Tag Archive for: alþingi

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn var friðlýstur 18. nóv. 2024.

Alþingisgarðurin

Alþingisgarðurinn – Ráðherra undirritar friðlýsingu Alþingisgarðsins. F.v. Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Birgir Ármannsson forseti Alþingis.

Garðurinn við Alþingishúsið er fallegur og friðsæll sem er að mestu umkringdur háum steinvegg. Garðurinn er því fremur falinn og fyrir vikið fásóttari en ella en hann hefur verið opinn fyrir almenning síðan 1950. Garðurinn er elsti íslenski almenningsgarðurinn sem hefur varðveist í upprunalegri mynd.

Skömmu eftir að smíði Alþingishússins lauk 1884 var ákveðið að gera garð í lóðinni sunnan við húsið að frumkvæði Árna Thorsteinssonar landfógeta.
Plöntur voru fengnar víða að, innan lands sem utan. Víðitegundin þingvíðir var flutt inn til landsins og er hún nefnd eftir garðinum.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn – brjósmynd af Tryggva Gunnarssyni.

Tryggvi Gunnarsson alþingismaður sinnti garðinum síðari hluta ævi sinnar og er brjóstmynd af Tryggva að finna í garðinum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði friðlýsinguna vegna Alþingisgarðsins við Kirkjustræti. Friðlýsingin tekur til garðsins í þeirri mynd sem hann hefur varðveist.

Alþingisgarðurinn er elsti og best varðveitti almenningsgarður við opinbera byggingu á Íslandi. Framkvæmdir stóðu yfir frá 1893 til 1894 en hönnun garðsins lá fyrir í upphafi, sem markaði tímamót í íslenskri garðsögu.

Friðlýsingin er gerð að tillögu Minjastofnunar Íslands og er í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar, nánar tiltekið 18. gr. sem fjallar um friðlýsingu húsa og mannvirkja eða hluta þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn.

Friðlýsingin tekur til Alþingisgarðsins við Kirkjustræti 14 í þeirri mynd sem hann hefur varðveist, skipan stíga, beða, trjágróðurs og tegundaflóru innan hvers reits, minnisvarða, hleðslna og yfirborðsefna og hlaðinna veggja umhverfis garðinn. Garðurinn er 901,8 fermetrar að stærð, lengd hans er 33,1 metrar og breidd 27,2 metrar, og miðast útmörk friðlýsingarinnar við það. Vikið er frá því að hafa 100 m friðhelgunarsvæði umhverfis útmörk garðsins, sbr. 22. gr. laga um menningarminjar.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn friðlýstur 18. nóv. 2024.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er mér mikil ánægja að staðfesta tillögu Minjastofnunar um friðlýsingu Alþingisgarðsins. Garðurinn markaði tímamót í íslenskri garðsögu og upphafsmaður hans Tryggvi Gunnarsson sinnti garðinum einstaklega vel, jafnvel á efri árum. Í Alþingisgarðinum fyrirfinnast enn ýmsar tegundir plantna, sumar horfnar þaðan eins og Þingvíðirinn sem nefndur er eftir garðinum, en margar þrífast þar enn enda hefur garðinum alltaf verið vel sinnt. Skipulag garðsins hefur ekki mikið breyst frá þarsíðustu öld. Í honum má líka sjá handverk í formi hleðslna og hlaðinna veggja. Alþingisgarðurinn er táknrænn fyrir margra hluta sakir og gildi hans afar mikið á landsvísu. En mest um vert er að allan tímann hefur hann verið opinn almenningi og er Alþingisgarðurinn því garður okkar allra.

Alþingishúsið 1881

Alþingishúsið 1881.

Alþingisgarðurinn er táknrænn fyrir margra hluta sakir og gildi hans afar mikið á landsvísu. En mest um vert er að allan tímann hefur hann verið opinn almenningi og er Alþingisgarðurinn því garður okkar allra,“ segir ráðherrann.
Í tilkynningu um friðlýsinguna kemur fram að Alþingisgarðurinn sé elsti og best varðveitti almenningsgarður við opinbera byggingu á Íslandi.
Framkvæmdir hafi staðið yfir frá 1893 til 1894 en hönnun garðsins hafi legið fyrir í upphafi, sem markaði tímamót í íslenskri garðsögu.
Viðstödd friðlýsinguna voru, auk ráðherra, forseti Alþingis og fulltrúar Alþingis, Minjastofnunar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn 1920.

Á Alþingi árið 1893 kom fram tillaga um hvernig verja skyldi fjármunum sem safnast höfðu í þinghúss­byggingarsjóðinn frá 1867. Áður hafði komið fram hugmynd um að nota sjóðinn til að skreyta húsið að innan en nú kom fram tillaga um að veita úr honum til skipulags lóðar og garðyrkju við húsið. Urðu miklar umræður um tillöguna á þinginu og miðluðu þingmenn þar af reynslu sinni af garðyrkju, t.d. Árni Thorsteinson landfógeti og forseti efri deildar sem Landfógetagarðurinn (Hressingarskála­garðurinn) er kenndur við.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn – Tryggvi Gunnarsson við vökvun garðsins.

Alþingi samþykkti að lokum að verja 1.500 krónum til framkvæmda í garðinum og fá þingforseta umsjón verksins. Mun þar með hafa verið tekin ákvörðun um fyrsta opinbera skrúðgarðinn á Íslandi. Benedikt Sveinsson, forseti sameinaðs þings, fól Tryggva Gunnarssyni að sjá um framkvæmdir í garðinum. Tillöguuppdrættir Árna Thorsteinsonar að garðinum eru varðveittir í Þjóðskjalasafninu en uppdráttur, sem farið var eftir, er í skjalasafni Seðlabankans og á honum rithönd Tryggva Gunnarssonar. Tryggvi var smiður að mennt og lærði einnig búvísindi á Norðurlöndum og er ekki ólíklegt að hann sé höfundurinn að skipulagi garðsins. Garðurinn er enn nánast óbreyttur frá upphaflegu skipulagi.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn 2020.

Tryggvi hófst handa við að láta skipta um jarðveg í garðstæðinu og ræsa það fram. Einnig keypti hann mykju og tað til áburðar og pantaði plöntur innan lands og utan. Kostnaðarsamast var að girða garðinn og var Ólafur Sigurðsson steinhöggvari fenginn til að hlaða garðveggina. Veggurinn sem snýr að Dómkirkjunni er vandaður og prýða hann steinsúlur með hnúð. Suður- og vesturveggirnir eru einfaldari og frágangurinn grófari enda voru þeir á lóðamörkum en sneru ekki að opnum svæðum eins og nú. Slökkvitækjaskúr Reykjavíkurbæjar stóð að hluta á lóð Alþingis og var rifinn þegar garðvinnan hófst.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn – þingvíðir.

Tryggvi fékk plöntur víða að, víði og birki úr Fnjóskadal, ilmreyr úr Hörgárdal, reynivið úr Nauthúsagili undir Vestur-Eyjafjöllum, birki úr Hafnarfjarðarhrauni og mjaðarjurt úr Gufunesi. Árni Thorsteinson og Schierbeck landlæknir voru Tryggva einnig innan handar með plöntur og fræ í garðinn. Víðitegund, sem Tryggvi flutti til landsins, dregur íslenskt heiti sitt af garðinum og er kölluð þingvíðir. Ekki er talið að neitt af upprunalegu trjánum standi enn í garðinum.

Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi Gunnarsson.

Kostnaður við framkvæmdir í garðinum varð meiri en á horfðist og var sumarið 1894 kominn í 2.839 krónur. Hafði Tryggvi lagt út fyrir því sem á vantaði þegar 1.500 króna fjárveitingin var þrotin. Á þinginu 1894 var samþykkt að verja rúmlega 1.000 krónum sem eftir stóðu í þinghúss­byggingarsjóðinum til að gera upp reikninga og veita 1.200 krónur úr landssjóði til að ljúka verkinu.

Næstu ár eyddi Tryggvi ómældum tíma í vinnu í Alþingisgarðinum og var ósk hans að verða jarðsettur þar. Var orðið við henni, garðurinn vígður sem heimagrafreitur og hvílir Tryggvi syðst í garðinum undir steinhæð með íslenskum blómum og grösum. Á leiðinu er brjóstmynd af Tryggva eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.

Sjá meira um Alþingisgarðinn HÉR.

Heimildir:
-https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/11/18/Althingisgardurinn-fridlystur/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/18/althingisgardurinn_fridlystur/
-https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/tiufrettir/30763/aga0t1/althingisgardurinn-fridlystur
-https://www.althingi.is/um-althingi/fraedslu–og-kynningarefni/um-althingishusid/
-https://fila.is/wp-content/uploads/2019/07/Vi%C3%B0auki-3-Al%C3%BEingisgardurinn-Karl-G.-Athugun.-Copy.pdf

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn 2022.

Kristján tíundi

Í Fálkanum 1930 (Alþingishátíðarriti) er grein um „Konung Íslands og drotningu„:

Konungur Íslands

Kristján tíundi; ríkisár 1912-1947 (Danmörku) 1918-1944 (Íslandi). Skírnarnafn: Christian Carl Frederik Albert Alexander Vilhelm Glücksburg. Fæddur 26. september 1870 – dáinn 20. apríl 1947 (76 ára). Drottningin er Alexandrína af Mecklenburg-Schwerin. Kristján tíundi kom fjórum sinnum til Íslands og í öll skiptin með skipi. Hann heimsótti Ísland árin 1921, 1926, 1930 og 1936.

„Hinn fyrsta dag Alþingishátíðarinnar setur konungur Íslands og Danmerkur þingfund á Lögbergi. Á Lögbergi hafa áður konungar staðið, en þing hefir eigi verið haldið þar síðan löngu áður en fyrsti konungur Íslands kom hingað til lands. Atburður þessi verður því einslæður í sögu þjóðarinnar.

Liðin saga kennir oss, að konungar vorir hafi margir hverjir verið vinveittir oss Íslendingum og mistök þau, sem urðu á stjórnarfarinu voru að jafnaði því að kenna, að þeir menn, sem konungarnir höfðu sjer til aðstoðar um Íslandsmál voru alls ófróðir um hagi hinnar fjarlægu þjóðar. Það er talandi vottur um þetta, að einmitt á ríkisstjórnarárum hins fyrsta konungs, sem sótti Ísland heim, hefst sú framfaraöld íslenskrar þjóðmenningar, sem nú stendur.

Kristján níundi

Kristján níundi.

Kristján konungur níundi kom fyrstur allra konunga vorra út hingað, með þá „frelsisskrá í föðurhendi“, sem varð undirstaða íslensks stjórnfrelsis. Hann varð Íslendingum það, sem Friðrik sjöundi varð Dönum. Og á efstu ríkisstjórnarárum hans er nýtt spor stigið í íslenskri stjórnarfarssögu, er ráðuneyti Íslands er flutt inn í landið.

Hinn göfuga vilja á því, að verða við óskum Íslendinga sýndi hinn næsti konungur vor, Friðrik áttundi, er hann á fyrsta ríkisstjórnarári sínu boðar íslenska Alþingismenn í heimsókn til Danmerkur, til þess að þeir kynnist dönskum stjórnmálamönnum og í vinahóp gæti rætt áhugamál sín og kröfur við þá. Árið eflir, 1907, heimsækir hann svo sjálfur Ísland með fríðu föruneyti og sýndi í þeirri för, eins og fyr og síðar, vilja sinn á því, að verða við óskum Íslendinga. Hann skipar millilandanefndina til þess að gera tillögur um sambandslög. Þó að ekki verði beinn árangur af starfi hennar, þá varð það samt beinn og nauðsynlegur viðkomustaður á leið þjóðarinnar til sjálfstæðis.

Þingvellir

Kristján tíundi ásamt fylgdarliði á Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

Það fjell í hlut Kristjáns konungs tíunda, að stíga stærstu sporin, sem stigin hafa verið í sjálfstæðismálum Íslendinga. Fyrst með stjórnarskránni frá 1915, sem veitti Íslendingum viðurkendan fána og síðan með sambandslögunum 1918, sem veittu Íslendingum viðurkenning sambandsþjóðarinnar fyrir því, að þeir væri frjáls og fullvalda þjóð. Dýrmætustu skjölin, sem geyma sönnunina fyrir sjálfslæði Íslands, bera nafn Kristjáns konungs tíunda, þess manns sem fyrstur konunga hafði nafn Íslands í heiti sínu.

Friðrik VIII

Friðrik VIII og Lovísa af Hessen-Kassel. 

Fullyrða má, að Kristján konungur tíundi, sje sá konungur Íslands, sem best hefir kynt sjer hagi þjóðarinnar og hefir hann íslenskan konungsritara sjer við hönd. Hann hefir átt tal við fleiri íslenska menn, en nokkur konungur annar. Og hann hefir tvívegis komið til Íslands, í fyrra skiftið er hann kom hingað í opinbera heimsókn 1921 og í síðara skiftið 1926. Og nú kemur hann í þriðja sinn.
Í bæði skiftin hefir Alexandrine drotning fylgt honum hingað og gerir enn. Hún er hin fyrsta drotning, sem til Ísland hefir komið og því hin fyrsta sem íslensk þjóð hefir haft kynni af. Og tvímælalaust hafa þau kynni orðið til þess að auka virðingu og ást Íslendinga á drotningum.

Konungshjónin koma hingað með herskipinu „Niels Juel“ hinn 25. júní.

Niels Jul

Niels Jul.

Eftir að þau hafa verið á Alþingishátíðinni verða þau um tíma upp í Borgarfirði. Meðan þau standa við hjér í Reykjavík búa þau um borð í skipinu, en á Þingvöllum í konungshúsinu.“

Konungar Danmerkur og Íslands voru eftirfarandi frá upphafi 19. aldar skv. fróðleiksíðum Wikipedia:

Heimild:
-Fálkinn, 25.-26. tbl. 21.06.1930 (Alþingishátín), Konungur Íslands og drotning, bs. 6.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Konungur_%C3%8Dslands
Kristján tíundi.

Þingvellir

Í Fálkanum, Alþingishátíðarútgáfunni, árið 1930 er m.a. fjallað um „Bústaði Alþingis„:

Þingvellir

Konungshúsið á Þingvöllum.

„Það liggur nær að halda að þinghald hafi lagst niður hjer á landi fyrir húsnæðisleysi. Framan af öldum hefir þingið jafnan verið haldið undir beru lofti, og þó er þess aldrei getið, að þinghald hafi farist fyrir vegna óveðurs, þó að hlífðarföt hafi vitanlega verið ófullkomin í þá daga. En þegar kemur fram á 17. öld hafa þingmenn verið orðnir svo kulvísir að þeir fundu þörf til að halda fundi undir þaki, enda hefir móðurinn ekki verið mikill í þeim í þá daga. Var þá bygð tóft á vesturbakka Öxarár, sem en sjest móta fyrir, og tjaldað yfir hana dúki meðan á þingi stóð. Var það sama tilhögunin og menn áður höfðu haft á búðum sínum. En árið 1691 var hús bygt á sama stað til þinghalda.

Þetta alþingishús hefir líklega aldrei verið sjerlega vandað og auk þess hefir því verið haldið illa við. Svo mikið er víst, að þegar kemur fram undir lok átjándu aldar er húsið orðið svo hrörlegt, að ýmsir þingmenn telja heilsu sinni hættu búna af að sitja þar á fundum og auk þess svo að falli komið, að giska má á, af ummælum sumra manna, að búast hafi mátt við, að húsið hryndi þá og þegar yfir þá, sem í því voru. Þing var síðast haldið þarna sumarið 1798.

Menntaskólinn í Reykjavík.

Menntaskólinn (Latínuskólinn) í Reykjavík.

Þegar Alþingi var endurreist var Latínuskólinn í smíðum. Var hún langstærsta og fullkomnasta bygging landsins í þá daga og enda lengur, og ein af tilkomumestu byggingum Reykjavíkur enn í dag. Skólinn var smíðaður í Noregi úr gildum viðum, sem settir voru svo saman þegar hingað kom og stofur allar múrfóðraðar að innan. Þótti skólinn sjálfkjörið samkomuhús þingsins og þar var það haldið frá 1845 til 1881, í salnum á annari hæð í vesturenda skólans, þeim, sem nú eru hátíðasalur hans. Geymir Latínuskólinn þannig minninguna um þau þing sem háð voru um daga Jóns Sigurðssonar, og segja þeir menn, sem til ára eru komnir, að vel hafi mátt heyra til hans neðan af Lækjargötu, er gluggarnir voru opnir, er hann hjelt ræður sínar. Þjóðfundurinn 1851 var líka haldinn í skólanum, hin merkilega samkoma, þar, sem úr skar um það hvort Íslendingar ættu að vægja í sjálfstæðismálinu eða leggja út í hina löngu baráttu fyrir sjálfstæði sínu.

Alþingishúsið

Alþingishúsið 1930. Alþingishúsið var reist á árunum 1880-1881 á Kirkjustíg við sunnanverðan Austurvöll. Húsið var teiknað af Ferdinand Meldahl en byggingastjóri hússins var F. Bald, sá sami og byggði húsið við Pósthússtræti 3. Grjótið í húsið var tekið úr Þingholtunum þar sem Óðinsgata er nú. Húsið hefur hýst löggjafarsamkomu Íslendinga frá árinu 1881 en einnig var Háskóli Íslands hýstur í húsinu á árunum 1911-1940.

Árið 1881 var lokið við að byggja Alþingishúsið. Var það fyrsta stórbyggingin, sem landsmenn rjeðust í að reisa, eftir að þeir fengu sjálfræði i fjármálum. Húsið var bygt úr grásteini og vel til þess vandað; er hjer hergjaskipun þess í aðalatriðum hin sama nú og var í fyrstu. Á fyrstu hæð eru stofur, sem Háskólinn hefir notað síðan hann var stofnaður, en áður var þar Landsbókasafnið. Á annari hæð eru deildarsalirnir báðir og er hæð þeirra tvöföld, svo að þeir ná líka um þriðju hæð. Á annari hæð er ennfremur skrifstofa Alþingis, lestrarsalur þingmanna, herbergi forseta og stofur til nefndastarfa og blaðamannaherbergi og á þriðju hæð íbúð skrifstofustjóra Alþingis.

Húsið bygði danskur steinsmiður og byggingameistari, Bald að nafni.“

Heimild:
-Fálkinn, 25.-26. tbl. 21.06.1930, Bústaðir Alþingis, bls. 33.

