Skógtjörn og nágrenni
Gengið var um vestanvert Álftanes norðan Skógtjarnar. Litið var m.a. á tóftir Hliðs, Melshúss, Haugshúss, Skógtjarnar, Lákakots og Hliðsness. Reyndar aflitaði snjór jörðina víðast hvar svo eftirfarandi lýsing er að nokkru leyti byggð á upplýsingum úr deiliskráningu í Bessastaðahreppi frá árinu 2004.
Hlið er á Hliðstanga. Ysti og syðsti hluti hans tangans nefnist Melshöfði. Það var einn helsti útróðrarstaður á Suðurnesinu í margar aldir. Hliðstangi er vel gróinn og hallar landið mót suðri. Sjó hefur brotið mikið af landinu, tugi metra frá því túnakort var gert af svæðinu 1917. Á honum sjást þó enn allmargar fornleifar, s.s. grónir garðar, tóftir kota, brunnar, varir o.fl.
Hliðs er fyrst getið í skráðum heimildum árið 1395, sbr. „Svo margar jarder hafa vunder komit sidan pall aboti kom til videyiar. … Hlid.“ Í Vilchinsmáldaga frá árinu 1397 segir að „Peturskyrkia j Gordum a aaltanesei aa heimaland allt. Havsastder. selskard. hlid…. .“ Í ágripi Garðamáldaga og Álptaness 1477 segir: „Peturskirkia j gordum a alftanese a heimaland allt. hausastade. elskard. hlijd. …“ Árið 1558 hefur Garðakirkja jarðaskipti við umboðsmann konungs; „… jeg hefe under köngsins eign til Bessastada tekid jördina Hlid. er liggur a Kongsznese. … .“
Mikið útræði var frá Melshöfðanum sem liggur er fyrr segir suðvestur frá Hliðstanga. Melshöfða er getið í fógetareikningum yfir leigu, landskyldur og skreiðargjaldsreikninga af konungsjörðum frá 1547-1548. Einnig í fógetareikningum frá 1552 og 1553. Í Jarðbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Kastiansshus …Jons Marteinssonar hus …Jonshus … Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða og gánga þar kóngsskip um vertíð, vor og haust, fleiri eður færri, so mörg sem umboðsmaðurinn fær við komið að láta þar gánga, og er þar til þess ætluð verbúð ein fyrir utan þá, sem nú er bygð, til að hýsa fólk, er rær á þessum kóngsbátum, og kaupa þeir soðning af tómthússmönnum þar í stað… Lending er góð.“ Jarðardýrleiki árið 1703 er óviss. Fram kemur að m.a.: „Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar,…“. Margbýlt var á Hliðstanga.
Árið 1703 voru „Tún jarðarinnar Hliðs [að] rotna og fordjarfast af sjáfarágángi meir og meir.“ Telja verðu því líklegt að tanginn hafi verið mun stærri hér áður fyrr, enda benda grynningar út frá honum að sunnanverðu til þess. Árið 1870 var ein þurrabúð hjá Neðra Hliði og fjórar við Gamla Hlið. Árið 1989 eignast Bessastaðahreppur jörðina. Nú er eitt íbúðarhús á Hliðstanga, norðan við bæjarstæði Neðra-Hliðs. Fátt minja er nú á Melshöfða því hann er strípaður gróðurlaus klettatangi sem fer í kaf á flóði. Af túnakortinu frá 1917 að dæma hafa brotnað um 30 m af landi síðan þá.
Bærinn Efra-Hlið stóð á Hliðstanga þar sem Grandinn er hæstur. Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðstraðir lágu áður. Norðan bæjar eru 20-30 m að sjó sem hefur brotið mikið af landi á síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til en Þvottatjörn er þar í fjöruborðinu, u.þ.b. 100 m frá Efra Hliði. Í örnefnaskrá segir um Hlið: „Forðum stórbýli á Álftanesi. s.v. horni þess. Var í eigu Garðakirkju til 1556, að konungur skifti á því fyrir Vífilstaði og milligjöf, svo sem mjöltunnu, sem aldrei galzt af konungsins valdmönnum. Þar var margt þurrabúða og þar var margbýlt jafnaðalega.“
Á uppdrætti í bók Erlends Björnssonar, „Sjósókn“, þar sem hann sýnir byggð á Álftanesi í kringum 1870, sést að þá eru á Hliðstanga eru þrjú býli; Gamla Hlið, Efra Hlið og Neðra Hlið. Gamla Hlið lagðist í eyði milli 1870 og 1917 vegna landbrots og á túnakortið frá 1917 hefur kortagerðarmaðurinn skrifað: „Gamla Hliðbýli var hér. Nú tóttir einar og kg. [kálgarður?] í eyði…brotnar fast norðan við tætturnar.“ Við eyðingu Gamla Hliðs hófst nafnaruglingur og hefur Efra-Hlið stundum verð kallað Gamla-Hlið og ekki er ólíklegt að Gamla Hlið hafi einnig kallast Efra-Hlið áður fyrr enda segir í örnefnaskrá segir: „Efra Hlið: Svo var Gamlahlið einnig kallað.“ Einnig kemur fram í örnefnaskrá að bærinn Efra Hlið var kallaður Kristjánshlið þegar maður að nafni Kristján [Jónsson] bjó þar seint á 19. öld.
Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar: „Á Efra-Hliði bjó Kristján Mathiesen, ríkur maður og um leið einn merkasti maður sveitarinnar. Hafði hann útgerð mikla, venjulegast fjögur skip, tvo áttæringa og tvö sexmannaför.“ Þegar túnakort var gert fyrir Hlið 1917 eru bæjarhúsin á Efra Hliði úr torfi og grjóti. Húsin snéru þremur burstum til suðurs og eitt hús sambyggt var norðan til. Við bæinn að norðan var kálgarður en bæjarhlað að sunnan. Sunnan bæjarhlaðsins voru einnig kálgarðar og greinir örnefnaskrá frá því að matjurtagarður á hlaðinu hafi heitið Sandagarður. Stórt hús var reist í Efra Hliði snemma á 20. öld og má sjá mynd af því Álftaness sögu. Það hús brann á seinni hluta 20. aldar. Öll ummerki um Efra Hliðsbæ og mannvirki umhverfis hann eru horfin. Rústir hafa verið sléttaðar og ekki sést móta fyrir þeim á yfirborði.
