Tag Archive for: Austurengjahver

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var frá Grænavatni að Austurengjahver (Stórahver), um Vegghamra að Stóru-Eldborg, þaðan um Borgarhraun niður á Krýsuvíkurbjarg vestan við Bergsenda, eftir bjarginu (13 km) að Selöldu, upp að Arnarfelli og yfir að Bæjarfelli með viðkomu í Krýsuvíkurkirkju. Loks var haldið upp að Augum og hringnum lokað við Grænavatn.

Grænavatn

Grænavatn.

Krýsuvík er mikið jarðhitasvæði. Þar eru bæði leir- og gufuhverir en einnig sprengigígar. Stærsti sprengigígurinn á svæðinu er Grænavatn.
Í grein Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem nefnist Náttúruvernd og birtist árið 1950 í tímariti Náttúrurfræðingurinn segir hann m.a. frá Grænavatni:
„Suður í Krýsuvík er lítið stöðuvatn, Grænavatn, sem fengið hefur nafn af hinum sérkennilega græna lit vatnsins, er stafar af brennisteinssamböndum. Þetta litla vatn, nokkur hundruð metra breitt, en 45 metra djúpt, er myndað eftir ísöld, við eldgos, sem orðið hefur með sérkennilegum hætti, sem hér er ekki tími til að rekja. Meðal annars hafa í því gosi, sem myndaði vatnið, þeyst upp hraunkúlur, sem hafa gabbrókjarna, en bergtegundin gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi.

Grænavatn

Grænavatn.

Vatnið er óefað meðal merkustu náttúrurfyrirbrigða í sinni röð, og þar sem það liggur í sérkennilegu umhverfi, við þjóðveg, og ekki nema klukkutímakeyrslu frá höfuðstaðnum, kemur vart sá útlendur jarðfræðingur til landsins, að ekki sé keyrt með hann um um Krýsuvíkurveg og honum sýnt Grænavatn, og fjöldi annarra útlendinga fer um þann veg.”
Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.

Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Hafa þeir eflaust komið að Austurengjahver, en einnig í Hveradal (Seltún) og Baðstofu. Sveinn þórðarson segir frá því að bændur hafi í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby  brennisteinsnámurnar í Krýsuvík.

Seltún

Seltún – brennisteinn.

Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann.

Bora þurfti því eftir brennisteininum.  Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Rennsli er ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum.
Gengið var í syðri Kálfadalinn. Þar er fallegur hraunfoss, Víti. Haldið var yfir að Vegghömrum vestan Geitahlíðar, niður með henni og yfir að Stóru-Eldborg.
Eldborgir eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar árið 1987. Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Á leiðinni áleiðis niður á Krýsuvíkurbjarg um Litlahraun var rifjað upp ýmislegt um Krýsuvíkina. Hún er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarna kirkja og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogsósum þjónaði m.a. Krýsuvíkur prestakalli.
Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið 1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður var eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi.
KrýsuvíkurkirkjaMeð órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu. Þessi maður var Magnús Ólafsson.
Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938).

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.
Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.
Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010.
Spurður hvers vegna hann hafi ekki flutt til Hafnarfjarðar eftir að búskapur lagðist af á Nýjabæ svararði hann: “ Vinnan var stopul í Hafnarfirði og ég hafði meiri löngun til þess að hugsa um kindur heldur en að snapa eftir vinnu þar.“ Eitt sinn var Magnús spurður hvort ekki væri hann myrkfælinn á því að búa í kirkju og hafa kirkjugarð sem sinn næsta garð.

Ætlunin var að senda Magnús í verbúðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en á horfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík, á Nýjabæ.
Magnús bjó í kirkjunni í Krýsuvík sem var úr timbri og óþétt, svo óþétt að skór hans frusu oft á köldum vetrarnóttum. Kirkjan var 22×14 fet og svo lág að ekki var manngengt undir bita. Ekkert tróð var í veggjum, gólfið sigið og gisið.

„Myrkfælinn, – nei ég veit ekki hvað það er. Og óþarfi að óttast þá, sem hér liggja. Sumt af þessu hefur verið kunningjafólk mitt. Þeir gera engum manni mein, og ég hef aldrei orðið var við neina reimleika. Þeir dauðu liggja kyrrir.“
Magnús vann sem fjárhirðir hjá Árna sýslumanni og bjó í vestri enda bæjarins. Eftir að hann kvæntist Þóru Þorvarðardóttur, bjuggu þau bæði í vestri enda húsins ásamt öðru vinnufólki. Eftir að þau eignuðust börn, var þröngt í búi og bjuggu þau í Krýsuvík á Nýjabæ þar til elsta barnið var komið á skólaaldur og flutti þá frú Þóra Þorvarðardóttir til Hafnarfjarðar með börnin.

