Stórbúið að Vífilsstöðum
Í blaði SÍBS árið 2010 í tilefni af 100 ára afmæli Vífilsstaðaspítala er m.a.a fjallað um „Stórbúið að Vífilsstöðum„:
„Í dagblaðinu Vísi 20. október 1931 segir frá búskapnum á Vífilsstöðum. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að við upphaf starfsemi Vífilsstaðaspítala 1910 sé talið að ræktað land hafi gefið af sér um 60 hesta heyfengs. Búskapur á jörðinni hófst 1916 og var stundaður þar til ársins 1974. Í blaðinu er sagt frá því að fljótlega eftir að búskapurinn hófst hafi umtalsverð ræktun á landi farið fram undir forystu Þorleifs Guðmundssonar bústjóra og síðar Björns Konráðssonar, sem tók við búsforráðum 1925.
Í Vísi er vitnað til greinar eftir Gunnar Árnason í „Búnaði sunnanlands“, sem segir að fljótlega hafi verið búið að rækta 52 ha. af mýrum og melum, „og geta menn gert sér glegsta hugmynd um land það, sem ræktað hefir verið, með því að skoða holtin og mýrarnar utan túns, sem eru ekki verri til ræktunar en land það, sem þegar er komið í fulla rækt. Aðallega hefir áhuganum í nýræktinni verið beint að túnrækt, en nú s.l. ár hefir einnig verið tekið til óspiltra mála með garðræktina, bæði utan húss og innan.“
Þúfnabaninn
Jarðræktin tók stórstígum framförum 1921 þegar þúfnabaninn kom til landsins „enda var þá hin alkunna vetrarmýri tekin til ræktunar, og er nú orðin að grasgefnu þurru túni. Mýri þessi er talin hin óálitlegasta, sem tekin hefir verið til ræktunar enn sem komið er hér á landi. Alt ræktaða landið er nú um 156 dagsláttur og gefur af sér fulla 2000 hesta af töðu í meðalári,“ eins og segir í Vísi. Á túnum Vífilsstaða eru nú m.a. golfvellir Garðabæjar og Kópavogs.
Stórt kúabú
Í blaðinu kemur fram að bústofninn hafi aukist jafnhliða ræktuninni og hafi um 70 nautgripir verið á búinu 1931, þar af um 60 mjólkandi kýr, sem að meðaltali gáfu af sér um 3334 lítra og besta kýrin hátt í 5000 lítra. Árleg mjólkurframleiðsla var um 190 þúsund lítrar og heyfengur kominn yfir 2200 hesta. Auk túnræktar gáfu kartöflugarðar af sér um 80 tn. og rófur vel á annað hundrað tonn. Auk þessa var mikil kálrækt á Vífilsstöðum.
Búskapur til fyrirmyndar
Síðan segir Vísir: „Það er ánægjulegt að koma að Vífilsstöðum um sláttinn í góðu veðri. Úti og inni ber alt vott um góða bússtjórn, þrifnað og hirðusemi. Fjósið er raflýst og útbúið með sjálfbrynnurum af mjög hagkvæmri gerð.
Mjaltavélar hafa verið notaðar um nokkurt skeið og sparast mikill vinnukostnaður við notkun þeirra. Áföst við fjósið eru: hesthús, svínahús og hænsnahús. Vagna, áhaldahús og smiðja eru í nánd við fjósbygginguna.
Það, sem þó vekur einna mesta eftirtekt, er komið er að sumarlagi að Vífilsstöðum, er það, hve vélanotkun er á háu stigi á búinu. Sláttur fer eingöngu fram með vélum og heyinu er snúið með vélum og tekið saman með vélum. Sérstaka eftirtekt vakti í sumar ný tegund snúningsvélar sem væntanlega verður ritað ítarlega um í Frey eða Búnaðinum.
[…] Orf, hrífur og reipi sjást ekki á Vífilsstöðum. Væri betur, að ræktun tæki þeim framförum hvervetna á landinu, að slíkir gripir sæist að eins á forngripasöfnum. Með því fyrirkomulagi, sem haft er á Vífilsstöðum getur nú einn dugandi bússtjóri annast heyskapinn með aðstoð 6-7 unglinga.
Það verk, sem unnið hefir verið á Vífilsstöðum, er afar mikils virði fyrir íslenskan landbúnað, og gefur hinar bestu vonir um framtíð íslensks landbúnaðar. Þar hefir verið sannað, hvað hægt er að gera úr lélegri mýri, en um land alt liggja ónotuð mýrarflæmi, sem eru langtum betur til ræktunar fallin, mýrarflæmi sem eru miljóna virði.
Á Vífilsstöðum má nú sjá hvernig framtíðarbúskapur verður alment stundaður á Íslandi. Á Vífilsstöðum hefir verið leitt í ljós fyrir bændum Íslands áþreifanlegar en annarsstaðar, að töfraorðin, sem framtíð búnaðarins eru fyrst og fremst undir komin eru þessi: Þekking. Ræktun. Vélanotkun. Þeir menn, sem unnið hafa að því, að koma búskapnum á Vífilsstöðum í það horf, sem hann er nú, eiga miklar þakkir skilið,“ segir í Vísi 20. október 1931.“
Heimild:
-ÍBS blaðið, 3.. tbl. 01.10.2010, Stórbúið að Vífilsstöðum, bls. 14-15.