Á túnakorti frá 1917 er sýnt mannvirki um 20 m suðaustur frá bæ, fast sunnan við bæjarhlað Efra Hliðs. Á túnakortið er bókstafurinn „f“ merktur við mannvirkið og í skýringum við túnakortið merkir f=for. Hugsanlega hefur verið þarna einhvers konar haughús.
Á túnakortið er merkt og sýnt tvískipt útihús úr torfi og grjóti vestast á Hliðstanga. Það stóð um 70 m vestur frá Neðra Hliði 006. Nú er sjávarkamburinn aðeins 40 m vestan við bæjarstæði Neðra Hliðs og útihúsið því horfið í sjóinn.
Inn á túnakortið frá 1917 er merkt útihús úr torfi og grjóti um 30 m NNV frá Neðra Hliði. Það stóð í suðausturhorni kálgarðs sem náði til norðurs fram á sjávarkambinn. Húsið var á vestanverðum Hliðstanga. Þar er sléttað tún, sinuvafið og farið að hlaupa í þúfur. Ekki sést lengur til útihússins eða kálgarðsins. Í örnefnaskrá segir: „Salthúsgarður: Svo hét einn matjurtagarður er lá við Salthúsið rétt ofan við Hliðsvarir.“ Að öllum líkindum er útihúsið Salthúsið framangreinda.
Inn á túnakortið er Nýja Hlið merkt, um 180 m VNV við Gamla Hlið, á vesturhluta Hliðstanga. Í örnefnaskrá segir: „Hjallavöllur: Svo hét teigur í túninu sem þar sem Neðra Hlið stóð.“
Bærinn á Nýja Hliði stóð talsvert lægra en Efra Hlið og var því heitið Neðra Hlið réttnefni. Grasi gróið og þýft er á gamla bæjarstæðinu, sem er sinuvafið og komið í órækt. Bærinn stóð á vesturenda náttúrulegs hryggs, Granda, sem býlin á Suðurnesinu eru mörg hver staðsett á. Fjörukambur er aðeins um 40 m vestan og norðan bæjarstæðisins. Í örnefnaskrá kemur fram að á Neðra-Hliði var tvíbýli. Neðra-Hlið gekk einnig undir heitunum Nýja-Hlið og Jörundarhlið. Þar var þurrabúð um aldamótin 1900. Á túnakorti frá 1917 sést að þá var bærinn úr torfi og grjóti og sneru burstirnar tvær til suðurs. Sambyggt að norðan til var eitt hús. Kálgarður var kringum bæinn vestan til. Öll ummerki bæinn og kálgarðana sex sem voru sunnan, og austan við bæinn eru horfin. Bærinn hefur verið rifin og rústirnar sléttaðar í tún. Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8.áratug 19. aldar: „Á Neðra-Hliði bjó Ketill Steingrímsson…[hann] hafði alltaf mikla útgerð, þetta tvö og þrjú skip.“
Hliðsbrunnur var í minningum fólks allnokkurt mannvirki. Inn á túnakortinu frá 1917 er merkt einkennilegt mannvirki um 20 m vestur frá Nýja Hliði.
Nýja Hlið stendur talsvert lægra en Efra-Hlið og er því heitið Neðra Hlið réttnefni. Grasi gróið og þýft er á gamla bæjarstæðinu Neðra-Hliðs, það er sinuvafið og tún komið í órækt. Í örnefnaskrá segir: „Hjallavöllur: Svo hét teigur í túninu sem þar sem Neðra Hlið stóð…Hliðsbrunnur: Hann var stór og hlaðinn upp í Hjallavelli. Voru þar tröppur niður að ganga í Brunninn. Reft mun hafa verið yfir hann í eina tíð.“ Mun hér átt við mannvirkið einkennilega sem sýnt er á túnakortinu. Er þá komin skýringin á teikningunni á túnakortinu, þ.e. þar eru teiknaðar tröppurnar ofan í brunninn. Búið er að afmá ummerki um brunninn, hann hefur líklega verið byrgður og er horfinn í óræktina.
Um 30 m suðvestan við Nýja-Hlið er hlaðinn grjótgarður í fjörukambinum. Vestan garðsins er fjara og en austan hans grasi gróin órækt. Þar er fremur grýtt þar sem sjór hefur borið grjót á land. Skv. túnakotinu frá 1917 var sjóvarnargarður með vesturströnd Hliðstanga, þá 70-80 m frá Neðra-Hliði. Tugir metra hafa brotnað af landinu síðan þá og er grjótgarðurinn sem er í fjörukambinum yngra mannvirki en það sem sýnt er á túnakorti. Garðurinn er örugglega varnargarður og hann liggur suðurnorður. Jarðvegi hefur verið ýtt upp að garðinum, bæði við norður- og suðurenda hans, til að verjast landbroti. Hæstar eru garðhleðslurnar um 1 m.
Á túnakortinu er sýnd vör 80 m norðvestan við Efra-Hlið og 130 m norðaustan við Neðra-Hlið. Vörin er austast í röð fjögurra vara á norðurströnd Hliðstanga. Austan og vestan vararinnar eru klettatangar. Steinar eru í vörinni og í sandinum upp af. Mikið land hefur brotnað á norðurströnd Hliðstanga og umhverfi vararinnar væntanlega breytt.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: „Hjáleiga af Hliði kend við þann, sem ábýr í hvört sinni, og nú kölluð Jóns Björnssonar hús. …Jarðardýrleiki er óviss. … Túnum hjáleigunnar spillir sjór árlega. Selstöðu nýtir ábúandi ásamt heimabóndanum.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga.
