Austurengjahver í Krýsuvík er stærsti gufuhver landsins. Hverinn varð til í jarðskjálfta 1924.
“Oft má sjá bronslitaða slikju eða skán með málmgljáa ofan á leir í leirhverum og samskonar skán ofan á leirugu vatni. Þetta efni er brennisteinskís. Í Austurengjahver á Krýsuvíkursvæði og leirpyttum norður af honum er slík skán áberandi. Hún breytist stundum í froðu sem flýtur ofan á vatninu. Brennisteinskís hefur eðlisþyngd nálægt 5 og þess vegna ekki við því að búast að hann fljóti á vatni eins og raunin er. Orsakarinnar er líklegast að leita í örsmáum loftbólum vetnis sem loða við brennisteinskísinn. Þetta vetni myndast þegar brennisteinsvetni í gufunni og járn í vatninu bindast og mynda brennisteinskís. Í hveraleir frá Krýsuvík hafa fundist tvær koparsteindir, langít, sem er koparsúlfat, og kóvellít, sem er koparsúlfíð (Stefán Arnórsson 1969). Kóvellít hefur einnig fundist í Námafjalli. Þegar langít fannst fyrst í Krísuvík fyrir miðja síðustu öld var það nefnt krýsuvigít. Seinni athuganir sýndu að hér var um að ræða koparsteindina langít.
Kóvellít er auðþekkt á svarbláum lit. Það finnst innan um hreinan brennistein. Þar sem kóvellít er að finna í brennisteini slær stundum á hann grænleitum blæ úr fjarlægð séð. Langít er einnig auðþekkt. Það finnst í gifshraukum. Á yfirborði er það að sjá sem svargrænar klessur en verður ljósgrænt í fersku brotsári. Hveraleir hefur verið notaður nokkuð hér á landi til leirmunagerðar. Hann er þó ekki hentugt hráefni vegna þess hve misleitur hann er og i litlu magni á hverjum stað. Ef brennisteinn er í leirnum myndast brennisteinstvíoxíð (S02) við brennslu hans. Það er skaðleg lofttegund og mjög tærandi, þannig að brennisteinn í leir gerir hann nánast ónothæfan til brennslu. Auk þess spillir vinnsla hveraleirs útliti jarðhitasvæða og náttúrulegum jarðhita.”
Eftirfarandi frásögn Brynjólfs Magnússonar um Krýsuvík er sagt frá aðdraganda að myndun Austurengjahvers. Frásögnin birtist í Íslendingi 1924.
“Ítarleg frásögn séra Brynjólfs Magnússonar um jarðskjálftana og leirhverinn nýja.
Á sunnudaginn var, 7. þ. m., fór eg til Krýsuvíkur til þess að halda þar guðsþjónustu, svo sem eg er við og við vanur á sumrum. Þegar upp í »hálsana« kom, miðja leið til Krýsuvíkur, mælti eg húsbóndanum þaðan. Heilsuðumst við fyrst og spurðumst almæltra tíðinda. Loksins segir hann eftir nokkra þögn: Ja, mikið hefir nú gengið á hjá okkur uppfrá í vikunni.
Jörðin hefir skolfið, björgin hrunið, landið rifnað og fram oltið reykjarmekkir og ólyfjan með dunum og dynkjum, svo helst leit út fyrir, að alt ætlaði að keyra um koll. Eg held eg geti ekki haldist við þarna lengur, ef þessu á fram að fara og vildi helst, að eg væri kominn í burtu með alt mitt. Eg gerði hæfilegan frádrátt í huga mínum, en sá þó á svip mannsins og alvörubragði að eitthvað merkilegt hafði komið fyrir og hann orðið fyrir merkum og óvenjulegum viðburðum. Við kvöddumst og eg hélt áfram leiðar minnar.
Þegar upp að Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ kom, heyrði eg sömu tíðindin af fólkinu, og sá, að því hafði öllu orðið meir og minna um, Jarðskjálftarnir höfðu staðið yfir meira og minna alla vikuna. En stærsti kippurinn hafði komið á fimtudaginn þ. 4. sept. Var fólk frá Stóra-Nýjabæ þá statt á engjum við heyvinnu suður af Kleifarvatni. Virtust því kippirnir koma frá suðvestri og ganga til norðausturs. Gekk jörðin sem í bylgjum, svo naumast varð staðið. Stóð maður við slátt og ætlaði að styðja sig við orfið, ei hann riðaði og féll aftur fyrir sig. Annar sat á engjum við kaffidrykkju, en alt í einu þeyttist alt kaffið upp úr bollanum, svo að hann hafði ekkert. Steinar hröpuðu úr fjöllunum umhverfis, sem kváðu við af dunum og dynkjum, svo kvikfénaður ærðist og hljóp um skelfdur í hnapp eða flúði í burtu af svæðinu, sem hann var á.
Heima fyrir á bæjunum flúði fólkið út, sem þar var, með því að það hugði að þeir mundu hrynja. Ekki varð þó af því, en alt lauslegt féll niður af þiljum og hillum, og það sá eg, að grjót hafði kastast úr hlöðunum, grasgrónum veggjum og varpi sprungið fram á einum stað við kálgarðinn í Stóra-Nýjabæ. Eftir þennan stærsta jarðskjálftakipp tók fólkið eftir því, að reykurinn í gömlum hver, sem kallaður hefir verið Austurengjahver og er í norðaustur frá Stóra-Nýjabæ, svo sem 15—20 mínútna gang, hafði stórkostlega aukist.
Hafði þarna áður verið smá uppgangur fytir jarðgufu og lítið tokið úr, en nú hefir myndast þar afarstór leirhver. Fór eg þangað að gamni mínu, áður en eg hóf hið eiginlega sunnudags starf mitt að tala til fólksins og fékk hinn bezta texta og ræðuefni til að minna á mikilleik náttúrunnar, en vanmátt mannanna og þörf fyrir örugt trúartraust á alvörustundum, er hún hamast með sínum blindu og tilfinningarlausu öflum.
Hverinn er eins og áður segir í norðaustur frá Nýjabæ, en þvert austur frá hverahúsinu gamla, svo sem 10 mínútna leið frá Krýsuvíkurveginum, er liggur úr Hafnarfirði. Er hann austanvert í stóru melholti í Krýsuvíkurdalnum, suður af Kleifarvatni og gufumökkurinn langa leið frá. — Hefir jörðin þar rofnað og myndast skál nokkuð aflöng, frá suðvestri til norðausturs, á að giska 4 X 8 faðma. Er skálin full að börmum af þykkri stálgrárri hveraleðju, sem líkist þykkum sjóðandi graut. Sér ekki ofan í skálina, nema endrum og sinnum fyrir gufunni, sem í sífellu brýst upp gegnum leðjuna með miklum hávaða og þeytir henni hátt upp í loftið, 2 — 3 mannhæðir, að því er mér virtist. Byrjar gufugosið með því, að leirleðjan bungar upp á stóru svæði í austurhluta hversins, svo af verður stór hálfkúla, líkt og hrokkinn, grár þursahaus gægist upp. Alt í einu springur hausinn með heljar andkafi og reykurinn þeytur upp í allar áttir hausbrotunum.
Svo taldist mér til að umbrot þessi eða gos endurtækjust 15 sinnum á mínútu. Ekki gýs annarstaðar í melholtinu svo teljandi sé, en víða eru op og augu kringum þennan aðal þursahver, sem rýkur upp úr. En þó ekki sé annað merkilegt en að hann hefir myndast við þennan síðasta jarðskjálfta, er hann vel þess verður, að gera sér ferð að skoða hann, fyrir þá, sem gaman hafa óvanalegum náttúrufyrirbrigðum og stórkostlegum. Og betri er hann en nokkurt »Bíó», og það sem mér heyrðist karlinn segja er hann rak upp hausinn í dagsljósið og flutti prédikun sína, fanst mér ólíkt áhrifameira, en mörg hver prédikun, er eg áður hefi heyrt hjá ofanjarðarklerkum, og það þó allandheitir hafi verið. Þar hafði sá orðið, sem skil kunni á hlutunum í neðri byggðum.” – Reykjavík, 9. sept. 1924. Brynjólfur Magnússon.
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 50. árg., 3.-4. tbl., bls. 176.
-Náttúrufræðingurinn, 66. árg. 1996-1997, 3.-4. tbl.bls. 189-190.
-Íslendingur, 10. árg. 1924, 40. tbl., bls. 2-3.
-Heimskringla, 61. árg. 1946-1947, 15. tbl. bls. 5.