Selgjá (Norðurhellagjá) 11 sel – nyrðri hluti
Gengið var um Selgjá, eða Norðurhellagjá (Norðurhellragjá), eins og hún jafnan var nefnd. Gjáin dró nafn sitt af fjárhellum norðan hennar, en þeir voru jafnan nefndir Norðurhellar (Norðurhellrar).
Síðar voru þeir aðgreindir og var þá hellir, sem er norðan úr Gjánni nefndur Selgjárhellir og hellar þar skammt vestur af nefndur Sauðahellirinn nyrðri og Sauðahellirinn syðri. Fyrrnefndi hellirinn gekk um tíma einnig undir nafninu Þorsteinshellir frá því að Þorsteinn Þorsteinsson í Kaldárseli nýtti hann um aldarmótin 1900. Sá hellir er fallega hlaðinn niður og tvískiptur.
Hleðslur eru á mörgum stöðum beggja vegna í vestanverðri Selgjá. Vel sést móta fyrir a.m.k. þremur seljum enn þann dag í dag, en talið er að þau hafi verið allt að 11 talsins þegar mest var.
Rústirnar sjást sumar vel, en aðrar ver. Flest hafa selin verið minni í sniðum en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa fast upp við gjárbarmana. Selstaða þarna er nefnd í Jarðabók 1703 og virðist skv. henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Í öllum heimildum er talað um selstöðu þarna í þátíð svo hún virðist vera mjög gömul. Stekkir og kvíar, sem voru hlaðnir, sjást greinilega á flestum staðanna.
Eins og kunnug var búsmalinn hafður í seli á sumrum frá fráfærum til tvímánaðar. Þangað var farið með allan ásauð og stundum kýr. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskonan) og ef fé var mjög margt hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Smalinn átti að sjá um að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum til þess að það yrði mjaltað. Sniðugur smali kom sér upp nátthaga til að fé hlypi ekki út og suður á meðan hann hallaði sér um stund á annað eyrað.
Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús, selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Vatn er ekki að finna í Selgjá, en hins vegar er gott vatn í Vatnsgjánni í Búrfellsgjánni, sem er þarna skammt sunnar. Í raun er Selgjáin og Búfellsgjáin hluti af sömu hraunrásinni frá Búrfelli, en vegna misgengis og ris landsins hafa þær aðskilist a.m.k. hvað hæðarmismuninn varðar.
Eftir gjánni lá Norðurhellagjástígur austur með gjánni. Við austurbrúnina er steinn með merkinu B. Annar samskonar steinn fannst skammt norðar, en snúa þarf honum við til að kanna hvort á honum er einnig merki. Steinar þessi hafa verið reistir upp á endann og “púkkað” með þeim. Telja má líklegt að þarna geti hafa verið um hestasteina að ræða, en erfitt er um festur þarna annarss staðar. Stígurinn liggur síðan upp úr gjánni sunnan syðstu seljarústanna.
Gengið var eftir Norðurhellagjárstíg suður með austanverðir gjánni og síðan áfram þangað til komið var á móts við syðstu rústirnar að vestanverðu. Gengið var yfir að þeim og m.a. litið inn í fjárhellinn, sem þar er. Í honum eru hleðslur. Bæði norðan hans og austan eru talsverðar hleðslur. Síðan var haldið norður með vestanverðum barminum og endað á upphafsstað. Á leiðinni var alltaf eitthvað sem bar fyrir augu. Hellarnir norðan og vestan gjárinnar voru ekki skoðaðir að þessu sinni, enda stutt síðan litið var á þá.
Gangan tók um 1 og ½ klst.