Setberg
Í FERLIRsferð nr. 505 var gengið undir leiðsögn Friðþjófs Einarssonar, bónda, um land Setbergs í Hafnarfirði, fyrrum Garðahreppi. Ferðin var ekki síst áhugaverð vegna þess að einn þátttakendanna var afkomandi Jóns Guðmundssonar, fyrrum bónda á Setbergi og hreppsstjóra í Garðahreppi.
Jón var frá Haukadal í Biskupstungum, sonur Guðmundar frá Álfsstöðum, hins fjárglögga. Guðmundur auðgaðist af fé og fluttist að Haukadal þar sem afkomendur hans bjuggu m.a. í Tortu og Bryggju, þeim einu kotum í sveitinni er Skálholtsbiskup auðnaðist ekki að söðla undir sig, þrátt fyrir gjaflyndi fólks á dánardægri með prestinn einan nálægan að vitundarvotti. „Hefðir“ og „lög“ samfélagsins voru ákvörðuð af yfirvaldinu og því erfitt fyrir almúgann að andmæla – líkt og nú. Þetta var því enn staðfastara fólk en nú þekkist og það stóð á sínu þótt á móti hvessti.
Jón fluttist að Hvaleyri við Hafnarfjörð fyrir aldarmótin 1900, bjó þar í þrjú ár, og fluttist síðan að Setbergi. Þar gerðist hann mikill fjárbóndi uns hann hafði, á gamals aldri, skipti við Jóhannes Reykdal, á jörðinni og húsi „niður í bænum“. Skiptin voru reyndar báðum til góðs þvi þau auðvelduðu hinum aldna Jóni síðustu æviárin og hinum frumkvæðna Jóhannesi drifkraftinn og áræðnina er leiddi síðar til rafvæðingar bæjarins. Börn Jóns og Ingveldar, konu hans, urðu ellefu. Ein dóttir þeirra, Sigurbjörg, bjó síðar að Urriðakoti, og önnur, Ingveldur, að Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Þau hjónin, hún og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi, eignuðust einnig 11 mannvænleg börn er öll komust til manns. Nú standa tóftir Þorbjarnarstaða, líkt og Setbergsbæjarins, eftir sem ómeðvitaður bautarsteinn þess sem var – handan við hornið.
Fyrst var gengið að stæði gamla Setbergbæjarins í hlíðinni ofan við Háabergið, við vesturjaðar golfvallarins. Þar var bærinn fram á miðja 19. öld. Af þeim bæ er teikning Collingwoods af bænum frá árinu 1771, sem birtist í bók hans, sömu og teikningin er af Hvaleyrarbænum. Gaflar hafa staðið mót vestri. Friðþjófur benti á eina tóftina og sagði að inni í henni væri heill lýsisbræðslupottur. Þar reyndist hann vera, sennilega á sínum upprunalega tilveru- og notkunarstað, í tóftinni. Við suðurhornið er steinn og í hann reknir margir járnnaglar. Nýrri bærinn stóð vestar og neðar í hlíðinni, en öll ummerki eftir hann eru nú horfin.
Gengið var spölkorn til norðurs og var þá komið að litlum hól við norðurbrún gamla vegarins upp að Urriðakotsvatni. Friðþjófur sagði hólinn heita Galdraprestshóll. Í honum væri grafinn nafngreindur prestur, Einar, og væri til þjóðsaga um hann. Sá hefði komið undir eftir að sýn birtist föður hans, sem jafnframt var prestur úti á landi, í draumi og gat hann í framhaldi af því barn með ungri konu á altari kirkjunnar. Hertrukki var ekið utan í hólinn á stríðsárunum og valt hann við það sama. Ekki er getið um kirkju þarna, en gamall grafreitur er norðan við hólinn. Það hafi komið í ljós þegar verið var að slétta túnið snemma á 20. öldinni. Einar þessi mun hafa verið rammgöldróttur. Í örnefnalýsingu GS segir um hól þennan: „Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Á þúfu þessari sat löngum Þorsteinn Björnsson prestur, og hér orti hann „Noctes Setbergenses“. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við þúfu þessari.“
Áfram var gengið til norðvesturs upp á Setbergshamar (Þórsbergshamar) og skoðaðar mjög gamlar tóftir, sem þar eru. Sú eystri er enn heilleg. Ástæðan mun vera sú að óvenju stórt grjót hefur verið notað í hleðsluna. Sést enn móta fyrir burstalaginu.
Nokkru norðan við húsið, ofar í hæðinni, er hleðsla og umhverfis það rúmgóður hringlaga garður, greinilega mjög gamall. Hann er mótaður af stórgrýti. Augljóst er að þarna hafa engi aukvisar verið að verki.
Friðþjófur sagðist hafa rekið augun í þetta, spurt nokkra um hugsanlegar skýringar, en enginn kunnað svör við því hvað þarna kynni að vera. Ekki er með öllu útilokað að um væri að ræða gamlan dómhring líkt og sjá má víðar á Reykjanesskaganum (t.a.m. á Stafnesi og Þingnesi) sem og annars staðar á landinu. Vestan við hringinn er gömul hlaðin tóft. Vel mótar fyrir hleðslum. Snýr framhliðin til norðvestur í átt að miðbænum. Augljóst er að þilgafl hefur verið á henni mót vestri. Lega tóftarinnar bendir til þess að þarna kynni að hafa verið fyrrum bænhús. Fróðlegt væri að fá sérfræðing til að skoða þessar tóftir, en það gæti þó reynst erfitt því ekki var að sjá neina yfirbyggða skrifborðsaðstöðu á svæðinu.
Hlaðinn vörslugarður er skammt norðar. Hann liggur af hamrinum til austurs, en er rofinn á kafla. Friðþjófur sagði afa sinn hafa látið ýta hluta garðsins í haug við enda vestari hluta garðsins þegar holtið var slétt og túnið gert á þeim stað – á grafreitnum og norðan hans.
Þá var gengið austur yfir Fjárhúsholtið og að Svínholti. Norðan undir því, syðst á túni, sem þar er, eru tóftir og hringlaga gerði framan við. Friðþjófur sagði afa sinn hafa byggt þarna fjárhús er þau voru flutt úr Setbergshlíðinni, þ.e. fjárhúsin, sem byggð voru þar 1904 eða 1906 eftir að aðstaðan hafði verið færð þangað úr Setbergsseli. Aftan við húsið hafi verið lítil hlaða, en sjálft hafði það verið byggt úr holsteini. Hins vegar hafi alltaf verið haft á orði að þarna hafi áður verið gamalt mannvirki, sem ekki væru kunn skil á. Það skýrði m.a. hringlaga gerðið við húsin.
Veður var frábært – logn og sólkinsbjart. Gangan tók 43 mín.