Sogin – náttúra, jarðsaga og minjar
Gengið var um „dyr“ Trölladyngju. Ferðinni var heitið um litskrúðugasta náttúrusvæði Reykjanesskagans. Ofan við „dyrnar“ er dyngjan, eða gígur Dyngnanna, Trölladyngju og Grænudyngju. Toppur þeirra síðarnefndu er tæplega 400 m.y.s. Munar 3-5 metrum á þeim stöllum.
Á leiðinni mætti goslótt, veturgamalt lamb, ferðalöngum, ekki óspakt. Þegar gengið var um girðinguna umleikis beitarhólf Reykjanesbænda kom í ljós að hún var allnokkuð langt frá því að vera fjárheld. Líklega er það þó afleiðing vetrarins og verður lagfær næsta vor. Lambið er sennilegast frá Lónakoti því það sást ásamt öðrum sambærulegum ofan við Lónakotssel ekki fyrir alllöngu síðan.
Stefnan var tekin á Sogin, hið litskúðugasta landssvæði Reykjanesskagas. Í þeim „fæddust“ bæði Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki fyrir meira en 11 þúsund árum síðan.
Loks blasti litadýrð Soganna við. Með í för var m.a. Þorvaldur Örn Árnason. Þorvaldur er ekki einungis mikill náttúruunnandi heldur og mikill skynsemismaður þegar kemur að nýtingu svæða sem þessara.
Skipulags- og byggingarnefnd Sveitafélagsins Voga hefur samþykkt umsókn Hitaveitu Suðurnesja um framkvæmdarleyfi fyrir borun tilraunaholu TR2 í Sogunum, einu fallegasta náttúrusvæði á Reykjanesskaganum. Holan verður staðsett upp með Sogalæk við mynni Soganna, nánar tiltekið á gróinni flöt sem hallar að Sogalæknum. Áætluð stærð borplans er um 3000m2 og nýr vegur verður lagður upp með Sogalæknum að fyrirhuguðu borplani. Framkvæmdir munu líklega hefjast í apríl eða maí og standa yfir í tvo mánuði.
Við Trölladyngju eru hverir og ummyndun á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirknin fer minnkandi, en í Sogunum má enn sjá virka hveri. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru í gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda skák. Ummyndun er mest í Sogunum þar sem stórt svæði er ummyndað af klessuleir.
Vestan í hálsinum frá Sogunum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogunum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum.
Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveimur stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu.
Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260 °C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320 °C hita á rúmlega tveggja km dýpi.
Í skýrslu Skipulagsstofnunar um háhitasvæðið við Trölladyngju frá því mars 2003 segir m.a. að rannsóknarborholur séu staðsettar innan friðlýsts svæðis, Reykjanesfólkvangi, auk þess sem Keilis- og Höskuldarvallasvæðið er á náttúruminjaskrá. „Um viðkvæm verndarsvæði er að ræða og hætta er á að hverskonar framkvæmdir og rask muni rýra verndargildi þess og skerða notagildi þess til útivistar og náttúruskoðunar“, segir jafnframt í skýrslunni.
Skipulagsstofnun bendir á að ýmsar athuganir, sem gerðar hafi verið, séu ófullnægjandi og auk þess hafi ekki verið tekið mið af ýmsum fyrirliggjandi upplýsingum.
Fornleifafræðingur hafi ekki gaumgæft svæðið m.t.t. fornminja og gildi svæðisins hafi ekki verið metið með hliðsjón af útivist og náttúrufegurð. Vonandi er framangreint ekki dæmigert fyrir vinnubrögð Hitaveitu Suðurnesja, sem jafnan hefur tengt nafn sitt við slagorðið „Í sátt við umhverfið“. Sogasvæðið er nefnilega með fallegri útivistarsvæðum landsins.
Í grein, sem Þorvaldur skrifaði í Vogablaðið nýlega spyr hann að því hvort eitthvað verði skilið eftir fyrir barnabörnin?
„Það eru margar náttúruperlur í okkar sveitarfélagi, fleiri en við flest þekkjum. Við eigum margar skráðar náttúruminjar en engar friðaðar enn sem komið er. Hægt er að lesa um nokkrar þeirra á www.vogar.is og enn meira á www.ferlir.is og í bók Sesselju Guðmundsdóttur; Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.
„Mér finnst stórfenglegasta svæðið vera í kringum Trölladyngju, Grænudyngju, Sog, Grænavatn og Selsvelli. Svæði þetta er í jaðri Reykjanesfólkvangs og það sem er utan fólkvangsins er á náttúruminjaskrá – frátekið til friðunar. Mjög fjölbreytt og hrífandi náttúrufar og eini staðurinn í okkar sveit sem jarðhiti setur mark sitt á með tilheyrandi litadýrð. Það er stutt að skreppa þangað, fólksbílafært á Höskuldarvelli.
