Skipsstígur

Skipsstígur

Genginn var Skipsstígur, hin gamla þjóðleið milli Grindavíkur og Njarðvíkur.
Ætlunin var og að skoða svæði austan stígsins á kafla. Grunur var um minjar, einkum undir gjávegg nokkru vestan Seltjarnar og sunnan gatnamóta

Grindavík

Grindavíkurleiðir fyrrum.

Árnastígs. Í leiðinni var kíkt á Gíslhelli (óvíst hvaða tilgangi hleðslurnar við hellinn tengdust, en sumir hafa getið sér til skjól fyrir útilegumenn er réðust að vegfarendum á þessum slóðum, felustað fyrir „Tyrkjunum“ eða jafnvel samkomustað þeirra er réðust á Englendinga ofan við Stórubót 1532, vegavinnumannabúðir eða jafnvel skjól eða sæluhús miðja vegu milli byggðalaganna), Dýrfinnuhelli (tengist „Tyrkjaráninu“ 1627) og „atvinnubótakaflann“ undir Lágafelli (frá fyrstu árum 20. aldar). Fleiri merkir staðir voru skoðaðir á á leiðinni. Um var (og er) að ræða um 17.1 km langa greiðfæra göngu og troðna slóð.
Gengið var mót sólu, sem þá var austan við Grindavík og vestan við mána. Gangan endaði við Títublaðavörðu ofan Járngerðarstaða.

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

Þjóðsagan segir að nafnið Skipsstígur hafi orðið til vegna þess að Junkarar hafi farið stíginn með báta sína milli (Hafna) Njarðvíkur og Grindavíkur, en eins og mörgum er kunngt þá er Junkaragerði ofan við Stórubót í Grindavík. Fór það eftir veðri hverju sinni hvaðan þeir réru. Aðrir hafa nefnt að stígurinn dragi nafn sitt af ferðum manna, sem fóru hann milli heimilis og skips á tímum árabátaútgerðarinnar.
Tveir hólar eru áberandi í vestanverðri Njarðvíkurheiði. Sá syðri er Vogshóll og sá nyrðri Sjónarhóll. Skipsstígurinn lá vestan þeirra og svo til fast við Sjónarhól, sem er betur gróinn. Enn má sjá móta fyrir götunni á kafla í móanum.

Sléttan

Flugvöllurinn Sléttan við Seltjörn.

Tekið var hús á Fysklúbbnum Sléttunni vestan Seltjarnar. Fjórar vélar voru þar til staðar. Aðstaðan er sæmileg á þessari „mestu samfelldu sléttu“ Reykjanesskagans. Að öðru leyti er áberandi sjónmengun frá loftlínum Hitaveitu Suðurnesja á þessum hluta göngusvæðisins; stígar þvers og kurs um falleg hraunsvæði og loftlínustaurar skyggja á annars fallegt umhverfið.
Í Njarðvíkurheiði eru merkileg setlög er benda til mun hærri sjávarstöðu fyrrum, eða að land hafi legið þar mun lægra en nú þekkist. Þessi setlög eru nú að stórum hluta komin undir forvera Keflavíkurflugvallar, svonefndan Pattersonflugvöll (heitinn eftir bandarískum hershöfðingja sem fórst í flugslysi á Fagradalsfjalli), enda hefur þarna verið kjörið flugvallarstæði á sléttum mel. Mestallt svæðið sem setlögin finnast á er innan girðingar hjá varnarliðinu. Hún liggur að vísu niðri á kafla.
GatnamótAustur af N-S flugbrautinni hefur verið og er enn mikið efnisnám, þannig að mestöllu lausu efni hefur verið flett ofan af nokkrum hekturum lands. Botninn í þessum efnisnámum er úr hörðnuðu, fínsöndugu og siltkenndu set. Setið er nokkuð lagskipt og efsti hlutinn sandsteinskenndur. Í því sést hér og þar urmull skelja og skeljaför. Grágrýti stendur víða upp úr, en á því hvílir setið. Jökulrákir á grágrýtinu stefna úr suðsuðaustri. Bæði utan girðingar vestanmegin og í austurjaðri efnisnámsins sést að ofan á harða setinu er rúmlega eins metra þykkt lag af lausri fínmöl og sandi með láréttri lagskiptingu, en ekki hafa fundist skeljar í því. Yfirborð lausu setlaganna hefur að mestu verið rennislétt, fyrir utan dreif stórra steina, en nú hefur því mestöllu verið raskað. Talið er að malar- og sandlagið sé strandhjalli en steinadreifin muni hafa bráðnað úr jöklum við enn hærri sjávarstöðu.
Hlaðin rúst er vinstra megin (austan) Skipsstígs skammt sunnan við gatnamót Árnastígs. Skammt frá henni er hlaðið skotbyrgi. Telja má víst að hvorutveggja hafi tengst refaveiðum fyrrum.