Konungshús

„Konungshúsið“ á Selfossi er endurgerð af Konungshúsinu, en upprunalega húsið var reist um vorið 1907 á Þingvöllum sem ætlað var Friðriki konungi VIII til bústaðar í heimsókn hans til Íslands um sumarið. Húsið var reist ofan við eða við Vellina, rétt fyrir neðan Öxarárfoss, og var í eigu Landsjóðs. Var það kallað Konungshúsið.
Húsið var leigt út til kaffisölu og gistingar næstu sumur og í því voru haldin réttarböll á haustin. Fyrir alþingishátíðina 1930 var ákveðið að flytja húsið og gera það upp og var það staðsett um 200 metrum utan við Valhöll. Var húsið haft sem bústaður Kristjáns konungs og Alexandrínu drottningar á Alþingishátíðinni.
Upp frá þessu mun það hafa farið að tíðkast að ráðherrar dveldu í Konungshúsinu að sumarlagi, einkum forsætisráðherra. Var það oft nefnt forsætisráðherrabústaðurinn á Þingvöllum. Árið 1946 er talað um hann sem „sumarhús ráðherra hins íslenska lýðveldis“.
Konungshúsið brann í eldsvoða 10. júlí 1970 og fórust þar þáverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, Sigríður Björnsdóttir kona hans og ungur dóttursonur. Þar er nú minnisvarði um þau.

 

Þingvellir

Pálmi Hannesson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, skrifaði um „Sköpun Þingvalla“ í Alþingishátíðarrit Fálkans árið 1930:

Pálmi Hannesson

Pálmi Hannesson; 3. janúar 1898 – 22. nóvember 1956.

„Alt er breytingum háð. Vísindin kenna oss, að enginn hlutur sje að öllu hinn sami i dag og hann var í gœr. Og árin sem líða láta eftir sig drjúg ummerki á öllu, sem er, löndum og liföndum. Sumt þroskast, annað hrörnar, en alt hreytist, skapast og glatast. Þannig fer mannanna sonum. Þannig fer og um jörðina: fjöll og dali, stein og stál.

Á hverju vori velta árnar fram kolmórauðar af sandi og leir, sem þœr bera úr fjöllum fram og alt út á sæ. Skriður falla. Vindur gnýr fjöll, og hafið sverfur strendur. Römm öfl orka á jörðina og leitast við að rífa hana niður, og ef þau væru ein í leik, mundu þau um síðir jafna hin hæstu fjöll við sæ, því að þó að fjöllin sjeu mikil og traustleg eru þeim þó takmörk sett, en tímanum engin. En jarðeldar hlaða upp eldfjöll og veita hrauni á hraun ofan. Löndin lyftast og síga, hrukkast beyglast og brotna fyrir hinum duldu öflum í djúpi jarðarinnar. Þannig orka tvenn öfl á jörðina og eiga í sífelldu stríði. Önnur rifa niður. Hin hlaða upp. Önnur „vega upp tindana“. Hin jafna þá við sæ. Landslag og staðhættir, fjöll og dalir, lönd og álfur, alt er þetta til orðið fyrir starf og stríð þessara afla, og alt er þetta að breytast sífeldlega.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Jörðin er ekki fullsköpuð og verður það aldrei. Jörðin er að skapast. Í hverju einasta landi jarðarinnar berjast þessi öfl, en hvergi sækjast þau fastar en hjer á landi. Hjer er jörðin að skapast fyrir augum vorum.

— Þingvellir og landið umhverfis þá sýnir glögglega þetta mikilfenglega sköpunarstarf náttúrunnar. Náttúrunnar, sem reisir og rífur, elur og tortímir. Hvernig hefir þetta listaverk náttúrunnar orðið til? Lítið á Þingvallavatn og Þingvallahraun, Súlurnar, Skjaldbreið, Hrafnabjörg, Tindaskaga, Kálfstinda og Henglafjöllin. Hvernig og hvenær hefir alt þetta skapast? —

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Jeg skal nú í örstuttum dráttum segja sögu Þingvalla, eins og fræðimenn ætla að hún sje, eftir þeim meginrúnum, sem náttúran sjálf hefir reist á hinum fornhelga stað, en rjett er þess að geta, að margar þeirra rúna eru enn óráðnar og bíða komandi fræðimanna og komandi kynslóða, þeirra sem meira girnast að vita um sögu lands síns en sú sem nú lifir eða lifað hafa frá því að Snorri goði spurði á Alþingi forðum. „Hvat reidduzt goðin þá, er hjer hrann hraunit, er nú stöndu vér á?“

Og saga mín hefst fyrir tugum þúsunda ára, á hinni miklu jökulöld.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Yfir öllu landinu liggur bláhvít jökulbreiða, svo að hvergi sjer á dökkvan díl, nema í svartar hamrahyrnur út til stranda. Á þessum tíma eru eldgos tíð, einkum inni í landinu. Aska, gjall og hraunslettur berast út á jökulbreiðuna, sökkva til botns og hlaðast saman undir jökulfarginu. Þannig ætla menn, að hin mikla móbergsbreiða um mitt landið hafi skapast. Svo líða þúsundir ára. Eldur og ís skapa landið og móta, en enginn kann frá þeim undrum að greina, sem verða í þeirri viðureign. Seint á þessum tíma taka mikil eldfjöll að stinga kollunum upp úr jökulbreiðunni. Þau hlaðast upp og hækka og spúa eldi og eimyrju yfir hinn hvíta jökul. Þannig skapast Henglafjöllin, Súlur og Ármannsfell, Hrafnabjörg, Kálfstindar og Tindaskagi. — Og enn líða ár og aldir. — Jökulbreiðan tekur að þverra.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Hægt og hægt víkur jökullinn til baka, og geysimikill skriðjökull liggur fram um Þingvalladalinn, milli eldfjallanna, sem gnæfa við himinn á báðar hendur. Og loks er landið örísa, og Þingvalladalurinn breiðir faðminn móti hinum fyrstu frjóum, sem sunnanblærinn ber inn yfir hið frumvaxta, örlöglausa land.

Og þannig líða þúsundir ára. Gróðurinn grær í hinum þöglu, ónumdu dölum, og eldgos eru tíð. Á þessum tíma hlaðast upp hinar miklu grágrýtisdyngjur: Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

Þingvellir

Fyrsti vísirinn að Þingvallavatni kom fram fyrir 12.000 árum. Þá lá jökultunga í Þingvallalægðinni og jökullón myndaðist syðst í henni, upp við Grafningsfjöllin. Þingvallavatn varð síðan til þegar jökullinn hopaði enn lengra norður og vatn frá honum safnaðist í lægðina. 
Fyrir um 10.000 árum er jökullinn hafði nálgast núverandi stöðu, hófust mikil dyngjugos. Þá myndaðist Skjaldbreiður ein fallegasta dyngja landsins.
Um svipað leyti gaus í dyngju sunnan við Hrafnabjörg sem Þingvallahraun rann frá og myndaði eldborgagígaröð.

Svo tekur loftslagið að kólna að nýju. Jöklarnir vaxa inni í landinu ár frá ári og öld eftir öld. Þungur jökulstraumur sígur fram um Þingvalladalinn og stökkvir burt öllum lifanda. Loks er Ísland jökli hulið að nýju, og skriðjöklar ná á alla vegu út á sjó. Það er hin síðari jökulöld.

Á þeim tíma mótast Þingvalladalurinn að nýju undir hinum þunga, sverfandi ísstraumi. Og eldfjöllin á báðar hendur dalsins eru hulin fönnum og skriðjöklum, sem gnaga þau og móta.

Þannig líða langar aldir. — En eftir þennan fimbulvetur kemur vor, eins og eftir hinn fyrri. Jökullinn verður að hopa fyrir hinum hlýnandi þey.

Og aftur verður Ísland örísa upp að hæstu hálendum. Nú er landið umhverfis Þingvelli tekið að líkjast því sem nú er, en þar er enginn Skjaldbreiður, ekkert hraun, ekkert vatn. Dalurinn er hulinn bláum jökulsöndum, og um hann liðast mógráar jökulsár. Þá er Suðurland alt sævi hulið og Ingólfsfjall er höfði, sem öldur úthafsins næða á, en norðan við það liggur fjörður langt upp í Grafning.

Og aftur tekur gróðurinn að nema landið. Hægt og hægt lokast hann inn yfir auðnirnar, sem jökulinn ljet eftir sig. —

Þá hefjast eldgos langt inn í Þingvalladalnum. Hraunið brýst upp á jafnsljettu og hvert gosið rekur annað, uns ávöl hæð tekur að hefjast fyrir miðjum dalnum. Hún hækkar og gýs, gýs eintómu hrauni. Og hraunflóðin renna lengra og lengra inn til jökla og út um hinn „breiða heiðardal“. Þannig skapast Skjaldbreiður.

Síðan, þegar Skjaldbreiður er hættur að gjósa, opnast geysimikil eldsprunga uppi á bak við Hrafnabjörg og Tindaskaga. Þaðan falla þungir hraunstraumar niður með Hrafnabjörgum beggja vegna og út yfir dalinn, yfir hraunin frá Skjaldbreið. Þaðan eru hraunin komin, sem þekja Þingvöll.

Þingvellir

Úr Eldborgum sunnan Hrafnabjargar rann hraun vítt um Þingvallasvæðið.
Talið er að gosin sem mynduðu dyngjurnar hafi staðið í áratugi. Hraunin tóku fyrir yfirborðsrennsli jökulvatns suður Þingvallalægðina. Allt vatn norðan frá hvarf í hraunið og kom undan því sem tært lindarvatn.
Hraun úr dyngjunni sunnan við Hrafnabjörg rann langt út í Þingvallavatn og lokaði fyrir afrennsli þess við Sogshorn svo vatnsborðið hækkaði um 15 metra en jafnframt minnkaði vatnið mikið því hraunið fyllti það að stórum hluta.
Hraunið sléttaði í svip yfir Þingvallalægðina en landsig og sprunguhreyfingar héldu áfram og gjárnar endurnýjuðust og má nú virða fyrir sér innri gerð hraunsins í gjáveggjunum.

Nú líður og bíður. Gráðurinn breiðist yfir landið, og skógurinn lekur að nema hið nýja hraun. Svo byrjar landsigið. Undirstaðan undir Þingvalladalnum bilar, og hún sígur og sigur, uns hlíðar dalsins bresta og botninn allur fellur niður. Þannig skapast Þingvallavatn. Vera má raunar, að vatn hafi áður verið nyrst í dalnum, en við þessar hyllingar hefir það dýpkað og stækkað geysilega. Þá skapast Almannagjá, Hrafnagjá og aðrar gjár á Þingvöllum. Þá skapast og Jórukleif og aðrir brotbarmar beggja vegna við vatnið. Enginn veit með neinni vissu um það, hversu þessar byltingar hafa gerst nje ástæður þeirra. Leiða menn að því ýmsar getur, sem ekki verða greindar hjer. Líklegt má þó telja, að þetta mikla landsig hafi gerst á löngum tíma, og má vera, að því sje ekki lokið enn. Víst er, að árið 1789 seig Þingvallasljettan um eina alin, og getur verið, að svo hafi oftar orðið.

Þegar hjer er komið sögu, eru Þingvellir að mestu orðnir eins og þeir eru nú. Skógurinn breiðist jafnt og þjett yfir hraunið og hlíðarnar, blágrænn að lit.

Eitt hið síðasta eldgos, sem orðið hefir á þessum slóðum, hefir veitt miklum hraunstraumi suðvestur af Hrafnabjargahálsi suður með Miðfelli og alt suðvestur að Dráttarhlíð, sem liggur neðan við Þingvallavatn. Þetta hraun hefir stíflað Þingvallavatn og hækkað það um nokkra metra, og má sjá þess merki viða. Siðan hefir Sogið grafið sjer nýjan farveg með fram hraunröndinni og lækkað vatnsborðið að sama skapi sem farvegurinn dýpkaði. Þessu starfi heldur það áfram enn í dag, og er trúlegt, að það hafi grynnkað vatnið um 1 metra eða meira á síðustu þúsund árum.

Þingvellir

Þjófahraun rann fyrir um 3000 árum úr gígum norðar Hrafnabjarga
Fyrir rúmum 3000 árum opnaðist 8 km löng gossprunga norðaustan við Hrafnabjörg og myndaði Þjófahraun. Hraunið breiddist út austan við Tindaskaga en álma úr því rann vestur af norðan við Hrafnabjörg
Seinast gaus í Þingvallalægðinni fyrir 2000 árum. Gossprungan sem þá opnaðist er norðaustan við Hengil. Þá rann Nesjahraun í Grafningi og öskugígurinn Sandey reis upp af botni Þingvallavatns.
Eldvirkni hefur nú legið niðri á Þingvallasvæðinu í meir en 2000 ár, en ljóst er að einhverntímann í framtíðinni munu hraun aftur renna.

Þannig er sköpunarsaga Þingvalla i stuttum dráttum alt til þessa tíma, að landið bygðist. Þegar hinir fyrstu landnámsmenn litu yfir Þingvalladalinn, blasti við augum þeirra fögur sýn og svipmikil. Hraunin öll og hlíðarnar voru skógi vaxnar, og yfir blágrænan skóginn og hið mikla vatn gnæfðu fjöllin við himin. Þeir nefndu hjeraðið Bláskóga og vatnið Ölfusvatn Engan þeirra hefir grunað, að þetta svæði yrði hið örlögríkasta í sögu þjóðarinnar, að þessi friðsami fjalladalur yrði sjónarsvið hinna mestu, hinna bestu og hinna verstu atburða i lífi niðja þeirra.

Síðan á Landnámsöld hafa ýmsar breytingar orðið á Þingvöllum. Skógurinn er að mestu horfinn. Þar sem forfeðurnir reistu búðir sinar er nú mýri, og sumt af þingstaðnum er horfið í vatn. Þúsund ár eru sem augnablik í æfi landsins, en enn leitast landsigið við að sökkva Þingvöllum og Sogið að veita af þeim vatni.

Hvað verða muni, veit enginn. Ef til vill sökkva Þingvellir í vatn. Ef til vill á jökullinn eftir að síga yfir landið að nýju. En eitt er víst. Alt breytist.“ – Pálmi Hannesson.

Meðfylgjandi myndir frá Þingvöllum fylgdu skrifum Pálma.

Pálmi lauk gagnfræðapróf á Akureyri 1915, stúdentsprófi frá MR 1918. M.Sc.-prófi í dýrafræði Hafnarháskóla 1926, en las auk þess grasafræði, jarðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri 1926–1929. Rektor Menntaskólans í Reykjavík frá 1929 til æviloka. Hann hafði því aflað sér víðtæka þekkingu á viðfangsefninu. (Nauðsynlegt var að bæta hinu síðastnefnda við til fróðleiks svo myndir og skýringartextar pössuðu við umfjöllunina.)

Heimild:
-Fálkinn, 25.-26. tbl. 26.06.1930, Sköpun Þingvalla, Pálmi Hannesson, bls. 14.
-https://www.thingvellir.is/fraedsla/nattura/jardsagan/

Þingvellir

Þingvellir – jarðfræðikort ISOR 2022.

Þingvellir

Skammt frá fyrrum Valhöll á Þingvöllum, fast vestan við brúna yfir Öxará, er skilti þar sem gestir eru boðnir „Velkomnir til Þingvalla“ með eftirfarandi boðskap:

Þingvellir

Þingvellir – yfirlit.

„Þingvellir við Öxará er merkasti sögustaður Íslands og hvergi kemur saga lands og þjóðar fram með sterkari hætti. Hér var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það hér saman árlega allt til ársins 1798. Margir merkustu atburðir Íslandssögunnar urðu hér, svo sem kristnitakan árið 1000 og stofnun lýðveldisins Íslands árið 1944. Því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum Íslendinga. Árið 1930 voru Þingvellir friðlýstir og þjóðgarður stofnaður en árið 2004 var þessi helgistaður allra Íslendinga samþykktur á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Þingvellir

Náttúra Þingvalla er talin einstök.

Náttúra Þingvallasvæðisins er einstök í heiminum. Jarðfræði svæðisins og vistkerfi Þingvallavatns, stærsta náttúrulega stöðuvatns Íslands, mynda dýrmæta heild. Lífríki vatnsins er auðugt en vatnasvið Þingvalavatns sem er um 1300 km2 hefur að geyma gríðarlega auðlind fyrir komandi kynslóðir. Þingvellir eru hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem hvergi er eins sýnilegur í veröldinni og einmitt hér. Þá má sjá í fjölmörgum sprungum og gjám svæðisins og gliðnun þess sem sífellt á sér stað.

Alþingi stofnað

Þingvellir

Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu á þingtímanum.

Þú stendur nú á mörkum þinghelginnar þar sem meginstörf hins forna Alþingis fóru fram. Hér sagði lögsögumaður upp lög þjóðveldisins á Lögbergi og goðar landsins sátu ásamt ráðgjöfum sínum í lögréttu. Innan þinghelginnar áttu allir menn að njóta friðar en grasivaxnar rústir búða sem tjaldað var yfir, vitna um þau híbýli sem þingheimur dvaldist í meðan þing stóð.
Fljótlega eftir landnám um 870 fóru landnámsmenn Íslands að velta fyrir sér möguleikum varðandi stjórnskipan og uppbyggingu samfélags á Íslandi. Eftir norrænni fyrirmynd voru héraðsþing stofnuð, það fyrsta í landnámi fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar á Kjalarnesi.

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg til forna.

Í Íslendingabók er sagt að maður einn, Úlfljótur að nafni, hafi farið Noregs til að kynna sér lagasetningu og við hann voru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi, Úlfljótslög. Einnig er sagt í Íslendingabók að Grímur geitskör, hafi verið ábyrgur fyrir þeirri ákvörðun að hentugast væri að velja Þingvelli fyrir þing þar sem menn gætu komið saman af landinu öllu.
Heimildir um þinghald landsmanna á þjóðveldistímanum (930-1262/64) bera þjóðskipulagi og réttarvitund germanskra þjóða vitni. Alþingi er einstakt meðal forna germanska þinga sökum þess hve heimildarstaða um þinghaldið er ríkulegt. Þar munar mest um lagasafnið Grágás sem gefur einstaka sýn inn í réttarvitund miðaldamanna. Í grunninn var samfélagsskipanin þó byggð á trúnaðarsambandi milli höfðingja og á sambandi frjálsra bænda.

Hvers vegna Þingvellir?

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Líklega voru ástæður þess að Þingvellir voru valdir sem þingstaður landsmanna nokkrar. Vellirnir lágu vel við öllum helstu leiðum sem þá voru notaðar til ferðalaga milli landshluta. Ferðalag til Alþingis gat þó tekið um og yfir tvær vikur fyrir þá sem lengst þurftu að ferðast. leiðin lá oft yfir þvert hálendi landsins þar sem veður gátu verið válynd. Einnig var hér nægur eldiviður, hagar fyrir búfénað og vatn til drykkjar. Í Sturlungu er að nefnt að fornmenn hafi breytt árfarvegi Öxarár þannig að hún félli á vellina til þess a tryggja þingheimi aðgang að rennandi vatni.

