Færslur

Básendar

Básendar voru verslunarstaður frá 1484 til 1800. Undir lok 18. aldar var Hinrik Hansen kaupmaður á Básendum. Hann bjó á Básendum enda hafði verslunin þar verið opin allan ársins hring í nærfellt fjóra áratugi þegar þá var komið við sögu.

Höfnin

Kaupmaður bjó í sérstöku húsi ásamt eiginkonu sinni, Sigríði Sigurðardóttur frá Götuhúsum í Reykjavík, fjórum börnum þeirra hjóna, Símoni, Jóhanni Friðriki, Pétri og Maríu Lisbet, og vinnukonu. María var yngst barnanna. Þrjú önnur vinnuhjú og einn niðursetningur voru á Básendum veturinn 1799 og á vegum kaupmanns. Þau áttu heima í kotbæ skammt frá kaupmannshúsinu. Þann 9. janúar skall á ofasveður er fylgdi óhemjumikið flóð.
Hinrik Hansen kaupmaður sendi Sigurði Péturssyni, sýslumanni og skáldi, lýsingu á atburðum þessarar nætur og er lýsingin dagsett 16. mars 1799. Skjal þetta er varðveitt. Það er á dönsku. Vigfús Guðmundsson gaf það út nokkuð stytt í Blöndu og á íslensku:
„Vegna ástæðnanna verð eg að bera fram fyrir hérðasdómarann tjónið hræðilega, sem varð í byrjun þessa árs á verzlunarstaðnum Básendum, er eg hafði náðarsamlega í hendur fengið. Út af því er eg nú fjárþrota með óþroskuð börn og óþægilegan aðbúnað. Til að gera héraðsdómaranum þetta skiljanlegt, tek eg mér leyfi til að segja söguna sanna, eons og hún gerðist. Sést þá hversu ofurefli sævarins, hefur eyðulagt verzlunarstaðinn og margskonar fjármuni mína, og í hvílíkum dauðans vandræðum eg var staddur, með mínum nánustu, meðan allt var að eyðuleggjast. þessi hörmulega saga er þá svona:
Leifar Eptir að vil öll (eg, kona, 4 börn og vinnukona) vorum háttuð, varð eg þess var um nóttina (á að gizka kl. 2) hversu veðrið af suðri til vesturs magnaðist, svo iðulega fór að braka í húsunum. Þar að auku fóru að heyrast skellir, hver aptir annan, seins og veggbrjótur væri að vinnu við hlið hússins og undirstöðu. Af þessu fór eg á fætur, til þess að líta eptir veðrinu og vita, hvað gengi á úti. Þrátt fyrir svart myrkrið lauk eg upp húsdyrum eldhúsmegin, og þá þegar brauzt sjórinn inn á mig, með svo miklu afli og straum, að fyllti herbergin á lítilli stundu. Flúðum við þá í skyndi upp á húsloptið, hálfnakin upp úr rúmunum, því við óttuðumst, að við mundum farast í sjónum niðri, þar sem íbúðin var. Og í myrkrinu þorðum við ekki út úr húsinu, bæði vegna æðandi brimaldanna og rjúkandi ofviðris, svo vissum við líka að allt umhverfis húsin var hulið sjó. Og megum víst þakka guði, að við gripum þá ekki það óyndis úrræði, því þá hefðum við öll farizt. Þarna stóðum við nú langan tíma á loptinu í sífelldum dauðans ótta, og veður og sjór mundu þá og þegar mola húsið niður að grundveli. Ofviðrishrinurnar og brimið lamdi sífellt á húsinu, og það var nú farið að brotna, mótstöðuafl þess rýrnaði og sjórinn streymdi út og inn.
BrunnurHér um bil kl. 7 (að við héldum) treystumst við ekki lengur að geta bjargað lífinu þarna á loptinu. Braut eg því gluggann á norðurhliðinni. Þar smugum við öll út, eins og við stóðum (hálfnakin). Eg vóð með yngasta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjarmunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur, og til hlöðunnar. Annar gaflinn var brotinn af henni, en í staðinn var þar kominn hlaði af trjáviðardóti, er við urðum að skríða yfir, með mikilli hættu, til að komast inn.
Þarna stóðum við skjálfandi nokkurn tíma, unz veðrið fór með nokkuð af þakinu, en hinn hlutinn blaktaði fram og aptur, eins og blaðsnepill.

Ártal

Til þess að bjarga lífinu, gerðum við síðustu tilraun, yfirgáfum eyðilagða kaupstaðinn, leiddumst öll saman og héldum áleiðis til byggða. Vóðum svo og skriðum í rokinu, unz við eptir miklar þrautir náðum að næstu hjáleigu, er nefnist Lodda (Loðvíksstofa), rétt hjá Stafnesi. Fátæki bóndinn þar, Jón Björnsson og kona hans, tóku á móti okkur – sem vorum nærri örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki – með mestu alúð og hjartagæzku. Létu og það allt gott í té, er þau gátu. Í baðstofu þessa ráðvanda manns höfðum við aðsetur og aðbúnað í 14 daga. Voru þar alls 19 manns, þar af 10 börn, en þó var baðstofan ekki nema 3 stafgólf („Fag“ = 2 álnir) á lengd, 3 1/2 alin á vídd og 3 álnir á hæð, af gólfi upp í mæniás. Þrátt fyrir alúð mannsins og góðvilja vildum við ekkilengur níðast á gestrisni hans. Til þess líka að rýmkva um okkur, fórum við á eyðijörðina Stafnes, og bjuggum um okkur í baðstofunni íslensku, sem þar var. Síðan höfum við haft þar okkar fátæklega aðsetur. Eins og hr. sýslumaðurinn mun sjá eru húsin mín öll í verzlunarstaðnum sama sem hrunin að grundvelli, og bærinn, sem var þar, líka. Fólkið úr honum bjargaði sér upp um þekjuna, og tókst því þann veg um nóttina að bjarga lífi sínu, með guðs hjálp, nema aldraðri konu, sem veðrið lamdi niður, svo hún drukknaði í flóðinu. Eptir að hvíld og næði færðist yfir hagi mína hefi eg varið tímanum til þess aðs etja stoðir undir það, sem uppi hangir af húsaskrokkum verzlunarstaðarins, moka úr þeim fjörumölinni og grafa upp dótið mitt úr rústum þessa ömurlega staðar, svo og að safna saman borðum, trjám og brotum húsa (og húsbúnaði). Við allt þetta árangurslitla strit, dag og nótt, er eg og konan orðin svo lasburða, að eg treysti mér tæplega að vinna lengur þetta erfiði. Og erfiðið verður því árangursminna, þar erkki þarf eptir að vonast eptir fólki til útróðra á þessum stað.

Letursteinn

Að lokum vil eg láta það álit mitt í ljósi, að landskjálfti hafi hér verið í verki með verði og sjó. Benda til þess ýmsar vörutegundir sem eg hefi fundið lítið skemmdar undir grundvelli. Þvílíkt gat varla orðið án mikils hristings og sérstaklegrar aukahreyfingar jarðvegsins.
Þar eg er skuldunautur hátignarinnar, sem átti veð og íhlutunarrétt í húsum á verzlunarstaðnum Básendum, verð eg að biðja yður, hr. sýslumaður, að koma hér við tækifæri og framkvæma löglega skoðun á rústunum og fjártjóninu. – Stafnesi 16. marz 1799, H. Hansen.“
Konan sem fórst í flóðinu hét Rannveig Þorgeirsdóttir, 79 ára niðursetningur sem hafði lengi verið rúmföst. Sýslumaður lét gera úttekt á tjóninu og er virðingagerðin dagsett 9. maí 179. Þar eru hús ýmist sögð vera gjörónýt eða stórskemmd. Auk þessa voru sex bátar sem kaupmaður átti og hafgði gert út til fiskveiða gjörónýtir, af sumum þeirra var kjölurinn einn eftir. Úttektin um flóðhæð og landbrot af völdum flóðsins sýndi að það hafði gengið 174 metra á land (164 faðma).
Básendakaupstaður var ekki endurreistur. Hansen fluttist til Keflavíkur.
Heimildir benda til að u.þ.b. 100 hús hafi skemmst eða eyðilagst af völdum flóðs eða roks á Suður- og Vesturlandi umrædda nótt, og 187 bátar. Getið er um 10 kýr, 226 kindur og 63 hesta sem flóðið grandaði. Ein kona drukknaði svo sem fram hefur komið.
Mjög djúp og kröpp lægð olli ofviðrinu. Loftþrýstingur var óvenju lágur og stórstreymt og hækkaði sjávarstaða við landið fyrir áhrif þessara þátt. Þar sameinuðust ofasarok af suðvestri og stórstraumsaðfall við að þrýsta sjónum inn fremur mjóa rennu. Sjór gekk að minnsta kosti fjórum álnum (um228 cm.) hærra á Básendum í flóðinu en í mestu stórstraumsfjöru.

