Tag Archive for: Básendar

Thermopylae

Í Sjómannablaðinu Víkingur 1973 er fjallar Skúli Magnússon um „Skipsstrand við Básenda árið 1881„:

„Flestir hafa hugmynd um að strönd Reykjanesskaga er mjög skerjótt og hættuleg skipum. Þau hafa ekki svo fá farist við þessa strönd þar sem úthafsaldan brotnar án afláts. Hér á eftir mun fara frásögn af einu skipsstrandinu er átti sér stað á Reykjanesskaga, nánar tiltekið skammt sunnan við Básenda, nálægt Þórshöfn, sem er smá vík eða vogur er skerst inn í landið, rétt utan við Ósabotna, þar sem þorpið Hafnir er.

Jamestown

Strandsstaður Jamestown, skammt v.m. við Hestaklett.

Um Básenda er það að segja að þar var til forna kaupstaður og sér þess enn sæmileg merki. Smá tanga er þar skagar út í sjóinn eru búðatóftir og forn garðbrot, þar munu húsin í verzlunarstaðnum hafa staðið. Ennfremur má sjá einn járnpolla allmikinn og sveran þar sem hann stendur uppúr klöppinni og kemur á þurrt við fjöru. Annar slíkur mun hafa verið hinum megin við víkina en nú sjást engin merki eftir hann lengur. Um Básenda hefur margt verið skráð og skilmerkilegust er frásögn sú er á sínum tíma birtist í Blöndu, tímariti Sögufélagsins. Þar segir gjörla frá ofviðri því er grandaði kaupstaðnum að fullu og öllu. Átti þetta sér stað í janúarbyrjun árið 1799. Eftir þetta hófst aldrei framar verzlun á þessum sögufræga stað, Keflavík varð aðalverzlunarstaður okkar Suðurnesjamanna og hefur verið alla tíð síðan.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Víkin Þórshöfn var einnig notuð til kaupskapar. Hennar er getið í sögu einokunarverzlunarinnr eftir Jón Aðils. Var verzlað þar á tímum hinnar illræmdu umdæmaverzlunar eða jafnvel fyrr, um 1500 eða þar um bil. Hafa þar vafalaust verið Þjóðverjar á ferð eða Englendingar.
Sama er uppá teningnum um Keflavík, þar hófst verzlun sennilega um svipað leyti, kannski fyrr, en um það höfum við nú engar áreiðanlegar heimildir. Þó er til eitt örnefni á Vatnsnesi við Keflavík, er það Þýzkavör, og liggur hún í Vatnsnesvík, sem er suður af sjálfri Keflavíkinni, en Vatnsnes liggur á milli. Höfnin er í dag í Vatnsnesvík.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Árin um og eftir 1880 munu verða minnisstæð í Íslandssögunni fyrir þrennt, hallæri, ísa og Vesturheimsferðir. Sumir lögðu árar í bát og létu ginnast af gylliboðum hinna kanadísku agenta, um allslags dásemdir í Vesturheimi, hinni nýju og framfarasinnuðu veröld, því þar hafði hvorki verið aðall, kóngar, né kirkjuveldi til að drepa niður framfaraviðleitni samfélagsins. En margir þraukuðu samt enn á gamla Fróni og aðrir sneru úr dýrðinni vestra og settust aftur að í landinu.
Fáir munu hafa farið vestur úr Keflavík og frá Suðurnesjum, það var sjávarútvegurinn sem hélt líftórunni í mönnum, og sem dæmi um það má nefna að í hallærum inni í landi streymdi fólk til sjávarbyggðanna í leit að mat og skjóli. Hér má því segja að sjórinn hafi gefið vel þó hins verði ekki síður getið að hann tók sinn skatt af auðæfum sínum.

Sigurður B. Sívertsen

Sigurður B. Sívertsen.

Eftirfarandi ritar merkisklerkurinn og fræðimaðurinn sr. Sigurður Br. Sívertsen í Suðurnesjaannál sinn árið 1881: „Fór nú sjóinn óðum að leggja, með því líka, að stórar íshellur bárust að landi að ofan og innan. Var nú gengið yfir Stakksfjörð fyrir utan Keflavík og inn að Keilisnesi á Vatnsleysuströnd, og hefi ég ekki lesið, að slíkt hafi viðborið, síðan árið 1699. Sjófuglar fundust dauðir með sjónum.
Ekki veit ég hvort nógar matvörur hafi flutzt til landsins, a.m.k. var svo á Norðurlandi, að þangað barst lítil sem engin björg frá útlöndum enda allt ófært af hafís, sem lá inn á fjörðum fram eftir öllu sumri. Sama hlýtur að hafa verið hér Sunnanlands, eftir því sem annállinn segir. Og um timburflutninginn veit ég lítið með vissu, en allavega skeði nú atburður, sem átti eftir að hleypa mönnum nokkuð upp hér á Rosmhvalanesi, en það var skipsstrand. Mun ég hér eftir tína sitthvað uppúr Suðurnesjaannál varðandi strand þetta, því það er merkilegt fyrir byggingasögu okkar Suðurnesjamanna.
Árið 1881 segir sr. Sigurður í annál sínum (Suðurnesjaannáli er prentaður í Rauðskinnu VII-VIII heftum og kom út 1953):

Jamestown

Jamestown.

„Með stórtíðindum má á þessu ári telja þann viðburð, að sunnudagsmorguninn 26. júní, rak að landi afarstórt farmskip, hlaðið af trjáviði, nálægt Þórshöfn á Suðurnesjum (skammt sunnan við Básenda) og stóð þar á flúð eða skeri, mannlaust, þrímastrað með þrem þilförum. Hafði þriðja mastrið verið höggvið í sundur áður en skipsfólkið hafði farið af því, að líkindum um leið og það hefir á hliðina farið, en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gengndi, og svo að menn höfðu eigið trúað,
ef menn hefðu eigi séð. Eftir því sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar að digurð, akkerin á að gizka, hver af þremur 1000 skippund, eða 3000.
Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns tilborðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið af öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligjörð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar, var allt fúið.
S

James Town

James Town, nýlenda landnema við Jamesá í Ameríku 1607.

amt er óvíst, hve lengi það hefur verið í sjó eða hvenær því hefur borist á. En að því var komist, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitir það „James Town“, sem líka er staðarnafn all nærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo vel var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Þegar þetta tröllskip barst þarna að landi, þar sem svo var brimasamt og illt við að eiga, hugðu menn úr þessum og nærliggjandi hreppum, að óhugsandi og ógjörlegt væri að eiga nokkuð við uppskipun og björgun að svo stöddu, og gerðu sér líka þær vonir, að sýslumaður mundi í einu boði, selja þetta mikla rekald.
Fyrir því að þetta mætti álítast vonarpening, hugðu margir að geta hlotið hin beztu kaup, ef allir fjórir næstu hreppar gengju í félag undir eins manns ábyrgð, og var af öllum kosinn til þess kaupmaður Duus í Keflavík. En nú brást þeim illa sú ætlun sín, og máttu þó sjálfum sér um kenna eða hreppstjóranum, eftir áeggjan annarra, því þegar vandræði eða ráðaleysi viðkomanda bárust héðan, hófst félag eitt í Reykjavík, og tókst á hendur að fengnu einkaleyfi frá amtmanni, að bjarga eða skipa upp svo miklu af trjáfarmi þessum, sem framast væri þeim mögulegt, mót 2/3 fyrir fyrirhöfn og ómak.
Tóku þeir þegar til óspilltra mála, sem svo ágætlega vel hepnaðist þeim, að þeir, eftir hart nær þriggja vikna vinnu, voru búnir að skipa í land mest öllum farmi af efsta þilfari sem eftir ágizkun mun hafa orðið 15.000 plankar.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Frá upphafi og leikslokum með fleiru hér að lútandi skal seinna verða nákvæmar sagt.
Þegar seinna var brotið upp milliþilfarið, sem innihélt ekki minni trjávið en hið efra, og ekki þótti sjá högg á vatni, þó haldið væri með kappi áfram uppskipunni, var enn að nýju fengið amtsleyfi fyrir héraðsmenn að skipa nú upp til helminga, en þó að margar hendur ynnu hér að úr fjórum nærliggjandi hreppum, var ekki búið að ljúka uppskipuninni af milliþilfari, þegar sýslumaður hélt uppboð, miðvikudaginn þann 10. ágúst.

Duus

Duus – bryggjuhús.

Varð hið vægasta verð að kalla mátti gjafverð á öllum plönkum og timbri. Taldist svo til, að hver planki seldist á 50 aura, 6 álna, eða 8 aura alinin, en þó tók út yfir góðkaupin, þegar skipið með fullri hleðslu á neðsta þilfari með fullum farmi o.s.frv. seldist fyrir 330 krónur, en fyrir þá skuld var ekki boðið hærra, að hlutaðeigandi félagsmenn voru búnir að semja sín á milli, ekki aðeins að ljúka ekki upp munni sínum, heldur stuðla til með samtökum, og sjá um, að aðrir spilltu ekki góðum málum. Varð svo herra Duus hæstbjóðandi eftir áðurgjörðum samningi.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn, vagnvegurinn, ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.

Hér á eftir fóru menn úr öllum áttum á skipum, og í flotum að ná heim til sín hinu keypta timbri, en þó að veðurblíðan héldist áfram, var þó minna en helmingur ósóttur. Því næst fóru allir úr öllum hreppum að vinna að uppskipun á því, sem hafði orðið eftir á miðþilfari, en þó að allvel gengi, hugðu flestir, að ekki væri hugsandi að halda áfram með neðsta þilfar, ef veður breyttist. En þá bar svo við, að mánudaginn þann 9. sept. gekk í landsunnan sterkviðri og stórbrim um stórstraumsflóð, svo að allur skipsskrokkurinn liðaðist í sundur á þremur tímum, og bárust að landi plankar og skipsflekar. Var það ógrynni og feikn saman komið, að meira var en nokkurn tíma fyrir uppboðið.

Jamestown

Jamestown – opinber auglýsing um strandið.

Eins og þetta mikla strand er og verður fáheyrt, ekki aðeins hér sunnanlands, heldur í landssögunni, að annað eins timbur hafi komið á einn stað af einu skipi, eins og þetta, má kalla hið mesta happ fyrir öll Suðurnes og nærliggjandi hreppa, sem Drottinn allsherjar rétt hefir mönnum upp í hendur án mikillar fyrirhafnar eða kostnaðar, og án þess að neinar slysfarir hafi þar af orsakast eða tjón. Eins yrði það
óafmáanlegur blettur eða svívirðing í sögu Suðurnesja, ef menn skyldu á endanum ekki koma sér saman um réttsýn skipti meðal félagsmanna sín á milli“.
Þetta hefur sr. Sigurður að segja um þessa stóru skútu. Síðar við sama ár í annál sínum (1881) segir klerkur:

Garður

Unuhús í Garði, eitt margra húsa byggt upp úr standgóssi Jamestown.

