Selvogsleið – Grindarskarðsvegur – Námuhvammur

Kerlingarskarð

Ætlunin var að feta Selvogsgötuna (Suðurfararveg) um Kerlingarskarð og skoða mögulegar leiðir námumanna inn í Námuhvamm í Brennisteinsfjöllum á árunum 1883-1885.
Brennisteinsvinnsla var Kerlingarskardtekin upp á svæðinu á þessum tíma í framhaldi af endalokum Krýsuvíkurnámanna 1880. Bretar þeir er þar voru við stjórn undir handleiðslu Patersons ákváðu að reyna Fjöllin til þrautar, en torleiðið reyndist þeim fjötur um fót. Allar minjar brennisteinsnámsins í Fjöllunum (en svo voru þau nefnd fram að vinnslunni) eru frá þessum tveimur árum. FERLIR hefur um áratug reynt að staðsetja götur inn í námurnar ofan Skarða með takmörkuðum árangri. Þó má, ef vel er að gáð, bæði sjá götukaflann upp með sunnanverðum Kerlingarhnúk, kafla milli Draugahlíða og Kerlingahnúks (-a), upp ás að Lönguhlíðarfjallstjörn og síðan á ská til suðurs áleiðis að Námuhvammi.

Brennisteinsnamur

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a.: „Eftir lægð norðan Draugahlíðar liggur Námastígurinn stígur sem liggur af Grindaskarðavegi [hér eru Skörðin sögð vera fleiri en eitt] í vestur um ónafngreinda staði, utan hvað hann liggur hjá Lönguhlíðarfjallstjörn, sem er lítið vatnsstæði og þrýtur þar aldrei vatn. Stígurinn liggur niður í Námahvamm sem er fallegur hvammur snýr móti suðri. Austast um hvamminn rennur lítill lækur Námahvammslækur. Á bala í hvamminum sér enn rúst Námamannaskálans. Á brún þessa hvamms eru Námahvammshverirnir, allmargar volgrur með svolitlu rennsli. Neðar eru svo Brennisteinsnámurnar, í hraunkvosum og má enn sjá nokkurt magn brennisteins, sem ekki hefur verið fluttur til Hafnarfjarðar. Gjallhaugar eru hér miklir frá námunum.“
Konráð Bjarnason 1993 lýsir Suðurfararveginum milli Selvogs og Hafnarfjarðar: „Vestan við apalhrauntunguna lá vegurinn upp á Kerlingarskarð í allsnörpum halla, vel ruddur á tímum lestarferðanna sem og vegurinn yfir nefnda hrauntungu. Þá verður að taka fram að girðing sú sem títt er nefnd í nútíma var enn í þekkt á tímum lestarferðanna því hún var uppsett vegna mæðiveikivarna á stríðsáratugnum.

Brennisteinsnamur-2

Þá verður að minnast þess að hér skárust saman í sömu uppgöngu á Kerlingarskarð, Eystri leið eftir Katlahrauni og Vestri leið upp Selsstíg frá Herdísarvík og Stakkavík. En rétt áður en við beygðum upp á Skarðið blöstu við á vinstri hönd Draugahlíð og framhjá þeim í vestur sér til Eldborgar. En nær nefndri hlíð er að finna leifar af brennisteinsvinnslu Breta á púðurskots- og hernaðarárum þeirra.
Þegar lest okkar er komin á norðurbrún Grindarskarða rétt ofan við Kerlingarskarð blasir við augum víð og fögur sýn allt til þéttbýliskjarna á strönd hins fagurbláa Faxaflóa og til Akrafjalls og Esju í norðri, nær okkur Helgafell og Húsfell. Og enn nær okkur hið mikla helluhraun sem verður illþyrmislega úfið neðan undir Kerlingarskarði.
DraugahlidargigurÞað er í fyrsta sinn sem nú við 12 ára aldur lít augum hina kvöldfögru strandbyggð Faxaflóans og óraði ekki fyrir því að þar myndi um hálfraraldar skeið æfi minnar renna. Á háskarði höfðum við verið um 5 klukkustundir á ferð úr heimabyggð.
Fyrir niðurgöngu Kerlingarskarðs er litið eftir klyfburði á hestum og gjarðir enn hertar. Við niðurgöngu var sýnt að gatan var vel valin í sveigum og nú vel rudd og vel tókst hinum vönu burðarhestum að spyrna framfótum sínum til móts við aðstæður. Lestinni farnaðist því vel niður aðalbrattann.“
Ólafur Þorvaldsson segir í Árbók Hins íslenska fornleifafélags eftirfarandi um brennisteinsnámið í Fjöllunum: „Austur af Stórkonugjá skammt fyrir norðan veginn er Kóngsfell. Þar koma saman lönd Gullbringusýslu og Árnessýslu.
Þegar komið er austur af Brennisteinsnamur-3fjallshryggnum er komið að afarstórri hraunbreiðu. Tvær vörður eru þar við götuna og skiptast þar leiðir, liggur austasta leið til Selvogs, miðleiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur, ens ú þriðja, sem nú er sjaldan farin, liggur til Brennisteinsfjalla suðurmeð Draugahlíð. Var það leið þeirra manna sem brennisteinsnám stunduðu í Brennisteinsfjöllum þegar þeir fóru um helgar til Hafnarfjarðar, því að flestir af þeim áttu þar heima, en mest var þessi leið farin af þeim sem fluttu brennisteininn til Hafnarfjarðar, og var hann fluttur á klökkum. Hafnfirðingum, sem hesta áttu, svo og bændum þar í grennd, var að einhverju leyti gefinn kostur á þessum flutningum og skyldu þeir fá eina krónu á hestburðinn í flutningsgjald. Ferðin mun hafa tekið 12-14 klst. Eitthvað mun þessu hafa verið sinnt, þrátt fyrir þetta lága gjald, sem að lokum reyndist samr félaginu ofvaxið. Þetta var á síðari hluta nítjándu aldar.“
Brennisteinsnamur-4Eftir að hafa skoðað námurnar var gengið til baka um
eðlilegan framangreindan ofanlegg á sunnanverðum Draugahlíðum frá Námuhvammi. Leiðin er mjög greiðfær, en nokkru lengi en ef farið væri beint upp úr Námuhvammi og inn með vestanverðum Drauga-hlíðum. Ekki markar fyrir götu á þessum kafla, en horfa verður til þess að námutímabilið í Brennisteinsfjöllum varði einungis í örfá misseri á árunum 1883 til 1885, líklega þó bara í eitt og hálft ár í mesta lagi. Umrótið í námunum sem og lítil ummerki að öðru leyti gefa það a.m.k. til kynna.
Á göngunni upp með austanverðum Draugahlíðum var gengið fram á eina vörðu á lágum hraunhól í stefnu til austurs af Draugahlíðargíg (Bláfeldi). Varðan vakti upp þá vitund að varla hafi gefist tími til vörðugerðar á framangreindum leiðum inn í námurnar nema á lykilsstöðum, s.s. við Lönguhlíðarfjallstjörn (sumir hafa nefnt hana Kerlingarpoll). Leiðirnar, hvort sem farið er neðan Draugahlíðar, eru mjög greiðfærar bæði hestum og mönnum.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir:
-Kornráð Bjarnason, Suðurfararvegur, Selvogi 1993.
-Ólafur Þorvaldsson, Árbók fornleifafélagsins 1943-48, Grindaskarðsvegur (Selvogsleið), bls. 98-99.

Námuhvammur

Tóft í Námuhvammi.