Færslur

Básendar

“Sjávarflóð hafa oft valdið stórtjóni og ekki síst á síðustu árum. Flóðbylgja skall Asíu olli mjög miklu manntjóni en flóðbylgjurnar haustið 2005 fyrst og fremst eignatjóni. Jarðskjálfti olli fyrrnefndu flóðbylgjunni (slíkar flóðbylgjur nefnast Basendar-323tsunami á japönsku og alþjóðamáli) en fellibyljir flóðunum við Karíbahaf. Tilfæra mætti miklu fleiri dæmi um tjón af völdum sjávarflóða og hafa Íslendingar hlotið sinn skerf af slíku, ekki síst sjófarendur. Elsta íslenska dæmið um að Ægir hafi reynt á þolrif þeirra mun að finna í Grænlendinga sögu. Þar segir frá 25 skipum mönnuðum mönnum sem hugðu á landnám á Grænlandi. Þau lentu í mjög miklum hrakningum. Suðureyskur maður var á einu skipanna og orti svonefnda Hafgerðingadrápu við þetta tækifæri. Þar er þetta stef:
Mínar biðk munka reyni
meinalausan farar beina,
heiðis haldi hárrar foldar
hallar dróttinn yfir mér stalli.
Tveir náttúrufræðingar á 19. öld, Japhetus Steenstrup og Jónas skáld Hallgrímsson, töldu jarðskjálfta orsök hafróts þessa og hefði orðið hafgerðingar þá væntanlega svipaða merkingu og japanska orðið tsunami. Ekki gátu þessir náttúrufræðingar fært veigamikil rök að þessu áliti og er enn með öllu óvíst hvaða náttúruhamfarir voru þarna á ferðinni.1 Ekki er ætlunin að fjalla hér um hafgerðingar þessar eða önnur sjávarflóð við Ísland að undanskildu því flóði sem nafnkunnast hefur orðið, Básendaflóðinu aðfaranótt hins 9. janúar 1799.
Basendar-324Fyrst verður staðurinn kynntur og íbúar hans þessa örlaganótt. Eftirfarandi lýsing á Básendum er birt í Suðurnesjaannál sr. Sigurðar B. Sivertsens: Básendar eru sunnarlega á vestanverðu Miðnesi, Rosmhvalanesi, og sunnan við alla byggðina þar. Þeir eru í Stafneslandi, og 8-10 mín. gangspölur milli. Fjörur og sandauðn er umhverfis Básenda, með litlum grasflesjum, frá síðustu öld, að austan- og norðanverðu. Þær eru þó aftur að brotna, eða blása og gróa á víxl, allt heim að túni á Stafnesi. En sjór mylur framan af. Frá Básendum skagar nesið nokkuð lengra til suðuráttar, með boðum miklum, skerjum og lónum. Þá er Kirkjuvogshverfið (Hafnahr.) í suðaustur, en vogur milli, og gengur langt inn í landið til norðausturs …

Höfnin á Básendum var lón mjótt og langt, svo sem bás austur og inn í landið. Skipaleiðin inn á leguna var nokkuð löng, milli skerja, og í líkri stefnu. Á fyrri öldum hefur vafalaust verið graslendi á báðar hliðar, og fyrir botni lónsins. Höfnin hefur þá verið á básenda.2
Lýsingin getur um höfn að Básendum enda var þar verslunarstaður að minnsta kosti frá 1484 til 1800. Undir lok 18. aldar var Hinrik Hansen, tengdasonur Íslands, kaupmaður á Básendum. Hann bjó á Básendum enda hafði verslunin þar verið opin allan ársins hring í nærfellt fjóra áratugi þegar hér var komið sögu.
Basendar-325Kaupmaður bjó í sérstöku húsi ásamt eiginkonu sinni Sigríði Sigurðardóttur frá Götuhúsum í Reykjavík, fjórum börnum þeirra hjóna, Símoni, Jóhanni Friðriki, Pétri og Maríu Lisbet, og vinnikonu. María var yngst barnanna. Synirnir urðu síðar mikilsmetnir borgarar í Reykjavíkurkaupstað og einnig Hans Símon, eldri bróðir þeirra, sem virðist hafa búið erlendis þennan vetur. Þrjú önnur vinnuhjú og einn niðursetningur voru á Básendum þennan vetur og á vegum kaupmanns. Þau áttu heima í kotbæ skammt frá kaupmannshúsinu.3 Eftir þessa lýsingu skal athyglinni beint að atburðunum aðfaranótt hins 9. janúar 1799, Básendaflóðinu.

Hinrik Hansen kaupmaður sendi Sigurði Péturssyni, sýslumanni og skáldi, lýsingu á atburðum þessarar nætur og er lýsingin dagsett hinn 16. mars 1799. Skjal þetta er varðveitt. Það er á dönsku. Vigfús Guðmundsson gaf það út nokkuð stytt í Blöndu og á íslensku. Þar er þýðanda ekki getið og hefur Vigfús því væntanlega sjálfur fært lýsinguna úr dönsku dragtinni og í íslenzku flíkurnar . Rétt þykir að birta lýsinguna hér í heild þó að löng sé enda gefur hún mjög góða mynd af atburðunum á Básendum þessa nótt:

Lotningarfull frásaga – (Ærbödig Pro Memoria)
Basendar-326Vegna ástæðnanna verð eg að bera fram fyrir héraðsdómarann tjónið hræðilega, sem varð í byrjun þessa árs á verzlunarstaðnum Básendum, er eg hafði náðarsamlega í hendur fengið. Út af því er eg nú fjárþrota með óþroskuð börn og óþægilegan aðbúnað. Til að gera héraðsdómaranum þetta skiljanlegt, tek eg mér leyfi til að segja söguna sanna, eins og hún gerðist. Sést þá hversu ofurefli sævarins,  hefur eyðilagt verzlunarstaðinn og margskonar fjármuni mína, og í hvílíkum dauðans vandræðum eg var staddur, með mínum nánustu, meðan allt var að eyðileggjast. Þessi hörmulega saga er þá svona: Eptir að við öll (eg, kona, 4 börn og vinnukona) vorum háttuð, varð eg þess var um nóttina (á að gizka kl. 2) hversu veðrið af suðri til vesturs magnaðist, svo iðulega fór að braka í húsunum. Þar að auki fóru að heyrast skellir, hver aptir annan, eins og veggbrjótur væri að vinnu á hlið hússins og undirstöðu. Af þessu fór eg á fætur, til þess að líta eptir veðrinu og vita, hvað gengi á úti. Þrátt fyrir svart myrkrið lauk eg upp húsdyrum eldhúsmeginn, og þá þegar brauzt sjórinn inn á mig, með svo miklu afli og straum, að fyllti herbergin á lítilli stundu. Flúðum við þá í skyndi upp á húsloptið, hálfnakin upp úr rúmunum, því við óttuðumst, að við mundum farast í sjónum niðri, þar sem íbúðin var. Og í myrkrinu þorðum við ekki út úr húsinu, bæði vegna æðandi brimaldanna og rjúkandi ofviðris; svo vissum við líka að allt umhverfis húsin var hulið sjó. Og megum víst þakka guði, að við gripum þá ekki það óyndis úrræði, því þá hefðum við öll farizt.
Basendar-327Þarna stóðum við nú langan tíma á loptinu í sífelldum dauðans ótta, að veður og sjór mundi þá og þegar mola húsið niður að grundvelli. Ofviðrishrinurnar og brimið lamdi sífellt á húsinu, svo það var nú farið að brotna, mótstöðuafl þess rýrnaði og sjórinn streymdi út og inn.

Hér um bil kl. 7 (að við héldum) treystumst við ekki lengur að geta bjargað lífinu þarna á loptinu. Braut eg því gluggann á norðurhliðinni. Þar smugum við öll út, eins og við stóðum (hálfnakin). Eg vóð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjármunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur, og til hlöðunnar. Annar gaflinn var brotinn af henni, en í staðinn var þar kominn hlaði af trjáviðardóti, er við urðum að skríða yfir, með mikilli hættu, til að komast inn.
Basendar-328Þarna stóðum við skjálfandi nokkurn tíma, unz veðrið fór með nokkuð af þakinu, en hinn hlutinn blaktaði fram og aptur, eins og blaðsnepill.
Til þess enn að reyna að bjarga lífinu, gerðum við síðustu tilraun, yfirgáfum eyðilagða kaupstaðinn, leiddumst öll saman og héldum áleiðis til bygða. Vóðum svo og skriðum í rokinu, unz við eptir miklar þrautir náðum að næstu hjáleigu, er nefnist Lodda (Loðvíksstofa), rétt hjá Stafnesi. Fátæki bóndinn þar, Jón Björnsson og kona hans, tóku á móti okkur-sem vorum nærri örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki-með mestu alúð og hjartagæzku. Létu og það allt gott í té, er þau gátu. Í baðstofu þessa ráðvanda manns höfðum við aðsetur og aðbúnað í 14 daga. Voru þar alls 19 manns, þar af 10 börn, en þó var baðstofan ekki nema 3 stafgólf ( Fag = 2 álnir) á lengd, 31/ 2 alin á vídd og 3 álnir á hæð, af gólfi upp í mæniás. Þrátt fyrir alúð mannsins og góðvilja vildum við ekki lengur níðast á gestrisni hans. Til þess líka að rýmkva um okkur, fórum við á eyðijörðina Stafnes, og bjuggum um okkur í baðstofunni íslenzku, sem þar var. Síðan höfum við haft þar okkar fátæklega aðsetur. Eins og hr. sýslumaðurinn mun sjá eru húsin mín öll á verzlunarstaðnum sama sem hrunin að grundvelli, og bærinn, sem þar var, líka.
Fólkið úr honum bjargaði sér upp um þekjuna, og tókst því Basendar-329þann veg um nóttina að bjarga lífi sínu, með guðs hjálp, nema aldraðri konu, sem veðrið lamdi niður, svo hún drukknaði í flóðinu. Eptir að hvíld og næði færðist yfir hagi mína hefi eg varið tímanum til þess að setja stoðir undir það, sem uppi hangir af húsaskrokkum verzlunarstaðarins, moka úr þeim fjörumölinni og grafa upp dótið mitt úr rústum þessa ömurlega staðar, svo og að safna saman borðum, trjám og brotum húsa (og húsbúnaðar). Við allt þetta árangurslitla strit, dag og nótt, er eg og konan orðin svo lasburða, að eg treysti mér tæplega að vinna lengur þetta erfiði. Og erfiðið verður því árangursminna, þar ekki þarf hér eptir að vonast eptir fólki til útróðra á þessum stað.

Að lokum vil eg láta það álit mitt í ljósi, að landskjálfti hafi hér verið í verki með veðri og sjó. Benda til þess ýmsar vörutegundir, sem eg hefi fundið lítið skemmdar undir grundvelli (ned i Grunden). Þvílíkt gat varla orðið án mikils hristings og sérstaklegrar aukahreyfingar jarðvegsins.
Þar eg er skuldunautur hátignarinnar, er átti veð og íhlutunarrétt í húsum á verzlunarstaðnum Básendum, verð eg að biðja yður, hr. sýslumaður, að koma hér við tækifæri og framkvæma löglega skoðun á rústunum og fjártjóninu.
Stafnesi 16. marz 1799.
H. Hansen.

Lodda-221Konan sem fórst í flóðinu hét Rannveig Þorgeirsdóttir, 79 ára niðursetningur sem hafði lengi verið rúmföst.4 Frásögn kaupmanns sýnir að veður hafi rokið upp um kl. 2 eftir miðnætti og gekk veðrið af suðri til vesturs . Nokkru síðar, óvíst hve löngu, opnaði kaupmaður dyr eldhúsmegin og flæddi sjór þá inn í húsið. Nánar verður vikið að þessu atriði síðar í greininni.
Sýslumaður lét gera úttekt á tjóninu og er virðingagerðin dagsett 9. maí 1799. Þar eru hús ýmist sögð vera gjörónýt eða stórskemmd. Auk þessa voru sex bátar sem kaupmaður átti og hafði gert út til fiskveiða gjörónýtir, af sumum þeirra var kjölurinn einn eftir. Úttektin segir eftirfarandi um flóðhæð og landbrot af völdum flóðsins: Hversu mjög sjórinn gekk á land og hve hátt risu flóðöldur má ráða af því, að sjórinn komst 164 faðma upp fyrir verslunarstaðinn (274 metra ef miðað er við þriggja álna faðm), og rekadrumbur hefur skolazt upp á þakið á einu verzlunarhúsanna, og liggur þar enn, 4 álnum ofar grundvelli. Verzlunarstaðurinn sýnist alveg óbyggjandi til frambúðar, því grundvöllurinn virðist vera 1-2 álnum lægri en áður.5
Þess skal getið áður en lengra er haldið að Básendakaupstaður var ekki endurreistur og lögðu stjórnvöld þó allhart að Hansen kaupmanni að byggja þar upp á nýjan leik.
Einhver verslun var þó á Básendum árið Basendar-3301799. Hansen fluttist til Keflavíkur. Hann skuldaði konungi yfir 2.000 ríkisdali og sótti um að fá skuldina gefna eftir. Konungur féllst á að gefa hálfa skuldina eftir og að veita eins árs gjaldfrest á hinum helmingnum ef kaupmaður byggði aftur upp á Básendum. Síðar var fallið frá því skilyrði. Hansen kaupmaður andaðist árið 1802 og kom í hlut sona hans að greiða eftirstöðvar skuldarinnar.6

Tjón varð mun víðar en á Básendum aðfararnótt hins 9. janúar 1799. Jón Espólín segir pakkhús hafa eyðilagst á Eyrarbakka og þar dreifði sjórinn viðum og varningi um Breiðumýri ofan verslunarstaðarins. Einnig velti sjórinn um öllum stakkstæðum á Eyrarbakka, gróf grundvöll undan flestum húsum þar, spillti vörum og braut malarkambinn. Hús brotnuðu og hey og búpening tók út, 63 hross, 58 kindur og 9 kýr. Alls olli flóðið tjóni á 52 býlum í hinum forna Stokkseyrarhreppi og þar brotnuðu 27 bátar.
Tuttugu og níu menn urðu að flýja heimili sín. Tjón varð einnig í Þorlákshöfn og Selvogi. Í Grindavík spillti flóðið 5 hjáleigum, þar brotnuðu 6 skip og 8 að auki Basendar-331skemmdust og 100 fjár fór í sjóinn. Fiskigarðar og túngarðar á Nesjum sópuðust heim á tún og þar brotnuðu 8 bátar, tveir bátar eyðilögðust í Höfnum, tveir í Njarðvík og fjórir í Útskálasókn. Sjór gekk á land á Vatnsleysuströnd og braut tíu báta. Flóðið spillti mörgum jörðum á Seltjarnarnesi og eyðilagði þar yfir 20 báta. Þrjátíu og sex bátar skemmdust eða eyðilögðust í Borgarfjarðarsýslu og sextán að auki í Mýrasýslu. Verbúðir eyðilögðust við Álftanes og í Hítárnesi. Í Staðarsveit gekk sjór 300-1.500 föðmum lengra á land en venja var í stórstreymi, þar eyðilögðust hús og 50 fjár flæddi. Fjórtán kirkjujarðir Staðarstaðar spilltust. Búðakaupstað tók af að mestu, þar brotnaði eitt hús alveg, gat kom á annað og sjórinn gróf undan hinu þriðja. Sextán bátar brotnuðu í Staðarsveit, en tíu að auki höfðu brotnað fyrr um veturinn í Neshreppi.

