Suður í Hraunum I
Eftirfarandi grein eftir Gísla Sigurðsson um Hraunabæina, „Suður í Hraunum„, birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1978:
„Hraunamennirnir gapa hvorki né góna lengur, því þeir eru engir til utan einn maður. Skilyrði til nútíma búskapar eru þar naumast fyrir hendi, en unaðslegt er að ganga þar um í góðu veðri.
Suður í Hraunum er mikill unaðsreitur, sem fáir vita þó um. Þar eru djúpir grasbollar og háir hraunhólar.
Komin er sólin Keili á og kotið Lóna, Hraunamennirnir gapa og góna, Garðhverfinga sjá þeir róna. Þær byggðir, sem við taka á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, voru fyrr meir kallaðar einu nafni „suður með sjó“. Færi einhver að ná sér í skreið eða annað sjómeti „suður með sjó“ þurfti ekki að skýra þaö nánar. Þessar byggðir voru ekki búsældarlegar; sjórinn var gjöfulli en landið. Fátæktin var einatt förunautur þeirra, sem bjuggu á kotunum suður með sjó, hvort heldur það var allar götur vestur í Leiru, í Höfnum, á Vatnsleysuströnd eða suður í Hraunum.
Nú er byggðin í Hraunum nánast að engu orðin. Eftir standa fáein hús, sem sumpart eru auð og mannlaus og sumpart hefur verið breytt í sumarbústaði. Enda þótt þessi gamla byggð sé í næsta nágrenni við þéttbýli Reykjavíkursvæðisins, munu þó næsta fáir, sem vita um tilvist hennar eða þangað hafa komið. Þeim sem óljósar hugmyndir hafa um Hraunin, skal bent á, að sú byggð hefst þegar komiö er framhjá Álverinu í Straumsvík á leið til Keflavíkur. Sveigt er út á malarveg hjá Straumi, sem dregur trúlega nafn sitt af fallegum lindum með bergvatnsstraumi, og líður undan hrauninu og myndar fallegar tjarnir á leið sinni út í víkina.
Leiðin liggur um hlaðið í Straumi, þar sem stendur þrístafna timburhús í herragarðsstíl og er þó í eyði. Þetta glæsilega íbúðarhús byggði Bjarni Bjarnason, sem síðar varð landskunnur maður sem skólastjóri á Laugarvatni.
Hann var þá kennari og skólastjóri í Hafnarfirði, en hafði fjárbú og ráðsmann í Straumi og var þá kominn í kynni viö Jónas frá Hriflu. Þaðan og frá Guðjóni Samúelssyni komu áhrifin, sem leiddu til burstabæjarins í Straumi og síðar var þessi stíll endurtekinn í byggingu héraðsskólans á Laugarvatni. Húsið í Straumi var byggt 1927.
Þegar ekið er inn á bílastæði álversins, verða tóftir þar sem hallar niður í fjöruna og standa vel uppi. Þar stóð bærinn Stóri-Lambhagi og á hraunhrygg, sem skagar út í Straumsvíkina, stóð Litli Lambhagi. Báðir þessir bæir fóru í eyði fyrir löngu. Annað bæjarstæði, sem ekki sést af veginum, er á vinstri hönd, þegar farið er suðurúr. Þar hétu Þorbjarnarstaðir og standa þar uppi túngarður og traðir ásamt með rústum af bænum. Þar var hætt búskap um 1930. Þurrabúð eða hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum var nær veginum, þar sem nú stendur sumarbústaður undir fallegri brekku. Þar hét í Gerði.
Sé farið um hlaðið í Straumi, liggur malarvegur áfram til norðurs og vesturs yfir hraunhryggi og gjótur, sem því miður hafa of oft orðið athvarf fyrir bílhræ og er til mikilla lýta.
Út með víkinni stendur Þýzkabúð ennþá uppi og utar í hvarfi stóð Jónsbúð. Þýzkabúð fór í eyði fyrir 1950 og telur Gísli fræðimaður Sigurðsson í Hafnarfirði, aö nafnið sé dregið af því, að Þjóðverjar hafi verzlað þarna fyrir margt löngu.
Á graskraga, sem verður á hraunjaðrinum vestur með ströndinni, hefur verið einna búsældarlegast í Hraunum og raunar er þar eini grasbletturinn, sem máli skiptir. Þar stóðu bæirnir Eystri og Vestari Óttarsstaðir og bærinn á Vestari Óttarsstöðum stendur enn meö þeim glæsibrag, að ástæða væri til að varðveita hann.