„Eftir að félagsmenn hins strandaða skips, James Town, höfðu lengi verið búnir að vinna að uppburði timbursins af skipinu, voru þá í nóvember tekin fyrir skiptin í 4 aðalhluti eins og til stóð og fóru þó ekki eins og til var ætlast skiptin fram á þeim helmingi skipsins, sem þessum hrepp var fyrirhugað, því að vissir menn vildu þar öllu ráða, svo að óánægja varð af, þó að allt væri íátið kyrrt liggja, með því að allir félagsmenn, fengu svo mikið í sinn hlut, að þeim mátti nægja, og ekki fyrir neinn ójöfnuð annarra þess vert að láta verða úr misklíð. Plankarnir töldust í allt rúm 16000, svo að í hvern fjórða part komu 4000. Skipsflekum var eigi skipt, sem mjög mikill slægur var í, en voru þó komnir uppá þurrt land, og einn þeirra, önnur hliðin, var mæld 40 fet á lengd.“ Það kom sér mjög vel fyrir alþýðu manna, hve ódýrt timbur var úr skipinu, eða 50 aura plankinn. Með því móti gátu margir fengið gnótt viðar og notað til margs konar smíða og bygginga.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri, byggðir að hluta úr rekaviði  úr Jamestown.

T.d. getur prestur þess í annálum, að timbrið hafi mjög víða verið notað í húsbyggingar. Og víst er, að mörg hús hér í Keflavík voru byggð úr timbrinu úr James Town. Sum þeirra eru nú horfin af sjónarsviðinu, önnur allmikið breytt frá fyrri tíð.
Meðal húsa hér að lútandi má nefna Þorvarðarhús, sem stendur svo til óbreytt hið ytra. Hús Þórðar héraðslæknis Thoroddsen (sem stóð hér við Hafnargötu) var víst líka byggt úr timbri hins strandaða skips. Þórður var fyrsti læknir sem settist að hér í Keflavík og var upphafsmaður að mörgu, t. d. aðaldriffjöðrin í stúkunni Vonin nr 15, stofnaði Kaupfélag Rosmhvalaneshrepps árið 1889, stofnaði sparisjóð Rosmhvalaneshvepps um 1890. Á Thoroddsensheimilinu ríkti mikill menningarbragur. Því má við bæta að Emil pianóleikari er einmitt sonur Þórðar, og er fæddur hér í Keflavík. Sjálft Thoroddsenshús mun hafa verið rifið að mestu um 1930 er Eyjólfur Ásberg byggði hús sitt á sama stað við Hafnargötu. Þar varð síðar greiðasala, verzlun og bakarí.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

En það var ýmislegt fleira, er leiddi af strandi James Town, en annállinn fræðir okkur um. Um það mál fáum við nokkra vitneskju í blaðinu Þjóðólfi, vorið og sumarið 1884, en þá var Jón Ólafsson, alþingismaður, ritstjóri blaðsins.
Svo er mál með vexti, að í 7. og 8. tölublöðum Þjóðólfs þetta ár, ræðir Guðmundur Guðmundsson, bóndi og hreppstjóri í Landakoti á Vatnsleysuströnd um fiskveiðasamþykktina fyrir Faxaflóa. Þeir Útskálafélagar, prestarnir Sigurður og Helgi Sívertsen, senda Guðmundi síðan svargrein í 9. tbl. sama blaðs. Ekki ætla ég samt að ræða það mál nánar hér, enda er það tómt persónulegt pex. (Síðar getur samt svo verið að ég muni gera hér fiskveiðasamþykktir að umtalsefni, en ennþá hef ég þó ekki nægar heimildir undir höndum varðandi það efni). En málið var þar með ekki úr sögunni.
Í 11. tölubl. Suðra, sem Gestur Pálsson var ritstjóri fyrir, svara „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps“ greinum Guðmundar, svo hann neyðist til að taka aftur til pennans og svara, enda var dróttað að honum persónulega í grein þessari. Við skulum nú grípa niður í svargreinar Guðmundar frá Landakoti, en þær birtust í 20. og 33. tbl. Þjóðólfs. Ræðir þar um strand skipsins James Town.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Í 20. tbl. er inngangur eftir ritstjórann (J.Ó.) með fyrirsögninni: „Uppljóstur á stórþjófnaði“. Ræðir þar um fyrri greinar Guðmundar og þeirra Útskálafeðga og allt það persónulega pex, sem þar birtist. Síðan segir: „Þegar vér nú tökum eftirfylgjandi svargrein frá hr. Guðmundi Guðmundsyni, þá er það af því, að hér er orðið um alveg nýtt mál að ræða — það mál, sem ekki má þegjandi niður falla.
Þegar eins merkur maður og hr. Guðmundur ber fram svo stórvægilega sakargift um stórþjófnað, þá er sú sakargift svo vaxin, að yfirvöld geta ekki og mega ekki ganga þegjandi fram hjá henni — og gjöra það nú vonandi því síður, sem orðrómurinn um þetta athæfi er fyrir löngu hljóðbær orðinn“.
Jamestown
Þá kemur grein Guðmundar sem hefur að inngangi: „Þann ég kalla að þekkja lítt þekkir ei sjálfan sig“. Hann skýrir nú frá því, að „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps“ hafi í Suðra svarað greinum sínum er birtust í Þjóðólfi. Síðan segir orðrétt: „Þeir minnast, þessir göfugu greinasmiðir, á félagseignina í James Fown (?) er þeir nefna svo, það er líklega timbrið á Stafnesfjörum, sem þeir meina, þó skipsnafnið sé ekki sem allra réttast (okkur mun vera hollast að gefa okkur ekki mikið út í það að rita ensku, samt hafa aðrir sett ,,T“, þar sem þeir setja „F“ í skipsnafnið) og lítur helzt út fyrir að þeir vilji telja lesendum Suðra trú um, að ég hafi við það tækifæri sýnt mig í óráðvendni, og jafnvel komið einhverjum kunningjum mínum til að vera mér til aðstoðar í því. Þessu ætla ég ekki að svara með öðru en því, að segja söguna svo sanna og rétta, sem mér er unnt, en sannanir fyrir henni mun ég geta framlagt síðar, ef með þarf, þó ég, að líkindum ekki sæki þær í uppboðsbók Rosmhvalaneshrepps….“ .

Jamestown

Ankeri Jamestown í Höfnum.

Þá getur Guðmundur um það, að menn úr Höfnum hafi verið viðstaddir er hann kom að ná í sinn ákveðin timburpart og hafi hann sagt á þá leið við þá, að þeir vissu að hann ætlaði að taka nokkrar spýtur til að fylla þilskip sitt er hann var þangað (að Þórshöfn) kominn á. Hann skyldi greiða andvirði þeirra seinna við tækifæri. Þetta tóku allir gott og gilt og Guðmundur hélt heim með farminn.
Eftir þessa frásögn sína segir Guðmundur: „En ef íbúar Rosmhvalaneshrepps (að undanskildum Keflavíkurmönnum) eiga jafnhægt með að gjöra grein fyrir, að allar aðferðir þeirra á Stafnesfjörum þessi ár hafi verið leyfilegar og lögmætar, eins og mér veitir hægt að sanna framanritaða sögu mína, þá er of miklu upp á þá logið. Að þessir piltar skuli vera svo fífldjarfir að minnast á samvizku í plankamálinu, það er hrein furða, hún hefur þó að líkindum ekki ónáðað þá eða sveitunga þeirra suma hverja í undanfarin 2 ár, en máske hún sé að bregða blundi hjá einhverjum þeirra. Gott ef svo væri“.
Og litlu síðar kemur þetta:

Jamestown

Jamestown – silfurberg.

„Skal ég þá leyfa mér að spyrja þá (þ. e. íbúa Rosmhvalaneshrepps) að, hverja skilagrein þeir hafi gjört fyrir koparhúð þeirri sem þeir heimildarlaust bæði nótt og dag rifu utan af skipsflekunum? Hafa þeir samkvæmt áskorun og skipun þeirra manna, sem áttu koparinn með þeim, skilað honum á þá staði, sem þeim var boðið?“
Guðmundur getur þess að þeir Strandarmenn hafi ekkert fengið af koparnum, sem þeir þó áttu að fá í sinn hlut, svo sem aðrir þeir, er unnu að björgun timbursins úr skipinu.
Enn segir Guðmundur: Timburhvarfið ætla ég sem minnst að minnast að tala um í þetta sinn, það tekur svo út yfir allan ósóma, að flestir, sem kunnugir eru því máli, þykjast vissir um, að síðan Suðurland byggist muni ekki hér í sýslu hafa verið framin annar eins stórþjófnaður og sá, sem þessi ár hefir átt sér stað þar syðra, og ef íbúar Rosmhvalaneshrepps vilja brýna okkur Strandarmenn, þá er ekki víst að við þurfum að hafa fyrir að tína saman tvo eða þrjá gemsa þaðan úr hreppnum, sem yfirvaldið þyrfti og ætti að ná í lagðinn á, það er ekki ómögulegt, úr því tveir eða þrír væru handsamaðir, að hópurinn kynni að stækka“.
Og að endingu segir Guðmundur þessi orð í grein sinni: Vilji íbúar Rosmhvalaneshrepps róta betur upp í þeim saur, sem þeir eru nú byrjaðir að moka, þá vildi ég með aðstoð kunnugra manna vera þeim til liðveizlu, en ekki get ég að því gjört, þó af honum leggi fýlu.“