Flutningaskip Hans Hjaltalíns, kaupmanns á Búðum og Stapa, slitnaði upp og brotnaði undir Sölvahamri, verslunarhús Stafnes-321brotnaði í Ólafsvík. Tveir bátar eyðilögðust á Hellissandi og fimm að auki á Skógarströnd. Þar brotnuðu þrír bæir. Hús fuku í Dalasýslu. Þar braut sjórinn land og tók hjalla og fiskmeti. Átján bátar brotnuðu í óveðrinu í Dalasýslu svo að vitað var. Tekið er fram að veðurofsinn hafi verið minni á Vestfjörðum og um Norðurland. Hvalsneskirkja og Neskirkja við Seltjörn fuku og kirkjurnar í Kirkjuvogi og á Kálfatjörn skemmdust. Jón Espólín hefur eftirfarandi um tjón af völdum veðursins í grennd við Reykjavík eftir Geir biskupi Vídalín: að 5 álnum hefði sjór gengit hærra, þverhnýptu máli, en í ödrum stórstraumsflódum; braut sjórinn þvert yfir um nesit fyrir innan Lambastadi, svo at hvorki var fært hestum né mönnum; lét biskup mæla þar, ok voru 3 hundrud fadma tírædir; spilltust til ónýtingar á nesinu 18 skip eda meira, med þeim sem í Videy ok í Engey voru; kot braut á Kjalarnesi ok nokkra báta, ok vedr spillti vídar húsum. Tók af Breid á Skipaskaga med húsum ok túnum, en sjórinn brauzt inn undir pallskörina, fékk bóndinn brotid gat á badstofu-þekjuna, ok komit þar út mönnum, en vard at brjóta sik inn í adra búd, til at koma þeim af sundi, týndist margt þat er hann átti, en honum bættist þat aptr af örleik manna.7
Heimildir geta ekki um spjöll í Reykjavík af völdum flóðsins enda hefur hafnarsvæðið gamla verið í nokkru vari.”

Heimild:
-Lýður Björnsson.

1. Ísl. fornr. IV., bls. 245, meginmál og fyrsta neðanmálsgrein.
2. Suðurnesjaannáll er prentaður í Rauðskinnu hinni nýrri sr. Jóns Thorarinsens og hefur hann lagt sitt af mörkum til lýsingarinnar. Höfundurinn, sr. Sigurður B. Sivertsen, var prestur í Útskálasókn 1837-1886 og sr. Jón ólst upp í Höfnum. Báðir hafa því væntanlega þekkt Básenda mjög vel.
3. Vigfús Guðmundsson: Básendar við Faxaflóa, Blanda III., bls. 50-52, 57, önnur neðanmálsgrein. Sigurður Pétursson er bæði titlaður héraðsdómari og sýslumaður í skjalinu. Hið rétta er að hann var sýslumaður í Kjósarsýslu og héraðsdómari í Gullbringusýslu, sem var eina sýsla landsins sem naut umsýslunar slíks embættismanns.
Skiptingin átti rætur að rekja til konungsbréfs frá 1781 og ágreinings Skúla landfógeta Magnússonar og Guðmundar Runólfssonar lögsagnara um starfsvið. Landfógeti hafði með höndum fjármál og löggæslu í Gullbringusýslu. Sjá Kaupstaður í hálfa öld, bls. 117.
4. Vigfús Guðmundsson: S. st., bls. 54-58 og neðanmálsgrein á bls. 58. Vigfús segir
Rannveigu vera Þorgilsdóttur en sr. Jón Thorarinsen, útgefandi Suðurnesjaannáls, sem tekur frásögn Vigfúsar upp í annálinn, hefur breytt föðurnafni hennar á tveimur stöðum.
Er þar væntanlega um leiðréttingu að ræða, sjá Rauðskinnu hina nýrri III., bls. 43 nm., neðanmálsgreinar 2-3.
5. Vigfús Guðmundsson: S. st., bls. 58-61.
6. Vigfús Guðmundsson: S. st., bls. 64-68.
7. Jón Espólín: Íslands Árbækur í sögu formi, XI. deild, bls. 96-97.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Básendar

Í Fornbréfasafninu, 287 og síðar, er m.a. fjallað um Grindavíkurstríðið 1532, aðdraganda og eftirmála:

287 – [Um 4. apríl 1532] – [Básendum]

Basendar-222

Básendar.

“Afrit af sættargerð milli Ludkens Schmidts og manna hans annars vegar og Roberts Leggde, Thomasar Hirlacks, Harije Fijtzerths og Bartrams Farors hins vegar. Þeir síðarnefndu koma til hafnar að Básendum á páskadag (þann 31. mars 1532), þar sem L. Sm. liggur fyrir, og spyrja hann, hvort hann muni þola þeim hafnarvist. Þeir fá það svar, að þeim sé óheimilt að koma inn í höfnina, sökum þess að L. Sm. hafi tilkynnt Hinriki nokkrum Berndes að hann mundi halda höfninni honum til handa. Þá fær Robert Legghe John Willers í lið með sér og freista þeir á miðvikudagsmorgun eftir páska (þann 3. apríl) að komast inn á höfnina með valdi, lögðu aftan og framan við skip L. Sm. og skutu og slógu hann og menn hans eftir beztu getu. Árásin mistekst, og gáfu árásarmenn upp skip og góss til að bjarga lífi sínu…”.

288 – 16. maí 1532, bls. 539

Basendar-223

Básendar.

“Óstaðsett viðurkenning Roberts Legghe og félaga hans á því, að þeir hafi afhent í skip Ludtkyns Smuthe fjörutíu lestir samkvæmt gerðum samningi og skulu það með lausir allra mála út af atburðunum á Básendum.”

290 – 18. júlí 1532 [Reykjavík], bls. 541-542
“Tylftardómur útnefndur af Erlendi Þorvarðarsyni lögmanni til þess að dæma um líflát Jóns Breens og manna hans í Grindavík. – Þar er borið, að Jón Breen hafi tekið með ofbeldi í Grindavík (góss) frá Katli Jónssyni og Þorgrími Halldórssyni, bundið þá og pínt, en hótað Þórði Guðmundssyni að höggva af honum höfuðið, ef hann léti nokkurn fisk af hendi við aðra en Jón og menn hans; einnig hefði hann gripið fisk frá þýzkum kaupmönnum, 20 lestir eða meir; einnig hefði hann hindrað með valdi, aðrir menn flytti fisk sinni burt, og dæmist Jón Breen eftir lögbókarinnar hljóðan ránsmaður og fyllilega af lífi tekinn ásamt fylgjurum sínum, en skip hans og góss fallið undir konung og umboðsmann hans Diðrik frá Mynden. Einnig eiga þeir að dæma um skip og góss, sem rak á land við Básenda í bardaga milli Lutken (Smith) og Joen Wyler og dæmist það fallið undir konung, ásamt öðru, sem bréfið greinir.”

bls. 544-545

Gerdavellir-222

Virki Jóhanns breiða á Gerðavöllum.

Um þessa atburði er nokkrum sinnum getið í íslenzkum heimildum; elzt mun frásögn biskupasagna talin frá því um 1593 (SJ Biskupasögur Bókmenntafélagsins II. b. bls. 237 og 240), merkt a), en textinn tekinn eftir ritgerð Jóns Gissurarsonar; þá kemur frásögn Jóns Egilssonar í Biskupaannálum frá því um 1605 merkt b) og að lokum annálsgrein Björns Jónssonar á Skarðsá frá Ps um 1639, hér merkt c).

a) Á þeim tima lá skip í hverri höfn fyrir sunnan og sums staða ij: þýzkir víðast, utan í Grindavík lágu engelskir. Það bar eitt sinn til á dögum biskups Ögmundar, að engelskir lágu eitt ár í Grindavík á fimm skipum og voru ómildir við íslenzka, svo fólk gat ekki það liðið; réði fólk engu sínu og fékk ekkert fyrir sitt; voru, fyrir mönnum þeirra ij Jónar, kallaður Eldri-Bragur og Yngri-Bragur. Tóku íslenzkir sig þá saman og riðu til Bessastaða, kröfðu höfuðsmanninn, Didrech van Minden, liðveizlu móti slíkum í mennum. Varð hann vel við og sendi strax í alla kaupstaði, því íslenzkir hefðu ella látið illa að honum sjálfum, ef hann hefði ekki við orðið; skipaði hann þýzkum að finna sig við Þórðarfell sem er hjá Grindavík.

Grindavikurhofn-222

Grindavík.

Komu þeir saman að kveldi dags í tilsettan tíma, Lxxx menn annars hundraðs og gengu þaðan í Víkina fyrir sólaruppkomu; höfðu engelskir búizt við og gjört sér virki um torf og grjót, en þeir höfðu lítið gagn af því. Hlupu þeir í skip sín, sem það gátu, og sigldu út með iiij skipum, fimmta gátu þeir þýzku náð og drápu xviij engelska, en vij létu þeir lifa og pilt. Fylgdu þeir engelska skipinu til Bessastaða með þeim þýsku sem á það voru látnir, en eitt af hinum fjórum forgekk í Víkinni strax í útsiglingunni, og sökk það þar strax, svo ekki neitt náðist af því.
Ritgjörð Jóns Gissurarsonar, Safn til sögu Íslands, I. b. bls.658, Biskupasögur gefnar út af Hinu ísl. bókmenntafélagi, II. b. Khöfn 1878, bls. 238—’39.
b) Á dögum biskups Ögmundar slógust þeir þýzkir og engelskir í Grindavík og unnu þeir þýzku, því hinir voru ekki við búnir og þýskir villtu fyrir þeim daginn og komu á þá óvart drukkna; þar féllu 14 engelskir, og hét sá Ríki-Bragi, sem fyrir þeim var. Þeir voru dysjaðir í virkinu.
Biskupsannálar Jóns Egilssonar, Safn til sögu Íslands, I. b. bls. 79.
c) Anno 1532. — Var hér á landi í Grindavík einn engelskur kaupmaður, hét Jóhann Breiði. Hann var missáttur við kóngsfóveta á Bessastöðum og vildi ekki gjalda honum toll, sem vera átti. Einninn kom misgreiningur í með þessum Jóhann og Hamborgurum, sem lágu til kaupskapar á Suðurnesjum, og keypti hann og hélt skreið nokkurri, er þeir áttu að hafa, og komu og komu orð með í hvorutveggjum um þessi efni. Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki, og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku þeir sig þá til hinir þýsku menn og Bessastaða fóveti og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og góss og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra dysjar hjá virkisgarði.
Skarðsannáll, Annálar 1400—1800 I. b., bls. 92—93.)”

Gerdavellir-223

Fræðsluskilti um Grindavíkurstríðið á Gerðavöllum.

291 – 29. júlí 1532 [Lundúnum], bls. 545-546
Bréf öldurmanna kaupmannagildisins þýzka í Lundúnum (de Staalhof) til borgarstjóra og ráðs í Hamborg. Þeir segja, að á Síðasta ári hafi Englendingar kært fyrir Englandskonungi og ráði hans, að þýzkir sæfarar frá Hamborg og Brimum beittu sig ofbeldi á Íslandi, en af þeim sökum hafi þýskir kaupmenn í Englandi orðið fyrir óþægindum. Þeir fara þess á leit, að borgarstjórnin sjái til þess að Þjóðverjar, sem sigli til Íslands, ástundi friðsamleg samskipti við Englendinga. Nú segja þeir, að kæra hafi borist Englandskonungi á hendur Lutskenn Smith, William Kenet og Jóhanni Sowermer frá Biskups Lynn fyrir að hafa ráðist á skip frá Lynn, sært menn og drepið, rænt skipið, eyðilagt og sökkt því. Þeir senda Hamborgurum kæruskjal Englendinga og biðja þá að gera upptækt skip og góss L. Sm. og taka hann og menn hans höndum og senda Matthias van Emerszen, ritara sinn, til þess að fylgja fram máli sínu, auk annars sem bréfið greinir.”

Heimild;
Fornbréfasafn 287, bls. 537-546.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt á Gerðavöllum ofan Stóru-bótar.

 

Járngerðarstaðir
“Grindavíkurstríðið”
IV. hluti – 20. mars 2004.
Vettvangsferð.

Básendar

Básendar.

Farið var í vettvangsferð á Básenda og í Stóru-Bót undir leiðsögn Jóns Böðvarssonar og Reynis Sveinssonar. Í ferðinni komu m.a. fram eftirfarandi upplýsingar:
“Við erum nú á leiðinni í Sandgerði þar sem Reynir Sveinsson mun koma í bílinn til okkar og leiðsegja okkur um Básenda. Ég get sagt ykkur að Stafnes var eitt af höfðubólunum að fornu og þar var mikið útræði, en svo til engin selveiði. Þó segir sagan að nafngreind selskytta hafi verið á Stafnesi, farið jafnan út í Rósker, sem þar er skammt vestar, og setið fyrir selnum þar.
Um 1550-1760 var konungsútgerð á Básendum, en hún var bæði í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum. Ástæðan var mikil fiskimið út frá þessum landssvæðum. Konungsútgerðin var mikil tekjulind fyrir krúnuna. Aðallega var stunduð skreiðarverkun. Þegar útgerðin lagðist af seldu Danir skip sín. Dreifðust þau um Vesturlandið; flest fóru þó til Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafnarfjarðar. Má segja að íslensk þilskipaútgerð hafi komið í staðinn fyrir konungsútgerðina.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Þrír staðir á landinu voru svo til án landbúnaðar, en þar komu fiskveiðar í staðinn; Vestmannaeyjar, Suðurnes og Snæfellsnes. Á þessum svæðum var skreiðarverkun og skreiðarkaupmennska mikilvægust um langan tíma. Fiskveiðarnar voru stundaðar á grunnmiðum af Íslendingum, en lengra út frá landi af stærri skipum útlendinganna. Þar voru Englendingarnir atkvæðamestir, allt frá árinu 1420 og fram að Grindavíkurstríðinu árið 1532.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Hægt er að rifja upp að atburðirnir á Básendum byrjuðu 2. apríl 1532 með komu Ludviks Smith. Þar reyndist stuðningur bróður hans og um 80 Íslendinga mikilvægur er kom til átaka milli þeirra og Englendinga, er bar að Básendum tveimur dögum síðar. Eru atburðirnir raktir nokkuð ítarlega hér að framan.
Á leiðinni út að Stafnesi var rifjað upp að Hallgrímur Pétursson hafi verið prestur í Hvalsnesi, en búið að Bolafæti í Njarðvíkum. Hafi hann jafnan þurft að fara yfir heiðina til messu. Núverandi steinkirkja að Hvalsnesi var vígð á jóladag 1887.

Til fróðeiks, svo þegar horft er á Miðnesheiðina þar sem á þriðja tug manna urðu úti á á sínum tíma á tiltölulega fáum áratugum (svo til allir á leiðinni frá kaupmanninum í Keflavík á leið heim til sín), má vekja athygli á því að orðið heiðingjar var í upphafi notað um heiðarbúa, fólks er bjó upp á heiðum. Síðan varð merking orðsins önnur. Svo er um mörg orð í íslenskunni. Má þar nefna orðið eldhús. Það var áður notað um stað þar sem eldur brann og matur var eldaður. Nú brennur enginn eldur í eldhúsi, en það heitir sama nafni eftir sem áður. En þetta var nú útúrdúr”.

