Selvogur – Grásteinn og þinghúsið í Nesi

Selvogur

Haldið var í Selvog til stefnu við mektarmennina Þórarinn Snorrason á Vogsósum og Þórð Sveinsson frá Bjargi í Selvogi.
Tilgangurinn var að undirbúa minja- og örnefnauppdrátt af Selvogi, en þeir tveir Selvogur-901eru þeir núlifendur er gleggst þekkja til staðhátta í Vogi. Eftir að hafa farið yfir örnefnalýsingar og frumuppdrátt af svæðinu var haldið í vettvangsferð. Í henni var m.a. komið við að Nesi, austasta lögbýlinu, og skoðuð fyrrum bæjarstæðin á jörðinni. Þau hafa nú flest verið sléttuð út, en eftir standa hólar í túninu. Þarna voru og tóftir þinghúss skoðaðar, auk leifa af kirkjugarði. Neðan við Beggjakot var Grásteinn skoðaður, en um er að ræða markastein á mörkum Bjarnastaða og Götu. Á hann er klappaður bókstafurinn „M“. Nokkra slíka markasteina má finna í Selvoginum, allt frá fjöru upp í heiði. Í leiðinni var auk þessa tækifærið notað til að staðsetja á uppdráttinn gömlu reiðleiðina (göngugötuna) í gegnum Voginn.
Brunngatan í vatnsbólið í Nesi var sama gatan að Nesbrunnurhluta til. Önnur gata lá í gegnum Selvog ofan garðs (Fornagarðs). Upp frá þeirri götu lágu götur, s.s. frá Nesi, Bjarnastöðum (Guðnabæ) og Þorkelsgerði upp á Fornugötu á Hæðinni. Sú gata kom að austan og lá að Vogsósum. Að sögn Þórarins lá þjóðleiðin, Fornagata og Kirkjugatan frá Strönd, yfir Ósinn. Aðstæður eru þannig að „frá ósnum liggur beinn kafli áleiðis upp eftir, þá kemur beygja og síðan önnur (Alnbogi). Milli þeirra var vaðið yfir Ósinn. Engin varða né önnur ummerki eru þar við.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (eftir Eyþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi) segir m.a. um Nes: „Nes er austasta býli í Selvogi. Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigunum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi. Af bæjarstæðinu í Nesi er eitthvert fegursta útsýni í Selvogi.

Selvogur-902

Bærinn stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes. Stundum voru þar fleiri bæir [t.d. Bartakot, Þórðarkot, Erta, Beggjakot, Stóra-Leður og Litla-Leður]. Fyrrum mun hafa verið kirkja í Nesi og staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu.“ Síðan hefur legsteinunum verið skilað aftur að Nesi og Kristófer Bjarnason, fyrrum kirkjuvörður, komið þeim fyrir nálægt fyrrnefndum grafreit.

Grasteinn-1

Í örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir m.a.: „Bjarnastaðir eru næsta býli fyrir vestan Nes. Bjarnastaðir ásamt hjáleigum kallast Bjarnastaðahverfi eða Miðvogur, og tilheyrir Gata einnig Miðvogi. Bærinn stóð á allbreiðum hól neðanvert við mitt tún.“ Í dag má sjá leifar bæjarins á fyrrnefndum stað. Í bókinni „Sunnlenskar byggðir“ má auk þess sjá teikningu af bænum eins og hann var undir það síðasta. Forvitnilegast við minjar á Bjarnastöðum má telja brunnana, bæði í Gerðinu og neðan þess, réttina ofan við kampinn, fjárborg á kampinum og lendinguna.
„Áður fyrr var byggð í Selvogi skipt í Austurvog, sem var fyrir austan kirkjuna, og Vesturvog fyrir vestan kirkju, þ. e. frá kirkju og vestur að Vogsósum. Þá var Þorkelsgerði í Austurvognum. Í Þorkelsgerði voru Austurbær og Miðbær, sem var tómthús. Vestan við Þorkelsgerði er Torfabær.

Grasteinn-2

Hver bær átti sín tún, sem kennd voru við þá  og voru áður fyrr girt með görðum, en í seinni tíð eru komnar girðingar í þeirra stað. Traðir eða götur voru milli bæjanna. Ævagamall túngarður liggur fyrir ofan alla byggðina; hann nær alveg austur undir vita og vestur að Vogsósum. Víða hefur fokið mjög að honum sandur, svo að hann er nær á kafi, en þó sést hann sums staðar. Hlið voru á garðinum heim að hverjum bæ, gjarnan kennd við bæina. Sagt er, að hliðin hefðu verið læst og grind í. Þorkelsgerðisbæir og Torfabær eiga hver sín tún, eins og fyrr segir, en land utan túns, í Selvogsheiði og fjalllendi er sameiginlegt. Landamerki milli Þorkelsgerðis og Götu eru þannig: Markhella, sem er klöpp í fjöru, þaðan í Markklett við túngarð, þ.e. jarðfastur klettur við Litlu-Götuhlið (M er bæði í klettinum og hellunni).“ Steinninn er enn á sínum stað, en orðinn allnokkuð gróinn.

Melborg

„Fyrir vestan Torfabæ var hús, sem hét Melborg og var stundum í gríni kallað Geysir. Upp af Torfabæjartúni er Torfabæjarstekkur. Við stekkinn stendur Stekkjarvarða. Hún var mið fyrir Goltanga; átti hana að bera í Sundvörðuna á kampinum og í hæstu nípu á Björgunum (Svörtubjörgum). Austast í Götutúni er Grásteinn, jarðfastur steinn á merkjum.“
Þegar komið var á vettvang gekk Þórður beint að Grásteini. Í honum mátti, þrátt fyrir hvíta mosaglæðuna, sjá móta fyrir bókstanum „M“.
Tækifærðið var notað til að hnitsetja hinar fornu götur við og í Selvogi.
Frábært veður. Ferðin tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Nes, Bjarnastaði, Götu, Þorkelsgerði og Eimu.
-Þórarinn Snorrason, bóndi á Vogsósum í Selvogi.
-Þórður Sveinsson frá Bjargi í Selvogi.

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.