Strandarhæð – Gapahellir – Strandarhellir – Bjargarhellir
Gengið var um Strandarhæð ofan við Selvog. Á hæðinni eru nokkrir skútar og smáhellar, auk ýmissa mannvistaleifa. Má þar m.a. nefna Gapa, Strandarhelli og Bjargarhelli.
Selvogsheiði er mikil hraundyngja, sem byggst hefur upp snemma á nútíma. Hraunin hafa breiðst út til allra hliða. Dyngjan er hallalítil og hraunin hafa verið þunnfljótandi, enda er flatamál dyngjunnar um 50 ferkílómetrar.
Út úr dyngjunni hafa miklar hraunár runnið neðanjarðar og komið upp úr hrauntjörnum, sem nefnast Hellishæð, Vörðufell og Strandarhæð. Á þessa þrjá gíga lítur Jón Jónsson sem aukagíga frá Selvogsheiði, en ekki sem sjálfstæð eldvörp. Telur Jón líklegt að stórir og miklir hellar liggi frá Selvogsheiði og niður að þessum þrem eldvörpum.
Í örnefnaslýsingu fyrir bæi í Selvogi segir m.a. 1840 að “í Selvogsheiði eru 3 hellrar: … Gapi, tekur 60 kindur …” Fjárskjólið tilheyrði Þorkelsgerði. Fyrir framan það er hlaðinn stekkur; Gapastekkur. Mold er í botni fjárhellisins og bein á stangli. Nafnið er sennilega tilkomið vegna þess að opið gapir á móti þeim, sem það nálgast úr suðri, í átt frá Selvogi. Í örnefnaslýsingunni er einnig kveðið á um Gapstekk: „Við ferðamannaveginn sem lá vestur yfir Víðasand og til Herdísarvíkur, er hellir, sem heitir Gapi og var fjárhellir. Við Gapa er Gapastekkur. Þar var rekið að haust og vor úr Útvogi.“
Haldið var til austurs inn á hæðina, að Strandarhelli. Í sömu heimild frá 1840 er kveðið á um fjárskýli í hellinum. Þar segir að Strandarhellir, sem nú er í Eimulandi, hafi verið rúmgóður… Það var góður fjárhellir, tók um 200 fjár.“ Hellirnn er í stóru grónu jarðfalli. Inni í fjárskjólinu eru fyrirhleðslur. Sagnir eru og um göng úr hellinum upp í Hlíðarendahelli undir Hellisbjörgum, en engin slík hafa fundist þrátt fyrir talsverða leit.
Nafngiftin Strandarhellir kemur víða við í rituðum heimildum og yfirleitt er talað um hann í lotningu eins og þar fari einn af stærstu hraunhellum landsins.
Bjargarhellir er sunnan Strandarhellis. Í örnefnalýsingunni frá 1840 segir að Bjargarhellir rúmi 200 fjár…” Fjárskjólið tilheyrði Nesi, austast í Selvogi, miðað við örnefnalýsinguna, en á milli þess og t.d. Nessels undir Hnúkum er allnokkur vegalengd og skera t.d. lönd Eimu, Þorkelsgerðis og Bjarnastaða það svæði.
Jón Vestmann (1769-1959), prestur í Selvogi á árunum 811-1942, nefnir Bjargarhelli er hann svarar spurningum Hins íslenska bókmenntafélags um hella í Selvogsþingi. Jón segir Bjargarhelli álíka stóran og Strandarhelli, sem Jón segir taka 200 fjár.
Engar fornleifar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafa komið í ljós í Selvogi. Erfitt er að spá um upphaf byggðar í Selvogi vegna hinna miklu landspjalla sem þar hafa orðið síðustu aldir. Þar virðast hafa verið tvö hverfi, í kringum Nes og Strönd, og þéttbýli mikið, svo að tún flestra eða allra jarðanna lágu saman. Í kringum Hlíðarvatn og í Herdísarvík eru svo stakar meðaljarðir sem sennilega hafa byggst ívið seinna en býli í Strandar- og Neshverfum.
Á 11. öld reistu efnaðri bændur og höfðingjar kirkjur og bænhús á jörðum sínum, t.d. á Nesi og Strönd. Aðeins er vitað um eitt bænhús, í Herdísarvík, en líklegt má telja að þau hafi verið víðar. Kirkjurnar sem vitað er um eru á öllum dýrustu jörðunum og eru einnig með nokkuð jöfnu millibili en miðað við fjölda býla eru tiltölulega fáar kirkjur í kringum. Í kringum 1000 bjuggu höfðingjar á Hjalla, Þóroddur goði og sonur hans Skapti lögsögumaður, sem samkvæmt Ara fróða var mesti áhrifamaður á Íslandi í byrjun 11. aldar. Þess hefur verið getið til að undir lok 13. aldar hafi Nes í Selvogi orðið bústaður höfðingja. Maður að nafni Finnur Bjarnason byggði þar nýja kirkju á seinni hluta 13. aldar og var hann af höfðingjaættum: Eftir hann bjó í Nesi Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), faðir Hauks lögmanns og bókagerðarmanns. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 – að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða. Næsta lítið er vitað um byggð í Selvogi á síðmiðöldum.
Margra jarða í Ölfusi er hvergi getið í skjölum fyrr en í jarðabókum 17. aldar og er það óvenjulegt. Skýringin gæti legið í því að mjög margar af jörðunum í Ölfusi, einkum um austanverða sveitina, hafi snemma komist undir Skálholtskirkju – mögulega þegar á 12. eða 13. öld, en jarðabækur stólsins frá miðöldum hafa ekki varðveist. 16. öldin var einskonar blómaskeið Selvogs. Þá bjuggu þar stórhöfðingjar áratugum saman, einkum í Selvogi, og mjög mikið fer fyrir útgerð Skálholtsbiskupa frá Þorlákshöfn, Selvogi og Herdísarvík í skjölum frá þessum tíma. Byggð í Selvogi fór hinsvegar mjög hnignandi í kjölfar 17. aldar. Þar eyddist land vegna sandfoks, tún Strandar og nærliggjandi jarða voru smátt og smátt beinlínis kaffærð í sandi og var öll byggð eydd í Strandarhverfi um 1750.
Í Jarðabók Árna og Páls sem tekin var saman á árunum 1706 og 1708 á þessu svæði er víða getið um hjáleigur og afbýli sem höfðu byggst á seinni hluta 17. aldar. Margar fóru fljótlega í eyði aftur í harðindunum um 1700 eða í kjölfar Stórubólu 1707 en önnur héldust í byggð. Engar heimildir eru til sem gefa ástæðu til að ætla að fyrir utan byggðaeyðingu í Selvogi hafi orðið neinar verulegar breytingar í skipulagi byggðar í Ölfusi eða Selvogi fyrr en á þessari [20.] öld.
Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra_eima.htm
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson.