Búsetuminjar hinna fyrstu landnámsmanna (-kvenna) hér á landi og þó einkum á Reykjanesskaganum, í landnámi Ingólfs Arnarssonar, er víða að finna.
Hafnir-101Hér er athyglinni fyrst og fremst beint að fyrstu skálabyggingunum.
Eins og kunnugt er hefur dæmigerður fornaldarskáli verið grafinn upp að 2/3 hlutum í Höfnum (Vogur). Þar mun þó ekki hafa verið um að ræða búsetu norrænna manna heldur (skv. upplýsingum Bjarna Einarssonar, fornleifafræðings) tímabundna búsetu Evrópumanna (ca. 770-880) er vildu nýta hér náttúruauðlindir, s.s. rostungstennur, hvali o.fl., áður en hið eiginlega bókfærða landnám norrænna manna hófst (~874). Ekki er þó útilokað að skáli þessi hafi einfaldlega verið útstöð frá Gamla-Kirkjuvogi, landnámsbænum handan við Ósa.
Urr-22Ein merkilegasta uppgötvun seinni ára um bústaði og “afleiður” þeirra, þ.e. selstöðurnar og staðsetningu þeirra sem og nýtingu fyrstu landnemanna er að finna í fornleifauppgrefti í Urriðakoti við Urriða(kots)vatn í landi Garðabæjar undir handleiðslu Ragnheiðar Traustadóttur, fornleifafræðings. Þar fundust m.a. við uppgröft í gróinni brekku minjar kúasels frá landnámstíð; fjós og hliðstæð vinnsluhús sem og nokkrar kynslóðir fjárselja með dæmi-
gerðum þrískiptum byggingum, þ.e. baðstofu, búri og eldhúsi. Skammt frá eru, auk Urriðavatns, góðar uppsprettur og næg beit í mýrum. Hvorutveggja var forsenda slíkra mannvirkja, auk skjólsins fyrir ríkjandi rigningarátt.
Fornasel-221F
ERLIR hefur (með dyggri aðstoð) staðsett og skoðað rúmlega 400 selstöður í fyrrum landnámi Ingólfs. Um þriðjungs þeirra er getið í gömlum heimildum, s.s. jarðabókum, sóknarlýsingum, ferðabókum og samantektum, þriðjungur hefur fundist við leit að teknu tilliti til örnefna í örnefnalýsingum og á landakortum og þriðjungur hefur fundist við leitir á tilteknum svæðum út frá líkindum á mögulegum selstöðum vegna landskosta. Tvö seljanna eru að öllum líkindum fyrir landnám norrænna manna.

HOF-22Fyrir Urriðakotsuppgröftin höfðu selstöðurnar í fyrrum landnámi Ingólfs jafnan verið meint fjársel, en eftir að fjósið og skáli því tengdu höfðu verið grafin upp í Urriðakoti varð ljóst að endurskoða þurfti nokkrar selstöður m.t.t. fyrirliggjandi niðurstaðna. Augljóst mátti ætla að t.d. selstöðutóftir í Helgadal, í Kringlumýri, undir Bringum, við Selvatn og víðar á svæðinu hefðu selstöðurnar að geyma forn kúasel. Þær selstöður virðast gefa vísbendingu um þróun þeirra frá upphafi byggðar. Svo er að sjá að hinar fyrstu selstöður hafi tekið mið af búpeningi þess tíma sem og ríkidæmi viðkomandi landnámsmanna.

Helgadalur

Helgadalur – tóft.

