Selstígur – Nátthagi – Nátthagaskarð
Í þessari ferð var 130. selið á Reykjanesi skráð (af ~400), en ekki er þó svo langt síðan að FERLIR flaggði á 100. selinu, sem skoðað var á svæðinu (Merkinesseli).
Gengið var um “Hellisvörðustíg” vestan við Víðisand í Stakkavíkurhrauni, sunnan Hlíðarvatns. Stígurinn, sem er augljóslega mjög gamall, er varðaður á helluhrauninu og víða greyptur djúpt í klappirnar þar sem hann liggur skammt ofan við ströndina. Hraunið skammt vestar rann um 1350 og rann þá að hluta yfir stíginn vestan við Stakkavíkurhraunið. Stuttu áður en komið var að hraunkantinum skiptist stígurinn. Neðri stígurinn liggur á klöppunum skammt ofan við ströndina. Þar er hann einnig greyptur í bergið. Nýrri stígur, sá sem farinn var á síðari öldum, liggur ofar í gegnum nýrra hraunið og upp fyrir það milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur.
Gamli stígurinn (Fornagata) í gegnum apalhraunið nýrra hefur þó legið alveg við ströndina, en sjórinn tekið hann að hluta. Þó má sjá hvar hann kemur undan sjávarbarningnum neðst í gróinni kvos skammt austan Mölvíkurtjörn og liggur síðan áfram úr henni áfram áleiðis að tjörninni. Þar eru víða minjar, bæði tóftir og hleðslur, s.s. byrgja og garða.
Frá nýrri hraunkantinum var gengið að Hlíðarvatni og áfram upp að Stakkavíkurborg. (Stakkavíkursvæðinu er lýst í annarri FERLIRslýsingu). Borgin er heilleg og fallega hlaðin og um hana er hlaðið gerði. Frá henni var gengið upp á Selstíginn ofan við Höfða. Neðar í höfðanum eru tóftir tveggja fjárhúsa frá Stakkavík. Í Höfðanum er Álfakirkjan, stór steinn, sem Stakkavíkurbræður hafa lýst og tengist draumi eins þeirra.
Upp frá Höfðanum liggur Selsstígurinn upp á brún Stakkavíkurfjalls. Gangan upp tók um stundarfjórðung.
Þegar upp var komið tók varða á móti göngufólkinu. Við hana greinist stígurinn, annars vegar til austurs að austurjarðri hraunbrúnarinnar og hins vegar áfram upp tiltölulega greiðfært apalhraun. Öllu hærra og úfnara hraun er þarna skammt vestar. Stígnum var fylgt áfram upp í gegnum hraunið eða þangað til stígarnir sameinuðust við hraunröndina. Stakkavíkurselstígnum var þá fylgt áfram upp með honum til norðurs. Efst á holti í fjarska sást í vörðu. Undir því átti Stakkavíkurselið að vera skv. lýsingu Þórarins á Vogsósum, en hann hafði bent á vörðuna og að nægilegt væri að stefna á hana til að finna selstöðuna.
Stígnum var fylgt upp í Dýjabrekkur og áfram upp í Grænubrekkur. Þar var beygt út af stígnum til austurs og stefnan tekin á vörðuna. Fallegur stekkur er í brekkunum neðan við selið, sem er utan í grónum hól. Í því eru tvær tóftir og við þær holur hraunhóll með hlöðnum stekk framan við. Í hólnum er hin ágætasta vistarvera. Sennilega er hann ástæða þess að selstöðunni var valin þessi staður. Vestan selsins er hlaðin kví og nýlegra skotbyrgi refaskyttu. Ofar í holtinu er hlaðinn stekkur sem og hleðslur fyrir opi í klofinni hraunbólu.
Á leiðinni niður brekkurnar, vestan stekksins, var gengið fram á tóftir enn eldra sels, svo til fast við Stakkavíkurselstíginn., en hann liggur þarna áfram uppeftir og beygir síðan áleiðis að Vesturásum, að Hlíðarvegi (vetrarvegi Selvogsgötu). Við gatnamótin eru þrjár vörður. Þessar seinni tóftir eru greinilega mjög gamlar.
Frá selinu var gengið til suðvesturs yfir Selvogshraunið. Það er ekki auðgengið vegna þess hve grámosinn er þykkur og hraunið bugðótt og hólótt. Þegar komið var út úr því að vestanverðu var gengið hiklaust að neðra opi Nátthaga og það varðað. Síðan var gengið að efra opinu, stórtu jarðfalli og það einnig varðað. (Sjá aðra lýsingu af ferð um Nátthaga). Haldið var niður í jarðfallið og upp eftir hellinum vinstra megin. Hann var mjög víður og hár í fyrstu, en talsvert hrun er fremst í efri hluta hans. Neðri hlutinn er svipaður, en öllu umfangsmeiri. Rásinni var fylgt upp að rásmótum, Þar var beygt til hægri, niður með fallegri hrauná. Hellirinn víkkar aftur og liggur í boga að jarðfallinu. Nátthagi er fallegur hellir, sem er vel þess virði að skoða.
Á bakaleiðinni áleiðis niður Nátthagaskarð (næsta skarð vestan við Selskarð) var kíkt inn á “Annar í aðventu” sem og í Halla (Stakkavíkurhelli) ofan við skarðið að vestanverðu.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 4 klst og 4 mín.