Magnús átti erfitt með að aðlagast bæjarlífinu í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þar dvaldi hann í 50 ár í og mestan hluta þeirra sem einbúi.
Tóft, sem blasti við efst á Krýsuvíkurheiði er ein minjanna um Magnús. Þar er sagt að hann hafi setið yfir sauðum á unga aldri að undirlægi Árna sýslumanns.
Skoðaðar voru minjarnar í Litlahrauni og síðan haldið vestur með Krýsuvíkurbjargi. Frábært útsýni er af bjargbrúninni svo til alla leiðina.
Skoðaðar voru minjarnar við Selöldu, upp við Arnarfell og kíkt inn í Krýsuvíkurkirkju áður en haldið var upp að Augunum. Þau eru tveir sprengigígar með vatni í, þó mun minni en Grænavatn. Þjóðvegurinn liggur milli þeirra.
Frábært veður – Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.islandsvefurinn.is/photo2.asp?ID=471
-http://hot-springs.org/krysuvik.htm
-http://saga.khi.is/torf/2002/nyibaer/
-http://www.landvernd.is/page3.asp?ID=1089

Graenavatn-221

Grænavatn.

Austurengjahver

Austurengjahver í Krýsuvík er stærsti gufuhver landsins. Hverinn varð til í jarðskjálfta 1924.
austurengjahver-992„Oft má sjá bronslitaða slikju eða skán með málmgljáa ofan á leir í leirhverum og samskonar skán ofan á leirugu vatni. Þetta efni er brennisteinskís. Í Austurengjahver á Krýsuvíkursvæði og leirpyttum norður af honum er slík skán áberandi. Hún breytist stundum í froðu sem flýtur ofan á vatninu. Brennisteinskís hefur eðlisþyngd nálægt 5 og þess vegna ekki við því að búast að hann fljóti á vatni eins og raunin er. Orsakarinnar er líklegast að leita í örsmáum loftbólum vetnis sem loða við brennisteinskísinn. Þetta vetni myndast þegar brennisteinsvetni í gufunni og járn í vatninu bindast og mynda brennisteinskís. Í hveraleir frá Krýsuvík hafa fundist tvær koparsteindir, langít, sem er koparsúlfat, og kóvellít, sem er koparsúlfíð (Stefán Arnórsson 1969). Kóvellít hefur einnig fundist í Námafjalli. Þegar langít fannst fyrst í Krísuvík fyrir miðja síðustu öld var það nefnt krýsuvigít. Seinni athuganir sýndu að hér var um að ræða koparsteindina langít.

brennisteinskis

Kóvellít er auðþekkt á svarbláum lit. Það finnst innan um hreinan brennistein. Þar sem kóvellít er að finna í brennisteini slær stundum á hann grænleitum blæ úr fjarlægð séð. Langít er einnig auðþekkt. Það finnst í gifshraukum. Á yfirborði er það að sjá sem svargrænar klessur en verður ljósgrænt í fersku brotsári. Hveraleir hefur verið notaður nokkuð hér á landi til leirmunagerðar. Hann er þó ekki hentugt hráefni vegna þess hve misleitur hann er og i litlu magni á hverjum stað. Ef brennisteinn er í leirnum myndast brennisteinstvíoxíð (S02) við brennslu hans. Það er skaðleg lofttegund og mjög tærandi, þannig að brennisteinn í leir gerir hann nánast ónothæfan til brennslu. Auk þess spillir vinnsla hveraleirs útliti jarðhitasvæða og náttúrulegum jarðhita.“
austurengjahver-993Eftirfarandi frásögn Brynjólfs Magnússonar um Krýsuvík er sagt frá aðdraganda að myndun Austurengjahvers. Frásögnin birtist í Íslendingi 1924.
„Ítarleg frásögn séra Brynjólfs Magnússonar um jarðskjálftana og leirhverinn nýja.
Á sunnudaginn var, 7. þ. m., fór eg til Krýsuvíkur til þess að halda þar guðsþjónustu, svo sem eg er við og við vanur á sumrum. Þegar upp í »hálsana« kom, miðja leið til Krýsuvíkur, mælti eg húsbóndanum þaðan. Heilsuðumst við fyrst og spurðumst almæltra tíðinda. Loksins segir hann eftir nokkra þögn: Ja, mikið hefir nú gengið á hjá okkur uppfrá í vikunni. 

austurengjahver-994

Jörðin hefir skolfið, björgin hrunið, landið rifnað og fram oltið reykjarmekkir og ólyfjan með dunum og dynkjum, svo helst leit út fyrir, að alt ætlaði að keyra um koll. Eg held eg geti ekki haldist við þarna lengur, ef þessu á fram að fara og vildi helst, að eg væri kominn í burtu með alt mitt. Eg gerði hæfilegan frádrátt í huga mínum, en sá þó á svip mannsins og alvörubragði að eitthvað merkilegt hafði komið fyrir og hann orðið fyrir merkum og óvenjulegum viðburðum. Við kvöddumst og eg hélt áfram leiðar minnar.
Þegar upp að Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ kom, heyrði eg sömu tíðindin af fólkinu, og sá, að því hafði öllu orðið meir og minna um, Jarðskjálftarnir austurengjahver-995höfðu staðið yfir meira og minna alla vikuna. En stærsti kippurinn hafði komið á fimtudaginn þ. 4. sept. Var fólk frá Stóra-Nýjabæ þá statt á engjum við heyvinnu suður af Kleifarvatni. Virtust því kippirnir koma frá suðvestri og ganga til norðausturs. Gekk jörðin sem í bylgjum, svo naumast varð staðið. Stóð maður við slátt og ætlaði að styðja sig við orfið, ei hann riðaði og féll aftur fyrir sig. Annar sat á engjum við kaffidrykkju, en alt í einu þeyttist alt kaffið upp úr bollanum, svo að hann hafði ekkert. Steinar hröpuðu úr fjöllunum umhverfis, sem kváðu við af dunum og dynkjum, svo kvikfénaður ærðist og hljóp um skelfdur í hnapp eða flúði í burtu af svæðinu, sem hann var á.

austurengjahver-996

Heima fyrir á bæjunum flúði fólkið út, sem þar var, með því að það hugði að þeir mundu hrynja. Ekki varð þó af því, en alt lauslegt féll niður af þiljum og hillum, og það sá eg, að grjót hafði kastast úr hlöðunum, grasgrónum veggjum og varpi sprungið fram á einum stað við kálgarðinn í Stóra-Nýjabæ. Eftir þennan stærsta jarðskjálftakipp tók fólkið eftir því, að reykurinn í gömlum hver, sem kallaður hefir verið Austurengjahver og er í norðaustur frá Stóra-Nýjabæ, svo sem 15—20 mínútna gang, hafði stórkostlega aukist.

austurengjahver-997

Hafði þarna áður verið smá uppgangur fytir jarðgufu og lítið tokið úr, en nú hefir myndast þar afarstór leirhver. Fór eg þangað að gamni mínu, áður en eg hóf hið eiginlega sunnudags starf mitt að tala til fólksins og fékk hinn bezta texta og ræðuefni til að minna á mikilleik náttúrunnar, en vanmátt mannanna og þörf fyrir örugt trúartraust á alvörustundum, er hún hamast með sínum blindu og tilfinningarlausu öflum.
Hverinn er eins og áður segir í norðaustur frá Nýjabæ, en þvert austur frá hverahúsinu gamla, svo sem 10 mínútna leið frá Krýsuvíkurveginum, er liggur úr Hafnarfirði. Er hann austanvert í stóru melholti í Krýsuvíkurdalnum, suður af Kleifarvatni og gufumökkurinn langa leið frá. — Hefir jörðin þar rofnað og myndast skál nokkuð aflöng, frá suðvestri til norðausturs, á að giska 4 X 8 faðma. Er skálin full að börmum af þykkri stálgrárri hveraleðju, sem líkist þykkum sjóðandi graut. Sér ekki ofan í skálina, nema endrum og sinnum fyrir gufunni, sem í sífellu brýst upp gegnum leðjuna með miklum hávaða og þeytir henni hátt upp í loftið, 2 — 3 mannhæðir, að því er mér virtist. Byrjar gufugosið með því, að leirleðjan bungar upp á stóru svæði í austurhluta hversins, svo af verður stór hálfkúla, líkt og hrokkinn, grár þursahaus gægist upp. Alt í einu springur hausinn með heljar andkafi og reykurinn þeytur upp í allar áttir hausbrotunum.
Svo taldist mér til að umbrot þessi austurengjahver-998eða gos endurtækjust 15 sinnum á mínútu. Ekki gýs annarstaðar í melholtinu svo teljandi sé, en víða eru op og augu kringum þennan aðal þursahver, sem rýkur upp úr. En þó ekki sé annað merkilegt en að hann hefir myndast við þennan síðasta jarðskjálfta, er hann vel þess verður, að gera sér ferð að skoða hann, fyrir þá, sem gaman hafa óvanalegum náttúrufyrirbrigðum og stórkostlegum. Og betri er hann en nokkurt »Bíó», og það sem mér heyrðist karlinn segja er hann rak upp hausinn í dagsljósið og flutti prédikun sína, fanst mér ólíkt áhrifameira, en mörg hver prédikun, er eg áður hefi heyrt hjá ofanjarðarklerkum, og það þó allandheitir hafi verið. Þar hafði sá orðið, sem skil kunni á hlutunum í neðri byggðum.“ – Reykjavík, 9. sept. 1924. Brynjólfur Magnússon.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 50. árg., 3.-4. tbl., bls. 176.
-Náttúrufræðingurinn, 66. árg. 1996-1997, 3.-4. tbl.bls. 189-190.
-Íslendingur, 10. árg. 1924, 40. tbl., bls. 2-3.
-Heimskringla, 61. árg. 1946-1947, 15. tbl. bls. 5.

Austurengjahver

Við Austurengjahver.

Austurengjar

Í Viðauka 66 af 92 við skýrslu Orkustofnunar OS-2015/04 – Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar, er fjallað um Austurengjar í Krýsuvík. Í Viðaukanum segir m.a.:

Austurengjar

Austurengjar.

„Austurengjar er hluti af mjög stóru jarðhitasvæði sem kennt hefur verið við Krýsuvík. Frá 2006 hefur HS Orka haft rannsóknarleyfi á öllu svæðinu til 10 ára. Margs konar yfirborðsrannsóknum má heita lokið. Næsta skref rannsókna er borun djúpra rannsóknarholna, en holurnar eru nauðsynleg forsenda fyrir mati á orkugetu svæðisins og til að afla upplýsinga um eðliseiginleika sjálfs jarðhitakerfisins eins og hita, þrýsting og lekt.
Austurengjar voru flokkaðar í biðflokk í Rammaáætlun 2, valkostur nr. 67 sbr. kort Rammaáætlunar. Miðað við núverandi skilgreiningu biðflokks er ekki unnt að bora rannsóknarholur á svæðinu, sem kemur í veg fyrir frekari rannsóknir þess.