Skipsstígur

Skipsstígur – Rauðamelur framundan.

Rauðimelur er 3 km langur sjávar- og malargrandi norðaustur af Stapafelli og norðvestur frá jarðhitasvæðinu í Svartsengi.  Efnistaka hefur opnað innviði malarrifsins. Þar má meðal annars lesa breytingar í jarðsögu landsins frá jökulskeiði ísaldar. Þarna má sjá sjaldgæfar plöntutengundir og jafnvel tegundir í útrýmingarhættu. Um er að ræða fágætar náttúruminjar. Svæðið er óvenju tegundaríkt og viðkvæmt fyrir röskun, sem reyndar hefur orðið þarna allveruleg þrátt fyrir sérstök verndunarákvæði, sbr. 37. og 39. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Rauðamelur

Rauðamelur.

Rauðamelur varð til í núverandi mynd þegar jöklar og sjór hopuðu af landi í lok síðasta jökulskeiðs ísaldar. Hann er fágætur vitnisburður um miklar stærðarbreytingar á jöklum og á afstöðu lands og sjávar. Berggerð Í Rauðamel eru m.a. jarðlög frá síðasta jökulskeiði, mynduð á hlýindakafla fyrir um 35.000 árum. Ummerki um þennan hlýja kafla hafa jöklar víðast var rofið burtu. Nútímahraun (yngri en 12.500 ára) hafa runnið upp að melnum. Þau eru úr Sandfellshæð (4 km³).

Skipsstígur

Skipsstígur.

Skammt norðar eru Lágar. Ofan þeirra er Gíslhellir. Í örnefnalýsingu Sæmundar Tómassonar fyrir Járngerðarstaði er m.a. fjallað um Gíslhellalág. „Gíslahellulág hefur vafalaust orðið til hjá vegalagningarmönnum á árunum 1915 til 1918, þegar sá vegur var lagður til Grindavíkur, sem nú er. Eg gæti trúað því, að fleiri nöfn hafi orðið til hjá vegagerðarmönnum á þessari leið á þeim dögum.“ Ýmsar tilgátur hafa verið um tilvist og notkun skjólsins í Gíslhelli. Nefnd hafa verið tengsl við Grindavíkurstríðið í júní 1532, Tyrkjaránið 1627, útilegumenn o.fl. Skýringin um vegavinnumennina 1915-1918 er ósennileg því um langan veg er að fara á milli hellisins og vegarins.

Skipsstígur

Skipsstígur – Gíslhellir.

