Sandgerði – skemmri skírn

Másbúðir

Lýsing Sandgerðis einkennist af ESSum, hvort sem litið er til sögu eða staðhátta.

Hjarta

Hjarta Reykjaness.

Sandgerði er staðsett þar sem Sandgerðisvíkin skerst inn í Rosmhvalanes. Skerjaklasi skilur að Sandgerðisvíkina að sunnan (Bæjarskerseyri), en Sundið er á millum. Sýndist sumum siglingin um það stundum þrautarsund fyrrum. Sjávarströndin er sendin og skerjótt. Steinunn gamla sigldi fyrstur staðarmanna inn á svæðið, skuldlaus fyrir stakk. Sjósókn og sauðfjárhald hafa einkennt sveitina frá sköpun. Seinustu misserin hafa skil milli gamalla hverfa beggja vegna Sandgerðis, Bæjarskerja og Flankastaða, skolast út og þau orðið að mestu sambyggð.

Sandgerði

Efra-Sandgerði.

Sandgerðisbærinn gamli er við Sandgerðistjörnina ofan við Sandgerðisvörina. Þar bjó Sveinbjörn Þórðason ásamt sonum sínum. Sumir segja að Sandgerði hafi áður heitið Sáðgerði, samanber kornrækt. Sandfok setti strik í reikninginn, en stórátak í sáningu melgresis á árunum 1930-´50 skipti sköpum. Steyptur sjóvarnargarður 1935 setti stefnuna á ný sóknarfæri í sjávarútvegi.
Sandgerði er stór smábær, með rúmlega sautján sinnum sjötíuogsjö íbúa. Setrið, öðru nafni Fræðasetrið, er í stöðugri sókn. Í Setrinu er ekki bara seli að sjá heldur og settlegan rostung, steina, stoppaða sjófugla, skrautlegar skeljar og smádýr svo eitthvað sé nefnt. Sjónaukar bjóðast þar til skoðunar fugla.
Stofan, eða Náttúrustofa Reykjaness, er undir sama þaki og Setrið. Sækjendum sem og sérfræðingum fjölgar stöðugt.
Skólar eru í Sandgerði fyrir skemmri stigin, sundlaug með sól- og setbekkjum og stækkun íþróttahússins hefur sagt til sín. Sveitarfélagið er í samvinnu um byggingu svæðismiðjunnar þar sem gert er ráð fyrir setu sjórnsýslunnar. Sveinsson fær það aðstöðu.

Hvalsnesgata

Hvalsnesgata.

Skýjaborg er samkomustaður smáfólksins, stráka og stúlkna. Söngvakeppnir eru skipulagðar þar og sjálfhælnir söngvarar, jafnvel prinsessur, sækja í staðinn til setu búa sinna. Sparkfélagið Reynir er í stöðugri framför, enda stuðningurinn stöðugur. Sigurstranglegir og á góðu skriði. Sköpun listar fer fram í listgallerýi og stærðar skírnarkerti, svo dæmi sé tekið, eru framleidd í Jöklaljósi. Skátar standa styrkum stoðum í Sandgerði og stunda staðfastir skátamót landsins.
Sveit Sigurvonar sýnir sjaldnast ónóg viðbrögð, slökkviliðið stendur sig vel og starf sjálfstæðra félaga, s.s. Lions, er stöndugt í Sandgerði.
Smekklegir eldri borgar hafa sannaralega komið sér vel fyrir í sérsmíðuðum húsum og safn bókanna hefur sameinast skólanum. Skil á bókum eru stöðug og haldast í hendur við útlán.

Sandgerði

Sandgerði.

Slitlag er á vegum í og við Sandgerði. Stækkun hafnarsvæðis er stanslaust í gangi, en Suðurnesjafiskmarkaðurinn er staðsettur við höfnina.
Stórfengleg sýn listaverksins Álög eftir Steinunni Þórarinsdóttur er við suðurinnkomuna í Sandgerði. Þar stendur maðurinn andspænis sænum. Listaverkið er til minningar um látna sjómenn, sett upp á afmæli Miðneshrepps 1986.
Sögustaðir eru ófáir – Hunangshella – þar sem skepna var skotin er hún sleikti þar sýrópið, eða var það hunangið. Í Þórshöfn sló í brýnu með Englendingum og Þjóðverjum. Þórshöfn var einn helsti verslunarstaður þjóðverja á 15. og 16. öld. Skipakomur hófust þangað á ný á 19. öld . Jamestown strandaði þar 1881. Skipið var með allra stærstu seglskipum sögunnar. Sagan segir og að bellestin hafi verið silfurgrýti. Hugsanlega er silfursjóður þar á sjávarbotni.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Básar eða Bátsendar hýstu útgerð og verslun. Um siðaskiptin tók Viðeyjarklaustur útgerðina í sínar hendur. Skúli fógeti deildi þar við einokunarkaupmann danskan. Sjávarflóð 1799 lagði staðinn af.
Sakamenn voru hengdir í Gálgum, segir sagan.
Stafnes, fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld. Þar strandaði Jón forseti 1928. Slysið leiddi til stofnunar slysavarnafélagsins Sigurvonar í Sandgerði og síðar Slysavarnarfélags Íslands.
Steinn Steinunnar Hallgrímsdóttur er Í Hvalsneskirkju. Altaristaflan er eftir Sigurð málara.

Melaberg

Melaberg.

Á Melabergi segja sumir að sonur ekkju hafi orðið strandarglópur á skeri Geirfugla, en bjargast ári síðar. Sór sá fyrir faðerni barns sækvynnu úr skerinu. Steyptist hann þá í Stakksfjörð þar sem nú stendur Stakkur.
Másbúðir eru m.a. kunnar fyrir fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar og Fulgavík safnaði fólk sölum samhliða fiskveiðum og notaði í skepnufóður.
Hér segir einungis af skemmriskírn Sandgerðis. Vilji sagnasjóðir sækja í safaríkara efni er best að leita í Setrið, þar sem allt slíkt fæst svo að segja ókeypis.

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.