Þingvellir í Íslendingasögum
Þingvellir koma víða við sögu í íslenskum miðaldabókmenntum. Þekktustu kappar Íslandssagnanna, Gunnar Hámundarson á Hlíðaenda og Egill Skallagrímsson, eru dæmi um það.

Þingvellir

Horft til norðurs yfir þingstaðinn.

Í Njáls sögu er Gunnar sagður hafa hitt hina skörulegu Hallgerði hér á völlunum: „Það var einn dag er Gunnar gekk frá Lögbergi. Hann gekk fyrir neðan Mosfellingabúð. Þá sa hann konur ganga á móti sér og vour vel búnar. Sú var í fararbroddi konan er best var búin. En er þau fundust kvaddi hún þegar Gunnar. Hann tók vel kveðju hennar og spurði hvað kbenna hún væri. Hún nefndist Hallgerður og kvaðst vera dóttir Höskulds Dala-Kollssonar. Hún mælti til hans djarflega og bað hann segja sér frá ferðum sínum en hann kvaðst ekki varna mundu henni máls. Settust þau þá niður og töluðu. Hún var svo búin að hún var í rauðum kyrtli og var á búningur mikill. Hún hafði yfir sér skarlatsskykkju og var búin hlöðum í skaut niður. Hárið tók ofan á bringu henni og var bæði mikið og fagurt.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Gunnar var í tignarklæðum þeim er haraldur konungur Gormsson gaf honum. Hann hafði og hringinn á hendi Hákonarnaut. Þau töluðu lengi hátt. Þar kom er hann spurði hvort hún væri ógefin“.
Og Egils saga segir frá Agli Skallagrímssyni á gamals aldri þegar hann vill ríða til þings: „Ég skal segja þér.“ kvað hann, „hvað eg hefi hugsað. Eg ætla að hafa til þings með mér kistur þær tvær, er Aðalsteinn konungur gaf mér, er hvortveggja er full af ensku silfri. Ætla eg að láta bera kisturnar til Lögbergs, þá er þar er fjölmennast, síðan ætla eg að sá silfrinu, og þykir mér undarlegt, ef allir skipta vel sín á milli; ætla eg, að þar myndi vera þá hrundingar, eða pústrar“.

Samkomustaður landsmanna

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna.

Um tveggja vikna skeið í síðari hluta júnímánaðar ár hvert lifnuðu Þingvellir við þegar margmenni streymdi til Alþingis. Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu við þingheim. Ýmis varningur var boðin til sölu og veislur voru haldnar. Kaupahéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu vörur og þjónustu, trúðar léku listir og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar.

Þingvellir

Tekist var á í leik og alvöru á Alþingi hinu forna.

Fréttir voru sagðar úr fjarlægum landshlutum og kappleikar háðir. Lausamenn leituðu sér atvinnu og ölmusufólk baðst beininga. Þingvellir voru samkomustaður allra landsmanna, þar var grundvöllur lagður að tungu og bókmenntum sem verið hafa snar þáttur í menningu Íslendinga allar götur síðan.

Þingvellir

Á tíundu öld háðu kappar þjóðveldistímans einvígi í Öxarárhólma, en hólmgöngur voru aflagðar eftir kristnitöku árið 1000.

Eitt er víst að Þingvellir voru með sönnu samkomustaður landsmanna um aldir, frá 930 til 1798, þó að á síðari öldum hafi umsvif þinghaldins dregist saman og störf þess einkum takmarkast við dómsstörf og refsingar. Á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld tengdust Þingvellir sterkt sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og öðluðust því sess sem sérstakur hátíðarsamkomustaður landsmanna.
Þrátt fyrir marga kosti þess að finna Alþingi stað á Þingvöllum hefur jarðfræði svæðisins haft erfiðleika í för með sér. Landsig Þingvallasigdældarinnar, sem ætla má að hafi verið um 4 metra frá því að Alþingi var stofnað um 930, hefur gert það að verkum að vatn hefyr gengið upp í þinghelgina. Talið er að kirkjan á Þingvöllum hafi verið færð vegna vatnságangs á 16. öld og Lögrétta var einnig færð vegna vatnsflaums árið 1594. Hún var þá við að eingangrast á hólma út í miðri Öxará. Mikið landsig olli frekari vandræðum í jarðskjálfahrinu árið 1789 þegar tún fóru undir vatn og gjár opnuðust. Þá seig land um 2 metra þar sem mest var.

Þingvallakirkja og bær

Þingvellir

Þingvallabærinn, kirkjan og þjóðargrafreiturinn.

Það var Ólafur helgi Noregskonungur sem fyrstur stóð fyrir því að kirkja væri reist á Þingvöllum. Hann sendi við í kirkju og kirkjuklukku til landsins nokkru eftir kristnitöku árið 1000. Núverandi kirkja á Þingvöllum var vígð 1859 en turn hennar var endurbyggður árið 1907. Bak við Þingvallakirkju er þjóðargrafreitur Íslendinga sem var hlaðinn árið 1939. Þar hvíla skáldin Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson.
Þingvallabærinn var reistur fyrir 1000 ára afmæli Alþingis á Þingvöllum árið 1930, en nú er hann í notkun þjóðgarðsins og forsætisráðherra. Tveimur burstum var bætt við bæinn árið 1974 fyrir þjóðhátíð þar sem Íslendingar minntust ellefuhundruð ára afmælis byggðar á Íslandi.“

Þingvellir

Þingvellir – skiltið við Öxará.

Þingvellir

Alþingi var stofnað á Þingvöllum við Öxará árið 930. Það er elsta stofnun íslensks samfélags. Þingið, þinghaldið og hlutverk Alþingis í samfélaginu hafa tekið miklum breytingum frá upphafi.

Alþingishátíðin var haldin á Þingvöllum á Íslandi árið 1930 til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá stofnun allsherjarþings 930. Hátíðin var formlega sett af Kristjáni 10. 26. júní og var slitið 28. júní. Um 40 þúsund manns sótti hátíðina.

Alþingi

Hátíðarblað Morgunblaðsins 1930.

Í tilefni af eitt þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 gaf Morgunblaðið út sérstakt Hátíðarblað. Þar var m.a. að finna greinar eftir Eggert (Eiríksson) Briem, búfræðingur og bóndi í Viðey, og Einar Arnórsson, ráðherra Íslands 1915–1917 og dóms- og menntamálaráðherra 1942–1944, um sögu þessarar merku stofnunar.

„Á 1000 ára afmæli Alþingis og hins íslenska ríkis, er rjett að horfa yfir farinn veg og íhuga, hvernig þjóðarhögum vorum er nú komið. Í þessu blaði er gerð nokkur tilraun að gefa lesendum útsýn yfir stofnun og þróunarsögu Alþingis og jafnframt yfir nokkra helstu þætti þjóðlífsins — atvinnuvegi og þjóðmenningu.
Er hjer brugðið upp nokkrum myndum frá niðurlægingartímunum, en meiri alúð hefir þó verið lögð við það, að lýsa hinu stutta framfaraskeiði þjóðarinnar, og hvernig umhorfs er í landinu.

Þingvellir

Þingvellir.

Hjer er ekki um nein tímamót að ræða, nema að árum. Þjóðin er í önnum, og alt ber þess vitni, hvert sem litið er. Alt er hjer eins og hálfgert, líkt og um miðjan bjargræðistíma — framfarirnar í miðju kafi eins og hálfsögð saga. En einmitt vegna þess, hefir sú kynslóð, sem nú er uppi, bjargfasta trú á landinu — að hjer sje enn ófundin margskonar auðæfi, að hjer sje nóg orka til þess að vinna þau verk, er hafið geti hina fámennu þjóð til vegs og gengis á komandi öldum.“

Alþingi hið forna – Eggert Briem (1879-1939)

Alþingi„Eins og kunnugt er, er mönnum orðið ljóst, að Alþingi sje framhald og ávöxtur af Kjalarnesþingi, og að Þorstein Ingólfsson beri því að telja þann manninn, er upptök og framkvæmdir átti að því, að Alþingi komst á. Um tilhögun Alþingis í öndverðu eru aftur á móti skiftar skoðanir. Greinir menn á um það, hvort í upphafi hafi aðeins ein stofnun verið á þinginu, lögrjetta, eins og var í Noregi, eftir þeim fornu lögum Noregs, sem til eru, eða skipaður hafi verið jafnframt sjerstakur alþingisdómur. Þetta atriði og aðra skipun Alþingis, sem um er deilt, hefi jeg rannsakað undanfarin ár, og hafa þær rannsóknir leitt til algerlega nýrrar niðurstöðu. Skal hjer í stuttu máli drepið á sumt af því helsta, þótt hjer sje ekki rúm til að rökstyðja það nema að litlu leyti, nje heldur að skýra frá skoðunum annara og gera samanburð á þeim og niðurstöðu rannsókna minna.

Eggert (Eiríksson) Briem

Eggert (Eiríksson) Briem – 1879-1939.

Höfðingjavaldið er það, sem einkennir Alþingi hið forna. Höfðingjar þeir, sem með völdin fóru á þinginu, víðsvegar af landinu, voru upphaflega 36 að tölu. Voru þeir kallaðir landsmenn á sama hátt og höfðingjar fjórðunganna ettir fjórðungaskiftingu voru kallaðir fjórðungsmenn. Þeir 36 landsmenn, sem með völdin fóru á Alþingi, ræddu þar og rjeðu allsherjarmálum þjóðarinnar til lykta. En til þess að dæma einkamál manna, nefndi hver landsmaður einn dómanda meðal þingmanna sinna í sjerstakan alþingisdóm, er dæmdi málin.

Þessi tilhögun er frum-germönsk, eða sú tilhögun er ríkti meðal Germana samkvæmt elstu heimildum. Þar er rit Tacitusar, „Germania“, frumheimildin. En svo sem kunnugt er, hefir frásögn hans í XI. kap. ritsins verið skilin svo, að hann segi þar, að allir frjálsir menn á þingum Germana hafi tekið fullnaðarákvörðun um stórmálin.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

En jeg hefi komist að raun um, að þetta er misskilningur og hægt er að sanna, að tilhögunin var í þess stað sú, að kynbornir höfðingjar rjeðu þar stórmálum til lykta, en nefndu aftur þingmenn sína í dóm, eins og átti sjer stað á Íslandi.
Þessi tilhögun skoða jeg því að enginn vafi geti leikið á, að einnig hafi ríkt í Noregi fyrir daga Haralds hárfagra, og svo sem jeg hefi leitt nokkur rök að í bók minni um Harald hárfagra, þá er ástæða til að ætla, að í Frostaþingslögum hafi höfðingjavaldið fyrir hans daga bygst á mannaforráðum, eins og á Íslandi.

Þar sem Alþingi er frum-germönsk stofnun, er þekkingin á stjórnarskipun Íslands fyrstu aldirnar ekki aðeins mikilsverð fyrir Íslendinga sjálfa, heldur einnig allar aðrar þjóðir, sem af germönsku bergi eru brotnar, til þess að skilja sem gerst sögu þeirra frá elstu tímum og fram á þennan dag.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

Frelsi og frjálsræði var aðalundirstaða fjelagslífsins á Íslandi í fornöld. Þeir, sem mannaforráð höfðu, voru fullvalda höfðingjar hver um sig, og allsherjarríkið grundvallaðist á frjálsu bandalagi þeirra, þannig að höfðingjunum var frjálst að segja sig úr lögum hverjir við aðra, eins og fram kom á Alþingi árið 1000, þegar deilt var um trúna. — Undirmönnunum var á sama hátt frjálst að skifta um höfðingja og gerast þegnar þess höfðingja, er þeir kusu helst að þjóna, ef hann vildi við þeim taka. í þessu var hið forn-germanska lýðfrelsi fólgið.

Alþingishátíðin 1930

Alþingishátíðin 1930.

Þessi tilhögun, sem ríkti á Íslandi rúmar þrjár aldir, er að mínu áliti merkilegustu leifar hins forn-germanska fjelagslífs, sem sögur fara af. Mannaforráðin kenndu almenningi, að gera sjer grein fyrir, að það er ekki sama, hvernig stjórnað er, og meta það, hversu mikils virði það er fyrir fjöldann, að vel sje stjórnað. Þeir höfðingjar, er ekki voru hæfir til þess að fara með völd, urðu að þoka fyrir hinum, er sýndu það í verki, að þeir kunnu að stjórna fólki. Afleiðingin varð því sú, að höfðingjaættirnar urðu úrvalsættir að ættgöfgi og stjórnviska var í hávegum höfð.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Svo sem kunnugt er, telja menn, að aðalstofnun Alþingis hafi verið lögrjetta, og lögberg hafi einungis verið heiti á auglýsingastað þingsins. En rannsóknir mínar hafa leitt til þess að lögberg hafi jafnframt verið heiti á þingstofnun, er dregið hafi nafn sitt af staðnum, þar sem hún hafði aðsetur. Og niðurstaðan er, að þessi þingstofnun hafi ekki aðeins verið lögbirtingasamkoma þingsins, heldur aðalstofnun Alþingis, þangað sem öllum málum, er fyrir þingið voru lögð, hafi fyrst verið beint, með því að upphaflega hafi allar athafnir þingsins utan lögbergs verið þar ákveðnar og þaðan hafnar.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Hjer er ekki rúm til að rökræða þessa athugun mína, um tilhögun hins forna Alþingis, en á hinn bóginn vil jeg verða við þeim tilmælum, að skýra í fám orðum frá niðurstöðu minni um það, hvert hafi verið verksvið þeirra tveggja stofnana, lögbergs og lögrjettu, er jeg skoða að á Alþingi hafi verið, þegar það var í upphafi sett. Lögbergsstofnunin var skipuð þeim 36 landsmönnum, er æðstu völd höfðu í landinu. Lýsingar saka og stefnur voru því aðeins lögmætar, að þær væru sagðar fram „at lögbergi“, sem þýðir: á lögbergsfundi. Til þess að þessir lögbergsfundir væru lögmætir, útheimtist, að meirihluti hinna 36 landsmanna, er lögbergsstofnunina skipuðu, væru á fundi, ásamt lögsögumanni.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Sama gilti og um dómnefnuna, er fór fram í Hamraskarði þar á fundarstaðnum út frá lögbergi, sem alþingisdómurinn sat og dæmdi málin, jafnskjótt og höfðingjarnir höfðu tekið fundarályktun um að dómurinn skyldi taka til starfa. Voru málin upphaflega sótt og varin á lögbergsfundum og þar dæmd. Lögsagan fór fram að lögbergi og urðu þá allir landsmenn að vera á fundi. En ef þeir höfðu ekki tóm til þess, urðu þeir að láta báða umráðamenn sína í lögrjettu hlýða á uppsöguna í sinn stað. Þegar lagabreytingum eða nýmælum var hreyft á Alþingi, Voru þau mál fyrst lögð fyrir lögbergsfund, og borin fram af einhverjum landsmanni. Að umræðu lokinni var það borið undir atkvæði landsmanna, hvort máli skyldi vísað til lögrjettunnar, eða ekki. Að lögbergi rjeð afl atkvæða, og var mál fallið á þinginu, ef því var ekki vísað þar til lögrjettunnar.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningur 1930 – framhlið.

Linun eða eftirgjöf á refsingum og aðrar undanþágur, er veittar voru á Alþingi, hjetu einu nafni lof eða alþingislof í fornöld. Hjet það ýmist sýknulof eða sýknuleyfi, er sekum manni var gefin upp sekt hans. Sáttaleyfi var það kallað, er Alþingi veitti mönnum leyfi til að sættast, en slíkt leyfi var nauðsynlegt, er um víg var að ræða eða áverka veittan á þingi, og fleiri sakamál, er þungar refsingar lágu við, því að öðrum kosti var sáttin ólögleg.
Öll alþingislof ætla jeg að upphaflega hafi verið veitt að lögbergi og oltið þar á því, hvort meiri hluti fjekst fyrir því, að lof skyldi veitt eða ekki. Lögrjettu skipuðu eins og lögberg hinir 36 landsmenn, en jafnframt höfðu þeir þar hver um sig tvo umráðamenn, eða einskonar ráðgjafa, eða ráðuneyti, til þess að vera þar í ráðum með sjer um það mál, er fyrir lá.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningur 1930 – framhlið.

Þar fór fram síðari umræða um löggjafarmálin, en gagnstætt því, sem átti sjer stað að lögbergi, að þar rjeð afl atkvæða, þá ultu úrslitin í lögrjettu á því, að samkvæði væri goldið við lagabreytingu, eða nýmæli. Fengist samkvæði, var frumvarpið þar með samþykkt, en ef einn eða fleiri stóðu á móti, var málið aftur á móti fallið. Þetta stafaði af því, að bandalagið um allsherjarlögin bygðist á frjálsum grundvelli. Það var ósamboðið hverjum höfðingja að lúta öðrum lögum en þeim, er hann af frjálsum vilja vildi samþykkja fyrir sína hönd og sinna undirmanna. Þetta, að samþykkja lög eða fella, var hið eina starf, er lögrjettustofnunin hafði með höndum upphaflega, en ástæðan til þess að lögberg gat ekki innt þetta starf af höndum, var sú, að þar rjeð afl atkvæða.

Kristján X

Kristján X.

Í sambandi við hina fyrri umræðu máls að lögbergi var tilhögunin að hafa umráðamenn í lögrjettu mjög hentug. Þótt höfðingjarnir gagnrýndu málin að lögbergi og greiddu þar atkvæði gegn því að þau gengju fram, gátu þeir, ef málið virtist hafa almenningsfylgi, þegar til lögrjettunnar kom, snúið við blaðinu og samþykt nýmælið að ráði umráðamanna sinna, án þess að þeim væri legið á hálsi fyrir það.
Er nýmæli hafði verið samþykkt, var það sagt upp sem lög þrjú sumur í röð að lögbergi. Hið fjórða sumar, er full reynsla var fengin um nýmælið í framkvæmd, var loks tekin ákvörðun um það á lögbergsfundi, hvort nýmælið skyldi sagt upp eða ekki. Fjell það úr gildi, ef meiri hluti fjekst ekki fyrir því, að það skyldi sagt upp; annars gilti það sem lög þaðan í frá.

Alþingi hafði sjerstakan ríkissjóð og má ætla, að hann hafi upphaflega heitið alsherjarfje. Um fastar tekjur ríkisins er ókunnugt, en á hinn bóginn eru til heimildir fyrir því, að þegar um sjerstök útgjöld var að ræða, var lagður nefskattur á þingbændur.

Alþingi

Lögrétta – tilgáta.

Að lögum var lögð ákveðin fjárhæð til höfuðs hverjum sakamanni. Til höfuðs þeim, er unnið höfðu skemmdarvíg, Voru lagðar 3 merkur silfurs, og var það fje goldið á Alþingi af goðum landsins, er síðan jöfnuðu því niður á þingmenn sína. Allur kostnaður við alþingishaldið er eðlilegast að hugsa sjer, að upphaflega hafi verið greiddur af allsherjarfje, og þar á meðal kaup lögsögumanns, sem var 200 álnir.