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Enn er málinu þó ekki lokið, því í Þjóðólfi, 12. júlí 1884, ymprar ritstjórinn, Jón Ólafsson, enn á því að rannsókn þurfi endilega að fara fram á málinu. En Guðmundur í Landakoti ritar ein grein enn og er það svar við grein sem Jón ritaði í blað sitt 12. ágúst þar sem hann segir að Guðmundur sé of hægur á sér að birta ástæðurnar fyrir þjófnaðium. Guðmundur tekur það fram eins og til að forða frekari misskilningi að þeir Útskálafeðgar, Helgi Sívertsen og faðir hans, sr. Sigurður, séu ekkert við málið riðnir, og sömuleiðis Keflvíkingar en það tekur hann reyndar fram áður.. .
Landakot
Guðmundur segir svo í grein sinni (12. júlí í 33. tbl.): „Síðasta og 3. ástæðan (þ.e. fyrir því að hann birtir ekki sannanir fyrr í málinu) er sú, að ég vissi til þess, að einn heiðvirðasti maðurinn þar í Rosmhvalaneshreppi, sá, sem mest hafði að segja yfir félagseigninni, lét í fyrra sumar semja kæru eður kvörtun til sýslumanns út af timbur- og koparmissinum, bjóst ég því við að réttarrannsókn yrði þá og þegar hafin, og að opinber málssókn mundi, þegar minnst varði, gjósa upp, en verkanirnar af áminnstri kæru hefi ég ekki orðið var við. Ég held helzt að hún hafi aldrei komizt til sýslumannsins“.
Og að endingu segir Guðmundur: „Aðaltilgangur minn var aldrei sá, að verða þess valdandi að nokkur maður þar syðra yrði sakfelldur, en ég þykist hafa unnið Rosmhvalahreppi gott verk og þarft, ef þeir menn, sem oftast hafa unnið sér óráðvendisorð við hvert strand, sem þar hefur komið fyrir, bæta nú svo ráð sitt, fyrir þá hreyfingu, sem komin er á málið út af grein minni, að þeir framvegis leitist við að sýna sig, sem heiðvirða og vandaða menn við slík tækifæri. Þá hefi ég náð tilgangi mínum, og þá vona ég að allir þar í hreppi, sem nokkurs meta gott mannorð, þakki mér fyrir þetta nauðsynlega og holla læknislyf, þó sumum þyki það súrt á bragðið“. Svo mörg voru orð Guðmundar í Landakoti.
Lýkur hér með að segja frá strandi þessu þó hins vegar viðbúið sé að hér hafi ekki öll kurl um þetta mál til grafar komið.“

Í Eyjafréttum 2017 tók Ómar Garðarsson viðtal við Theódór Ólafsson undir fyrirsögninni „Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum„:

Jamestown

Jamestown – keðjuminningin í Vestmannaeyjum. Kári Bjarnarson og Theódór Ólafsson.

„Þann níunda september 1919 skrifar Þorvaldur Bjarnason, Höfnum á Reykjanesi bréf til hafnarnefndar Vestmannaeyja og segist hafa til sölu akkeri og keðjur sem séu mjög hentug sem öflug legufæri. „Keðjan er að stærð, hver hlekkur tólf þumlungar að lengd og sjö að breidd og lengd keðjunnar er ellefu liðir,“ segir í bréfinu þar sem kemur fram að akkerið sé um tvö tonn að þyngd. Verðið er 450 krónur á lið eða 5950 krónur þar sem keðjan var niðurkomin við Hafnir. Eftir bréfa- og skeytasendingar var niðurstaðan sú að keðjan var keypt til Eyja og var hún notuð sem legufæri í áratugi en akkerið var ekki keypt.
Þetta á sér merkilega forsögu því keðjan er úr bandarísku skipi sem rak mannlaust um Norður Atlantshaf og strandaði að lokum þann 26. júní 1881 á milli Hestakletts og Þórshafnar í Rosmhvalaneshreppi, síðar Miðneshreppi á Suðurnesjum. Það var, samkvæmt seinni tíma mælingum um fjögur þúsund tonn og að líkindum meðal stærstu skipa sem komið höfðu til Íslands á þeim tíma.

Áhugi Theódórs vaknar
Jamestown
Þessa sögu þekkja fáir betur en Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður á Sæbjörgu VE. Hefur Theódór aflað sér gagna um skipið, sögu þess og örlög. Líka hvað varð um akkeriskeðjurnar sem hafa enst ótrúlega vel. Skipið flutti verðmætan timburfarm frá Bandaríkjunum sem átti að fara til Liverpool á Englandi en lenti í aftakaveðri undan vesturströnd Írlands. Skemmdist mikið og var skipverjum bjargað um borð í annað skip og settir á land í Glasgow í Skotlandi. Jamestown rak stjórnlaust um Norður Atlantshafið í fjóra mánuði þangað til það strandaði við Ísland.
Ein ástæðan fyrir áhuga Theódórs á Jamestown er tenging hans við Stafnes og að hluti akkeriskeðjunnar hafnaði í Vestmannaeyjum.
„Teddi hefur ekki setið auðum höndum þótt hann sé hættur að vinna. Hann hefur lagst í ýmiss konar grúsk,“ segir Sigurgeir Jónsson um Theódór í viðtali sem hann tók við hann og birtist í Fréttum. Þá hafði hann barist við krabbamein í tvö ár. Lýsir hann því einnig hvernig kona hans, Margrét Sigurbjörnsdóttir sem er frá Stafnesi, stóð við hlið hans í veikindunum og greinilegt að hann kann að meta það. Tilheyrði fjaran þar sem Jamestown strandaði Stafnesbæjunum og er Margrét frá Vestur Stafnesi.

Jamestown var alvöru skip

Jamestown

Eyjahöfnin – Bólið 1930.

„Í þessum veikindum mínum átti ég oft erfitt með svefn og fór þá að láta hugann reika, ekki síst að hugsa um þau skipsströnd sem ég hef sjálfur lent í og kannski ekki síður öðrum skipsströndum. Fór síðan að lesa mér til um hin ýmsu strönd. Þar á meðal skipsströnd við Stafnesið, úti fyrir æskuheimili Margrétar. Þar strandaði t.d. Jón forseti, fyrsti togarinn í eigu Íslendinga og fórust fimmtán skipverjar en tíu tókst að bjarga. Sigurbjörn, faðir Margrétar, var einn af björgunarmönnum þar,“ segir Theódór.
En svo var það eitt skipsstrand sem vakti sérstaka athygli mína. Það var þegar ameríska skútan Jamestown strandaði ekki langt frá Stafnesi árið 1881. Þessar amerísku skútur voru flutningaskip, stærstu skútur í heimi og hétu allar eftir bandarískum borgum. Þessi skúta var, samkvæmt okkar mælingum í dag, um 2000 tonn, var hundrað metra löng og 16 metra breið. Í henni voru fjögur þilför og fjögur möstur, sem sagt alvöru skip.
Jamestown fór frá Bandaríkjunum á leið til Englands, fullhlaðið af smíðatimbri sem átti að fara í undirstöður fyrir járnbrautarteina.

Silfurgrjót

Silfurgrjót.

Áður hafði skipið verið ballestað með silfurgrýti. Þegar skipið átti eftir um 600 mílur í Írland lenti það í ofsaveðri og stýrisbúnaður þess brotnaði. Lítið gufuskip gerði tilraunir til að taka Jamestown í tog en þær tilraunir mistókust þar sem tógið slitnaði alltaf. Þá var ákveðið að áhöfnin yfirgæfi skipið. Þetta gerðist í mars 1881 og síðan rak skipið stjórnlaust norður eftir Atlantshafi, upp að Íslandsströndum, fyrir Reykjanes og strandaði.“
Meira að segja Eyjamenn nutu góðs af rekanum. Þannig lýsir Theódór þessari síðustu ferð þessa glæsilega skips, Jamestown sem strandaði á Hestakletti þann 17. júní 1881, mannlaust. Varð að vonum uppi fótur og fit á Stafnesbæjunum. Hafist var handa við að koma timbrinu í land og gekk það vel um sumarið eða þar til gerði stórviðri um haustið og skipið brotnaði. Mikið af timbri rak á land víðs vegar um land, m.a. í Vestmannaeyjum og Þorsteinn Jónsson í Laufási minnist í bók sinni á plankarekadaginn mikla. „Ég held að flest hús í Sandgerði á þessum tíma hafi verið byggð úr timbri úr Jamestown og mörg hús í öðrum byggðarlögum. Og þegar ráðist var í endurbætur á Menntaskólanum í Reykjavík, árið 1883, þá var notað timbur úr þessum farmi,“ segir Teddi.

Mikil vinna

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Landeigendur vildu eigna sér strandið og stóðu forráðamenn hreppsins fyrir því en landsstjórnin var á öðru máli og yfirtók skipið og það sem í því var. „Hún útvegaði menn, vélstjóra, vélsmið og mann sem sá um peningamálin og þrír komu af svæðinu. Þeir leigðu litla skútu og vildu fá fleira fólk í nágrenninu til að koma að verkinu með sér. Það var ekki tilbúið fyrr en því var lofað vikulegri greiðslu í gulli í hverri viku. Þá slógu menn til, enda ekki algengt að fá greitt í peningum á þessu árum,“ segir Theódór.
Skútan er fyllt af viði og siglt til Reykjavíkur en verkinu er haldið áfram og því sem kom úr skipinu staflað í stæður uppi á landi. „Þannig gekk þetta en að lokum voru stæðurnar boðnar upp og gat hver sem er keypt. Það nýttu sér margir sem þarna bjuggu.“
Þarna er akkerið og keðjurnar komnar við sögu því eitt þeirra var fest í landi og keðjan strekt til að varna því að skipið losnaði af strandstað. Það hafði þó lítið að segja í stórviðrinu þegar það brotnaði um haustið.
Það er svo 38 árum síðar að maður sem var unglingur þegar Jamestown strandaði sagðist muna hvar keðjan lá og vildi ná henni upp. Hann hafði ekki leyfi en keypti keðjurnar í sjónum á tvær krónur af ríkisstjórninni. „Hann hét Sigurður og smíðaður var fleki sem notaður var við að ná keðjunum upp. Á hverri stórstraumsfjöru var farið niður að keðjunni og hún fest við flekann sem var svo dreginn á land á flóðinu. Þannig tóku þeir einn og einn lið í einu,“ segir Theódór.

Keðjurnar góðu

Jamestown

Jamestown – ankerið í Höfnum.

Það líða fjörtíu ár og aftur kemur Jamestown við sögu í Vestmannaeyjum og nú eru það akkeriskeðjan sem Vestmannaeyjahöfn keypti. Mikil vandræði voru með báta í höfninni og oft skaðar þegar aldan gekk óbrotin inn höfnina. Þorsteinn í Laufási var þá í hafnarstjórn og frétti að því að akkeriskeðjan úr Jamestown væri enn um borð í skipinu á strandstað. Hann fór til Sandgerðis og keypti keðjurnar en ekki akkerið sem heimamenn vildu einnig selja Eyjamönnum. Minna akkerið stendur nú við kirkjuna í Höfnum en stóra akkerið er í Sandgerði.
En aðalerindi Þorsteins var að festa kaup á akkeriskeðjunni úr Jamestown sem hann gerði. Dugði hún í þrjár lagnir og gátu 50 til 60 bátar legið við hana.

Hluti af sögunni
Keðjurnar luku sínu hlutverki og Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður lagðist í grúsk þegar hann kom í land.
Þegar dýpkun hófst í höfninni voru þær teknar upp. Ekki var hugað að því að hér væru merkar sögulegar minjar og lágu keðjurnar lengi vel uppi við Sorpu. Þær týndu tölunni þegar útgerðarmenn fóru að nota hlekkina til að þyngja flottroll. Eftir að Theódór fór að kanna sögu þeirra fann hann þrjá hlekki við FES-ið sem eru til skrauts í garði hans í Bessahrauninu.
„Þetta er stokkakeðja og hlekkirnir eru sjö kg að þyngd. Aftur á móti voru endahlekkirnir mun stærri og þyngri, eða um 50 kg. Hvað merkilegast finnst mér, hvað þeir eru enn heillegir og óskemmdir, eftir að hafa legið í 40 ár í sjó við Stafnesið og síðan í 50 ár í höfninni í Vestmannaeyjum. En ég vil endilega að þeir sem enn eru með þessa hlekki í fórum sínum sjái um að koma þeim á viðeigandi stað. Þeir eiga heima í Sandgerði, til minja um þetta strand og svo auðvitað líka á Byggðasafninu í Vestmannaeyjum, en ekki í ruslahaugum einhvers staðar,“ segir Teddi um þetta áhugamál sitt og greinilegt að hugur fylgir máli. Sérstaka athygli hans hefur vakið endingin á keðjunni og að þeir skuli enn vera heilir og engin tæring sjáanleg.

Mikill happafengur

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Skipið þótti mikill happafengur á Íslandi enda erfitt að verða sér úti um timbur hérlendis. Voru plankarnir notaðir í brúargerð og húsagerð og enn stendur að minnsta kosti eitt hús sem smíðað er úr viði úr Jamestown, húsið Efra Sandgerði, heimili Lionsklúbbsins í Sandgerði. Einnig var „gamla“ húsið að Krókskoti í Sandgerði byggt úr Jamestown timbri. Timbrið úr því húsi var síðan notað í „nýja“ húsið að Krókskoti og stendur það enn þá.
Árið 2002 fannst annað akkeri skipsins undan Höfnum, og hinn 24. júní 2008 var það híft upp af meðlimum umhverfisverndarsamtakanna Blái Herinn og því komið fyrir við húsið Efra Sandgerði. Áður hafði hitt akkerið fundist og er það fyrir utan kirkjuna í Höfnum. Þetta kemur fram í grein eftir Leó M. Jónsson sem birtist upphaflega í tímaritinu Skildi 2001. Segir að við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því.

Með stærstu seglskipum

Jamestown

Jamestown.

Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 16 m á breidd, til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90 til 100 m á lengd.
Jamestown var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879 og, að sögn Dan Conlin, er það horfið af skránni yfir amerísk og erlend skip upp úr 1880 og fyrir 1884. Hann segir að fjöldi smærri seglskipa hafi borið nafnið Jamestown eða James Town og verið á skrá um þetta leyti en hægt sé að útiloka þau öll þar sem ekkert þeirra hafi verið yfir 200 tonnum að stærð og öll styttri en 100 fet. Dan sagðist einnig hafa athugað skipaskrá Lloyds (Lloyd’s Register of Shipping) frá þessum tíma og ekki fundið þar neitt annað skip jafnstórt og Jamestown frá Richmond.

Glæsilegustu skipin á höfunum

Jamestown

Jamestown.

Stóru seglskipin sem voru í langferðum á milli heimsálfa á 19. öld og fram yfir 1900 voru tilkomumikil sjón á höfunum þar sem þau skriðu undir fullum seglum, iðulega framúr gufuskipum. Frægust langferðaskipanna voru bresku Cutty Sark og Thermopylae (sem fór á 28 dögum frá Newcastle á Englandi til Shanghai í Kína – met sem stóð lengi) en þau voru rétt innan við 1000 tonn að stærð (þess tíma mæling) og þau amerísku ,,Yankee clippers“ á borð við Young America og hið fræga breska Lightning (kennt við Macey) sem fór reglulega með póst á milli Bretlands og Ástralíu árum saman.“

Í Útvarpinu, Sumarmálum á Rás 1 árið 2020, er fjallað um „Mörg hús á Íslandi smíðuð úr mannlausu draugaskipi“ í viðtali við Tómas Knútsson:

Jamestown

Ólafur Ketilsson.

„Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann því dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist mikil sneypuför. „Þetta var svona Titanic-dæmi,“ segir Tómas Knútsson um Jamestown-strandið. Mannlaust skipið rak á land við Hafnir á Reykjanesskaga árið 1881.
Þann 26. júní árið 1881 varð sá óvenjulegi atburður í Höfnum á Reykjanesskaga stórt og voldugt seglskip rak þar á land í aftakaveðri. Jamestown hafði rekið um höfin í fjóra mánuði og var mannlaust. Það reyndist að miklu leyti gæfa fyrir Íslendinga að skipið skyldi reka á fjörur landsins því það var smekkfullt af brúklegum harðviði sem átti eftir að nýtast landsmönnum til bygginga næstu árin.

„Þetta er guðsgjöf, allt þetta timbur“

Jamestown

Jamestown – ankeri.

Jamestown var með stærri seglskipum sem smíðuð höfðu verið á þessum tíma. Það var drekkhlaðið af viði og var á leið til Englands til að setja viðinn undir járnbrautarteina. Skipið lagði af stað með farminn frá Ameríku og var búið að vera í vandræðum þegar það lendir í miklu óviðri á Norður-Atlantshafi með þeim afleiðingum að stýrið brotnar. „Þá kemur skip og bjargar áhöfninni en svo er meiningin að bjarga skipinu en þá finnur enginn skipið,“ segir Tómas Knútsson sem er í hópi áhugafólks um Jamestown-strandið. Þegar skipið loks fannst við Íslandsstrendur hafði það eigrað stefnu- og mannlaust um höfin mánuðum saman. „Svo gerir suðvestan hvell og skipið mölbrotnar og rekur á land svo það var hægt að bjarga öllu úr skipinu sem var nýtt til agna,“ segir Tómas. „Þetta var náttúrulega guðsgjöf, allt þetta timbur.“

Dóttir skipstjórans með í för
Skipið var mannlaust því áhöfninni var bjargað við illan leik. Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist svo mun ævintýralegri en skipstjórinn hafði viljað. „Þetta var svona Titanic-dæmi. Þetta voru endalokin hjá þessu stóra mikla fyrirtæki sem skipstjórinn hafði unnið fyrir alla sína ævi og þá fer hann í svona sneypuför,“ segir Tómas.

Svíta skipstjórans varð predikunarstóll í Hvalneskirkju

Hvalsnes

Hvalsneskirkja.

Áhugahópurinn sem hefur einbeitt sér að örlögum skipsins síðustu ár hittist tvisvar, þrisvar á ári og hefur haldið tvær sýningar þar sem munir úr skipinu sem fundist hafa í hafinu eru til sýnis. „Við höfum látið Byggðasafnið hafa þetta allt saman eins og til dæmis seglvindu, svaka flott hjól og svo er akkerið.“

Hópurinn hefur staðið í ströngu við það síðustu ár að kortleggja þau hús á Íslandi sem byggð hafa verið úr timbri úr skipinu. „Gröndalshús í Reykjavík er eitt og brúargólfið í Elliðárbrúnni,“ segir Tómas. „Þetta fór um allt Suðurland og Suðurnes, það eru nokkur hús í Keflavík, nokkur í Sandgerði, eitt hús í Höfnum, einhver í Hafnarfirði, Vatnleysuströnd og það er eitthvað í Grindavík líka. Predikunarstóllinn í Hvalsneskirkju er úr mahóní sem kom úr svítu skipstjórans.“

Heimildir:
-Sjómannablaðið Víkingur, 3. tbl. 01.03.1973, Skipsstrand við Básenda árið 1881 – Skúli Magnússon, bls. 68-71.
-Eyjafréttir, 23. tbl. 08.06.2017, Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum – viðtal við Theódór Ólafsson, bls. 22-23.
-https://www.ruv.is/frett/2020/08/09/morg-hus-a-islandi-smidud-ur-mannlausu-draugaskipi

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Básendar

Í „Fornleifaskráningu á Miðnesheiði“ sunnanverðri árið 2000 er m.a. fjallað um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gömlu-Kirkjuhöfn, auk Kaupstaðarvegarins og aðrar merkar minjar.

Stafnes (býli/konungsútgerð)

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes hefur verið á sama stað frá öndverðu. Landamerki milli Hvalsness og Stafnesshverfis eru í viki einu litlu sem heitir Mjósund, stundum kallað Skiptivík, sunnan við Ærhólma. Endar landið í Djúpavogi í Ósabotnum. Átti Stafnesin í land að Beinhól og Háaleiti. Stafnes var fyrr á tíð eitt mesta stórbýli Suður-nesja. Í gömlum jarðabókum eru taldar þar 20 hjáleigur og tómthús. Þó er ekki víst að þau hafi öll verið byggð samtímis.
Jarðardýrleiki er sagður óviss í Jarðabók Árna Magnússonar sem tekin var saman árið 1703. Mjög er nú mannfátt í Stafnesshverfi og enginútgerð hefur þar verið seinustu áratugi. Eflaust hefur útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi sem og annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19. þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita að Stafnes væri í eyði um aldarmótin 1800. Útgerð á Stafnesi mun hafa lagst niður fyrir fullt og allt um árið 1945 og hafði þá áður mjög úr henni dregið.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Á öldum áður var þó útræði mikið og hófst konungsútgerð á Stafnesi um miðja 16. öld og stóð til 1769. Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldugir að róa á árabátum þaðan fyrir harla lítil laun. Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum. Töluverð selveiði var á Stafnesi fyrr á árum.
Stafnes er í fornum máldögum oftast kallað Starnes. Ef það er upprunalegt nafn bæjarins bendir það til þess að þar hafi verið starengi. Þá er líklegast að það sé komið undir sjó.
Hrjóstrugt er umhverfis Stafnes, einkum í heiðinni ofan við byggðina. Hefur jarðvegur fokið burt og er nú aðeins bert grjótið eftir. Samhliða þessu hefur sjór gengið mjög á landið, enda bera skerjaflákar undan ströndinni þess merki. Mörg skip hafa farist á Stafnesskerjum.
Árið 1928 fórst þar togarinn Jón forseti. Drukknuðu 15 skipverjar en 10 varð bjargað.
Annað botnvörpuskip, Admiral Toco, strandaði þar í foráttu brimi árið 1913 og fórust allir með því.