Heimild m.a.:
-Lýður Björnsson, Básendaflóðið 1799 (2006).
-Mbl. 3. okt. 1971 – Básendaflóðið.Letursteinn

Hallgrímshella
Í ferð FERLIRs um Básenda nýlega kom fram í viðræðum við Jón Ben Guðjónsson, bónda á Stafnesi, að hann myndi vel eftir Hallgrímshellunni svonefndu, sem var fyrrum á eða við svonefnda Prestsklöpp norðan við Þórshöfn.
„Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var við vörðu á Prestsklöppinni þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónustað Hafnafólkið. Hella þessi var þríhyrningslöguð, ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið. Áletrunin HPS var í hellunni og ógreinilegt ártal; 163?. Tilgreindur lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli gæti vitað eitthvað hvað varð um helluna, en hann var kunnugur á þessum slóðum. Það eru liðin a.m.k. 30 ár síðan ég sá helluna síðast. Mig grunar að hellan hafi komist inn í geymslur Þjóðminjasafnsins og „týnst“ þar.“

Það kom fram hjá Jóni Ben að sennilega ætti Jón Ásmundsson í Sandgerði gamla ljósmynd af Hallgrímshellu, sem hann mun hafa tekið fyrir ca. 40 árum.
Eftirfarandi erindi var sent til Sigurbjörns Hallssonar, lögreglumanns á Keflavíkurflugvelli:
„Við félagarnir höfum um nokkurt skeið leitað svonefndrar „Hallgrímshellu“, sem var á Prestsklöpp milli Þórshafnar og Básenda. Hellan, sem var þríhyrningslaga og ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið, var með áletruninni HPS (Hallgrímur Pétursson). Steinn þessi var lengi í vörðu á klöppinni. Hún sást síðast fyrir u.þ.b. 15 árum. Ljósmynd er til af hellunni, auk þess sem Stafnesbændur vissu af henni þarna. Getur verið að þú vitir eitthvað hvað varð um nefnda hellu?“
Sigurbjörn hafði þegar samband og sagðist vel muna eftir þessari hellu. Hún hefði verið stutt frá gömlu hestagötunni, legið þar. Á helluna hafi verið áletrað HPS og óljóst ártal frá 17. öld. Sjálfur hefði hann ekki séð helluna í fjölda ára, en hefði heyrt að einhver hefði tekið hana til handargagns. Sigurbjörn benti á að hugsanlega gæti Arnbjörn Eiríksson á Nýlendu III við Stafnes vitað hver það hefði verið.
Arnbjörn sagðist aðspurður vel muna eftir Hallgrímshellunni. Hana hefði hann hins vegar ekki séð í ein 20 ár. Hann hefði heyrt að einhver hefði tekið hana og komið henni fyrir á einhverju safni. Hver það var vissi hann ekki og ekki heldur á hvaða safn henni hefði verið fyrir komið. Að hans mati hefði hellan átt að vera þarna áfram, eða þá í Hvalsneskirkju því það hafi verið trú manna að áletrunin tengdist sr. Hallgrími Péturssyni og ferðum hans milli Hvalsness, Hafna og Njarðvíkur.
Þjóðminjasafni Íslands var sent samhljóða fyrirspurn og Sigurbirni með viðbótinni: „Getur verið að hún hafi ratað inn í geymslur Þjóðminjasafnsins?“

Í framhaldi af fyrirspurninni var hringt í forstöðumann „gripadeildar“ þess, Lilju Árnadóttur, en að sögn veit hún manna best hvort og hvar hver gripur er í geymslunum. Lilja brást vel við. Hún sagðist reyndar hvorki hafa séð né heyrt af hellunni, en myndi leita og spyrjast fyrir um hana. Síðan myndi hún hafa samband.
Í millitíðinni var haft samband við Reyni Sveinsson í Sandgerði. Hann kannaðist við Hallgrímshelluna, en ekki hvar hún gæti verið niður kominn. Hann gat þó vísað á Jón Ásmundsson, múrararameistara í Sandgerði. Jón Borgarsson í Höfnum gæti hugsanlega vitað eitthvað um helluna því hann hefði m.a. unnið þarna um tíma. Jón var staddur út í Luxemborg. Hann sagðist hafa unnið þarna um tíma, en aldrei séð þessa hellu. Hins vegar hefði hann séð báða festarkengina við Þórshöfn – þar sitt hvoru megin. Þá þyrfti að skoða nánar. Auk þess væri nokkurt brak úr Jamestown þar nálægt.
Aðspurður sagðist Jón ekki hafa tekið nefnda ljósmynd, en hann hefði verið með félaga sínum, Berent Sveinbjörnssyni, við Stafnes árið 1963 eða ’64 og þá hefði Berent tekið mynd af hellunni.
Berent, sem er búsettur í Hafnarfirði, sagðist eiga myndina og hefði reyndar verið að skoða hana og sýna kunningja sínum fyrir nokkrum dögum. Hann skyldi góðfúslega lána hana í þágu leitarinnar að eindurheimtingu hellunnar. Berent sagðist muna vel eftir hellunni. Á henni hafi verið áletrun sem fyrr hefur verið lýst. kömmu síðar kom Berent færandi hendi, með myndina ásamt mynd af skátaflokknum Stafnbúum, sem var á leið þar umrætt sinn, en þá var myndin tekin, í ágústmánuði 1964. Berent kvaðst muna að hellan hafi legið uppi á á öðrum steinum svo til beint fyrir neðan stóru skermana utan við Stafnes (sem nú er búið að rífa).
Lilja hjá Þjóðminjasafninu hafði samband og viti menn – og konur; hellan er í vörslu safnsins. Lilja kvað „umrædda hellu vera í safninu. Var bara spurning um að setjast niður í ró og
fletta í Sarpi. Hún hefur númer 1974 -120.

„Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.““

Lilja kvaðst myndi staðsetja steininn í safninu og hafa síðan samband. Á ljósmyndinni virðist vera skrifað ártalið 163? svo gaumgæfa þarf þetta nánar, gæti verið 1638, en þá var Hallgrímur 24 ára.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Básendar

Farið var aftur á Básenda. Ljóst var að þar hlyti að vera mun meira að sjá en talið hafði verið í fyrstu. Reyna átti að leita að áletrunum er kynnu að leynast þar víða á klöppum úti í skerjum, en auk þess var litið á nokkra festarhringi og kengi í klöppum, sem nú eru í skerjum, en voru þó enn á 18. öldinni hluti af fastalandinu. Með í för var G. Sigurbergsson, en hann hefur áður borið fyrrnefndar áletranir augum.

Svæðið hlýtur augljóslega að vera forvitnilegur vettvangur fornleifafræðinga því bæði á Básendum og í næsta nágrenni, Þórshöfn, er að finna áhugaverðar fornminjar, bæði áletranir og arfleið verslunarsögunar sem og einstaka þátta Íslandssögunnar. Í Þórshöfn var verslunarstaður. Þar eru áletranir frá þeim tíma og þar fyrir utan rak upp timburflutningaskipið Jamestown árið 1881.
Nefndar áletranir eru í Arnbjargarhólma. Á háhólmanum mátti bæði lesa skrifstafi og ártöl á klöppunum, en auk þess, þegar vel var leitað, mátti sjá slíkar áletranir á lausum steinum, sem virtust hafa verið á hólmanum áður fyrr, er hann var landfastur og væntanlega gróinn vel, en skolast til þegar sjórinn náði að aðskilja hann fastalandinu og leika frjálslegar um hólmann.
Í ljós kom að á einum lausa steininum stóð nafnið „BERTELANDERS“ og ártalið 1700. Á öðrum lausum steini var m.a. áletrað MVL og XX þar sem ör lá upp frá ártalinu 1590. Á klöppum mátti bæði lesa bókstafi er virtust vera upphafsstafir manna og ártöl, s.s. 1640, 1650, 1651 og 1694. Þessar áletranir á þessum stað benda til þess að þarna hafi verið athafnasvæði verslunar danskra kaupmanna, en þeir höfðu höfnina eftir 1602 út af fyrir sig. Þjóðverjar og Englendingar kepptust um hana fram yfir 1532 (Grindarvíkurstríðið) svo áletrunin Bertelanders gæti verið eftir einhvern kaupmanninn á Endunum eða hugsanlega nafn á skipi hans. Fróðlegt væri fyrir sagnfræðinga að reyna að grafa eitthvað upp um þetta.