Heiðurinn af því eiga systur, sem þar ólust upp og eignuðust síðan jörðina og búa þar á sumrum. Þar er ævintýri líkast aö koma; svo vel er allt varðveitt og bærinn snýr hvítmáluðum bárujárnsþiljum til suðurs.
Á Eystri Óttarsstööum stendur timburhús, sem ekki er haldið við, en Guðmundur bátasmiður, sem þar er upprunninn, hefur byggt sér íbúðarhús lítið eitt austar og skýli yfir bátasmíðina. Þar stendur uppi
í fjörunni flak af timburskipi, sem hefur orðið málurum yrkisefni og fallegt á sinn hátt, enda þótt það hafi lokið hlutverki sínu. Guðmundur bátasmiður hafði á orði við okkur Helga Sæmundsson að dregist hefði úr hömlu að bera eld að því, en við báðum hann lengstra orða að þyrma flakinu.
Stundum er mönnum svo mikið í mun að eyða því, sem ónýtt er talið, að þeir gá ekki að því að það geti haft neitt annað gildi. Í nánd við Hafnarfjörð stóðu ekki alls fyrir löngu nokkur falleg flök af timburskipum, sem ævinlega voru augnayndi. Mikið kapp var lagt á að fjarlægja þau með krafti stórvirkra véla og heföi verið nær að beina orkunni gegn mengun frá fiskimjölsverksmiðjunni ellegar smekkleysi Olíufélagsins, sem blasir við meira en flest annað í Hafnarfirði.
Á bæjunum í Hraunum var nálega einvörðungu stundaður fjárbúskapur og stílað uppá beit. Þar er snjólétt, en heyfengur hefur líka verið næsta lítill. Útræði var úr Óttarsstaðavör og Straumsvík.
Sumarbústaðir hafa risið þarna í lautum, en ekki ber mikið á þeim og þurrabúðin Eyðikot frá Óttarsstöðum hefur verið byggð upp og er nú glæsilegur sumarbústaður.
Vestan við Óttarsstaði þrýtur graslendi og verður úfið hraun, sem runnið hefur fram í sjó. Er þar spölkorn, sem aldrei hefur byggzt, unz kemur að Lónakoti. Þar stendur íbúðarhúsið uppi að nokkru leyti, en ekki hefur verið búið þar síðan Lónakot fór í eyði eftir 1950. Síðasti bóndi þar var Sæmundur Þórðarson frá Vogsósum en nú á Kornelíus kaupmaður Lónakotið og hefur þar kindur. Beit þótti góð í Lónakoti, en túnið var aðeins örlítill bleðill og lá sífellt undir skemmtum af ágangi sjávar. Ekki voru skilyrði til lendingar viö Lónakot og því ekkert útræöi þaðan. En við Óttarsstaðavör hafa þeir staðið gallvaskir og skinnklæddir við sólarupprás og horft á Garðhverfinga róna eins og segir í vísunni.“
Gísli skrifaði einnig eftirfarandi grein um Hraunabæina í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
„NÚTÍMINN fór að mestu leyti hjá garði í Hraununum, en hann sést tilsýndar þaðan. Álverið gnæfir yfir í næsta nágrenni og skammt fyrir sunnan, á Keflavíkurveginum, æðir umferðin viðstöðulaust fram og til baka. Ef til vill er það þversagnarkennt, en nú er hægt að njóta þessa umhverfis einmitt vegna þess að nútímanum þóknaðist að koma ekki við í þessari horfnu byggð. Annars væri búið að setja jarðýtur á alla þessa grjótgarða sem falla svo vel að landinu; það væri búið að moka hólunum ofaní lautirnar, mylja hraunið til að ýta upp vegum og síðan væru athafnaskáldin búin að byggja eitthvað flott úr steinsteypu. En fyrir einhverja guðslukku fóru framfarirnar þarna hjá garði. Og Hraunamennirnir höfðu ekki bolmagn til þess að bylta umhverfinu. Það mesta sem vélaöldin hefur skilið eftir sig eru nokkur bílhræ.
Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspöl handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstöðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. Í kring er talsvert graslendi sem verið hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt. Einn af morgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hraumnu, vatnsból sem ekki hefur brugðist.
Steinsteypuöldin náði ekki til Hraunabæjanna svo teljandi væri; þó á að heita svo að standi uppi íbúðarhúsið Þýzkubúð. Hvort þessi hjáleiga frá Straumi hefur einhverntíma verið nefnd Þýzkabúð er ekki vitað.
En samkvæmt talshætti í Hraununum heitir húsið Þýzkubúð og er nafnið rakið til þess að Straumsvík var verzlunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600, en þá vöndu þýzkir og enskir kaupmenn komur sínar til landsins.
