Stríðsminjar á Suðurnesjum
Í skýrslu um „Skráningu stríðsminja á Suðurnesjum“ eftir Eirík Hermannsson og Ragnheiði Traustadóttur frá árinu 2019 má t.d. lesa eftirfarandi um flugvöllinn á Garðaskagaflötum, miðunarstöðina á Fitjum og hverfið Howard, miðunar- eða ratsjárstöð á Langholti:
„Markmið verkefnisins var skráning og mæling menningarminja sem tengjast veru varnarliðs Breta og Bandaríkjamanna á stríðsárunum á landsvæði sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðis.
Hvergi á landinu voru umsvif erlendra herja meiri en á Suðurnesjum. Einn af fyrstu flugvöllum breska flughersins hér á landi var á Garðskagaflötum og þar höfðu Bretar aðstöðu um nokkurt skeið. Þar reistu Bretar bragga og loftnet eða miðunarstöð strax 1940 auk loftvarnarbirgja.
Með komu Bandaríkjamanna 1941 jukust umsvifin enn og framkvæmdir urðu meiri og stórtækari. Eins og við er að búast er því mikill fjöldi herminja á Miðnesheiði þar sem varnarliðið hafði aðstöðu frá því á árum seinni heimsstyrjaldar.
Minjar af þessu tagi eru ekki sjálfkrafa verndaðar af þjóðminjalögum þar sem þær eru ekki orðnar hundrað ára gamlar. Í lögunum er þó heimild til þess að friðlýsa yngri minjar, en um þau efni hefur hvorki skapast hefð né opinber stefna verið mörkuð. Það gefur engu að síður auga leið að ýmsar herminjar á Miðnesheiðinni eru þýðingarmikil heimild um hlutdeild Íslands í einhverjum mestu stríðsátökum mannkynssögunnar og kalda stríðinu sem á eftir kom.
Fullyrða má að varnarminjar frá stríðsárunum og fram til þessa tíma hafi alþjóðlegt minjagildi. Því er mikilvægt að fram fari nákvæm skráning á því sem er enn sjáanlegt og það mælt upp samkvæmt stöðlum Minjastofnunar Íslands um skráningu fornminja. Þær upplýsingar þarf að færa á kortagrunn deiliskipulags sveitarfélaganna og leggja mat á hvað af því er þess virði að varðveita og segja frá í máli og myndum. Ekki leikur nokkur vafi á að margir vegfarendur um t.d. Garðskaga hefðu gaman af að vita af þeirri sögu sem liggur að baki Garðskagaflata í flugsögu og varnarsögu landsins. Sú saga er flestum ókunn.
Margir núlifandi heimamenn eru fróðir um þessa staði og geta lýst þeirri starfsemi sem þarna fór fram, jafnvel þótt ummerkin séu orðin óljós. Mikilvægt er að skrá þeirra frásagnir og safna myndefni því sem til er frá stríðstímanum.
Stríðsminjar frá veru hersins
Á varnarsvæði Bandaríkjamanna á Miðnesheiði munu hafa verið reistir alls 2081 skálar og skemmur af ýmsum gerðum og stóðu í þyrpingum og hverfum sem til öryggis var dreift umhverfis flugvellina, sem voru tveir, þ.e. Patterson og Meeks.
Í bók Friðþórs Eydal, Frá heimsstyrjöld til herverndar, er að finna greinagóðar upplýsingar um mannvirkin ásamt yfirlitskorti yfir hverfin og nöfn þeirra. Segir þar um nöfnin á hverfunum: „Nafngift herskálahverfanna var af ýmsum toga. Bandaríkjamenn kenndu hverfi sín gjarnan við sögufræga hermenn, leiðtoga, staði eða bækistöðvar eða nefndu þau til heiðurs látnum liðsmönnum Bandaríkjahers líkt og var um nafngift flugvallanna. Voru flest skálahverfin á flugvallarsvæðinu kennd við hermenn sem fórust er þýskur kafbátur sökkti herflutningaskipi USS Henry R. Mallory í skipalest djúpt suð-suðvestur af landinu 7. febrúar 1942.“ Þau svæði sem voru til sérstakrar skoðunar hjá skýrsluhöfundum eru öll á útnesinu utan þessa korts.
Garðskagaflatir – flugvöllur
Breski herinn hernam Ísland þann 10. maí 1940 til að koma í veg fyrir mögulega innrás Þjóðverja. Herinn var að flestu leyti vanbúinn og efnalítill og þurfti að koma sér upp aðstöðu og þjónustu með litlum fyrirvara og sem minnstum tilkostnaði. Bretar hófu strax leit að heppilegu flugvallarstæðum víða um landið. Fengu þeir snemma augastað á Reykjavík, Kaldaðarnesi í Flóa, Odda á Rangárvöllum, á Snæfellsnesi og Garðskaga og ef til vill fleiri stöðum. Fáir staðir voru jafn ákjósanlegir fyrir bráðabirgðaflugvöll og Garðskaginn. Þarna var slétt og ræktað land, fyrrum kornakrar um aldir.