Líklegt má telja að fleiri áletranir og ártöl kunni að leynast við Básenda er kunna að varpa ljósi á veru framangreindra á staðnum í gegnum aldirnar.
Samkvæmt gömlum uppdrætti af Básendahöfninni voru kaupskipin svínbundin (þríbundin) bæði á innri höfninni í Brennitorfuvík og á ytri höfninni. Samkvæmt teikningunni eiga að vera a.m.k. sex festahringir í klöppunum við Básenda.
Jón Ben Guðjónsson, eldri bróðirinn Stafnesbænda, sagðist hafa séð a.m.k. sjö festarkengi í og við höfnina. Sá sjöundi væri í skeri norðan við Básendatangann.
Við skoðun á vettvangi kom eftirfarandi í ljós: Þrír kengir eru í austanverðum Arnbjargarhólma. Sá syðsti er dýpstur. Í honum er hringur. Sá í miðið stendur hærra, á klöpp undir steini. Í honum er hringur. Nyrsti kengurinn er yst á skerinu. Í hann vantar hringinn.
Básendamegin, vestan við tóftirnar af verslunarstaðnum, eru tveir kengir. Annar, sá syðri er beint fyrir vestan þar sam kaupmannshúsið stóð. Sjá má grunn þess og stéttina framan við útidyrnar. Næsti grunnur er sunnar og austar. Á honum mótar einnig fyrir lítilli stétt þar sem dyrnar voru. Þriðja húsið var enn sunnar og austar. Að því liggur flóraður stígur upp frá flóruðu athafnasvæði ofan við höfnina. Hinn kengurinn er skammt norðar og mun neðar. Hann sést einungis á stórstraumsfjöru og þá helst um það leyti er flæðir frá. Í honum er hringur.
Þá er hringur úti í skeri, vestast í því, beint norður af víkinni. Í honum er hringur.
Á fyrrnefndum uppdrætti af höfninni sést vel innsiglingarleiðin; beint til suðurs vestan Básenda með stefnu á Gálga. Þegar komið var upp undir land var stefnan tekin til austurs innan skerja á Stóra Básendahól. Þá var komið inn á ytri höfnina. Beint á móti innri höfninni í Brennitorfuvíkinni er Brennitorfan. Á henni eru hleðslur þar sem sagnir kveða á um brennur þegar skyggja tók. Segja má að á hólnum hafi verið með fyrstu vitum hér á landi.

Í viðræðum við Leif Ölver Guðjónsson, yngri bóndabróðurinn á Stafnesi, kom fram að dýpið innan skerjanna er um 20-30 metrar, þó grynnst næst skerjunum. Einhverju sinni hafi verið kafað í víkinni og þá komið í ljós flök af tveimur verslunarskipum frá þeim tíma er Þjóðverjar og Englendingar nýttu höfnina. Á að hafa komið til átaka millum þeirra með þeim afleiðingum að skipum var sökkt. Liggja þau þarna á hafsbotni og mátti greina a.m.k. nokkrar fallbyssu á botninum. Sjór væri hins vegar ókyrr á þessum slóðum og umtalsverðir straumar. Þó bæri við stilltari sjór og þá væri lag að skoða þetta nánar, ef vilji væri fyrir hendi. Eitt slíkt fallstykki hefði skolað á land nokkru utar fyrir nokkrum árum og væri það nú við bæinn Nýlendu III utan við Stafnes. Tækifærið var notað í bakaleiðinni og fallstykkið skoðað. Lítið fer fyrir því þar sem það stendur við bæinn með skotstefnu til vesturs. Þarna er um greinilega fallbyssu af skipi að ræða. Á Nýlendu býr Arnbjörn Eiríksson. Hann sagði fallstykkið vera úr Jamestown, sem strandaði utan við Þórshöfn. Gripurinn hafi verið þarna heima við svo lengi sem hann myndi eftir sér, eða í 50 ár a.m.k.

Trébátsflak er ofan við Arnbjargarhólma. Að sögn Ölvers er það af bátnum Vörður ÞH er strandaði í Stóru Sandvík um 1960. Bátinn rak út þar sem hann klofnaði í tvennt. Rak annan helminginn þarna upp og sá sjórinn til þess að hann yrði þar fólki til sýnis um ókomin ár.

Ofan við Stafnes vakti athygli FERLIRsfélaga fjöldi grjóbyrgja, flest fallin. Jón Ben sagði það gömul fiskbyrgi. Þau væru sennilega þarna samtals á milli 30 og 40 talsins. Þarna hafi verið verkaður og þurrkaður fiskur Stafnesbænda um aldir. Svæðið er tiltölulega afmarkað og ætti að hafa varðveislugildi sem slíkt. Um aldamótin 1900 voru u.þ.b. 30 bæir á Stafnesi.
Aðspurður um Hallgrímshelluna svonefndu, sem FERLIRsfélagar hafa leitað að og m.a. notið ábendinga Guðmundar frá Bala á Stafnesi (sjá aðra FERLIRslýsingu), sagði Jón Ben eftirfarandi:
„Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var í vörðu á Prestsklöpp þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónusta Hafnafólkið. Prestsklöpp var einnig nefnd Hallgrímshella. Hella þessi var þríhyrningslöguð, ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið. Áletrunin HPS var í hellunni og ógreinilegt ártal; 163?. Tilgreindur lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli mun hafa bent einhverjum á helluna á sínum tíma. Síðan eru liðin a.m.k. 30 ár. Mig grunar að hellan hafi komist inn í geymslur Þjóðminjasafnsins og „gleymst“ þar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Sjá meira undir Hallgrímshellan.Letursteinn

Básendar

Á Básendum fundust nýlega áletranir frá því á 17. öld. Ætlunin var að fara þangað við hagstæðar aðstæður fljóðs og fjöru og vöðluvaða út í hólma og sker með það fyrir augum að líta þar á áletranir á klöppum. Einnig var ætlunin að leita að hugsanlega fleiri áletrunum í skerinu. Það er ekki heiglum hent að vaða út í sker og feta þara á hálum klöppum, en FERLIRsfélagar láta sér fátt fyrir brjósti brenna. Með í för var G. Sigurbergsson, en hann hafði komið auga á þessar áletranir af tilviljun fyrir nokkru síðan og tók þá m.a. meðfylgjandi myndir.

Á leiðinni út að Básendum eru tveir myndarlegir grónir hólar á leiðinni á hægri hönd. Sá eystri er Stóri-Básendahóll og sá vestari Litli-Básendahóll.
Nafnið Básendar er ekki vafalaust. Kemur það fyrir í þremur myndum; Bátsenda (danskir skrifuðu það Botsendar), Bátsandar og loks Básendar (eða Bassendar). Nafnið kemur fyrst fyrir í Fornbréfasafninu 1484. Þar er ritað „Bátsendum“.
Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan.
Í fornleifaskráningu um Básenda segir m.a. að „í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Aðfaranótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Seltjarnarnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu. Grótta á Seltjarnarnesi varð að eyju til frambúðar en áður var hún landfastur tangi. Á Básendum gerði flóðið þó líklega mestan usla. Flest ef ekki öll hús kaupstaðarins sópuðust burt, roskin og veikburða kona drukknaði en annað heimilisfólk bjargaðist við illan leik. Atburður þessi hefur síðan verið kallaður Básendaflóðið.
Höfnin á Básendum var lón mjótt og langt inn í Brenntorfuvíkina. Skipaleiðin inn í leguna var nokkuð löng, fyrst bein sigling á Gálga, en síðan var vent í vinkil til vinstri með stefnu á vörðu utan við hólana og rennan tekin til norðurs milli skerja og inní höfnina. Þar voru skipin svínbundin, ýmist á ytri höfninni eða innri höfninni. Á teikningu frá 18, öld má sjá bæði siglingaleiðina sem og staðsetningu festarhringjanna í landi.

Á Básendum má einnig enn sjá leifar kaupstaðarins, þ.á.m. minjar um landfestar, varir, fiskbyrgi og verslunar- og birgðahús auk búsetuminja. Þar standa ágætlega varðveittar leifar af rétt, hlöðu og fjósi. Einnig má finna þar leifar garðs sem hlaðinn var í hálfhring utan um verslunarstaðinn. Samanburður heimilda og húsaleifa á vettvangi bendir til að fjórar rústir geti verið leifar lifrarbræðsluhúss, skemmu, lýsisbúðar og vörugeymslu. Loks skal getið kaupstaðavegarins. Hann er nær því óskertur frá Kirkjuvogi heim að Básendum. Minjagildi hans er verulegt, ekki einungis vegna þess að fáar ef nokkrar fornar leiðir eru svo stórkostlega vel varðveittar, heldur er hann sýnilegur í landinu með upphækkuðum brúnum og vel til gönguferða fallinn.“

Básendar komu við sögu í aðdraganda Grindavíkurstríðsins, eða Fimmta þorskastríðsins, eins og það er stundum nefnt.
Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.
Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori).

Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur augljóslega aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, festarkengina frá tímum konungsverslunarinnar og Brennuhól (Brenntorfuna) þar sem eldur var kynntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.
Tóftir síðasta Básendabæjarins eða sjóbúðarinnar, sem líklegra er, sést enn fremst á tanganum austan Brennitorfuvíkur og neðan hennar er lendingin. Til skamms tíma mátti í henni sjá för eftir kili árabátanna, sem þar voru dregnir upp.
Skoðaðar voru fundamental kaupmannshússins, leifar lýsisbræðslunnar, réttin, sem er nýlegra mannvirki, brunnurinn og garðarnir umhverfis. Þá var litið á Brennitorfuhól, eða Brennihól eins og hann var einnig nefndur. Á honum var tandrað bál þegar rökkvað var orðið og ekki allir bátar komnir inn til lendingar. Draughóll er skammt sunnar. Á honum er talið að hafi verið dys, en það mun ókannað.
Þar sem staðið er á flóraðri stétt sölubúðarinnar á Básendum, sem enn sést, má vel gera sér grein fyrir hvernig þarna var umhorfs fyrr á öldum. Húsið hefur verið í vinkil, fremur lítið. Vestan við það hefur vöruhúsið staðið. Sér þar fyrir grunni, um 20 m á lengd og 12-15 m á breidd. stærra hús. Austan við sölubúðina hefur kaupmannshúsið staðið staðið, en framan og til hliðar við húsin hefur lýsisbræðslan verið. Planið framan við húsin er flórað og sést drjúgur hluti þess enn. Ljóst er að mikill umgangur hefur verið um planið, enda vel máð. Neðan þess er vik í klappirnar, rétt sunnan festarkengs, sem þar er. Annar kengur var í klöpp skammt vestar, en virðist nú horfinn. Hugsanlega er þarna um að ræða leifar lendingar smærri báta, sem ferjað hafa varning að og frá kaupskipinu, sem bundið var í innri víkinni, neðan verslunarhúsin. Léttari varningur hefur væntanlega verið dregin í land á lyftuböndum.

Sjóbúðin vestast á tanganum virðist í fljóti bragði hafa verið bær, en það getur þó varla verið. Til hliðar við búðina, sem hefur staðið með gaflinn mót hafi (vestri), eru afhýsi, líklega notuð til geymslu varnings og veiðarfæra. Ólíklegt er að áhafnir hafi haldið til í búðinni, en hún mun þó líklega hafa hafst þar við á meðan róðralotur stóðu yfir, en þess á milli dvalið heima hjá sér eða á nærliggjandi bæjum.
Norðaustar er hlaðinn rétt eða kálgarður með hesthúsi að baki, en hlöðuveggir eru þar laust norðvestan við. Austan við brunninn hefur verið kálgarður, tvíhlaðinn úr úrvalsgrjóti. Frá þessum stað má sjá að kaupstaðurinn hefur verið alveg afgirtur að sjó. Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga, úr einhlöðnu grjóti, hafa verið á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu.
Mikið útræði var lengi á Stafnesi og nærliggjandi bæjum, enda stutt á miðin. Vörin er beint fyrir neðan sjóbúðina. Um aldamótin 1900 er því lýst að þar hafi mátt sjá merki eftir kjöl bátanna, sem þar voru dregnir upp.
Þegar Básendar eru gaumgæfðir út frá minjunum, örnefnum og aðstæðum vakna þeir ósjálfrátt til lífsins og auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig mannlífið, sjósóknin og verslunin hafa gengið fyrir sig þótt ekki séu þar enn heil hús eða búðir.
Vöruhúsið á Básendum var flutt til Keflavíkur árið 1800 og stóð við Hafnargötuna sunnan við Norðfjörðsgötu og kallað Svarta pakkhúsið.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur að Básendum og gaumgæfa skerin.
Frábært veður.

Sjá meira undir Básendar – áletranir II.Letursteinn

Básendar

Sem lið í Sandgerðisdögum – innan seilingar, dagana 5. -7. ágúst, var boðið upp á göngu um og frá Stafnesi yfir að Básendum.

Básendar

Festarkengur á Básendum.

Gengið var að dómhringnum á Stafnesi, yfir og eftir gömlu þjóðleiðinni (Kaupstaðaleiðinni) að Draughól sunnan við Básenda. Þaðan var haldið niðurá Brennitorfu (Brennihól) og yfir að minjasvæðinu við Básenda ofan við Brennitorfuvík. Skoðaðir voru sökklar húsanna, sem þarna voru í tíð verslunarinnar, festarkengir, sem kaupskipin voru bundin við, sjóbúiðin og vörin, réttin, vörður og garðar, auk brunnsins, sem enn sést. Haldið var til baka ofan Básendahóla, yfir hlaðna brú frá Básendasandi að Stafnesi og stefnan síðan tekin að Stafnesvita þar sem skyggnst var eftir tóftum hjáleiganna fjölmörgu, sem þar voru fyrr á öldum, s.s. Loddu og Þembu. Á leiðinni var rifuð upp saga svæðisins, hlutur þess í sjósóknarsögunni og einstakar minjar skoðaðar með sérstaka áherslu á verslun Þjóðverja og Englendinga, konungs- og einokunarverslunina sem og eyðingu hennar í Básendaflóðinu mikla í janúar árið 1799.
Stafnes, eða Starrnes eins og það er talið hafa heitið til forna, er vestan Hvalsness. Líklegt má telja að höfuðból hafi verið þar um langa tíð, enda benda fornar minjar á staðnum til þess að svo hafi verið. Þá tengjast Stafnesi sögur og sagnir, sem rekja má langt aftur í tímann, Starrnesnafnið bendir til gróanda, en eins og svo víða utan Sandgerðis hefur sandurinn fært gróður í kaf, jarðvegur fokið upp og sjór brotið af ströndinni, jafnvel svo munar um 50 metrum á mannsævi. Þá hefur land lækkað á Rosmhvalanesi sem nemur að jafnaði um 0.8 cm á ári. Á síðustu 70-80 árum hefur mikil vinna farið í að hefta sandfok og jarvegseyðingu á nesinu.
Kaupstaðagatan Miklir og fallega hlaðnir garðar eru við Stafnes. Flestir þeir heillegu eru tiltölulega nýir, notaðir til skjóls við kál- og kartöflugarða, en ekki síst fyrir rabbara á 20. öldinni. Um hinar u.þ.b. 30 hjáleigur, sem voru um tíma frá Stafnesi, voru einnig víða hlaðnir garðar, en lægri, og sjást margir þeirra enn.
Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja síðustu öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði. Þá fórust 10 manns af togaranum, en 15 var bjargað í land.
Í Rauðskinnu eru nokkrar sögur frá Stafnesi. Ein þeirra er um tilurð nafnsins: „Svo er sagt að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir: Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi og mun bærinn þá hafa staðið þar sem nú er kallað Urð. Er þar nú rif sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu er stunduðu sjómennsku og reru til fiska frá Nesi. Einn dag að áliðnum vetri er þeir voru á sjó að vanda brimaði snögglega svo mikið að ólendandi var. Gerðist gamli maðurinn órór gekk til smíðahúss og telgdi þar til staf einn eða kefli. Bað hann vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér hvers þær yrðu áskynja um afdrif skipsins. Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir að ekki muni lengur þurfa að bíða þess að synir hans lendi. Þær stúlkurnar hafi horft á þá bræður leggja í sundið en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan og honum þá þegar hvolft og borizt upp á skerið.
Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund og þær tvær saman.
Þegar stúlkurnar komu til karls hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill en haglega gerður og með útskurði allmiklum. Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið þar sem Boðinn falli á land. Segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér. Gera þær nú sem karl leggur fyrir og þegar Boðinn rís hæst tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: “Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða sé rétt sundleið farin. Og leiðið mig nú heim.”

Básendar

Tóftir á Básendum.

Það fylgir sögu þessari að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farizt á sundinu þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega. Á þeim tímum er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma fórst þó eitt skip þarna með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan til við aðallendinguna.“
Þá segir einnig af Stafnesbóndanum: „Eftir að mislingarnir gengu hér á landi á 19. öld, var oft mikið um flökkulýð og ölmusumenn, er fóru víða um land, og var meðal annars mikið um þá á Suðurnesjum. Komu þeir tíðast á ríkisheimilin og varð oft mikill átroðningur að þeim og misjafnar viðtökur hjá bændum, því að sumir vildu venja förumenn þessa af komum sínum.
Í þá tíð bjó á Stafnesi ríkisbóndi nokkur; ekki er hér getið nafns hans. Það bar til eitt haustkvöld um réttir, að barið var að dyrum á Stafnesi. Fór bóndi til dyra. Úti stóð lítill drenghnokki og bað hann að gefa sér brauðbita.
Tók bóndi þegjandi í hönd drengsins og leiddi hann í úthýsi nokkurt, leysti niður um hann og hýddi duglega og sagði honum að því búnu að hafa sig á brott. Hvarf drengurinn grátandi út í myrkrið, og skildi þannig með þeim. Gekk bóndi síðan til baðstofu…“ Framkoma bóndans átti eftir að hafa verulega eftirmála honum til handa, og það ekki góða.
Ólafur Davíðsson skráði eftirfarandi sögu af Stafnesdraugnum, sem löngum hefur gengið þar ljósum logum: „Þá er kvefveikin gekk 1894 lagðist í henni Jón nokkur sem kallaður var „í brókinni“. Hann átti heima austur í Landeyjum, en var þá vermaður að Stafnesi. Jón var hræddur um, að hann mundi deyja og bað annan sjómann að sækja handa sér meðul til Keflavíkur. Annaðhvort var, að maður þessi neitaði að fara, eða honum dvaldist á leiðinni. Að minnsta kosti er víst um það, að Jón fékk aldrei meðulin og dó nálægt sumarmálum. Eftir það tók Jón að sækja að meðalamanninum og gekk ljósum logum. Maðurinn fór heim til sín, en aðsókninni linnti ekki við það. Jón kvað ganga um eins og grár köttur á Stafnesi enn í dag og einu sinni sást hann á ferð um Rosmhvalanes á meri sem hann hafði átt í lifanda lífi.“