Austurengjar

Hveraummyndanir á Austurengjum.

HS Orka gerir ráð fyrir að nýta jarðvarma úr Austurengjum fyrir jarðvarmavirkjun til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni. Gert er ráð fyrir að svæðið verði virkjað í áföngum, byggt á niðurstöðum jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknum, rannsóknarborunum og auðlindamati. Áætlaðar helstu kennistærðir slíkrar virkjunar eru í töflu 1. Ef vilji er til þess af hálfu sveitafélags eða sveitarfélaga sem fara með skipulagsvald á svæðinu mætti gera ráð fyrir því í hönnun virkjunar að upphitun grunnvatns yrði möguleg fyrir staðbundna hitaveitu t.d. fyrir stóran notanda og/eða smærri notendur sem kysu nálægð við orkuver.

Jarðhiti

Viðnámsþversnið niður á 4 km dýpi frá Höskuldarvöllum, undir Trölladyngju, Móhálsadal, Sveifluháls og austur fyrir Kleifarvatn. Miðja háhitasvæðisins er undir Móhálsadal.

Umræða um heildstæða nýtingu Krýsuvíkursvæðisins hefur m.a. snúist um að á því væri unnt að byggja upp virkjanakerfi sem gæti framleitt heitt vatn fyrir notendur á höfuðborgarsvæðinu þ.e.a.s. því svæði sem Nesjavalla- og Hellisheiðavirkjun sjá fyrir heitu vatni. Með þessu fyrirkomulagi yrði afhendingaröryggi heits vatns aukið til muna komi t.d. til umbrota á Hengilssvæðinu.

Reykjanesskagi

Virkjanir og virkjanakostir á Reykjanesskaga.

Svæðið sem hér er kennt við Austurengjar er í lögsögu tveggja sveitarfélaga, Grindavíkur norðan til en Hafnarfjarðar sunnan til. Austurhluti svæðisins er undir Kleifarvatni sunnanverðu og þar suður af, undir Sveifluháls og Móhálsadal að Trölladyngjusvæðinu og þaðan suður af að mörkum þess svæðis sem við kennum við Sveifluháls. Krýsuvíkurvegurinn liggur með Sveifluhálsi austanverðum, fær hvers kyns farartækjum, en slóðar annars staðar.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Sveifluháls er um 15 km langur goshryggur, samsettur úr nokkrum móbergshryggjum sem gusu undir jökli. Þeir elstu sýna lítilsháttar jarðhitaummyndun á yfirborði en þeir yngri ekki nema þar sem virkur eða nýlega kulnaður yfirborðshiti hefur leikið um móbergið. Hveravirkni er við og í Kleifarvatni sunnanverðu og í sprungurein þar suður af kenndri við Austurengjar. Vestan Sveifluháls er lítilsháttar jarðhitaummyndun sjáanleg í Köldunámum og Folaldadal, um 10 m2 99°C, heit hitaskella finnst út í hrauni þar vestur af. Vegslóði liggur frá Undirhlíðum suður um Móhálsadal að Djúpavatni. Slóðinn er rútufær en þarfnast styrkingar til að flytja stærri tæki, s.s. bor. Vatn til rannsóknarborunar vestan við Sveifluháls mætti sækja í Djúpavatn, og leita mætti eftir köldu grunnvatni með 150-200 m djúpum holum í Móhálsdal norðanverðum. Austan megin er skolvatn til borana auðsótt í Kleifarvatn.

Seltún

Seltún.

Austurengjar eru innan marka Reykjanesfólkvangs. Í reglum um Reykjanesfólkvang sbr. Stjórnartíðindi B, nr. 520/1975, segir m.a.: „Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi“.
Stjórn fólkvangsins hefur látið vinna ágætis lýsingar á almennri jarðfræði, gróðurfari, dýralífi, mannvistarleifum og fleira innan fólkvangsins og er vísað til þeirra hér (Sigrún Helgadóttir, 2004; Hildur A. Gunnarsdóttir, ritsj. 2008). Mýrlendið austan þjóðvegar suður af Kleifarvatni hefur þar nokkra sérstöðu hvað gróður, dýralíf og verndargildi varðar, enda eina mýrlendið á Reykjanesskaganum. Þar eru hross frá Sörla höfð í sumarbeit í afgirtu landi.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Suðaustanvert við Kleifarvatn eru rofnir og hálfgrónir móbergshálsar og liggur slóði yfir þá næst Kleifarvatni. Vestan Kleifarvatns er norðurhluti móbergshryggjarins Sveifluháls mest áberandi, með háreista móbergskolla, skörðótta tinda, klettabelti og skriður, með stöku gróðurtorfum og lynghvömmum hér og þar. Vestan Sveifluháls í Móhálsadal er helluhraunsbreiða mest áberandi. Ekkert undirlendi er meðfram Kleifarvatni vestanverðu.
Í matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar um borteig fyrir rannsóknarboranir neðan Hveradals er aðstæðum lýst á svæðinu og þar sem Austurengjar eru í nágrenni þess svæðis eiga lýsingar á ýmsum umhverfisþáttum í fyrirspurninni við um svæðið við Austurengjar. Greinargerð matskyldufyrirspurnar er fylgiskjal með innsendum gögnum HS Orku hf.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Svæðið sem hér er kennt við Austurengjar nær yfir norðaustur hluta háviðnámskjarnans sem skilgreindur hefur verið með viðnámsmælingum á Krýsuvíkursvæðinu. Miðja svæðisins er í Móhálsadal.
Veruleg skjálftavirkni hefur verið á Krýsuvíkursvæðinu öðru hverju allt frá síðustu aldamótum og þaðan af fyrr. Umtalsvert landris og sig með miðju í Móhálsadal hefur komið fram. Skjálftarnir koma í hrinum sem vara í nokkra dag, en fjöldi þeirra hefur verið meiri austan til á svæðinu. Þar af voru nokkrir skjálftar yfir 5 að stærð. Nokkur virknibreyting hefur sést á hverasvæðunum, einkum ofan við Seltún, en jafnframt komu hverir við suðurenda Kleifarvatns undan vatni er vatnsborð Kleifarvatns lækkaði um nokkra metra í kjölfar aldamótaskjálftans. Ekki hefur tekist að tengja landris eða skjálfta við bráðið berg eða kvikuinnskot undir svæðinu.