Allsherjargoðinn, er helgaði þingið, mun hafa undirbúið þinghaldið, sjeð um, að sæti væru sett upp á þingstaðnum og alt væri þar í lagi, er þingið hófst. Ennfremur gekst hann fyrir og stýrði lögsögumannskosningu. Hefir hann óefað haft sjerstaka þóknun fyrir starf sitt. Lögsögumaður var annars sá, sem stjórnaði störfum þingsins. Átti hann sitt sjerstaka ákveðna rúm, bæði á lögbergi og í lögrjettu.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Lögsögumaður var kosinn til þriggja ára í senn. Á lögbergsfundi var gert út um það, hver vera skyldi lögsögumaður, og var útnefningin síðan staðfest á lögrjettufundi, þar sem lögboðið var, að allir skyldu gjalda samkvæði við kosningunni, eða, með öðrum orðum, staðfesta niðurstöðu lögbergsfundarins. Eftir þrjú ár var lögsögumaður laus, ef hann vildi, en að öðrum kosti hjelt hann embættinu áfram, ef meirihluti lögbergs var honum fylgjandi, og fór þá ekki fram nein kosning. En vildi meiri hluti höfðingja ekki hafa hann áfram, eða hann sjálfur vildi vera laus, eða lögsögumaður hafði fallið frá, fór fram lögsögumannskosning.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Einnig gat lögbergsfundur með afli atkvæða, vikið lögsögumanni frá, ef hann vanrækti embættisskyldu sína, var t. d. ekki kominn til þings á föstudagsmorgun, er landsmenn gengu til lögbergs, og hafði ekki lögleg forföll fyrir sig að bera. Lögsögumaður skipaði lögberg, og var það í því fólgið, að þeim mönnum, er mæla þurftu málum sínum á lögbergsfundi, vísaði hann til sætis á lögbergi meðan þeir biðu þess, að röðin kæmi að þeim til þess að segja fram mál sitt.

Þingvellir

Uppdráttur af Þingvöllum frá 18. öld.

Lögrjettusamþykktir birti hann þingheimi á lögbergsfundi. Jafnframt hafði hann skyldu til að segja upp hver þau lög, er lögberg óskaði. Entist honum ekki fróðleikur til þess, gat hann kvatt fimm eða fleiri lögfróða menn á fund með sjer til þess að komast að niðurstöðu um, hvað lög væri. Jafnframt var lögsögumaður skyldur til þess að gefa upplýsingar um það á þinginu, ef þess var óskað, hvað lögmál væri, bæði á Alþingi og heima í hjeraði. Nú gat það komið fyrir, að fleiri eða færri höfðingjar hjeldu því fram, að lögsögumaður hefði rangt fyrir sjer um eitt eða annað, er hann kvað lög vera. Var slík þræta kölluð lögmálsþræta og var úrskurður um hana að minni ætlan upphaflega feldur að lögbergi með atkvæðagreiðslu um það, hvorir hefðu rjettara fyrir sjer, lögsögumaður eða hinir, er í móti mæltu.

Nýmæli Þórðar gellis

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720.

Þegar Alþingi hafði starfað um nokkur ár, kom það í ljós, að það var erfitt að fá málsúrslit með dómi á þinginu vegna þess, að dómur var því aðeins gildur, að hann væri ekki vjefengdur og allir dómendur gyldi samkvæði við honum. Afleiðingin var því, að óbilgjarnir höfðingjar, sem verja vildu rangan málstað, gátu nefnt þann mann í dóm, sem þeir fyrir fram höfðu tryggt sjer, að dæmdi sjer í vil, en ekki að lögum. En á þessu rjeð Þórður gellir bót með tillögu sinni um að skifta landinu í fjórðunga, og skipun fjórðungsdóma. Hefir mikið verið ritað um þennan þátt alþingissögunnar, en rannsóknir mínar hafa leitt til þess, að það muni alt miður rjett, og niðurstaðan orðið ný lausn á þessu vandamáli. Er hún í stuttu máli þessu: Alþingisdóminum var skift í fernt, og níu dómendur skipaðir í hvern fjórðungsdóm, á þeim grundvelli, að enginn höfðingi nefndi mann í dóm til þess að dæma um sök á hendur sjer eða sinna samfjórðungsmanna.
ÞingnesVar þessu takmarki náð með þeim hætti, að sett voru á stofn þrjú vorþing í hverjum fjórðungi, með þrem höfðingjum hvert. Var síðan, að því er jeg ætla, hvert hinna þriggja vorþinga í hverjum landsfjórðungi látið skipa einn mann í hvern fjórðungsdóm, fyrir hina aðra þrjá fjórðunga landsins, en ekki skipa neinn mann í sinn eigin fjórðungsdóm. En um það var, að mínu áliti, varpað hlutkesti, í hvern hinna þriggja fjórðungsdóma hver einstakur hinna þriggja höfðingja vorþings skyldi nefna sinn þriðjungsmann, eins og komist er að orði í Grágás. Hvað löggjafinn á hjer við eða meint er með orðinu þriðjungsmaður, er óráðin gáta. Lausnin hjá mjer er, að orðið þriðjungsmenn hafi verið haft til þess að tákna þá íbúa innan hvers vorþings, er heyrðu undir hvert einstakt goðorð hvers hinna þriggja goða í hverju vorþingi.

Kjalarnesþing

Þingin voru haldin undir berum himni.

Tilgangurinn með ákvæði Grágásar um, að goði skuli nefna sinn þriðjungsmann í dóm, skoða jeg því að verið hafi sá, að einskorða dómnefnuna úr hverju vorþingi við íbúa vorþingsins, svo að það ætti sjer ekki stað, að goði gæti nefnt þingmann í dóm, er hann kunni að eiga búsettan í þeim sama fjórðungi, sem hann nefndi í dóm fyrir.

Áður en vorþingaskipulagið komst á, skiftist landið í sveitir, með ákveðnum mörkum og var sveitarstjórnin í höndum sveitarhöfðingja, er jafnframt háðu dómþing, samhliða þeim dómþingum, er landsmenn höfðu stofnað með ráði sveitarhöfðingja hver á sínum stað. Af þessu stafar það, að til eru í landinu nöfn á þingstöðum miklu víðar en vorþing voru háð. Með vorþingaskipulaginu breyttist þetta þannig, að eftirleiðis skyldu ekki aðrir nefna í dóm á þingum, eða stýra sakferlum, heldur en alþingishöfðingjarnir, en ferill sakar var að mínu áliti það, að höfðingjarnir háðu féránsdóm og sáu um, að eigur sekra manna væru gerðar upptækar.

Þingvellir

Frá Þingvöllum fyrrum.

Afleiðingin af samkvæðinu, sem krafist var í lögrjettu, til þess að nýmæli gæti orðið að lögum, var sú, að fleiri eða færri höfðingjar höfðu oft ýmis áhugamál, er ekki varð framgengt. Á 10. öld var kristniboð rekið af miklu kappi í Norðurálfunni, og alls staðar þar, sem kristni komst á, var hún lögboðin og allir urðu að láta skírast. Þessi siður, að lögbjóða trú, skoða jeg að verið hafi óþekktur meðal Ásatrúarmanna, eins og eðlilegt var, þar sem guðirnir voru margir, og einn var vinur Þórs, annar blótaði Frey o.s.frv. Til þess að standa á móti kristninni og tryggja það, að Ásatrúin gæti haldist óáreitt í landinu, mun það hafa verið áhugamál margra manna, að Ásatrúin væri lögboðin á sama hátt og átti sjer stað um kristnina. Þegar Þórður gellir kom fram með tillögu sína um skipun fjórðungsdóma, þótti öllum það hin mesta nauðsyn.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Munu þeir, sem lögfesta vildu Ásatrúna, þá hafa notað tækifærið, og sett það sem skilyrði fyrir samkvæði sínu um fjórðungsdómana, að trúin yrði jafnframt lögfest. Og það varð með þeim hætti, að þrjú höfuðhof skyldu vera í hverri vorþingssókn. — Skyldu allir gjalda hoftoll, en Alþingishöfðingjarnir, er til þess tíma höfðu verið kallaðir landsmenn, varðveittu hofin, og var því eftir það farið að kalla þá goða og hofgoða og þeirra tign og umdæmi, er áður hafði heitið mannaforráð, goðorð.

Þegar vorþingin voru sett í lögum, áttu goðarnir í hverju vorþingi að tilkynna á næsta Alþingi vorþingsstaðinn og nafn þingsins. En þegar til framkvæmdanna kom, varð sá þröskuldur á vegi, að Norðlendingar gátu með engu móti komið þessu skipulagi á hjá sjer, því að þeir, sem voru fyrir vestan Skagafjörð, vildu ekki þangað sækja vorþing, og þeir, sem voru fyrir norðan Eyjafjörð, vildu ekki þangað sækja þing. — Norðlendingar fóru því fram á það að hafa vorþingin fjögur, og var það samþykkt, og goðum fjölgað þar um þrjá á þeim grundvelli, að hin tólf goðorð Norðlendinga skyldu vera fjórðungi skerð að Alþingisnefnu.
AlþingiGet jeg til, að þetta hafi verið framkvæmt á þann hátt, að vorþingin í Norðlendingafjórðungi hafi skiftst á að taka þátt í dómnefnunni, þannig að eitt vorþing hafi árlega setið hjá, eftir röð, er upphaflega hafi verið ákveðin með hlutkesti. Er þessir þrír goðar, sem bætt var við í Norðlendingafjórðungi, fóru að taka þátt í þingstörfum, gerðu þeir kröfu til þess, að sitja í lögrjettu, svo að þeir þyrftu ekki að lúta lögum, er samþykt kynnu að vera að öðrum kosti gegn þeirra vilja. Var sú nauðsyn samþykkt með þeim hætti, að lögrjettuskipan skyldi jöfn úr öllum fjórðungum. Fyrir hvert forráðsgoðorð innan hvers vorþings í hinum fjórðungum landsins sat því eftirleiðis einn maður í lögrjettu til viðbótar hinum þremur goðum vorþingsins. Forráðsgoðorð get jeg til að kallað hafi verið á hverjum tíma það goðorð, er forráðin hafði um að skipa þennan viðbótarmann í lögrjettuna. Ennfremur, að goðarnir í hverju vorþingi hafi skiftst á að hafa þessi forráð eftir röð, er upphaflega hafi verið ákveðin með hlutkesti.

Þingvellir

Þingvellir.

Hinir 12 nýju lögrjettumenn fengu jafnframt völd á lögbergsfundum um allsherjarmálin, því að skerðingin á þátttöku goðanna úr Norðlendingafjórðungi í þinghaldinu var aðeins bundin við dómnefnuna, og þau mál, er stóðu í beinu sambandi við hana, eða lýsingar saka og stefnur að lögbergi. Er þessar breytingar voru komnar á, voru svo fjórðungsþing sett, eitt fyrir hvern fjórðung, með þeirri undantekning, að í Vestfirðingafjórðungi virðast takmörk Þórsnessþings ekki hafa fylgt fjórðungamörkum, eða ekki hafa náð lengra en að Hvítá í Borgarfirði. Má ætla, að þetta hafi stafað af fjandskap þeirra Tungu-Odds og Þórðar gellis, og Tungu-Oddur hafi ráðið því, að Borgfirðingar sæktu ekki Þórsnessþing, og hafi það haldist síðan. — Í sambandi við það, að vald sveitarhöfðingja til að heyja dómþing var afnumið með lögum Þórðar gellis, er ekki ólíklegt, að sveitarstjórnartilhögunin í heild sinni hafi komið til umræðu, og upp af því hafi sprottið hreppaskipunin í landinu.

Kristnitakan

Þingvellir

Frá Þingvöllum – Stekkjargjá.

Næsta stórbreyting á lögum landsins varð með kristnitökunni.
Þrátt fyrir lögfestingu Ásatrúar varð ekki spornað við kristniboðinu, og hafa að sjálfsögðu þeir, er ljetu skírast, neitað að gjalda hoftoll og ekki tekið þátt í blótum. Þetta ástand, að Ásatrúarlögunum var ekki hlýtt, hefir leitt til virðingarleysis fyrir lögum almennt, og mun þar meðal annars vera að leita orsakanna til þess, að ættardeilurnar og vígaferlin í landinu höfðu náð hámarki sínu í byrjun 11. aldar.

Um trúarbrögð í landinu var svo komið, að höfðingjamir og landslýðurinn skiftist í tvo flokka, þegar þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason komu frá Noregi sumarið 1000 í trúboðserindum Ólafs konungs Tryggvasonar.

Þingvellir

Þingvellir – Snókagjá.

— Neyttu þá hvorir tveggja, kristnir menn og heiðnir, heimildarinnar til þess að segja sig úr lögum hvorir við aðra, eins og áður er vikið að. Tóku kristnir menn Hall af Síðu til þess að segja upp lög fyrir sig, en Hallur fjekk Þorgeir Ljósvetningagoða, sem þá var lögsögumaður, og Ásatrúar, til þess að ráða fram úr málinu. Þorgeir leysti þennan vanda með því að sýna mönnum fram á, að friðinum væri slitið, og stofnað væri til styrjaldar í landinu, sem enginn gæti sjeð út yfir, ef allir hefðu ekki ein lög. Lausnin var merkileg. Í fyrsta lagi fjekk hann trúbræður sína til þess að viðurkenna kristnina sem opinbera trú í landinu, sem var óumflýjanlegt, sakir ofstækis kristinna manna um trúarbrögðin og sambandsins við útlönd. Í öðru lagi fjekk Þorgeir kristna menn til þess að vera því samþykka, að leynilega eða í heimahúsum mættu menn blóta og dýrka þá guði, er þeir vildu. Afleiðingin var því sú, að þótt landið væri kristið út á við, þá var inn á við fullkomið trúarbragðafrelsi og fjárframlög til trúarbragðaiðkana afnumin í lögum.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Kristnitökulög Þorgeirs sýna þannig ekki aðeins, að hann hefir sjeð, hversu óhollt það væri þjóðinni, að hafa lög, er riðu í bág við það, er fjöldi manna í landinu taldi rjett vera, heldur einnig, að honum hefir verið það vel ljóst, að það væri skylda hans sem löggjafa, að finna ráð til þess að lögin um trúarbrögðin gætu ekki haldið áfram að ala upp í mönnum óhlýðni við allsherjarlög, eða með öðrum orðum endurvekja það ástand, að þess væri vandlega gætt, að setja ekki önnur lög en þau, er allir yrðu að viðurkenna að væru rjettmæt og allir vildu því hlýða.

Þorgeir Ljósvetningagoði undirbjó þannig jarðveginn fyrir eftirmann sinn, Skafta Þóroddsson, um að koma á friði í landinu og kenna mönnum að virða lög og rjett. Þorgeir er því einn af þeim afburðalöggjöfum þessa lands, sem sjerstök ástæða er til að minnast á þessu endnrminningaári þjóðarinnar.

Fimmtardómur

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Af virðingarleysinu fyrir lögum almennt, sem áður er að vikið, hlaust það, að umbætur Þórðar gellis urðu ónógar til þess að tryggja málsúrslit, þar til fimmtardómur komst á.
Um stofnun hans vitum vjer ekki annað en það, sem stendur í 97. kap. Njáls sögu. Er hugmyndin þar eignuð Njáli og talið, að hann hafi borið hana fram í þeim tilgangi að útvega Höskuldi fóstursyni sínum goðorð. Er ekkert því til fyrirstöðu, að það geti verið rjett, því að eins og kunnugt er, er það svo nú á dögum, að ýmsar stofnanir eru settar á fót til þess að geta skipað ákveðna menn í embætti. Sama er og að segja um aðferðina, sem söguritarinn segir, að Njáll hafi beitt við stofnun fimmtardómsins: að ala á óánægju manna með ástandið í landinu, að það er hið sama bragð sem einstakir menn og flokkar beita enn í dag, til þess að hafa sitt fram.

Þingvellir

Þingvellir – búðartóft.

Hvatir Njáls voru persónulegar, eftir því sem sagan hermir. En hann hefði vitanlega engu getað um þokað um þetta mál, ef hann hefði ekki notið styrks höfðingja til þess að koma því fram. Eins og kunnugt er, hafði Skafti Þóroddsson þá nýlega tekið lögsögu, en um hans daga, segir Ari fróði, urðu margir ríkismenn sekir og landflótta, af ríkis sökum hans og landstjórn. Jafnframt segir Ari, að Skafti hafi sett fimmtardómslög, eins og líka höfundur Njálu segir að hann hafi gert, enda þótt hann eigni Njáli hugmyndina. Það er ljóst af frásögn Ara fróða, að Skafti hefir sett sjer það mark að ljetta ættardeilunum og vígaferlunum af þjóðinni og koma lögum yfir landið. Til þess að framkvæma það, hefir hann orðið að skapa sjer þá aðstöðu, að hann gæti ráðið lögum og lofum landinu.

Þingvellir

Þingvellir – búð við Lögberg.

En eins og títt er um mikilhæfa og ráðríka menn, má gera ráð fyrir því, að hann hafi átt ýmsa harðsnúna mótstöðumenn meðal höfðingja Jeg geng að því vísu, að hvatir hans til þess að fylgja fram fimmtardómslögunum, hafi verið pólitískar, og ekki aðeins miðað að því að tryggja málsúrslit fyrir dómi, heldur jafnframt völd hans sjálfs í landinu. Þykir mjer sýnt, að það hafi verið fyrir fram ráðið, hverjir hinir nýju goðar skyldu vera, sem skipaðir voru, og um þann eina, sem vjer þekkjum af þeim, Höskuld Hvítanesgoða, tekur Njálssaga af öll tvímæli um það, að svo var. En um Höskuld er það eftirtektarvert, að sagan getur ekki um, að hann hafi dregið sjer þingmenn undan öðrum goðorðsmönnum í Rangárþingi en þeim feðgum Valgarði og Merði.

Þingvellir

Þingvellir – minjakort.

—Í sambandi við það, að ganga má að því vísu, að hinir nýju goðar hafi átt Skafta upphefð sína að þakka og verið hans menn, bendir þetta til þess, að þeir hafi verið ráðnir í þeim ákveðna tilgangi, að veikja völd og virðingar mótstöðumanna Skafta með því að draga þingmenn frá þeim. — Mætti geta þess til, að það hafi jafnframt verið undirmál, að þeir tæki ekki við þingmönnum þeirra höfðingja, er fylgdu Skafta að málum. — Lof öll og úrskurðir lögmálsþrætu hafði verið í höndum lögbergs, þar sem rjeði afl atkvæða. En nú notaði Skafti tækifærið til þess að gera breytingu á því. Um leið og Njáll, sem sjá má að þá var lögrjettumaður fyrir forráðsgoðorð úr Rangárþingi, bar fram fimmtardómslögin, ljet Skafti hann einn ig gera tillögu um það, að leggja sýknuleyfi og sáttaleyfi til lögrjettunnar til þess með því að gera örðugra fyrir en áður að fá þessi lof veitt. Ennfremur að leggja úrskurð lögmálsþrætu til lögrjettunnar með þeim skildaga, að hvorir tveggja skyldu vinna vjefangseið að sínu máli og gera grein fyrir þvi á hverju þeir bygðu álit sitt um það, hvað væri lög. Eins og fimmtardómujrinn miðuðu þessar breytingar að því að tryggja rjettarfarið, og gera ljettara fyrir að koma lögum yfir landið.