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Í Rauðskinnu segir einnig frá Narfa á Stafnesi: „Fram að aldamótunum 1800 voru Básendar ein helzta verzlunarstöð danskra einokunarkaupmanna á landi hér. Básendar lágu undir höfuðbólið Stafnes. Ein af hjáleigunum frá Stafnesi hét Þemba. Var það lítið kot og afgjaldið goldið að Básendum inn í reikning heimabóndans.
Þegar saga þessi gerðist, þá bjó maður sá í Þembu, er Narfi hét. Narfi þessi var allur vel á sig kominn, gleðimaður, kvæðamaður, dróst oft að drykk og laus var í honum hornriðinn. Hann var hrókur alls fagnaðar í veizlum og á mannamótum. Eins og aðrir leiguliðar þá hann atvinnu sína aðra en sjóróðra af Básendakaupmönnum, og tók þar jafnan mikið út af brennivíni. Söfnuðust oft að Þembu kunningjar hans og vermenn; var þar þá oft glatt á hjalla og fast drukkið. Einn kaupmanna hafði konu sína jafnan með sér að Básendum og dvaldist hún þar með honum. Var hún fríð kona og glaðvær, þótti henni Narfi bera af öðrum mönnum og sýndi honum meiri vinsemd en góðu hófi þótti gegna. Fór svo að lokum, að kaupmanni þótti nóg um dálæti það, sem hún hafði á Narfa. Var það orsök þess, að Narfa var byggt út af kotinu og flæmdur loks burt frá Stafnesi til Hafna. Þóttist Narfi vita, hvaðan sú alda var runnin og lagði upp frá því mikla fæð á Básendakaupmann….“ Narfi lést, en gekk síðan aftur, heimsótti kaupmann, kvað vísu og hefndi sín grimmilega.
Brynjúlfur Jónsson segir í rannsókn sinni á Reykjanesinu 1902 að á Stafnesi sé forn dómhringur, sem enn má sjá móta fyrir í túninu. Nú hefur einhver reynt að vera huggulegur og nýlega plantað inn í hann nokkrum runnum og fyrirhuguð er skógrækt utan í honum.

Svarta pakkhúsið

Vestan við Stafnes eru nokkrar lægðir, er við fyrstu sýnt gætu verið gamlar grafir. Þær eru það í vissum skilningi því þarna geymdu bændur karftöflur sínar, grófu þær í sandinn til varnar frosti. Handan við Gjána er læna inn í landið og yfir hana hlaðin brú. Urðin er neðar. Þarna hefur líklegast verið bæjarstyttingur því þjóðleiðin gamla yfir á Kaupstaðaleiðina austan Ósa er nokkru ofar, eða ofan garðs. Tveir myndarlegir grónir hólar eru við ströndina milli Stafness og Básenda. Sá eystri er Stóri-Básendahóll og sá vestari Litli-Básendahóll.
Nafnið Básendar er ekki vafalaust. Kemur það fyrir í þremur myndum; Bátsenda (danskir skrifuðu það Botsendar)m Bátsandar og loks Básendar (eða Bassendar). Nafnið kemur fyrst fyrir í Fornbréfasafninu 1484. Þar er ritað „Bátsendum“.
Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan.
Í fornleifaskráningu um Básenda segir m.a. að „í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes.