Seltún

Seltún.

Rannsóknir og boranir á Krýsuvíkursvæðinu hafa verið talsverðar gegnum tíðina og er þeim lýst nánar í lýsingu HS Orku á Sveifluhálsi fyrir Rammaáætlun 3. Eitt af því sem einkenndi hitaferlana í mörgum þessara holna var viðsnúningur þeirra þ.e.a.s. holurnar voru heitastar á 200-500 m dýpi en kaldari þar fyrir neðan og því ekki fýsilegar til virkjunar. Mælingarnar benda til þess að jarðhitakerfið hitni aftur þegar neðar dregur, einkum nær miðju uppstreymisrása. Rannsóknaboranir munu gefa upplýsingar um á hvaða dýpi kerfið byrjar að hitna aftur og hversu hratt það hitnar og þar með skapast grundvöllur til þess að meta vinnslugetu svæðisins. Eins og sjá má í töflu 2 voru fyrstu 4 holurnar sem boraðar voru á sínum tíma innan Austurengjareinar, 1941-1945, og ein 816 m djúp hola 1971.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Staðsetning og stefna 2-3 km djúpra rannsóknarholna HS Orku er ætlað að skera úr um hita og lekt á 1-3 km dýpi. Á Austurengjasvæðinu hefur HS Orka enn sem komið er einungis ráðgert boranir frá hugsanlegum borteigum fyrir stefnuboraðar rannsóknarholur, annar vegar við Kleifarvatn og hins vegar við Köldunámur. Skolvatn til borana yrði sótt í Kleifarvatn í fyrra tilvikinu. Algengt er að efstu 700-1000 m háhitasvæða séu fóðraðir af með steyptum stálfóðringum og að jarðhitavökvi sé unnin úr dýpri jarðlögum. Borun djúpra rannsóknarholna er frumforsenda hvers kyns orkunýtingar á Austurengjasvæðinu.

Austurengjar

Á Austurengjum.

Austurengjareinin sjálf er 5-6 km löng og um 1 km á breidd, eða um 6 km2 að flatarmáli í heild ef nýtanlegur jarðhiti væri eingöngu bundinn við þá rein. Óvissa er um stærðarmatið/orkugetuna án rannsóknarborana, en jarðhitaleit með borunum myndi þó klárlega beinast að reininni sjálfri fremur en jöðrum hennar. Vegna umhverfis- og verndarsjónarmiða væri auðveldast að skoða orkugetu Austurengjareinarinnar með því að teygja sig inn í reinina með stefnuboraðri holu frá vatnsbakka Kleifarvatns suður af Syðristapa. Vestan Sveifluháls væri eðlileg staðsetning fyrstu rannsóknarholu nærri Köldunámum.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Nýtingarsvæði Austurengja liggur að áætluðum nýtingarsvæðum Sveifluháls í suðri og Trölladyngju í vestri. Iðnaðarsvæði og framkvæmdasvæði yrðu innan nýtingarsvæðisins og lega þeirra háð samþykki skipulagsyfirvalda. Ekki er hægt að afmarka framkvæmda- og iðnaðarsvæðið á þessu stigi þar sem það ræðst af niðurstöðum rannsóknarboranna.

Austurengjar

Minjar á Austurengjum.

Áður en vinnsla hæfist úr jarðhitasvæði Austurengja yrði gert reiknilíkan fyrir jarðhitakerfið, byggt á þeirri þekkingu sem þá liggur fyrir. Spár verða gerðar um þrýstingslækkun í jarðhitakerfinu fyrir áætlaða vinnslu. Þessar spár verða bornar undir leyfisveitendur eins og Orkustofnun varðandi gildandi kröfur, til dæmis um sjálfbærni. Mögulegar mótvægisaðgerðir yrðu reifaðar í mati á umhverfisáhrifum, umsókn um nýtingar- og virkjunarleyfi og samráð haft við leyfisveitendur.

Austurengjar

Austurengjar.