Þá voru verzlunarbúðir þýzkra höndlara settar upp við varir út með Straumsvíkinni og þótt aldir hafi liðið eru nöfnin enn við lýði: Þýzkubúð og Þýzkubúðarvarir syðri og nyrðri. Nú stendur íbúðarhúsið í Þýzkubúð eitt til minningar um verzlunarstaðinn og hjáleiguna sem síðan reis þar. Húsið er af sér gengið, opið fyrir veðrum og vindi, hryggðarmynd. Samt var þetta steinsteypt hús, en hvenær það reis virðist enginn vita með vissu; það var snemma á öldinni. Síðar var byggt við það einhverskonar bíslag sem hangir uppi. Á barnsaldri átti Eiríkur Smith listmálari heima um tíma í Þýzkubúð.
Lítið eitt utar með víkinni og örskammt frá sjávarkambinum og Jónsbúðartjörn var þurrabúðin eða hjáleigan Jónsbúð á örlitlum túnbletti. Grjótgarður í kring, hraunhólar og grasigrónir bollar.
Jónsbúðarvör er beint niður af bænum og skaga Skötuklettar út í Straumsvíkina sunnan við víkina. Tvær samliggjandi tóftir sýna hvernig bærinn hefur verið, en Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar lét kanna Jónsbúð með prufuholugreftri og Fornleifafræðistofan hefur staðið að samantekt þar sem sjá má niðurstöður Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Líklega var ekki eftir neinu stórkostlegu að slægjast, enda fátt markvert sem kom í ljós. Þó voru rústir bæjanns nær óspilltar; ekkert jarðrask hafði átt sér stað þar.
Ástæða er til þess að vekja athygli á þessum stað vegna þess að að minjar af þessu tagi eru hvergi sýnilegar lengur á höfuðborgarsvæðinu.
Staðurinn geymir allar þær minjar sem við má búast að sjáist eftir þurrabúð eða hjáleigu; þar á meðal bæjarhús, túngarð, skepnuhús, vör, vörslugarð, hjall, sólþurrkunarreit og vatnsból. Tvær prufuholur sem grafnar voru í gólf bæjarhúsanna leiddu í ljós brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra. Kindakjöt, fiskur og fugl hefur venð á borðum í Jónsbúð og svartfugl gæti hafa verið veiddur til matar. Þrátt fyrir túna- og slægjuleysi hefur einhvern veginn verið aflað heyja handa einni kú. Önnur tóftin leiðir í ljós að þar hefur verið hálfþil og bæjardyr, en jafnframt fjós, og sást það á flórnum. Úr fjósinu hefur síðan verið gengið lítið eitt upp í baðstofuna, enda var sú skipan vel þekkt og hugsuð til að nýta hitann frá þlessuðum skepnunum.
Á baðstofunni hefur verið hálfþil og gluggi. Það er þurrabúðargerð hin yngri, sem svo er nefnd, en eldn gerðin var alveg án þilja, glugga og bursta; þesskonar bæir urðu nánast eins og hverjir aðrir grasi grónir hólar í landslaginu. Ekki er vitað um upphaf Jónsbúðar en búið var þar á 19. öldinni og eitthvað fram á þá 20. Tvö steinhlaðin mannvirki vekja athygli þegar ekið er eftir vegarspottanum vestur frá Straumi. Annarsvegar er mannhæðarhá tóft úr tilhöggnu og steinlímdu grjóti. Hún heitir Gíslatóft og var í henni útieldhús frá Óttarsstöðum eystri. Vestar er Eyðikot, sem nú er sumarbústaður í burstabæjarstíl og með fagurlega hlöðnum veggum úr hraungrjóti og veruleg prýði er að grjótgarði framan við húsin.
Þarna stóð áður hjáleiga með sama nafni; einnig nefnd Óttarsstaðagerði. Umhverfi Óttarsstaðabæjanna er búsældarlegt á móti því sem menn hafa þurft að búa við á öðrum Hraunabæjum. Þarna eru grasgefin og ræktarleg tún sem hestamenn virðast nýta til beitar.
Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var eitt af þeim. Jarðardýrleikinn er óviss, segir Jarðabókin og jafn óvisst er hvort átt sé við báðar Óttarsstaðajarðirnar, en kóngurinn á slotið og leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða.
Auk þess eru kvaðir um mannlán á vertíð, „item tveir hríshestar“ sem taka á í Almenningi og „leverast in natura“ heim til Bessastaða.