Básendar

Aðfaranótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Seltjarnarnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu. Grótta á Seltjarnarnesi varð að eyju til frambúðar en áður var hún landfastur tangi. Á Básendum gerði flóðið þó líklega mestan usla. Flest ef ekki öll hús kaupstaðarins sópuðust burt, roskin og veikburða kona drukknaði en annað heimilisfólk bjargaðist við illan leik. Atburður þessi hefur síðan verið kallaður Básendaflóðið.
Höfnin á Básendum var lón mjótt og langt. Skipaleiðin inn í leguna var nokkuð löng, milli skerja.
Á Básendum má enn sjá leifar kaupstaðarins, þ.á.m. minjar um landfestar, varir, fiskbyrgi og verslunar- og birgðahús auk búsetuminja. Þar standa ágætlega varðveittar leifar af rétt, hlöðu og fjósi. Einnig má finna þar leifar garðs sem hlaðinn var í hálfhring utan um verslunarstaðinn. Samanburður heimilda og húsaleifa á vettvangi bendir til að fjórar rústir geti verið leifar lifrarbræðsluhúss, skemmu, lýsisbúðar og vörugeymslu. Loks skal getið kaupstaðavegarins. Hann er nær því óskertur frá Kirkjuvogi heim að Básendum. Minjagildi hans er verulegt, ekki einungis vegna þess að fáar ef nokkrar fornar leiðir eru svo stórkostlega vel varðveittar, heldur er hann sýnilegur í landinu með upphækkuðum brúnum og vel til gönguferða fallinn.“
Básendar komu við sögu í aðdraganda Grindavíkurstríðsins, eða Fimmta þorskastríðsins, eins og það er stundum nefnt.
Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.
Hleðsla Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori). Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.
FestarkengurÞá víkur sögunni til Grindavíkur. Englendingar voru þar, um 15 að talið var. Foringi þeirra er Joen Breen (Brier), nefndur Jóhann Breiði af heimamönnum. Líklega var hann fjarskyldur Englandskóngi. Annar mjög merkilegur Englendingur var þarna líka, en sá var yfirfálkatemjari Englandskóngs. Sennilega í þeim erindagjörðum að fanga hér fálka og temja, en þeir voru bæði konungasport og útflutningsvara. Þessi Englendingar reistu virki að Járngerðarstöðum. Svolítið öðruvísi var þá umhorfs þar en nú er. Sjórinn er búinn að “éta” mikið af landinu. Virkið var sennilega þar sem nú er Stóra Bót á Hellunum.
Englendingar uggðu ekki að sér. M.a. vegna þess að í höfninni (líklega Stóru Bót eða austar) voru 5 ensk skip. Af einhverri ástæðu fréttu Þjóðverjar að til stæði að halda drykkjusvall hjá Englendingum í Grindavík. Þjóðverjar tryggðu sér þá stuðning danskra yfirvalda á Bessastöðum og söfnuðu liði frá Hafnarfirði og Njarðvíkum, auk áhafna átta þýskra skipa. Söfnuðust þeir saman við Þórðarfell ofan við Grindavík og skiptu liði. Um nóttina, aðfararnótt 11. júní 1532, og héldu sumir suður Árnastíg (Skipsstíg) að virkinu (Hafnfirðingar og Njarðvíkingar) og aðrir að skipunum. Voru 15 Englendingar drepnir í Virkinu, þ.á.m. Jóhann Breiði, en lík hans var illa leikið eftir átökin. Átta voru teknir höndum. Voru þeir látnir dysja félaga sína undir virkisveggnum, í svonefndri Engelsku lág. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, eitt strandaði og árásarliðið náði einu, Peter Gibson, skip Jóhanns Breiða (sjá nánar undir Fróðleikur – Grindavíkurstríðið).
Þá kom að því, sem einna minnistæðast þykir um Básenda, eða Bátsendar, eins og þeir voru einnig nefndir. Það var Básendaflóðið mikla.
Aðfararnótt 9. janúar árið 1799 gerði stórkostlegasta sjávarflóð um margar aldir. Bátsendakaupstaður eyddist og mörg býli fóru í auðn. Ein kona drukknaði, mörg hundruð bátar brotnuðu og fénaður fórst.
“Sjór gekk á land um stærstan straum í stórviðri af útsuðri á allri strandlengjunni austan frá Þjórsá og allt vestur um Breiðafjörð. Varð í þessu flóði meira tjón á mannvirkjum, bátum, varpstöðvum og löndum en menn vita áður dæmi um á einni nóttu, auk þess, sem fórst af fénaði og matföngum. Fygldi flóðinu regn mikið, þrumur og eldingar, og fannst mörgum því líkast sem himinn og jörð væri að farast.
Hést er svonefnd Háeyrarflóð til samjafnaðar við þessar hamfarir. Það varð að kvöldlagi í janúarmánuði árið 1653 í svipuðu veðri og nú og olli mestu tjóni á Eyrarbakka, í Selvogi og Grindavík. Þó mun það hvergi nærri hafa gert annan eins usla og þetta flóð.
Upplýsingaskilti Fólk allt gekk til hvílu að venju að kvöldi hins 8. Þessa mánaðar. Var þá aðfall og hávaðarok með miklum sjógangi og ógurlegu brimhljóði. Er skemmst frá því að segja, að veður færðist mjög í aukana upp úr lágnættinu, og litlu síðar tók sjór að ganga á land á strandlengjunni sunnan Reykjanesskaga, um Suðurnes öll, Innes, Kjalarnes, Akranes, Mýrar og Snæfellsnes.
Kaupstaðurinn í Bátsendum tók af með öllu, og flest kaupstaðahúsin á Eyrarbakka og Búðum á Snæfellsnesi eyddust. Nokkur býli á sjávarbökkum sættu sömu örlögum. Uggði fólk ekki að sér, fyrr en sjór tók að bylja á híbýlum þess og streyma inn í þau, og veggir hrundu í brimsúgnum. Björguðust menn víða mjög nauðulega úr þessu fári, og þoldu sumir mikla vosbúð og hrakninga.
Kaupmaðurinn á Bátsendum, Hinrik Hansen, vaknaði við það klukkan tvö um nóttina, að hrikti í hverju tré í húsinu. Litlu síðar heyrði hann, að þung högg tóku að dynja á því, líkt og veggbrjót hefði verið beint að því. Svartamyrkur var á, en kaupmaðurinn hafði ekki eirð í sér, snaraðist fram úr rekkju sinni og ætlað að líta út til þess að gæta að, hverju þetta sætti. En þegar hann opnaði húsdyrnar, flæddi sjórinn í fang honum.
Sjóvarnargarður, sem hlaðinn var í hálfhring um húsið og verslunarsvæðið, hafði sýnilega brostið, og sjór æddi um allt plássið. Með því að sífellt hækkaði í, streymdi sjórinn linnulaust inn í herbergin, og við það flúði heimilisfólkið, kaupmaðurinn, kona hans, Sigríður Sigurðardóttir frá Götuhúsum, börn þeirra fjögur, sjö til sextán ára, og stofuþerna þeirra, upp á húsloftið.
Þar hafðist það síðan við hálfnakið til klukkan sjö um morguninn. Var húsið þá allt laskað og skekkt af brimgangi og tekið að riða mjög, svo að ekki var annað sýnna en það hryndi þá og þegar.
Kaupmaður braut þá glugga á loftinu og lét sig síga niður í hafsjóinn úti fyrir. Tókst honum að vað með sjö ára dóttur sína í fanginu að fjósi, er stóð lítið eitt hærra en íbúðahúsið, og fylgdu kona hans og synir þeirra þrír, þrettán til sextán ára, á eftir ásamt vinnukonunni. En þegar fólkið hafði aðeins verið örskamma stund í fjósinu, brast mæniás þess undan ágjöf á sjóblautt þakið, svo að þau urðu enn að hrökklast undan. Að þessu sinni var flúið í hlöðuna.
Básendabærinn Fólkið hélst ekki við í hlöðunni nema stutta stund. Þakið tættist af henni í hörðum sviptivindi, og leitarnar blöktu eins og pappírsarkir í storminum. Þóttist Hansen sjá fram á, að fólkið myndi ekki lifa af í tóftinni, svo að það ráð var tekið að yfirgefa kaupstaðinn með öllu, þótt ekki væri fýsilegt að leggja út í myrkur og fárviðri með konuna og börnin nálega klæðvana.
Hélst fjölskyldan í hendur svo að enginn týndist, og skreið jafnvel í hörðustu hrinunum, því að þá var óstætt með öllu. – Þannig náði fólkið loks um morguninn að Loddu, hjáleigu rétt hjá Stafnesi, nær dauða en lífi.
Þrjú hjú kaupmannsins á Bátsendum bjuggu í torfkofum skammt frá timburhúsinu, ásamt nær áttræðri konu, niðursetningi, sem lengi hafði legið í kör, Rannveigu Þorgilsdóttur að nafni.
Þessu fólki varð að sjálfsögðu ekki svefnsamt, en ekki uggði það þó að sér, fyrr en kofarnir voru umflotnir sjó. Þegar því varð ljóst, að hverju fór, rauf það þekjuna og skreið þar út. Rannveig var rifin upp úr körinni og dregin út um gatið, en veðrið lamdi hana niður, þegar hún kom út á plássið, og þar drukknaði hún. Vinnuhjúin komust hins vegar lífs af með harðfylgi.
Þegar flóðið rénaði og birti af degi, ást, að byggingar allar höfðu ýmist sópast brott eða falið í rúst, þar á meðal sölubúð, vöruskemma mikil, bræðsluhús og gripahús. Sex bátar höfðu brotnað í spón og sjóvarnargarðurinn gerfallið. Allt verslunarsvæðið er kafið grjóti, möl og sandi, og upp á brotnu þaki eins hússins, fjórum álnum ofar grundvelli, situr rekadrumbur fastur, en þangað hefur brimið slöngvað honum. Talið er, að sjór hafi gengið lengst 164 faðma á land upp fyrir kaupstaðinn.
Enn er ótalið mikið tjón, er varð á Suðurnesjum. Þar sópuðust fiskigarðar, sem fyrirskipað hafði verið að hlaða á undanförnum áratugum, heim á tún, brunnar fylltust, uppsátur eyðilögðust, og sums staðar fóru töðuvellir undir möl. Allmörg skip brotnuðu einnig og á Vatnsleysuströnd tíu bátar.
Í Keflavík skemmdist kaupmannshús, timburkirkjan á Hvalsnesi fauk, kirkjan í Kirkjuvogi skekktist, og Kálfatjarnarkirkja laskaðist.
Básendavör En má hnýta því hér við, að í Grindavík spilltust fimm hjáleigur, og tók af völl á tveimur, hundrað kindur drápust, og sex skip brotnuðu.”
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, a.m.k. þrjá festarkengi frá tímum konungsverslunarinnar, Brennuhól þar sem eldur var kyntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.
Til er uppdráttur af Básendum frá konungsverslunartímanum. Þar sést hvernig skip voru svínbundin, bæði inn undir Brennitorfuvík og utan skerjann við Básenda. Festarkengir voru skv. því fimm að tölu, en enn má sjá þrjá þeirra ef vel er að gáð.
Tóftir síðasta Básendabæjarins eða sjóbúðarinnar, sem líklegra er, sést enn fremst á tanganum austan Brennitorfuvíkur og neðan hennar er lendingin. Til skamms tíma mátti í henni sjá för eftir kili árabátanna, sem þar voru dregnir upp.
Skoðaðar voru fundamental kaupmannshússins, leifar lýsisbræðslunnar, réttin, sem er nýlegra mannvirki, brunnurinn og garðarnir umhverfis. Þá var litið á Brennitorfuhól, eða Brennihól eins og hann var einnig nefndur. Á honum var tandrað bál þegar rökkvað var orðið og ekki allir bátar komnir inn til lendingar. Draughóll er skammt sunnar. Á honum er talið að hafi verið dys, en það mun ókannað.
Þar sem staðið er á flóraðri stétt sölubúðarinnar á Básendum, sem enn sést, má vel gera sér grein fyrir hvernig þarna var umhorfs fyrr á öldum. Húsið hefur verið í vinkil, fremur lítið. Vestan við það hefur vöruhúsið staðið. Sér þar fyrir grunni, um 20 m á lengd og 12-15 m á breidd. stærra hús. Austan við sölubúðina hefur kaupmannshúsið staðið staðið, en framan og til hliðar við húsin hefur lýsisbræðslan verið. Planið framan við húsin er flórað og sést drjúgur hluti þess enn. Ljóst er að mikill umgangur hefur verið um planið, enda vel máð. Neðan þess er vik í klappirnar, rétt sunnan festarkengs, sem þar er. Annar kengur var í klöpp skammt vestar, en virðist nú horfinn. Hugsanlega er þarna um að ræða leifar lendingar smærri báta, sem ferjað hafa varning að og frá kaupskipinu, sem bundið var í innri víkinni, neðan verslunarhúsin. Léttari varningur hefur væntanlega verið dregin í land á lyftuböndum.

Dómhringur

Sjóbúðin vestast á tanganum virðist í fljóti bragði hafa verið bær, en það getur þó varla verið. Til hliðar við búðina, sem hefur staðið með gaflinn mót hafi (vestri), eru afhýsi, líklega notuð til geymslu varnings og veiðarfæra. Ólíklegt er að áhafnir hafi haldið til í búðinni, en hún mun þó líklega hafa hafst þar við á meðan róðralotur stóðu yfir, en þess á milli dvalið heima hjá sér eða á nærliggjandi bæjum.
Norðaustar er hlaðinn rétt eða kálgarður með hesthúsi að baki, en hlöðuveggir eru þar laust norðvestan við. Austan við brunninn hefur verið kálgarður, tvíhlaðinn úr úrvalsgrjóti. Frá þessum stað má sjá að kaupstaðurinn hefur verið alveg afgirtur að sjó. Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga, úr einhlöðnu grjóti, hafa verið á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu.
Mikið útræði var lengi á Stafnesi og nærliggjandi bæjum, enda stutt á miðin. Vörin er beint fyrir neðan sjóbúðina. Um aldamótin 1900 er því lýst að þar hafi mátt sjá merki eftir kjöl bátanna, sem þar voru dregnir upp.
Þegar Básendar eru gaumgæfðir út frá minjunum, örnefnum og aðstæðum vakna þeir ósjálfrátt til lífsins og auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig mannlífið, sjósóknin og verslunin hafa gengið fyrir sig þótt ekki séu þar enn heil hús eða búðir.
Vöruhúsið á Básendum var flutt til Keflavíkur árið 1800 og stóð við Hafnargötuna sunnan við Norðfjörðsgötu og kallað Svarta pakkhúsið.
Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt sunnar. Þeir sjást vel frá Básendum. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í.
Íshús Ef þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna, sennilega á Stafnesi.
Þórshöfn er skammt sunnar, austan Ósa. Þar var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.
Gamla þjóðleiðin ofan við Básenda var gengin til baka að Stafnesi. Það er sú leið sem Hallgrímur Pétursson er talinn hafa fetað á leið sinni frá Bolafæti í Njarðvíkum yfir að Hvalsneskirkju fyrst eftir að hann var ráðinn þangað til prestsskaps. Við leiðina er talið að séu tvö sannindamerki um tilvist þess; annars vegar áletrunin HP á klöpp við Þórsmörk og síðan sama áletrun ásamt ártali á svonefndri Hallgrímshellu við vörðu milli Básenda og Þórshafnar. Hvort Hallgrímshellan er letursteinninn eða klapparhella, sem þar er, er ekki alveg á hreinu.
Frábært veður, hávaða rok og rigning. Veðrið gaf góða mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs við ströndina þennan fyrrnefnda örlagadag í janúar 1799. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Sandgerdi.is
-Reykjanes.is/bokasafn
-Blanda 1924-27.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Másbúðir
Lýsing Sandgerðis einkennist af ESSum, hvort sem litið er til sögu eða staðhátta.