Þingvellir

Þingvellir – búð.

Þessar tillögur allar, sem Skafti ljet Njál bera fram á þinginu, voru þess eðlis, að allir sáu nauðsyn þeirra umbóta, sem þær fóru fram á, og með því að láta Njál, sem ekki var höfðingi, bera þessar umbótatillögur fram, kom Skafti í veg fyrir, að þetta vekti tortryggni, og að mótstöðumenn hans meðal höfðingjanna fengi grun um, að annað og meira lægi á bak við en aðeins umbæturnar á rjettarfarinu í landinu. Frásögn Njálu um breytingamar á lögrjettunni er ekki í samræmi við lagaákvæði Grágásar, og sama er einnig að segja um frásögn hennar um fimmtardóminn. Stafar þetta af því, að höfundur Njálu hefir sýnilega verið ólögfróður, enda þótt hann hafi haft ánægju af að segja frá málaferlum og málarekstri. En þetta kemur að mínu áliti ekki að sök, því að jeg skoða, að ákvæði Grágásar í þessum efnum hafi að geyma þær tillögur, er Skafti ljet Njál bera fram og samþyktar voru á þinginu.

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg og lögrétta.

Þegar frá leið, voru ýmis fleiri lof smám saman lögð til lögrjettu, og vitum vjer um sum þeirra, að fyrir þau varð að gjalda ákveðið gjald til lögrjettu. Má vel vera, að það hafi verið algild regla að greiða ákveðin gjöld fyrir öll alþingislof, og hafi afleiðingin af því að sýknuleyfi og sáttaleyfi voru flutt yfir í lögrjettu, orðið sú, að önnur fjármál ríkisins hafi þá einnig verið lögð til hennar og allsherjarfjeð gert að lögrjettufjár, svo að fjármál ríkisins gætu öll orðið tekin fyrir í einu lagi.

Til fimmtardóms var aðeins stefnt ákveðnum málum, og eru þau talin upp í Grágás. En nú var rofin sú meginregla löggjafarinnar, að krefjast samkvæðis um alla dóma, því að í fimmtardómi skyldi meiri hluti dómenda ráða, og ef jafnmargir voru með og móti, þá átti að dæma áfall eða dómfella þann, er sóttur var, nema um vjefangsmál úr fjórðungsdómi væri að ræða. Þá skyldi dómurinn, sem upp var kveðinn, velta á hlutkesti.

Þingvellir

Frá Þingvöllum – búðir.

Föst niðurstaða er enn ekki fengin um, hvernig skilja beri þær meginreglur, er annars giltu um það, hvernig dæma skyldi vjefangsmál í fimmtardómi. Eru það aðeins tveir menn, sem reynt hafa að skýra það, þeir Björn M. Ólsen og Vilhjálmur Finsen. Var skýring B. M. Ó. í því fólgin að breyta texta Grágásar. En V. F. benti þá á, hvílík fjarstæða það væri, að ætla sjer að skýra Grágás með textabreytingum og sýndi fram á, að hugmynd B. M. Ó. leiddi þess utan út í ógöngur frá lagalegu sjónarmiði. Setti V. F. jafnframt fram tilgátu þá, er síðan hefir verið búið við, um það, hversu hugsa megi sjer, að þessi ákvæði Grágásar kunni að eiga að skiljast. En tilgáta V. F. hefir þann galla, að fyrir henni skortir heimild í Grágás. Jeg hefi því leitað nýrrar lausnar á þessu máli og er niðurstaðan, að þennan stað í Grágás sje svo að skilja, að ef fjórðungsdómendur voru allir jafnmargir í öllum stöðum, er þeir höfðu vjefengt, og hvorir tveggja höfðu farið rjett að vjefangi, þá hafi fimmtardómur átt að rjúfa þeirra dóm, er síður höfðu að lögum dæmt; ef aftur á móti aðrir höfðu í fjórðungsdómi farið rjett að vjefangi, en aðrir rangt, þá átti þeirra dómur að standast, er rjett höfðu farið að vjefangi, þótt hinir hefðu málaefni betri í upphafi; en ef hvorugir höfðu í fjórðungsdómi farið rjett að vjefangi, þá átti að standast dómur þeirra, er nær höfðu farið að vjefangi, því sem lög voru, og sömuleiðis sá dómur, er fimmtardómendum þótti nær lögum dæmdur.“


Saga Alþingis – Einar Arnórsson
(1880-1955)

AlþingiAlþingi 1271-1874
Í eftirfarandi grein gefur Einar prófessor Amórsson yfirlit yfir sögu Alþingis frá því er Íslendingar gengu Hákoni gamla Noregskonungi á hönd og fram að þjóðhátíðarárinu 1874, er Kristján IX. gaf Íslandi stjórnarskrá. — Er Einar prófessor Arnórsson sá maður, sem vjer vitum fróðastan í þeim efnum, enda munu fáir eða engir hafa kynt sjer, svo sem hann hefir gert, löggjöf Íslendinga og stjómarfar frá öndverðu.

„Árangurinn af þessum breytingum og landstjórn Skafta Þóroddssonar var, að ættardeilunum og vígaferlunum ljetti, og þegar hann fjell frá 1030, hafði hann komið þeim friði á í landinu, er helst á aðra öld, og er það tímabil í sögu landsins, sem kallað hefir verið friðaröldin. Skafti varð einnig fyrstur Íslendinga til þess, svo sögur fari af, að tryggja rjett landsins út á við og afla Íslendingum fríðinda meðal erlendra þjóða, með samningnum við Ólaf helga.
Í ár eru liðin 900 ár síðan Skafti fjell frá, og ætti það því vel við, að hans væri sjerstaklega minnst að einhverju í sambandi við Alþingishátíðina.“

Lagabreyting á Íslandi

Einar Arnórsson

Einar Arnórsson – 1880-1955.

Íslendingar höfðu, sem kunnugt er gengið Hákoni konungi gamla Hákonarsyni á hönd til fulls árin 1262—1264. Þótt eigi verði sannað, að breyting hafi orðið á skipun Alþingis árin 1264 til 1271, þá er þó ljóst, að svo hlaut bráðlega að verða. Margt í hinni eldri löggjöf og stjórnarskipan mátti varla lengi haldast eftir að konungsvald var komið á landið. Í Noregi hafð sonur og eftirmaður Hákonar gamla, sem andaðist 1263, Magnús konungur lagabætir, komið á sameiginlegri og endurbættri löggjöf í öllum hinum gömlu þingdæmum (Gulaþing, Frostaþing og Heiðsifaþing), og hafa þau lög verið nefnd hin yngri landslög. Magnús konungur hugði líka snemma á lagabreytingar á Íslandi. Hann ljet því gera frumvarp að nýrri lögbók, er hann sendi út hingað vorið 1271. Var lögbók þessi, er nefnd hefir verið Járnsíða, mjög sniðin eftir norskum lögum, en miður eftir þörfum Íslands.

Grágás

Grágás.

Árið 1271 var þingfararbálkur hennar lögtekinn hjer. Var þar með hin gamla skipun á Alþingi og vorþingum á Íslandi fallin um koll. Einnig voru goðorðin þá úr sögunni. Fjórðungsdómar á Alþingi fjellu niður og fimmtardómur einnig. Lögberg týndist brátt, því að engar þinglýsingar eða önnur þingstörf fóru þar lengur fram. Og lögsögumannsdæmið var einnig lagt niður. Lögrjettan ein stóð eftir, en mjög í breyttri mynd, eins og sýnt verður. Landinu var skift í 12 þing og sýslumenn komu í stað goðanna fornu. Járnsíða var úr lögum numin með Jónsbók 1281, en engin meginbreyting varð þá á Alþingi. Snemma var einn maður settur yfir alt land, og var hann nefndur hirðstjóri til forna, en síðar höfuðsmaður. Hann var yfirmaður sýslumanna og annara embættismanna á landinu. Sú skipun á æðstu stjórninni innan lands stóð óbreytt þangað til 1683. Þá var skipaður stiftbefalingsmaður svo nefndur, er hafa skyldi æðsta vald hjerlendis, landfógeti, er hafa skyldi yfirumsjón með gjaldheimtu sýslumanna, og amtmaður, sem líta átti eftir löggæslu og kirkjumálum. Síðar (1770) var landinu skift í ömt. Urðu nú amtmenn tveir í upphafi: Annar í Suður- og Vesturamti, og varð hann jafnframt æðsti embættismaður hjerlendur, og hjet stiftamtmaður, en hinn í Norður- og Austuramti. Síðar var Vesturamtið greint frá Suðuramti í stað stiftamtmanns kom landshöfðingjadæmið, er stofnað var 1872, sem kunnugt er. Stóð það til 1904, er æðsta stjórn svo nefndra íslenskra sjermála var flutt hingað inn í landið, eftir að hún hafði verið í höndum erlendra manna, erlendis búsettra, síðan á 13 öld, eða í nærfellt hálft sjö hundruð ára landinu til hins mesta tjóns og niðurdreps.

Skipun Alþingis 1271—1800

Jónsbók

Blaðsíða úr Jónsbók í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar frá 1981.

Norsku þingin, sem svara áttu til Alþingis, eins og það varð eftir Járnsíðu og Jónsbók, hjetu lögþing. Þessu nafni átti víst líka að koma á íslenska allsherjarþingið, enda er það mjög oft nefnt því nafni bæði í lögbókunum og annarsstaðar. Jafnhliða heldur þingið þó forna nafninu, Alþingi. En auk þessara heita er það oft nefnt öðrum nöfnum, svo sem Öxarárþing, almennilegt Öxarárþing, síðar Öxarár landsþing o.s.frv. Þingstaðurinn var hinn sami áfram; Þingvöllur við Öxará.
Á 16. öld (1574) stóð þó til að breyta um þingstað og flytja þingið í Kópavog. Þar þótti höfuðsmanni þingið vera nær sjer og því hægara til að sækja. En landsmenn virðast hafa virt þessa ráðstöfun algerlega vettugi, því að aldrei var Alþingi til Kópavogs flutt. Á 18. öld, milli 1780 og 1790, vildi stiftamtmaður flytja þingið til Reykjavíkur og Norðlendingar vildu fá lögþing handa sjer og Austurfirðingum fyrir Norðurland. En af hvorugu varð, og var Alþingi hið forna háð á Þingvelli við Öxará alla tíð, nema 2 síðustu árin, 1799 og 1800. Þá var það háð í Reykjavík.

Járnsíða

Járnsíða.

Þingtími. Eftir lögbókunum, Járnsíðu og og Jónsbók, átti Alþingi að hefjast 29. júní ár hvert, á Pjetursmessu og Páls, eða, ef hana bar á helgan dag, þá næsta virkan dag á eftir. Áttu þingmenn að vera komnir á Þingvöll kvöldið fyrir þingsetningardag, en oft vildi út af því bregða. Árið 1700 hófst „nýi stíll“ svo nefndur, og færðist þingsetningardagur þá til 8. júlí (Seljumannamessu). Með konungsbr. 25. jan. 1754 var aftur breytt til, og skyldi Alþingi nú hefjast 3 júlí. Eigi reyndist þó auðvelt að fá menn til að sækja þingið svo snemma, einkum um og eftir 1780, og var því aftur breytt til með konungsbrjefi 28. apríl 1784, og þingsetning ákveðin að nýju 8. júlí. Og hjelst það uns þingið var lagt niður.

Þingvellir

Þingvellir – Njálsbúð.

Lögmennirnir settu þingið, að undangenginni guðsþjónustu í Þingvallarkirkju. Lýstu lögmenn griðum og friði manna á meðal, meðan þing stæði og uns þeir væru aftur heim komnir. Eftir þingbókunum skyldi þingið standa svo lengi sem lögmaður vildi og lögrjettumenn. Fram á 17. öld virðist þing hafa staðið venjulega 3—4 daga, enda þótt boðið væri í konungsbrjefi einu frá 9. maí 1593, að það ætti að standa 8 daga að minnsta kosti. En eftir miðja 17. öld fer þingið að standa lengur. Menn komu seinna til þings en skyldi, og þess vegna varð því eigi lokið fyr en eftir 8 daga, og stundum stóð það miklu lengur, stundum um 3 vikur, og var þá margur lögrjettumaður orðinn heimfús. Með konungsbrjefi 28. apríl 1784 var loks svo fyrir mælt, að þingið skyldi óslitið standa frá 8. —22. júlí, og mátti enginn málsaðilja fá neitt bókað í Alþingisbókina eftir þann tíma. En lúka mátti sakamálum og dómum í einkamálum til loka júlímánaðar. Lögmaður sagði Alþingi upp og var þá þingstörfum lokið, og þingmenn máttu hverfa heim til sín.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Á Þingvelli áttu flestir eða allir höfðingjar í fornöld búðir, er þeir, og þinglið þeirra, höfðust við í um þingtímann. Margar þeirra búða hafa sennilega staðið, þegar hin nýja þingskipun komst á. En fátt segir af viðhaldi þeirra og notkun á miðöldum. En þó virðist svo, sem Skálholtsstóll hafi átt búð á Þingvelli fram um siðaskifti, og sjálfsagt ýmsir fleiri. En fallnar munu þær vera á síðara hluta 16. aldar, nema sú búð, er umboðsmaður konungsvaldsins kann að hafa notað.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Á síðara hluta 16. aldar og alla 17. öld munu þingheyjendur hafa hafst við í tjöldum um þingtímann, en um og eftir 1700 tóku ýmsir að gera sjer búðir á Þingvelli af nýju, og þótti Þingvallarklerki jarðrask hljótast af. Var veraldarhöfðingjum þá (1786) leyft að gera sjer búðir vestan Öxarár, og munu margir þeirra hafa haldið þeim við fram eftir öldinni. En Skálholtsbiskup og klerkar höfðust við í tjöldum austan Öxarár. Vistir urðu menn mjög að flytja með sjer til Alþingis, eins og í fornöld. —

Þingvellir

Þingvellir til forna.

Ríkismenn, eins og höfuðsmaður, Skálholtsbiskup og eflaust Hólabiskup líka fram eftir öldum, og meiriháttar sýslumenn, hafa haft með sjer matgerðartæki og matgerðarmenn til Alþingis, eins og í fomöld, enda voru þar einatt veislur haldnar. Þar voru og, einnig eftir að hin forna skipun lagðist af, drykkjur miklar og mannfagnaður. Á 17. öld, og einkum á 18. öld, var mikið drukkið á Íslandi, og voru þingheyjendur sumir þar engir eftirbátar. Sjerstaklega var skaðræðisdrykkjuskapur á Alþingi fyrstu 2 eða 3 tugi 18. aldar, þegar Oddur Sigurðsson lögmaður óð mest uppi.

Þingvellir

Hrossaat á Alþingishátíðinni 1930.

Hrossum sínum hafa þingmenn sjálfsagt komið til geymslu um Þingvallasveit og úti á mýrunum norðanvert við Mosfellsheiði, þegar þingreið var mjög mikil. En eftir að þingheyjendum tók að fækka, einkum eftir 1700, þá hafa þeir haft hesta sína í heimahögum á Þingvöllum. Kvartar Þingvallarprestur mjög undan átroðningi af hestum þingmanna eftir 1730. En bótalaust varð klerkur að þola þann átroðning, því að þinghaldið væri gömul kvöð á landinu. Fram eftir öldum var Alþingi en allfjölmennt. Höfðingjar og ríkismenn höfðu enn langt fram á 16. öld liðskost mikinn til þings, svo sem Torfi í Klofa, biskuparnir Ögmundur og Jón Arason, Magnús prúði Jónsson í Ögri sýslumaður og margir fleiri.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Og enn fóru margir til Alþingis sjer til skemmtunar, eins og í fornöld, og til þess að hitta fyrirmenn landsins og kynnast þeim. Ýmsir fóru þangað til að kæra yfif órjetti, sem þeir eða venslamenn þeirra töldust hafa orðið fyrir, til þess að hreinsa sig með eiði af ámælum, til að flytja mál sín o.s.frv. En þegar líða tekur fram á 18. öld, þá minkar mjög þingsókn. Þá hætta nálega aðrir að sækja þing en þeir, sem lögskylt var þangað að koma — og var þó með torveldleikum þingsókn þeirra — og þeir, sem beinlínis áttu þar málum að gegna.

Lögrjetta

Þingvellir

Konungur og frá á Alþingishátíðinni 1930.

Hún mun hafa verið háð á völlunum austan við Öxará, eins og í fornöld, fram um 1500. Þá er hún í hólma í Öxará. Eftir það virðist hún hafa verið vestan ár. Til 1690 var logrjettan haldin undir beru lofti. Var hún þá girt með strengjum, er festir voru á stengur. Voru strengir þeir nefndir vjebönd. Innan vjebanda var að fornu fari helgistaður mikill og griða. Lágu þungar refsingar við, ef menn glöptu þingmenn, er þeir voru að dómum innan vjebanda, eða rufu dómhelg þeirra. 1690 gekkst landfógeti fyrir því, að reist var hús yfir lögrjettu; var hún að veggjum úr torfi og grjóti, en viðu lagði landfógeti til og sýslumenn vaðmál til þess að tjalda lögrjettu með og þekja. Síðar var reist timburhús yfir lögrjettu og höfðust lögmenn og lögrjettumenn við í því á hverju þingi til 1798. Viðhald á húsinu var lengstum mjög bágborið, enda flýðu menn úr því 1798 og komu eigi í það síðan til þinghalds.

Þingvellir

Frá Þingvöllum 1930.

Lögmenn, sem jafnan voru tveir stýrðu lögrjettu. Þeir áttu að hringja til lögrjettufunda „hinni miklu klukku“, eins og í Jónsbók, þingfb. 3. kap., segir. Hefir lögrjetta haft klukku til afnota sinna. 1593 eða 1594 kom ný klukka til þingsins, en ónýt er hún orðin milli 1720 og 1730, og varð þá að fá að láni kirkjuklukku hjá Þingvallarklerki. Konungsvaldinu bar auðvitað að sjá um, að öll tæki til þinghalds væru í lagi, en umboðsmenn þess vanræktu það, eins og flest annað, sem landinu mátti til hagnaðar vera. Nærri má geta, að óþægilegt hefir oft verið að sitja að dómstörfum og öðrum þingstörfum undir beru lofti. En menn höfðu nú verið vanir þessu frá ómunatíð, bæði hjer á landi og annarsstaðar.