Gengið var um Básenda, en þar eru nú engin ummerki þess tíma er átökin urðu þar árið 1532, einungs minjar eftir konungsverslunina og seinni tíma búskap (rétt, garðar, bæjartóftir, brunnur, götur og vör). Legan er þó enn á Básendavík (Brennutorfuvík) þótt landásýndin hafi verið þarna önnur en nú er. Bæði hefur sjórinn brotið talsvert land og þá hefur landið sigið frá því sem var (8mm á ári að jafnaði).
Gengið var um Stórubót og hóll þar barinn augum. Sagt er að hann sé leifar af virki Jóhanns breiða og hans manna. Sandlág er austan við hólinn. Mun þar vera Engelska lág skv. sömu sögnum. Vestar, sunnan Gerðisbrunnanna, eru garðar er þjóðsagan segir að sé svonefnt Junkaragerði, þ.e. aðsetur Þjóðverjanna.
Bæði þessi svæði “anga af sögu”.

ÓSÁ (lesið yfir af JG, VG og SJF).

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Básendar

Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í “Ensku öldinni”og “Tíu þorskastríð”, sbr. innihald texta:

“Grindavíkurstríðið”
III. hluti – 17. mars 2004.

“Filmurnar reyndust við leit vera á Þjóðskjalasafninu. Þær liggja hins vegar ekki á lausu.
Í Fornbréfasafninu (nr. 16, bls. 536-717) er heilmikið af skjölum og gögnum vegna eftirmála Grindavíkurstríðsins, langflest á latínu og þýsku, en örfá á íslensku. Friðarviðræðurnar fóru fram í bænum Bad Segenberg, skammt norðan borgarinnar Lübeck í Þýskalandi.
Þorskastríðin voru 10 talsins.
1.  1415-1425. Í lok þess varð Ísland opinn fiskmarkaður.
2.  1447-1449, en eftir það tengdist Ísland danska ríkinu.
3.  1467-1473. Björn Þorleifsson var drepinn og loks samið um óbreytt ástand.
4.  1484-1490. Englendingar fengu heimild Danakonungs til fiskveiða og verslunar við Ísland. Árið 1484 hófst flotavernd Englendinga á Íslandsmiðum. 1485 var orrustan við Bosworth. Á árunum 1485-1509 var Hinrik VII. við völd í Englandi og Hinrik VIII. á árunum 1509-1547.
5.  1532-1533 var Grindavíkurstríðið.
6.  1896-1897 voru firðir, víkur og flóar opnaðir öllum til veiða.
7.  1952-1956 var landhelgin færð út í 4 mílur til verndunar fiskistofnum.
8.  1958-1961 var hún færð út í 12 mílur. 1972-1973 var hún færð út í 50 mílur og loks
10. (1975-1977) út í 200 mílur.

Básendar

Húsgrunnur á Básendum.

Grindavíkurstríðinu sjálfu lauk í raun 21. júní er Þóðverjar létu úr höfn á Peter Gibson. Erlendur Þorvarðarson á Strönd og önnur stjórnvöld voru eindregið á því að líta á atburðina sem lögregluaðgerð gegn lögbrjótum, en stjórnvöld út í heimi voru hins vegar á öðru máli. Helstu borgir Þjóðverja voru þá Lübeck og Hamborg. Þýskaland var í raun mörg nokkuð sjálfstæð borgríki. Danir stóðu t.d. í stríði við Lübeck, en Hamborgarar voru hliðhollir Danakóngi. Danir vildu styrkja umboðsstjórn sína á Íslandi og víðar og þeim þótti því þægð í því að hafa þýskar skipshafnir hér, sér til halds og trausts. Danakóngur lék þó tveimur skjöldum því hann var tilbúinn til að semja við Englendinga ef þurfa þótti gegn því að þeir versluðu ekki hér á landi. Íslendingar vildu hins vegar fyrir alla muni halda í verslunina við Englendinga. Samkeppnin skapaði lægra verð fyrir innfluttan varning og hærra verð fyrir útflutninginn. Þetta kom berlega í ljós eftir að Englendingar fóru héðan því þá breyttust hlutföllin Íslendingum í óhag. Mikið var gert að því að prjóna sokka og vettlinga til að selja Englendingum, en Danir reyndu að banna alla slíka verslun. Þeim tókst þó ekki að framfylgja banninu. (Skv. vísindavef HÍ barst prjón fyrst til Íslands á fyrri hluta 16. aldar).
Enskir sjóræningar rændu bæði ensk og þýsk skip á þessum tíma. Hinrik VIII. samdi t.a.m. við þá um að ræna einnig spænsk skip. Talsverðar skærur hlutust af. Þegar enskir sökktu þýskum skipum brugðust Þjóðverjar ókvæða við og reyndu jafnan að hefna hatrammlega fyrir slíkt.
Í upphafi var litið á átökin á Básendum og í Grindavík sem sjóræningjaskærur. Þjóðverjar lögðu hald á enska skipið á Básendum og íslensk yfirvöld, Erlendur á Strönd og hirðstjóri Danakonungs, Diðrik af Minden, hikuðu t.d. ekki við að leggja hald á herfang sitt í Grindavík. Eitt skipanna fórst á skerjum á flóttanum, en þremur tókst að komast til Englands. Þar bar áhöfnin umsvifalaust fram kvörtun og kærur við Englandskonung.

Básendar

Brunnur á Básendum.

Í Hamborg voru margir Íslendingar á þessum tíma, s.s. Gissur Einarsson, fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi. Líklegt er að þeir hafi verið Þjóðverjum til ráðgjafar vegna þess sem á eftir fylgdi. Yfirvöld hér á landi sendu Hinriki VIII. frekjulegt bréf og sögðust einungis hafa staðið í lögregluaðgerðum við Grindavík. Þjóðverjar í Hamborg skrifuðu einnig Hinriki VIII. bréf og töldu Englendinga á Íslandi hafa verið lögbrjótana, en ekki þá þýsku. Töldu þeir þar ýmislegt máli sínu til stuðnings, m.a. að Englendingar hefðu verið orðnir aðsópsmeiri við Ísland en Íslendingar sjálfir, lægju á djúpslóð og kæmu í veg fyrir fiskigengd í firði og víkur. Einnig að Englendingar neyddu Íslendinga til að afhenda sér fisk með illu og hefðu þar að auki á brott með sér fólk, settu það í land í Færeyjum eða hnepptu jafnvel í þrældóm. Þetta er kannski svolítið ýktar lýsingar hjá Þjóðverjum. Hið rétta er að fátækir bændur létu Englendinga stundum fá stráka um fermingu til að túlka fyrir þá. Þessir strákar fóru stundum út með þeim, ólust upp í Englandi og komu síðan með þeim sumir hverjir til landsins að vori þar sem þeir heimsóttu sitt fólk. Þá töldu Þjóðverjar upp að Englendingar ynnu leynt og ljóst gegn Danakonungi á Íslandi og teldu sig jafnvel eiga þar meiri rétt en aðrir. Stælu þeir fiski og jafnvel skatti frá Dönum.
Þjóðverjar ráku atvikin á Básendum í bréfi sínu til Hinriks VIII. og töldu síðan upp nokkur atvik um yfirgang Englendinga, sem þeir hefðu komist upp með fram að þessu vegna þess að ekkert lögregluvald væri til staðar í landinu, heldur “stjórnuðust viðbrögð af hefndum og gömlum vana”. Líklegt er að Gissur hafi hjálpað Þjóðverjum að semja bréfið til Hinriks VIII. Sá taldi hins vegar að þýskir hafi byrjað að skjóta á landsmenn sína og ritaði hástemmt bréf til baka og óskaði eftir samningaumræðum um skaðabætur og annað, sem tiltekið var. Friðrik II. Danakonungur svaraði hortugur fyrir sig og sagði sína þegna á Íslandi saklausa af öllum ásökunum Englendinga vegna lögregluaðgerðanna hér.
Hinrik VIII. vildi láta dæma Ludtkin Smith fyrir hans þátt í málinu, ekki síst fyrir að hafa haldið heljarinnar veislu í virkinu eftir drápin ofan við Stóru-Bót. Þjóðverjar svöruðu og bentu á að Englendingar hefðu nú áður ætlað að bjóða Íslendingum í “þjóðverjakjöt” eftir væntanlegan sigur þeirra yfir þýskum á Básendum. Englendingar reyndu þá að útskýra að þar væri um einhvern misskilning að ræða – kjöt frá Þjóðverjum hefði átt að vera þar í matinn.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir.

Hinrik VIII. sendi mann að nafni Thomas Lee til Danakonungs til viðræðna og samninga, en vegna tungumálaerfiðleika gekk hvorki né rak. Lee talaði einungis ensku og latínu. Úti í heimi voru átök um, verslun, trúarbrögð og stéttaskiptingu. Um var að ræða flókna blöndu. Hinrik VIII. var t.a.m. kaþólskur eins og meginþorri Evrópubúa, en Hansakaupmenn voru t.d. flestir lútherskir. Hinrik var studdur af borgarastéttinni, en lýðurinn bankaði á dyrnar. Inn í þett allt blönduðust kvennamál Hinriks.

Þannig stóðu málin við upphaf friðasamninga er fylgdu í kjölfarið. Fyrsti fundurinn var haldinn í Hamborg þann 30. janúar 1553. Hálfur mánuður fór í þýðingar gagna. Enski sendifulltrúinn var Thomas Lee. Hann skrifaði á latínu, en Þjóðverjar vildu hafa allt á þýsku. Kristján Friðriksson (Danakonungssonur) var einn fulltrúi Danakonungs. Hann hélt nokkuð vel á málstað Íslendinga, en þeir áttu sjálfir engan fulltrúa í viðræðunum.

Segeberg

Segeberg.

Nú kemur þar að er búið var að þýða öll gögn og undirbúningi lokið. Þá stóð í stappi um fundarstað. Varð úr að hann var fluttur til Segenbergs. Samningahöllin stóð þar sem nú er torg. Englendingar heimtuðu enn skaðabætur, en Þjóðverjar sögðust einungis hafa verið þátttakendur í lögregluaðgerðum. Lee dró þá upp drög að reglugerð um höndlun friðar vegna siglinga til Íslands. Þar sem minnst er á fiskveiðar í þeim eru þær taldar að hluta til jafngilda verslun. Annars var efni þeirra í megindráttum eftirfarandi:
1. Þeir sem fyrstir koma til hafnar á Íslandi mega ekki reka aðra er á eftir koma á brott, eins og verið hefur, heldur leyfa þeim að versla í friði.
2. Ef ekki er nægur fiskur á boðstólnum fyrir nógu mörg skip eiga þau forgang er fyrstir komu.
3. Sömu reglur gilda um öll skip.
4. Orðið viðskipti á einnig við um sölu á fiski.
5. Kaupmenn mega ekki sprengja upp verðið hver hjá öðrum.
6. Kaupmenn mega ekki merkja sér fisk áður en þeir greiða fyrir hann (flestar deilur milli kaupmanna höfðu stafað af því). Komi upp deildur eiga íslensk yfirvöld að fjalla um málið. (Hér er um merkilega viðurkenningu að ræða frá því sem var).
7. Skipstjórar skulu áminntir um að hafa ekki ofbeldismenn í áhöfn, einungis góða sjómenn.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Samningaviðræður hófust nú fyrir alvöru. Sáttarfundir stóðu í 3 daga, 15.-17. febrúar. Niðurstaðan varð sú að engar kröfur Englendinga voru teknar til greina. Þeir voru sagðir hafa sjálfir kallað yfir sig aðgerðirnar á Íslandi, auk þess sem Kristján hafði í hótunum um að svipta Englendinga öllum veiði- og verslunarheimildum á Íslandi. Lee varð auðsveipari og lofaði að Englendingar myndu ekki grípa til refisaðgerða gegn Þjóðverjum, en hann vildi í staðinn fá tryggingu fyrir áframhaldandi veiðiheimildum Englendingum til handa.
Skjöl og gögn frá viðræðunum eru varðveitt í ríkisbókasafninu í Hamborg. Björn Þorsteinsson er líklega eini Íslendingurinn (“Enska öldin – Fimm þorskastríð”) sem hefur skoðað þau. Friðarsamingurinn, sem loks var gerður, er þar í heild sinni. Í lok hans er samþykkt að “duggarasigling skipist burt undan landinu”, þ.e. að einungis verði leyft að fiskur verði keyptur hér, en ekki veiddur.
Að loknum samningum slógu Þjóðverjar upp mikilli veislu til heiðurs enska fulltrúanum, ekki síst vegna eftirlátssemi hans. Hann fór síðan til Englands mánuði síðar og í framhaldi af því skrifaði Hinrik VIII. Þjóðverjum bréf og þakkaði þeim beinan fulltrúa sínum til handa.

Englendingar höfðu haft 6 herskip tilbúin til Íslandssiglinga. Skotar voru um þessar mundir að hertaka ensk skip og ræna. Varð það til þess að verulega dró úr áhuga og getu Englendinga til siglinga til Íslands. Andstaðan gegn Englendingum hér var enn mikil eftir lætin fyrir og í kringum Grindavíkurstríðið og var ýmislegt fundið þeim til foráttu. Eymdi enn af fyrri reynslu. Kristján III. gerði loks erlenda fiskimenn brottræka af Íslandsmiðum.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Hinrik VIII. varð í raun til þess að bola Englendingum af Íslandsmiðum með aðgerðarleysi sínu. Völd þau er Englendingar höfðu haft á Íslandi með siglingum sínum voru ekki endurnýjuð. Kristján III. kvartaði enn yfir yfirgangi Englendinga við Hinrik VIII, einkum í Grindavík. Um 1539 hurfu Englendingar svo til af Íslandsmiðum. Danir voru þá orðnir staðráðnir í að ná undir sig versluninni til handa dönskum kaupmönnum. Á Alþingi 1545 voru eigur útlendra kaupmanna gerðar upptækar hér á landi. Englendingar urðu fyrir litlum skaða vegna þessa því þeir voru farnir frá öðrum stöðum en Vestmannaeyjum. Þær höfðu þeir fengið í spilaskuld frá Skálholtsbiskupi árið 1420, en urðu nú frá að víkja. Smám saman hröktu Danir einnig Þjóðverja frá landinu. Árið 1602 var einokun Dana til verslunar á Íslandi lögleidd.

Hafnarfjörður
Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Enn má sjá minjar veru, sjósóknar og verslunar útlendra ofan við Stóru-Bót. Þar er hóll sem sagður er hafa verið virki Jóhanns breiða og manna hans og Engelska lág er þar undir hólnum þar sem enskir eru sagðir hafa verið grafnir af eftirlifandi félögum sínum. Vestar má sjá móta fyrir görðum Junkaragerðis. Á Kóngsklöppinni í Staðarhverfi, litlu vestar á nesinu, ráku Danir verslun eftir að þeir komu til landsins og tóku við af Þjóðverjum. Þar má enn sjá talsverðar minjar eftir þá verslun, m.a. tóftir húsa”.
Sjá IV. hluta.

Grindavík

Frá Grindavík.

Gerðavellir

Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í “Ensku öldinni”og “Tíu þorskastríð”, sbr. innihald texta:

“Grindavíkurstríðið”
II. hluti – 10. mars 2004.

Jón Böðvarsson

Jón Böðvarsson.

Jón sagðist í framhaldi af I. hluta hafa spurst fyrir um nefndar filmur. Ræddi hann m.a. við Heimi Stígsson. Sá sagðist muna eftir því að hafa fengið “langan” renning af filmu hjá Grindavíkurbæ og framkallað tvö eintök; Grindavíkurbær hefði fengið annað eintakið og Þjóðskjalasafnið hitt. Hann hafi síðan skilað filmunni. Mundi bara ekki hvort það hafi verið til Grindavíkur eða á Þjóðskjalasafnið. Jón sagðist hafa vitað til þess að Reykjanesbær hefði fengið hluta filmusafns Heimis að gjöf, en Heimir hafi aðspurður sagt að þessar filmur væru ekki þar. Nú væri verið að svipast um eftir þeim á nokkrum stöðum, m.a. í geymslum og á skrifstofu bæjarstjórans í Grindavík. Ekki væri enn vitað hvar eintak Grindavíkurbæjar væri niður komið.