Hjarta

Hjarta Reykjaness.

Sandgerði er staðsett þar sem Sandgerðisvíkin skerst inn í Rosmhvalanes. Skerjaklasi skilur að Sandgerðisvíkina að sunnan (Bæjarskerseyri), en Sundið er á millum. Sýndist sumum siglingin um það stundum þrautarsund fyrrum. Sjávarströndin er sendin og skerjótt. Steinunn gamla sigldi fyrstur staðarmanna inn á svæðið, skuldlaus fyrir stakk. Sjósókn og sauðfjárhald hafa einkennt sveitina frá sköpun. Seinustu misserin hafa skil milli gamalla hverfa beggja vegna Sandgerðis, Bæjarskerja og Flankastaða, skolast út og þau orðið að mestu sambyggð. Sandgerðisbærinn gamli er við Sandgerðistjörnina ofan við Sandgerðisvörina. Þar bjó Sveinbjörn Þórðason ásamt sonum sínum. Sumir segja að Sandgerði hafi áður heitið Sáðgerði, samanber kornrækt. Sandfok setti strik í reikninginn, en stórátak í sáningu melgresis á árunum 1930-´50 skipti sköpum. Steyptur sjóvarnargarður 1935 setti stefnuna á ný sóknarfæri í sjávarútvegi.
Sandgerði er stór smábær, með rúmlega sautján sinnum sjötíuogsjö íbúa. Setrið, öðru nafni Fræðasetrið, er í stöðugri sókn. Í Setrinu er ekki bara seli að sjá heldur og settlegan rostung, steina, stoppaða sjófugla, skrautlegar skeljar og smádýr svo eitthvað sé nefnt. Sjónaukar bjóðast þar til skoðunar fugla.
Stofan, eða Náttúrustofa Reykjaness, er undir sama þaki og Setrið. Sækjendum sem og sérfræðingum fjölgar stöðugt.
Skólar eru í Sandgerði fyrir skemmri stigin, sundlaug með sól- og setbekkjum og stækkun íþróttahússins hefur sagt til sín. Sveitarfélagið er í samvinnu um byggingu svæðismiðjunnar þar sem gert er ráð fyrir setu sjórnsýslunnar. Sveinsson fær það aðstöðu.

Hvalsnesleið

Hvalsnesgata.

Skýjaborg er samkomustaður smáfólksins, stráka og stúlkna. Söngvakeppnir eru skipulagðar þar og sjálfhælnir söngvarar, jafnvel prinsessur, sækja í staðinn til setu búa sinna. Sparkfélagið Reynir er í stöðugri framför, enda stuðningurinn stöðugur. Sigurstranglegir og á góðu skriði. Sköpun listar fer fram í listgallerýi og stærðar skírnarkerti, svo dæmi sé tekið, eru framleidd í Jöklaljósi. Skátar standa styrkum stoðum í Sandgerði og stunda staðfastir skátamót landsins.
Sveit Sigurvonar sýnir sjaldnast ónóg viðbrögð, slökkviliðið stendur sig vel og starf sjálfstæðra félaga, s.s. Lions, er stöndugt í Sandgerði.
Smekklegir eldri borgar hafa sannaralega komið sér vel fyrir í sérsmíðuðum húsum og safn bókanna hefur sameinast skólanum. Skil á bókum eru stöðug og haldast í hendur við útlán.
Slitlag er á vegum í og við Sandgerði. Stækkun hafnarsvæðis er stanslaust í gangi, en Suðurnesjafiskmarkaðurinn er staðsettur við höfnina.
Stórfengleg sýn listaverksins Álög eftir Steinunni Þórarinsdóttur er við suðurinnkomuna í Sandgerði. Þar stendur maðurinn andspænis sænum. Listaverkið er til minningar um látna sjómenn, sett upp á afmæli Miðneshrepps 1986.
Sögustaðir eru ófáir – Hunangshella – þar sem skepna var skotin er hún sleikti þar sýrópið, eða var það hunangið. Í Þórshöfn sló í brýnu með Englendingum og Þjóðverjum. Þórshöfn var einn helsti verslunarstaður þjóðverja á 15. og 16. öld. Skipakomur hófust þangað á ný á 19. öld . Jamestown strandaði þar 1881. Skipið var með allra stærstu seglskipum sögunnar. Sagan segir og að bellestin hafi verið silfurgrýti. Hugsanlega er silfursjóður þar á sjávarbotni.

Básendar

Festarkengur við Básenda.

Básar eða Bátsendar hýstu útgerð og verslun. Um siðaskiptin tók Viðeyjarklaustur útgerðina í sínar hendur. Skúli fógeti deildi þar við einokunarkaupmann danskan. Sjávarflóð 1799 lagði staðinn af.
Sakamenn voru hengdir í Gálgum, segir sagan.
Stafnes, fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld. Þar strandaði Jón forseti 1928. Slysið leiddi til stofnunar slysavarnafélagsins Sigurvonar í Sandgerði og síðar Slysavarnarfélags Íslands.
Steinn Steinunnar Hallgrímsdóttur er Í Hvalsneskirkju. Altaristaflan er eftir Sigurð málara.
Á Melabergi segja sumir að sonur ekkju hafi orðið strandarglópur á skeri Geirfugla, en bjargast ári síðar. Sór sá fyrir faðerni barns sækvynnu úr skerinu. Steyptist hann þá í Stakksfjörð þar sem nú stendur Stakkur.
Másbúðir eru m.a. kunnar fyrir fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar og Fulgavík safnaði fólk sölum samhliða fiskveiðum og notaði í skepnufóður.
Hér segir einungis af skemmriskírn Sandgerðis. Vilji sagnasjóðir sækja í safaríkara efni er best að leita í Setrið, þar sem allt slíkt fæst svo að segja ókeypis.

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Básendar

Aðfararnótt 9. janúar árið 1799 gerði stórkostlegasta sjávarflóð um margar aldir. Bátsendakaupstaður eyddist og mörg býli fóru í auðn. Ein kona drukknaði, mörg hundruð bátar brotnuðu og fénaður fórst.

Básendar

Brú frá Stafnesi að Básendum.

“Sjór gekk á land um stærstan straum í stórviðri af útsuðri á allri strandlengjunni austan frá Þjórsá og allt vestur um Breiðafjörð. Varð í þessu flóði meira tjón á mannvirkjum, bátum, varpstöðvum og löndum en menn vita áður dæmi um á einni nóttu, auk þess, sem fórst af fénaði og matföngum. Fygldi flóðinu regn mikið, þrumur og eldingar, og fannst mörgum því líkast sem himinn og jörð væri að farast.
Hést er svonefnd Háeyrarflóð til samjafnaðar við þessar hamfarir. Það varð að kvöldlagi í janúarmánuði árið 1653 í svipuðu veðri og nú og olli mestu tjóni á Eyrarbakka, í Selvogi og Grindavík. Þó mun það hvergi nærri hafa gert annan eins usla og þetta flóð.
Fólk allt gekk til hvílu að venju að kvöldi hins 8. Þessa mánaðar. Var þá aðfall og hávaðarok með miklum sjógangi og ógurlegu brimhljóði. Er skemmst frá því að segja, að veður færðist mjög í aukana upp úr lágnættinu, og litlu síðar tók sjór að ganga á land á strandlengjunni sunnan Reykjanesskaga, um Suðurnes öll, Innes, Kjalarnes, Akranes, Mýrar og Snæfellsnes.
Kaupstaðurinn í Bátsendum tók af með öllu, og flest kaupstaðahúsin á Eyrarbakka og Búðum á Snæfellsnesi eyddust. Nokkur býli á sjávarbökkum sættu sömu örlögum. Uggði fólk ekki að sér, fyrr en sjór tók að bylja á híbýlum þess og streyma inn í þau, og veggir hrundu í brimsúgnum. Björguðust menn víða mjög nauðulega úr þessu fári, og þoldu sumir mikla vosbúð og hrakninga.
Kaupmaðurinn á Bátsendum, Hinrik Hansen, vaknaði við það klukkan tvö um nóttina, að hrikti í hverju tré í húsinu. Litlu síðar heyrði hann, að þung högg tóku að dynja á því, líkt og veggbrjót hefði verið beint að því. Svartamyrkur var á, en kaupmaðurinn hafði ekki eirð í sér, snaraðist fram úr rekkju sinni og ætlað að líta út til þess að gæta að, hverju þetta sætti. En þegar hann opnaði húsdyrnar, flæddi sjórinn í fang honum.