Jarðhitavökvi á Austurengjasvæðinu er líklegast ferskvatn að uppruna og samsvarar því þeim jarðhitavökva sem algengur er á öðrum jarðhitasvæðum inn til landsins, rannsóknaboranir munu staðfesta það. Vegna staðhátta á Austurengjasvæðinu verður að vanda til vals á niðurdælingarsvæði. Ekki verður myndað lón við Austurengjar, en mögulega þyrfti þró á iðnaðar- og framkvæmdasvæði virkjunar sem gæti tekið við affalli við stýringu, prófanir eða bilun virkjunar.

Austurengjar

Austurengjar.

Líklega verður orkuvinnsla byggð upp í áföngum og holufjöldi því algerlega háður stærð hvers áfanga. Hér er miðað við að hægt yrði að reisa allt að 100 MWe virkjun á nýtingarsvæðinu, því þyrfti að reikna með að bora þyrfti minnst 20 vinnsluholur og 3-4 niðurdælingarholur fyrir virkjun þessa afls. Ef gert er ráð fyrir að einhverjar holur geti ekki nýst virkjun gæti holufjöldinn í byrjun hækkað um 3-5 holur miðað við almenna tölfræði fyrir rannsóknarboranir á Íslandi. Ómögulegt er að segja fyrirfram til um fjölda uppbótarholna sem þyrfti til að halda fullu afli virkjunar yfir ætlaðan líftíma hennar því það byggir á rekstrarforsendum virkjunar og viðbrögðum viðkomandi jarðhitakerfis. Þannig útreikningar verða hins vegar gerðir þegar niðurstöður rannsóknarborana liggja fyrir, framkvæmdalýsing sett í mat á umhverfisáhrifum og sótt verður um nýtingar- og virkjanaleyfi.

Austurengjar

Stóri-Stampur (sprengigígur) við Austurengjar.

Framkvæmdasvæði getur stækkað nokkuð þegar fjarlægð að niðurdælingarsvæði eykst. Fyrir Austurengjar er reiknað með að borholur yrðu á nokkrum afmörkuðum borteigum sem dregur úr yfirborðsröskun, en á móti gæti komið aukin fjarlægð til niðurdælingaholna. Vegna þessa er hér áætlað að framkvæmdasvæði gæti orðið allt að 6 km2.

Heimild:
-Austurengjar í Krýsuvík: Viðauki 66 af 92 við skýrslu Orkustofnunar OS-2015/04 – Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar.
Austurengjar

Austurengjar og nágrenni – jarðhitasvæði í Krýsuvík.

Austurengjahver

Ætlunin var að skoða umhverfi Austur-Engjahvers (Nýjahvers / Engjahvers), sem birtist skyndilega með eftirminnilegum látum nótt eina árið 1924 – og er enn að. Svo mikil var krafturinn í nýmynduninni að stór stór steinn, sem staðið hafði syðst í Austur-Engjum, tókst á loft og kom ekki niður fyrr en allnokkru sunnar.

Leirhver við Austurengjahver

Um er að ræða eitt virkasta hverasvæði landsins. Áhugi hefur verið að virkja svæðið til raforkuframleiðslu. Við Austurengjar er örnefnið Seljamýri, líkt og í Seltúni og sunnan Hvammahryggs er Litla-Nýjabæjarhvammur. Um hann segir svo; „Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð“. Skv. lýsingum af svæðinu munu vera leifar selja á a.m.k. þremur stöðum. Þarna eru og ummerki eftir Austurengjagötuna og Vesturengjastíginn.
Eftir að hafa skoðað selrústina í Seltúni var gengið var upp frá Grænavatni, sem er sprengigígur. Aðrir minni slíkir sjást sunnan við vatnið, svonefndir Stampar. Framundan var Tindhóll. Við hann komu Engjagöturnar saman. Vaðlalækur kemur úr hlíðinni norðan Tindhóls. Haldið var yfir Vesturengjahæð og upp á Öldur. Þá sást að Austurengjahver og yfir Austur-Engin. Mikil gróðureyðing hefur orðið þarna á seinustu áratugum, einkum syðst á Engjunum og í hlíðum.
Eftir að hafa skoða hverasvæðið var sest niður og fyrirliggjandi heimildir um hann sem og nágrennið skoðaðar.

Við AusturengjahverÍ örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a. um göngusvæðið: „
Norður frá Nýjabæ, austan nýja vegar, er vatn það, sem heitir Grænavatn. Norðan þess tekur svo við láglendi og graslendi norður að Kleifarvatni, sem er allstórt vatn með allmerka sögu, en ekki fullrannsakaða og því ekki til umræðu hér. Svæðið þarna á milli má segja, að sé engjar og þá með ýmsum nöfnum. Fyrst má þá segja, að upp af þessum bæjum gengur hæðarrani fram í graslendið, sem skiptir engjunum í Vestur-Engjar og Austur-Engjar. Hæðarrani þessi heitir Litla-Lambafell nyrzt, og aðskilið af smálægð er þar norðar Stóra-Lambafell. Bezt er, áður en farið er lengra, að setja númer á það, sem varð eftir heima í Krýsuvík.“
Þá segir: „
Nokkuð norðaustur frá Grænavatni, uppi í hæðinni, er svonefndur Austur-Engjahver. Var þar lítill vatnshver, en 1924 myndaðist þar stór leirhver, sem svo heldur nafninu. Austan við þennan hver heita Ásar.
Á engjunum er þá fyrst næst Stóra-Nýjabæ, Giltungur (líklega er það, áður en komið er á engjarnar). Þá er Höfði og Höfðamýri og Kringlumýri. Allt er þetta á Austurengjunum, sem fyrr eru nefndar.

