sem vantaði að hvorki þurfti af að taka né við að bæta, en einn kantur forkirkjunnar kom af sjálfu sér frá aðalkirkjunni. Eins og Erlendur Magnússon orðaði svo vel í afmæliserni sínu í tilefni af tímmtíu ara afmæli korkjunnar var þarna komið „fótstykki frá kirkjunni sjálfri til að reisa hinn mikla og glæsilega turn kirkjunnar og eins og kjölsvínið” tengir aðalgrind skipsins innviðum við stofntré þess kjölinn, eins tengdi það nú saman aðalkirkju og forkirkju sem gefur hverri kirkju hinn glæsilega og tilkomumikla svip. Kirkjan var síðan vígð 11. júni 1893.
Kálfatjörn Aðalsmiðir kirkjunnar voru Guðmundur Jakobsson er teiknaði hana og var yfirsmiður og Sigurjón Jónsson kennari hér við barnaskólann sem einnig var lærður trésmiður. Allt sem rennt var, svo sem pílárar og ljósaliljur gerði Þorkell Jónsson frá Flekkuvík þá bóndi í Móakoti, hér í Kálfatjarnarhverfi. En þá þekktist ekki nein vélarvinna og tiltölulega lítið flutt inn af unnum við og megnið því handunnið og er því um feiknaverk að ræða. Kirkjuna málaði danskur málari, búsettur í Reykjavík, Bertelsen að nafni og málningin á inniveggjunum hefur varðveist fram á þennan dag í yfir 100 ár.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja – altaristafla og málning.

Fyrir utan smá lagfæringar sem gerðar voru við fordyr kirkjunnar en það verk unnu hagleiksmennirnir Jón og Gréta er gistu hér á Kálfatjörn hjá Herdísi Erlendsdóttur meðan á verkinu stóð. Þetta er eina heildar verkið að ég held sem varðveist hefur eftir Bertelsen málara. Hann virðist hafa málað kirkjuna á Akranesi af gömlum myndum af dæma og Iðnó en á báðum stöðunum hefur verið málað yfir og verkið það ekki varðveist eins vel og hér. Hingað komu menn fyrir nokkrum árum síðan og skoðuðu verkið en þá voru þeir að gera upp Iðnó en þar fundust einmitt brot af málningarverki Bertelsen þegar þeir rifu niður veggpappír og þeir vildu reyna að mála Iðnó í sömu mynd aftur eins og Bertelsen hafði málað forðum.
Ýmsir aðrir munir í kirkjunni eiga sér sögu, altaristaflan er eftirmynd Sigurðar málara af upprisunni en fleiri slíkar eru til s.s. í Dómkirkjunni, Hvalsneskirkju og á fleiri stöðum.

Kalfatjorn - hestasteinn

Ýmsir munir hafa verið gefnir kirkjunni s.s skírnarfonturinn, ljósastikan úr birki, ikoninn altarisklæði og dúkur, hökull o.fl. oft til minningar um látna ættingja. Fyrir 1935 var turn kirkjunnar öðruvísi en nú er en þá var hann áttstrendur og þótti mjög fallegur. Söfnuðurinn vildi fá að halda sínum gamla og vinsæla turni, en húsameistari ríkisins og biskup lögðust móti því og því var honum breytt eins og hann er í dag. Hér rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem að Ólafur Erlendsson segir að hafi áður verið undir vegg á tröðinni sem lá upp fyrir garð. Kristján Eldjárn þá þjóðminjavörður taldi hann vera frá kaþólskri tíð og kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir fóru í kirkju.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Móakot; uppdráttur.

