Straumsvík – hellir

Straumsvík

Eftirfarandi ábending barst FERLIR um hugsanlegan helli undir hluta álversins í Straumsvík:

Straumsvík

Straumsvík.

„Hef verið að reyna að grafast fyrir um hellinn sem er undir Ísal í Hafnarfirði. Það voru upphaflega þrjú stór síló (þessi rauðu og hvítu) en eitt var fjarlægt. Það síló var ekki notað nema að hluta til því að þegar þeir voru að setja það upp kom í ljós að það er líklega stór hellir undir. Það var sett mikið magn af steypu og sandi inn en virkaði ekki neitt. Steypan sást, sögðu þeir sem unnu við það, fljótandi fyrir utan höfnina. Það var ekki gerð nein hola niður en borarnir og gatið var rétt nóg fyrir steypuna til að renna niður. Gatið sem var gert er á milli mötuneytisins og Kerfóðrunar.“ Skömmu síðar bárust svohljóðandi viðbótaruppýsingar um staðsetninguna: „Staðsetningin er líklega ekki nógu góð, en það sem ég vildi segja er að hellirinn er mötuneytismegin þ.e. syðstur af þeim sílóum.“
Samningar um byggingu álvers á Íslandi voru undirritaðir árið 1966, en viðræður milli svissneska fyrirtækisins Alusuisse og ríkisstjórnar Íslands höfðu þá staðið yfir í nokkur ár. Íslenska álfélagið hf. var stofnað og framkvæmdir hófust í Straumsvík. Þremur árum síðar hófst framleiðsla en verksmiðjan var formlega vígð í maí 1970.
Framleiðslugeta álversins var í upphafi um 33.000 tonn á ári í 120 kerum, en síðar var verkmiðjan stækkuð fjórum sinnum. Árið 1970 voru 40 ker til viðbótar tekin í rekstur, eftir að fyrsti kerskálinnn hafði verið lengdur, og 1972 var fyrri áfangi kerskála 2 tekinn í notkun. Síðari áfanginn (40 ker) var svo byggður nokkrum árum seinna og þar hófst framleiðsla árið 1980.

Straumsvík

Straumsvík.

Hrannari Péturssyni, upplýsingafulltrúa Alcan, var send framangreind lýsing með von um frekari upplýsingar, ef einhverjar væru. Hann svaraði: „Ég gat ekki fundið út úr þessu en mér dettur í hug að benda þér á Sveinbjörn Sigurðsson, tæknifræðing og fyrrverandi starfsmann, sem var um áratugaskeið ábyrgur fyrir ýmsum framkvæmdum og byggingum á svæðinu.“
Sveinbjörn sagðist aðspurður muna vel eftir þessu. „Eitt sílóið tók að halla um allt að 30 cm á 40 metrum (var 58 m hátt) svo sást móta fyrir krumpu í hlið þess. Þá voru gerðar rannsóknir á undirstöðunni. Í ljós kom að þar undir, eftir að borað hafði verið 8-9 metrar niður í hraunið, var stærðar gýmald, sennilega stór sjávarrhellir. Reynt var að aka dæla steypu stöðugt niður um holuna í tvo daga, en þá sáu menn hvar sjórinn utan við ströndina var orðinn litaður af steypunni. Þá var steypudælingunni hætt, en síðar ákveðið að rífa sílóið, enda ekki lengur þörf fyrir það vegna breyttrar vinnsluaðferðar. Utar er búið að bæta nokkru við ströndina, en ekki var gert nein tilraun til að stækka borgatið og kíkja niður í dýpið. Það er því í raun enn óljóst hvað er þarna undir.“
Sveinbjörn var einn helsti forvígsmaður að kaupum og endurbyggingu Gerðis, sem þá varð að aðstöðu fyrir starfsfólk álversins. Ísal keypti einnig Tjarnarkot, sem var þarna skammt vestar. Fróðleikur um Gerði mun birtast fljótlega á vefsíðunni.
Heimild m.a.:
-alcan.is – upphafið
-Sveinbjörn Sigurðsson.

Straumsvík

Straumsvík.