Friðlýsingar

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í landi Stafness eru tveir staðir friðlýstir:
Básendakaupstaðarleifar, á hraunnefi milli 2ja víka skamt fyrir austan Stafnes. Sbr. Árb. 1903:40; Blöndu III: 48-49.b).
„Lögrjetta“, svo nefnd, forn hringur í Stafnesstúni, fyrir norðan bæinn. Sbr. Árb. 1903: 39-40. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst15.11.1938.
Lögréttan er utan hins skráða svæðis og er aðeins lítillega vikið að henni í þessari fornleifaskráningu. Um Básenda er fjallað í sérstökum kafla svo sem fyrr segir. Í landi Stafness eru samkvæmt heimildum um 73 fornminjar sem rétt væri að kanna og skrá í heildarúttekt á svæðinu, en hér verða skráðar 11 sem teljast vera innan yfirráðasvæðis Varnarliðsins.

Gálgaklettar (aftökustaður)

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Magnús Grímsson skrifar að spölkorn suður frá Draughól „í hrauninu og ekki rétt fram við sjó eru lettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Þá kalla menn Gálgakletta. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt menn á, þegar þá greindi mjög á við einhverja. Er það í munnmælum, að beinum hinna hengdu hafi verið kastað í gjótu undir annan klettinn og borið grjót fyrir að framan.“ Magnús Grímsson hefur staðarlýsinguna upp úr örnefnalýsingu Stafness, en bætir við sögninni. Í örnefnalýsingunni segir enn fremur að hraunið upp af Gálgaklettum sé nefnt Gálgahraun. Páll Sigurðsson, lagaprófessor, segir að Gálgaklettar þessir séu einnig nefndir Gálgar: „Að Stafnesi er varðveitt örnefnið Lögrétta, sem kynni að benda til þinghalds af einhverju tagi, en hins vegar var þingstaður hreppsins fyrrum að Bæjarskerjum, sem ekki eru í næstu grennd.“ Páll Sigurðsson fer nánar í málin í bæklingi um aftökustaði í landnámi Ingólfs, en nefnir þó ekki sögnina úr ritgerð Magnúsar um meðferðina á beinum hinna afteknu: „Gálgaklettar eru tveir aflangir en sundursprungnir klettar með allbreiðu sundi á milli, sem greinilega er of breitt til að þar megi koma fyrir gálgatré milli klettanna. Kann því aðvera um náttúruörnefni að ræða, en þröngar sprungur í klettunum geta að vísu komið til álita í þessu sambandi þótt ekki virðist þær sérlega líklegar. Upp við klettana hefði hins vegar máttreisa gálga.“ Mannvistarleifar eru engar sýnilegar við Gálgakletta.

Þórshöfn (lending)

Þórshöfn

Þórshöfn.

Litlu sunnar en Básendar er Þórshöfn. Elsta heimild umÞórshöfn mun vera skrá Resens frá síðari hluta 16. aldar um íslenskar hafnir „sem skip sigla nú til og skip hafa áður siglt og nú er ekki siglt til, landinu til stórtjóns.“ Skúli Magnússon fógeti (1711-1794) lýsir höfninni sem lítilli og lélegri: „Skipaleiðin inn að henni er ekki nema 65 faðma breið og stefnan inn sundið er í norðaustur til hálfausturs. Mesta lengd innsiglingarinnar er 170 faðmar, en breiddin 51 faðmur, en þó ekki nema 26 faðmar, ef skipin rista meira en 6 fet. Þangað geta skip ekki leitað nema í góðu veðri; og í blásanda byr af suðvestri verður að festa þau með 4 köðlum og 3 akkerum að minnsta kosti. Höfnin var að vísu notuð, þegar Hansakaupmenn eða Þjóðverjar ráku verzlun hér álandi. Nú er þar ekkert graslendi eða land, sem byggja má á, á ½ mílu svæði frá höfninni, heldur aðeins grjót og sandur, og er því eigi hægt að hafa þar verzlunarstað.“
Í Lýsingu Útskála-prestakalls 1839 segir: „[Þórshöfn] fóru að reyna fiskiskútur fyrir 2 árum, þegar liggja vildu af sér veður, og voru mið sett á landi, til leiðarvísis handa þeim í inn- og útsiglingu; hefir það vel gefizt, og geta þar 20 snekkjur legið í senn. –Vatnsból er þar nýfundið, og þannig þeim örðugleika úr vegi rutt, sem vatnssókn fyrir skipin kostaði. Þórshöfn stendur í sjókortum farmanna og liggur á millum Bátsenda [Básenda] og Ósanna.“ Við vettvangsskráningu fundust engin mannvirki á svæðinu utan ein uppistandandi varða og vörðubrot.

Þórshöfn (fangamörk)

Þórshöfn

Þórshöfn – fangamörk.

Skammt austan við Þórshöfn, uppi í landi, eru klettar og steinar með fangamörkum. Ártöl sem hafa verið höggvin í stein, 1844 til 1891, benda til aðfangamörkin séu frá seinna helmingi nítjándu aldar þegar höfnin var aftur tekin í notkun eftir langt hlé. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar, en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessum áletrunum áður en veður og vindar má þær út.

„Hallgrímshella“ (áletrun)

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.“ Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld, var á Suðurnesjum frá árinu 1637 til 1651, prestur í Hvalsnesi síðustu 7 árin, en þá fluttist hann þaðan fyrir fullt og allt og gerðist prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann andaðist 27. október árið 1674, sextugur að aldri. Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.

Preststorfa (ferjustaður)

„Ósar heitir vogur sá hinn mikli, sem hér gengur til austurs inn í landið. Norðan megin við Ósana, gagnvart Kirkjuvogi [í Höfnum], er kölluð Preststorfa, því þar er prestur vanur að fá flutning yfir að Kirkjuvogi, þegar hann fer þá leiðina.“

Einbúi (sjóbúðir)

Einbúi

Tóft í Einbúa.

„Litlu innar í Ósunum [en Preststorfa] er einstakur hólmi dálítill, sem heitir Einbúi. Þar á eru rústir af sjómannabúðum, sem líklega hafa verið þar fráVogi […].“ Á innrauðum loftmyndum má sjá rústir í Einbúa. Var ekki unnt að komast þurrum fótum út í hólmann sumarið 2000, þótt heimildir geti um að það sé hægt.

Stafnessel (sel)

Stafnessel

Stafnessel.

„Austan Stórubjarga er gamalt sel, sem heitir Stafnessel.“ (ÖS). „Enn sést móta fyrir rústum af Stafnesseli.“ (ÖS, 1980). Sel þetta fannst ekki við vettvangsskráningu og er hugsanlega horfið undir mannvirki.
[Stafnesselin eru tvö; annað skammt ofan við Gamla-Kirkjuvog og hitt ofar í heiðinni, upp undir varnargirðingunni.]

Háaleitisvarða (varða)
Í landamerkjabréfi frá 1270 segir um vörðu þessa að hún hafi staðið uppi á Háaleiti þar sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. Hennar er getið víðar seinna, en nú er hún horfin undir flugvöll.

Básendar (verslunarstaður)

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi og sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Höfnin var lón mjótt og langt, svo sem bás austur og inn í landið. Skipaleiðin inn á leguna var nokkuð löng, milli skerja, og í líkri stefnu. Landslaginu er þannig lýst í Blöndu á þriðja áratug 20. aldar að umhverfis Básenda séu fjörur og sandauðn með litlum grasflesjum frá öldinni á undan að austan og norðanverðu. Þær séu að brotna, eða blása og gróa á víxl, allt heim að túni á Stafnesi, en sjór mylji framan af. Þá er lýst boðum miklum, skerjum og lónum.
Skúli Magnússon, fógeti, lýsti Básendum svo um 1785: „Kring um hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar.“
Nafnið Básendar mun ekki vafalaust, en er í góðu samræmi við landslagið eins og það hefur verið frá fyrstu tíð. Nöfnin Bátsendar og Bátsandar, sem einnig má sjá í heimildum, eru taldar vera ambögur, enda eru til fleiri básar enn sunnar á nesinu, s.s. Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás og Blasíusbás. Básendahöfn hefur sjálfsagt lengi verið notuð til bátaútræðis og fiskiveiða á vertíðum – þó lítið séum þetta kunnugt. En samkvæmt Blöndu voru þó merkustu notin af hinni góðu hafskipalegu og versluninni sem telja má víst að þar hafi oftast verið rekin í rúmar þrjár aldir (1484-1800)og sennilega fyrr á öldum líka.

Básendar

Básendar – bærinn.

Enskir og þýskir kaupmenn börðust blóðugri baráttu um verslunina innbyrðis og við Dani uns þeir síðastnefndu urðu hlutskarpastir. Til dæmis að taka fóru Þjóðverjar frá Básendum og víðsvegar af Suðurnesjum í bardaga við enska kaupmenn í Hafnarfirði og varð þar mikið mannfall.
Samkvæmt Skúla Magnússyni var á Básendum: […] höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá.[…] Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi.