Ef þetta skjól er tengt vegavinnumönnum hefur það verið tengt þeir er unnu að umbótum á Skipsstígnum skömmu eftir aldarmótin 1900. Handverk þeirra má m.a. sjá á stígnum þar sem hann liggur upp úr Lágunum. Gíslhellir er nefndur í örnafnaskrá fyrir Njarðvík, en ekki fyrir Járngerðarstaði.
Við mælingu má sjá að Gíslhellir er við Skipsstíg miðja vegu milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Alls ekki ólíklegt er að hann hafi verið notaður sem skjól/áfanga- eða sæluhús á þeirri leið í gegnum tíðina, en síðan gleymst eftir að umferð um hann lagðist af þegar nýi vegurinn opnaðist 1918.
Vörðugjá dregur nafn sitt af myndarlegri vöru á gjárbarminum. Hún sést vel, hvort sem komið er að sunnan eða norðan.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Haldið var áfram til suðurs. Nú taka við langar hraunsléttur. Latur á vinstri hönd. Hann er í rauninni tveir gígar og utan í þeim hefur verið jarðhitavirkni til skamms tíma.
Þegar gengið er framhjá Illahrauni (á vinstri hönd) má vel sjá gíga þess í hrauninu. Haldið var niður Skipsstígshraun með Bræðrahraun og Blettahraun á hægri hönd.
Þegar Skipsstígur er genginn til Grindavíkur er Þorbjarnarfell (231 m.y.s.) áberandi. „Þorbjörn ku upphaflega, skv. munnmælum, hafa heitið Þorbjarnarfell, en nú virðist það nafn alveg glatað.“ Gamlir Grindvíkingar, trúir sögunni af Molda-Gnúpi, telja fellið hafa upphaflega heitið „Hafur-Bjarnafell“, en það nafn hafi síðar glatast.

Þorbjörn

Þorbjörn. Hér sést misgengið vel um miðju fellsins.

Misgengi er liggur þvert í gegnum fellið frá SV til NA sést mjög vel. Efst við vestanverðan bergvegginn sést í Þjófagjá þar sem þjófarnir (skv. þjóðsögunni) höfðust við og herjuðu á bændur og búalið. Vestan í fellinu má sjá andlit Þorbjörns. Í örnefnaskráningu fyrir Járngerðarstaði eftir Ara Gíslason segir m.a. um Þorbjarnarfellið: „Klifhólar eru útrennsli úr Þorbirni [að suðaustanverðu] en sunnan í Þorbirni er fyrst Eystri-Klifhóll. Ofar í Klifinu er Fiskitorfa. Neðar og vestar er Vestri-Klifhóll og þar ofar er Krókatorfa. Vestan við Klifhól, utan í fjallinu vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr. Vegghamrar er lágur hraunhamraveggur suðaustan í Lágafelli og tengir það við Þorbjörn.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn). Klifhólarnir er sunnan við austanvert fellið og hraunið framhendis nefnist Klifhólahraun.

Vesturhlið Þorbjarnar er brattar skriður sem heita Skjónabrekkur.
Milli Klifhólanna er Klifhólatorfa niður af Krókatorfu sem nú er aðeins snepill.“ Á Þorbjarnarfelli var kampur frá hernum á stríðsárunum (II) og má enn sjá leifar hans í gígskál fellsins
Í örnefnalýsingu fyrir Járngerðarstaði segir m.a. um Dýrfinnuhelli: „Milli Heimastaklifs og Tæphellu er Dýrfinnuhellir. Hann er að mestu ofan jarðar, hvolfþak, nokkrir ferfaðmar að stærð, og opinn að nokkru leyti á móti norðri. Hann var þarna alveg við gamla veginn til Keflavíkur.“ Heimastaklif er milli Lágafells og Tæphellu.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegurinn norðan Lágafells.

Á þessum kafla má best greina vegaumbæturnar, sem gerðar voru á Skipsstíg, þótt víða megi sjá merki þeirra á leiðinni.  Gatan er jafnbreið á alllöngum kafla og hefur verið borið í hana, en ofaníburðurinn, þ.e. fínasti hluti hans, er fyrir löngu fokinn út í veður og vind. Eftir stendur formið.
Skipsstígurinn liggur vestan þess. Augljóst er að gera hefur átt stíginn vagnfæran. Líklegt má telja að þarna hafi verið um atvinnubótavinnu að ræða skömmu eftir aldamótin 1900, sem síðan hafi ekki enst lengur en raun ber vitni. Þessi hluti stígsins er einstaklega fallegur og full ástæða til að varðveita hann, enda má ætla að hann teljist nú til fornleifa skv. gildandi þjóðminjalögum.