En það er sama sagan og í Lónakoti og áður var nefnt: Ábúandinn kvartar yfir því við Bessastaðavaldið „að ærið bágt sé orðið hrís að útvega og meinar sér léttara vera fyrir þessa tvo hríshesta að betala tíu físka, þá guð gefur fiskinn af sjónum“.
Fimm kýrfóður á túnið að gefa af sér og hefur þótt ekki lítil búsæld í Hraunum. Af hlunnindum nefnir Jarðabókin útigang „þá mestu hörkuvetur ei inn faiia“, hrognkelsatekja er í lónum þegar fjarar, heimræði er árið um kring, lending í meðallagi, en lítil rekavon.
Gallar jarðarinnar eru hinsvegar að engjar eru ekki til, að gripir farast stundum í gjám þegar snjóar yfir liggja og afleitt er það líka að torfstunga, þ.e. torfrista, er nánast engin. Vatn var sótt í djúpan brunn í túninu á aðfallnu, en vatnið í honum var alltaf ferskt. Þar gilti sama lögmál og í lónunum sem áður voru nefnd. Þessi brunnur er með grjóthleðslu að innanverðu, en því miður hálffullur af plasti og öðru sem fokið hefur í hann.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ.
Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar. Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið Jamestown mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri. Húsið var síðar bárujárnsklætt.
Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.
Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985. Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjölskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.
Spölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og líklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs. Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.
Á Óttarsstöðum vestri var búið til 1966, en bænum hefur verið vel við haldið. Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum vestri voru Ragnheiður Hannesdóttir, húsfreyja á Óttarsstöðum vestri, og Guðmundur Sigurðsson, bátasmiður á Óttarsstöðum, síðasti maður sem átti heima í Hraunum.
Síðustu ábúendur á Óttarsstoðum eystri voru hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar til 1966, en dóu þá með þriggja vikna millibili.
Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur. Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins skammt út fyrir og aldrei var vél í bátnum. Vestur með sjónum voru fiskbyrgi, sem enn sjást. Þar var fiskurinn þurrkaður. Börn Ragnheiðar og Jónínu eru núverandi eigendur jarðarinnar og þau eiga heiðurinn af
því að halda bænum í góðu horfi.
Vestur frá Óttarsstaðavör er malarkamburinn næstum þakinn lábörðum steinum, sem einu sinni voru hraunklappir og hafrótið braut upp. Það kom í ljós í Surtsey að brimið við ströndina þurfti ekki ýkja langan tíma til þess að gera lábarinn hnullung úr hrjúfum hraunsteini. En vörin hefur myndazt með því að hraunrani, sem oft flæðir yfir, girðir fyrir að norðanverðu. Þar fyrir utan snardýpkar skyndlega, sögðu mér kafarar sem voru að skoða sig um á botninum. En nú ýtir enginn lengur úr Óttarsstaðavör.“
Eftirfarandi grein birtist í Vísi árið 1969 um síðasta bóndann við Straumsvík:
„Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.
Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.
Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga i Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll. Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes. Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-Lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðukot, Óttarsstaði og Lónakot. Það var yzti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum meðan ennþá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið, Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mann afla.
Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botn inn meðfram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert. Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komizt á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.
Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við. Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnzt og mörgu vanizt.
Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harð vítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka.
En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal“, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum meðfram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land giört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið.
— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima Ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrarog Hvaleyrartjörnum var fyrrum; -mikil rauðsprettuveiði.
-Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.
— Hér er orðin breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráð ið til hlunns í Straumsvíkur- og Lambhagavörum. Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveizlu ætlazt enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.
Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörina, sem lent var og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái“ oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel. Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á úteftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þar ferðinni. Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.
Svo „strengdi Stjáni klóna“, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síðustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.
— í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði. Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið.
Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni. Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járn
smiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum. Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar á móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn.
Þegar verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.
Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, og kunni ég því vel.
Þó hér sé ekki sprottið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjöíbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem
hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna. Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur í Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.
Ég hef svo sem fengizt við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elzta skipið í íslenzka veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verzlunarsöguna bæði sem
sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913.
Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.
— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Ennþá les ég gleraugnalaust. Ég hef aldrei ekið hratt ónei, og komizt leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, er áður lifðu þar lífi íslenzkra útvegsbænda?“
Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. maí 1978, Suður í Hraunum, Gísli Sigurðsson, bls. 8-9 og bls. 13.
-Lesbók Morgunblaðsins 25. mars 2000, Byggð og náttúra í Hraunum – Nútíminn fór hjá garði, Gísli Sigurðsson, bls. 4-6.
-Vísir 19. júní 1969, Bóndinn í Straumsvík, bls. 9-10.