Jarðvegur á Garðskagaflötum er harður, þéttur og sendinn þannig að vatn sest sjaldan lengi á sléttlendið. Bretar sömdu við bændur á þeim fimm bæjum sem höfðu notað þetta svæði sem tún og beitiland en það voru Hafurbjarnarstaðir, Kolbeinsstaðir, Ásgarður, Hólabrekka og Útskálar.
Flugvallargerð á Garðskaga var ákveðin og var hafist handa snemma um sumarið 1940, og flugvöllurinn tekinn í notkun sumarið 1941.
Þetta var fyrsti flugvöllur á Reykjanesskaganum og líklega einn fyrsti flugvöllur sem Bretar gátu nýtt sér hér á landi. Túnum bænda á Garðskaga var með auðveldum hætti breytt í 1050 m langa flugbraut sem var 90 m breið og lá frá Garðskagavegi suður undir Hafurbjarnarstaði. Flötin var sléttuð og tyrfð að nýju eftir því sem þurfti og sáu heimamenn um verkið. Þetta var fyrsta reynsla þeirra af Bretavinnu og áttu margir þeirra eftir að helga setuliðinu störf sín næstu áratugina. Notaðir voru þeir vörubílar sem Garðmenn og Sandgerðingar áttu á þeim tíma auk hestvagna. Verkamennirnir sjálfir lögðu til handverkfæri s.s. skóflur, haka og sleggjur.
Þegar flugvallarstæðið hafði verið sléttað voru ræmur ristar í torfið svo skeljasandurinn kæmi vel í ljós við báða enda brautarinnar og með langhliðunum. Þannig var flugvöllurinn vel sýnilegur úr lofti.
Við bæinn Hlíð í Garði var hverfið Útskálar en það var kallað Hlíðarkampur af heimamönnum. Bærinn Hlíð stóð þar sem nú eru gatnamót Skagabrautar og gamla Sandgerðisveg. Bærinn stendur ekki lengur en bæjarhóllinn er við innkeyrsluna að Hótel Lighthouse Inn, sem hóf rekstur í mars 2017.
Nokkrir hermenn höfðu aðsetur í risinu á húsinu. Þar var einnig nokkur braggabyggð í námunda við íbúðarhúsið, en megin verkefni herflokksins sem þar dvaldi mun hafa verið eftirlit með kafbátaferðum. Þar voru reistir 14 braggar. Nú er þar aðeins ein braggatóft vel sjáanleg ofan við Sandgerðisveg og eitt steinsteypt jarðhýsi sem hugsanlega hefur verið skotfærageymsla undir varðstöð sem stóð á þessum slóðum. Jarðhýsið er um 3,4 m x 2,5 m. Gengið er niður í það sunnan megin.
Í braggatóftinni henni er skilti sem stendur á Herkampur og er tún allt í kring. Liggur malarvegur framhjá í átt að Sandgerði. Grunnurinn er 25 x 10 m og snýr austur-vestur. Utanum hann er hleðsla og eru veggir um það bil 1,2 m á breidd og 0,4 á hæð. Þeir eru grónir en greinilega sést grjót í hleðslu. Innan hleðslunnar má sjá ummerki um steypuleifar.
Tvö eða þrjú hlaðin skotbyrgi fyrir vélbyssu voru á túninu ofan við gamla flugvöllinn. Ummerki um eitt slíkt byrgi eru vel sýnileg á túninu vestan við hótelið. Byrgið er hlaðið utan í gamlan túngarð.
Í þessum vélbyssuvígjum var komið fyrir Bren-byssum og mun fyrsta sveitin sem þær mannaði hafa verið breskir hermenn úr Durham Light Infantry og Tyneside Scottish svokölluð „The Black Watch“ sem höfðu aðsetur á Skaganum. Síðla árs 1941 tóku Ameríkanar við vellinum. Þeir notuðu Browning vélbyssur samkvæmt því sem bók Friðþórs Eydal greinir frá. Braggi var einnig reistur við suðurendann í landi Kolbeinsstaða. Nú er ekki nein auðsjáanleg ummerki um þann bragga. Miðað við umsvif hersins í landi Hlíðar þá eru ummerkin hans orðin lítill en það sem er ennþá varðveitt eru nokkuð heillegar minjar, braggagrunnur, skotgröf og neðanjarðarbyrgi.
Aðgengi að sjáanlegum minjum er sæmilegt enda eru þær skammt frá nýbyggðu hóteli en helst þyrfti að færa til girðingu í samráði við landeiganda þannig að minjarnar yrðu enn aðgengilegri sem og merkja minjarnar.
Skagavöllur var í reynd aldrei notaður neitt að ráði en þjónaði hlutverki neyðarflugvallar. Upplýsingaskilti mætti setja niður annað hvort við hótelið eða við enda flugbrautarinnar nálægt bílastæðinu við sjóvarnargarðinn.
