Sloki – Slokahraun – minjar
Slokahraun er angi af Sundhnúkahrauni sem rann úr gígaröð ofan Grindavíkur . Önnur nafngreind hraun í sama gosi eru Blettahraun og Klifhólahraun.
Slokanafninu hefur jafnan verið gefinn sá hluti hraunsins, sem rann til suðausturs niður sunnanverða Hópsheiðina og í sjó fram austan Þórkötlustaða. Sundvörðugígagosið er talið hafa myndast fyrir um 2400 árum, eða hálfu fyrr en fyrstu lndnámsmennirnir voru að tygja sig til landsins. Þá myndaðist Þórkötlustaðaneið sem og hafnarlagið umhverfis Hópið. Í dag er Slokahraunið mosavaxið með graslænum á millum. Neðst í því eru miklir fiskgarðar frá útgerðinni fyrr á öldum, svonefndir Hraungarðar frá Hrauni og Slokagarðar frá Þórkötlustöðum. Þessara garða er ekki getið í örnefnaskrám.
Í örnefnalýsingu Lofts Jónssonar fyrir svæðið segir m.a.: „Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás. Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun. Upp af Markabás er hóll milli bæjanna, Markhóll. Er hann upphlaðinn þar á hryggnum, sem nefndur er Leiti.“ Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Sunnan þessara boða og víkin öll er nefnd Þorkötlustaðabót, en Þorkötlustaðasund er sunnan boðanna.
Klofi út í Svalbarða skiptir reka og þangfjöru á milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Fyrir ofan Buðlunguvör er slétt klöpp kölluð Skiptivöllur. Þaravaxin klöpp vestan og utan við vörina er kölluð Þangklöpp. Austan við vörina er Stóraklöpp og þar fram af er Vararsker. Það kemur upp á stórstreymisfjöru. Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.
Austur af Stóruklöpp eru básar; Vestastibás, Þvottabás, Miðbás og Malarbás. Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.
Vestan Slokatáarinnar er Lágafjara og síðan Vestrimölin og þar ofan kampsins er Klapparmói. Eystrimöl er neðan við kampinn að austan, ofan við Slokatá. Upp af Slokatánni ofan kampsins eru Hrossbeinalágar, nú komnar að mestu undir kampinn. Austan á Slokunum er bás sem heitir Markabás. Hann skiptir löndum og reka á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Upp af honum ofan kamps er hraunhóll með grasþúfu í toppinn. Hann heitir Markhóll.
Randeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna. Eystraleiti (í daglegu tali nefnt Leiti) er smábunga á milli bæjanna. Vestraleiti er aftur önnur bunga í vestur þar sem skiptast lönd Þórkötlustaða og Hóps. Vestan undir há-Leiti er Kúakrókur, nú tún.
Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.
Slokahraun rann í mjórri ræmu til suðsuðausturs frá gígunum sunnan Sundhnúks, milli Vatnsheiðar og Hópsheiðar. Getið er um Slok í tveimur örnefnaskrám Þórkötlustaða í Grindavík: „Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun“ og „síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.“ Innfæddir Grindvíkingar austanverðir þekkja hljóðið. Þegar aldan skellur undir hraunhellunni slokrar í henni svo um munar.
Að austanverðu eru mörk hraunsins við ströndina við vesturtúngarðinn á Hrauni. Garðurinn liggur uppi á hraunbrúninni, sem nú er gróin að innanverðu. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagði hraunið, séð frá bænum, jafnan hafa verið nefnt Hraunið. Um það hefðu legið þrjár götur fyrrum, áður en akvegirnir voru lagðir yfir það, fyrst með ströndinni og síðar um Tíðarhliðið á norðvestanverðum túngarðinum. Enn mótar fyrir síðarnefnda veginum, bæði innan garðs og utan. Hann lá yfir að Hvammi og þar áfram til vesturs. Sjást leifar hans bæði austan við Hvamm og vestan við Efra-Land. Um hinar göturnar þrjár verður nánar fjallað um hér á eftir. Þeirra er hvorki getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningarskýrslum.
Í Sögu Grindavíkur segir að Slokin séu “austan við Buðlungavör; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól [á Þórkötlustaðanesi].
Þarna á Slokunum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu… að annan vélbát frá Vestamannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðru vísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farizt með allri áhöfn.
Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði einhvers staðar hjá Grindavík, að því er skipstjórinn hélt. Togarinn losnaði sjálfur fljótlega úr strandinu, en hafi laskazt svo mikið, að hann fór fljótlega að síga niður og sökk svo eftir lítinn tíma. Áhöfnin komst í björgunarbátinn og hélt síðan undan sjó og vindi, þar til þá allt í einu bar að landi og upp í stórgrýtiskamp. Mennirnir komust allir ómeiddir í land…
Skiptar eru skoðanir manna um, hvar togari þessi hafi strandað, en Þórkötlustaðamenn töldu, að eftir strand þetta hafi komið festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hafði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp. Því er gizkað á, að togarinn hafi lent annaðhvort á Slokunum eða nálægt Leiftrunarhól, þ.e. öðru hvoru megin við Þórkötlustaðavíkina.”
Vertíðir settu löngum svip á atvinnulífið í Grindavík. Tvær verbúðir voru um tíma í Þórkötlustaðalandi, ein á Ísólfsskála og fleiri í Járngerðarstaðalandi. Hraunsmenn gerðu út á Þórkötlustaðanesi og gengu á milli. Þá var Eyrargatan jafnan farin, en hún lá með ströndinni, í gegnum Slokahraun framhjá Sögunarhól og eftir fjörunni neðan við Klöpp, Buðlungu og Þórkötlustaði. Ströndin var þá sandfjara líkt og enn má sjá að hluta innst í Bótinni. Sandurinn náði dágóðan spöl út. Þar voru góðar lendingar fyrrnefndra bæja. Vestan Þórkötlustaða, þar sem nú er Sólbakki, kom gatan upp á bakkann við bæ, sem hét Skarð og þar var. Síðan liðaðist hún ofan strandarinnar, yfir Kónga og að naustunum vestan þeirra. Eyrargatan sést enn í hrauninu innan landamerkja Þórkötlustaðahverfis. Austar hefur sjórinn kastað grjóti yfir hana, auk þess sem vegur var lagður að hluta til yfir hana. Nánar er sagt frá Eyrargötunni annars staðar á vefsíðunni.
Önnur gatan hét Hrauntúnsgata. Hún lá upp frá austanverðri hraunbrúninni, í gegnum túngarðinn á Hrauni og svo til beina stefnu yfir það til vesturs, að Hraunkoti, sem var austast bæja (kota) í Þórkötlustaðahverfi. Stór gróinn hraunklettur er norðan götunnar skammt frá Hraunstúngarðinum. Þessi gata sést enn mjög vel, enda gróin. Sigurður sagði það varla geta talist undarlegt því þessa götu hefðu vermennirnir gengið til baka með fiskinn á bakinu. Áburðurinn hafi því verið ágætur og nyti gatan góðs af því enn í dag.
Þriðja gatan, sem enn sést, er Þórkötlustaðagata. Hún liggur, líkt og Hrauntúnsgatan, í gegnum hlaðinn túngarðinn á Hrauni, um hlið þar sem sem garðurinn myndar 90° horn. Gatan, sem er sú nyrsta þeirra þriggja, liggur nú um gróið hraunið, en hinar fyrrnefndu liggja enn um úfið mosavaxið apalhraunið. Lítill hraunhóll er norðan götunnar.
Frá honum beygir gatan lítillega í átt að norðurtúngarðshorni Hraunkots. Þar lá hún samhliða garðinum með svo til beina stefnu á Þórkötlustaði. Enn sést móta fyrir honum á sléttuðu túninu sem þar tekur nú við.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan má enn sjá neðan við Klöpp]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun víðast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring.
Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.
Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum.
Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurrkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá 17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum.
Að sögn Sigurðar Gíslasonar eru greinast Leitin í Fremra-Leiti og Efra-Leiti. Hið síðarnefnda er þar sem akvegurinn fer yfir milli Hrauns og Þórkötlustaðahverfis, en hið fyrrnefnda er þar
sem Þórkötlustaðagatan fer yfir Slokahraunið.
Garðanna í Slokahrauni er getið í „Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi“ frá árinu 2002. Þar segir: „“Herslugarður“ – Slokahraun er á merkjum Þórkötlustaðahverfis og Hrauns, þar eru leifar fiskgarða. Ef gengið er austur með sjávarkampinum frá Þórkötlustöðum í átt að Hrauni er komið í Slokahraun fast austan við túngarðinn. Slokahraun er mosagróið apalhraun og liggja
landamerkin um mitt hraunið. Garðarnir eru hlaðnir úr hraungrýti og liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið munstur. Þeir eru mosagrónir en misvel standandi, hleðsluhæðin er milli 0,5-1 m. Umför eru allt að tíu. Garðarnir teygja sig allt austur fyrir Markhól, en eru þá í Hraunslandi. Svæðið er um 100×100 m.“
Fornleifanna í Slokahrauni er hnins vegar ekki getið í skráningunni „Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð“ frá árinu 2018.
Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 11 mín.
Heimildir m.a.:
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi, Þóra Pétursdóttir, Reykjavík 2002.
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.