Hlaðna steinveggi má sjá víða um land, ekki síst á Reykjanesskaganum.
Í flestum tilvikum eru þeir leifar frá gamla útvegs- og bændasamfélaginu. Tilgangur þeirra og notkun var af margvíslegum toga, líkt og handverkið sjálft. Grjótið var og misjafnt og tóku vegglagið mið af því. Stundum var langt að sækja grjót og var það þá dregið á staðinn á sleðum yfir vetrarmánuðina.
Á undangengnum áratugum hafa fáir nýir steinveggir verið hlaðnir en því fleirri verið endurhlaðnir. Enn eru til handverksmenn, sem hafa atvinnu af vegghleðslum og bera veggirnir góðu verkviti fagurt vitni.
Það er ekki flókið að hlaða vegg ef aðeins grunnurinn er nógu vel gerður. Á Íslandi og víða í Evrópu hefur steinhleðsla verið notuð til að afmarka jarðir og vegi. Nú á tímum þegar allt er mælt í peningum þá er óheyrilega dýrt að hlaða steinvegg og þrátt fyrir betri tæknibúnað þá er handavinnan óhjákvæmileg og bæði seinleg og erfið. Útkoman getur samt lifað í nokkrar kynslóðir og stendur eftir sem tákn um verkvit og fegurð ef vel tekst til.
Gamla lagið sem tíðkast hefur gegnum aldirnar. Neðsta steinalag látið standa u.þ.b. 10-15 sm. undir yfirborði jarðvegs. Stærstu steinarnir neðst og fyllt á milli steinalaga með mold og torfi. Mold /torf rækilega þjappað. Í dag ef jafnan skipt um jarðveg undir hleðslum (sett frostfrítt efni) og í fyllingu veggjar er notast við frostfrítt efni. Þannig ættu veggir að standa um ókomna tíð ef rétt er staðið að hleðslu.
Til forna og allt fram á 20. öld var grjót aðalbyggingarefnið á Suðurnesjum. Gamlar grjóthleðslur setja hvarvetna svip á menningarlandslagið. Hleðslur þessar voru lagfærðar árlega meðan þær voru í notkun og byggingar endurbyggðar reglulega. Eftir að hætt var að viðhalda þessum hleðslum hafa þær gengið mjög úr sér. Bæði hafa rofaöflin séð um niðurbrot þeirra sem og maðurinn. Frostverkun, jarðskjálftar og vatns- og vindrof hafa leikið hleðslurnar grátt í gegnum aldirnar, en auk þess hafa margar hleðslur verið fjarlægðar vegna framkvæmda. T.d. var bæði grjót í vörðum og görðum endurnýtt í bryggjur á árdögum þeirra á fyrri hluta 20. aldar. Þá hurfu mörg áberandi og vönduð mannvirki sem sérhverju sveitarfélagi hefði verið mikill sómi af í dag.
Þegar hlaða á nýjan vegg þarf fyrst að huga að grjótinu. Að því fengnu þarf að huga að undirlaginu. Ef veggurinn á að standa af sér roföflin þarf undirlagið að vera frostfrítt. Þá þarf að móta veggstæðið; ákveða lagið, breidd og hæð. Ákjósanlegt er að hafa neðsta lagið breiðast og láta vegginn halla inn upp á við, a.m.k. annars vegar. Stærsta og þyngsta grjótið er notað neðst í staðbundna undirstöðu.
Ef grjótið hentar vel má auðveldlega leggja steinana hvern ofan á annan með góðri bindingu. Mikilvægt er að láta stærra grjótið skarast, bæði langsum og þversum.
Með mótuðu skapalóni og snærum má auðveldlega halda hleðslulaginu þannig að veggurinn verði bæði beinn og álitlegur ásjónar. Vel hlaðinn steinveggur getur verið mikið augnayndi.
Heimildir m.a.:
-http://simnet.is/stokkarogsteinar/
-www.guardian.co.uk/money/series/disappearing-acts