Miðunarstöðin á Fitjum
Breski herinn reisti miðunarstöð á Fitjum í október 1941 og kom þar upp aðstöðu. Þar reistu Bretar 13 bragga og 5 steinhús. Þá áttu Bandaríkjamenn tvo bragga að Fitjum í stríðslok. Bærinn var farinn í eyði og stóðu íbúðarhúsin enn uppi. Það var þá í eigu Ingibjörns Þ. Jónssonar bónda á Efri-Flankastöðum sem leigði það Bretunum. Þarna var einnig loftnet sett upp, um 20 m stálmöstur. Stöðin var allstór og er áætlað að þarna hafi verið um 100 hermenn þegar mest var, allt til ársins 1945. Stöðin var lögð niður árið1946 og keypti Ingibjörn bóndi á Flankastöðum þá 13 bragga og 5 lítil steinhús af Sölunefnd varnarliðseigna.
Miðunarstöðvarnar hér og á Langholti, áttu að fylgjast aðallega með skipaumferð en einnig auðvelda staðsetningu á kafbátum og flugumferð en árangur mun ekki hafa verið mikill.
Greinileg ummerki eru um braggabyggðina rétt suðaustan við gamla Sandgerðisveginn, skammt frá gamla bæjarstæði Fitja. Þarna eru enn sýnilegir allmargir grunnar, hleðslur, veggjabrot og sökklar undan möstrum.
Vel má sjá að braggarnir hafa ekki allir verið reistir á sama tíma. Þannig eru þeir eldri með hlöðnum grunni og hafa líklega verið með timburgólfi sem stóð á nokkrum steyptum staurum eða sökklum. Nýrri braggarnir hafa verið með steyptu gólfi og eru þeir grunnar sýnilegri. Einnig var heilleg múrsteinshlaðin kamína eða arinn sem stendur ennþá vel sýnileg.
Þetta hverfi er ágætlega varðveitt og minjarnar vel sýnilegar. Ástæða er til að hreinsa burt lauslegt járnarusl og víra og setja upp skilti með upplýsingum. Aðgengi er gott.
Hverfið Howard á Langholti
Bretar og Bandaríkjamenn settu upp miðunar- eða ratsjárstöð á Langholti við Litla-Hólm í Leiru. Sautján braggar munu hafa staðið undir Langholtinu austanverðu og ratsjárloftnet uppi á holtinu. Hverfið hét eftir fyrrum yfirmanni merkjasveita Bandaríkjahers í Tennesseeríki í bandaríska þrælastríðinu. Steinsteyptir sökklar og steypt plata fyrir mastur loftnets á norðanverðu holtinu eru enn vel sýnilegir en lítil ummerki eru um braggabyggðina. Talsvert umrót hefur orðið á svæðinu austan holtsins vegna starfsemi fiskvinnslufyrirtækja sem þarna hafa haft fiskþurrkunartrönur um áraraðir. Grunnar undan húsi og einum bragga sem voru nokkuð greinilegir voru mældir upp. Grunnurinn var með steinsteypu og bragginn var 21 x 8 m. Síðan mátti sjá ummerki um sennilega þrjá bragga en þessar minjar voru mjög ógreinilegar sem og steinsteyptan vegg.
Steinsteyptir sökklar og steypubrot er að finna nyrst í bland við rusl frá seinni tíma. Þá má greina ummerki um hlaðna gröf úr torfi og grjóti utan í og uppi hól vestan við Langholtið. Gröfin virðist hafa vísað inn að heiðinni. Líklegt má telja að þetta sé skotbyrgi frá hernum en þó ekki óhugsandi fyrir veiðimenn.
Fremur ógreiðfær vegarslóði liggur að Langholtinu að fiskþurrkunartrönum sem þarna eru og upp í grjótnámuna. Með dálitlum ofaníburði mætti gera hann færan flestum bílum og setja upp upplýsingaskilti við vegarslóðann.“
Heimildir:
-Magnús Gíslason, „Flugvöllur hans hátignar. Af setuliðinu í Garði og gerð flugvallar á Garðskaga 1940-1944“, Árbók Suðurnesja , VI., árgangur, Sögufélag Suðurnesja, Keflavík 1993, bls. 98.
-Skráning stríðsminja á Suðurnesjum, Eiríkur Hermannsson og Ragnheiður Traustadóttir – 2019.
-W.H. Harrisson, „ Gaman að hitta gamla vini eftir hálfa öld“, Árbók Suðurnesja, 1993, bls. 88.
-Friðþór Eydal, Frá heimsstyrjöld til herverndar, bls. 26-27.
-Friðþór Eydal, Frá heimsstyrjöld til herverndar, bls. 77.
-Skráning stríðsminja á Suðurnesjum, Eiríkur Hermannsson og Ragnheiður Traustadóttir – 2019.