Sólstafir

Sérhver sá, sem upplifir að sjá sólstafi, gleymir aldrei þeirri sjón. Óvíða eru sólstafirnir fegurri en á Reykjanesskaganum, hvort sem er inn til landsins eða úti yfir sjó.
Sólstafir En hvernig stendur á því að sólstafir eru eins og þeir eru; ekki lóðréttir, heldur eins og blævængur á hvolfi?
“Sólstafir myndast þegar sólin skín gegnum göt í skýjaþykkninu og geislar hennar ná að lýsa upp loftið í samanburði við dekkri bakgrunn. Af þessu leiðir að stefna þeirra er beint frá sól. Hér á norðurslóð eru þeir því aldrei lóðréttir heldur getur frávik þeirra frá láréttu mest orðið um 50° á Suðurlandi en nokkrum gráðum minna á Norðurlandi.
Sólin er svo langt í burtu að sólstafir og sólargeislar eru allir samsíða. Sólstafir sýnast mynda blævæng eins og spyrjandi segir og það stafar af þrívíddaráhrifum (perspektífi), samanber að beinn og jafnbreiður vegur framundan sýnist mjókka. Margir kannast við þetta af alls konar myndum. Sólstafirnir stefna í rauninni allir frá einum punkti á himninum, punktinum þar sem sólin væri ef við sæjum hana en það gerum við sjaldnast þegar sólstafir eru á lofti.
SólstafirVissulega getur komið fyrir að einn sólstafurinn virðist lóðréttur við fyrstu sýn. Þegar betur er að gáð sjáum við þó einnig að hann sýnist breikka niður á við. Þetta er líkast því að stigi sem er alls staðar jafnbreiður hallist að húshlið og við horfum á hann þvert á hana. Stiginn virðist þá breikka niður á við alveg eins og sólstafurinn og af nákvæmlega sömu ástæðu.
Sólstafir eru skemmtilegt og snoturt náttúrufyrirbæri sem er ekki erfitt að skilja með svolítilli umhugsun. Við ættum að gefa okkur tíma til að virða þá fyrir okkur og hugleiða þá þegar þeir láta sjá sig. Þeir geta leitt hugann að ýmsum fræðigreinum, svo sem stærðfræði (rúmfræði), eðlisfræði (ljósfræði), stjarnvísindum (ganga og fjarlægð sólar), veðurfræði (eðli lofthjúpsins) og listasögu (perspektífið). Ásamt öðrum hliðstæðum fyrirbærum eru þeir líklega kveikjan að því að okkur er svo tamt að líta á ljósið sem geisla.”
Matthías Jóhannessn orti “Á ferð um landið”:

Sólstafir“Í dag voru sólstafir
á fjöllum
og skuggi af hvítu skýi
sigldi fullum seglum
eftir dimmbláum hlíðum
lyngs og mosa.”

Á sama hátt ortu Haraldur Reynisson og Sigurður Sigurbjörnsson frá Vígholtsstöðum:

“Það grétu allir englar á himnum í nótt.
hamingjutárum,
og ég upplifði það sem ég ætíð hef sótt,
til þín, á liðnum árum.”

Einhverjum varð að orði er hann sá fallegu sólstafina: “Ég vona að himininn verði einmitt svona þegar ég dey”. Þessi tíu orð endurspegla nákvæmlega hugvitund svo margra er líta fyrirbærið augum. Svo virðist sem einmitt þá gangi hið himneska og hið mennska hvoru öðru á hönd – sættist á svo undurfagran hátt.

Heimild:
-visindavefur.is

Sólstafir