Þær voru bæði stærri og tilkomumeiri en síðar varð; lítill skáli var reistur á staðnum, fjós byggt sem og samstæðar byggingar til vinnslu afurðanna. Gerði voru hlaðin og svæðið nýtt a.m.k. hálft árið til nytja. Síðar virðast þessar mikilfenglegu selstöður annað hvort, vegna breyttra aðstæðna, hafa orðið óþarfar og gleymst og/eða fjársel verið byggð upp úr þeim sökum breytinga á samsetningu búpenings. Í fjárseljum var húsakostur rýrari. Staðsetning þeirra gerði minni kröfur til aðgengis að vatni og beit. Húsin voru jafnan þrjú; baðstofa, búr og eldhús, gjarnan hliðsett. Byggingarnar voru óreglulegar og virðast hafa tekið mið af heimabænum á hverjum tíma. Þannig voru þær óreglulegar og misstórar í fyrstu en urðu síðan reglulegri (þ.e. mynduðu samfellda röð). Enn sem fyrr virðast selstöðurnar hafa tekið mið af ríkidæmi einstakra bænda.
Stykkisvellir-22Í Landnámu og ýmsum sögnum er jafna skráð í framhaldi fornaldar heimilda um búsetu forfeðra vorra. Við skoðun og leit á nokkrum þeirra fundust áður óskoðaðar minjar. Má þar t.d. nefna Hof á Kjalarnesi, Stykkisvelli og Múla í Brynjudal, sbr. eftirfarandi skáningar í Landnámu: Í 11. kafla Landnámu segir t.d.: “Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, fór til Íslands úr Suðureyjum. Hann var með Ingólfi hinn fyrsta vetur og nam með hans ráði Kjalarnes allt milli Mógilsár og Mýdalsár; hann bjó að Hofi. Hans son var Víga-Hrappur og Kollsveinn, faðir Eyvindar hjalta, föður Kollsveins, föður Þorgerðar, móður Þóru, móður Ögmundar, föður Jóns byskups hins helga.”
Muli-21Í 14. kafla segir: “Hvamm-Þórir nam land á milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi.
Þórir deildi við Ref hinn gamla um kú þá, er Brynja hét; við hana er dalurinn kenndur. Hún gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni komin. Þeir Refur og Þórir börðust hjá Þórishólum; þar féll Þórir og átta menn hans.

Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár og Fossár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refur hinn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.

Landnám

Landnám á Reykjanesskaga.

Nú eru taldir þeir menn, er búið hafa í landnámi Ingólfs, vestur frá honum. Maður hét Ávangur, írskur að kyni; hann byggði fyrst í Botni. Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip. Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur. Sonur Þormóðar var Börkur, faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti.
Kolgrímur hinn gamli, son Hrólfs hersis, nam land út frá Botnsá til Kalmansár og bjó á Ferstiklu.
Hann átti Gunnvöru, dóttur Hróðgeirs hins spaka. Þeirra börn voru þau Þórhalli, faðir Kolgríms, föður Steins, föður Kvists, er Kvistlingar eru frá komnir. Bergþóra var dóttir Kolgríms hins gamla, er átti Refur í Brynjudal.”

Brynjudalur-29

Gullvellir í Brynjudal.

Og í 47. kafla: “Helgi skarfur var faðir Þorbjargar kötlu, er átti Þorsteinn Sölmundarson, þeirra synir Refur í Brynjudal og Þórður, faðir Illuga, föður Hróðnýjar, er Þorgrímur sviði átti. Þórdís hét önnur dóttir Helga skarfs, er átti Þorsteinn Ásbjarnarson úr Kirkjubæ austari. Þeirra son var Surtur, faðir Sighvats lögsögumanns.”
Ljóst er, jafnvel að teknu tilli til þessara skrifa, og jafnvel þrátt fyrir þau, að bæði er mikilvægt og nauðsynlegt er að halda utan um, skrá og rannsaka þær merku fornleifar er að framan getur – komandi kynslóðum til gagns og frekari nýtingar til lengri framtíðar. Fornleifarnar, arfleifð forfeðranna, eru bæði staðfesting á tilvist þeirra og búskaparháttum, allt frá landnámi til vorra daga, hvort sem um er að ræða fyrrnefndar selstöður sem og öll önnur mannanna verk.

Heimildir m.a.:
-Landnáma.
-Kjalnesingasaga.
-Lúther á Þrándarstöðum.

Sulur-22