“Í dag er ætlunin að fara betur yfir bardagana, bæði á Básendum og í Grindavík, en eftir viku yrði farið yfir friðarsamningana. Þeir höfðu gríðarleg áhrif á alla framvindu mála í Evrópu á þeim tíma. Hafa þarf í huga að eftir 1500 kom tími líkur þeim sem síðar kom á 20. öldinni. Ný heimsmynd varð til í kjölfar siglingar Kólumbusar til Ameríku. En gæta þarf vel að því að sú villa sem Ítalir og Spánverjar hafa reynt að koma inn hjá fólki að Kólumbus hafi fundið Ameríku væri algjör della. Í ævisögu Kólumbusar, sem skráð var af syni hans, kemur fram að hann hafi farið með sjómönnum frá Bristol til Íslands árið 1478. Hafi hann mest verið á Ingjaldssandi, en einnig í Hafnarfirði og í Reykjavík. Í Kólumbusarsafninu á Kanaríeyjum kæmi þetta einnig vel fram. Englendingar vissu bæði um Grænland og Norður-Ameríku á þessum tíma. Þeir stunduðu fiskveiðar við Grænland og Nýfundnaland.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Kólumbus fór til Íslands gagngert til að afla upplýsinga um þessi óráðnu lönd í vestri. Gekk hann síðan á fund Ferdinands Spánarkóngs til að fá stuðning hans til siglinga þangað, en látið var liggja að því að hann ætlaði að sigla til Kína og þaðan til vesturs. Uppgötvanir lágu þá fyrir að jörðin væri hnöttótt, en ekki flöt. Markmið Spánverja var að hasla sér völl í Nýja heiminum í vestri, enda fór það svo að þeir flykktust þangað í stórum stíl eftir að uppgötvun hans varð ljós heima fyrir. Lögðu þeir m.a. undir sig lönd eins og Filippseyjar og aðrar eyjar í Kyrrahafi á meðan Portúgalar lögðust á Manhattansvæðið og Bretar á miðja Ameríku þar sem þeir strádrápu Indíánana.
Um 1500 voru Spánverjar um 10 milljónir talsins og drottnuðuá höfunum. Frakkar voru helmingi fleiri, eða 20 milljónir, en Englendingar hins vegar helmingi færri, eða 5 milljónir talsins. Nú eru á Bretlandseyjum tvöfalt fleiri íbúar en á Spáni. England, sem í raun var einungis Wales, var á þessum tíma nokkurs kona nýlenda. Hansakaupmenn stjórnuðu t.d. allri verslun í London og voru ráðandi afl í verslun í heiminum. Ítalar áttu og stjórnuðu námuréttindum í Englandi og Ítalir réðu yfir kirkjunni þar í landi. Fleiri ríki nutu og áhrifa í Englandi á þessum tíma. Spánverjar voru nýbúnir að reka Márana af höndum sér og í Austur-Evrópu sátu Tyrkirnir sem fastast þrátt fyrir grimmilega tilraunir þarlendra, s.s. Rúmverja, að reka þá af höndum sér.

Hverjar voru helstu þjóðirnar í Evrópu á þessum tíma? Í fyrsta lagi Spánn með Ferdinand og Ísabellu í broddi fylkingar, tengdaforeldra Hinriks VIII. Í öðru lagi var Maximillian Þýskalandskeisari með Habsborgaraveldið og í þriðja lagi Lúðvík XII Frakklandskonungur. Loks var það páfinn í Vatikaninu í Róm. Öll þessi ríki voru kaþólks, en sátu að svikráðum hvert við annað í stórum stíl. Frakkland vildi leggja undir sig England með aðstoð Skota, en Þýskalandskeisari spyrnti gegn því.

Um 1530 áttu Englendingar 440 hafskip. Af þeim stunduðu um 150 veiðar eða siglingar til Íslands. En hvað var það sem var þeim svona dýrmætt hér? Á þessum tíma lögðu kaþólikkar áherslu á föstna og að einungis væri á henni etinn fiskur. Hinrik VIII. framfylgdi því að farið yrði að föstulögum. Englendingar bæði veiddu og keyptu vorur hér á landi, einkum skreið og brennistein (í Hafnarfirði). Hann var notaður í púður og skotfæri og þótti einka mikilvægur í stríðunum er þá geisuðu í Evrópu.

Eftir að hirstjóri Danakonungs var niðurlægður og drepinn á Rifi lokuðu Danir dönsku sundunum og bönnuðu verslun Englendinga í ríki sínu. Hinrik VIII. (1485-1509) brást illa við. Lagði hann m.a. á stríðsskatta og efldi aðalinn. Honum datt þó ekki í hug að fara í stríð heldur notaði fjármunina til að byggja upp og smíða skip, efla siglingar og gera út landkönnuði. Kapphlaup var hafið til Ameríku eftir að fréttist af heimsálfunni eftir siglingu Kólumbusar. Frá Íslandi fengu þeir fisk og brennistein, eins og áður sagði. Leiðin til að verða stórveldi á þessum tíma var að leita auðs í Vesturálfu.

Hinrik VIII

Hinrik VIII.

Hinrik VII og síðar Hinrik VIII lögðu mikla áherslu á að tryggja og styrkja áhrif sín þar. Hinn síðarnefndi giftist Katrínu, dóttur Ferndinands Spánarkóngs, ekkju Arthurs, bróður hans. Fyrstu árin var hann greinilega undir áhrifum tengdaföðursins, en eftir að hann hafði safnað saman við hirðina fulltrúum breska aðalsins, sem haldið hafði til í köstulum sínum víða um landið og fór að bjóða honum í veislur jókst sjálfstæði hans til muna. Kom hann m.a. með því í veg fyrir hugsanlegar uppreisnir heima fyrir. Auk þess naut hann hylli fyrir sigra sína í Frakklandi. Þá notaði hann tækifærið til að taka krúnuerfingja af lífi í stórum stíl. Hótaði hann Katrínu skilnaði, enda orðinn hundleiður á henni þegar hingað var komið, efldi borgarastéttina og styrkti sjálfstæði borga, en á þeim tíma voru þjóðríkin m.a. í mótun í Evrópu. Buðu konungar víða borgarstéttinni hin bestu kjör til að afla fylgis. Katrín eignaðist mörg börn, en þau dóu kornung. Þegar Ferndinand dó gerði Hinrik VIII. bandalag við Frakkakonung. Katrín reiddist, en hann hótaði aðs kilja við hana og giftast Önnu Boleyn, en páfagarður bannaði það. Hinrik lét þá þingð samþykkja að bannað væri að taka mark á tilmælum páfa eða bera nokkuð undir hann. Yfirmaður ensku kirkjunnar í Kantaraborg var gerður að yfirmanni kirkjunnar þar í landi. Hinrik lét ógilda hjónaband hans og Katrínar. Með því komst kaþólska kirkjan í miklar hremmingar og greiddi fyrir aðgengi hins lútherska siðar í Evrópu. Hinrik giftist Önnu Boleyn. Eignaðist hún stúlku þremur mánuðum síðar er skírð var Elísabet (Elísabet I.). Páfinn bannfærði Hinrik VIII, en konungur bannaði lestur tilkynningarinnar. Síðar giftist hann þriðju konunni. Hún ól honum son, en hún dó af barnsburðinum. Sú næsta var ákærð fyrir hórdóm og lét Hirnik hálshöggva hana og alla, sem tengdust því máli. Giftist hann fjórum öðrum eftir það.

Afskipti Hinriks VIII. af Íslandi; Danakóngur sá að ekki var nokkur leið að koma Englendingum af Íslandsmiðum. Ákvað hann þá að þeir sem kæmu með ódýrar vörur til Íslands fengju þol til fiskveiða. Hinrik afnam lögin, sem bannað höfðu Englendingum takmarkaðar Íslandssiglingar. Árið 1528 komu 148 ensk skip til Íslands. Fimm árum síðar voru þau 85 talsins, að meðaltali um 84 lestir hvert.
Árið 1532 voru einungis Básendar og Grindavík aðsetur Englendinga hér á landi. Búið var að hrekja þá frá öðrum höfnum við Faxaflóann, m.a. Hafnarfirði. Öðru hverju voru Englendingar að gera þýskum skráveifur. Hertóku þeir m.a. þýskt skip í Straumsvík (1486), færðu það til Galloway á Englandi og seldu. Árið 1511 kom til átaka og 1514 tóku Englendingar þrjú Hansaskip og hirtu allt af þeim (Björn Þorsteinsson – Fimm þorskastríð). Árið 1528 réðst enskt skip á Hamborgarafar í höfninni á Rifi og hirtu úr því öll vopn. Árið 1529 sökkti Willys nokkur, enskur, Hamborgarafari í Eyjafirði.

Þann 31. mars (páskadagur) árið 1532 sigldi enskt 150 lesta skip, Anna, inn á mjótt lónið utan við Básenda, en fór ekki inn á leguna. Básendar höfðu þá verið verslunarstaður Englendinga um alllangt skeið. Þýskir höfðu hins vegar orðið á undan þeim (komu hingað 30. mars, á laugardegi) og nutu því þeirrar reglur að þeir sem fyrstir urðu í höfn að vori nytu þar forgangs um sumarið. Englendingarnir á skipunu vörpuðu akkerum, bátur var settur út og róið var í land. Þjóðverjar voru þá um 150 talsins í landi. Englendingarnir báðum um leyfi til að hafa aðstöðu á Básenum, en foringi Þjóðverja, Ludtkin Smith, hafnaði því. Hann sagði að allar aðrar hafnir stæðu þeim opnar, en sjálfur hefði hann nú forréttindi á Básendum, auk þess sem félaga hans væri von hvað úr hverju. Englendingar virtust ekki taka þessum viðbrögðum illa og réru út í skip sitt, en sýndu ekki á sér neitt fararsnið. Daginn eftir (mánudag) kom annað enskt skip (Thomas) með áðurnefndan Willys við stýrið. Margir kaupmenn voru um borð, en áhöfnin var um 160 manns. Skipin höfðu lagt samhliða úr höfn í Englandi, en orðið viðskila í hafi.

Básendar

Básendar – loftmynd.

Englendingarnir komu sér saman um að ráðast á Þjóðverjana í landi og drepa þá. Voru þeir það öruggir um yfirburði sína að þeir sendu boð til nálægra Íslendinga að koma í veislu þeirra að Básendum og þar sem yrði “þjóðverjakjöt á borðum til hátíðarbrigða”. Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði verið ásamt fleiri Þjóðverjum á Básendum um veturinn og vingast við Íslendingana svo þeir voru heldur hliðhollir Þjóðverjum á þessari stundu. Þeir hunsuðu því boð Englendinganna. Á þriðjudag, 2. apríl, hélt annað enska skipið (Thomas) inn á höfnina á Básendum. Skutu skipverjar þess á þýska skipið. Löskuðu þeir bæði stafn þess og búlka. Áhöfn Önnu hóf þá skothríð, en skipið rak stjórnlaust eftir að þjóðverjar höfðu náð að höggva í sundur akkerisfestina. Rak það upp í fjöruna. Þjóðverjarnir, sem voru mun færri (30 og 80 að auki sem voru þar fyrir) virtust hafa betur. Þó var komið á vopnahléi. Á flóðinu reyndu Englendingar að losa strandaða skipið, en Þjóðverjar hófu þá árás og skoruðu á Englendinga að leggja niður vopn sín og afhenda góssið gegn griða. Því var hafnað og lögðu Þjóðverjar undir sig strandaða skipið, en héldu hinu í herkví. Áhöfnin á skipinu beið næsta flóðs, en komst ekki út vegna norðlægsstrenginsvinds. Anna var því um kyrrt í höfninni, auk þess sem skipið komst ekki út nema sigla framhjá Hamborgarafarinu, sem lá utan við það. Þótti það ekki fýsilegu kostur. Enski skipstjórinn, sem eftir lifði, fór yfir í þýska skipið, en Ludtkin skipaði honum að afhenda öll vopn. Var gengið að því, en er Þjóðverjarnir ætluðu út í enska skipið mættu þeir mikilli mótspyrnu. Hjuggu þeir þá gat á byrðinginn, drápu nokkra Englendinga, handtóku aðra og skildu þá eftir klæðalitla.

Eftir átökin sendi Ludtkin eftir Hansakaupmönnum til Hafnarfjarðar. Englendingum var í framhaldi af því gert að gjalda sektir með skreið, en fengu að sigla skipi sínu til Grindavíkur. Erlendur Þorvaldsson, lögmaður, setti Tylftardóm og réttlætti formlega haldlagningu á góssi því er Englendingar skildu eftir á Básendum, m.a. hið sjórekna skip, sem þótti allnokkurs virði, metið á 1000 sterlingspund.
Englendingar báru því síðar við í skýrslum sínum að hafa þurft að leita hafnar að Básendum vegna óveðurs, en Ludtkin hafi þá ráðist á þá. Báðir kenndu þannig hvorum öðrum um upphaf átakanna.

Víkur þá sögunni enn og aftur til Grindavíkur. Englendingarnir, sem tekið höfðu þátt í átökunum á Básendum, en var griður gefinn, flúðu þangað. Tóku þeir allmikið af fiski til sín, sem tilheyrði m.a. Þjóðverjum. Erlendur lét þá enn og aftur setja dóm og dæmdi Englendinga í sektir. Um það leyti kom að landi í Grindavík John nokkur Braye, eða Jóhann Breiði, eins og landinn nefndi hann, á skipi sínu Peter Gibson. Lét hann þegar reisa virki á Járngerðarstöðum, ofan við Stóru Bót. Gerðust Englendingar bitrir út í Íslendinga vegna stuðnings þeirra við Þjóðverja á Básendum. Hótuðu þeir landanum og bönnuðu honum að selja þýskum fisk. Pyntaði Jóhann mann, hótaði öðrum og tók lömb og sauði frá manni sem sinnti ekki þessu verslunarbanni hans. Nam hann hest af manni og gerðist alldjarfur til kvenna. Flutti hann t.d. konu eina út í skip sitt og hélt eiginmanninum þar í böndum meðan hann hafði einhver not af henni.
Um þessar mundir var Diðrik af Minden fógeti á Bessastöðum. Skipaði hann þýskum og öðrum er hagsmuna áttu að gæta að finna sig við Þórðarfell ofan við Grindavík. Lofaði hann öllum þeim sem það gerðu mála í nafni konungs. Hafnarfjarðarkaupmenn tóku tilmælunum strax vel og safnaðist fljótt allnokkuð lið við Þórðarfell, eða um 280 menn (aðrar heimildir segja 180), þ.á.m. 8 skipshafnir frá Bremen, sveit Diðriks, liðsmenn frá Hafnarfirði, Njarðvíkum og frá Básendum. Diðrik lýsti Englendingana í Grindavík réttdræpa, en alla sem gegn þeim færu friðhelga að lögum. Ástæðuna fyrir aðförinni sagði hann m.a. virkisgerðina, sem hann taldi vera atlögu að sjálfum Danakonungi, auk yfirgangs Englendinganna og afbrota. Hér virtist því fyrst og fremst vera um nokkurs konar lögregluaðgerð að ræða.
Margir Englendinganna voru á sjó þennan dag, 10. júní 1532. Jóhann Breiði, fálkatemjari konungs, og 13 aðrir Englendingar voru í virkinu. Aðfararnótt 11. júní, kl. 02.00, læddust Hafnfirðingar og Njarðvíkingar að virkinu, en Básendamenn og Þjóðverjarnir héldu í átt að skipunum sem lágu utan við Stóru-Bót. Útsinningshraglandi var og úfinn sjór. Þegar menn nálguðust virkið var gert áhlaup á það með óhljóðum og látum. Vaknaði Jóhann Breiði og menn hans við vondan draum, en náðu ekki að verjast. Voru þeir allir drepnir á nýðingslegan hátt og lík Jóhanns illa leikið. Fimmtán voru drepnir. Náðist að kyrrsetja skip Jóhanns á legunni, en fjögur skip Englendinga lágu utar. Búðir annarra Englendinga voru þarna skammt frá og voru þeir, sem þar vorum, handteknir, átta talsins. Voru þeir látnir grafa félaga sínum undir virkisveggnum. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, en eitt fórst á grynningunum á leið út.
Diðrik sló upp veislu, en eftir nokkra daga gaf byr svo skipi Peter Gibson var siglt til Bessastaða, enda nú metið eign danska kóngsins. Erlendur setti enn einu sinni Tylftardóm með það að markmiði að réttlæta gjörningin og leggja “löglega” hald á allt góss Englendinganna, auk þess að dæma þá í sektir. Herinn var um kyrrt í Grindavík í 10 daga, enda Englendingarnir þar til alls vísir. Margir þeirra höfðu verið á sjó þegar atlagan var gerð og þótti þeim aðkoman að landi heldur kuldaleg.