Básendar

Tóft á Básendum.

Sjóvarnargarður, sem hlaðinn var í hálfhring um húsið og verslunarsvæðið, hafði sýnilega brostið, og sjór æddi um allt plássið. Með því að sífellt hækkaði í, streymdi sjórinn linnulaust inn í herbergin, og við það flúði heimilisfólkið, kaupmaðurinn, kona hans, Sigríður Sigurðardóttir frá Götuhúsum, börn þeirra fjögur, sjö til sextán ára, og stofuþerna þeirra, upp á húsloftið.
Þar hafðist það síðan við hálfnakið til klukkan sjö um morguninn. Var húsið þá allt laskað og skekkt af brimgangi og tekið að riða mjög, svo að ekki var annað sýnna en það hryndi þá og þegar.
Kaupmaður braut þá glugga á loftinu og lét sig síga niður í hafsjóinn úti fyrir. Tókst honum að vað með sjö ára dóttur sína í fanginu að fjósi, er stóð lítið eitt hærra en íbúðahúsið, og fylgdu kona hans og synir þeirra þrír, þrettán til sextán ára, á eftir ásamt vinnukonunni. En þegar fólkið hafði aðeins verið örskamma stund í fjósinu, brast mæniás þess undan ágjöf á sjóblautt þakið, svo að þau urðu enn að hrökklast undan. Að þessu sinni var flúið í hlöðuna.

Básendar

Festarkengur á Básendum.

Fólkið hélst ekki við í hlöðunni nema stutta stund. Þakið tættist af henni í hörðum sviptivindi, og leitarnar blöktu eins og pappírsarkir í storminum. Þóttist Hansen sjá fram á, að fólkið myndi ekki lifa af í tóftinni, svo að það ráð var tekið að yfirgefa kaupstaðinn með öllu, þótt ekki væri fýsilegt að leggja út í myrkur og fárviðri með konuna og börnin nálega klæðvana.
Hélst fjölskyldan í hendur svo að enginn týndist, og skreið jafnvel í hörðustu hrinunum, því að þá var óstætt með öllu. – Þannig náði fólkið loks um morguninn að Loddu, hjáleigu rétt hjá Stafnesi, nær dauða en lífi.
Þrjú hjú kaupmannsins á Bátsendum bjuggu í torfkofum skammt frá timburhúsinu, ásamt nær áttræðri konu, niðursetningi, sem lengi hafði legið í kör, Rannveigu Þorgilsdóttur að nafni.
Þessu fólki varð að sjálfsögðu ekki svefnsamt, en ekki uggði það þó að sér, fyrr en kofarnir voru umflotnir sjó. Þegar því varð ljóst, að hverju fór, rauf það þekjuna og skreið þar út. Rannveig var rifin upp úr körinni og dregin út um gatið, en veðrið lamdi hana niður, þegar hún kom út á plássið, og þar drukknaði hún. Vinnuhjúin komust hins vegar lífs af með harðfylgi.
Þegar flóðið rénaði og birti af degi, ást, að byggingar allar höfðu ýmist sópast brott eða falið í rúst, þar á meðal sölubúð, vöruskemma mikil, bræðsluhús og gripahús. Sex bátar höfðu brotnað í spón og sjóvarnargarðurinn gerfallið. Allt verslunarsvæðið er kafið grjóti, möl og sandi, og upp á brotnu þaki eins hússins, fjórum álnum ofar grundvelli, situr rekadrumbur fastur, en þangað hefur brimið slöngvað honum. Talið er, að sjór hafi gengið lengst 164 faðma á land upp fyrir kaupstaðinn.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Enn er ótalið mikið tjón, er varð á Suðurnesjum. Þar sópuðust fiskigarðar, sem fyrirskipað hafði verið að hlaða á undanförnum áratugum, heim á tún, brunnar fylltust, uppsátur eyðilögðust, og sums staðar fóru töðuvellir undir möl. Allmörg skip brotnuðu einnig og á Vatnsleysuströnd tíu bátar.
Í Keflavík skemmdist kaupmannshús, timburkirkjan á Hvalsnesi fauk, kirkjan í Kirkjuvogi skekktist, og Kálfatjarnarkirkja laskaðist.
En má hnýta því hér við, að í Grindavík spilltust fimm hjáleigur, og tók af völl á tveimur, hundrað kindur drápust, og sex skip brotnuðu.”
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, a.m.k. þrjá festarkengi frá tímum konungsverslunarinnar, Brennuhól þar sem eldur var kyntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.
Sjá meira undir Stafnes – Básendar og Básendaflóðið.

Öldin okkar 1799.

Stafnes

Höfnin við Stafnes.

Í apríl árið 1602 var tilkynnt að Kristján konunur IV hefði selt kaupmönnum í Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri á leigu alla Íslandsverslun í næstu tólf ár. Undanskildar voru Vestmanneyjar einar, sem konungur hefur lengi leigt með öllum sköttum og skyldum. Jafnframt var öllum kaupmönnum, öðrum en leigutökum, bönnuð verslun á Íslandi.

Straumsvík

Mannvistir við Straumsvík.

Þjóðverjar og Englendingar höfðu um langt skeið stundað mjög verslun á Íslandi, og Hamborgarar, Brimarar og Lýbikumenn, sem hér versluðu í konungsleyfi, áttu víða hús, kirkjur og vörubirgðir í kaupstöðum. Nú varð þeim algerlega bolað frá allri Íslandsverslun, nema hvað örfáir kaupmenn, sem áður höfðu fengið leyfi konungs til verslunar á nokkrum höfnum, fengu að halda þar velli, uns leyfistími þeirr rann út.
Það voru tuttugu hafnir á landinu, sem konungur leigði hinum dönsku kaupmönnum, þ.a. fjórar við Faxaflóa. Með þessari breytingu var talið að verslun á mörgum stöðum myndi leggjast niður, þar sem Þjóðverjar höfðu legið með skip sín á sumrin, svo sem á Hvalfjarðareyri, í Flatey, Straumsvík og Vatnsleysuvík og miklu víðar.
Konungur skrifaði hirðstjóra sínum, Enevold Kruse, og skipaði honum að hafa strangar gætur á, að Hamborgarar reki enga verslun við Faxaflóa, nema í Hafnarfirði, enda þótt þeim séu þar heimilar nokkra hafnir fleiri þetta sumar, samkvæmt gömlum leyfisbréfum. Bændum, sem versla á Suðurnesjum og í Grindavík, var bannað að selja Hamborgurum fisk og aðrar afurðir, nema hvað þeir máttu láta það, sem afgangs varð venjulegri verslunarvöru, ganga upp í skuldir.
Ætla mátti, að Þjóðverjum yrði gert ókleift að versla hér, en verslun við þá hafði staðið allt frá 14. öld og verið landsmönnum að ýmsu leyti hagstæð.
Þýsku kaupmennirnir voru mjög ósáttir við hina nýju skipan verslunarmála á Íslandi. Árið 1602 ráku þeir víða mikla verslun um sumarið undir því yfirskini, að þeir væru að innheimta skuldir, og tvö skip er komu á Suðurnesjahafnir, urðu að sigla tóm heim um haustið. Þar að auki létu Hamborgarar menn hafa hér vetursetu sums staðar og halda versluninni áfram. Þýskur maður, Jóhann Holtgreven, tók sér t.d. höfn í Keflavík og Bátsöndum og bar því við að hann hefði eigi komist til hafnar sinnar við Húnaflóa sökum íss og hafið verslun á Suðurnesjum fyrir þrábeiðni landsmanna.
Árið 1604 bar á mikilli óánægju með hina nýju verslunarhætti. Verslun fór versnandi og varð hún nú mun verri síðan Hamborgarar voru brott hraktir. Hinn aldni lögmaður, Þórður Guðmundsson, áttræður maður, gekk fram fyrir skjöldu og kærði kaupmenn fyrir konungi og höfuðsmanni. Árið áður skrifaði hann bændum á Suðurnesjum og í Grindavík bréf um verslunarmálin og skoraði á þá að mótmæla verslunarháttunum, því auðveldara myndi verða að fá leiðréttingu þegar í upphafi en síðar meir. En það gerðist sem oft er þegar einn eða fáir mótmæla, en margir horfa sitjandi hjá – nákvæmlega ekkert.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.