Skálafell I

Skálafell

Ábending hafði komið um hleðslu austan við gíginn á Skálafelli úti á Reykjanesi.

Skálafell

Skálafell.

Frá rótum gígsins suðaustan megin eru um 20 m að jarðfalli og hleðslan er austast í því, upp undir brún, fremur vönduð ca 2×2 m, einhvers konar vaktstaður. Önnur grjóthlaðin tótt, hringlaga, ætti að vera austar í hrauninu. Ætlunin er að leita að og skoða þessar minjar.
Gengið var frá borholusvæði, sem slóði liggur að skammt suðaustan við Gunnuhver. Skálafellsgígurinn blasti við í norðvestri. Haldið var upp melana á milli hraunhóla í átt að gígnum. Austan við gíginn sást nefnd hrauntröð. Liggur hún til austurs frá gígnum, áleiðis að miklu misgengi nokkru austar. Fremst er allnokkurt grunnt jarðfall. Austast í því er hleðslan.

Skálafell

Skálafell – byrgi.

Svo virðist sem þetta geti verið skjól refaskyttu. Ef staðið er við skjólið og horft til suðurs má sjá svo til allt ofanvert Krossavíkurbjargið og gróðursvæðið þar. Þegar gengið var þar s.l. vor, frá litla vitanum á Tánni áleiðis að Skálafelli, var komið að a.m.k. þremur merktum grenjum. Líklega tengist skjól þetta grenjavinnslunni.
Gullkollurinn teigði sig upp úr sandinum og reyndi að baða sig í sólskininu.

Gengið var upp á gígbarminn, að Skálabarmshellisopinu. Við opið er skrifað orðið “Örelda”, “Grelda” eða eitthvað álíka, sem upplýsingar vantar enn um. Áletrunin er í steypu, sem mökuð hefur verið á klöppina. Gæti verið frá tímum vitabygginganna á Valahnúkum, á Vatnsfelli (Bæjarfelli) eða á Tánni.

Höyer

Búsetuminjar við Gunnuhver.

Hugað var að hringlaga hleðslunni, sem vera átti austar í hrauninu, en hún bar ekki fyrir augu að þessu sinni. Farið verður aftur um svæðið við hentugleika og þá skoðað svæðið með hrauntröðinni, misgengið og yfir að Háleyjarbungu.
Í bakaleiðinni var litið á tóftir útihúsa, grunn húss og garða við Gunnuhver, þar sem Hoyer hafði bú, stundaði ræktun og gerði m.a. blómapotta úr leir, á fyrri hluta 20. aldar (sjá í annarri FERLIRslýsingu).
Frábært veður – sól og lygna. Gangan tók 34 mín.

Skálafell

Gígur Skálafells – flugmynd.