Selvogsgata – Grindaskörð
“Þetta var æði”. Svona hljómaði ein lýsingin á ferðinni að henni lokinni.
Gengið var inn á Selvogsgötu við Bláfjallaveg, en beygt út af henni til austurs skömmu síðar. Ætlunin var að feta Grindarskarðsgötuna upp að Stórabolla og síðan áfram áleiðis til suðurs. Venjan er að ganga Selvogsgötuna upp Kerlingarskarð og síðan áfram hana með Draugahlíðum, niður með Austurásum og síðan niður Hlíðarskarð. Þetta var ekki ferð um hefðbundna leið. Þetta var ferð um gömlu Selvogsgötuna eða Suðurfararleiðina eins og Selvogsbúar nefndur hana, en hún er liggur austar en Selvogsgata sú (stundum nefnd Hlíðarvegur) er kemur upp úr Kerlingarskarði og liggur niður með Draugahlíðum, að Hlíðarskarði.
Þegar komið var að jeppaslóðinni neðst í Grindarskörðum sást hvar hann liggur á gömlu götunni að hluta. Þegar komið var u.þ.b. þriðjung upp hlíðina beygði gamla gatan til hægri og síðan í hlykki upp hana. Auðvelt var að fylgja henni í hlíðinni því hún var mjög greinileg á köflum. Auðsýnt var að um hestagötu var að ræða. Gatan liggur að vörðu á hraunöxl svo til í miðri hlíðinni og síðan liðast hún áfram upp hana.
Gatan hverfur þar sem vatn hefur lekið niður hlíðina og rutt með sér möl og grjóti, en kemur síðan í ljós í næst efstu brekkunni undir Stórabolla. Skammt neðar er varða. Þar liggur hún á ská upp hana og hefur greinilega verið löguð til. Efst við rætur Stórabolla er skarð í klöppina þar sem gatan liggur í gegn. Við skarðið er varða.
Gangan upp í skarðið var auðveld, tók u.þ.b. 35 mín. í stað 50 mín. upp Kerlingarskarðið. Þaðan liggur gatan með gígnum að austanverðu og beygir með honum að sunnanverðu. Þar liggur hún til vesturs um gróna velli. Leifar gamallar girðingar er sunnan við Stórabolla. Hún liggur til vesturs og hefur verið hlaðið undir hana á kafla. Skömmu síðar var komið að gatnamótum.
Vörðuð leið lá til suðausturs að Stórkonugjá og önnur til suðurs. Eystri gatan er að öllum líkindum Heiðarvegurinn er liggur þaðan um Heiðina há og yfir á Ólafsskarðsveg. Vestari götunni var fylgt yfir slétt helluhraunið áleiðis að Litla-Kóngsfelli.
Veður hafði hangið þurrt þangað til komið var suður fyrir Stórabolla. Þá léku litlir regndropar sér að því að falla ofurvarlega lóðrétt til jarðar. Golan virtist hafa gufað upp. Stillilogn og bráðfallegt veður. Miðbolli og Kóngsfellið böðuðu sig í heiðskírunni og dulrænum bjarma sló á Draugahlíðarnar. Spóavellingur fyllti loftið. Kistufellið vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja til að gera þennan dag ógleymanlegan. Hvítur snjókollurinn reis hæst upp úr nágrannahlíðunum, eins og hann vildi að eftir honum væri tekið. Svona eiga háir tindar að haga sér.
Komið var að hárri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá við hana frá Selvogsgötunni og áleiðis yfir á Heiðarveginn.
Grindarskarðsgatan hélt áfram frá henni til suðurs. Hún var æ meir áberandi. Kastað hafði verið úr götunni á köflum – greinilega hesta- og lestargata. Hún lá niður með Litla-Kóngsfelli. Suðvestan við fellið, þar sem suðurgígur þess opnast, var komið að mótum þriggja gatna. Þrjár vörður voru við þau. Ein gatan lá áleiðis til norðvesturs að Selvogsgötu þar sem hún liggur efst við Draugahlíðar, önnur lá til suðausturs og sú þriðja til suðurs. Síðastnefnda gatan var greinilega framhald af þeirri, sem fylgt hafði verið ofan frá Grindarskörðum. Hún var mjög áberandi og greinilega mikið notuð fyrrum. Kastað hafði verið upp úr götunni svo djúp för höfðu myndast. Tekið hafði verið úr hraunhöftum og gatan greinilega gerð eins greiðfært og unnt var. Henni var fylgt niður með hraunkanti sunnan Litla-Kóngsfells.