Þingvellir

Frá Þingvöllum 1930.

Og meðan ekkert var skrásett af því, sem gerðist á þingi, nýttist betur af útivistinni. En eftir að tekið var að skrásetja það, er gerðist, þá var þess eigi kostur úti, nema sjerstaklega lygnt og blítt veður væri. Vjer vitum nú eigi, hvenær menn hafa almennt farið að skrá dóma og aðra gjörninga á Alþingi. Líklega verður það eigi fyr en á 16. öld. Lögmenn hafa látið skrá það, er þeim sýndist, og biskupar ef til vill, en engar eiginlegar Alþingisbækur eru haldnar fyr en 1630. Þá er Alþingisskrifari skipaður, og hjelst það embætti síðan, þar til þingið var lagt niður. Eru enn til óslitnar Alþingisbækur frá 1631 til 1800.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Eftir Járnsíðu áttu sýslumenn að nefna í hverju þingi, fyrir páska, bændur (nefndarmenn) til þingfarar, alls 140. Sá, er einu sinni var nefndur, skyldi sækja Alþingi síðan árlega, meðan hann var til þess fær. Eftir Jónsbók var nefndarmannatalan færð niður í 84. 1305 átti, að því er virðist, að fækka nefndarmönnum niður í 42, en sú skipun komst aldrei í framkvæmd. Var Jónsbók jafnan fylgt um kvaðningu nefndarmanna til 1732. Og var krafist þingreiðar af þeim öllum þangað til. En eftir það urðu þeir aðeins þingvottar, og var nú eigi heimtuð þingreið af nema 10 að norðan og vestan, og eitthvað nálægt því úr hinu lögdæminu. Með tilskipun 16. nóv. 1764 var lögrjettumönnum fækkað í 20. Þar af voru 10 úr Árnesþingi, 8 úr Gullbringusýslu og 2 úr Kjósarsýslu. Skyldu aðeins 10 sækja þangað árlega.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Síðar (1770) var ákveðið, að einungis 5 lögrjettumenn skyldu þing sækja og 1796 urðu þessir menn aðeins 4. Nefndarmenn fengu ákveðið kaup fyrir þingförina, er mun svara hjer um bil til 9—10 króna á dag, miðað við kaupmagn peninga nú á dögum. Lengstum áttu sýslumenn að greiða gjald þetta af þingfararkaupum, sem þeir heimtu árlega af skattbændum. Sýslumenn áttu og að fæða nefndarmenn á þingi, en bændur áttu að hýsa þá og fæða á þing og af þingi. Eftir 1764 var tekið að greiða lögrjettu mönnum þingfararkaup í peningum, 24 skildinga á dag, eða ekki langt frá 16 krónum, eftir kaupmagni peninga nú. Af nefndarmönnum áttu lögmenn að nefna 3 úr hverju þingi til setu í lögrjettu innan vjebanda, eða alls 36, og urðu þá 18 úr hvoru lögdæmi. Af þessum 36 lögrjettumönnum nefndu lögmenn svo í dóma 6, 12 eða stundum 24. Lögmenn dæmdu framan af hvor með sínum lögrjettumönnum mál úr sínu lögdæmi, en á 17. öld dæmdu þeir alltaf, eða nær því, báðir saman, úr hvoru lögdæminu sem málin voru.

Þingvellir

Frá Alþingishátðinni 1930.

Eftir 1720 er farið að fara hjer eftir Norsku lögum, sem kennd eru við Kristján fimmta, og lögleidd voru í Noregi 15. apríl 1687. Dæmdu nú lögmenn einir, svo að lögrjettumenn urðu aðeins þingvottar, enda var þeim nú fækkað, eins og áður segir. Helstu störfin, sem fram fóru í lögrjettu, voru þessi: 1. Dómstörf. Lögrjetta var yfirdómstóll yfir sýslumönnum, og auk þess dæmdi hún mál, sem lægsti dómstóll. Lögmenn samþykktu venjulega dóma lögrjettumanna. Þeim varð áfrýjað til konungs og ríkisráðs, upphaflega hins norska, en síðan danska. En 1593 var yfirrjettur stofnsettur á Þingvelli, og mátti til hans skjóta dómum lögrjettu og lögmanna.
Alþingi2. Löggjafarstörf. Framan af voru frumvörp, er konungsvaldið vildi gera hjer að lögum, borin upp á Alþingi,- eins og Jónsbók 1281. Og lengi fram eftir var það svo. En venjulega hafði konungsvaldið sitt fram, að Alþingi samþykkti eða tók við lögum þeim, sem send voru hingað. Og á 17. öld er farið að birta konungsboð hjer á landi án þess að sjá megi, að Alþingi sje spurt að, hvort það vilji samþykkja þau. Sjálft gerði Alþingi samþyktir um ýms efni, er lög mæltu eigi um, og jafnvel um sum, sem lögákveðin voru, alt fram um 1700. En þá hættir Alþingi þessari starfsemi, enda var einveldið þá algerlega komið hjer á. Á 18. öld hefir Alþingi engin afskifti af lagasetningu.

Alþingi

Ráðherrar Íslands 1930.

3. í lögrjettu voru birtar skipanir konungs og annara stjórnarvalda, lesnar lýsingar veðs, landsmála, vogreks, óskilafjár o. s. frv. Síðar voru birt þar afsalsbrjef og makaskifta, og skjöl um allskonar efni, sem of langt yrði upp að telja.

Fram eftir öldum var sakamönnum refsað á Alþingi (galdramenn brenndir, þjófar hengdir, sifjaspellsmenn höggnir, konum drekkt, þjófar brennimerktir o.s.frv.). En af er slíkt lagt á 18. öld. Þá taka menn út refsingar í hjeraði eða í fangelsum erlendis eða í tugthúsi í Reykjavík. Á 18. öld er lögrjetta aðeins dómstóll og þinglýsingastaður. Vegur hennar fór sífellt þverrandi eftir því sem vald hennar minkaði og þingið varð fásóttara. Þangað komu þá lögnjennirnir, 2, 4 eða 5 lögrjettumenn milli 10 og 20 sýslumenn, landfógeti og amtmenn, og þó varla alltaf, og svo þeir, er málum áttu að gegna. Var það fámenni á móts við það, er þangað komu 70—80 lögrjettumenn og margt annara manna.

Yfirrjettur

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Hann var stofnaður með tilskipun 6. desember 1593. Skyldi höfuðsmaður vera forseti hans, og með sjer átti hann að taka 24 dómendur úr tölu sýslumanna og annara embættismanna (klausturhaldara og jarðaljensmanna og lögrjettumanna). Þegar höfuðsmannsdæmið var lagt niður, þá gerðist amtmaður, og eftir 1770 stiftamtmaður, forseti dóms þessa. Eftir konungsbrjefi 17. maí 1735 þurftu meðdómendur í yfirdómi ekki að vera fleiri en 12, en máttu þó vera 24, og loks var þeim fækkað í 6 með konungsbr. 30. apríl 1777. Stóð svo þangað til yfirrjetturinn var lagður niður árið 1800. Dómstóll þessi naut aldrei sjerstakrar virðingar eða trausts landsmanna. Og fór hvorugt vaxandi, enda komu fá mál til hans venjulega. Sum árin þurfti eigi að heyja dóminn, af því að eigi lágu fyrir mál til að dæma. Yfirrjetturinn var alltaf háður á Þingvelli oft, að minsta kosti, í lögrjettuhúsinu á 18. öld. Árin 1799 og 1800 var hann háður í Reykjavík. Dómendur fengu eftir 1770 10 ríkisdali fyrir dómstörf sín í yfirrjetti. Málum frá yfirrjetti mátti skjóta til hæstarjettar Danmerkur í Kaupmannahöfn.

Gestarjettur

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Með konungsbrjefi 24. jan. 1738 var stofnaður gestarjettur svo nefndur á Þingvelli. Sýslumaðurinn í Árnessýslu átti að skipa þenna dóm. Það hafði áður tíðkast, að lögrjetta dæmdi sem lægsti dómur mál út af illmælum og barsmíðum og öðru slíku milli manna, er gerst höfðu á Þingvelli, milli þingsóknarmanna, um þingtímann. En þessi mál þóttu tefja störf lögrjettu of mikið, og því var gestarjetturinn stofnaður. Fara ekki margar nje miklar sögur af gestarjetti þessum. Hann hverfur og vitanlega úr sögunni, þegar Alþingi var lagt niður.

Prestastefnur – Synodalrjettur
Eftir Járnsíðu áttu biskupar að nefna 12 skynsama, lærða menn til þingreiðar. En eigi er kunnugt, hvaða hlutverk þeir áttu að vinna á Alþingi. Eigi segir Járnsíða, að biskupar hafi sjálfir verið þingreiðarskyldir.
AlþingiJónsbók segir ekkert um þingreið biskupa eða klerka. Og eigi segir heldur neitt um það efni í kirkjurjetti. Það er þó alkunnugt, að biskupar sóttu venjulega þing, bæði Skálholtsbiskup og Hólabiskup líka. Og á Alþingi stóðu stundum höfuðrimmur milli klerka og leikmanna í katólskum sið, t. d. milli Staða-Árna og Hrafns Oddssonar, Ólafs biskups Rögnvaldssonar og Hrafns Brandssonar, og jafnvel eftir siðaskifti (Guðbrandur biskup Þorláksson og Jón lögmaður Jónsson). Hólabiskupar höfðu ekki slík erindi til Alþingis sem Skálholtsbiskupar, því að nyrðra voru prestastefnur haldnar í Skagafirði, á Flugumýri oftast, eða annarsstaðar þar í biskupsdæminu. En Skálholtsbiskupar hafa lengi haldið prestastefnur fyrir sitt biskupsdæmi á Þingvelli um þingtímann. Þetta hafði þó ekki verið ákveðið eitt skifti fyrir öll fyr en 1639. Þá fjekk Brynjólfur biskup Sveinsson það samþykkt á prestastefnu, að aðalprestastefnu (Synodus generalis) Skálholtsbiskupsdæmis skyldi heyja á Þingvelli við Öxará á sama tima sem Alþingi.

Þingvellir

Bagall er fannst við uppgröft á Þingvöllum.

Þetta var biskupi hentugt, því að þar gat hann jafnframt hitt alla innlenda forráðamenn landsins. Síðan var prestastefna Skálholtsbiskupsdæmis háð á Þingvelli til 1789, enda var það beint lögákveðið í erindisbrjefi biskupa 1. júlí 1746, að þar skyldi prestasefna Skálholtsbiskupsdæmis vera. Sóttu synodus milli 10 og 20 prófastar og prestar úr nærsýslunum eftir kvaðningu biskups. Hjelt biskup þeim kost í tíð Brynjólfs, Þórðar Þorlákssonar og Jóns Vídalíns, að því er virðist. Fram undir lok 17. aldar mun biskup einn hafa haft forsæti prestastefnu sinnar, en eftir að amtmannsembættið er á stofn sett, fer amtmaður að taka þátt í dómstörfum prestastefnunnar (synodalrjetti). Gerist hann þá jafnframt biskupi forseti synodalrjettar, og stiftamtmaður síðan. Síðar miklu reis deila um forsæti synodalrjettar milli Levetzows stiftamtmanns og Hannesar biskups Finnssonar, því að stiftamtmaður taldist einn eiga að hafa forsæti í dóminum, en biskup kvað þá báða eiga að hafa það, er og var rjett. Fjelst og Kancelli á skoðun biskups.
Synodalrjetturinn dæmdi svonefnd „andleg mál“, þar sem prestar voru annar aðili, enda snertu málin kenningar þeirra og hegðun, hjónabandsmál, mál um kirkjuaga og gildi kirkjulegra athafna, svo sem skírnar, aflausnar o.s.frv. Synodalrjetturinn fluttist af Þingvelli um leið og lögrjetta og yfirrjettur.

Niðurlagning Alþingis hins forna

Alþingi

Oddur Sigurgeirsson sterki af Skaganum og Kristján X. Danakonungur á Alþingishátíðinni 1930. Oddur var mætur maður en stakk aðeins í stúf, m.a. vegna slyss sem hann lenti í sem barn og veikinda síðar á lífsleiðinni sem háðu honum mjög. Hann átti viðburðarríka ævi en Alþingishátíðin hefur verið honum ógleymanleg og kærkomið mótvægi við stríðni og skilningsleysi sem hann fékk vænan skerf af.

Það var nokkurn veginn auðráðið, að Alþingi við Öxará mundi eigi verða flutt þangað aftur, úr því að það var einu sinni komið til Reykjavíkur. Á Þingvelli hefði þurft að reisa nýtt lögrjettuhús, og þá lá nær, að reisa það í Reykjavík eða kaupa þar hús til þinghalds, sem einnig komst til tals. En svo kom annað til. Dómaskipun landsins var mjög óhentug. Alþingi var háð einu sinni á ári. Þetta skipulag olli feikna drætti á málum. Dómstigin voru fjögur, þrjú innlend (hjeraðsdómur sýslumanna, lögmannsdómur eða lögþings, yfirrjettur) og eitt erlent (hæstirjettur í Danmörku). Hlaut því afskaplega langur tími að líða frá því er mál var höfðað og þar til er það hafði gengið gegnum æðsta dómstólinn. Magnús Ólafsson Stefánssonar stiftamtmanns — þeir frændur höfðu þá að heldri manna sið danskað nafn sitt og nefnt sig Stephensen — var þá lögmaður.

Tíu aurar

Tíu aura peningur frá 1940 – með marki Kristján X., konungs Íslands.

Hann var, sem alkunnugt er, að mörgu leyti maður stórvel gefinn, gáfaður og lærður vel að þeirra tíma hætti, starfsmaður í besta lagi, metorðagjarn, fylginn sjer og óvæginn, ef því var að skifta. Hann var, ásamt Vibe landfógeta, Stefáni amtmanni Þórarinssyni — sem líka hafði danskbeyglað föðurnafn sitt í „Thorarensen“ — og Grími Thorkclin, skipaður haustið 1799 í nefnd til að íhuga skólamál landsins og dómsmál. Lagði nefndin til, að Alþingi, bæði ,,lögþingið“ (lögrjetta) og yfirrjettur, yrði algerlega lagt niður, en í staðinn yrði settur á stofn landsyfirrjettur, á borð við stiftsyfirrjettina norsku, sem þá höfðu verið stofnaðir fyrir skömmu. Fara þeir nefndarmenn, og þó aðallega Magnús lögmaður, heldur kuldalegum orðum um þinghaldið á Þingvelli og þingstaðinn, og einkum fær yfirrjetturinn, sem Ólafur gamli stiftamtmaður, faðir Magnúsar, veitti forstöðu, mjög illa útreið hjá honum. Kancellí fjelst á tillögur nefndarinnar um niðurlagningu Alþingis við Öxará og stofnun landsyfirrjettar í Reykjavík í staðinn. Og fór það fram, að þingið var alveg lagt niður árið 1800, eins og kunnugt er.

Alþingi 1845—1874

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Með tilskipun 28. maí 1831 og 15. maí 1834 var sett svonefnd ráðgjafarþing á stofn í Danmörku. Voru þau tvö, annað á Jótlandi og hitt í Hróarskeldu. Þing þessi áttu ráðgjafaratkvæði um ýms löggjafarmál. Á Hróarskelduþingi átti Ísland og Færeyjar að hafa 3 fulltrúa. Var með Ísland farið eins og það væri amt í Danmörku, að öðru en því, að landsmenn kusu eigi þessa fulltrúa sína, heldur gerði konungsvaldið það. Íslandi var þá, og hafði lengi verið, stjórnað í Kaupmannahöfn, og fóru stjórnarskrifstofurnar tvær, Kancelli og Rentukammer, með íslensku málin. Íslenskir menn hugðu margir, sem von var, að landinu mundi lítið gagn standa af afskiftum dansks ráðgjafarþings af íslenskum málum. Áhugaleysi þeirra og þekkingarleysi mundi girða fyrir alla nytsemd af meðferð íslenskra mála á dönsku þingi. Baldvin Einarsson skrifaði þegar 1831 ritling um ráðgjafarþingin dönsku og um ráðgjafarþing á Íslandi.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

En þó fyr en 1837. Þá gengust ýmsir merkir menn fyrir því, að gerðar voru bænarskrár til konungs um ráðgjafarþing hjer á landi. Komust þær sumar til Kancellis. En róðurinn var þungur, því að Kancelli taldi það ósæmilegt, að Íslendingar skyldu þá biðja um sérstakt ráðgjafarþing, með því að Friðrik 6., sem þá sat á konungsstóli í Danmörku, hafði lýst yfir því, að hann mundi eigi gera breytingu á ráðgjafarþingunum. Hinsvegar var með konungsúrskurði 22. ág. 1838 efnt til samkomu embættismanna nokkurra hjer undir forsæti stiftamtmanns. — Embættismannanefnd þessi hjelt tvisvar fundi, 1839 og 1841, en var svo lögð niður. Friðrik 6. ljetst 8. des. 1839. Var það happ mikið, bæði Íslandi og Danmörku.

Kristján XIII

Kristján XIII.

Til ríkis kom nú Kristján konungur 8., gáfaður maður og frjálslyndur, miðað við konungmenn þeirra tíma. Hann gaf út konungsúrskurð 29. maí 1840, þar sem gerðar voru ráðstafanir til þess, að embættismannanefndin íslenska yrði spurð að því, hvort eigi myndi Íslandi heppilegast að fá ráðgjafarþing á Íslandi, hvort það ætti eigi að heita Alþingi og hvort það skyldi eiga að heyja á Þingvelli við Öxará. Nefndin lagði auðvitað til, að Ísland fengi sjerstakt ráðgjafarþing er Alþingi hjeti. Meirihluti nefndarinnar lagði ennfremur til, að þingið yrði háð í Reykjavík, en minnihlutinn vildi hafa það á Þingvelli við Öxará. Deildu menn mjög um þingstaðinn, sem kunnugt er. En svo fór að lokum, að Reykjavík var kjörinn þingstaður Það varð mönnum og mikið ágreiningsefni, hvernig haga skyldi ákvæðum um kosningarrjett og kjörgengi til þingsins o. fl. En svo fór, að tillögur embættismannanefndarinnar gengu í flestu fram. Með konungsúrskurði 8. mars 1843 var loks ákveðið að stofna ráðgjafarþing á Íslandi, og átti þingið að heita Alþingi. Með tilskipun s.d. voru settar reglur um kjörgengi og kosningarrjett og þinghaldið alt. Upphaflega átti þingið að koma saman sumarið 1844, en þess varð eigi kostur, því að stjórnarvöldin í Kaupmannahöfn höfðu að venju dregið nauðsynlegar framkvæmdir til undirbúnings þinghaldinu. Fyrsta ráðgjafarþingið varð því ekki háð fyrr en í júlí 1845.

