Strandardalur

Selvogsgatan frá Selvogi til Hafnarfjarðar liðast um Strandardal og Hlíðardal á leið sinni milli byggðalaganna.
Þegar komið er upp á efstu brún Strandarheiðarinnar verður Strandamannahliðið (Suðurfararhliðið) síðasti áfangi hennar áður Gatnamót Selvogstötu og Vogsósargötu við Suðurfararhliðiðen lagt er á brún Kötlubrekkna upp í Strandardal. Ofan hliðsins greinist gatan; annars vegar til Selvogs/Hafnarfjarðar og hins vegar að og frá Vogsósum. Gatnamótin eru augljós, en ekki er þó svo með öllu villuljóst að fylgja Vogsósagötunni um heiðina að um sannleiksgötu megi úr gera. Þó má bæði sjá vörður og vörðubrot á leiðinni. Hlíðargata er leið út af þessum götum að Hlíð. Sú gata er vel greinileg þar sem hún liggur undir hlíðinni að bæjartóftunum ofan við Hlíðarvatn. Allnokkra minjastaði má sjá á leiðum þessum, s.s. Hlíðarsel, Hlíðarborg, Borgina undir Borgarskörðum, Vogsósasel, fyrirhleðslur fjárskjólsins við Ána og sauðahússtóftir.
Þegar sagt er frá Selvogsgötunni (Suðurfarargötu), hinni fornu þjóðleið er varð að sýsluvegi undir lokinn (enda ber hann þess glögg merki), kemur t.d. eftirfarandi í ljós: Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir: ,,Þórir Haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefur verið orðið syðra, eftir þeirri sögn að, fátækt fólk hafi flakkað í Selvog, bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindarskarð, en annað í það skarð, sem farið er úr Grindavík og upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni dreginn; Grindaskarð og Grindavík.”

Selvogsgatan ofan Hlíðardals

Önnur sögn er að dætur Þóris Haustmyrkurs hafi heitið Herdís og Krýsa. En sögnin er svona: “Krýsa bjó í Krýsuvík en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki sín á milli. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarás. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefur spúð eldi, því í honum er gígur ekki alllítill. Úr honum hefur runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum, undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Þangað til hafði verið mikil veiði í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.
Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur, óætur. Þá lagði Krýsa það á, að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn. En allur silungur skyldi verða að hornsílum.  Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir myndu í henni drukkna.
Tvær vörður við Selvogsötuna ofan við HlíðardalÞetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja út stað. Og einn vetur sem oftar sem oftar var tjörnin lögð ís, þá komu sjómenn frá tveim skipum og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.”
Nú er vinsæl gönguleið hjá útivistafólki að ganga svokallaða Selvogsgötu, en það er gamla þjóðleiðin frá Hafnarfirði um Grindaskörð og í Selvog. Staðreyndin er þó sú að engin fótspor göngufólksins má sjá þar í götunni, ekki einu sinni í mold eða á berangri. Þar hefur enginn stigið niður fæti í langan tíma. Samt sem áður hafa bæði ferðafélög og leiðsögumenn selflutt göngufólk um “Selvogsgötuna” um margra ára skeið. Hverju sætir? Málið er einfalt; undanfarna áratugi hefur leiðin jafnan verið fetuð í fótspor hvers á fætur öðrum, þ.e. gengið hefur verið um Kerlingarskarð (þegar gengið er suður) og stefnan þá tekin eftir vel varðaðri leið (Hlíðarvegi) að Hlíðargili ofan við Hlíð við Hlíðarvatn. Þessar vörður voru hlaðnar á sjötta áratug 20. aldar af ferðafélagsfólki. Hún tengist því lítið hinni gömlu Selvogsgötu, sem liggur mun austar. Líkja má þessari leið að nokkru við Reykjaveginn, sem stikaðu var árið 1996 sem gönguleið milli áhugaverðra staða. Hann er hvorki gömul þjóðleið né hafði merkingu sem slíkur.
Þegar komið er upp í Strandardal blasir Kálfsgilið við og Urðarfellið ofar. Í Kálfsgili átti galdrapresturinn, Eiríkur Magnússon, á Vogsósum, að hafa urðað Gullskinnu, hina mögnuðustu galdrabók allra tíma. Aðrir segja hana eina hinna fyrstu landnámsbóka. Í fyrrum FERLIRslýsingu um svipað efni er varð að svipuðu tilefni segir m.a.:

