Sveinn Pálsson

Sveinn Pálsson (1762-1840) var stúdent í Kaupmannahöfn. Hann lærði læknisfræði og náttúrufræði, ferðaðist til Íslands fyrir Náttúrufélag Dana og sendi þeim skýrslur um landann.

Mjaltarstúlka

Mjaltarstúlka – Daniel Bruun.

Hér á eftir verður fjallað um lýsingu á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Hann fer mjög neikvæðum orðum um sýsluna, talar um að ekki geti aumari sýslu á Íslandi um útsýni og landkosti, en að mannfjöldinn sé þar meiri og strjálbýli minna. Þar er helsti kaupstaðurinn og þar er víðtækasta útræðið.
Hann lýsir landinu sem heimkynni allra ógna í náttúrunnar ríki. Sýslan sé lítið annað en auðn og eldbrunnin og gróðurlaus með öllu. Það sé erfitt að finna ósalt rennandi vatn. Hann talar þó um að mörg hraunanna séu ágætis afréttir fyrir sauðfénað jafnt sumar sem vetur.
Grjótið sem mest er af er vel fallið til húsagerðar en torfið sé erfitt að fá á þessu svæði og víða sé það svo gljúpt í sér að það nýtist ekki í þök né veggi. Bæir séu litlir og þröngir, og illa viðraðir. Allt er þar fullt af viðbjóðslegum óþef sem kemur af daglegum úrgangi frá útveginum og for, sem er grafin niður í jörðina fast við bæjardyrnar og hlaðin upp úr grjóti. Síðan er þetta notað sem áburður á túnin.

Kálfatjörn

Kálfatjörn.

Lítið sé um hlunnindajarðir. En fólki fjölgi mest hér og það sé vegna hins ágæta sjávarafla sem menn sækja utan úr sveitum.
Í sýslunni eru 12 kirkjusóknir og í þeim 144 býli fyrir utan hjáleigur. Árið 1781 voru íbúar 2818. Í sýslunni sitja stiftamtmaður, landfógeti, landlæknir, sýslumaðurinn, lyfsali og ljósmóðir. Fangelsi hefur verið stofnað en það vanti sjúkrahús… Nýju innrétingarnar eru: klæða- eða vefnaðarvöruverksmiðja í Reykjavík, brennisteinshreinsunarstöð í Krýsuvík og sauðfjárkynbótabú á Elliðavatni.
Reykjavík hefur 4 útibúsverslanir. Höfnin er þar rúmbetri en annars staðar. Biskupsstóllinn fluttist til kaupstaðarins frá Skálholti 1786 og einnig latínuskólinn. Verið sé að reisa dómkirkju.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Sveinn talar um að fiskveiðar séu vanræktar hvað varðar veiddar fisktegundir og útbúnað til sjósóknar. Stærri bátum tí- og áttæringum fækki en tveggjamannaför koma í staðinn. Ástæðurnar eru að fjölskyldur eru minni og bændur verða að draga saman seglin og gerast tómthúsmenn. Selveiði og hákarlaveiði eru vanræktar með öllu. Til beitu fyrir þorsk er notaður kræklingur og aða og ef það fæst ekki eru notuð t.d. þorskhrogn. Á vorin fjörumaðkur.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Merkustu staðir í sýslunni eru: Bessastaðir, Viðey og kaupstaðurinn…
Íbúar í þessum landshluta koma úr öllum landshlutum. Menn eru hér dramblátari, eigingjarnari, ógestrisnari og ólhreinskilnari víð yfirvöld en annars staðar á landinu. Málfar og venjur eru verri. Fólk er uppivöðslusamara, meiri kaffi- og brennivínsdrykkkja og önnur fíflska. Fáir verða mjög gamlir og mörg börn deyja áður en þau verða þriggja ára gömul.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni.

Ástæðan virðist vera illt viðurværi mæðranna og óþrifnaður. Frjósemi þó mikil. Tala óskilgetinna barna hærri en annars staðar.
Sveinn telur upp sjúkdóma s.s. líkþrá, kreppusótt í harðindum, (þó segir hann börn og unglinga vel hirt), lúa- og liðaverkir eru mjög algengir og einnig handa- og fótadofi. Móðursýki er algeng meðal kvenna og tíðateppu hefur flest kvenfólk hér frekar en annars staðar.
Klæðnaður er íburðarminni hér en fyrir norðan. Skautið er beygt mjög fram á við og fer ekki vel. Menn eiga almennt meira af peningum en minna af öðrum nauðsynjum.

Íslendingar

Íslendingar 1810.

Almenningur skiptist hér í stéttir: a) bændur sem búa á lögbýlum, b) grashúsmenn sem búa annað hvort á hjáleigum eða í húsi á heimajörðinni, hafa grasnyt fyrir eina kú, c) tómthúsmenn sem búa á hjáleigu eða í húsi á heimajörðinni, en hafa enga málnytu, d) vinnufólk, karlar og konur, e) börn, f) gamalmenni, g) þurfamenn, sem þiggja af sveit, h) lausamenn, sem hvorki stunda búskap né vinnumennsku, og eru ógiftir og i) sjómenn sveitamenn og vinnumenn sem eru hér við sjó að vetrinum.

Heimild:
-Úr Ferðabók Sveins Pálssonar.

rek-21

Reykjanesviti.