Nú óttast ég að svæði þessu verði spillt á næstu árum vegna græðgi okkar í jarðvarma til að selja rafmagn á niðursettu verði til stóriðju. Hitaveita Suðurnesja lætur sér ekki nægja að þekja friðlandið við Reykjanestá með rörum og borplönum, heldur vill nú fá að rannsaka og virkja öll þau háhitasvæðin á Reykjanesskaga sem Hitaveita Reykjavíkur hefur ekki þegar helgað sér, þ.e. svæðin við Trölladyngju, Sandfell, Krýsuvík og Brennisteinsfjöll.
Ein rannsóknarholan á að vera í miðjum Sogunum við Trölladyngju og flestar holurnar verða í hinum friðaða Reykjanesfólkvangi. Sjálfsagt tengist þetta mikla virkjanaátak draumnum (martröðinni) um enn eitt álverið við Helguvík.
Hitaveita Suðurnesja hefur orð á sér fyrir að ganga vel um virkjunarsvæðin og gerir það vonandi einnig hér. Ég tel þó að okkur beri skylda til að varðveita ósnertar náttúruperlur fyrir komandi kynslóðir svo þær hafi eitthvað annað til útivistar en ruslahauga okkar kynslóðar. Svæðið við Sog er nánast óspillt af manna völdum og því er eftirsjá af því, jafnvel þótt hitaveitan gangi snyrtilega til verks. Ég harma því ef menn fara að fórna henni á altari erlendrar stóriðju.“
Þegar svæðið er skoðað með opnum augum og skynsamleg náttúrufegurð þess metin að verðleikum koma eðlilega upp vangaveltur og efasemdir um óþarflegt rask á svæðinu.
Að sjálfsögu er skilningur meðal fólks um eðlilega nýtingu og mögulega áhrif hennar á umhverfið, en það verður að segjast eins og er að framkvæmdaraðilum, sem og þeim sem með leyfisveitingar hafa haft með að gera, hefur vart verið treystandi til að gæta að hag umhverfisins, þ.e. að tryggja lágmarksröskun miðað við þörf. Af þessu þarf nauðsynlega að hyggja, ekki síst í ljósi þess að hér er um ómetanlegar náttúruperlur að ræða, en ekki verða endurheimtar verði þeim spillt.
Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirknin fer minnkandi, en í Sogunum má enn sjá virka hveri. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru í gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda skák. Ummyndun er mest í Sogunum þar sem stórt svæði er ummyndað af klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogunum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogunum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveimur stöðum.
Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu.
Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260 °C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320 °C hita á rúmlega tveggja km dýpi.
Í skýrslu Skipulagsstofnunar um háhitasvæðið við Trölladyngju frá því mars 2003 segir m.a. að rannsóknarborholur séu staðsettar innan friðlýsts svæðis, Reykjanesfólkvangi, auk þess sem Keilis- og Höskuldarvallasvæðið er á náttúruminjaskrá. „Um viðkvæm verndarsvæði er að ræða og hætta er á að hverskonar framkvæmdir og rask muni rýra verndargildi þess og skerða notagildi þess til útivistar og náttúruskoðunar“, segir jafnframt í skýrslunni.
Skipulagsstofnun bendir á að ýmsar athuganir, sem gerðar hafi verið, séu ófullnægjandi og auk þess hafi ekki verið tekið mið af ýmsum fyrirliggjandi upplýsingum. Fornleifafræðingur hafi ekki gaumgæft efra svæðið m.t.t. fornminja og gildi svæðisins hafi ekki verið metið með hliðsjón af útivist og náttúrufegurð. Vonandi er framangreint ekki dæmigert fyrir vinnubrögð Hitaveitu Suðurnesja, sem jafnan hefur tengt nafn sitt við slagorðið „Í sátt við umhverfið“. Sogasvæðið er með fallegri útivistarsvæðum landsins, eins og fyrr er lýst.
FERLIR hafði áður óskað eftir upplýsingum frá sveitarstjórn Voga um staðsetningu fyrirhugaðs vegstæðis, borstæðis og hvort svæðið hafi verið gaumgæft m.t.t. mögulegra minja, en fengið þögnina eina sem svar. Svo virðist sem hlutaðeigandi aðilar hvorki viti né vilji gefa upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir á þessu viðkvæma náttúruminja- og útivistarsvæði.
Hafa ber í huga að FERLIR er ekki að finna að fyrirhuguðum framkvæmdum – einungis að skoða og benda á mikilvægi þess að þær verði „í sátt við umhverfið“.
Því hefur jafnan verið haldið fram að þeir, sem vilja vernda náttúruna og umhverfið hljótið að vera á móti virkjunum eða öðrum þörfum framkvæmdum. Þetta er mikill miskilningur. Einungis er verið að benda mikilvægi þess að umgangast landið af varfærni og raska ekki meiru en brýn þörf er á hverju sinni.
Benda má og á að Sogin eru nú innan lögsagnarumdæmis Grindavíkur svo erfitt er að sjá tengsl milli umsókna og nýlegra leyfisveitinga um borstæði þar af hálfu sveitarstjórnar Voga.
Frábært veður í frábæru umhverfi. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.
-http://www.os.is/jardhiti/krysuvik.htm