Í Jarðabókinni segir einnig: „Hjáleiga önnur ónafngift, kend í hvört sinn við þann sem á býr og nú kölluð Halfdanarhús. Jarðardýrleiki er óviss. … Túnið brýtur sjór, sandur og veður. Selstaða er ásamt heimajörðinni brúkuð.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga. Þá segir einnig í Jarðabókinni: “
Þá er getið um Lonshús: „Jarðardýrleiki er óviss. … Túnunum spillir sands og sjáfarágángur. Vatnsból og selstaða er sem á heimajörðinni.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga. Einnig; „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: Tómthús kallað Kastiansshus… Eldiviðartak af móskurði ásamt heimabóndanum. Vatnsból sama sem heima á jörðinni Hliði…Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“ Melshöfði er brotinn af sjávarágangi. Hann kemur upp á fjöru en er rúinn öllum mannvirkjum. Og; „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Jons Marteinssonar hus, tómthús…Eldiviðartak ásamt heimajörðinni.Vatnsból sama sem heima á jörðinni [Hliði]….Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“ Einnig; „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Jonshus, þriðja tómthús í sama stað [þ.e. Melshöfða]. Það halda Bessastaðamenn undir sínum umráðum og so hefur lengi verið…Eldiviðartak og vatnsból ásamt Hliði. Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“
Í Jarðbók Árna og Páls er getið um verbúð: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru:…Kastiansshus …Jons Marteinssonar hus… Jonshus… Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða og gánga þar kóngsskip um vertíð, vor og haust, fleiri eður færri, so mörg sem umboðsmaðurinn fær við komið að láta þar gánga, og er þar til þess ætluð verbúð ein fyrir utan þá, sem nú er bygð, til að hýsa fólk, er rær á þessum kóngsbátum, og kaupa þeir soðning af tómthússmönnum þar í stað…Lending er góð“ ,,Hliðskot: Svo var eitt býlið kallað vestast í túninu [í Hliði]. Partur sá var gefinn Álftaneshreppi 1836…,“ segir í örnefnaskrá. Sjór hefur nú brotið mikið land af vestanverðu nesinu og má heita öruggt að Hliðskot sé horfið í sjóinn, sbr. útihúsin fyrrnefndu. „Sveitaparturinn: Hliðskot var einnig kallað þessu nafni. 1910 rak þar hval, en þá átti Hafnarfjörður partinn. Hvalurinn reyndist Andarnefja kasúldinn,“ segir í örnefnaskrá.
„Þurrabúð við Kristjánshlíð [sama og Efra-Hlið],“ segir í örnefnaskrá. Litli bærinn hefur staðið nálægt Efra Hliði, en ekki er vitað hvar. Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á Grandanum, náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðsvegur lá áður. Norðan bæjar eru 20-30 m að sjó, en mikið land hefur brotnað af sjávargangi síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til.
„Gula húsið“: Svo var gesthús Kristjáns [Jónssonar] í Hliði kallað. Á hlaðinu…Kinn: Svo var slétta kölluð, er lá framan við Kristjáns Hlið. Þar stóð hús sem kallað var „Gula húsið“,“ segir í örnefnaskrá. Gula húsið hefur verið í hlaðvarpanum sunnan við bæinn.
Bærinn stóð á háhæðinni sem fyrr sagði en aflíðandi halli er niður að sjó sunnan til. Kristján Jónsson bjó á Hliði seinni hluta 19. aldar. Þegar túnakortið er gert 1917 er Gula húsið horfið af bæjarhlaðinu.
Í örnefnaskrá segir: ,,[Hliðstúngarður] var aðallega reistur á norður og austurhlið túnsins, en sjór braut hann og var hann byggður aftur.“ Á túnakortinu er merktur túngarður sem liggur 70 m til austurs frá bæ en beygir þar til suðurs og liggur í um 50 m áður en hann hverfur. Túngarðurinn sést enn. Hann er fast sunnan malarvegarins, 2-3 m, sem liggur eftir tanganum. Garðurinn er alls 90 m, jafnlangur og hann var árið 1917 m skv. túnakorti. Hann er aðallega úr torfi, en þó sést í honum grjót á stöku stað. Hann er siginn, 0,3 m hár.
„Hliðsvegur“: Svo var vegur lagður og hlaðinn eftir Grandanum. Síðan það var hefur jarðvegur hlaðist að veginum og fyllt upp beggja megin við,“ segir í örnefnaskrá. Malarvegur er eftir Grandanum miðjum, líklega þar sem Hliðsvegur lá áður, á háhryggnum. Skv. túnakorti lá vegurinn heim að Efra-Hliði, en engar götur eru merktar niður að Neðra-Hliði. Beggja vegna malarvegarins er grasi gróin órækt og mikil sina.
Inn á túnakort frá 1917 er merktar varir 60-70 m norðaustan við Neðra Hlið. Við þá vestustu stendur skrifað á kortið: „Vör (notuð nú).“ Sú vör er staðsett u.þ.b. 60 m norðaustur frá Neðra Hliði og 140 m VNV við Efra Hlið. Á staðnum sem vörin á að hafa verið skv. túnakortinu, er slétt klöpp, og fremur stórgrýtt beggja vegna. Aðalvörin frá Hliði var nefnd Gamla-Hliðsvör. Á örnefnakort af Álftanesi er Gamla-Hliðsvör merkt inn 20-40 m norðaustur frá Efra-Hliði. Á þessum slóðum hefur sjór brotið land og allt umhverfi breytt frá því sem áður var. Ekki er alveg ljóst af örnefnaskrá hvaða heiti eiga við hverja vör. Við skráningu Gömlu-Hliðsvarar var fylgt merkingum örnefnakortsins. Í örnefnaskrá segir: „Hliðsvarir: Norðan undir Hliðsbæina undir miðjum Gamlahliðsbakka. Þar var gott rúm fyrir mörg skip og stór…Nýja Hliðsvör: Svo var annar hluti vararinnar kallaður.“ Nýja-Hliðsvör var u.þ.b. 70 m norðaustan við Neðra Hlið. Þar eru tvær varir saman og báðar merktar inn á túnakort frá 1917. Nýja-Hliðsvör var líklega sú eystri. Eystri vörin er ekki eins hrein og sú vestari. Í henni eru flúrur og klettar en sandur í fjörunni.
Ofan við fjöruna var hlaðið byrgi. „Það var allstórt skipahróf, er geymdi skip og báta Hliðsbónda milli,“ segir í örnefnaskrá. Inn á túnakort frá 1917 er merkt skiparétt. Hún var á norðurbakka Hliðstanga milli Hliðsvara og, 80 m norðvestur frá Efra-Hliði. Líklega er skiparéttin það sama og nefnt er skipahróf í örnefnaskrá. Núverandi íbúðarhús á Hliðstanga er fast sunnan skiparéttarinnar. Fjörukamburinn er hærri en veggur naustsins. Sunnan naustsins er slétt malarborin lóð að núverandi íbúðarhúsi á Hliðstanga. Aðeins eru 3 m milli hleðslu og húss vestast, en 10 m austast. Aðeins er einn veggur naustsins eftir. Hann er 7 m langur, norðvestur-suðaustur. Hann er 0,6 m hár og sjást fjögur umför af grjóti. Ekki sést hversu breið hleðslan er því mölin í fjörukambinum gengur að honum og upp fyrir hann. Ekki sést nú hvort hleðslan tilheyrir suður- eða norðurlanghlið naustsins. Sé naustið horfið í fjörukambinn, þá er hleðslan leifar suðurlanghliðar. Hafi verið byggt á nauststæðinu er hleðslan leifar norðurlanghliðar.
