Selvogs-Jói

 Jóhann Selvogsingur (Selvogs-Jói) er fyrir löngu orðinn þjóðsagnarpersóna á Reykjanesskaganum – og það í lifandi lífi. Hann hefur á fjölmörgum ferðalögum sínum um svæðið tekist á við stríðandi náttúruöflin, válynd veður, útilegufólk, vætti og drauga – og jafnan haft betur. Auk þess talar hann við álfa og bæði hlustar á og skilur dýramál betur en nokkur annar. Margar sögur hefur Jói, eins og hann er jafnan nefndur, eðlilega sagt af ferðum sínum Jói á Sveifluhálsiog aðrir hafa sagt sögur af honum. Flestar eru þær lyginni líkastar, en þeir/þau, sem hafa orðið vitni af atvikum þeim er sögurnar lýsa, vita betur. Það er jú jafnan sagt að “sá sem ekki upplifir af eigin raun skilur ekki baun”.
Þegar t.d. draugurinn Tanga-Tómas á Selatöngum birtist þar eitt sinn innan um hóp ferðalanga, sem Jói var að leiðsegja, öllum að óvörum brast örskotsskyndilega flótti á hópinn (vægast sagt), en Jói sneri sér hins vegar rólegur að Tómasi, horfði hvasst í tómar augntóftir draugsa, beindi fumlaust og ákveðið vísifingri hægri hendi að honum og síðan hægt og rólega, en ákveðið, niður á við. Tómas varð bæði svo upptekinn og hugfanginn af bendingunni að hann seig óafvitandi niður undir fjörugrjótið án þess að taka eftir því. Þetta gerðist allt á örskotsstundu, svo snart að varla var á auga festandi. Það tók hins vegar u.þ.b. klukkustund af ná skelkuðu fólkinu saman. Það mun nú hafa jafnað sig að mestu.
Í annarri ferð um Selatanga náði Tanga-Tómas öllum að óvörum í hækil Dóru Ingólfsdóttur, þess frækna rannsóknarlögreglumanns, kippti snöggt í hækil hennar og sleit sinina án þess að nokkrum vörnum væri við komið. Jói sá hvað var að gerast. Til að koma í veg fyrir fleiri atlögur draugsa greip hann þverhertan þorskhaus, sem hann hafði við brjóst sér og ætlaði til nestis, sló með honum í áttina til hans og hvessti brýrnar. Við það brá Tómasi svo mjög að hann rak í vöðlur, snarsnerist án þess að sjá sitt vænna og lét sig hverfa. Við þetta varð þorskhausinn svo forhertur að hann reyndist óhæfur til átu. Liggur hann enn við eitt þurrkbyrgið á Selatöngum. Jói hefur gjarnan sýnt hann til vitnis um atburðinn þegar hann hefur verið að ferðalanga fólk um svæðið. Af Dóru er það að frétta að hún gekk skamman tíma við hækju og greri síðan sára sinna. Þykir hún nú jafngóð eftir – ef ekki betri.
Saga er af Jóa er hann kom útilegumönnum að óvörum í helli við Kleifarvatn. Hann var þá á ferð með valdar maddömur úr Selvognum. Jói, Jói í Krýsuvíkurkirkjusem var orðinn þreyttur eftir langa hvunnstarfsdagsviku, hafði dormað í rútunni um stund þegar ekið var í niðardimmri þoku eftir Krýsuvíkurveginum, meðfram vatninu. Undir Hellum reis hann skyndilega glaðvaknaður upp úr sæti sínu og skipaði bílstjóranum að stöðva þegar í stað. Að því loknu bað hann bílstjórann að opna dyrnar. Síðan sté hann út mót lóðréttum móbergsvegg og aðrir fylgdu í kjölfarið. Jói gekk hiklaust inn um op á veggnum – og hvarf sjónum samferðafólksins. Stuttu seinna komu út um opið æpandi gæruskinnklædd fólkslíki, greinilega á hraðferð. Það hvarf inn í þokuna. Þegar betur var að gáð mátti inni í helli, sem þarna var, sjá bæli útilegufólksins; skinnfleti og jafnvel skraut á veggjum. Um þetta geta átján konur vitnað.
Dæmi eru um að Jói hafi brugðið sér í hin ólíklegustu gerfi. Þannig gat hann orðið stærri en hæstu gnýpur eða minni en hin minnsta arða. Ein áhrífaríkasta sagan, og sú trúverðugasta, er þó er hann hélt í einni ferð sinni um Reykjanesskagann tölu í Krýsuvíkurkirkju. Eins og flestir vita hefur kirkjan sú komið við sögu ýmissa atburða um aldir.
Eiríkur Magnússon, Krýsuvíkurkirkjagaldraprestur á Vogsósum (vígðist til Selvogsþings 1677) þjónaði henni t.a.m. um tíma og eru frægar þjóðsögur honum tengdum, s.s. af komu Tyrkjanna. Tók séra Eiríkur á móti þeim sunnan við kirkjuna og atti þeim með göldrum hverjum að öðrum er endaði með láti þeirra. Komst séra Eiríkur svo kurteislega að orði að ef ekki hefði verið fyrir messugjörðina og sunnudaginn hefði hann mælst svo um að þeir hefðu etið hvern annan. Lík ræningjanna ku vera dysjuð í Ræningjahól sunnan kirkjunnar.
Þetta er rifað upp og sagt vegna þess að uppstigu Jóa í prédrikunarstólinn á leið sinni um svæðið. Honum fannst ferðalangarnir áhugalausir og ákvað því að nota tækifærið og messa duglega yfir þeim. Til að gera langa sögu stutta má segja að það megi teljast mikil mildi að stólræðan varð ekki lengri en raunin var á – því bæði opnaðist utanliggjandi gröf og litlu átti muna að jörðin gleypti kirkjuna með hurðum og gluggum. Viðstaddir þökkuðu því sínum sælu fyrir að komast út heilu og höldnu. Áhugi þeirra var vakinn. Enn í dag má sjá hvernig Krýsuvíkurkirkja hallar á grunninum.
Þess ber að geta að hér er einungis sagt frá brotabroti þeirra ótrúlegu atvika er raunverulega hafa gerst á umliðnum árum.

Heimildir:
-Vottar og vitendur.

Sögusviðið