Annar steinn, hestasteinninn, er/var á móts við Hátún þ.e. við afleggjarann að kirkjunni hann er með tveimur götum og líklega til að binda hesta við. [Steinn þessi hvarf, en eftir umfjölluna var honum skilað á sinn stað aftur og stendur nú austan megin við heimreiðina að kirkjunni]. Norðan megin við kirkjuna er stór forláta steinhella frá 1669 yfir Erlendi Jónssyni lögréttumanni. sem Björn Th Björnsson, listfræðingur telur vera eftir steinasmiðinn mikla Þorkel Arngrímsson guðsþénara á Görðum á Álftanesi. Verk hans má einnig sjá í kirkjugarðinum á Görðum og á Þingvöllum. Fyrir framan skálann er steinn með ártalinu A°1674 og fannst hér í fjörunni en hann hefur líklega verið við eina sjóbúðina. Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið til margra ára og eftir að það var aflagt eða frá 1920 bjó Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir og börn þeirra á Kálfatjörn. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka.

Kálfatjörn

Kálfatjörn 2023. Bjarg fjær.

Systkinin tóku síðan við og tóku á móti gestum og gangandi alla sína búskapartíð eða þar til að Kálfatjarnarhúsið brann í nóvember árið 1998. Hlaðan er talin vera yfir 200 ára gömul og steinhleðslan einstök, tvöföld þ.e. ytri og innri steinhleðsla og loftbil á milli. Hún hefur haldist vel fyrir utan eitt hornið en upphaflega bakkaði olíubíll á það og síðan einhverjir aðrir og við það riðlaðist hleðslan. Erlendur smíðaði kvist á þakið og fjós við sem nú hefur verið rifið. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999.

Kalfatjarnarkirkja

Ólafur Erlendsson telur að tréverkið þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown en það skip rak á hafi úti fyrir Ameríku í 3 ár áður en það strandaði við Þórshöfn nálægt Höfnum árið 1881. Skipið var talið vera á við fótboltavöll á stærð og svo stórt að önnur skip gátu ekki dregið það að landi og bjargað því. Um borð í skipinu var mikill timburfarmur sem átti að fara í járnbrautargerð. Farmurinn kom sér vel á Suðurnesjum og voru mörg hús smíðuð úr viðnum og enn má sjá nokkur þeirra uppistandandi. Hlaðan þótti mikil bygging á sínum tíma og var nefnd Skjaldbreið. Hlaðan er nú í umsjá minjafélagsins. Fyrir vestan hlöðuna má sjá móta fyrir sjávargötu sem liggur niður í naustin og lendinguna. Við hana er mjög hagalega hlaðinn djúpur brunnur sem talinn er vera með elstu brunnum á ströndinni.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarbrunnur.

Skammt fyrir neðan brunninn lá rásin sem alltaf var full af vatni en tæmst hefur á síðustu árum. Yfir hana sést greinilega steinhleðsla frá fornri tíð. Rásin kom ofan úr heiði og tók oft í sundur veginn eftir að hann kom og bar þá með sér möl sem enn má sjá en rásin hélt síðan áfram niður eftir Goðhólstúninu sem er vestan við Kálfatjarnartúnið en beygði síðan norður neðan Hallhóls og endaði í Kálfatjarnarsíkinu en þaðan rann hún bæði í Kálfatjörnina og út í sjó. Enn sér móta fyrir affallinu. Stundum snéri þetta við á stórstraumsflóði og í vestanátt en þá flæddi inní síkið og jafnvel upp um öll tún. Kálfatjarnarkirkja stóð á hól og stundum var hún eins og á miðri eyju.
Munnmæli herma að fyrrum hafi kirkjan staðið nær sjónum en síðar verið flutt ofar vegna ágangs sjávar og gætu því minjar frá fyrri tíð verið í Kálfatjarnartúninu. Húsið sem stendur neðan við hlöðuna er Norðurkot en það hús stóð aðeins sunnar á Ströndinni og var flutt hingað fyrir stuttu. Í þessu húsi var skóli um tíma eða á árunum frá 1900 – 1911.
KálfatjörnNýstofnað minjafélag Vatnsleysustrandar fékk húsið að gjöf frá afkomendum Erlendar og Kristínar auk ýmissa muna sem þau höfðu geymt þar og segja sögu svæðisins. Tóftirnar sunnan við hina eiginlegu Kálfatjörn sem bærinn dró nafn sitt af eru minjar um sjóbúð sem reist var í tíð Stefáns Thorarenssen og Ólafur lýsti fyrir mér að ömmubróðir hans mundi eftir því að hún rúmaði tvær áhafnir eða um 16 manns. Erlendur á Kálfatjörn var umhugað um að varveita allar minjar og þegar háspennulínan var lögð um túnið á Kálfatjörn notuðu línumenn allt grjót sem komið hafði upp úr túninu til að púkka með staurana og voru byrjaðir að rífa niður steinhleðslur úr sjóbúðinni þegar hann náði að stöðva þá. Hann vildi ekki heldur að þeir tækju steinahrúgurnar því þær voru minjar um hvað fólkið lagði á sig.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóhús.

