Stóri-Hólmur – Steinunn gamla
Árið 1965 eða 1966 fór Halldór Þorsteinsson frá Meiðastöðum í Garði með barnabörnin sín í gönguferð um Leiruna. Faðir hans, Þorsteinn Gíslason, var frá Melbæ í Leiru. Í hópnum var Kristjana Vilhjálmsdóttir, eitt barnabarna Halldórs. Hún man enn vel eftir þessari ferð. Áður en að frásögn hennar kemur er rétt að rifja upp atburði er urðu þar á 9. öld, eða fyrir u.þ.b. 1080 árum (skrifað 2009).
Í 101. kafla Landnámu (Sturlubók) er sagt frá Steinuði (Steinunni) er síðar nam land á Rosmhvalanesi; „Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum“. Þá segir jafnframt að „Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hans son var Egill, faðir Þórarins, föður Sigmundar, föður Þórörnu, móður Þorbjarnar í Krýsuvík“.
En hvar bjó Steinunn eftir að hún settist að á Rosmhvalanesi og hvar var hún grafin, heygð eða dysjuð?
Áður en þeirri spurningu verður svarað er rétt að segja frá ástæðu þeirri er varð til þess að langafi Kristjönu flutti frá Melbæ í Leiru að Meiðastöðum í Garði. Syðst í Leiru, norður af Bergvík, var Grænigarður eystri og vestari og þá Lindarbær. Vatnsbrunnurinn, fallega hlaðinn, er í Dalnum. Í leysingum fór Línlækur þar niður um. Í Dalnum var stundum þveginn þvottur. Af því dregur Línlækur nafn sitt og eftir vatnsbólinu heitir Lindarbær. Norðar með sjónum var Melbæjarbakki og norðar Melbær, steinsnar frá Bakka. Upp úr torfbænum að Melbæ var byggt timburhús, portbyggt með íbúðarlofti. Í þetta nýja hús var sett eldavél, niðurmúruð eins og þær tíðkuðust fyrst eftir að þær tóku að flytjast hingað til lands. Þóttu þær all nýstárlegar og hinir mestu kjörgripir, enda var þá strax farið að baka í þeim brauð og „bakkelsi“.
Mun þetta hafa verið fyrsta „Maskínan“, sem kom í Leiruna, að sögn Þorbjargar Sigmundsdóttur, sem ólst upp frá fjögurra aldri að Efra-Hrúðurnesi í Leiru (fædd 15. okt. 1878). „Myndi þetta þó þykja þröngur kostur nú til dags og ófýsileg lífskjör, en samt er gagnlegt og lærdómsríkt fyrir nútímafólk, sem flestir hlutir eru lagðir upp í hendurnar á, að hyggja að þeim stórstígu breytingum til bættra lífskjara, sem orðið hafa á síðar aldarhelmingi (20. aldar).“
Það mikla og raunalega atvik skeði milli jóla og nýárs aldamótaárið, að eldur kom upp í Melbæ að í ofsaroki að næturlagi og brann þar allt sem brunnið gat og þar á meðal 2 kýr í fjósinu. Mannskaði varð þó ekki og bjargðist fólkið allt, fyrst og fremst fyrir dugnað húsbóndans og áræði, en við björgunarstarfið skaðbrenndist hann bæði á höndum og andliti. Dóttir hjónanna brenndist einnig mjög mikið.“
Allt framangreint rifjaðist upp í framangreindi ferð um Leiruna fyrir 43 árum. Nefndur Halldór sýndi barnabörnunum varirnar, gömlu bæjarstæðin og sagði þeim frá því hversu margir hefðu búið í Leirunni fyrrum. Þótt breyting hefði orðið á bjuggu þar t.a.m. mun fleiri en í Garðinum í þá daga. Þegar komið var upp að Stóra-Hólmi staðnæmdist Halldór á aflöngum hól vestan við íbúðarhúsið, fast norðan við heimreiðina, og benti niður fyrir sig. „Hér er Steinunn gamla dysjuð“, sagði hann. „Það minni hefur lifað löngum meðal íbúanna í Leirunni“, bætti hann við.
Í þessari ferð gekk Kristjana hiklaust að aflöngum lágum hól í túninu og staðnæmdist þar. Heimreiðin lá um hrygginn. Norðan hans er hóllinn (hryggurinn) hæstur. Austan í honum er lítil dæld, líkt og einhver hafi gert tilraun til að grafa í hólinn. Kristjana sagði að afi hennar hafi verið ákveðinn í að þarna væri dys Steinunnar gömlu. Þá hefði hóllinn verið meiri um sig í túninu, en eftir að golfvöllurinn kom þarna hefði hóllinn verið aflagaður og sleginn, sem ekki hefði mátt gera fyrrum.
Kristjana sagði að almannarómur hefði verið að þarna hefði dys þeirrar gömlu verið. Vildi hún koma því á framfæri því enginn virtist hafa haft áhuga á að varðveita tilvist hennar síðustu árin.
Til fróðleiks má geta þess að í annarri FERLIRsferð er gengið var um Leiruna var komið að meintri fornmannagröf norðan við íbúðarhúsið að Stóra-Hólmi. Þar eru bátlaga hleðslur, sem lengi vel voru umgirtar og ekki mátti hrófla við. Sjá meira um Leiruna HÉR og Hér.
Sjá einnig meira um Steinunni gömlu HÉR.
Heimildir:
-Landnáma – 101. kafli.
-Kristjana Vilhjálmsdóttir, 03.06.1941.