Við Austurengjahver

Sá hluti engjanna, sem næst liggur vatninu að sunnan, heitir Nýjaland, og skiptist það í Innra-Nýjaland og Fremra-Nýjaland. Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjastykki þessi liggja stundum undir vatni, svo árum skiptir. Það, sem skiptir þeim í Fremra- og Innra-Nýjaland, er malarhryggur mjór, sem liggur til vesturs frá norðurenda Hvammholts. En holt það er við suðurenda vatns austanverðan. Meðfram vatninu vestan holtsins eru svo Hvammar, engjastykki. Fremra-landið er miklu lengur slægt en hitt.“
Annars er örnefnalýsing þessi ótrúlega nákvæm. Það átti eftir að koma í ljós eftir að svæðið hafði verið gengið. Auk þessa var örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar af svæðinu höfð til hliðsjónar. Saman gáfu þær mjög heilstæða mynd af, að því er virtist, annars nafnvana svæði. Með því að nota örnefnalýsingarnar og fylgja þeim í hvívetna fæddust ótrúlega margar nefnur á leiðinni, hvort sem um var að ræða hóla, lægðir gil, læki, flatir eða minjar.
Í örnefnalýsingu Gísla segir m.a.: „
Austur frá Stóra-Nýjabæ eða nánar tiltekið austur frá Dýjakrókum eru Ásarnir. Þar upp af er Dagmálavarðan.
Við AusturengjahverAustur og upp frá Stóra-Nýjabæ lá Austurengjagatan meðfram Dýjakrókum og vestan til við Tindhólsgil um Tindhólsbrekku sunnan undir Tindhól móbergshól nokkrum strýtum. Héðan lá leiðin um Öldurnar sunnanhalt við Austurengjahver, Engjahver eða Nýjahver eins og hann var kallaður 1924, er hann kom upp eftir jarðskjálfta í Krýsuvík. Þá tóku við Austurengjarnar, sem munu hafa tilheyrt Nýjabæjunum að mestu eða öllu. Þar voru Nýjabæjarengjar. Þrætustykki. Kringlumýrar tvær, Kringlumýrin efri og Kringlumýrin neðri og þá Seljamýri. Suður frá Engjunum var Litla-Fell. Hveralækurinn eða Austurengjalækur rann norðan mýranna með Litla-Lambafelli og niður milli þess og Stóra-Lambafells um Grófirnar og nefndist þá Grófarlækur.
Þegar Krýsuvíkurgatan kemur austur um Réttarholtið og reyndar alveg að heiman frá Krýsuvíkurbæ, nefnist hún Vesturengjavegur eða Vesturengjastígur. Liggur hér áfram upp lágt holt milli þriggja tjarna lítilla, sem nefnast Augu (308). Þjóðvegurinn liggur nú milli tveggja. Hér litlu ofar og austar er komið að Grænavatni. Kring um það að norðan, vestan og sunnan eru Grænavatnsmelar. Að því liggja Grænavatnsbakkar klettastallar. Suður frá Grænavatni eru alldjúpir bollar, nefnast Stampar. Stóri Stampur og Litli Stampur grösugir og þar hafði fólk í Krýsuvíkurhverfi trú á að yxu lifgrös betri, en annarsstaðar. Á austurbakka Grænavatns er skarð, þar fellur inn lækur vatnslítill, nefnist Flóðalækur. Hann kemur úr Flóðunum, sem eru vestasti hluti Vesturengjasvæðisins, sem liggur milli Lambafellanna og Hálsins að norðan. Austasti hluti flóðanna nefnist Teitsflóð. Sunnan flóðanna upp undir holtinu og Lambafelli Litla voru engjasvæði, nefndust Teigarnir, Álfsteigur neðri með holtinu, og Álfsteigur efri norðan í fellinu. Þá er Grófarteigur  vestan Grófarlækjar. En austan Grófarlækjar voru Gullteigur neðri og Gullteigur efri og liggja vestan í Stóra-Lambafelli. En Grófarlækurinn fellur austur undir hlíðum fellsins. Af Grænavatnsmelnum liggur Vesturengjastígurinn upp nokkuð og austur. Þar er komið að svo kölluðum Vöðlum og lækur kemur ofan úr dölunum og nefnist Vaðlalækur og rennur niður í Flóðin.

Við Austurengjahver

Þegar yfir Vaðlana kemur tekur við Vesturengjahæð með Vesturengjamóa eða Engjamóa og nær þetta svæði allt að Fúlapolli eða Leirpolli. Þá er komið í Seltún, Seltúnslækur skiptir Seltúni. Vestan við hann eru Seltúnsbörð. Á Seltúnslækjarbakka vestari stóð í eina tíð Námahúsið. Frá Fúlapolli rennur vatn lítill lækur, nefnist Svuntulækur. Neðarlega á engjunum tengist hann, rennur hann saman við Seltúnslæk. Myndast þarna engjateigur, sem nefnist Svunta. Neðan við þetta engjasvæði er Suðurkotsnes og Gvendarrimi. Austan við Seltúnslæk, sem einnig er kallaður Engjalækur, er Vesturengjalækur, er engi, er nefnist Flatengi og liggur niður með læknum. Þar neðst er svo Norðurkotsnes. Lengra niður með læknum er mikið land sem fer undir vatn þegar vex í Kleifarvatni, en kemur undan því er út fjarar, og var þarna oft gott slægjuland. Svæði þetta var nefnt Nýjaland. Að austan takmarkast það af Rifinu lágu sandrifi, sem þó fór ekki í kaf er flæddi. Við syðri hluta Rifsins var Refanes. Suður og upp frá Nýjalandi voru svo Hvammarnir, Stórihvammur, með Laugina, öðru nafni Hvammalaug og Hvammagil.