Nær sjónum eru tóftir af tveimur fjárhúsum og standa þær við Naustakotstjörn og þar hefur Naustakotsbærinn verið og líklega farið vegna ágangs sjávar. Vestan við Naustakot og Kálfatjarnartúnið eru tóftir Goðhóls en þar var búið í torfbæ til ársins 1933. Þar má vel sjá hvernig fólk lifði í byrjun tuttugustu aldar en þar eru tóftir baðstofu og fjósið við hliðina og þar er fjárhús og garðar í kringum kálgarðinn og kartöflubeðin. Goðhólsjörðin afmarkast greinilega af hlöðnum görðum. Á miðjum vestari garðinum eru tóftir bæjarins í Hliði en þar í gegn lá kirkjugatan svokallaða sem að allir kirkjugestir fóru til messu og þar má sjá steinhleðslu yfir rásina sem áður hefur verið nefnd og þar má jafnframt finna klappaðan stein með ártalinu A°1790. Sagnir eru um að allir hafi stoppað í Hliði og fengið sér í nefið og rabbað um landsins gagn og nauðsynjar og jafnvel farið í kirkjufötin þar. Kirkjustígurinn heldur síðan áfram út eftir ströndinn í gegnum Tíðagerði og Norðurkot.
Kálfatjörn Mjög víða eru garðar og vörður og merkar minjar sem tengjast útvegi og gömlum búskaparháttum á Vatnsleysuströnd og gæti ég haldið lengi áfram að segja frá þeim og ýmsu öðru en það verður að bíða betri tíma. Fyrirhugað er að leiðsögumenn bjóði upp á gönguferð í sumar um svæðið og skoða minjarnar. Ég hef nú í þessum pistli mínum tekið saman helstu þætti um muni og minjar á Kálfatjörn. Kirkjan var eins og áður hefur komið fram byggð á árunum 1991-1993 en það voru harðræðisárin sem stór hluti landsmanna flúði til Ameríku. Kirkjubyggingin hefur því verið þrekvirki þess tíma.
Von mín er sú að hið nýja minjafélag með hjálp sóknarbarna og annarra velunnara megi eiga þess kost að varðveita muni og minjar og sagnir þeim tengdar og koma Kálfatjarnarkirkjustaðnum til vegs og virðingar á ný eins og hann var um aldir.
Við lokin hér í kirkjunni vil ég fyrir hönd okkar leiðsögumanna þakka öllum fyrir komuna og Minjafélaginu fyrir samvinnuna og Mark-Hús ehf sem er byggingarfyritæki og eiganda þess Markúsi, sem er nýr landeigandi hér á Vatnsleysuströnd og styrkti okkur, Þorvaldi fyrir sönginn og Jóhanni kirkjuhaldara fyrir greiðviknina. Einnig börnum Oktavíu og Helgu Ragnarsdætra fyrir auglýsingaútburðinn sem og þeim systrum fyrir kaffiveitingarnar. Gjörið svo vel að ganga yfir í þjónustuhúsið og þiggja kaffisopa.“

-Framangreint er úr erindi SFJ á Sagnakvöld í Kálfatjarnarkirkju 19. jan. ´06.

Kálfatjörn

Kálfatjörn.