Sveifluháls – Folaldadalir

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, fyrrum lögregluvarðstjóra í Hafnarfirði, segir m.a. um Folaldadalina í Sveifluhálsi og nágrenni: „Landamerkjalínan milli Krýsuvíkurlands og upprekstrarlands Álftaneshrepps hins forna liggur um vestanverðar Undirhlíðar, rétt um Háuhnúka eða Rakka.
Sveifluhals-30Vatnsskarð skiptir nöfnum á þessum móbergshálsum og heitir Sveifluháls fyrir vestan. Um skarðið lá Vatnsskarðsstígur og má enn sjá móta fyrir honum á melum vestanvert við Krýsuvíkurveginn. Eru nú engin örnefni fyrr en komið er nokkuð vestur á Hálsinn. Hellutindar eða Skriðutindar eru fyrstir fyrir. Þá Stapatindur eystri og þá Stapatindur vestri og milli þessara tinda eru svo Tindaskörðin. Þá er komið í Ólafsskarð, en um það liggur Ólafsstígur. Örnefnin eru kennd við Ólaf trésmið Magnússon, en hann fór hér oft um þegar hann heimsótti föður sinn Magnús Ólafsson í K-vík. Há rís upp hér á hálsinum hæsti hnúkurinn, Miðdegishnúkur. Mun heita svo af því hann er eyktamark úr Hraunum. Hér vestar nokkurn spöl er Arnarnýpa, og þar á Arnarhreiður. Sér nýpuna víða að. Til hliðar, norðan við tindana er hálsinn sprunginn að endilöngu. Austast er Sandfellsklofi. Þar eru eldvörp og eins upp á hálsinum. Vestar taka við Folaldadalir. Foladadalur eystri með Folaldadalstjörn. Þá er Mið-Folaldadalur og Folaldadalur vestri og er þar Folaldadalstjörn vestri. Tjarnir þessar þrjóta venjulega á sumrin.
Sveifluhals-31Þá er komið á Ketilstíg þar sem hann kemur upp úr Katlinum og liggur framhjá Arnarvatni. Í vestur eru tveir hnúkar. Annar að sunnan heitir Hattur kúflaga en framan í honum eru Krýsuvíkurnámurnar og Seltún. Beint framundan er Hetta. Hattsmýri liggur milli hnúka þessara, en klofnar um Hattsmýrargil. Vestan undir Hettu er Hettuskarð og Hettuskarðsvegur eða Hettuskarðsstígur. Nokkrir nafnlausir tindar eru hér fyrir vestan og vestan þeirra er komið á Drumbsdalastíg. Á sunnanverðum hálsinum er Stóri-Drumbur, en norðar er Litli-Drumbur) og milli þeirra Drumbsdalir. Hér fram undan eru Borgarhólar og Borgin. Þess er vert að geta, að Sveifluháls ber nokkur nöfn, svo sem Austurháls og Móháls eystri.“

Sveifluháls

Folaldadalir í Sveifluhálsi.