Heimild er um sjóbúð, „Beitningabyrgið“: „Það var byrgi austan varanna, líklega Hliðsvara, þar beittu menn lóðir,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað um staðsetningu byrgisins. Ætla má að það hafi staðið nálægt Hliðsvörum, en mikið land hefur brotnað af norðurströnd Hliðstanga og líklegast að byrgið sé horfið í sjóinn, alltéð sjást leifar þess ekki á þessum slóðum. Hnit var tekið austan varanna fyrrnefndu á norðurströnd Hliðstanga.
Grútarbyrgið var enn eitt byrgjanna. „Það geymdi ker og tunnur undir lifur þá sem kom úr fiskinum,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað um staðsetningu byrgisins. E.t.v. stóð það nálægt Hliðsvörum, þar sem fiskurinn kom á land, en sjór hefur brotið mikið land af norðurströnd Hliðstanga og líklegast er að byrgið sé horfið í sjó, a.m.k. sjást leifar þess ekki á þessum slóðum.
Sjógatan var gatan kölluð frá vörunum heim til bæjar. Lá hún upp með vesturvegg Gamlahliðs [ekki er ljóst hvort hér sé vísað í Efra-Hlið, að gatan hafi legið upp úr fjörunni við bæinn. Eða hvort vísað er til Gamla-Hliðs],“ segir í örnefnaskrá. Milli bæjarstæðis Efra-Hliðs og Hliðsvara er grasi gróið og sinuvafið, svæði. Það sama á við um svæðið að þeim slóðum sem Gamla-Hlið stóð áður. Öll merki um Sjógötuna eru nú horfin og kemur þar sjálfsagt bæði til að sjór hefur brotið mikið land af norðurströnd Hliðstanga og sömuleiðis gætu jarðbætur á 20. öld hafa skemmt götuna.
„Fjósbrunnurinn var í túninu austan við Fjósið. Vatnið var með megnu brennisteinsbragði. Fjósið: Það stóð í túninu sunnan bæjanna, sér byggingin alveg,“ segir í örnefnaskrá. Ummerki um Fjósið, Fjósbrunn og Fjósgötur eru horfin og ekki vitað hvar þau voru.
Innan túngarðs er Skjónaleiði. „Þar var 1807 heygður hestur Jörundar bónda Ólafssonar á Hliði er Skjóni hét. Skjónasteinn er ofan á leiðinu. „Á þúfu þessari eða leiði liggur steinn. Á hann er klöppuð vísa þessi. Ofan við vísuna er ártalið 1807. Heygan Skjóna hér ég tel/þessi Jörsa þjenti vel/Hestinn bezt að liði./Þegar hann bjó á Hliði,“ segir í örnefnaskrá. Það sem sést af steininum er 40 x 30 sm. Steinninn er meira en hálfur á kafi í sinu en og sokkinn í þúfuna. Á þeim hluta sem er ofar moldu má sjá nokkra stafi en ekki vísuna góðu né samhengi í texta, til þess þyrfti að moka ofan af honum. (Sjá meira undir Skjónaleiði).
Sandhús var enn eitt býlið á Hliði, suð-vestur frá Hliðsbæjum. Það stóð þar sem Melshöfði byrjaði. Sandhúsavör lá innan Melshöfða. Var allgóð vör. Þar var lent þegar komið var úr kaupstaðarferðum úr Hafnarfirði,“ segir í örnefnaskrá. Sandhúsavör er merkt inn á kort Erlends Björnssonar. Um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar segir hann: „Hjá Neðra-Hliði var Pétursbúð, er var þurrabýli.“ Ekki er vitað hvar Pétursbúð stóð.
Grasi gróið og þýft er á bæjarstæðinu, sem er sinuvafið og komið í órækt. Bæjarstæðið er á vesturenda náttúrulegs hryggs, Granda. Fjörukambur er aðeins um 40 m vestan og norðan bæjarstæðisins.
„Markasteinn var stór steinn, sem stóð á miðjum Hliðsgranda. Slíkur steinn stendur nú á austanverðum Grandanum. Spurning er hvort þarna kunni að vera um sama steininn að ræða, enda hefur brotið mjög af Grandanum á umliðnum tímum.
Varasteinn var norðar í fjörunni. Þessi steinn var með áletruninni „M.H.S“,“ segir í örnefnaskrá. Sjór hefur brotið mikið af norðurströnd Hliðstanga líklegt að Varasteinn sé horfinn í sjó því engin merki fundust um hann við vettvangsathugun.
Um bæinn Skógtjörn er m.a. getið 1248: „Gaf Þórður til staðarins í Skálaholti Skógtjörn á Álftanesi fyrir sál föður síns og móður.“ „… Knud Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonson. ,,, ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a … Alttanesi … Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins …“
1703: Tvennar varir… „jarðarinnar brýtur sjórinn í Skógtjörn og ber þar uppá sand og marálm…“ Íbúðarhúsabyggð er risin allt í kringum Skógtjarnarbæjarstæðið gamla utan þess að sléttað tún er austan þess. Land jarðarinnar er í aflíðandi halla mót suðri, niður að Skógtjörn sem er meðfram landareigninni að sunnanverðu. Skógtjörn er merkt inná túnakort frá 1917, um 300 m suðvestan við Brekku. Inn á örnefnakort af Álftanesi er merktur brunnur nálega miðja vegu milli Skógtjarnar og Hólakots. U.þ.b. 80 m VNV frá Hólakoti er steypt þró með járnloki. Að þrónni hefur verið ýtt jarðvegi. Umhverfis þróna er slétt tún, þó farið að hlaupa í þúfur. Brunnurinn er ekki merktur á túnakort frá 1917.
Um 260m austan við Skógtjörn og 100 m SSA við Brekku liggur garðlag frá grjótgarði niður að Skógtjörn. Garðurinn er líka merktur inn á túnakort frá 1917. Grónir lyngmóar eru austan garðlagsins en sléttuð tún vestan þess. Garðurinn er mikill um sig, en eingöngu rjóthlaðinn. Hann er um 200 m langur. Op (um 2 m) er á garðinum um 90 m frá norðurenda. Vestan garðsins og í stefnu frá opinu voru hjáleigurnar Gíslakot og Eysteinskot. Að líkindum hefur garðlagið verið Skógtjarnartúngarður. Syðst tengist það garðlögum frá Lásakoti og sjóvarnargarði, sem þarna er.