Hlíðardalur

“Gengið var upp Selvogsheiði. Gamla Suðurfararveginum (Selvogsgötunni) var fylgt upp heiðina og upp í Strandardal. Þar var ætlunin að kíkja í Kálfsgil og athuga hvort ekki sæist í a.m.k. eitt horn hinnar fornu Gullskinnu, mestu galdrabók allra tíma, sem séra Eiríkur á Vogsósum er sagður hafa grafið þar svo bókin sú arna yrði ekki til fleiri rauna en hún hafði þegar orðið.
Götunni var fylgt upp heiðina. Á henni miðri, skammt vestan og ofan við Vörðufell, var gengið fram á gróna kofatóft. Skammt suðvestan hennar var fallega hlaðið gerði á hól. Húsið var stakt, sem bendir til þess að þar hafi verið sæluhús á heiðinni. Á Vörðufelli er gömul hlaðin fjárrétt Selvogsmanna. Þar eru einnig Smalavörðurnar, en þjóðsagan segir að smalar, sem týnt hefðu einhverjum hlut, hefðu þá hlaðið litla vörðu á fellinu og skipti þá engum togum – þeir fundu hann skömmu síðar. Syðst á fellinu er markavarða. Krossmark er á jarðfastri klöpp sunnan og neðan við hana.
Haldið var áfram upp í Strandardal og stefnan tekin á Kálfsgil. Efst í dalnum er Sælubuna, gömul lind, sem kemur undan hlíðinni. Hana þrýtur aldrei og gat fólk fyrrum jafnan treyst á vatnið úr henni þegar það var við heyaðdrætti í Strandardal og Hlíðardal þar ofan við.

Mogrof

Kálfsgilið var nú þurrt, sem oftar síðari árin. Þegar gengið var upp það miðja vegu mátti, ef vel var að gáð, sjá glitta í skinnpjötlu, nær samlitu grjótinu. Nú var hver sekúnda dýrmæt. Þegar reynt var að nálgast staðinn var sem jörðin opnaðist skyndilega á svolitlu svæði og grjót tók að hrinja úr gilinu. Við það hrúgaðist að staðnum svo pjatlan varð næstum því utan seilingar. Þvílík tilviljun að jarðskjálfti skuli endilega þurfa að hrista gilið þegar einungis vantaði herslumuninn að tækist að krækja í Gullskinnu. En skjálftinn kom aðeins of seint til að hylja bókina alla. Hluta hennar var rifin upp, pakkað í skyndi og er nú í öruggri vörslu og bíður opnunar. Hvort í henni megi finna lýsingu á upphafi landnáms hér á landi eða galdraþulur skal ósagt látið – að sinni. Í öllum látunum hvarf myndavélin niður um gatið, sem myndast hafði. Það kom ekki að sök hvað Gullskinnu snerti, enda ekki unnist tími til að taka kyrrstöðumynd af henni í látunum.
Skuggi segir frá Gullskinnu, eða Gullbringu eins og hann nefnir hana einnig, í riti sínu um Brísingamenn Freyju. Ritið kom út 1948 og kallaði á mikil skoðanaskipti. Þar er því haldið fram að Gullskinna hafi verið með fyrstu Landnámsbókunum, en aðrar verið byggðar á henni, þótt ýmsu hafi þá verið sleppt. Hún segir t.a.m. frá Krýsum í Gömlu Krýsuvík, aðförinni að þeim og yfirtöku Dana, sem síðar voru nefndir hinir fyrstu Landnámsmenn. Þeir komu frá Noregi. Allt er þetta þó fram sett með fyrirvara um áþreifanlega sönnunarmöguleika.
Selvogsgata ofan HlíðardalsÍ sögnum af galdraprestinum Eiríki frá Vogsósum segir af Gullskinnu. Hún var mikil galdrabók, sem fór víða og margir vildu eiga. Hún barst hingað til lands með útlensku skipi. Það fórst, en maður kom henni í land í Selvogi við illan leik. Eiríki áskotnaðist bókin og notaði hann hana þegar þurfa þurfti. Öfl reyndu að nálgast bókina og taldi Eirkur vænlegast að láta hana hverfa. Segir sagan að hann hafi grafið hana í Kálfsgili. Þar hefur sést til hennar endrum og eins, en ávallt við tilteknar aðstæður, líkt og nú voru. Í bókinni er, skv. sögunum, m.a. kveðið á um hvernig eigi að magna upp óveður, fægja lágþoku og leita regns.
Gengið var með Katlahlíð yfir að Katlahrauni, þvert á Hlíðargil. Þar er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu, en hún er mun nær Strandardalnum en áður var talið. Þá var komið að réttinni að vetrarlagi úr vestri, en nú var komið að henni að sumarlagi úr austri. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hlíðardalinn vestan Svörtubjarga.”
Selvogsgatna (Suðurfaravegurinn) var auðvitað fyrst og fremst kaupstaðarleið Selvogsmanna til Hafnarfjarðar með afurðir sínar. Þetta var gamla lestarmannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940, meðan henni var haldið við með ruðningi sem sýsluvegi. Ferðin endaði í seinni tíð við Reykjavíkurveg 23 en farið var um Öldugötu eða Selvogsgötu að húsi Steingríms Torfasonar sem tók á móti ullinni.
Í dag fer útivistarfólk frá Bláfjallaafleggjara, upp Grindaskörð og gengur “gömlu götuna” en kemur niður við Hlíðarvatn í Selvogi. Þetta er um 15 km ganga og tekur 5-6 tíma. En sjálf kaupstaðarleið Selvogsmanna er rúmlega 10 tíma ferð.
Margir hafa hugsað sér að ganga þessa fornu þjóðleið, en þrátt fyrir þá mörgu er lagt hafa land undir fót, hefur einungis örfáum tekist að ganga Selvogsgötuna til enda. FERLIR stefnir að því, innan ekki of langs tíma (ef Guð lofar), að gefa áhugasömu fólki kost á að feta þessa fornu götu – þá leið sem hún lá.