Í styrjöldinni höfðu fjórar þjóðir tekið þátt; auk Englendinga voru það Þjóðverjar, Danir og Íslendingar. Með “Grindavíkurstríðinu” lauk ekki átökunum, því fór fjarri. Það var upphafið að átökum stórþjóða. Með því hófst “styrjöld”, sem átti eftir að standa í langan tíma.
Hinrik VIII. frétti fljótlega af átökunum. Svo virðist af skrifum hans um þetta mál að hann hafi verið mjög kunnugur hér á landi. Maximillian Þýskalandskeisari frétti einnig fljótlega af átökunum. Allar skýrslur Englendinga, Þjóðverja og Dana um aðdraganda átakanna á Básendum og í Grindavík, eða Grindaveg eins og það er ritað á þeim tíma, um átökin eru 70-80 skjöl. Friðarsamningarnir, sem fylgdu í kjölfarið, eru 33 blaðsíður og feikna merkilegir. Í fylgiskjölunum eru miklar upplýsingar, en þau eru svo til öll á latínu, þýsku og örfá á íslensku. Þessi skjöl þyrfti öll að þýða yfir á íslensku.

Gerðavellir

Gengið um söguslóðir Grindavíkurstríðsins.

Þetta er eina stríðið á Íslandi sem gera þurfti sérstaka friðasamninga um á milli voldugustu þjóða Evrópu á þeim tíma. Samningarnir gefa einnig góða sýn á lífskjörin á þessum tímum, einkum á Suðurnesjum.

Hinrik VIII. gafst síðar upp, m.a. vegna átaka annars staðar sem og innbyrðis átaka hans í kvennamálunum. Tímabilið er ekki einungis áhugavert fyrir Suðurnesin heldur og Ísland allt. Alveg frá 1420 til 1602 gerðust fleiri merkilegir atburðir á Suðurnesjum en nokkurs staðar annars staðar á Íslandi. Eftir Grindavíkurstríðið byrjuðu Danir að þoka Þjóðverjum á brott héðan og tókst það loks árið 1602 með tilkomu einokunarverslunarinnar, sem er síðan kapítuli út af fyrir sig.
Næst verður fjallað um friðarsamningana. Stuðst verður við gögn og ljósrit.
Loks verður farin ferð um söguslóðir Grindavíkurstríðsins, s.s. á Básenda og Stóru Bót”.
Sjá III. hluta.

ÓSÁ tók saman – yfirlestur: JG – VG og SJF.

Gerðavellir

Gerðavellir í Grindavík, virki Jóhanns Breiða – kort ÓSÁ.

Járngerðarstaðir

Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í “Ensku öldinni”og “Tíu þorskastríð”, sbr. innihald texta:

“Grindavíkurstríðið”
I. hluti – 3. mars 2004.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

“Atvinnuvegir á Íslandi voru aðallega landbúnaður. Þó voru þrjú svæði undanskilin; 1. Vestmannaeyjar, 2. Reykjanesskaginn (mikil hraun – gróðurspildur með ströndinni) og 3. undir Jökli. Á Reykjanesskaganum var þó merkilegur landbúnaður í Grindavík, alveg fram til 1800, en það var garðyrkja, s.s. á Skála og á Hrauni.

Gerðavellir

Gerðavellir við Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Fiskveiðar voru aðallega stundaðar á framangreindum svæðum. Fram til 1300 veiddu Íslendingar aðallega við landið. Skömmu fyrir 1300 gjörbreyttist ástandið. Noregskóngur hafði einkaleyfi á veiðum við allar eyjar er tilheyrðu Noregi. Aðrir þurftu að fá leyfi til að veiða þar eða versla. Yfirleitt var slíkt leyfi ekki veitt. Síðast á 14. öld breyttist þetta ástand. Englendingar urðu fyrstir til að sækja á fiskimiðin við Ísland, en af þessum eyjum Noregskóngs. Fram yfir 1380 voru fiskiskip yfirleitt lítil og yfirleitt ekki vel fallin til úthafssiglinga. Ný siglingatækni kom fram. Norðurlandabúar töpuðu forystunni á höfunum, en Englendingar tóku yfir; fyrst með tvímastra, þrímastra og jafnvel fjórmastra skipum. Fyrir 1400 voru Englendingar farnir að sigla á slíkum skipum hingað. Fyrstu frásagnir af siglingum Englendinga hingað eru frá 1396 er maður í Vestmannaeyjum var drepinn, en skv. frásögnum lágu 6 skip, útlensk, í höfninni þá nótt. Sextán árum síðar kom skip af Englandi er þá statt við Dyrhólaey. Róið var út að því. Reyndist skipið vera frá Englandi. Sögur af Ríkharði nokkrum komu skömmu síðar, en sá hafði “konungsbréf frá Noregskonungi” til siglinga hingað. Árið 1413 er til frásögn skipa enskra í Reykjavík.

Gerðavellir

Tómas Þorvaldsson við virki Jóhanns Breiða ofan við Stóu-Bót.

Fiskur var aðallega hertur. Árið 1432 kom fyrsta þýska skipið hingað, en það var á vegum Hansakaupmanna. Noregskóngur hélt fast í einkaleyfi sitt til vöru-, veiði- og verslunarferða á sínum svæðum. En vegna þess að norsk skip gátu veitt nær markaðinum í Evrópu var hann ekki eins fastheldinn á þennan rétt sinn er fjær dró. Er Englendingar fóru að koma til Íslands bannaði Noregskóngur för þeirra til landsins. Englendingar og Íslendingar tóku ekki mark á því banni. Íslendingar ömuðust að vísu í fyrstu við fiskveiðum Englendinga, en fögnuðu vöruflutningum þeirra og verslun. En fyrir vöruflutninga Englendinganna fengu þeir “þol til fiskveiða”. Englendingar voru sterkastir við landið og víða með aðstöðu, alveg frá Flatey á Breiðafirði og suður með vesturströndinni, en höfuðvígi þeirra var í Hafnarfirði. Réðu þeir uppsátrum og festarhælum í öllum höfnum.

Straumsvík

Straumsvík.

Þjóðverjar, sem komu um 1430 urðu fljótlega vinsælli. Þeir keyptu fisk og skreið á allt að 70% hærra verði og seldu sína vöru ódýrari. Mikil eftirspurn var eftir fiski í Evrópu svo þeir gátu selt hann á margfalt hærra verði þar. Trúarbrögð, fastan, var aðalástæðan. Þjóðverjar voru einnig vinsælli en Englendingar vegna þess að hinir síðarnefndu stálu oft á tíðum fiski frá Íslendingum; fiski sem safnað hafði verið saman til sölu um vorið. Þetta varð til þess að Englendingar töpuðu smám saman öllum höfnum sínum (sem að vísu voru ekki eiginlegar hafnir í okkar skilningi, heldur viðleguaðstaða). Englendingar höfðu haft Hafnarfjörð fyrir aðalhöfn (Grindavík var nr. tvö), en þeir sigldu jafnan til Straumsvíkur.

Básendar

Básendar.

Um 1480 ráku Þjóðverjar Englendinga frá Hafnarfirði og Straumsvík (Þýskabúð) og tóku sér fasta búsetu í Hafnarfirði. Reistu þeir kirkju og vöruskála. Staðinn nefndu þeir Flensborg. Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði. Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1532 varð Grindavíkurstríðið” eða “Fimmta þorskastríðið” (sjá Enska öldin og Tíu þorskastríð eftir Björn Þorsteinsson (tvær bækur)).
Fyrsta þorskastríðið var 1415-1425 að sögn Björns. Þá var öllu útlendingum bannað af Noregskóngi að sigla til Íslands. Jafnvel innlendum mönnum var það bannað. Siglingar Englendinga uxu þó heldur, enda tók Englandskóngur ekki undir ósk mágs síns, Danakóngs, um bannið. Ítrekaði einungis að hans menn mættu ekki sigla til Íslands, enda væri fyrir slíku ekki forn venja. Við þetta jókst Englendingum ásmegin. Hirðstjóri Dana og Norðmanna, Hannes Pálsson (danskur, en með íslenskt nafn), var handtekinn hér á landi og fluttur til Englands. Leyfi danska Noregskóngsins var þá skilyrt vöruflutningum með þá heimild til fiskveiða við landið “en bannað aðvífandi aðilum”.

1467-1449 var annað þorskastríðið. Danakóngur lét hertaka nokkur ensk skip á Breiðafirði. Englendingar lofuðu þá að stunda ekki siglingar nema að hafa til þess leyfi konungs. Eftir þetta stríð tengdust Íslendingar alveg Danakóngi.

Básendar

Básendar – festarhringur.

1449-1490 var þriðja þorskastríðið. Þeir, sem keyptu sér leyfi til Íslandsferða, voru í fullum rétti til siglinga til Íslands. Árið 1465 voru öll slík leyfi úr gildi felld. Englendingar létu ekki segjast. Björn Þorleifsson, hirðstjóri að Skarði, fór árið 1467 að Rifi og ætlaði að hindra verslun Englendinga þar, en þeir gerðu sér lítið fyrir, festu hann við staur og drápu. Kona hans, Ólöf hin ríka, gerðist þá hirðstjóri og sagði þau fleygu orð: “Ekki skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og hefna hans”. Lét hún handtaka Englendingana og gerði þeim m.a. að leggja stétt eina mikla að Skarði.
Danir reyndu að hrekja Englendinga héðan, en hömpuðu þýskum. Diðrik Píning hrakti t.d. Englendinga frá Hafnarfirði. Englendingar töpuðu þá flestum höfnum sínum.
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori). Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.

Skipsstígur

Skipsstígur ofan Grindavíkur.

Þá víkur sögunni til Grindavíkur. Englendingar voru þar, um 15 að talið var. Foringi þeirra er Joen Breen (Brier), nefndur Jóhann Breiði af heimamönnum. Líklega var hann fjarskyldur Englandskóngi. Annar mjög merkilegur Englendingur var þarna líka, en sá var yfirfálkatemjari Englandskóngs. Sennilega í þeim erindagjörðum að fanga hér fálka og temja, en þeir voru bæði konungasport og útflutningsvara. Þessi Englendingar reistu virki að Járngerðarstöðum. Svolítið öðruvísi var þá umhorfs þar en nú er. Sjórinn er búinn að “éta” mikið af landinu. Virkið var sennilega þar sem nú er Stóra Bót á Hellunum. Englendingar uggðu ekki að sér. M.a. vegna þess að í höfninni (líklega Stóru Bót eða austar) voru 5 ensk skip. Af einhverri ástæðu fréttu Þjóðverjar að til stæði að halda drykkjusvall hjá Englendingum í Grindavík. Þjóðverjar tryggðu sér þá stuðning danskra yfirvalda á Bessastöðum og söfnuðu liði frá Hafnarfirði og Njarðvíkum, auk áhafna átta þýskra skipa. Söfnuðust þeir saman við Þórðarfell ofan við Grindavík og skiptu liði. Um nóttina, aðfararnótt 11. júní 1532, og héldu sumir suður Árnastíg (Skipsstíg) að virkinu (Hafnfirðingar og Njarðvíkingar) og aðrir að skipunum. Voru 15 Englendingar drepnir í Virkinu, þ.á.m. Jóhann Breiði, en lík hans var illa leikið eftir átökin. Átta voru teknir höndum. Voru þeir látnir dysja félaga sína undir virkisveggnum, í svonefndri Engelsku lág. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, eitt strandaði og árásarliðið náði einu, Peter Gibson, skip Jóhanns Breiða.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir.

Lagt var hald á skipin og aðrar eigur Englendinga. Frásagnir eru af þessum atburði í nefndri bók Björns Þorsteinssonar; “Enska öldin” og sú frásögn er tekin upp í “Sögu Grindavíkur” eftir Jón Þ. Þór. Í kjölfarið sigli þras og síðan friðasamningar á milli Dana, Englendinga og Þjóðverja. Með “Grindavíkurstríðinu” lauk svonefndri “ensku öld” á Íslandi.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir.

Ólafur Ásgeirsson, núverandi þjóðskjalavörður, gerði gangskör í að fá skjöl varðandi átökin frá Hamborg til Íslands er til voru um nefnda atburði, a.m.k. afrit af þeim. Svar þýskra var út í hött í fyrstu, en síðar var Íslandi boðið að fá afrit af skjölunum ef það kostaði afritunina; um 500 arkir skjala (af þeim hafa um 30 verið þýdd). Þau eru flest á latínu, þýsku og 1-2 á íslensku. Engin fjárveiting var til svo Jón Bö. var sendur við annan mann til bæjarstjórans í Grindavík ( fyrir 15 árum) til að leita ásjár. Þeim var vel tekið og samþykkti bæjarstjórn að greiða kostnaðinn. Grindvíkingar fengu síðan filmur af skjölunum 500 og Þjóðskjalasafnið fékk afrit. Filmurnar eiga að vera til uppi á lofti í bæjarskrifstofunum, en enginn virðist vita hvað þær er nákvæmlega. Afrit af skjölunum er þó til á Þjóðskjalasafninu og mun Ólafur Ásgeirsson skýra þau nánar með Jóni í næstu fyrirlestrum. Tvö bréfanna eru undirrituð af Hinriki VIII., þ.á.m. skaðabótakrafan er fylgdi í kjölfar mannvíganna ofan við Stórubót þennan örlagaríka dag í júnímánuði árið 1532”.
Sjá II. hluta.

ÓSÁ skráði – yfirlestur JG – VG og SJF.

Grindavík

Grindavík.