Skipsstígur

Skipsstígur innan svæðis loftskeytastöðvarinnar sunnan Lágafells.

Lágafell er suðvestan við Þorbjarnarfell. Fellið er dyngja, ein af þeim smærri á Reykjanesskaganum. Lágafellsheiði nefnist heiðin umhverfis Lágafell, einkum sunnan þess. Í henni er t.d. fjarskiptastöð varnarliðsins o.fl. Nokkrar jarðfallnar vörður eru við stíginn undir Lágafelli. Suðvestan við Lágafell greinist Skipsstígurinn í tvennt; annars vegar heldur hann beint áfram til suðausturs, að Hópi, og hins vegar til suðurs, að Járngerðarstöðum. Báðir stígarnir eru klipptir í sundur af girðingu er umlykur varnarsvæðið að norðanverðu. Sjá má þá liðast þar um móana og vörðubrot við þá.
Hópsanginn kemur undan girðingunni að austanverðu. Vörðubrot er við hann innan girðingar og síðan liðast hann áfram um móana áleiðis í Kúadal.
SkipsstígurGengið var suður fyrir girðinguna, að Títublaðavörðu. Þar sést Skipsstígurinn liðast um slétt hraun og vörðubrot innan við. Títublaðavarðan er utan girðingar. Þaðan liðast stígurinn að Reykjanesvegi, undir hann og áfram áleiðis að Járngerðarstöðu. Vörðubrot er við stíginn sunnan vegarins.
Tómas Þorvaldsson lýsti eitt sinn upphafi Skipsstígs fyrir FERLIR. Þá var gengið upp frá Járngerðarstöðum og upp að girðingunni er umlykur „varnasvæðið“ í Lágafellsheiðinni ofan Grindavíkur. Þegar staðnæmst var skammt frá girðingunni benti „Toddi“ á hálffallna vörðu. Sagði hann hana hafa jafnan verið nefnd Títublaðavarða. Sú álög hafi verið á vörðunni að henni skyldi jafnan haldið við og endurhlaðin eftir því sem þurfa þykir. Meðan það er gert er mun Grindavík hólpin. Sagan er svipuð hér í Járngerðarstaðahverfi og með „Tyrkjavörðuna“, öðru nafni Gíslavarða, utan 
við Staðarhverfi.

Skipsstígur

Skipsstígur – varða.

Títublaðavarðan er vel gróin að neðanverðu. Annars eru vörðurnar við Skipsstíg allflestar sömu megin; vinstra megin er gengið er til suðurs.
Í matsskýrslu Hitaveitur Suðurnesja vegna línulagninga á svæðinu segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur m.a. um hinar fornu þjóðleiðir: „Fornleiðirnar fjórar Skipsstígur, Prestastígur, Árnastígur og ónefnd leið, eru taldar hafa talsvert minjagildi í heild sinni, en einstakar vörður á leiðunum eru taldar hafa lítið minjagildi. Fornleiðirnar og er þá átt við göturnar sjálfar en ekki vörðurnar, eru taldar vera í mikilli hættu vegna mannvirkjagerðarinnar. Hættan felst einkum í slóðagerð sem fylgir línubyggingunni. Aðrir fornleifastaðir eru taldir í lítilli hættu og er það vegna námuvinnslu í Stapafelli hvað varðar tvo þeirra og ein varða sem hefur ekkert minjagildi er í lítilli hættu vegnalínulagnarinnar.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Skipsstígur er talinn hafa að geyma fornleifar sem eru eldri en frá 1550. Aldur götunnar er dreginn af því að hún hefur markað djúpa rás í hraunhelluna á köflum, en slíkt gerist ekki nema eftir mjög langa notkunn. Sambærilega rás var ekki að finna á öðrum fornleiðum sem kannaðar voru.“ Af þessu má sjá að viðkomandi hefur ekki skoðað hinar leiðirnar mjög vel því í þeim má einmitt víða sjá djúp för í klappirnar, auk þess sem sumar vörðurnar eru greinilega mjög fornar. Bjarni minnist t.a.m. ekki á Gíslhelli í skýrslu sinni.
Hægt væri að fara mörgum orðum um flóru svæðisins umhverfis Skipsstíg, en fróðlegt er að lesa matsskýrslur sérfræðinga, sem allar eru á einn veg: „Fjölbreytt flóra er á svæðinu, en því hefur þegar verið raskað verulega með stígagerð og öðrum framkvæmdum“. Litið hefur v
erið á framangreint sem réttlætingu fyrir frekari framkvæmdum á svæðinu. Sem sagt – eyðileggja bara nógu mikið því það réttlætir frekari skemmdir. Þetta geta nú varla talist frambærileg rök frá sæmilega upplýstu fólki.