Þegar mjög er stórstreymt, hefur borið við, að sjór hefir flætt inn í verzlunarhúsin, en það hefir þó eigi valdið verulegu tjóni.
Hálfum öðrum áratug eftir að þetta var skrifað eyddust Básendar í einhverju ofsalegasta fárviðri og sjávarflóði sem sögur fara af hér á landi. Aðfararnótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Snæfellsnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu svo að nokkuð sé nefnt. Á Básendum tók þó út yfir allan þjófabálk. Þar sópaði flóðið á einni nóttu flestum ef ekki öllum húsum hins forna kaupstaðar burt, kona einroskin og lasin drukknaði en annað heimilisfólk bjargaði sér við illan leik. Þrátt fyrir öll ósköpin og þó að tvær aldir séu liðnar síðan sér vel til rústa á tanganum. Eyðingu Básenda er lýst í skýrslu hins „fjárþrota“ danska kaupmanns H[inriks] Hansen sem er í vörslu Þjóðskjalasafnsins, skrifuð 16. mars sama ár til að sýna „hversu ofurefli sævarins, hef[ði] eyðilagt verslunarstaðinn og margskonar fjármuni [kaupmannsins], og í hvílíkum dauðans vandræðum [hann] var staddur, með [s]ínum nánustu.“Hér verður stuðst við endursögn skýrslunnar í Blöndu, en því er svo nákvæmlega greint frá þessum atburðum að frásögnin gæðir hinar mállausu tóttir lífi og kann að verða til þess að auka áhuga nútímamanna á varðveislu þessara fornuminja: Eptir að við öll (eg, kona, 4 börn og vinnukona) vorum háttuð, varð eg þess var um nóttina (á að gizka kl. 2) hversu veðrið af suðri til vesturs magnaðist, svo iðulega fór að braka í húsunum. Þar að auki fóru að heyrast skellir, hver eptir annan, eins og veggbrjótur væri að vinnu á hlið hússins og undirstöðu. Af þessu fór eg á fætur, til þess að líta eptir veðrinu og vita, hvað gengi á úti. Þrátt fyrir svart myrkrið lauk eg upp húsdyrum eldhúsmegin, og þá þegar brauzt sjórinn inn á mig, með svo miklu afli og straum, að fyllti herbergin á lítilli stundu. Flúðum við þá í skyndi upp á húsloptið, hálfnakin upp úrrúmunum, því við óttuðumst, að við myndum farast í sjónum niðri, þar sem íbúðin var. Og í myrkrinu þorðum við ekki út úr húsinu, bæði vegna æðandi brimaldanna og rjúkandi ofviðris; svo vissum við líka að allt umhverfis húsið var hulið sjó. Og megum við víst þakka guði, að við gripum þá ekki það óyndisúrræði, því þá hefðum við öll farizt. Þarna stóðum við nú langan tíma á loptinu í sífelldum dauðans ótta, að veður og sjór mundi þá og þegar mola húsið niður að grundvelli. Ofviðrishrinurnar og brimið lamdi sífellt á húsinu, svo að það var nú farið að brotna, mótstöðuafl þess rýrnaði og sjórinn streymdi út og inn. Hér um bil kl. 7 (að við héldum) treystumst við ekki lengur að geta bjargað lífinu þarna á loptinu. Braut eg því gluggann á norðurhliðinni. Þar smugum við öll út, eins og við stóðum (hálfnakin). Eg vóð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjármunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur, og til hlöðunnar. Annar gaflinn var brotinn af henni, en í staðinn var þar kominn hlaði af trjáviðardóti, er við urðum að skríða yfir, með mikilli hættu, tilað komast inn. Þarna stóðum við skjálfandi nokkurn tíma, unz veðrið fór með nokkuð af þakinu, en hinn hlutinn blaktaði fram og aptur, eins og blaðsnepill. Til þess enn að reyna að bjarga lífinu, gerðum við síðustu tilraun, yfirgáfum eyðilagða kaupstaðinn, leiddumst öll saman og héldum áleiðis til bygða. Vóðum svo og skriðum í rokinu, unz við eptir miklar þrautirnáðum á næstu hjáleigu, er nefnist Lodda (Loðvíksstofa), rétt hjá Stafnesi.

Stafnes

Lodda.

Í Loddu tók Jón Björnsson, fátækur bóndi, og kona hans við fjölskyldunni, nærri „örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki.“ Hafðist hún þar við í hálfan mánuð. Til þess að níðast ekki á gestrisninni frekar fluttist fjölskyldan í baðstofuna á eyðibýlinu Stafnesi. Þegar veðrinu slotaði og aftur fjaraði út var allt á tjá og tundri á Básendum: Eins og hr. sýslumaðurinn mun sjá eru húsin mín öll á verzlunarstaðnum sama sem hrunin að grundvelli, og bærinn, sem þar var, líka. Fólkið úr honum bjargaði sér upp um þekjuna, og tókst því þann veg um nóttina að bjarga lífi sínu, með guðs hjálp, nema aldraðri konu, sem veðrið lamdi niður, svo hún drukknaði í flóðinu. Eptir að hvíld og næði færðist yfir hagi mína hefi eg varið tímanum til þess að setja stoðir undir það, sem uppi hangir af húsaskrokkum verzlunarstaðarins, moka úr þeim fjörumölinni og grafa upp dótið mitt úr rústum þessa ömurlega staðar, svo og að safna saman borðum, trjám og brotum húsa (og húsbúnaðar). Við allt þetta árangurslitla strit, dag og nótt, er eg og konan orðin svo lasburða, að eg treysti mér tæplega að vinna lengur þetta erfiði. Og erfiðið verður því árangursminna, þar ekki þarf hér eptir að vonast eptir fólki til útróðra á þessum stað.
Var það hverju orði sannara. Í matsgerð yfirvalda um skemmdirnar á verslunarstaðnum fáum mánuðum eftir óveðrið segir: Verzlunarstaðurinn og umhverfi húsanna er svo hlaðið sandi, möl og grjóti, að það verður ekki lagfært til notkunar, nema með mjög miklum kostnaði, því hér eru [steinar], svo stórir, að naumast verða færðir úr stað af 6 mönnum, með tækjum, sem hér eru til. …
Verzlunarstaðurinn sýnist alveg óbyggjandi til frambúðar, því grundvöllurinn virðist vera 1 – 2 álnum lægri en áður.
Til frekara marks um hve hátt flóðöldurnar risu er að sjór komst hátt í 300 m upp fyrir verslunarstaðinn og rekadrumbur skolaðist upp á þakið á einu verslunarhúsinu meira en 2,3 m frá jafnsléttu.

Brennitorfuvík – Básendahöfn (lending)

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Básendar stóðu á grjótrima milli tveggja víka. Í örnefnalýsingu Magnúsar Þórarinssonar segir: „Sunnan við malartangann hjá Básenda er ílangt lón, það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefur verið löngmilli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Básendahöfn mun heitaréttu nafni Brennitorfuvík.“ Enn má sjá merki um varir þar sem höfnin hefur verið.

Festarhringur (kengur)

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í þangi vaxinni klöpp, 42m niður frá suðvesturhorni húsgrunnsins mikla (vöruhúsið), er járnkarl velgildur en ryðbrunninn, greyptur og tinsteyptur við klöppina. Hann er um 15 sm á þykkt og 30 sm á hæð með áföstu hringbroti í gati ofarlega. „Þetta var hestasteinninn á hlaðinu, fyrir stjórnborðabeizli sjóhesta. [Aðrir festarhringir fundust ekki sem áttu að vera utar og í klöppum við suðurhlið legunnar. Þannig hafa skipin verið „svínbundin“ á báðar hliðar og frá báðum stöfnum.“ Svo segir í Blöndu, en Magnús Grímsson segir þau skip „svínbundin“sem bundin séu landfestum „svo að ei máttu snúast fyrir vindi.“
Samkvæmt heimildum ættu fleiri festahringir en sá sem lýst er að vera við leguna, en við vettvangskráninguna fundust þeir ekki. „Annar slíkur er dálítið utar, niður undan kotinu og eru tveir eða fleiri festarhringir þar á móti, í klöppunum við suðurhlið skipalegunnar,“ segir í Blöndu. Magnús Grímsson ritar að festarnar séu „5 á landskerjum eða landi, en 4 á útskerjum.“ Hann segist einungis hafa séð 2 þessara stólpa, fyrrgreindan og annan sem hringurinn var úr: „Sjómaður einn svarf hann úr með launung, en Stafnesbóndi komst þó að því um það leyti hann var ónýtur orðinn, hringurinn. Varð bóndi þá reiður, kvaðst ei vilja berja manninn, en á meðan hann lifði, mætti enginn hreifa neitt af menjum þessum.“

Fangamörk (áletur)

Básendar

Básendar – áletur.

Magnús Grímsson segir að við landfestar þær sem hann sá og hringurinn var úr hafi verið klappað í steininn fangamarkið ASS. Var honum sagt að á skeri einu væru ótal slík fangamörk, þ.e. að austanverðu við syðri voginn og kvað vera gengt í skerið á fjöru.

Básendar (býli)

Básendar

Básendar – bærinn.

Framan við Básenda er malartangi með sljóu horni. Er sagt frá því í ýmsum heimildum, þ. á m. í Blöndu, að þar hafi kotbær „staðið vestast á rimanum, má þar greina fimm sambyggðar kofatættur, þó að nokkru sé gróið yfir þær.“ Rústirnar eru mjög greinilegar og hafa veggir verið hlaðnir úr torfi og grjóti, veggjaþykkt er mest um 2 m en minnst 60 sm. Veggir eru frá 30 sm til 130 sm á hæð. – Um bæinn segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 að jarðardýrleiki sé óviss, ábúandinn Árni Þorgilsson, landsskuld engin í skjóli kaupmanna og að við til húsabótar leggi kaupmaður. Kúgildi var ekkert. Kvaðir voru engar nema þær að gæta búðanna meðan ei var eftir liggjari. Kvikfénaður fjórar ær sem gengu í Stafnesslandi, geldir sauðir þrír veturgamlir, tvö lömb, einn hestur; í óleyfi bóndans á Stafnesi allt saman. Grasnyt engin. Heimilismenn sjö. – Hér drukknaði að öllum líkindum konan í Básendaflóðinu 1799. Hún hét Rannveig Þorgilsdóttir, 79 ára gömul, og hafði verið niðursetningur á Básendum frá 1791 eða fyrr. Aðrir íbúar í kotinu höfðu bjargað sér upp um þekjuna, vinnumaðurinn Ásmundur Jónsson, vinnukonan Þjóðbjörg Jónsdóttir og húskonan Bergljót Arngrímsdóttir. Í matsgerð yfirvalda um tjónið á íslenska bænum segir samkvæmt Blöndu: „Fimm litlir kofar voru byggðir að íslenskum sið, úr grjóti og torfi. Hafa þeir hrunið og spýtur brotnað og skolast út, svo nú er þar umhverfis aðeins ein grjóthrúga.“
Í Blöndu segir: „Aust-suðaustur frá bænum (kotbær), 28 m frá honum, hefur staðið vöruhús mikið. Sér þar fyrir grunni sem er 20 m á lengd frá suðri til norðurs og 12-15 m á breidd, ef til vill með gangstétt.“ Enn má vel greina þessar rústir. Ekki eru neinar leifar af veggjum, enda hefur húsið sennilega allt verið byggt úr timbri. Það hefur snúið í S-N. Framangreind mál eru rétt og sjá mátti að stétt hefði verið fyrir framan húsið. Í Blöndu segir um mat fulltrúa yfirvaldsins á tjóni á „vöruhúsinu mikla“ eftir Básendaflóðið 1799:„Þar er undirstaðan farin undan norðurgafli og austurhlið, fóttré brotið og sigið um ½ alin. Helmingurinn af austurþekjunni er fokinn, og var þó tvöföld. Sperra hefur farið þar líka. Grjót og sandur hefur borist á gólfflötinn. Í norðurenda húss þessa ætlar kaupmaðurinn að þilja af litla sölubúð, til þess að geta haft þar vörusölu í sumar, því ekki er kostur á öðrum stað, fyrir vörur þær, sem von er á með skipinu þangað á næsta vori.“