Skógtjarnarbrunngata lá frá Brunninum heim til bæjar. Brunnurinn hefur verið vel upp hlaðinn. Frá honum lágu götur heim á hverja hjáleigu, og að hverri þurrabúð,“ segir í örnefnaskrá. Umhverfis brunninn er sléttað tún en óræktaður rimi að íbúðarhúsbyggð vestar. Ekki sést til Skógtjarnarbrunngötu lengur. Hún er horfin í sléttað tún.
Gíslakot var þurrabúð frá Skógtjörn S-A frá Skógtjörn. Gíslakotstún var lítið gerði sem fylgdi þurrabúðinni. Inn á túnakort frá 1917 er merkt býlið Gíslakot um 160 m SSV við Brekku og 200 m suðaustan við Skógtjörn. Ekki er víst að kotið hafi verið nákvæmlega staðsett á túnakortinu þar sem bæjarheitið er innan sviga og gæti það þýtt að kotið sé í eyði og orðið tóftir einar. Á uppdrætti EB er Gíslakot merkt inn alveg niðri við sjó (Skógtjörn) u.þ.b. 350 m SSV frá Brekku.
Nöfnunum Gíslakoti og Dómhildarkoti hefur slegið saman í gegnum tíðina. Árið 1870 er Gíslakot og Dómhildarkot sitthvor bærinn. Inn á örnefnakort af Álftanesi frá árinu 1977 er Gíslakot nefnt Dómhildarkot í sviga. Árið 1917 er Dómhildarkot ekki merkt inn á túnakortið. Búið er að slétta bæjarstæði Gíslakots í túnið en þar sem býlið stóð skv. túnakortinu eru ójöfnur, þúfnahlaup og einstaka steinar standa upp úr sverði. Þar mætti búast við leifum býlisins undir sverði. Á uppdrætti EB eru merkt inn fjögur kot í einum hnappi norðan Skógtjarnar. Vestast var Gíslakot, 100 m austar var Eysteinskot og Hólakot 50 m austur frá Eysteinskoti. 50 m norðan Gíslakots og Eysteinskots var Dómhildarkot.
Seint á 19. öld var grasnyt í Gíslakoti og ein kú. Eysteinskot var Þurrabúð í Skógtjarnarlandi, austur frá Eysteinskoti. Ekki sést vottur af Eysteinskoti í túninu, það hefur verið rifið og rústirnar sléttaðar í túnið. Örlitlar ójöfnur eru á þeim stað sem kotið á að hafa verið á skv. túnakorti í rimanum og þar geta leynst leifar Eysteinskots. Í endurminningum EB kemur fram að Eysteinskot um 1870, hafi verið grasbýli, með eitt kýrfóður. Á uppdrætti í bók EB er Eysteinskot 350 m sunnan Brekku og 100 m austan við Gíslakot, af þessu má ráða að staðsetning býlanna hafi skolast til í gegnum tíðina.
Hólakot var einnig þurrabúð í Skógtjarnarlandi, austur frá Eysteinskoti. „Hólakotstún var túnskiki eða gerði við þessa þurrabúð,“ segir í örnefnaskrá. Hólakot hefur verið rifið og rústirnar sléttaðar í túnið. Ójöfnur sjást þó í hólnum og steinar standa upp úr sverði á nokkrum stöðum, líklega úr býlinu.
Lásakot er, líkt og aðrar bæir, nú tóftir einar – en þó öllu greinilegri því vel má lesa þar húsaskipan og nýtingu. Lásakot var þurrabúð austast í Skógtjarnarlandi. Þar var búið einna lengst af öllum Skógtjarnarþurrabúðum, eða allt til 1920? „Lásakotstún var stærst tún við þurrabúðir Skógtjarnar,“ segir í örnefnaskrá. Inn á örnefnakort af Álftanesi er Lásakot merkt skammt norðan Skógtjarnar suðaustan við Hólakot og Gíslakot. Tóftir Lásakots eru á norðurbakka Skógtjarnar, u.þ.b. 450 m suðaustan Brekku, og umhverfis tóftirnar eru miklir grjótgarðar. Bæjarstæðið er í aflíðandi halla mót suðri. Tóftirnar standa fremst á hörðum, grasi grónum en smáþýfðum bökkum Skógtjarnar. Í endurminningum EB kemur fram að Lásaskot (um 1870), var þurrabúð og oftast tvíbýli. Annar þurrabúðarmaðurinn í Lásakoti lifði mikið af því að þurrka og flytja marhálm til Reykjavíkur og selja hann þar. Rústasvæðið er stórt, markað af töluverðum garðlögum og eru tóftirnar í suðausturhorni þess. Bæjartóftin eru 4 hús sambyggð og snúa austur-vestur. Tóftirnar eru úr torfi og grjót, og sést grjót í veggjum bæði að innan-og utanverðu. Austasta húsið í tóftaröðinni er með op á norðurgafli. Vestasta húsið er stærst, skiptist í 3 hólf og snýr norður-suður. Í nyrst hólfinu er afstúkað smáhólf og þaðan er op til austurs. Úr stærsta hólfinu er svo innangengt í fjórða hólfið í tóftaröðinni sem er smáhólf til austurs. Hæstu hleðslur eru u.þ.b. 1 m á hæð. U.þ.b. 10 m norðvestan við vestasta húsið í bæjarröðinni er tóftarbrot í túninu um 3 x 2 m stór og dæld og stallar þar upp af. Einnig er stallur í túninu bæði upp af miðjutóft bæjarraðarinnar og sömuleiðis austustu tóftinni. Ekki er ljóst hvaða hlutverki stallar þessir hafa gegnt.