Skipun Alþingis 1805—1874

Þingvelllir

Frá Aþingishátíðinni 1930.

Landinu var þá skift í 19 sýslur eða lögsagnarumdæmi og Reykjavíkurkaupstaður að auki. Var hver sýsla og Reykjavík kjördæmi sjer og skyldi kjósa einn alþingismann, og einn til vara, í hverju þessara kjördæma. Voru þjóðkjörnir þingmenn á ráðgjafarþingunum því 20, þar til 1857, að Skaftafellssýslur urðu 2 kjördæmi. Urðu þá kjördæmi og þjóðkjömir þingmenn 21. Og var svo síðan til 1874. Auk þessa kjöri konungsvaldið alt að því 6 þingmenn, sem nefndir vóru konungkjömir. Alls áttu því sæti 26 og síðar 27 þingmenn á Alþingi. Þess er þó getanda, að í Vestmannaeyjum varð eigi kosinn þingmaður, meðan kosningarrjettarskilyrði Alþingistilskipunarinnar 8. mars 1843 stóðu, því að enginn hafði þar kosningarrjett. Stóð svo til 1857. Kjörtímabil þingmanna var 6 ár. Alþingi starfaði alltaf í einni málstofu þetta tímabil. Það kom jafnan saman annað hvert ár, stöku árin, nema 1851. Þá var þjóðfundurinn haldinn, en Alþingi eigi, sem vitað er. Aukaþing var ekkert haldið á þessu tímabili, en einu sinni var þing rofið, 1869, og efnt þá til nýrra kosninga, vegna stjórnardeilunnar milli Danmerkur og Íslands. Á þessu tímabili voru 14 þing háð, og þjóðfundurinn að auki, allt regluleg þing. Aukaþing þekktust ekki eftir Alþ.tilsk. 8. mars 1843.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Upphaflega áttu þeir einir karlmenn kosningarrjett, er áttu fasteign að minsta kosti 10 hndr. að mati, eða höfðu lífstíðarábúð á þjóðjörð eða kirkjujörð, er væri að minnsta kosti 20 hndr. að mati, eða ættu húseign, að minsta kosti 1000 rbdl. virði, í Reykjavík eða einhverjum verslunarstaðanna, sem þá voru. Þessi skilyrði þóttu alltof ófrjálsleg, sem von var. Ákvæðin Alþtilsk. um kosningarrjett og kjörgengi voru sniðin eftir samsvarandi fyrirmælum í tilsk. um dönsku ráðgjafarþingin. — Auk þessara skilyrða skyldi kjósandi enn fremur vera 25 ára gamall, hafa óflekkað mannorð, og hafa forræði á fje sínu. Kjörgengis-skilyrðin voru hin sömu sem kosningarrjettar-skilyrðin, að því viðbættu, að þingmaður skyldi vera 80 ára, hafa haft fasteignaráðin í 2 ár — Hann var aðeins kjörgengur í því amti, þar sem fasteign hans var — að hann skyldi vera kristinnar trúar, þegn Danakonungs, og hafa átt heima í 5 síðustu árin í löndum Danakonungs í Norðurálfu.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Með tilsk. 6. janúar 1857 voru skilyrði kosningarrjettar og kjörgengis mjög rýmkuð. Nú var eignarhald á fasteign eða ábúð á jörð eigi lengur skilyrði. — Nú fengu kosningarrjett bændur, sem höfðu grasnyt og guldu gjald til allra stjetta, embættismenn og þeir, sem tekið höfðu lærdómspróf við Kaupmannahafnarháskóla eða Prestaskólann, enda væru þeir eigi hjú, svo og kaupstaðaborgarar og loks þurrabúðarmenn, ef þeir greiddu 6 rbdl. til sveitar sinnar. Auk þess áttu kjósendur vitanlega að fullnægja skilyrðunum um aldur, mannorð, fjárforræði og eigi máttu þeir heldur standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Loks átti kjósandi að hafa haft heimili í kjördæmi síðasta árið fyrir kosningu. Kjörgengisskilyrðin urðu nú hin sömu sem kosningarrjettarskilyrðin, nema þingmannsefni átti að vera 30 ára að aldri, þegn Danakonungs, kristinnar trúar, og hafa verið 5 ár búsettur í löndum Danákonungs í Norðurálfu, en eigi þurfti hann að hafa átt heimili í kjördæminu. Alþingiskosningar voru þá opinberar, og þurftu eigi að fara fram sama dag um land allt, eins og nú. Kjörstaður var þá einn í hverju kjördæmi, enda voru kosningar oft mjög báglega sóttar, í samanburði við það, sem nú er. Á þessu tímabili buðu menn sig eigi fram til þingsetu, eins og nú, og mátti því verða, að sá maður yrði fyrir kjöri, sem alls eigi vildi taka við kosningu. Alþingi úrskurðaði um kjörgengi og lögmæti kosninga, eins og nú. Ef aðalþingmanns missti við, eða hann forfallaðist, þá tók vara-þingmaður sæti.

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Alþingi kom saman 1. júlí, eða næsta virkan dag þar á eftir, ef 1. júlí bar á sunnudag, og skyldi standa 4 vikur. Þingtíminn var þó lengdur, ef á þurfti að halda. Konungsfulltrúi setti þingið og sleit því. Þingmálið var íslenska, en þó mátti konungsfulltrúi tala á dönsku, en þýða átti þá jafnharðan ræðu hans. Eftir 1849 — þá varð Páll amtmaður Melsted konungsfulltrúi — hjeldu konungsfulltrúar ræður sínar á íslensku. Fyrstu 2 þingin voru háð fyrir lokuðum dyrum, þrátt fyrir kröfur þingmanna um þinghald í heyranda hljóði, en 1849 og síðan var þing haldið fyrir opnum dyrum. Þingið kjöri forseta sinn og varaforseta og svo skrifara. Þingið var háð í salnum í Latínuskólanum öll þessi ár, því að þinghús var eigi reist þá, og eigi annað hús jafn hentugt þá eða veglegt til þinghalds.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Lagafrumvörp af hendi konungsvaldsins, er snertu mannrjettindi manna, eignir, skatta og álögur í almennings þarfir, átti að leggja fyrir þingið. Það hafði rjett og skyldu til ráðgjafar um þessi efni, en samþyktarvald um löggjöf hafði þingið ekki þá, eins og síðan 1874. Einstakir þingmenn gátu og borið löggjafarmál undir þingið. Um stjórnarfrumvörp voru hafðar tvær umræður. Hjet hin fyrri undirbúningsumræða, en hin síðari ályktunarumræða. Um frumvörp einstakra manna eða málefni, er þeir báru upp, voru hafðar þrjár umræður, inngangsumræða og síðan hinar tvær áðurnefndu.

Þingvellir

Þingvellir 1882.

Ef Alþingi vildi koma máli fram í einhverri mynd, þá var venja, að forseti og skrifari sendi um það bænarskrá til konungs, þar sem fram var tekið, hvers efnis þingið vildi hafa væntanleg lög um málið. En það var auðvitað oft óvíst, hvort tillögur þingsins fyndu náð fyrir augum stjórnarskrifstofanna eða ráðherranna Kaupmannahöfn. Um þeirra hendur fóru málin áður en þau komu til konungs, og þeirra ráðum mun hann nær altaf hafa hlítt. Á þessu tímabili hafði Alþingi með höndum öll þau mál, sem þá kvað mest að og mestu vörðuðu landið. Þegar á fyrsta þinginu (1845) kom verslunarmálið til meðferðar. 1787 hafði verslunin að vísu verið leyst úr versta einokunarlæðingnum, en Danir einir mátti versla hjer leyfislaust og afarkostalaust. Og tiltölulega fáar hafnir voru hjer löggiltar.

Alþingishúsið

Alþingishúsið, byggt 1881 – merki Kristjáns IX (1818-1906) er færði Íslendingum stjórnarskrána 1874.

— Flestir bestu menn landsins vildu fá íslenska verslun við útlönd gefna frjálsa öllum þjóðum og jafnrjetti þeirra á meðal. Stóð í þessu þófi nær áratug, uns verslunarfrelsi fjekst nokkurnveginn með lögum 15. apríl 1854, er ríkisþing Dana og konungur setti. Meðal annara stórmála, er ráðgjafarþingin fóru með, má nefna skólamálin, fjárkláðamálið á þingunum 1857—1869, fjárhagsmálið svo nefnt, um skuldaskifti Íslands og Danmerkur 1865 og síðast en eigi síst stjórnarbótarmálið (sambandsmál Íslands og Danmerkur) 1867, 1869 og 1871 og frumvörp bæði í sambandi við það og sjer í lagi (1878) um stjórnarskrá landsins.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson (1811-1879).

Þau mál tókst Alþingi eigi að leysa. Stöðulög 2. jan. 1871 og stjórnarskrá 5. jan. 1874 voru sett án þess að þau væru lögð fyrir Alþingi og að sumu leyti þvert ofan í vilja þess, eins og kunnugt er.

Á þessu tímabili sátu margir kunnustu og ágætustu menn landsins á þingi. Fyrstan má þar nefna Jón Sigurðsson forseta. Hann var kjörinn þingmaður allt þetta tímabil, en sat þó ekki á þingunum 1861—1863. Þá má nefna menn eins og Þórð Sveinbjörnsson yfirdómsforseta, sem var líka lærður maður og mikilhæfur, Pjetur biskup Pjetursson, Jón Guðmundsson ritstjóra, prófastana Hannes Stephensen og Halldór Jónsson, Benedikt Sveinsson, Arnljót Ólafsson, Jón Sigurðsson á Gautlöndum o.m.fl. þjóðkunna menn.“

Heimildir:
-https://timarit.is/page/1219644#page/n0/mode/2up
-Morgunblaðið – Hátíðarblað 26. júní 1930, Eggert Briem, Alþingi hið forna, bls. 4-7.
-Morgunblaðið – Hátíðarblað 26. júní 1930, Einar Arnórsson, Saga Alþingis, bls. 7-10.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

Landnám

Í Lesbók Morgunblaðsins 1969 fjallar Árni Óla um „Kjalarnesþing og Alþingi hið forna“:

Árni Óla„Fundur landsins og landnám eru vitanlega að því leyti merkustu viðburðir í sögu landsins sem þeir eru nauðsynlegur undanfari alls þess, sem hér hefir síðar gerzt. Og vafalaust hafa margir landnámsmenn vorir unnið afreksverk um byggingu landsins. En landnámin eru þó eigi svo margþætt né svo mikil vitraun sem setning Alþingis var, stofnun allsherjarríkis og setning laga handa landsmönnum öllum. Það er hið ágætasta verk og hafa margir góðir menn að því unnið, enda þótt Úlfljótur hafi mest í því átt. Það hefir kostað mikinn tíma og fyrirhöfn, og hefir útheimt margar skýringar og fortölur. Hafa höfðingjar þeir, sem Úlfljótur ráðfærði sig við áður en hann sigldi, sennilega unnið nokkuð fyrir málið, og svo Grímur geitskör, er hann fór um landið. — Svo sagði Einar prófessor Arnórsson, (Skírnir 1930).

 

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt, að færi fyrstur þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. —

Þingvellir

Alþingi – þingstaðurinn á Þingvöllum.

Svo segir Ari ífróði í Íslendingabók. En í Hauksbók Landnámu segir svo: Ingólfur tók sér bústað, þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið. Hann bjó í Reykjarvík. Þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Hann var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að auðu landi og byggði fyrst landið, og gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum síðan. Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla. Þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi væri sett.
Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna vegna þess að hann nam hér fyrstur land. En ekki ætti hann síður að vera frægur fyrir hitt, að afkomendur hans og venslamenn stjórnuðu landinu fram að kristnitöku, eins og enn mun sagt verða.
Dr. Guðbrandur Vigfússon leit svo á, að þótt talið væri að Ísland hefði byggzt úr Noregi, þá hefði komið hingað á landnámsöld álíka margt fólk af keltnesku kyni eins og norsku. En norska kynið var „herraþjóðin“ í landinu, eins og glöggt má sjá af fornsögunum, og þær sýna líka að norsk menning og norskur hugsunarháttur hefir verið hér yfirgnæfandi. Í Noregi var byggð hagað öðruvísi en í öðrum germönskum nágrannalöndum. Í Svíþjóð, Danmörku og Þýzkalandi bjuggu menn í þorpum, en í Noregi voru sérstök bændabýli, og sama varð reglan hér á landi.

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.

Þeir, sem fyrstir komu, námu mjög víð lönd, en byggðu þau svo skipverjum sínum og öðrum er seinna komu. Með þessu móti höfðu þeir nokkurn liðsstyrk, ef á þá yrði ráðizt og jafnframt voru þeir þá höfðingjar, hver í sínu landnámi. Vegna þessa stefndi allt að því, að hér risi upp smáríki, eins og var í Noregi áður en Haraldur hárfagri lagði land allt undir sig.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Þessir fyrstu héraðshöfðingjar stjórnuðu svo landinu um hríð, án þess að nokkur sameiginleg lög væru hér gildandi. Að vísu komu þeir með nokkrar norskar venjur viðvíkjandi eignarhaldi einstaklinga, kaupskap, hjúskap, um erfðir, hefndir fyrir víg o.s.frv. En þetta gat orðið breytilegt eftir héruðum er fram í sótti og sáu framsýnir menn hver voði var búinn innanlandsfriði ef framvindan yrði slík. Nauðsyn væri að stofna hér þjóðfélag áður en í óefni væri komið. Þá var það, að Þorsteinn Ingólfsson stofnaði Kjalarnesþing og „höfðingjar þeir, er að því hurfu“, eins og Ari fróði kemst að orði. Tveir aðrir af stofnendum þingsins eru nefndir Helgi bjóla, tengdasonur Ingólfs og Örlygur gamli á Esjubergi, og voru þeir báðir kristnir. En svo hafa aðrir höfðingjar bætzt í hópinn og þeir hafa átt heima í Borgarfirði og Árnessýslu. Þetta þing skyldi setja lög er giltu á yfirráðasvæði þess og dæma um mál manna.

Hvenær var Kjalarnesþing stofnað?
Það skiptir nokkru máli ef unnt er að ákveða hvenær þing þetta var stofnað, því að með hverju ári fjölgaði mikið fólki í landinu og þá um leið ýfingum og ófriði milli manna. Meðan engar reglur voru til að fara eftir í viðskiptum manna, var óhægt um vik að setja niður deilur.
Leiðvöllur
Kjalarnessþings er getið í Íslendingabók, Landnámu Grettis sögu, Harðarsögu og Kjalnesingasögu, en hvergi er þess getið hvenær það var stofnað. Í Grettissögu segir, að skömmu eftir útkomu Önundar tréfótar, sem bjó í Kaldbaksvík á Ströndum, „hófust deilur þeirra Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa og lauk svo, að Ófeigur féll fyrir Þorbirni í Grettisgeil hjá Hæli. Þar varð mikill liðsdráttur að eftirmáli með sonum Ófeigs. Var sent eftir Önundi tréfæti og reið hann suður um vorið“. Önundur var tengdasonur Ófeigs grettis. Á leiðinni suður gisti hann í Hvammi hjá Auði djúpúðgu. Hún bað að Ólafur feilan sonarsonur sinn mætti ríða með honum suður til að biðja Alfdísar hinnar barreysku, og að hann styddi það mál. Tók Önundur því vel. Þegar hann hitti svo vini sína og mága, var talað um vígamálin, „og voru þau lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gerð, og komu miklar fébætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gerr. . . .Þetta haust fékk Ólafur feilan Alfdísar hinnar barreysku. Þá andaðist Auður hin djúpúðga, sem segir í sögu Laxdæla“.

Heiðni

Heiðnir víkingar og kristnir keltar virðast hafa lifað í sátt í upphafi landnámsins.

Í Tímatalsritgerð sinni telur dr. Guðbrandur Vigfússon, að Auður djúpúðga muni hafa andast á árunum 908—910. Nokkru fyrir þann tíma hlýtur Kjalarnesþing því að hafa verið stofnað. Af frásögn Ara fróða í Íslendingabók mætti ráða, að Kjalarnesþing hefði upphaflega aðeins verið fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar, því að þar segir, að Þorsteinn Ingólfsson hafi haft þetta þing, „og höfðingjar þeir, er að því hurfu“. Er þar með gefið í skyn, að smám saman hafi honum bætzt samþingsmenn, og gat það vel tekið nokkur ár að þingháin næði alla leið austur að Þjórsá.
Hér verður því að álykta svo sem Kjalarnesþing hafi verið stofnað rétt upp úr aldamótum 900. Nú telur og dr. Guðbrandur Vigfússon að Ingólfur Arnarson muni hafa dáið um 900 og getur þess að menn ætli að þingið hafi verið stofnað eftir hans dag. Bendir það til þess, að þingstofnunin hafi verið fyrsta verk Þorsteins Ingólfssonar eftir að hann tók við mannafonnráðum í héraði. Þing þetta mun hafa verið stofnað að fyrirmynd norsku fylkjaþinganna á Frosta, Gula og Eiðsvelli, og það mun hafa verið orðið aldarfjórðungs gamalt þegar alþingi var stofnað.