Komið var að talsvert miklu gili í hlíðinni á vinstri hönd, sem vatn hafði mótað. Lækjarfarvegurinn var nú þurr, en einhvern tímann hefur verið þarna mikill lækur er streymt hafði niður með austanverðu apalhrauni, sem þarna er á hægri hönd. Loks hefur vatnið staðnæmst í krika og væntanlega myndað þar talsverða tjörn. Moldarbotn benti til þess að þarna hafi verið allnokkurt vatn fyrir ekki svo löngu síðan. Á kortum heitir þarna Stóri-Leirdalur. Gatan lá niður með lækjarfarveginum.
Nokkru neðan við gilið skiptist hún í tvennt. Stígur lá til vesturs í gegnum apalhraunið þar sem það var mjóst og yfir á Selvogsgötuna (Hlíðarveg, einnig nefndur vetrarvegur)) þar sem hún krækir fyrir nef hrauns er runnið hefur úr Draugahlíðargígnum skammt þar fyrir ofan.
Varða er við hraunið þar sem stígurinn kemur út úr því. Hestagatan lá hins vegar áfram niður með hraunkantinum, fyrir hraunrana og síðan skiptist hún í tvennt; annars vegar liggur hún vestur og niður með Hvalhnúk og Austurásum og hins vegar áfram um Hvalskarð, með fallegum sneiðingi niður Litla-Leirdal, niður í Hlíðardal, um Strandardal, framhjá Kökuhól og áfram áleiðis niður í Selvog.
Fyrrnefnda gatan kom inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg) efst við vestanverða Austurása. Tvær vörður eru þar sem göturnar koma saman. Þaðan í frá liggur Selvogsgatan niður heiðina, áleiðis niður að Hlíðarskarði, vel vörðuð. Svo er að sjá sem Selvogsgata, eins og hún er vörðuð í dag, sé önnur og nær Draugahlíðum en sú, sem sýnd er á gömlum uppdráttum. Sú mynd, sem þeir sýna, fellur betur að þeirri götu, sem lýst er hér að framan. Áður en komið er niður brekkuna vestan Austurása liggur gata þar til vesturs. Þrjár vörður eru þar við og ein þeirra fallin. Þarna gæti verið um að ræða Stakkavíkurselstíginn er liggur væntanlega út með Vesturásum sunnanverðum og síðan til suðurs að Selsstíg ofan við Höfða norðvestan við Hlíðarvatn.
Í stað þess að fylgja Selvogsgötunni (Hlíðarvegi, vetrargötunni) áleiðis niður að Hlíðarskarði var gömlu hestagötunni fylgt niður Hvalskarð og áfram niður í Strandardal. Lítið er um vörður á þeirri leið, en hins vegar liggur gatan nokkuð vel við landslaginu. T.d. er um gróna velli er að fara í Litla-Leirdal. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnúkur, mjór og allhár. Ólafur Þorvaldsson segir þjóðsöguna kveða á um að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur.
Undir hraunklettum vestan við götuna er komið er niður í Strandardal er Dísurétt. Slóði liggur upp í Strandardal, en gatan er liggur niður úr dalnum skammt vestan hans. Þar liggur hann áfram áleiðis niður að Strandarheiði, en girt hefur verið þvert fyrir hann.
Í fyrri FERLIRsferðum, þar sem gatan var rakin neðan frá Selvogi og áleiðis upp að dalnum, sést hún vel þar sem hún liggur upp heiðina. Við hana á einum stað er tóft, sem ekki er vitað hvaða tilgangi hefur þjónað.