Stór einföld tóft er í túnhorni 25 m norðvestur frá tóftaröðinni á bakkanum. Sú er hlaðinn úr torfi og grjóti þó hún sé að mestu torfhlaðinn, snýr norður-suður og op nyrst á vesturlanghlið. Suður frá tóftaröðinni eru aðeins 2 – 5 m suður að tjarnarbakka Skógtjarnar en austan, norðan og sunnan liggja garðlög umhverfis bæinn. Garðarnir eru eingöngu hlaðnir úr grjóti og skiptast í ýmsa smágarða. Í sumum má sjá öldukennt yfirborð og eru það líklega gamlir kálgarðar. Í og á tjarnarbakkanum má einnig sjá hleðslur víða. Op er á grjótgarðinum 2 m austan austustu tóftarinnar í bæjarröðinni og einnig er op austan við tóftina sem er stök norðvestast í túninu. Gata hefur legið til vesturs, norðan bæjarraðarinnar. Rústirnar í Lásakoti eru stæðilegar og hafa mikið varðveislugildi sem eini fulltrúi tuga smákota sem voru á Álftanesi. Lásakotsbrunngata lá frá kotunu til vesturs og er enn greinileg. Skógtjarnarbrunnur er nú vestast á sléttu túni vestan Lásakots og suðvestan Brekku. Hann virðist í fyrstu vera hóll, en er betur er að gáð má sjá á honum járnlok; dæmigerður brunnur á þessu svæði fyrrum. Hafsteinn Árnason í Brekku sagði brunninn hafa verið færðan nær Stógtjörn vegna þess að vatnið hafi þótt saltbragðað.
Lásakotstúngarður er austan til við þurrabúðina. Lásakotstúngarðshlið var á þessum túngarði og sést enn. Um 110 m austur frá Lásakoti er mikill garður sem liggur frá fjöru (eða Skógtjarnarbakka) nánast upp að landamerkjagarði. Vegur skilur í milli garðlaganna tveggja.
Lyngmóar eru beggja vegna garðsins. Garðurinn er eingöngu grjóthlaðinn, 2 m breiður og u.þ.b. 160 m langur og liggur í norður – suður. Op er á garðinum um 30 metra frá suðurenda hans.
Lásakotsbrunngata lá frá Skógtjarnarbrunni heim í bæ,“ segir í örnefnaskrá. Á herforingjaráðskorti frá 1902 er sýnd leið frá Lásakotsbæ til vesturs að Skógtjörn, Árnakoti og Melshúsum. Varla hafa margar götur legið þessa leið og verður að telja hana Lásakotsbrunngötu, þó e.t.v. hafi hún kallast fleiri nöfnum. Enn sést hvar gatan hefur legið frá Lásakoti og vestur að Skógtjarnartúngarði en vestan túngarðsins eru sléttuð tún og þar sést gatan ekki. Grónir lyngmóar eru í kringum Lásakot en sléttuð tún vestar. Umferð um götuna hefur grafið hana niður en hún liggur milli garðlaganna í Lásakoti. Gatan sjálf er mjó, 0,4 m breið og er allt að 0,3 m djúp. Þá breikkar hún er kemur að brunninum. Þangað hafa verið a.m.k. 200 m. En gatan sést nú u.þ.b. 80 m vestur frá Lásakoti, að túngarðinum. Áður farið var á staðinn var leitað upplýsinga hjá Hafteini Árnasyni (áttræðum) í Brekku. Hann sagði brunninn varla hafa verið brunn, frekar holu með steinum í kring. Hann væri skammt neðan við hlaðna túngarðinn ofan strandar, um 10-15 metrum vestan við þvergarðinn, sem þar er og liggur áleiðis upp að Brekku. Í Lásakoti hefði síðast búið Guðmundur nokkur, uppnefndur Kartafla vegna þess hvernig fætur hans væru.
Með bökkum Skógtjarnar er grjótgarður. Sunnan garðsins eru bakkar Skógtjarnar, flatir og blautir (20 metra breiðir) en norðan þess eru sléttuð Suðurtúnin. Garðurinn liggur frá Skógtjörn að Hólakoti. Hann hefur ekki verið hlaðinn upp vandlega á þessum parti og er fremur grjótruðningur en verkleg hleðsla. Suðaustar verður garðurinn verklegri, og greina má hleðslur með 3-4 umförum af grjóti. E.t.v. er grjótruðningurinn yngri en hleðslurnar í austurhluta garðsins. Garðurinn hefur að líkindum gegnt hlutverki túngarðs fremur en sjóvarnargarðs.
Lending virðist vera neðan Lákakots. „Ekki er talað um lendingu á þessum slóðum í örnefnaskrá. Brekkuvör, Melhúsavör og Skógtjarnarvör voru við „Helguvík, undir Grandanum að Hliðós.“ E.t.v. er þetta lending smákotanna sem voru í suðurtúninu, Lásakots, Eysteinskots, Hólakots, Gíslakots eða Dómhildarkots, en áður fyrr var lagt upp frá Skógtjörn á bátum, skv. heimildamanni, Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Á þessum stað er eini staðurinn í fjörunni milli Skógtjarnar og Lásakots, sem virðist vænlegur sem lending. Varirnar virðast tvær, eins og áður segir, og skiptast í miðju af mjóum klettarana. Sandur er í fjörunni. Grjótgarður liggur niður að þessari meintu lendingu, suður frá öðrum grjótgarði.
Brekka er nokkuð ofan skógtjarnar. Bæjarins er getið 1556: ,, … Knud Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonson. ,,, ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a … Alttanesi … Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins …“ Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir: „Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“ Þá er jarðardýrleiki er óviss og jörðin í konungseign. Í sýslu- og sóknalýsingum frá 1842, segir: „…dæmi eru og til, að jarðeigendur hafa selt jarðir sínar svona í smápörtum, og þannig var t.a.m. jörðin Brekka í Álptanesi, 16 hndr. að dýrleika, seld fyrir fáum árum í 7 pörtum, fyrir hverja virðist vanta lagaheimild.“ Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir: „Túnunum spillir sjáfarágangur og átroðningur af almenningsvegi.“ Tún Brekku eru beggja megin Grandans og kallast Suður-og Norðurtún eftir því hvoru megin þau liggja. Suðurtún eru enn óbyggð en íbúðarhúsabyggð er risin annarsstaðar í kringum Brekkubæ.
Gamli bærinn, sem merktur var inn á túnakort frá 1917, stóð þar sem vesturhluti íbúðarhússins á Brekku er nú. Brekka er á náttúrulegum hrygg í landslaginu. Þar sem gamli bæinn var er nú steinsteypt íbúðarhús með kjallara en vestan við það er hæð í sléttu túninu.
Hugsanlegt að þarna sé um að ræða útflattar leifar bæjarhúsa þó mestur hluti þeirra sé nú undir íbúðarhúsinu.