Hvar var þingið háð?
Aðeins á einum stað er þess getið, hvar Kjalarnesþnig var háð. Nú þekkist þetta örnefni ekki lengur.
Landnám Ingólfs
Vegna nafns þingsins héldu menn lengi vel, að það hefði verið háð á Kjalarnesi. Jónas Hallgrímsson tók sér fyrir hendur sumarið 1841 að finna þingstaðinn og leitaði upplýsinga víða. Honum var bent á Leiðvöll, sem er skammt frá Móum á Kjalarnesi. Fór Jónas þangað, en sannfærðist fljótt um, að þar hefði aldrei verið háð þing, heldur hefði þar aðeins verið leið.
ÞingnesSvo fékk hann fregnir af því að í Þingnesi í Elliðarvatni væru margar og glöggvar búðatóftir, og þangað fór hann við áttunda mann til þess að rannsaka staðinn. Þar fann hann rúmlega 20 búðatóftir. Hann byrjaði á því að grafa upp stærstu tóftina, og segir hann að það hafi verið sú stærsta búðartóft, sem hann hafi séð á Íslandi, um 100 ferálnir að innanmáli. Veggir höfðu verið hlaðnir úr völdu grjóti og taldi hann að þeir mundu hafa verið um sex feta háir.
Því næst rannsakaði hann grjótdyngju nokkra utan við búðirnar, því að honum sýndist sem mannvirki mundi vera, en fann þar ekki annað en stóra steina og vissi ekki hvað þetta var. Þá réðist hann á merkasta staðinn, sjálfan dómhringinn. Þar var hringhlaðinn grjótgarður og taldi Jónas að hann mundi upphaflega hafa verið um tveggja álna þykkur neðst og álíka hár. Þvermál hringsins var 43 fet. Í miðjum hringnum var grjóthrúga og gat grjótið ekki verið komið úr hringgarðinum, og hélt hann því að þar mundu dómendur hafa setið.
Þingnes
Ekki var Jónas í nokkrum vafa um, að hér hefði hann fundið hinn gamla þingstað Þorsteins Ingólfssonar. Skammt þaðan voru einnig aðrar rústir, sem Jónas skoðaði ekki. Handan vatnsins, gegnt Þingnesi, undir holtinu sem Bugða rann fram með og heitir Norlingaholt, voru fram á þessa öld miklar búðatóftir og voru þær nefndar Norlingabúðir. Þarna hafa Borgfirðingar þeir, er þingið sóttu haft búðir sínar og bendir nafnið til þess, því að um aldir voru Borgfirðingar kallaðir Norlingar hér um nesin.
ÞingnesÞingnes heldur enn nafni sínu enda þótt það sé nú orðið að ey í vatninu, síðan vatnsborð Elliðavatns var hækkað vegna rafmagnsstöðvarinnar hjá ánum. Nesið gekk út í vatnið að sunnan, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Elliðavatns og Vatnsenda. Var fyrrum aðeins mjótt sund milli þess og engjanna fyrir norðan.
Þarna er einn af sagnmerkustu stöðum Íslands, en þó hefir verið farið illa með hann. Laust eftir seinustu aldamót, þegar ræktunaráhugi vaknaði meðal manna hér á landi, var ráðizt á Þingnes með plógum og öðruum jarðræktarverkfærum, öllum búðatóftum byllt um og eins dómhringnum, svo að þar var ekkert að sjá nama moldarflag. Norðlingabúðir vonu seinna kaffærðar, þegar afrennsli vatnsins var stíflað og yfirborð þess hækkað. Og þar með voru þurrkaðar út seinustu sýnilegu minjarnar um Kjalarnesþing.

Kristið þing
Heimildir fornsagnanna herma, að Örlygur gamli og Helgi bjóla hafi verið aðalhvatamenn að stofnun þingsins með Þorsteini. Þeir voru báðir kristnir og trúræknir vel. Örlygur hafði verið sendur hingað af Patreki biskupi á Iona með trúboðserindum. „Biskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenaríum og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina“ (Landn). Örlygur bjó á Esjubergi og reisti þar þegar kirkju hina fyrstu er sögur fara af hér á landi.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Helgi bjóla átti Þórnýju dóttur Ingólfs Arnarsonar og var því mágur Þorsteins. Einn af sonum þeirra Þórnýjar var nefndur Kollsveinn og mun það bafa verið auknefni, því að svo voru kallaðir sveinar þeir er fareldrar færðu guði nýfædda.
ÞingnesÞeir Helgi hjóla og Örlygur eru taldir meðal göfugustu landnámsmanna í Sunnlendingafjórðungi. Er því líklegt að þeir hafi ráðið miklu við stofnun þingsins og hvernig það var helgað. Er þá líklegt að þeir hafi látið helga það með tákni krossins og þar af sé komið nafnið Krossnes á þingstaðnum. Og þá er eigi ólíklegt, að grjótdyngjan sem Jónas Hallgrímsson fann þar í nesinu og vissi ekki hvennig á stóð, hafi verið leifar af stöpli, sem hlaðinn hefir verið undir krossmerkið. En er þing lagðist niður á þessum stað, hafi Kristnesnafnið horfið úr mæltu máli, og nesið síðan verið kallað Þingnes, eins og það heitir enn í dag.
Um þær mundir er Kjalarnesþing var stofnað voru engar trúarbragðadeilur hér á landi. Kristnir menn og heiðnir höfðu dreifzt um land allt og bjuggu þar í nábýli og fyrst í stað bar þeim ekki á milli í trúmálum. Og hafi nú verið — sem allar líkur benda til — að kristnir mennn hafi ráðið miklu á fyrsta Kjalarnesþingi, þá er eðlilegt að þeir réðu því hvernig þingið var helgað. En um þinghelgun með krossi má lesa í Kristnisögu, þar sem sagt er frá krossunum á alþingi árið 1000.

Lagasetning og dómnefna
Ætla má að hlutverk þingsins hafi að upphafi verið tvíþætt: lagasetning og dómnefna.
Um lagasetningu hefir verið farið eftir þeim réttarfarsvenjum, en mennn hafa alizt upp við í Noregi, og þó með þeim breytingum, er hæfðu breyttum aðstæðum. Hafa svo ný lög verið sett smám saman, eftir því sem hentaði og reynslan kenndi mönnum að nauðsynlegt var. En engin lög þessa þings gátu gilt annars staðar en í þinghánni.
Þingnes
Um dómaskipan verður ekkert sagt með vissu. Líklegt er að dómendur hafi verið kosnir af þingheimi hverju sinni og menn valdir eftir metorðum og mannviti. Dómhringurinn í Þingnesi sýnir, að dómar hafa farið þar út, enda vitum vér um tvo dóma, sem þar voru kveðnir upp. Fyrri dómurinn vax í vígsmáli Ófeigs grettis og hefir þegar verið sagt frá honum, en því má við bæta, að þeim dómi hefur verið fullnægt. Þorbjörn jarlakappi varð að fara utan og mun ekki hafa komið til Íslands aftur, og ekki heldur Sölmundur sonur hans. En Kári sonur Sölmundar kom til Íslands og segir frá því í Njáls sögu.
Frá hinum dómnum segir Ari fróði í Íslendingabók: „Maður hafði orðið sekurr um þrælsmorð eða leysings, sá er land átti í Bláskógum. Hann er nefndur Þórir kroppinskeggi, en dóttursonur hans er nefndur Þorvaldur kroppinskeggi, sá er fór síðan í Austfjörðu og brenndi þar inni Gunnar bróður sinn. Svo sagði Hallur Órækjusonur. En sá hét Kolur er myrður var. Við hann er kennd gjá sú, er þar er kölluð síðan Kolsgjá, sem hræin fundust. Land það varð síðan allsherjarfé, en það lögðu landsmenn till alþingisneyslu. Af því er þar almenning að viða til allþingis í skógum og á heiðum hagi til hrossahafnar. Svo sagði Úlfheðinn oss“.
(Bláskógar kallast nú Þingvallasveit. Hallur Órækjuson var systursonur Kolskeggs hins fróða, sem margt sagði fyrir um landnám á Austurlandi.
Úlfljótsvatn
Nafnið Kolsgjá er nú týnt, en menn halda að gjáin sé uppi á Leirunum. Úlfheðinn mun vera Úlfhéðinn Gunnarsson lögsögumaður). Þessi dómur hefir verið kveðinn upp áður en það væri afráðið hvar alþingi skyldi háð, og því aðeins var hægt að leggja landið til allþingisneyzlu að það var áður orðið almenningseign. Þórir hefir verið dæmdur sekur á Kjalarnesþingi en landi hans ekki ráðstafað á annan hátt en þann, að það skyldi vera almenningur.
Nauðsynlegt hefir verið á Kjalarnesþingi, eins og á alþingi síðar, að velja mann til að segja upp lög þau er samþykkt höfðu verið, og sjá um að dómum væri fullnægt. Engar sagnir höfum vér um, hver sá lögsögumaður hafi verið, en eflaust hefir hann átt heima í landnámi Ingólfs Arnarssonar. Og engin goðgá er þótt gizkað sé á, að það hafi verið Úlfljótur, hinn sami og seinna samdi allsherjarlög fyrir Ísland.
Konrad Maurer hefir það eftir séra Símoni Beck á Þingvöllum, að þar í sveitinni lifi þau munnmæli, að Úlfjótur lögsögumaður hafi upphaflega átt heima á Úlfljótsvatni í Grafningi.
Í Landnámu og fornsögum er aðeins getið um tvo menn, er hétu þessu nafni. Annar er talinn landnámsmaður norður í Skagafirði, og ekkert fleira um hann sagt, en hinn er Úlfljótur lögsögumaður, en ekkert getið um bústað hans fyrr en hann keypti Bæ í Lóni af Þórði skeggja, eftir að Þórður fluttist hingað suður í Mosfellssveit.

Kjalarnesþing

Þingin voru fyrst fornfáleg – haldin undir berum himni.

Nafnið Úlfljótsvatn er gamalt, því að það kemur fyrir í Harðarsögu, og enginn vafi er á, að það hefir verið kennt við einhvern mann, sem ÚlfLjótur hét. Þessi bær var í landnámi Ingólfs.
Úlfljótur var kynborinn, sonur Þóru, dóttur Hörða-Kára, sem talinn var ágætur maður, og segir Snorri, að á dögum Ólafs konungs Tryggvasonar hafi ættbogi hans verið mestur og göfgastur á Hörðalandi. Hjörleifur fóstbróðir Ingólfs var einnig komimin af Hörða-Kára, og er því líklegt, að vinátta hafi verið með Úlfljóti og þeim feðgum Ingólfi og Þorsteini.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Forn munnmæli, sem engar öfgar fylgja skyldu menn ekki sniðganga. Ritaðar heimildir bera heldur ekki á móti því, að Úlfljótur hafi fyrst í stað átt heima á Úlfjótsvatni. Þeim ber aftur á móti saman um, að hann hafi keypt Lónslönd af Þórði skeggja þegar hann fluttist suður í Mosfellssveit, en Þórður hafi búið þar alt að 15 ár áður en hann fór hingað og þess vegna líklega ekki komið að Skeggjastöðum fyrr en eftir 900, eða í þann mund er Kjalarnesþing var stofnað. Þá hefði Úlfljótur enn átt að vera búandi á Úlfljótsvatni, og verið einn af þeim „vitru mönnum“, er stofnuðu þingið með Þorsteini Ingólfssyni.
Það getur varla talizt getgáta, að hugmyndin um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþingis hafi verið frá Þorsteini runnin, því að engum manni er betur trúandi tii þess en honum að hugsa svo stórmannlega. Hugmyndina mun hann þá fyrst hafa borið fram er honum þótti Kjalarnesþing orðið nógu öflugt til þess að vera bakhjall hennar, og allir helztu höfðingjar frá Hvítá í Borgarfirði austur á Rangárvelli höfðu heitið stuðningi sínum. Hið fyrsta, sem þurfti að gera, var að finna hentugan stað fyrir allsherjarþingið. Þetta var nauðsynlegt til þess að ekki yrði reipdráttur um það um allt land, að hver höfðingi vildi hafa hann hjá sér. Það gat hæglega spillt því, að málið næði fram að ganga.

Almannagjá

Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.

Misskilningur er það að Grímur geitskör hafi valið þingstaðinn. Það hafa höfðingjar á Kjalarnesþingi gert. Og hafi Úifljótur verið lögsögumaður þingsins, þá virðast fyrstu ráðin um undirbúning að stofnun alþingis vera frá honum komin. Hann mun hafa ráðið því, þá er Þórir kroppinskeggi var gerður sekur og útlægur, að landið í Bláskógum væri ekki dæmt sektarfé handa einstökum mönnum (t.d. dómendum), heldur gert að almenningi. Það er skammt á milli Úlfljótsvatns og Þingvalla og hefir Últfljótur eflaust verið kunnugur staðháttum á Þingvöllum, og þess vegna lagt til að alþingi skyldi háð þar. Er líklegt að hann hafi dregið fram kosti landsins líkt og gert er í Íslendingabók og haft eftir Úlfhéðni Gunnarssyni lögsögumanni, að þar mættu allir „viða til alþingis í skógum, og á heiðum hagi til hrossahafnar“. Aðrir þingmenn fallast á þetta og svo er ákveðið að þingstaðurinn skuli vera þarna. Margt fleira hefir staðnum að vísu veriðfundið til ágætis, og þá ekki sízt það að hann var þegar orðinn almenningseign.
Úlfljótur hefir gert meira. Hann hefir fengið því framgengt að Grímur geitskör, fóstbróðir hans, væri sendur um land allt til þess að hafa tal af höfðingjum og fá þá til aðfallast á hugmyndina um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþing í Bláskógum. Var nauðsynlegt að vita hug höfðingja tiL þessa máls áður en fullnaðaðarákvörðun um ríkisstofnun væri tekin. Sagt er að Grímur hafi verið þrjú ár í þessu ferðalagi um landið og kæmi hann aftur erindi feginn, því að flestir eða allir höfðingjar hefðu verið málinu fylgjandi.
Og nú var komið að því, sem vandasamast var, að semja stjórnarskrá fyrir hið tilvonandi ríki. Og þá er Úlfljóti falið þetta vandaverk. Enginn aðili annar en Kjalarnesþing, var fær um að fela honum það. Þetta þing hafði tekið að sér forustu um stofnun allsherjarríkis og unnið að undirbúningi þess máls og þingmenn sjálfsagt komið sér saman um hvernig stjórnarskráin ætti að vera í höfuðdráttum. Það hafði ekki öðrum á að skipa að svo komnu máli, heldur en einhverjum af þingmönnum sínum. Og hver var þá líklegri til þess að verða fyrir vailnu, heldur en sjálfur lögsögumaðurinn — Úlfljótur. Hér virðast allar líkur benda í eina átt að Úllfljótur hafi átt heima á Úlfljótsvatni, eins og munnmælin herma; að hann hafi verið einn af þingmönnum Þorsteins Ingólfssonar; og verið kjörinn lögsögumaður Kjalarnessþings. Þetta gæti einnig stuðst við þessa frásögn Íslendingabókar: „Því nær tók Hrafn lögsögu Hæings sonur landnámamanns, næstur Úlfljóti“, því að Úlfljótur var aldrei lögsögumaður alþingis og væri hér bent til þess að hann hefði verið lögsögumaður Kjalarnessþings. Samkvæmt lögsögumannatali Ara fróða í Ísendingabók, hefir fyrsta alþingi 930 kosið Hrafn lögsögumann þegar er þingstörf gátu hafizt.

Þingvellir

Kjalarnesþing fól Úlfljóti að semja stjórnarskrána, en enda þótt höfðingjarnir þar hefðu komið sér saman um hvernig hún ætti að vera í aðalatriðum, hefir þeim þótt réttara að hafa hliðsjón af norskri löggjöf. Þess vegna fór Úlfljótur utan og er þrjá vetur í Noregi, kemur svo út með allsherjarlögin 929 og voru þau fyrst kölluð Úlfljótslög „en þau voru flest sett að því, sem þá voru Gulaþingslög eða ráð Þorleifs spaka Hörða-Káraasonar voru til, hvar við skyldi auka eða af nema eða annan veg setja“. — Svo sagði Teitur Ísleifsson biskups (Ísl. bók).
Næsta sumar var „alþingi sett að ráði Úljóts og allra landsmanna, þar sem nú er, en áður var þing á Kjaiarnesi“ (Ísl. bók). Á þessu orðalagi má sjá, að Kjalarnesþing hefir verið talið upphaf, eða fyrirrennari alþingis og samband þessara þinga svo náið, að rétt var að segja að Hrafn Hængsson tæki lögsögu næstur Úlfljóti, því að lögsögu Úlfljóts var lokið með stofnun alþingis. Hann var þá 63 ára að aldri og mun hafa dregið sig í hlé eftir þetta afrek og farið austur í Lón.
Þingnes
Reykvíkingar fá æðstu völd Á þessu fyrsta allsherjarþingi var skipuð fyrsta embættismannastétt landsins. Þá var landinu skipt í 36 goðorð og goðarnir voru héraðsstjórar hver í sínu umdæmi; þeir voru einnig þingmenn og dómarar á alþingi. Eitt goðorðið var framar öllum hinum og kallað allsherjargoðorð. Það var goðorð Reykvíkinga og fylgdi því það heiðursstarf að helga alþingi.
Þorsteinn Ingólfsson mun hafa helgað þetta fyrsta alþing og hefir þótt sjálfkjörinn til þess sem stofnandi Kjalarnessþings og frumkvöðull að stofnun alþingis. Sést hér enn sambandið milli þessara tveggja þinga. Síðan fylgdi helgun alþingis goðorði Reykvíkinga og hefir það verið sérstakur virðingarvottur við minningu fyrsta landnámsmannsins og til heiðurs Þorsteini syni hans fyrir að vera stofnandi fyrsta þings á Íslandi og driffjöðrin í stofnun alþingis.
Með nýju allsherjarlögunum varð lögsögumaðurinn forseti alþingis og helzti embættismaður hins nýja ríkis, því að framkvæmdavaldið var í höndum hans, eins og sést á því, er Ari fróði segir um Skafta Þóroddsson lögsögumann: „Á hans dögum urðu margir höfðingjar og ríkismenn sekir eða landlótta of víg eða barsmíðar af ríkis sökum hans og landstjórn“.

Ingólfur

Ingólfur Arnarsson – minnismerki á Arnarhóli í Reykjavík.

Fyrsti lögsögumaður alþingis varð Hrafn Hængsson og hefir það ef til vill verið af því að faðir hans og bræður hafi stutt drengilega stofnum alþingis.
Jón Sigursson telur að Hrafn muni hafa verið fæddur 879 og „ef til vill fyrsti maður, sem fæddur er á Íslandi“ (Safn til sögu Íslands I). Hafi svo verið, gat það nokkru ráðið um lögsögumannskjör hans, að mönnum hafi þótt vel við eiga að fyrsti innborni Íslendingurinn skipaði æðsta embætti á hinu nýja alþingi, þar sem hann var líka göfugur höfðingi og ættstór. Hrafn gegndi embættinu um 20 ár, eða fram til 950, en eftir það ráða Reykvíkingar lögsögumannskjöri allt fram að kristniöku og hafa því verið valdamestu menn landsins á þeim tíma.
Árið 950 tekur Þórarinn Raga bróðir við lögsögu, en hann var mægður Reykvíkingum, því að Ragi bróðir hans mun hafa verið kvæntur systur Þorsteins Ingólfssonar og búið í Laugarnesi. Þórarinn gegndi embættinu í 20 ár, fram til 970, en þá tekur við Þorkell máni sonur Þorsteins Ingólfssonar og gegnir því um 15 ára skeið. Þá tekur við Þorgeir Ljósvetningagoði, en þeir Þorkell máni voru að öðrum og þriðja og er sú ættfærsla þannig: Þorkell máni var sonur Þóru dóttur Hrólfs rauðskeggs á Fossi á Rangárvöllum, en móðir Þorgeirs Ljósvetningagoða var Þórunn dóttir Ásu Hrólfsdóttur rauðskeggs. Þorgeir andaðist tveimur árum eftir kristnitöku og þá gekk lögsögumannsstarfið úr ættum Reykvíkinga, en goðorði þeirra fylgdi enn lengi helgun alþingis.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. tbl. 06.07.1969, Kjalarnesþing og Alþingi hið forna, Árni Óla, bls. 6-7.
Þingnes