Gerðavellir

Björn Þorsteinsson skrifaði um Grindavíkustríðið 1532 í Faxa árið 1981. Skrifin voru framhald af skrifum hans um Básendaorustuna sama ár:

Björn Þorsteinsson„Það er nauðsynlegt að hefta frelsi manna til þess að merkja sér fisk, áður en hann er keyptur, því að allar deilur milli kaupmanna eru venjulega sprottnar af þeim ósið. Jafnskjótt og kaupmenn koma til hafnar, þjóta þeir út um allar trissur og merkja sér hvern fisk, sem þeir finna. Þá ber það oft við, að þeir merkja sér annarra manna fiska, sem eru seldir fyrir löngu, en kaupendunum gafst aldrei tími til að merkja sér. Því næst verður það, þegar fyrri kaupendur koma og heimta fisk sinn, að hann er seldur öðrum og griðarlegar deilur hefjast. Af þessum sökum er það gott og rétt, að menn spyrjist fyrir um réttan eiganda eða umboðsmann þeirra fiskbirgða, sem þeir ætla sér að kaupa, áður en þeir ganga frá samningum, og merki sér ekki fiskinn fyrr en kaupin hafa verið gerð“.
Þessi klausa er úr „Reglugerð til þess að varðveita frið milli allra höndlunarmanna á Íslandi” — og er frá árinu 1533. Hún veitir okkur dágott hugboð um það geysilega kapphlaup, sem þá er háð um íslenzka skreið. Jafnskjótt og kaupmenn eru orðnir landfastir, þjóta þeir um nágrenni hafnarinnar með brennimerki á lofti og setjast við fiskstaflana og helga sér skreiðina með því að brennimerkja hvern fisk. Síðar komu aðrir kaupmenn, stundum úr næstu höfn, og töldu sig eiga fiskinn samkvæmt viðskiptasamningi síðastliðins árs og tóku hann í sína vörzlu, ef þeir gátu. En brennimerkið varð ekki þvegið af skreiðinni, og því auglýsa kaupmenn í borgum Englands og Þýzkalands eftir íslenzkum fiski, sem frá sér hafi verið tekinn, merktur S eða R eða einhverjum öðrum stöfum, litlum eða stórum, og út af þessu spinnast alls konar bréfaskriftir og málaferli.
Básendar
Geysilega hörð keppni kaupmanna um íslenzka skreið gefur örugglega til kynna, að verzlunin við Ísland hafi verið mjög ábatasöm. Því miður er erfitt að henda reiður á því, hver sé raunverulegur gróði Íslandskaupmanna í sæmilegum árum, því að heimildir eru fáar um verð skipa og úthaldskostnað og innkaupsverð á fjölmörgum vörum, sem hingað eru fluttar. Það hafa með öðrum orðum ekki varðveitzt neinir viðhlítandi reikningar útgerðarfélags Íslandskaupmanna frá 15. öld og fyrra hluta þeirrar 16., en ýmsar heimildir gefa þó til kynna, að gróði þeirra hefur verið geysimikill. Frá árinu 1532 eru til skýrslur og útreikningar eiðsvarinna manna um útgerðarkostnað nokkurra enskra skipa og áætlað verðgildi þess farms, sem þau flytja venjulega frá Íslandi til Englands.

Viðskipti

Teikning af fiskviðskiptunum fyrrum.

Samkvæmt þeim skýrslum getur verðgildi eins skreiðarfarms frá Íslandi orðið um 80% af heildarverðmæti skipsins að viðbættum öllum úthaldskostnaði og verðmæti þess farms, sem skipið flutti til Íslands. Íslandsfar getur því með öðrum orðum greitt nærfellt allan úthaldskostnað og verð sitt í einni ferð. Svo feitum hesti hafa auðvitað ekki allir riðið úr Íslandssiglingu, en minnsti gróði, sem ég þekki eftir slíka ferð á fyrri hluta 16. aldar, eru 40% af verðmæti skipsins. Þegar búið var að greiða verð útfluttrar vöru, kaup skipverja og allan úthaldskostnað með verðmæti aflans, þá voru eftir peningar sem jafngiltu um 40% af verðmæti kaupfarsins. Íslandssiglingin tók venjulega 6—7 mánuði, en hinn hluta ársins eru Íslandsförin oft í leiðöngrum með ströndum Evrópu, og auðvitað hafa þau ekki tapað í þeim ferðum. Það er því ekkert undrunarefni, að kóngar og æðstu prelátar gerðu stundum út skip til Íslands. Hins vegar má ekki gleyma því, að um þessar mundir og lengi síðan voru margs konar hættur á höfunum, sjórán alltíð og skipstapar af völdum veðra. Siglingar eru því áhættusamar, en freistandi.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum.

Síðustu grein lauk á því að Ludtkin Smith, kaupmaður og útgerðarmaður frá Hamborg, hafði unnið frægan sigur á Englendingum í orrustunni að Básendum dagana 2.—3. apríl 1532. Skömmu síðar að því er virðist rita þýzkir kaupmenri í Hafnarfirði til Hamborgar og biðja borgarráðið að senda sér liðsauka, því að þeir ætli í stríð við Englendinga, sem sitji í Grindavík og haldi skreið fyrir þeim.

Grindavík

Grindavík – horforingjaráðskort 1910.

Mönnum kann að virðast, að það hafi verið seint að bíða þess liðsafla, eins og samgöngum var háttað, en slíkt er á misskilningi byggt. Skipaferðir voru alltíðar milli Íslands og Hamborgar vor og sumar og siglingaleiðin ekki lengri en svo, að liðsaukinn gat verið kominn til Íslands tæpum tveimur mánuðum eftir að bréfið var skrifað. En hjálparsveitirnar hafa aldrei komið, því að atburðarásin var hraðari en menn hafa e.t.v. ætlað, og hjá styrjöld varð ekki komizt.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Í bréfinu, sem Þjóðverjar skrifa, segir m.a. að Englendingar í Grindavík hafi að ástæðulausu tekið fisk, „sem við höfum keypt og borgað, en bjóða að greiða hann með vörum á landsvísu eða í Englandi á einn nóbíl hundraðið”. Þjóðverjar segjast ætla að ná fiskinum, hvað sem það kosti. Í skýrslu Hamborgara um Grindavíkurstríðið frá sumrinu 1532 segir, að John nokkur Breye, kaupmaður í Grindavík, hafi tekið „réttlaust og með ofbeldi“ 35 lestir af fiski frá Þjóðverjum þá um sumarið, en 12 hundruð fiska frá Danakonungi.

Virki

Virkið ofan við Stórubót.

Þann 18. júlí 1532 útnefnir Erlendur lögmaður Þorvarðarson tylftardóm í Reykjavík til þess að dæma um atburðina í Grindavík, en þar segir, að Yón Beren hafi gripið 20 lestir eða meira af fiski frá þýzkum kaupmönnum. Hins vegar segir í enskri skýrslu um málið, að misklíðarefnið hafi verið fjögur hundruð fiskar, sem John Breye sagðist hafa tekið upp í skuld frá fyrra ári, en Hamborgarar og Brimarar gerðu kröfu til. — öllum heimildum ber því betur saman um orsök styrjaldarinnar en algengt er, þegar stríð hefjast.

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Um 1532 höfðu Englendingar alllengi haft eina af helztu bækistöðvum sínum við Ísland suður í Grindavík. Þar munu þeir oft hafa haft vetursetumenn, og var Marteinn Einarsson, síðar biskup, þar verzlunarstjóri hjá þeim um tveggja ára skeið. Systir hans, Guðlaug, giftist enskum kaupmanni, og fylgdi Marteinn systur sinni utan, þá barn að aldri. Hann var 9 ár í Englandi og hlaut þar skólamenntun, en um tvítugt kom hann út, sennilega á vegum mágs síns, og settist að í Grindavík. Það mun hafa verið laust eftir 1520. Þegar hér var komið, var einkum fyrir enskum kaupmönnum þar suður frá fyrrnefndur John Breye frá Lundúnum. Í íslenzkum heimildum kallast hann Ríki-Bragi, Jóhann Breiði eða Eldri Bragur. Jón Gissurarson segir í ritgerð um siðaskiptin, að fyrir Englendingum í Grindavík hafi verið Jónar tveir, kallaðir Eldri-Bragur og Yngri-Bragur. Þetta kemur heim við samtímaheimildir, því að þar getur um nafnana John Bryee, og er annar á skipinu Peter Gibszon frá Lundúnum, en hinn á Thomasi frá Húll, sem var sökkt í orrustunni við Básenda. Eftir þá orrustu hafa þeir, sem af komust, flúið til Grindavíkur.
Þangað kemur Jóhann Breiði á skipinu Peter Gibszon annað hvort snemma í apríl eða um miðjan maí. Skipið er talið um hundrað lestir að stærð. Jóhann setur upp markað og gerir út til þess að veiða þorsk og löngu, eins og segir í heimildum, en fær þegar fregnir af óförum landa sinna við Básenda. Honum þykir ekki friðvænlegt og lætur reisa virki við búðirnar hjá Járngerðarstöðum. Þar var saman komið harðsnúið lið, sem vildi gjarnan hefna harma sinna á Þjóðverjum, og lét reiði sína í þeirra garð bitna að nokkru á Íslendingum.
Jóhann lét þegar þau boð út ganga til Íslendinga í vikinni, að þeim sé stranglega bannað að flytja nokkurn fisk burt úr verzlunarstaðnum eða selja Þjóðverjum og hótaði afarkostum. Þá hefur hann gripið skreið, sem Þjóðverjar töldu sér á einhvern hátt. Einnig hefur hann sennilega viljað skammta Íslendingum verzlunarskilmála að öðru leyti, því að í dómi Erlendar lögmanns eru nafngreindir þrír Íslendingar í Grindavík, sem Jóhann á að hafa rænt, bundið og pínt, og einum þeirra hótaði hann lífláti, ef hann verzlaði við aðra en sína menn. Jón. Gissurarson segir, að Englendingar hafi verið „ómildir við íslenzka, svo að fólk gat ekki það liðið; réð fólk engu sínu og fékk ekkert fyrir sitt“.

Grindavík

Járngerðarstaðir.

Í þýzkri heimild segir, að Jóhann Breiði hafi tekið 80 lömb og sauði frá Íslendingi, sem skeytti ekki verzlunarbanni hans og taldi, að hann hefði ekkert vald yfir sér, og beitti aðra fátæka menn svipuðu ofbeldi. Hann lét taka hest af Íslendingi og barði manninn til ólífis, þegar hann krafðist að fá hann aftur. Einnig gerðist hann djarftækur til kvenna og tók konu nokkra með valdi um borð í skip sitt, en geymdi mann hennar þar hjá sér í hlekkjum á höndum og fótum, svo að hann gerði sér ekki ónæði, á meðan hann hélt konuna.
Um þessar mundir var Diðrik af Bramstað höfuðsmaður á Íslandi, en hann dvaldist erlendis og hafði hér fyrir sig nafna sinn, Diðrik fógeta af Mynden, sem frægur er í íslenzkri sögu fyrir afskipti sín af siðaskiptunum.

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Diðriki þessum bar að halda uppi lögum og reglu í landinu, en Jóhann Breiði gerði honum margt til miska. Prestur nokkur varð sekur um margs konar illvirki, en flýði á náðir Jóhanns, svo að fógeti fékk ekki fangastað á honum. Einnig hafði Jóhann Breiði í heitingum við fógeta og hótaði að hengja hann hvar sem hann næði honum, og fór smánarorðum um Danakonung. Jón Gissurarson segir, að Íslendingar hafi að lokum ekki þolað lögleysur Jóhanns Breiða og manna hans. „Tóku íslenzkir sig þá saman og riðu til Bessastaða, kröfðu höfuðsmanninn, Diðrik fógeta af Mynden, liðveizlu móti slíkum illmennum. Varð hann vel við og sendi strax í alla kaupstaði, því íslenzkir hefðu ella látið illa að honum sjálfum, ef hann hefði ekki við orðið; skipaði hann þýzkum að finna sig við Þórðarfell, sem er hjá Grindavík“. Þessi frásögn er margstaðfest af skjölum að því leyti, að Diðrik af Mynden gengst fyrir herútboði til þess að hindra yfirgang Englendinga, sem höfðu vígbúizt í Grindavík. Fógeti sneri sér fyrst til þýzkra kaupmanna í Hafnarfirði og hét á þá að duga sér í herferð til Grindavíkur. Hann hvatti þá með því að brýna nauðsyn bæri til þess að tryggja hér frið og frelsi til verzlunar og lét lesa mikið kæruskjal á hendur Englendingum fyrir allt það, sem þeir hefðu unnið gegn Danakonungi á Íslandi. Af þeim sökum kvað hann nauðsynlegt, að þeim yrði straffað, og lofaði hverjum manni mála í nafni konungs, ef hann veitti sér lið gegn óaldarseggjunum.

Gerðavellir

Gerðavellir í Grindavík, virki Jóhanns Breiða – kort ÓSÁ.

Hafnarfjarðarkaupmenn tóku vel málaleitan fógeta, ef hann fengi nægan liðsafla, því að Jóhann Breiði væri mannmargur. Diðrik skrifaði þá í aðra verzlunarstaði um Suðurnes, m.a. Ludtkin Smith á Básendum. Hann bað Ludkin í nafni Danakonungs að koma eins og aðra skipara og kaupmenn frá Hamborg og Brimum og hjálpa sér gegn fjandsamlegum Englendingum, sem vinni gegn konungi landsins. Ludtkin segir fógeta, að því miður eigi hann illa heimangengt frá Básendum, því að enn hafi Englendingar á tveimur skipum valið sér þar legu; færi hann í herferð, mundu þeir hertaka skip hans og búðir á meðan. Það varð því úr, að Ludtkin varð eftir á Básendum og gætti skipa með nokkru liði, en félagi hans, Hinrik Berndes, fór með 34 manna sveit til Grindavíkur til fundar við fógeta.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Eftir orustuna að Básendum var saminn friður milli enska skipstjórans Roberts Legge og Ludtkin Smiths. Samkvæmt íslenzkum lögum mátti ekki víkja kaupskipi úr höfn, ef það rauf ekki hafnargrið, og virðist Ludtkin hafa sætt sig við að hlíta þeim ákvæðum um sinn. Íslenzk verzlunar- og fiskveiðilöggjöf hafði lengi verið þverbrotin, sérstaklega af Englendingum, en nú sáu Hamborgarar, að þeir gátu eflt hag sinn á Íslandi með því að styrkja íslenzku landstjórnina. Ludtkin leyfir því Robert Legge hafnarvist, en nokkru síðar kom skipið Mary James frá Lynn í Englandi og lagðist á Básendahöfn. Þar hélzt sæmilegur friður um skeið, en Þjóðverjar voru heimaríkir og hindruðu alla útgerð Englendinga á staðnum.

Grindavík

Grindavíkurleiðir fyrrum.

Þegar herförin til Grindavíkur var ráðin, taldi Ludtkin sig ekki lengur bundinn af ákvæðunum um hafnargrið og réðst á skipið Mary James, laskaði það með skothríð, réðst um borð, drap skipstjórann og særði nokkra menn. Hann rænti úr skipinu öllum vopnum og skotfærum, en að því búnu taldi hann sig öruggan á höfninni og sendi Hinrik Berndes með liðið til Grindavíkur.
Jón Gissurarson segir, að liðið hafi komið saman að kvöldi dags við Þórðarfell í tilsettan tíma, og hafi það verið 80 manns annars hundraðs. Flestum þýzkum og enskum heimildum ber hins vegar saman um það, að í liðinu hafi verið 280 menn eða 8 skipshafnir frá Hamborg og Brimum að viðbættri sveit Diðriks fógeta. Ein allörugg þýzk heimild segir þó, að einungis 180 manns hafi verið í hersveitinni, sem réðst á Grindavík, og er það líkast til rétt.

Prestastígur

Prestastígur – frá Höfnum til Grindavíkur.