Inn á túnakort frá 1917 er merkt útihús innan við 5 m vestsuðvestan við Brekku. Útihúsið hefur verið þar sem nú er hæð í túninu vestan við núverandi íbúðarhús á Brekku. Inn á túnakortið er merkt útihús 300 m suðaustan við Brekku. Tóft hússins sést enn.
Inn á túnakortið er merkt býlið Kirkjubrú u.þ.b. 220 m austan við Brekku. Á Kirkjubrú er nú gamalt steinhús, tvílyft með kjallara, skv. túnakortinu stóð gamli Kirkjubrúarbærinn u.þ.b. 20 m vestan núverandi íbúðarhúss. Kirkjubrú stendur á náttúrulegum hrygg, Granda, sem liggur frá Hliði í vestri að Skerjafirði í austri. Vegur lá eftir Granda, hægra megin við íbúðarhúsið.
Allir Brekkubæirnir (Brekka, Brekkukot og Kirkjubrú) eru á hrygginn og kallast bæjartúnin norður og suðurtún, eftir því hvoru megin hryggjar þau eru. Hóll er vestan við steinsteypta íbúðarhúsið, sem nú stendur. Hann er mjög raskaður, húsum hefur verið ýtt niður brekkuna mót suðri. Útihús stóðu á hólnum í seinni tíð að sögn Friðriks Jóhannssonar ábúanda í Sviðholti en gamli bærinn stóð þar áður, skv. túnakorti. Miklar ójöfnur eru í hólnum og spýtna og steypubrak neðst í honum að sunnanverðu. Allt bæjarstæðið er mjög raskað af sléttun, niðurrifi og nýrri byggingum. Á Kirkjubrú eru nú, auk steinhússins, útihússkúrar, sem ekki niðurgrafnir. Kirkjubrú hefur verð í eyði í nokkur ár.
Inn á túnakort frá 1917 er merkt býlið Núpskot 170 m ASA við Brekku. „Núpskot var á miðju Suðurtúni Kirkjubrúar (Ath.: en talað var um Norðurtún og Suðurtún sitt hvoru megin í áðurnefndum hæðarhrygg [þ.e. Grandi] – bæði frá Brekku og Kirkjubrú). Á rústum þess var kálgarður fram til 1940.“ segir í örnefnaskrá. Þar sem Núpskot var, er ávalur hóll í túninu.
Hóllinn er í sléttuðu túni. Landi hallar mót suðri og austri. Vegna þess hversu ávalur hóllinn er, eru mörk hans óskýr. Rústirnar hafa verið sléttaðar í túnið en búast má við að hleðslur leynist undir sverði. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir um Brekkuland: „Torfrista og stúnga fer mjög til þurrðar.“
Halakot er merkt inn á túnakort frá 1917 um 420 m vestan við Brekku. Halakot er u.þ.b. 20 austan við Halakotstjörn, Bæjarstæði Halakots. Horft til norðvesturs. Bæjarstæði Hjallakots er hægra megin við golfskálann bláa. Halakotstjörn er neðan við gerðið.
Í endurminningum EB kemur fram að Halakot hafi verið grasbýli og þar venjulega hafðar 3 kýr. Búið er að rífa bæinn og öll ummerki um hann horfin, en gerði um kálgarð sem var við norðan við bæ sést enn. Árið 1917 var vegur heim að bæ frá götunni, þar sem nú heitir Höfðabraut. Timburhús virðast hafa verið í bæjarröðinni vestanverðri en stakt torfhús austan við. Kálgarður var norðan og vestan bæjar.
„Beint vestur af Brekku c.a. 10 m vestan við merkin er Smiðshús. Það stendur á svipuðum stað og býlið Brekkukot, stóð áður. Fyrir 1950 voru þarna tveir kálgarðar og umhverfis þá hlaðnir grjótgarðar. Sjávargatan frá Brekku lá á milli þessara garða. Hún var fjölfarin gönguleið, því eftir henni var t.d. gengið til kirkju að Bessastöðum af bæjunum vestan við Brekku.“ segir í örnefnaskrá. Sjávargatan lá frá gamla bænum og til vesturs á hryggnum sem er í landslaginu á þessum slóðum. Gatan lá í túnunum til vesturs þangað sem nú er vegur að Hliði. Hún lá á sama stað og vegurinn liggur þar til komið var að Brekkuvör í Vestri-Skógtjörn. Rennislétt tún eru að mestu þar sem gatan var en þó lá hún að hluta þar sem nú liggur akvegur. Gatan var notuð fram eftir öldinni.
„Í Brekkulandi, fast fyrir austan merkin [líklega við Brekkukot], er Brunnurinn. Í hann var sótt vatn frá Brekku“ segir í örnefnaskrá. Brunnurinn var um 80 m norðnorðvestan við bæ en 2-3 m austan við túnjaðar og heimreið að Smiðshúsum. Hann var 30-40 m ofan við Suðurnesveg. Fyllt hefur verið upp í brunninn og hann er ekki lengur greinilegur á yfirborði. Umhverfis eru sléttuð tún en gras er aðeins lægra í námunda við þar sem brunnurinn var.
„Áður mun vegur hafa legið þar sem þessi garður er í stefnu á Selskarð. Hann hefur verið upphlaðinn og púkkaður. Þetta var fyrsti vegur á Suðurnesið og var byggður nokkru fyrir aldamótin“ segir í örnefnaskrá. Greinilegur, grjóthlaðinn túngarður sést 80-100 m sunnan við íbúðarhúsið á Brekku. Garðurinn liggur austur-vestur með nokkrum litlum beygjum. Garðurinn liggur í túnjaðri í Brekkulandi en er ennþá greinilegur vestar í íbúðahúsabyggð.
Túngarðurinn er hlaðinn úr stórum grjóthnullungum. Hann afmarkar tún Brekku til suðurs og liggur í suðvesturhorni þess svæðis sem nú er tekið til aðalskipulags (þ.e.a.s. árið 2002) á um 100 m kafla.
„Sýsluvegur var lagður laust fyrir aldamótin 1900 austan frá Selskarði vestur milli Skógtjarnar og Brekku,“ segir í örnefnaskrá Álftaness.