Möguleg tóft í Hlíðardal

Í lýsingu Konráðs Bjarnasonar segir m.a. um þennan hluta Selvogsgötunnar: “Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum. Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt.”
Varða ofan við SælubunuÞegar þessi lýsing Konráðs var gaumgæft af vandvirkni kom Rituvatnsstæðið fljótlega í ljós ofan við Hlíðardal. Um er að ræða vatnsmikið starengi, enda vatnsstæðið af sumum nefnt Starengisvatnsstæðið. Norðvestan þess hafa verið grafin notadrýgri vatnból. Þau hafa orðið til eftir mógröft. Skýrar götur liggja að því frá Selvogsgötunni, hvort sem komið er neðanfrá eða ofan-. Við Selvogsgötuna, á móts við vatnsbólið, eru brot af tveimur vörðum beggja vegna götunnar, er benda hefðu átt á mikilvægið. Frá þeim ber Hvalhnúka í götuna til norðurs.
Við norðanvert vatnsstæðið gæti verið tóft af sæluhúsi, enda áningarstaðurinn sérstaklega mikilvægur, bæði vegna vatnssins og legur hans millum byggðalaganna.
Þegar gengið var um Hlíðardal mátti sjá móta fyrir mögulegum tóftum á tveimur stöðum. Sá nyrðri þótti þó öllu sennilegri. Grjót var að því er virtist í veggjum. Út frá veðrum og legu kom þessi staður fremur til greina sem mögulegt bæjarstæði. Hafa ber þó í huga að hér hefur væntanleg verið fremur um tímabundna “selstöðu” að ræða en varanlegan bæ. Og þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir búfénaði í “selinu” heldur einungis fólki til slátta virtist “tóftin” enn líklegri en ella. Brekkur dalsins voru einstaklega grónar og skrýddar hinum fjölbreytilegustu fjallagrösum.

strandamannahlid

Í Strandardal mátti vel sjá fyrir upptökum Sælubunu, en þegar betur var að gáð reyndist hún safalaus með öllu. Nýlega endurhlaðin varða ofan við hana er á áberandi stað; á klapparrana er aðskilur dalina.
Á baka leiðinni var komið við í Hlíðarborginni.
Þórður Sveinsson frá Bjargi í Selvogi sagðist vera mjög vel kunnugur þarna uppfrá; hefði svo að segja alist þarna upp á ungra aldri. Fyrrum hefði verið farið með tjöld inn að mógröfunum vestan við Stóra-Urðafell þaðan sem gengið hefði verið á rjúpu. Grafinn hefði verið skurður út úr mógröfunum því lömb vildu drukkna í þeim. Þarna hefði verið tekinn mór fyrir Selvogsbæina. Urðafellin væru þrjú; Stóra-Urðafell vestast, Mið-Urðafell og Litla-Urðafell (stundum nefnt Staka-Urðafell. Kálfsgil væri milli Mið- og Stóra-Urðafella. Rituvatnsstæðið rétt sunnan Litla-Leirdals, vestan Suðurferðavegar, hefði stundum verið nefnt Djúpa vatnsstæði.
Frábært veður. Ferðin tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Guðlaug Helga Konráðsdóttir.
-Konráð Bjarnason í Selvogi.

Rituvatnsstæðið