Sveifluháls – Arnarvatn

Sveifluháls

Þann 17. júní árið 2000 reið harður jarðskjálfti yfir Suður- og Suðvesturland (7,2 °R). Nú, skömmu seinna, var ákveðið að fara aftur um Sveifluhálsinn og skoða verksummerki eftir skjálftann.

Sveifluháls

Sveifluháls – Folaldadalir.

Gengið var yfir hálsinn skammt frá Norðlingahálsi og yfir í Folaldadali. Dalirnir eru sléttir sanddalir og greiðfærir yfirferðar. Vatn safnast í þá á vorin og stundum fram eftir sumri. Gengið var upp úr dölunum að sunnanverðu og áfram eftir dæld á hálsinum uns komið var að mosavaxinni hæð innan um móbergsklettana. Á hæð þessari eru fallegir skessukatlar og djúpur rúmgóður dalur neðan undir henni.

Sveifluháls

Gengið um Sveifluháls.

Þar niðri voru FERLIRsfélagar staddir þegar Suðrulandsskjálftinn reið yfir. Þar voru þeir og þegar seinni skjálftinn kom upp, svo til beint undir fótum þeirra. Þegar komið var niður mátti sjá hvar stór björg höfðu fallið úr hlíðunum, en stöðvast í dölunum. Á undan skjálftanum hafði komið mikill hvinur, eins og þotu væri flogið yfir svæðið, en síðan gekk sveiflaðist hálsinn í bylgjum drjúga stund. Á meðan á því gekk tóku skriðutónarnir undir í látunum. Fögur tröllatónlist, en hljómaði ógnvekjandi í eyrum lítillar mannskepnu. Dvalið var nokkra stund innan um klettana, svona til að njóta þess augnabliks, sem fráhverfast hafði verið.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Gengið var áfram upp úr dalnum og yfir að Arnarvatni. Sprungur voru enn við vatnsborðið. Fagurt er við Arnarvatnið og gróðurmörkin eru hvergi skýrari en þar. Grátt að norðanverðu en grænt að sunnanverðu. Arnargnýpa trjónir hæst tinda Sveifluhálsins í austri.
Gengið var yfir á Hettustíg undir Hettu, en í því var þokan að læða sér niður hlíðarnar. Fagurt útsýni var þaðan yfir að Vigdísarvöllum þar sem sólargeislar gylltu gular flatir. Bleikingsdalur í suðvestri reis nú vel undir nafni.

Huldur

Gengið um Huldur.

Í stað þess að ganga til baka niður Ketilinn og niður í Móhálsadal var ákveðið að ganga sömu leið til baka, virða fyrir sér enn betur þá breytingu er varð þarna á landslaginu á svo skömmum tíma og stefna á Norðlingaháls. Ljóst er af fenginni reynslu að mótun landslagsins gerist bæði jafnt og þétt (vegna vatns-, frosts- og vindrofs) sem og í stökkum – um það verður ekki efast. Á einni svipan hrundu nokkur tonn af bergi úr „Hulstrum“ sínum niður á jafnsléttu. Þegar horft er á hin háu fjöll, skriðurnar og aflíðandi hlíðarnar má ljóslega gera sér í hugarlund hvernig núverandi útlit hefur fengist smám saman með hinum ýmsu „kröftum“ náttúraflanna í tímans rás. Ekki eru „nema“ um 12.000 ár síðan jökul leysti síðast á landinu. Jökullinn á skriði sínu og leysingum hefur sorfið landið, náttúruöflin síðan sett mark sitt á það smám saman og jarðskjálftar og eldgos ýmist brotið það niður eða bætt um betur. Gangan niður Huldur gekk áfallalaust fyrir sig.
Mikið virðist hafa gengið á á skömmum tíma – og FERLIR fékk að vera hluti af því á Sveifluhálsi þann 17. júní árið 2000.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 31 mín.

Sveifluháls

Á ferð um Sveifluháls.