Þann 17. september 2009 gaf Skipulagsstofnun álit sitt vegna svonefndra Suðvesturlína.
“Skipulagsstofnun hefur fallist á mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína með skilyrðum. Í áliti stofnunarinnar sem gert var opinbert í dag er í meginatriðum tekið undir niðurstöður matsskýrslu Landsnets og einungis talin þörf á að setja frekari skilyrði um áflugshættu fugla á nokkrum stöðum á línuleiðinni.”
Segjast verður eins og er að hér er farin sú ódýrasta leið, sem farin hefur verið í álitsgerð hér á landi, sennilega frá því að land byggðist, um alveg sérstaklega afdrifaríkt mál – eyðileggingu náttúru- og fornminja á einu verðmætasta svæði landsins.
“Um er að ræða mjög umfangsmikla framkvæmd og nær áhrifasvæði hennar allt frá Hellisheiði og út á Reykjanesskaga. Fyrirhugað er að reisa 507 ný möstur og leggja milli 180 og 190 km af loftlínum og um 50 km af jarðstrengjum en á móti verða rifin 403 eldri möstur. Gert er ráð fyrir að framkvæmdunum verði skipt upp í fimm áfanga á árunum 2010 til 2017.
Skipulagsstofnun telur að neikvæðustu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði sjónræn áhrif og áhrif á landslag og þar með einnig á útivist og ferðaþjónustu. Skipulagsstofnun telur að heildaráhrif fyrirhugaðra framkvæmda m.t.t. þessara umhverfisþátta verði óhjákvæmilega verulega neikvæð.
Skipulagsstofnun telur að þegar litið er til heildaráhrifa fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir og gróður verði áhrifin talsvert neikvæð þar sem nútímahraun munu raskast á óafturkræfan hátt á alls tæplega 30 ha landssvæði og nútímahraun eins og um er að ræða á áhrifasvæði framkvæmdanna, þekja lítinn hluta jarðar og sá gróður sem þar vex því frekar fátíður.
Skipulagsstofnun telur að nýlagning lína geti haft talsverð neikvæð áhrif á fugla á löngum köflum fyrirhugaðar línuleiðar vegna áflugshættu og búsvæðaröskunar, auk þess sem línuleið mun á kafla liggja í nálægð við gamlan varpstað hafarna. Á móti koma jákvæð áhrif vegna fyrirhugaðs niðurrifs núverandi lína um Heiðmerkursvæðið. Það er því niðurstaða Skipulagsstofnunar að heildaráhrif á fuglalíf verði nokkuð neikvæð vegna lagningar Suðvesturlína.”
Af eðlilegum ástæðum með hliðsjón af framangreindu kvað umhverfisráðherra upp eftirfarandi úrskurð: “Umhverfisráðherra hefur fellt úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Suðvesturlínu og öðrum tengdum framkvæmdum. Málinu hefur verið vísað aftur til Skipulagsstofnunar til efnislegrar meðferðar og úrlausnar.”
Vonandi gerist eitthvað gott í framhaldinu…
Heimild:
-www.sudvesturlinur.is