Við Austurengjahver

Hér í hvamminum hafa skátar frá Hafnarfirði byggt sér Skátaskála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Selgil kemur ofan úr Selásum eða Selhæðum og Selgilslækur nefnist hann.“
Þar sem horft var yfir Austurengjahverasvæðið þótti við hæfi að draga eftirfarandi upplýsingar fram í sólarljósið:
Skipulagsstofnun gaf fyrir stuttu úrskurð um fyrirhugaða Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi. Í raun gildir framangreindur úrskurður um öll lítt eða óröskuð svæði Reykjanesskagans. Við sérhvert þeirra eru bæði landslagsheildir sem og/eða friðuð nútímahraun. Og á hvaða svæði skagans myndi slík virkjun ekki hafa „verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu, þar sem um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins“?
Austurengjahverasvæðið í Krýsuvík er ágætt dæmi um óraskað hverasvæði hér á landi, í nánd við þéttbýli.
Um er að ræða háhitasvæði. Vestan við svæðið eru nokkrir hverasprengigígar, sem reyndar eru algengir á háhitasvæðum. Þeir verða til þegar vatn hvellsýður á litlu dýpi.
Hverabollarnir eru fáeinir metrar á dýpt og 30 til vel yfir 50 m í þvermál þeir stærstu. Nokkur nýleg dæmi eru um hverasprengingar,  sem allar hafa orðið í tengslum við jarðskjálfta, s.s. nefndur Austurengjahver í Krýsuvík) og þá á upptaka-sprungunum.
„Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C.

Við Austurengjahver

Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.“
Við Austur-Engjar er mikil litadýrð og hveraummyndanir. Þar er votlendisvæði sem er hallamýri. Grófarlækurinn, sem rennur langsum eftir miðju engjasvæðinu hefur í raun ræst engin fram . Vestur-Engjar eru samfellt votlendi sem ekki hefur verið ræst fram, enda flatmýri.
Við Austur-Engjar er leirhver, gufuhver,  vatnshver, brennisteinsútfellingar, heit jörð og gufuaugu,  jarðhitagróður og hveramýri norðar með Grófarlæknum.
Hverinn myndar allstóra hveratjörn upp í hæðinni austan við Litla–Lambafell. Jarðhitinn er að mestu bundinn við tiltölulega afmarkað umhverfis hverinn. Stór vatnshver er í vestur jaðri tjarnarinnar en einnig eru leirhverir og gufuaugu til staðar.
Á svæðinu er mikið um hveraleir og ummyndanir. Hitinn í vatnshvernum mældist um 50°C og er vatnið súrt (pH 2.5). Við gufuaugu á vatnsbakkanum var hiti við suðumark og eru víða brennisteinsútfellingar við þau. Þegar svæðið var skoðað var vatnsborð óvenju lágt og því sáust leirhverir sem höfðu verið undir vatni. Afrennsli úr hveratjörninni rennur til norðurs. Ekkert var sjáanlegt rask af mannavöldum.

Tóft suðvestan við Engjasvæðin

Haldið var áfram niður með Austurengjalæk (Grófarlæk) og stefnan tekin að Nýjabæjarhvammi. Þarna raða engjateigarnir sér undir Ásunum; Nýjabæjarengjar, Kringlumýri, Seljamýri, Nýjabæjarengjar og Gullteigar. Engja seljarúst var að sjá við Seljamýrina. Ekki heldur í Nýjabæjarhvammi. Ef rúst hefur verið í Seljamýri gæti lækurinn hafa grafið undan henni eða lækur úr gili ofan mýrarinnar fært hana í kaf með framburði sínum, en hann virðist hafa verið iðinn við að draga mold ofan úr hlíðinni. Varðandi selrústina við Nýjabæjarhvamm, nokkru norðar, er sennilega um prentvillu að ræða í örnefnalýsingunni því slíka rúst er að finna „norðan“ við Hvammahrygg, eins og honum hefur verið lýst.
Í bakaleiðinni var Austurengjagötunni fylgt með Tindhól niður að Stóra-Nýjabæ. Nefndri Dagmálavörðu austan við bæinn var ekki fyrir að fara lengur – nema hún hafi verið uppréttur stór steinn á holtinu. Uppi á honum vatr steinn og aðrir fallnir lágu hjá. Lokst var skoðuð rúst í gróinni lægð sunnan við Stampa. Hugsanlegt er að þar hafi verið hjáleigan Fell.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Krýsuvík.
-Kristján Sæmundsson.

Við Austurengjalæk (Grófarlæk) - Stóra-Lambafell fjær

Tag Archive for: Austurengjahver