Húsgrunnur (sölubúð)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Um 10 m austan við vöruhúsið er annar húsgrunnur samkvæmt Blöndu, „mun þar hafa verið sölubúðin.“ Grunnurinn að húsinu sést enn vel og er um 9 m á lengd og 6 m á breidd. Ekki sjást neinar leifar af veggjum, enda trúlega verið timburhús. Fulltrúar yfirvaldsins mátu skemmdirnar eftir sjávarflóðið 1799: „Syðri hliðin (= suð-suðvestur) var alveg farin og flotin burt, en hálf norðurhliðin opin, þar sem sjórið hafði brotizt í gegn. Hleðslan undan vesturendanum farin, svo það sem af húsinu hangir uppi, stendur á tveimur stafgólfum við eystri endann, og á litlum undirbita í miðjum vesturenda. Og kaupmaður hefur látið stoðir undir grindina hér og þar, svo húsið steyptist ekki á endann. Gólfið hefur sjórinn flutt með sér, en hlaðið möl og grjóti í aðsetursstaðinn („Værelset“ – austurendann) allt að 2 álnum á hæð.“

Hús kaupmannsins (bústaður)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

„Hússtæði kaupmanns hefur sennilega verið enn austar en vöruhúsið og sölubúðin, en í sömu röð. Þar er nú grastorfa yfir,“ segir í Blöndu. Við vettvangskráningu mátti greina rústir á þessum stað. Ekki var unnt að átta sig nákvæmlega á umfangi og gerð hússins, en nokkuð öruggt er að þetta eru leifar af húsgrunni. Hús kaupmannsins varð sævarrótinu 1799 að bráð. Af lýsingu kaupmannsins að dæma á flótta hans og fjölskyldu hans undan flóðinu, eins og hún kemur fyrir í Blöndu, var íbúðin nokkur herbergi og loft yfir þar sem unnt var að standa uppréttur. Að minnsta kosti tvennar dyr virðast hafa verið á húsinu því að kaupmaðurinn tiltekur að hafa opnað dyr eldhúsmegin eins og til aðgreiningar frá aðaldyrum. Fulltrúar yfirvaldsins mátu skemmdirnar og rituðu um íbúðarhúsið: „Það hefur farið eins [og sölubúðin], suðurhliðin burt, sú er að sjónum sneri, og sömuleiðis hálf norðurhliðin. Gluggar allir brotnir og burtu. Herbergi öll hlaðin sandi, 1-2 álnir á dýpt. Undirhleðslan umrótuð, en undirviðirnir og tvö stafgólfin í vesturenda hússins hafa bjargað því frá gjöreyðing.“

Lýsisbúð (búð)
„Í Básendaflóðinu árið 1799 eyðilagðist Lýsisbúðin, svo ekki er ein spýta eftir,“ sagði í mati fulltrúa yfirvaldsins á skemmdum eftir flóðið samkvæmt Blöndu: „og meira að segja hússtæðinu rótað burt, en í staðinn komin möl og sjávargrjót. Hús þetta byggði kaupmaðurinn í fyrra.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja, sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar lýsisbúðarinnar að vera því að þar virðist vera meira varðveitt en lýsing af lýsisbúðinni gefur til kynna. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Lifrarbræðsluhús (hús)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Matsgerð yfirvalda vegna skemmda á húsum og munum í Básendaflóðinu 1799 greinir frá lifrarbræðsluhúsi: „Norðurgaflinn er brotinn og öll austurhliðin. Inni er 1½ alin af sandi og möl. Húsið væri nú hrunið alveg, ef ekki hefðu verið bornar að því stoðir eins fljótt og gert var.“ Svo segir í Blöndu. Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna leifar lifrarbræðsluhússins að vera, en sú ályktun byggist á því að þar stóð meira uppi eftir flóðið en af öðrum húsum sem ekki er unnt að staðsetja eða gera grein fyrir.

Húsgrunnur (hús)
Við vettvangsskráningu fundust norður af húsi kaupmannsins en sunnan við rústirnar þrjár leifar af grunni húss, trúlega timburhúss, sem örðugt er að greina hvaða tilgangi hafi þjónað, svo lítið hefur varðveist, heimild um lýsisbúð, heimild um litla vörugeymslu, heimild um skemmu, en einkum heimild um lifrarbræðsluhús. Lýsingin á lifrarbræðslunni virðist helst geta átt við þennan grunn af þeim mannvirkjum sem til er að dreifa. Um þetta verður þó ekkert fullyrt. Í grunni þessum fundust múrsteinsbrot.

Skemma (hús)
Fulltrúar yfirvaldsins tóku út húsin á Básendum eftir sjávarflóðið 1799 og segir í matsgerð þeirra samkvæmt Blöndu að skemman hafi verið „byggð að sið landsmanna, með þili, 4 stafgólf. Hún hefur sópast alveg úr stað.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar skemmunnar að vera, þó tæplega því að þar virðist meira vera varðveitt en lýsing af skemmunni gefur til kynna. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Vörugeymsluhús (hús)
Fulltrúar yfirvalda mátu skemmdirnar á Básendum eftir flóðið 1799 og sögðu um litla vörugeymslu samkvæmt Blöndu:„Gjörhrunið bæði þak og veggir. Bæði þessi hús voru byggð úr grjóti og torfi.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar vörugeymsluhússins að vera því að þar virðist vera meira varðveitt en lýsing af vörugeymslunni litlu gefur til kynna.

Básendar

Básendar – garður.

Garður (garður)
Garðsbrot er norður af þeim stað sem vöruhúsið, sölubúðin, og hús kaupmannsins stóðu, að mestu hlaðið úr grjóti, mest um 1,2 m á breidd. Sést garður þessi best á 10-14 m kafla, er víðast horfinn, en sums staðar djarfar fyrir honum á yfirborðinu. Í Blöndu segir að garðurinn hafi legið „í hálfhring að ofanverðu kring um húsin og verslunarsvæðið, hann var byggður úr stóru grjóti, en skemmdist í Básendaflóðinu árið 1799.“

Fjós (hús)
Norðaustur af garðinum „er kálgarður eða rétt með hesthúsi, geymslu og fjósi að baki. Hús þessi hafa staðið hæst og norðaustur á rimanum og stendur enn meira og minna af grjótveggjum þeirra, eftir 125 ár.“ Svo segir í Blöndu sem skrifuð var á miðjum þriðja áratug 20. aldar. Verður að telja ólíklegt að um kálgarð hafi verið að ræða. Rústin er hlaðin úr grjóti og ber öll merki þess að vera rétt eða gerði, 14 m á lengd og breidd með inngangi á suðurhliðinni fast við vesturgaflinn. Yst er hólf, hugsanlega hesthús, 7m á breidd frá vesturgafli og 3 m á lengd, aðgreint frá réttinni með lágum vegg sem nú er hruninn. Viðbygging við norðurgaflinn er 12 x 3m að flatarmáli og skagar út frá vesturgafli réttarinnar eina 5 eða 6 m. Er gengið inn í viðbygginguna fram og utan með vesturgafli réttarinnar. Til vinstri þegar inn er komið er fjós, 5 x 3 m á stærð, en til hægri trúlega geymsla eða hesthús. Grjóthleðslurnar eru 30 til 80 sm á hæð, réttin heillegust. – Hingað virðist síðasti kaupmaðurinn á Básendum, Hinrik Hansen, hafa flúið meðfjölskyldu sinni í myrkrinu og vetrarkuldanum árla morguns 9. janúar 1799 þegar sjórinn var að mola undan þeim íbúðarhúsið í Básendaflóðinu: „Eg vóð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjármunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur.“

Brunnur (vatnsból)

Básendar

Brunnur.

Í lægðinni, 100 m austar en réttin, var samkvæmt Blöndu vel upp hlaðinn brunnur, fullur af sandi. Viðvettvangsskráninguna fannst brunnurinn ekki, hvernig sem leitað var, sennilega er hann sokkinn auk þess sem gróður á svæðinu er mikill og hár og gerði að verkum að erfitt reyndist að leita.

Fiskbyrgi (geymsla)

Básendar

Fiskibyrgi.

Í Blöndu segir: „Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga úr einhlöðnu grjóti hafa verið þar á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu. Þar hefur fiskurinn verið hengdur á rár og hertur.“ Við vettvangsskráninguna var aðeins skráð eitt fiskbyrgi í landi Básenda. Það er með skeifulagi, hlaðið úr grjóti og stendur við matjurtagarðinn.

Brennitorfa (brenna)

Básendar

Brennitorfa.

Í örnefnalýsingu og heimildum er örnefnið Brennitorfa fyrir ofan Básendahöfn og áttu Básendamennað hafa haft þar brennur. „Básendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík,“ segir Magnús Þórarinsson. Ekki sáust nein ummerki um brennur á vettvangi.

Draughóll (þjóðtrú)

Í fleiri en einni heimild segir frá örnefninu Draughól og að hann sé sunnan við Brennitorfu. Að þar hafi verið dys kemur aðeins fram í greininni Fornminjar um Reykjanessskaga. Þar segir: „Nokkru sunnar, upp á hrauninu er hóll hár, sem kallaður er draughóll. Þar átti að hafa verið dys til forna, og rótuðu sjómenn henni alveg um. Þar fundu þeir lítið fémætt.“ Auðvelt var að þekkja þetta kennileiti, en ekki var hægt sjá neitt manngert við hóllinn eða í námunda hans.

Kaupstaðavegur (leið)

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Séra Sigurður B. Sívertsen segir um hina fornu og þá aflögðu leið í Lýsingu Útskálaprestakalls 1839: „Frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það var gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.“ Við vettvangsskráningu var leiðin gengin frá Kirkjuvogi að Þórshöfn. Þá var hún gengin frá Gálgaklettum að Básendum. Hún er á köflum frábærlega vel varðveitt. Víða meðfram götunni hafa myndast háir kantar eftir því sem grjót hefur verið tínt úr henni. Hún er tveggja hesta breið. Með leiðinni eru 10-15 vörður sem virðast fornar, en víða á Miðnesheiðinni eru nýlegar vörður.

