Garður

Kristófer Kristinsson sendi meðfylgjandi um steingrafir, vegna þess að hann mundi ekki eftir vangaveltum um efni þeim tengdum annars staðar en á vefsíðunni (ferlir.is), með eftirfarandi orðum: “Ef trúa á orðum Ara fróða í Landnámu þá getur þetta gengið eins og hvað annað!”

Steingröf

“Fyrsta skýra myndin sem dregin er upp af Hvalfirði er í Hauksbók en hún er sögð vera hugsýn Patreks biskups á Írlandi um ákjósanlegan lendingarstað fyrir fóstra hans Örlyg. Patrekur segir: “Hvergi er þú tekur land, þá byggðu þar aðeins, er þú sérð þrjú fjöll af hafi og fjörð að sjá á millum hvers fjalls og dal í hverju fjalli; þú skalt sigla að hinu synnsta fjalli; þar mun skógur vera, og sunnan undir fjallinu muntu rjóður hitta og lagða upp eða reista þrjá steina; reistu þar kirkju og bú þar” – (Íslenzk fornrit I).
Fjöllin þrjú sem um ræðir eru Hafnarfjall, Akrafjall og Esja, dalirnir eru að sama skapi Hafnardalur, Berjadalur og Blikdalur, firðirnir eru Leirárvogur (Grunnafjörður) og Hvalfjörður. Í anda Hoskins þá leyfi ég mér að ganga út frá því að Patrekur hafi haft spurnir af þessu landi og þá að öllum líkindum frá írskum einsetumönnum sem snéru aftur til Írlands eftir að landnám norrænna manna hófst hér um slóðir.
FornmannasteinnÍslendingar hafa gert mest lítið með þann möguleika að hér hafi komið og verið írskir menn þrátt fyrir nokkuð ótvíræðar fullyrðingar sagnaritara bæði Ara fróða og Sturlu Þórðarsonar  um það efni (Íslenzk fornrit I). Helst er til þess vísað að engar áþreifanlega minjar séu um veru Íranna hér. Mér sýnist samt ekki frá því vikið að Örlygi er ætlað að leita uppi næsta klassískt keltneskt menningarlandslag á Kjalarnesi. Hann á að finna rjóður og í því eru þrír steinar lagðir eða reistir.
Meðfylgandi mynd (hér efst t.v.) sýnir hleðslu sem talin er dæmigerð fyrir írskar fornaldargrafir, þrír steinar; einn lagður, tveir reistir. Hleðslan er nálægt bænum Caherconnell í Clare héraði.
Það hygg ég að sé ágætlega traust röksemd að skortur á sönnunum fyrir einhverju sannar ekki  fjarveru einhvers. Þá er ég að vísa til þess að þeir bræður í skriftinni, Ari og Sturla, eru teknir trúanlegir um flest það sem þeir skrifuðu án þess að áþreifanlegra sannanna eða vitnisburðar sé krafist. Menn láta sér almennt nægja samsvarandi örnefni sem þess vegna gætu hæglega verið eftir á tilbúnaður.

Steinn á steinum

Þess vegna sýnist mér að hugmyndin um írska grafarsteina á Kjalarnesinu og vitneskju biskups á Írlandi um þá  hreint ekki út í hött í því samhengi sem hér er ritað. Þá verður ekki fram hjá því gengið að um Kjalarnesið allt er urmull af mannvistarleyfum, menningarlandafræði, sem nánast ekkert hafa verið rannsakaðar. 
Ari fróði segir: „Þá voru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla Papa, en þeir fóru síðan á braut, af því at þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir bækur írskar og bjöllur og bagla. Af því mátti skilja, at þeir voru menn írskir.“  (Íslenzk fornrit I) Í sama streng tekur Sturla Þórðarson: „En áður en Ísland byggðist af Noregi, voru þar þeir menn er Norðmenn kalla papa; þeir voru menn kristnir, og hyggja menn, að þeir hafi verið vestan um haf, því að fundust eftir þeim bækur írskar, bjöllur og baglar og enn fleiri hlutir, þeir er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn.“ (Íslenzk fornrit I)
SteinarFramangreint er í rauninni ekki svo vitlaust.
Þar er fjallað um fornmannagröf í Garði (sem fáir vita af). Steinn var þar settur á aðra til hvílu. Þar hjá er haugur, sennilega gröf fornmanns. Eflaust eru til fleiri dæmi á svæðinu ef vel væri að gáð. Kjalarnesið var ekki skoðað m.t.t. þessa á sínum tíma, en það væri vel athugandi. Ekki er útilokað að þar megi finna, ef grannt er leitað, leifar af steinhleðslu í fyrrum rjóðri?
Ef einhver býr yfir meiru efni um þetta væri það vel þegið. Steinar eru víða á steinum á Reykjanesskaganum, en þeir hafa ekki verið settir í samhengi framangreint. En steinninn í Garðinum passar ágætlega við kenninguna. Er t.d. hugsanlegt að Steinunn gamla hafi verið heygð í Garði og þar hjá megi finna fyrrum bæjarstæði hennar á Rosmhvalanesi? Eða kannski annar og mun eldri forrennari hennar – af írskum uppruna?
Á Írandi og í Skotlandi, sem og á Norðurlöndunum má víða sjá miklar steinhleðslur með skírskotun til grafsiða eða helgiathafna til forna.

Heimild:
-Kristófer Kristinsson.

Fornmannahleðslur