Þórðarfell er inni í hrauninu um 7 km. norður af Grindavík, og þangað komu liðsveitirnar á hestum úr Hafnarfirði, Njarðvíkum og Básendum. Diðrik talaði fyrir liðinu, rakti ofbeldisverk Englendinga og fann þeim einkum til saka, að þeir hefðu gerzt uppreistarmenn gegn Danakonungi og löglegri stjórn landsins með því að reisa sér virki og vígbúast í víkinni og neita að greiða skylda tolla og skatta. Hann lýsti að lokum alla Englendinga í Grindavík ófriðhelga og réttdræpa, en friðhelgi yfir öllum, sem að þeim færu.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli – söguslóðir Grindavíkurstríðsins 1532.

Aðfaranótt Barnabasmessu eða þess 11. júní hélt herinn síðan niður í víkina. Hann var alvæddur handbyssum, lásbogum, spjótum og sverðum, búinn léttum brynjum og stálhúfum. Þær njósnir höfðu verið látnar berast til Grindavíkur, að fógeti biði liðsstyrks frá Hamborg og treysti sér ekki til árásar að svo komnu. Íslendingar úr víkinni gátu því borið hernum þau tíðindi, að Englendingar uggðu ekki að sér, margir þeirra væru á sjó við fiskveiðar, en Jóhann Breiði hefði setið veizlu mikla um kvöldið og svæfi í búð sinni innan virkisins ásamt valfangara hertogans af Suffolk í Englandi og 13 öðrum Englendingum; varðhöld væru lítil, svo að nú bæri vel í veiði.

Skyggnisrétt

Gerðavellir – Skyggnisrétt.

Liðinu var skipt í sveitir, og var Hafnfirðingum og Njarðvíkingum boðið að slá hring um virki Jóhanns Breiða og ráðast þar til uppgöngu, en Básendamönnum falið að gæta hafnarinnar og hindra, að skip, sem væru á legunni, kæmust undan. Árásarherinn hélt skipulega og hljótt niður í Grindavík þessa vorbjörtu nótt. Það var útsynningshraglandi og úfinn sjór. Það reyndist rétt, að Englendingum hafði engin njósn borizt af herútboði fógeta, og sannar það okkur, að Íslendingar hafa verið mjög fjandsamlegir Englendingum á þessum slóðum. Klukkan tvö um nóttina var gert áhlaup á virki Jóhanns Breiða. Hafnarfjarðarliðið komst mótspyrnulaust upp á virkisveggina og réðst þá með öskrum og óhljóðum á tjaldbúðirnar. Jóhann Breiði og menn hans vöknuðu við illan draum og þurftu ekki griða að biðja. Fæstir þeirra náðu að tygjast, en allir voru þeir drepnir miskunnarlaust og sumir á níðingslegan hátt. Eftir skamma hríð lágu 15 Englendingar í blóði sínu í virkinu og meðal þeirra sundurhöggvinn líkami Jóhanns Breiða.

Gerðavellir

Leifar virkis Jóhanns Breiða við Gerðisvelli í Grindavík.

Nú varð uppi fótur og fit í Grindavík. Á legunni voru 5 ensk skip, og léttu þau þegar akkerum, er þau urðu ófriðar vör. Skipið Peter Gibszon lá við landfestar, og þangað brunaði nokkur hluti árásarliðsins, komst um borð og náði tafarlaust stjórn þess í sínar hendur. Utarlega í hverfinu voru búðir kaupmanna frá Lynn. Þangað hélt nokkur hluti Hafnarfjarðarliðsins, þegar virkið var unnið, og drap þar menn og rænti. Fjórum enskum skipum tókst að leggja frá landi, þótt átt væri suðlæg og allmikill sjór. Eitt þeirra strandaði í útsiglingu og fórst þar með allri áhöfn.
Eftir skamma stund var Grindavík algjörlega á valdi Diðriks fógeta og Þjóðverja. Sigurinn var ekki dýrkeyptur, því að hvergi var þeim veitt skipulagt viðnám. Þegar mannvígum var lokið, bauð Diðrik að flytja allt herfang um borð í skipið Peter Gibszon og hreinsa valinn. Átta Englendingar höfðu verið teknir til fanga, og voru þeir látnir dysja falina landa sína undir virkisveggnum, en inni í tjaldbúðum Jóhanns Breiða sló Diðrik og aðrir fyrirmenn upp veizlu, létu þeyta lúðra og berja bumbur og drukku siguröl. Herinn hélt kyrru fyrir í Grindavík um daginn, en næsta morgun, sem var miðvikudagur, var nokkur hluti liðsins sendur burt, en hinn varð eftir undir stjórn Diðriks og beið byrjar, en Diðrik ætlaði að sigla skipinu Peter Gibszon til Bessastaða með fangana og herfangið.

Miðaldarskip

Enskt miðaldarskip.

Um þessar mundir var Erlendur lögmaður Þorvarðarson hinn sterki á Strönd í Selvogi einn af aðsópsmestu valdamönnum á Íslandi. Þess er ekki getið, að hann hafi verið í herferðinni til Grindavíkur. Hins vegar setur hann tylftardóm í Reykjavík þann 18. júní um sumarið eða réttri viku eftir herferðina, og sitja í dóminum helztu höfðingjar og sýslumenn Sunnlendinga.
Það mun engin hending, að þeir eru þar saman komnir, því að enn þá var nokkur tími til alþingis. Sennilega hafa flestir þeirra verið í sveit fógeta í herferðinni. Dómurinn fjallaði um atburðina í Grindavík, og eru niðurstöður hans þær, að Jóhann Breiði og allir hans fylgjarar dæmast eftir lögbókarinnar hljóðan ránsmenn og réttilega af lífi teknir, en skip þeirra og góss fallið undir konung og umboðsmenn hans, Diðrik af Mynden. Allar réttmætar skuldir skyldu þó greiðast af góssinu, ef þeirra væri krafizt löglega fyrir 10. ágúst. Síðar var þessi dómur staðfestur af biskupum og lögréttu um sumarið, en þau gögn eru öll glötuð.

Miðaldarskip

Skip á 13. til 18. aldar.

Herinn, sem skilinn hafði verið eftir í Grindavík, sat þar í 10 daga eða til 21. júní; þá fyrst gaf byr, svo að hægt var að sigla fyrir Reykjanes. Meðan hann sat í víkinni, dreif þangað Englendinga, sem legið höfðu úti við fiskveiðar. Þeim þótti að vonum heldur köld aðkoma, er öllu hafði verið rænt og ruplað, eitt skip þeirra hertekið og fyrirliðar drepnir. Sjálfir voru þeir hraktir og svívirtir, og þóttust sælir að sleppa við meiðingar.
Grindavíkurstríðinu lýkur í raun og veru þann 21. júní, er Þjóðverjar láta úr höfn á Peter Gibszon, en þó var eftir að semja frið. Í styrjöldinni höfðu fjórar þjóðir átzt við og stjórnir þeirra létu sig atburðina miklu skipta.
Stríðið hófst að vísu á mjög óformlegan hátt, og Erlendur lögmaður Þorvarðarson og íslenzkir dómsmenn úrskurðuðu, að hér hefði einungis verið um að ræða eins konar lögregluaðgerðir gegn lögbrjótum, en stólkonungar og ríkisráð úti í heimi voru á öðru máli. Hér var hafin styrjöld, og þeirri styrjöld varð að ljúka með friðargerð.”

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1981, Grindavíkurstríðið 1532 – Björn Þorsteinsson, bls. 42-43 og 45.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Básendar

Björn Þorsteinsson skrifaði um “Básendaorustuna 1532” í Faxa árið 1980. Skrifin voru fyrri hluti og aðdragandi af skrifum hans um Grindavíkurstríðið sama ár.

Björn Þorsteinsson“Þann 11. marz 1532 hélt allstórt kaupskip úr höfn í Hamborg. Þetta var rammbyggt skip og skipshöfnin, um 30 manns, alvopnuð byssum, sverðum, lásbogum og öxum. Undir þiljum voru fimm fallbyssur fólgnar, þungir hólkar með víðum hlaupum. Öll útgerð skipsins gaf til kynna, að þær stundir kæmu, þegar hauskúpumerkið væri dregið að hún og beinagrindin með rýtinginn og rommglasið á lofti hlykkjaðist á þöndu stórsegli yfir morðóðum sjóræningjum á stórum rosabullum með reifuð höfuð. En skipið hélt ekki venjulega leið sjóræningjasagna og víkinga, sigldi ekki í suður og vestur til þess að ræna gulli og gimsteinum nýfundinna landa, heldur hjó það bárur Norðursjávar og stefndi á leiðarstjörnu. En e.t.v. var gulls einnig að leita í þeirri átt, jafnvel öruggura gull, en þess, sem reyfarar greina frá. Hafið er vorúfið að þessu sinni, átt óstöðug og vindar snarpir. Áhöfn Hamborgarfarsins liggur auðsæilega allmikið á.
Vikum saman ann hún sér ekki hvíldar, en siglir og beitir ósleitilega, og skipið þokast norður og vestur yfir Atlantshaf. Vörður stendur stöðugt í körfunni á stórsiglunni og gefur nákvæma skýrslu um skipaferðir. En ekkert ber til tíðinda. Englendingar virðast liggja enn í heimahöfnum, þeir eru ekki lagðir í „sjóferðina löngu“ að þessu sinni, nema nokkrar skútur, sem eru komnar á miðin undan Færeyjum. E.t.v. ætla þær ekki lengra. Hansafarið siglir djúpt undan eyjunum, og skipstjórinn, Ludtkin Smith, kaupmaður í Hamborg fer sjálfur upp í stórsiglukörfuna og tekur mið, þegar þær hverfa í sæ.

Miðaldaskip

Skip Hansamanna á miðöldum.

Ludtkin Smith er maður um fertugt. Hann hafði nokkrum sinnum verið kaupmaður á Íslandsförum, en þetta er í fyrsta sinn, að hann er skipstjóri og foringi leiðangurs norður til eyjarinnar. Áður en hann lét úr höfn í Hamborg, hét hann ráðherra í borginni að vinna íslenzka höfn úr höndum Englendinga og drepa hvern þann, sem reyndi að hindra það áform sitt. Menn véfengdu ekki, að hann hefði fullan hug á því að standa við heitið, en hingað til höfðu Englendingar verið aðsópsmiklir á Íslandsmiðum og Þjóðverjum þungir í skauti.
Fyrir tæplega hálfri öld hafði frændi Ludtkins Smiths siglt þessa sömu leið og lent í Hafnarfirði á Íslandi kvöldið fyrir allrapostulamessu eða 1. maí. Við Straum, sunnan fjarðarins, lá skipið Vighe frá Lundúnum. Um nóttina vígbjóst skipshöfnin, létti akkerum og sigldi til Hafnarfjarðar. Í morgunsárið greiddu Englendingar aðför að Hansamönnum óviðbúnum, skutu nokkra til ólífis, en tóku skipið herskildi. Þeir ráku skipstjórann, Ludtkin Steen, og nokkra Þjóðverja með honum í skipsbátinn, en héldu 11 af áhöfninni um borð og sigldu með feng sinn til Írlands. Þar lentu þeir í Galway og seldu skipið, farm þess og fangana 11 nafngreindum Írum. Kröfum og kærum fyrir þetta Sjórán og mansal hafði ekki verið sinnt til þessa. Enn þá var veröldin lítið breytt og þrælamarkaðir á brezku eyjunum. Vopnabúnaður Hamborgarfarsins var því ekki ástæðulaus.

Miðaldaskip

Enskt miðaldaskip.

Árið 1511 höfðu Englendingar tekið Hamborgarfar við Ísland og farið með það og áhöfn þess til Húllar, en þaðan slapp skipstjórinn með miklum ævintýrum; hitt skipið tóku þeir í hafi.
Árið 1514 tóku þrjú ensk herskip Hamborgarfar í hafi á leið til Íslands, særðu skipstjórann og vörpuðu honum lifandi fyrir norð, og drápu nokkra af áhöfninni. Með skipið fóru þeir til Newcastle og héldu því í tvo mánuði. Að þeim tíma liðnum réðust Englendingar um borð í skipið, tóku stýrimann og hjuggu hann í stykki og vörpuðu þeim útbyrðis, einnig hálshjuggu þeir tvo háseta, en særðu 5 hættulega í ryskingum, sem urðu við ofbeldisverkin. Þannig voru 15 af áhöfn skipsins drepnir, þegar því var skilað að lokum með nokkrum hluta farmsins.

Rif

Rif á Snæfellsnesi.

Árið 1528 réðust 7 ensk skip á Hamborgarfar í höfninni að Rifi við Snæfellsnes, og tóku úr því öll vopn, byssur, púður og matvæli og meginhlutann af farmi þess. — Ári síðar réðst Englendingurinn Jón Willers frá Lynn á Hamborgarfar norður í Eyjafirði og sökkti því í hafið með 36 manna áhöfn.
Að lokum birtast hvítar jökulbungur yzt við sjóndeildarhring í norðri, og blásvört háfjöll teygja sig upp fyrir hafsbrún hvert af öðru. Ísland rís úr hafi í grárri vormorgunskímu, kaldranalegt en heillandi. Sjómenn töldu, að fjöll þess byggju yfir geigvænum töframætti, þau væru svo segulmögnuð, að þau soguðu skip upp að hafnlausum söndum og brytu þau í spón með því að draga að sér nagla úr byrðingum þeirra. Árlega fórust hér skip með ströndum fram, en samt sem áður hættu menn aldrei að sigla til Íslands, ef þá hafði einu sinni borið þangað. Í heimabyggðum þeirra lék það ekki á tveimur tungum, að Íslandsfarar yrðu fyrir gerningum; þar bjuggu seiðkonur í fjöllum.

Viðskipti

Teikning af fiskviðskiptunum fyrrum.

Hamborgarfarið hélt djúpt undan Vestmannaeyjum og stefndi fyrir Reykjanes. Nokkrar enskar duggur voru á leið inn til eyjanna, annars voru engin skip sjáanleg. Skipshöfnin hafði unnið kappsiglinguna til Íslands að þessu sinni og gat valið sér verzlunarhöfn samkvæmt því ákvæði íslenzkra laga, að sá á höfn, sem fyrstur lendir þar að vorinu. Á laugardagskvöldið fyrir páska hélt skipið að lokum inn á lónið að Básendum við Stafnes.
Höfnin að Básendum er langt og mjótt lón eða gjögur, sem skerst vestan í Romshvalanes innanvert. Siglingaleið inn á lónið er alllöng og tæp milli skerja, en fyrir innan er útfiri og þröng lega. Hér var því einu skipi gott að verjast.
Fyrir sunnan Básenda skerast svipaðir básar inn í nesið eins og Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás og Blasíubás og Þórshöfn. Frá sumum þessum stöðum var dálítið útræði, og Básendar urðu verzlunarstaður Erglendinga á 15. öld, en Hamborgarar náðu höfninni sum árin seint á öldinni. Verzlunarbúðir voru norðan hafnarinnar, og þar lagði Ludtkin Smith skipi sínu við fjögur akkeri og lét binda landfestar eftir því sem menn kunnu bezt.

Hvalsnes

Hvalsnes – herforingjaráðskort frá 1908.

Daginn eftir voru heilagir páskar og guðsþjónustur í kirkjunni að Hvalsnesi og Kirkjuvogi, en menn Ludtkins Smiths unnu að því að skipa upp vörum og búa um skipið á legunni, en gerðu sér síðan glaðan dag. Þegar leið á daginn, sáu þeir, að skip kom af hafi og stefndi til Básenda. Þeir tygjuðust þegar til varnar, ef óvinir væru á ferð, en komumenn felldu segl og vörpuðu akkerum fyrir utan höfnina. Skömmu síðar var báti róið frá skipinu að Hamborgarfarinu, en á honum var enskur kaupmaður að nafni Thomas Haerlack, auk stýrimanns. Þeir Ludtkin tóku þeim félögum vel og glöddu þá með mat og góðum bjór. Þeir fréttu, að hér var komið skipið Anna frá Harwich í Englandi, um 120 lestir að stærð og með um 80 nanna áhöfn.