Gamli Kirkjuvogur (býli)

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar er að finna eftirfarandi frásagnir:
Herjólfr hét maðr, Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Íngólfs landnámsmanns; þeim Herjólfi gaf Íngólfur land á milli Vogs ok Reykjaness.
Þórir haustmyrkr nam Selvog ok Krísuvík, en Heggrson hans, bjó at Vogi, en Böðmóðr, annar son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar.
Herjólfr, sá er fyrr var frásagt, var frændi Íngólfs ok fóstbróðir, af því gaf Íngólfr honum land á milli Reykjaness ok Vogs; hans son var Bárðr, faðir Herjólfs þess, er fór til Grænalands, ok kom í hafgerðingar […]
Nokkuð er nafn bæjarins á reiki, hann virðist ýmist kallaður Vogur eða Kirkjuvogur í gömlum heimildum. Líkur benda eindregið til að um sé að ræða einn og sama bæinn – og að bæst hafi framan við bæjarnafnið þegar kirkja var reist á jörðinni. Kenningar um að Djúpivogur við Ósabotna sé þriðja nafnið á sama bænum geta vart staðist því að í landamerkjabréfi frá 1270 segir: „En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsnessskilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi.“

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – bæjarhóllinn.

Hér virðist Djúpivogur vera bæjarnafn, en ekki annað nafn á Kirkjuvogi sem nefndur er í sömu málsgrein. Enda hafa Árni Magnússon og Páll Vídalín nokkurn fyrirvara á þegar þeir ráða í forn skjöl um að Kirkjuvogur hafi heitið Djúpivogur til forna.
Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16. aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.
Til forna lá jörðin hins vegar langt inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústa bunga, grasi gróin, sem snýr í suður-norður, rúmir 23 m á lengd, 10 m á breidd og hæst um 2 m. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðins brunns vestan við hann, en tóftir enn lengra í vestur sem gætu verið rústir útihúsa. Enn fremur eru greinilegar traðir frá bænum í norður upp á kaupstaðaleiðina. Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. Hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 verða válegir atburðir sem eru færðir í annála: „Á þessu ári gerðust þau hræðilegu tíðindi, að Þorleifur Þórðarson drap Þorbjörn prest Þorsteinsson í kirkju, suður á nesjum, í Kirkjuvogi, á Mikjáls-messudag, þá er hann var skrýddur og stóð fyrir altari. Síðan lagði þessi Þorleifur sjálfan sig með hnífi til bana í kirkjunni. Þorbjörn Þorsteinsson var prestur á Hvalsnesi,en hefur þjónað í Kirkjuvogi.“

Gamli-Kirkjuvogur

Gerði.

Tveir máldagar eða eignaskrár hafa varðveist um Vogskirkju. Sá eldri er í Hítardalsbók frá 1367. Það er þó aðeins ágrip af máldaga kirkjunnar, en allur máldaginn hefur varðveist í Vilchinsbók biskups í Skálholti frá 1397. Þar stendur: Maríukirkja í Vogi á þriðjung í heimalandi, hálft Geirfuglasker, tíu kýr, tvö hross kúgildi. Hún á viðreka önnur hver misseri millum Klaufar og Ósa, fimm álna tré og þaðan af stærri, og þriðjung í Valagnúpafjörum. Hún á Róðukross og með líkneski, Maríuskript, Pétursskript, tabulum [þ.e. töflu] fyriraltari og brík forna. Item [þ.e. einnig] messuklæði, kantarakápur tvær, glóðarker, glergluggur, klukkur fjórar, kaleikur brotinn og annar nýr minni, sloppur, bók er tekur tólf mánaða tíðir, allar nema seqventiur, og sérdeilis söng um Langaföstu, formælabók, Lectaresacrarium, munnlaug, tvær merkur vax, kola.Portio Ecclesiæ [þ.e. reikningur kirkjunnar] sérlega mörk. Item gafst kýr frá Galmatjörn að Kirkjuvogi. Portio xvc so langan tíma sem Svarthöfði átti jörðina.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – manngerður hóll.

Kirkjan var í pápísku helguð Maríu guðsmóður og var rík af eignum, enda enginn vafi um að Kirkjuvogur hafi fyrrum verið höfuðból. Hafa ekki lítil hlunnindi verið að sækja í Geirfuglasker og eiga það hálft, en Kirkjubólskirkja og Hvalsneskirkja áttu sinn fjórðunginn hvor. Klettaeyja þessi var að stærð „hér um mældur kýrfóðurs völlur“ og svo mikil mergð svartfugls á henni „að engin sjást skil á neinu“; geirfugl þó ekki nærri eins mikill sem skerið hefur nafn til. Lending við skerið fór smáversnandi og strjáluðust ferðir þegar „á tvær hættur [var] að leggja líf og dauða þar upp að fara“ og mannskaðar urðu. Árið 1732 var gerð ferð í skerið í fyrsta sinn í 75 ár. Fundust þá skinin mannabein í skerinu og gátu menn sér til að dugga hefði orðið að skilja þar eftir mann sem settur hefði verið í land til að taka fugl og egg. Stef séra Hallkels á Hvalsnesi vottar að einnig gat verið illt að sækja í Geirfuglasker í fornöld þótt lending hafi áreiðanlega verið betri í þann tíð: Eg get ekki gefið mig í Geirfuglasker, eggið brýtur báran því brimið er. Um hættuför í Geirfuglasker orti Ólína Andrésdóttir í kvæði sínu Útnesjamönnum: Ekki nema ofurmenni ætluðu sér að brjótast gegnum garðinn kringum Geirfuglasker. Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för, en betri samt en björg að sækja í Básenda vör. Betri samt en björg að sækja Básendum að; ræningjarnir dönsku réðu þeim stað.
Nú eru Geirfuglasker, þetta mikla forðabúr, sokkin í sæ og brýtur á þeim á fjöru.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – manngerður hóll.

Hinn 19. apríl 1467 selur Björn Þorleifsson Eyjólfi Arnfinnssyni jarðirnar Voga á Rosmhvalanesi og Gunnólfsá í Ólafsfirði fyrir fimm jarðir á Vestfjörðum.
Einn helsti fornfræðingur landsins um aldamótin 1900, Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, skráði minjar á Miðnesheiði. Á grundvelli þess að enginn bær hafi verið í Rosmhvalaneshreppi sem hét Vogar dró Brynjúlfur þá ályktun í skýrslu sinni að hér hlyti að vera átt við Kirkjuvog hinn forna.
Árni Magnússon og Páll Vídalín skráðu eftirfarandi um „gamla Kirkjuvog“ sumarið 1703 í Jarðabók:
Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé hvort hún liggi í Kirkjuvogs eður Stafness löndum, item að munnmæli séu að Kirkjuvogs bær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hver bær verið, Kirkjuvogur, sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er, að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því svo vel túnstæðið sem landið alt um kríng af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn, og er hér ágreiningur um landamerki.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – varða.

Tekið er fram að gamli Kirkjuvogur sé forn teyðibýli árið 1703. Í Jarðabók er enn fremur þetta skjal um jörðina, skrifað í ágúst sama ár í Kirkjuvogi í Höfnum:
Forn eyðijörð, hefur legið í auðn yfir stórt hundrað ár. Eru munnmæli að Kirkjuvogs bær sé þaðan fluttur, þangað sem nú stendur hann, og vill þá þetta bæjarstæði í Kirkjuvogslandi verið hafa. Aðrir halda að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi.
Hvað sem líður landamerkjadeilum varpa þessi gögn ljósi á að jörðin við norðanverða ósa hafi farið í eyði um 1580 eða þar um bil.
Bæjarhóllinn stendur við norðanverða Ósa. Hann er grasi gróinn, snýr í suður-norður, rúmir 23 m á lengd, 10 m á breidd og um 2 m þar sem hann er hæstur. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Ýmsar heimildir eru til um gamla Kirkjuvog og verður hér látið nægja að vísa í samnefndan kafla hér að framan.

Brunnur (vatnsból)

Gamli-Kirkjuvogur

Brunnur.

8 m vestur af bæjarhólnum er óvenjulega vel varðveittur brunnur, fallega hlaðinn úr grjóti, 1,30 x 1,50 m að utanmáli.

Túngarður (garður)
Ofan og norðan við bæjarhólinn eru ógreinilegar leifartúngarðs sem hefur verið hlaðinn úr grjóti.

Kirkjugarður (legstaður)

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera kirkjugarður, enda var Kirkjuvogur kirkjujörð. Heimildir herma að mannabein hafi verið flutt héðan í kirkjugarð í Kirkjuvogi í Höfnum, síðast um aldamótin 1800. Rústirnar eru ógreinilegar, en augsýnilega leifar mannvirkis.

Kirkjuvogssel (sel)

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Nokkuð langt austur af Hvalhólum er Kirkjuvogssel. Þar eru talsverðarrústir og nokkrar sagnir eru til um það. Í Rauðskinnu hinni nýrri segir Ólafur Ketilsson, refaskytta, frá viðskiptum sínum við draug í selinu. Heyrir hann kallað nafn sitt ótt og títt svo að hann herðir för sína til byggða, en það verður honum til lífs því að foráttuveður skellur á.

Hvalsnessel (sel)

Hvalsnessel

Hvalsnessel.

Í ofanverðri heiðinni eru tvær selstöður, önnur frá Stafnesi og hin frá Hvalsnesi. Báðar eru vel greinilegar (sjá má húsaskipan) á gróðnum bleðlum í annars viðfeðmum sandflákum.

Beinhóll (blóðvöllur)
„Þar var slátrað hrossum til refafóðurs,“ segir í örnefnalýsingu.

Hunangshella (þjóðtrú)

Hunangshella

Hunangshella.

„Við landsuðurhorn Ósanna hjá alfaravegi (Keflavíkurveginum) er flöt hraunklöpp, eigi alllítil, sem kölluð er Hunangshella,“ segir í Fornminjum um Reykjanessskaga eftir Magnús Grímsson: „Sagan segir, að dýr það, sem heitir finngálkn (þ.e. afkvæmi tófu og kattar), hafi lagzt á fénað manna og gjört tjón mikið. Reyndu menn til á ýmsa vega að drepa það, en gátu ei sökum styggðar þess og fráleika. Þá hitti maður einn upp á því að bera hunang á hellu þessa og lagðist þar hjá í leyni. Dýrið rann á lyktina og sleikti hunangið, því finngálkn eiga að vera mjög sólgin í það. Þar skaut maðurinn dýrið, en hellan er síðan kölluð Hunangshella.“ Ólafur Ketilsson, refaskytta, getur þess í framhjáhlaupum í draugasögu að hafa árið 1886 í desember tekið stefnuna á Hunangshellu á leið sinni til byggða.

Heimild:
-Fornleifaskráning á Miðnesheiði, Þjóðminjasafn Íslands, 2000.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Tag Archive for: Básendar