Skáli Ingólfs í Skálafelli?
Skála Ingólfs Arnarssonar í Skálafelli er bæði getið í Íslendingabók Ara fróða og í Landnámu.
Íslendingabók
„Ari hinn fróði Þorgilsson Gellissonar ritaði fyrstur manna hér á landi að norrænu máli fræði bæði forna og nýja,“ segir Snorri Sturluson í Heimskringlu. „Þykir mér hans frásögn öll merkilegust.“ Í formála kveðst Ari fyrst hafa gert Íslendingabók að frumkvæði biskupanna Þorláks Runólfssonar og Ketils Þorsteinssonar og einnig sýnt hana Sæmundi presti hinum fróða. Hafi hann síðan endurskrifað bókina, en sleppt úr henni „áttartölu og konungaævi“, þ.e. íslenskum ættartölum og ævisögum Noregskonunga.
Fyrri gerð bókarinnar er glötuð, en Snorri hefur hagnýtt „konungaævina“ í Heimskringlu. En yngri gerðin hefur varðveist vel. Hún er samin um 1130 og geymir sögu Íslands frá landnámi fram til dauða Gissurar biskups Ísleifssonar 1118. Þetta er stutt en frábærlega traust heimildarrit. Ari styðst við frásagnir manna sem hann vissi að voru spakir og „langt mundu fram“. Hann kann að telja alla lögsögumenn frá Hrafni Hængssyni sem tók lögsögu 1030 og skorðar tímatal atburða við embættisár þeirra. En mesta áherslu leggur hann á kristnitökuna árið 1000 og sögu fyrstu biskupanna í Skálholti, Ísleifs Gissurarsonar og Gissurar sonar hans.
Í Íslendingabók segir um skála Ingólfs í Skálafelli: „Ingólfr [við Hjöleifshöfða] vetr annann en um sumarit eptir fór hann vestr með sjó hann var hinn þriðja vetr undir Ingólfsfelli fur vestan Ölfusá þau misseri fundu þeir Vífill ok Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fur neðan heiði 8 Ingólfr fór um vorit ofan um heiði hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komit hann bjó í Reykjarvík þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi En Ingólfr nam land millum Ölvusár ok Hvalfjarðar fur utan Brynjudalsá milli ok Öxarár ok öll nes út þá mælti Karli til ills fórum vèr um góð heröð er vèr skulum byggja útnes þetta hann hvarf á brott ok ambátt með honum Vífli gaf Ingólfr frelsi ók bygði hann á Vífilsstöðum við hann er kendt Vífilsfelt þar bjó hann lengi ok var skilríkr maðr Ingólfr lèt gera skála á Skálafelli þaðan sá hann reyki við Ölvusvatn ok fann þar Karla.“
Landnámabók
Landnáma telur helstu landnámsmenn Íslands, segir hvar þeir námu land og greinir nokkuð frá uppruna þeirra og afkomendum. Bókin var sett saman á fyrra hluta 12. aldar, og mun Ari fróði hafa verið riðinn við hina fyrstu gerð, en hún er nú löngu glötuð. Elstu varðveittar gerðir Landnámu eru frá síðara hluta 13. aldar og frá 14. öld, en þær eru mjög auknar með nýjum ættartölum og frásögnum af ýmsu tagi. Elst er Sturlubók, sett saman af Sturlu Þórðarsyni lögmanni (d. 1284). Næst er Hauksbók, gerð af Hauki lögmanni Erlendssyni (d. 1334). Kveðst Haukur hafa ritað sína Landnámabók „eftir þeirri bók sem ritað hafði herra Sturla lögmaður […] og eftir þeirri bók annarri er ritað hafði Styrmir hinn fróði“. Styrmir lést 1245, en Landnámabók hans er glötuð. Þriðja forna gerðin, Melabók, er aðeins varðveitt í brotum, og er það mikið mein því að hún hefur að mörgu leyti staðið næst frumtextanum.
– Sumt af viðaukum Sturlubókar (og Hauksbókar) er sótt í kunnar heimildir, til að mynda Íslendingasögur (Egils sögu, Eyrbyggju, Vatnsdælu o.fl.). En hin upprunalega Landnáma hefur verið gagnorð og traust heimild í líkingu við Íslendingabók. Sagt hefur verið, að þótt frumtextinn sé víða óvís eða glataður með öllu, séu þær gerðir Landnámabókar sem enn eru til merkustu heimildir sem nokkur þjóð á um uppruna sinn.
Í Landnámsbók segir: „Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“
Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.
Ingólfur lét gera skála á Skálafelli; þaðan sá hann reyki við Ölfusvatn og fann þar Karla.“
FERLIR skoðaði meintan skála Ingólfs í Skálafelli, sbr. meðfylgjandi myndir. Auk tóftarinnar má greina fleirri tóftir skammt frá henni.
Heimildir:
-Landnáma – 8. kafli.
-Íslendingabók, bls. 33.