Gengið var til vesturs með girðingunni þegar niður úr dalnum var komið. Valgarðsborg er innan girðingar svo hún var ekki “heimsótt” að þessu sinni. Hlíðarsel er norðan borgarinnar. Hlíðarborg er hinsvegar “réttu megin” girðingar svo hún var barin augum. Frá borginni liggur gata. Við hana eru litlar gamlar vörður, sumar fallnar. Gatan sést vel af og til þars em hún liggur til vesturs niður heiðina, áleiðis að Hlíð. Henni var fylgt, m.a. framhjá hellinum Ána. Talsverðar hleðslur eru umhverfis opið. Einnig eru hleðslur sunnan við opið og norðan. Ekki er vitað annað en að hlaðið var um opið til þess að varna því að fé leitaði skjóls niður í hellinum.
Gatan liggur áleiðis að borginni undir Borgarskörðum, svonefnd Hlíðargata skv. örnefnalýsingu. Hún hefur verið vegleg á sínum tíma. Bæði hún og Hlíðarborgin eru hlaðnar vestan undir hraunkletta í heiðinni. Neðan borgarinnar undir Borgarskörðum eru tóftir tveggja húsa utan í klettum, sennilega beitarhúsa frá Hlíð.
Gangan endaði síðan við einn bæjarhól bæjarins að Hlíð. Eldri tóftir eru norðan við þjóðveginn sem og á tanga sunnan við veiðihús SVFH, en útihús eru vestar með vatninu og hafa þau sennilega tilheyrt bænum, sem var við núverandi veiðihús.
Í örnefnalýsingu segir að Hlíð hafi verið fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Gamli bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Þessi ganga var á Jónsmessunni. Þjóðtrúin kveður á um um ýmsa dytti henni samfara. Án þess að ætla að fjalla í löngum texta um álfa og huldufólks, ekki sést á nefndu kvöldi, er rétt að geta þess, að sá sem ekki trúði á álfa og huldufólk áður en hann lagði af stað í þessa ferð, gerir það núna. Borgarskörð draga ekki nafn sitt af fjárborginni undir Skörðunum heldur háum og virðulegum klettastandi skammt ofan við skörðin. Hann sést vel þegar gengið er að skörðunum ofan frá, en gæta þarf þess vel að fylgja kennileitum því annars…
Í lýsingu einni um þennan áfanga Selvogsgötunnar kemur eftirfarandi m.a. fram til frekari glöggvunar:
„Selvogsgatan er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs og hefur líklega verið farin frá því að menn settust að í Selvogi. Þetta er skemmtileg leið um áhugavert landsvæði og hollt er að leiða hugann að þeim aðstæðum sem forfeður okkar þurftu að takast á við til þess að draga björg í bú.
Áfram er haldið um skýra götu sem hófar hestanna hafa markað í tímans rás. Framundan eru Lönguhlíðar og Grindaskörð. Stóribolli og fleiri bollar blasa við en þeir hafa verið notaðir sem mið af sjó. Þegar í Grindaskörð kemur er gott að líta til baka og horfa yfir leiðina sem lögð hefur verið að baki og sjá hvað gatan er mörkuð í mosann og klöppina.
Frá Grindaskörðum er stefnt að litlu fjalli með stórt nafn, Kóngsfell, en það mun bera nafn af fjallkóngi þeirra í Selvogi. Þarna greinist leiðin og kallast vestari leiðin Hlíðarvegur sem skiptist síðar í Stakkavíkurveg. Haldið verður austustu leiðina sem er hin eiginlega Selvogsgata eftir greinilegum götum um Grafning og Stóra-Leirdal þar sem menn áðu ávallt þegar þeir áttu þarna leið um og fengu sér nesti og kannski smá brjóstbirtu. Síðan verður gengið upp í Hvalskarð eftir Hvalskarðsbrekkum með Urðarfelli að Hlíðarvatni.
Tröllkona ein nappaði sér hval í Selvogi en til ferða hennar sást. Hún var elt og náðist þarna í skarðinu. Af fjallinu fyrir ofan Hlíðarvatn er fagurt útsýni. Þaðan sér yfir þessa afskekktu byggð Selvoginn, til Strandarkirkju og vitans. En það sem fangar augað er djúpblátt og óravítt hafið“ – (úr leiðarlýsingu Útivistar).
Við leiðarlýsinguna er rétt að bæta við ferðum námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þeir munu hafa farið ýmist um Grindarskörðin Eða Kerlingaskarð með hestalestir sínar. Leiðir liggja frá skörðunum að námunum, bæði ofan við Draugahlíðar og neðan.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.