Sérkennilegar móbergskúlur – Jón Jónsson
Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallar um „Sérkennilegar móbergskúlur“ í Náttúrufræðingnum árið 1987:
„Meðan ég var að vinna að jarðfræðikorti yfir Reykjanesskaga, það mun hafa verið 1963, veitti ég athygli sérkennilegum kúlum í móbergi í Bæjarfelli í Krýsuvík, og er þeim lýst í ritinu Jarðfræðikorti af Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978) svo sem hér segir: „Við lítið ból norðan í háfellinu koma fyrir harla sérkennilegir kúlur í móberginu. Þær eru úr móbergsglerkornum og hvað það snertir eins og túffið í kringum þær, en hafa veðrast út sem reglulegir boltar oft um 15—25 sm í þvermál. Sumar eru nú holar innan og virðist það vera vegna veðrunar. Það er því skelin um þessar kúlur, sem stenst veðrunina betur en bæði túffið í kring og eins inni í kúlunni sjálfri. Myndun sem þessa hef ég séð á einum stað öðrum, en það er í Syðri-Stapa við Kleifarvatn.“
Frá því að þetta var skrifað hef ég fundið samskonar myndanir á tveim öðrum stöðum og eru báðir í Mýrdal. Besta dæmið, sem ég nú þekki um svona myndanir er að finna í hömrunum austan við Skiphelli í Mýrdal örskammt frá þjóðvegi 1. Þar gefur að líta þverskurð af fornri eldstöð. í greinakorni um jarðfræðiathuganir í Mýrdalsfjöllum er þessa getið með þessum orðum: (Jón Jónsson 1985):
„Mjög sérkennilegar móbergskúlur koma á kafla fyrir í þessari gosmyndum. Þær eru eingöngu úr móbergsglerkornum og í ýmsum stærðum, frá því að vera 2—3 sm í þvermál og allt upp í 40-50 sm. Kúlurnar eru ýmist á strjálingi inni í svartri ösku og vikri eða í svo þéttum hópum að þær ná því að vera 60-80% af berginu.
Flestar eru þær á stærð við tennisbolta en aðrar á stærð við fótbolta eða enn stærri. Einkum koma þær fyrir í þykku lagi úr svörtum vikri og gjalli og þá ásamt venjulegum hraunkúlum (bombum) sumum stórum.“
Nokkrar svona kúlur hef ég fundið í þeirri sérstæðu myndun, sem nefnist Lambaskörð og er í Kerlingardalsheiði. Gamli akvegurinn liggur um þetta svæði niður að brúnni, sem eitt sinn var á Múlakvísl í sundinu milli Selfjalls og Léreftshöfuðs.
Ekki skal hér um þá myndun fjallað, en þess aðeins getið að þar koma svona móbergkúlur líka fyrir. Í dagbók minni frá þeim athugunum er eftirfarandi að lesa: „Ofan til í þessu túffi eru móbergskúlur eins og þær, sem ég hef áður séð í Bæjarfelli og Syðri Höfða í Krýsuvík, en einnig við Skiphelli. Þær eru hér mjög mismunandi stórar, þær stærstu um 30-40 sm í þvermál aðrar á stærð við fótbolta og minni. Ekki mynda þær reglulegt lag en koma fyrir á víð og dreif í berginu.“
Ekki er auðráðið í hvað var þess valdandi að þessar kúlur urðu til. Þær eru einfaldlega öskuboltar, sem orðið hafa til við það að blautt eða hæfilega rakt öskulag rúllaðist upp. Svo laust er það allt í sér að það hlýtur að hafa farið rólega fram, en hvað kom því af stað?
Nýlega gerðar smásjárathuganir á þessum kúlum hafa ekki gefið mikið nýtt. Þær sýna ofur venjulegt móberg. Inni í glerkornunum eru feldspat- og pýroxen kristallar ásamt einstaka ólívíni. Eini sýnilegi munurinn á þessu efni er sá að í einstaka tilfellum er megin hluti kúlunnar úr tiltölulega grófum glerkornum, en yst er lag úr mjög fínu efni, sem einnig samanstendur af smáum glerögnum og einstaka kristöllum. í þessu fína efni er myndbreyting (palagonitisering) verulega meira áberandi en í því grófa. Kornin liggja í ákveðna stefnu og mynda þannig húð utan um grófara efnið. Þannig líkist þetta því fyrirbæri sem sjá má í svo nefndum öskubaunum (písólítum) (Sbr. Tómas Tryggvason 1955). Sérstaklega upplýsandi hvað þetta varðar er ljósmyndin á bls. 105. Það skal tekið fram að aðeins í einu tilviki hef ég, svo óyggjandi sé, fundið svona tilhögun glerkornanna í þessum kúlum.“
Haraldur Sigurðsson fjallar um móbergskúlurnar á bloggsíðu sinni; vulkan.blog.is:
„Ef móbergskúlur myndast eftir gos, en ekki í gosinu, eins og Jón Jónsson taldi, þá verðum við að leita annara skýringa varðandi uppruna þeirra. Kúlur eru algengt fyrirbæri í setlögum um allan heim, og eru oftast nefndar concretions eða setkúlur, en þær eru algjörlega óþekktar í setlögum af gjóskubergi, eins og móberginu á Íslandi — þar til nú. Slíkar kúlur myndast í setlögum vegna þess að límefni byrjar að myndast á milli sandkorna á einhverjum púnkti í setinu og límefnið berst út í allar áttir, til að mynda setkúlu. Þetta virðist vera tilfellið í íslensku móbergskúlunum, en ennþá vitum við ekki hvað límefnið er.
Lang sennilegast er að það sé palagónít, sem er leirsteind eða míneral sem myndast þegar basalt gler byrjar að myndbreytast yfir í móberg, en sú myndbreyting veldur því að gjóska rennur saman í hart berg. Surtsey kenndi okkur að sú hörðnun getur gerst furðu hratt, eða á einum áratug eða svo.“
Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.07.1987, Sérkennilegar móbergskúlur – Jón Jónsson, bls. 34-35.
-Haraldur Sigurðsson – https://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/951989/