„Áður fyrr mun vegur hafa legið þar sem þessi garður er í stefnu á Selskarð. Hann hefur verið upphlaðinn og púkkaður. Þetta var fyrsti vegur um Suðurnesið og var byggður nokkur fyrir aldamót,“ segir í örnefnaskrá. Vegurinn er orðinn talsvert úr lagi genginn enda byggður á mjög blautu undirlagi. Hlaðið hefur verið undir vegginn með grjóti. Hleðslur eru 0,2-0,4 m háar að sunnan en lægri að norðan því örlítill halli er á landinu. Vegurinn er a.m.k. 400 m langur og víðast um 2 m breiður. Hann liggur í suðaustur -norðvestur. Á honum hafa verið gerðar vegabætur á nokkrum stöðum, t.d. ræsi í gegnum veginn hlaðið svo vatnið safnaðist ekki saman ofan hans. Fyrst hefur verið stungið fyrir ræsinu, það lagt hellum sem eru reistar á rönd og að lokum hellur lagðar yfir.
„Á Grandanum, fast norðan við veginn, sem liggur út á Suðurnes, er stór steinn, sem nefndur er Grásteinn,“ segir í örnefnaskrá Brekku. Suðurmerki Sviðholts lágu úr Grásteini „…í Króksgarð miðjan og þaðan í markastein fast norðan við sjávargötu frá Króki,“ segir í örnefnaskrá Sviðholts. Grásteinn er 290 m norðaustan við Brekku og 700 m ANA við Sviðholt. Grásteinn er u.þ.b. 10 m norðan Suðurnesvegar á náttúrulegum hrygg í umhverfinu sem kallast Grandi. „Í honum [Grásteini] býr huldufólk. Eitt sinn var reynt að kljúfa Grástein og sjást enn þá fleygaförin í honum. Þegar menn voru byrjaðir að kljúfa steininn sýndist þeim húsin á Eyvindarstöðum standa í ljósum loga og fóru að athuga. Reyndist þá ekki vera kviknað í. Önnur tilraun var gerð til að kljúfa Grástein og fór allt á sömu leið. (Sjá meira um Grástein).
Hefur það ekki verið reynt síðan.“ segir í örnefnaskrá Brekku. Fleygförin afdrifaríku eru vel greinileg í Grásteini.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir: „Tómthús [eru] heima við bæinn.“ Í Sýslu-og sóknalýsingum er sagt að við Brekku séu tvö tómthús. Ekki sést til býlanna nú og enginn veit hvar við bæinn þau stóðu.
Á túnakorti frá 1917 er merktur inn brunnur 30 m vestur frá vesturhorni Halakots. Þar er þúst á austurbakka Halakotstjarnar. Þústin er fast austan tjarnarinnar í deiglendi á mörkum tjarnar og túns. Ofan og austan þústarinnar er þurr og rennsléttur golfvöllur. Þústin er um 2,5 m í þvermál og 0,6 m á hæð. Steinar sjást í hliðum hennar. Þetta eru síðustu leifar Halakotsbrunns, sem eru nú mjög raskaðar.
Haugshús er 1703 konungseign. „Hálflenda so kölluð, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmíngs á móts við lögbýlisjarðir; þykjast menn heyrt hafa að hálflenda þessi sje til forna byggð úr Sviðholtslandi.“ „Haugshús voru um 200 m norður og austur (upp) af Hjallakoti. Þau eru einnig komin í eyði fyrir löngu. Þar var löngum tvíbýli,“ segir í örnefnalýsingu.
Haugshús voru á hól, um 100 m suður frá Þórukoti. Sunnan við hólinn er malarvegur niður að golfskála, sem er fast sunnan við bæjarstæði Hjallakots. Haugshús stóðu hér um bil á miðjum golfvellinum.
„Haukshús, hálflenda so kölluð, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir; þykjast menn heyrt hafa að hálflenda þessi sje til forna bygð úr Sviðholtslandi.“ segir í JÁM. Ekki er til af jörðinni en hinsvegar hefur kortagerðamaðurinn merkt Haugshús í sviga, til að sýna afstöðu, inn á túnakort Brekku, Skógtjarnar og Halakots.
Gróa Guðbjörnsdóttir, sem er alin upp í Hákoti á Álftanesi, segir bæinn hafa verið á hólnum, sunnan brunnhúss úr torfi og grjóti sem var reist um 1950. „Við merkin, niður frá Haugshúsum, var Haugshúsabrunnur og voru tröppur niður í hann,“ segir í örnefnaskrá. Hóllinn er sléttaður en þó ber á ójöfnum í honum. Hafsteinn sagði brunninn hafa verið skammt austan götu, sem nú liggur að Haukshúsum, alveg niður undir túnmörkum. Jafnan hefði verið talað um þennan brunn af lotningu. Hann hefði sjálfur lagt til fyrir alllöngu að brunnurinn yrði grafinn upp og hafður til sýnis. Á herforingjaráðskorti frá 1902 sést að leiðin heim að bænum var frá Þórukoti.
Annars er það helst í frásögu færandi að daginn, sem FERLIR gekk um Haughúsasvæðið (Haukshúsasvæðið) og skoðaði m.a. tóft þá er sést á meðfylgjandi myndum að engin tré var þar að sjá. Daginn eftir hafði verið plantað röð trjáa – m.a. þvert á tóftina. Í Þjóðminjalögum segir m.a. í 10. gr. Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins. Þarna ætti því að liggja fyrir opinbert leyfi fyrir framkvæmdunum. Ef ekki virðast bæði skipulagsyfirvöld á Álftanesi og Fornleifavernd ríkisins hafa verið sofandi á verðinum. (Sjá Þjóðminjalögin frá 2001 í heild).
Í Skógtjörn er gömul hlaðin brú yfir hana norðaustanverða. Um hefur verið að ræða götu er lá frá Garðabæjunum yfir að Bessastaðabæjunum. Hún sést enn glögglega, en hluti hennar fer á kaf á flóði.
Svæðinu hefur verið mikið raskað og erfitt fyrir ókunnuga að staðsetja og greina einstakar tóftir. Í rauninni kom á óvart, miðað við hversu heillegt búsetulandslag var þara skv. fyrirliggjandi upplýsingum, að ekki skuli hafa verið meira tillit til þess er raun ber vitni.
Ekki var gengið um Sviðholt að þessu sinni, en verður gert síðar.
Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-Guðrún Alda Gísladóttir – Deiliskráning í Bessastaðahreppi: Fornleifaskráning á völdum aðalskipulagsreitum – Fornleifastofnun Íslands – Reykjavík 2004.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703.
-Jarðabók Johnsens, 1847.
-Erlendur Björnsson – Sjósókn.
-Anna Ólafsdóttir Björnsson – Álftaness saga.
-Sturlungu saga II – Þórðar saga kakala.
-Hafsteinn Árnason – Brekku.