Varða

Þegar örnefnalýsingar fyrir Járngerðarstaði eru skoðaðar má sjá lýsingu á syðsta hluta Skipsstígsins þar sem hann liggur um Lágafellsheiðina niður að bæ. Ef tekið er það sem eftir var af leiðinni og haldið til heiðarinnar má sjá að „skammt fyrir ofan þorpið er gjáin Silfra. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum. Fast við Vatnsstæðið er varða við veginn til Keflavíkur og heitir hún Títublaðavarða. Upp af Silfru voru Eldvörpin [ekki þau sem eru allnokkru vestar] en þau eru nú horfin því herinn sléttaði þau út. Vestur af þeim er Eldborg. Þar upp af er graslendi sem nefnt er Lágafellsheiði. Um hana lá vegurinn til Keflavíkur.

Helghóll

Helghóll við Skipsstíg innan varnarsvæðisins.

Þar vestur af er Bjarnafangi eða Bjarnafles. Þetta er klöpp rétt vestur eða norðvestur af Eldborg. Hjá henni er Litliblettur. Þá er Stóriblettur og Langhóll vestur af Eldvörpum. Norður af Eldvörpum er grashóll sem heitir Helghóll og kringum hann eru grasivaxnar lágar, Helghólslág eða Helghólslautir. Hóllinn sjálfur er toppmyndaður, þar var sagt að hefði verið huldufólkskirkja. Hún er nú innan varnargirðingarinnar. Upp af Helghól er Lágafell. Kúadalur er í hrauninu [Garðhúsahrauni] þar sem vegurinn liggur. Eldvarpahraun tekur við vestan við Kúadal. Lágafellsheiði heitir einkum austur af gamla Keflavíkurveginum en þegar komið er upp fyrir Lágafell heitir vegurinn Skipsstígur sem áður er nefnt.“

Skipsstígur

Skipsstígur; úr götu í veg.

Skipsstígurinn endurspeglar brú margbreytileikans, annars vegar vegagerð hinnar eðilslægu og skynsamlegu þörf fortíðar og hins vegar tilraun nútímans (1900) til að bregðast við breyttum þörfum samtímans. Hann hefur því ekki einungis gildi sem fornleif (100 ára reglan) heldur og sem áþreifanlegur vottur þróunar í vegagerð hér á landi frá einum tíma til annars – einkum nútímans.
Gangan tók 5 klst og 05 mín.
Frábært veður – logn og sól.

Heimildir m.a.:
-Helgi Torfason og Ingvar Atli Sigurðsson – 2002.
-Járngerðarstaðir – örnefnaskrá (Örnefnastofnun Íslands).
-Njarðvík – örnefnaskrá (Örnefnastofnun Íslands).
-Fornleifaskráning á Reykjanesi – BFE – 2002.
-Sýslulýsingar 1744-1749 – Reykjavík 1957.
-Saga Grindavíkur.

Grindavík

Grindavík – þjóðleiðir á vestanverðum Reykjanesskaga.