Saltfisksetur Íslands I
Saltfisksetur Íslands er staðsett í Grindavík, í einungis 32 mín.akstri frá höfuðborgarsvæðinu (21 mín frá alþjóðaflugvellinum í Sandgerði) – rétt bakhandan Bláa lónsins.
Þegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, varð saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngu verið drjúgir við að saltfiskinn og sýningum sögu verkunar og sölu á salfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina.
Sýningin ætti að geta orðið forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr (eða bara frídagabíltúr) með fjölskylduna. Hún ætti einnig að geta orðið liður í að draga upp og efla sjálfsmynd bæjarins og fólksins sem þar býr.
Aðstæður hafa hagað því þannig að ekkert byggðasafn er staðsett í Grindavík. Saltfisksetrið kemur því stað safns og mun án efa verða miðpunktur margvíslegrar menningarstarfsemi heimamanna og að auki aðdráttarafl og upplýsingarmiðstöð fyrir ferðamenn sem sækja staðinn heim.
Gerður var verksamningur milli Ístaks h/f og Saltfisksetursins um byggingu sýningarskála. Sýningarskálinn er 650 m2 að grunnfleti og sýningarsvæði á tveimur gólfum alls 510 m2. Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið í September 2002 og kostnaðarverð samkvæmt verksamningi er um 106,5 milljónir króna. Grindavíkurbær mun verða leiðandi aðili við framkvæmd verkefnisins í samstarfi við stofnendur Saltfisksetursins og aðra styrktaraðila. Hönnuðir sýningarskálans eru Yrki s/f arkitektar Ásdís H. Ágústdóttir og Sólveig Berg Björnsdóttir.
Í framhaldi að þessu var gerður samningur við Björn G. Björnsson sýningarhönnuð um hönnun og uppsetningu sýningarinnar. Saga saltfisksins verður sögð með stórum myndum, hnitmiðuðum texta og fáum en lýsandi munum. Gínur koma í staðinn fyrir fólk í leikmyndinni. Tæknin kemur við sögu þar sem notast er við sjónvörp á gólfum, sýningartjald á vegg, 32” sjónvarp og DVD spilarar tengdir við. Mörkuð er ákveðin leið í gegnum sýninguna og sagan þannig rakin í tímaröð.
Í dag má segja að Saltfisksetur Íslands sé einn áhugaverðasti áfangastaður ferðamanna hér á landi, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda. Ljúflega er tekið á móti hverjum og einum, en auk þess að leiða hann um söguslóðir saltfiskjarins er sá hinn sami og fræddur um nálægar sögu- og minjaslóðir sem og aðra áhugaverða staði í nágrenni Grindavíkur – og þeir eru margir.
Heimild m.a.:
-http://www.saltfisksetur.is/