Básendar

Básendar.

Englendingar höfðu lagt úr höfn þann 15. marz og hreppt mjög hagstætt veður Þeir báðu leyfis, að mega leggjast á höfnina, en þeirri málaleitan tók Ludtkin Smith þunglega. Hann bað þá félaga að skila aftur til manna sinna, að þeim væri ráðlegast að leita sér annarrar hafnar, því að skip þeirra væri svo stórt, að nægur fiskur yrði ekki fáanlegur í bæði skipin að Básendum. Hann benti þeim á, að allar hafnir við Ísland stæðu opnar hverjum sem vildi, og væru frjálsir verzlunarstaðir þeim, sem þangað kæmu fyrstir að vorinu. Samkvæmt þeirri hefð sagðist Ludtkin eiga einkarétt til Básendahafnar að þessu sinni, en þar að auki hefði hann heitið Hinriki nokkrum Berndes, kauppláss hjá sér í íslenzkri höfn, ef hann yrði á undan honum til landsins. Ludtkin Smith fór um það mörgum fögrum orðum, að hefðu Englendingar orðið fyrri til hafnar við Ísland að þessu sinni, þá hefði hann hvorki vænzt þess né krafizt af þeim, að þeir vikju úr höfninni fyrir sér, og nú ætlaðist hann til þess sama af Englendingum. Þeir Thomas Haerlack tóku vel boðskap Þjóðverja og kváðust ekki ætla að bíða boðanna, en sigla tafarlaust til Grindavíkur, þegar hann gengi í norður og byr gæfi. Síðan kvöddust þeir með virktum, og héldu. Englendingar út í skip sitt.

Básendar

Reykjanesskagi – kort.

Það var allt kyrrt og friðsamt við Básenda næstu nótt; enska skipið sýndi einungis ekki á sér neitt fararsnið. Á annan í páskum kom enn skip af hafi og stefndi til Básendahafnar. Þar biðu menn Ludtkins óþreyjufullir eftir því að sjá, hvers konar skip hér væri á ferð. Undir kvöld kom það að höfninni og varpaði þegar akkerum við hliðina á Önnu frá Harwich. Hér var komið frægt Íslandsfar, Thomas frá Húll í Englandi. Því hafði lengi verið haldið til Íslands og háð þar marga hildi. Frægasta afrek þess var að sökkva Hamborgarfari með allri áhöfn norður í Eyjafirði 1529. Að þessu sinni hafði skipstjórinn, Jón Willers, bundizt samtökum við Thomas Hamond, skipstjóra á önnu frá Harwich, og höfðu þeir lagt samtímis úr höfn í Lynn í Englandi, en dregið í sundur með þeim á leiðinni.

Básendar

Básendar – bærinn.

Skipið Thomas frá Húll var 60 lestir að stærð og með 52 manna áhöfn. Aðalfarmur beggja ensku skipanna var salt, og voru 24 lestir í Thomasi frá Húll. Hins vegar var þýzka skipið hlaðið drykkjarföngum, mjöli, malti, smjöri og hunangi. Hansafarið var kaupskip, hingað komið til þess að stunda verzlun, kaupa skreið í skiptum fyrir varning sinn. Ensku skipin voru hins vegar aðallega komin hingað norður til þess að stunda fiskveiðar og útgerð, en til þeirra hluta voru þeim nauðsynlegar bækistöðvar á landi. Af þeim sökum voru áhafnir enskra skipa miklu fjölmennari en þýzkra, því að Englendinga beið hér umfangsmeira starf en Þjóðverja.

Básendar

Báendar – tóftir bæjarins.

Englendingar voru flestir með smávöruslatta í skipum sínum til þess að geta drýgt eigin afla með verzlun við Íslendinga. Það var því ekki nema að nokkru leyti rétt hjá Ludtkin Smith, að næg skreið fengist ekki á Básendum í skipið Önnu frá Harwich, því að Englendingar ætluðu að draga fiskinn að mestu leyti sjálfir, og Básendar liggja vel við góðum miðum. Englendingar höfðu lagt svo snemma í „löngu sjóferðina” að þessu sinni til þess að njóta síðari hluta vorvertíðarinnar við Suðurland. En þeir þurftu höfn til útgerðarinnar engu síður en til verzlunar, og nú lágu þeir fyrir framan höfnina, en fyrir innan lá eitt Hansaskip og bannaði þeim hafnarvist.

Básendar

Básendar – drónamynd.

Thomas Hamond, skipstjóri á Önnu frá Harwich, steig þegar í skipsbátinn, er Thomas frá Húll hafði varpað akkerum, og fór að hitta landa sína og félaga. Honum var vel tekið, og bundust Englendingar samtökum um að ráðast á Hamborgarfarið og ræna það. Þeir töldu sig hafa mikla yfirburði yfir Þjóðverja í skipum og mannafla, og ákváðu að drepa hvern þann, sem veitti þeim mótþróa, en hengja Ludtkin Smith á bugspjótinu. Einnig segir í þýzkri skýrslu um þetta mál, að Englendingar hafi boðið Íslendingum að koma til veizlu að Básendum, því að þar yrði Þjóðverjakjöt á borðum næsta dag.

Básendar

Básendar – minjar.

Inni á höfninni lágu Ludtkin Smith og félagar hans ekki aðgerðarlausir. Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði legið að Básendum um veturinn og keypt skreið af mönnum. Hann var uppi við búðimar og tók á móti varningnum, sem skipað var á land. Nú fékk Ludtkin hann til þess að safna 80 manna liði Þjóðverja og Íslendinga og vera við öllu búinn án þess þó að láta mikið á liðsafnaðinum bera. Ludtkin vildi gjarnan að Englendingar gengju í gildru og honum gæfist kostur á að launa Jóni Willers fyrir margs konar hrellingar og ofbeldisverkin norður á Eyjafirði.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Snemma á þriðjudagsmorgun 2. apríl lét Thomas Hamond á skipinu Anna frá Harwich vinda upp segl og létta akkerum, en í stað þess að sigla suður með landi til Grindavíkur, eins og menn hans höfðu talað um, þá hélt hann inn á höfnina á Básendum. Þegar styrjaldir hefjast, er venjulega vant að fá úr því skorið, hver hleypti af fyrsta skotinu, og svo er hér. Ludtkin Smith ber það síðar, að Thomas Hamond hafi siglt inn á Básendahöfn þennan morgun í fögru veðri og fyrir hagstæðum byr og tekið formálalaust að skjóta á stjórnborðshliðina á skipi sínu með bogum, fallstykkjum og kastspjótum og eyðilagt stafn og skut á skipinu og allt að þeim hluta þess, sem nefnist búlki. Hins vegar segjast Englendingar hafa neyðzt til þess að leita hafnar að Básendum sökum óveðurs, en þar hafi Ludtkin Smith ráðizt á þá óvara með skothríð. Að öðru leyti ber enskum og þýzkum skýrslum sæmilega saman um atburðarásina.

Básendar

Frá Básendum.

Þótt Ludtkin hafi e.t.v. ekki hleypt af fyrsta skotinu, þá er það víst, að Anna frá Harwich hafi ekki siglt langt inn á Básendahöfn, þegar hann lét senda henni innihald fallstykkja sinna og skipshöfn hans hóf skothríð með öllum þeim vopnum, sem henni voru til tæk. Í þessari hrotu féll Thomas Hamond skipstjóri fyrir skoti, en kúlnahríð Þjóðverja var svo nærgöngul við lyftinguna aftan til á skipinu, að stýrimaðurinn hrökklaðist frá stjórnvölnum. Þá ætluðu skipverjar að kasta út akkeri til þess að forða árekstri, er skipið rak stjórnlaust, en Þjóðverjum tókst að höggva akkeriskaðalinn sundur fyrir þeim, svo að skipið rak suðaustur yfir lónið og strandaði. Í þessum svifum kom Thomas frá Húll fyrir fullum seglum og réðst með skothríð framan að Hansafarinu. Þeim tókst að slíta eina akkerisfesti, sem skip Ludtkins var fest með, en komu krókstjökum á bugspjótið og greiddu þar atlögu. Í þessu áhlaupi féllu tveir Þjóðverjar, varð annar fyrir skoti, en hinn rekinn í gegn, og margir særðust. Ludtkin tók það fangaráð að höggva bugspjótið af skipi sínu og losa sig þannig úr tengslum við enska skipið, en jafnframt hófu menn hans ofsalega skothríð að því.

Básendar

Básendar – loftmynd.

Sökum vigamóðs gætti Jón Willers ekki að því, hvað var að gerast, en skip hans rak suður yfir lónið. Maður nokkur hljóp þá til og ætlaði að varpa út akkeri, en var skotinn til bana, og sá næsti, sem reyndi féll óvígur. Skipið kenndi brátt grunns sunnan hafnarinnar, og skipaði Jón Willers mönnum sínum að róa út með akkeri í skipsbátnum og ná skipinu út á næsta flóði. Ludtkin beindi strax skothríð að skipsbátnum, svo að Englendingar gáfust upp við þá fyrirætlun, þegar einn af mönnum þeirra var fallinn og báturinn laskaður. Þar með voru bæði ensku skipin strönduð, annað innst á höfninni, en hitt sunnan hennar vestarlega á lóninu. Norðan til á höfninni lá Hamborgarfarið og beindi skothríð að skipi Jóns Willers, en á landi beið lið Hans Ludtkins albúið að taka á móti Englendingum, ef þeir reyndu að yfirgefa skipin.

Básendar

Festarkengur á Básendum.

Allan þriðjudaginn sátu Englendingar í herkví á skipum sínum og biðu flæðar á miðvikudagsnóttina, en þá ætlaði Jón Willers að gera nýja tilraun til þess að ná skipi sínu út, en tilraunin misheppnaðist. Vindur var norðlægur og skipið hrakti einungis lengra upp á grynningarnar. Hins vegar tókst áhöfninni á Önnu frá Harwich að ná skipinu út á flóðinu og leggja því við akkeri, og létu Þjóðverjar það afskiptalaust. Anna komst ekki úr höfninni nema með því að sigla rétt hjá Hamborgarfarinu, og Þjóðverjar vissu, að Englendingum þótti sú leið ekki greiðfær, eins og sakir stóðu. Öðru hverju kallaði Ludtkin til Englendinga að gefast upp skilyrðislaust, aðstaða þeirra væri vonlaus.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Allar heimildir gefa til kynna, að Englendingar hafi verið nokkru liðfleiri en Þjóðverjar í þessari orustu, en hamingjan var þeim ekki hliðholl, og á miðvikudagsmorgun tilkynntu þeir Jón Willers og Robert Legge, er tekið hafði við stjórn á Önnu frá Harwich eftir fall Thomasar Hamonds skipstjóra, að þeir væru fúsir að koma til friðarsamninga. Þegar þeir voru komnir um borð í Hansafarið, kúgaði Ludtkin Smith þá til þess að bjóða skipshöfnum sínum að láta öll vopn af hendi við Þjóðverja. Þessu var hlýtt, og voru vopnin flutt um borð í skip Ludtkins. Að því búnu skipaði hann mönnum sínum að fara um borð í skipið Thomas frá Húll og tæma það af öllu fémætu. Skipið stóð nú að mestu á burru um fjöru, svo að Þjóðverjum var greið leið að skipinu, en Englendingar snerust enn til varnar, þótt þeir hefðu fátt vopna. Ludtkin lét þá höggva gat á byrðinginn og menn sína ganga þá leið inn í skipið og ræna. Nú var ekki um annað að gera fyrir áhöfnina en flýja á land upp. Þar umkringdu Þjóðverjar þá og tóku tvo þeirra, sem þeir töldu sakbitnasta fyrir margs konar ofbeldisverk, m.a. fyrir að hafa átt drjúgan þátt í að sökkva Hamborgarfarinu norður á Eyjafirði árið 1529. Þessa menn lét Ludtkin hálshöggva, en misþyrmdi öðrum tveimur og skilja þá eftir klæðlausa, nær dauða en lífi. Meðan á þessu gekk, fékk skipið Anna frá Harwich að liggja í friði á höfninni við Básenda.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

En nú kom röðin að því, meðan orustan stóð, að Ludtkin sendi sendiboða til Hafnarfjarðar og bað þýzka kaupmenn í firðinum að koma til Básenda og gera um deilur sínar og Roberts Legge og félaga hans. Þeir bregða við og koma til Básenda, en þar var Robert Legge neyddur til að skrifa undir skýrslu, sem Þjóðverjar sömdu um atburðina, en einnig urðu þeir að afhenda allan varning sinn úr skipinu og greiða 40 lestir skreiðar í skaðabætur.

Básendar

Kengur á Básendum.

Skreiðina afhenda þeir þann 16. maí, og fengu þeir þá að halda skipi sínu og töldust lausir allra mála fyrir þátttöku í orustunni að Básendum. Eftir það sigldu þeir burtu, en Erlendur lögmaður Þorvarðarson lét tylftardóm ganga um ,,skip það og góss, sem rak á land við Básenda í bardaga milli Ludtkins Smiths og Jóns Willers” og dæmist það réttilega fallið undir konung.

Básendar

Básendar – merki um friðlýstar minjar.

Þar með voru þessir atburðir úr sögunni í bráð, en ýmsir aðrir áttu eftir að gerast. Seint í apríl kom skipið Thomas frá Lundúnum að Rifi á Snæfellsnesi, en þar lá fyrir Hamborgarfar á sama hátt og við Básenda. Englendingar gerðu út bát á fund skipstjórans á Hansaskipinu og báðu leyfis að mega koma inn á höfnina, en fengu synjun. Þá héldu Engiendingar til Grundarfjarðar og lágu þar í þrjár vikur og veiddu og verzluðu. Að þeim tíma liðnum kom þar skip frá Brimum ásamt Hamborgarfarinu, sem lá við Rif. Í þrjá eða fjóra daga lágu Hansaskipin á Grundarfirði og höfðust ekki að, en þann 20. maí lögðu þau að landi. Fjörutíu eða fimmtíu manns gengu af skipunum og héldu þangað, sem Englendingar voru með búðir sínar. Þjóðverjar réðust með alvæpni inn í búðirnar, brutu upp kistur kaupmanna og höfðu allt fémætt á braut með sér. Síðan fóru þeir um borð í enska skipið og tóku þaðan öll vopn og skotfæri.

Hér er um beint rán að ræða, en nú voru nýir og miklu alvarlegri atburðir á döfinni. Til er staðfest afrit, en ódagsett, af bréfi þýzkra skipstjóra og kaupmanna í Hafnarfirði til ráðsins í Hamborg. Þar segir, að Englendingar í Grindavík hafi tekið fisk, sem Hansamenn höfðu keypt og greitt. Þjóðverjar segjast vilja, að ráðinu sé kunnugt, að þeir ætli að ná fiskinum með valdi og leggja líf og góss í sölurnar. Þeir æskja liðsstyrks og bjóða ráðinu hluta í herfanginu.”

Heimild:
-Faxi, 7. tbl. 01.12.1980, Básendaorustan 1532 – Björn Þorsteinsson, bls. 242-243 og 191.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Básendar

“Skammt suður frá túninu á Stafnesi eru Básendar, þar sem kaupstaðurinn var.
Ganga þar inn í landi tveir vogar, eigi stórir, og neskorn fram á milli. Nes þetta hefir verið slétt og grasi vaxið, þó nú sé það mjög af sér gengið. Það snýr í basendar-221-loftmyndútsuður. Fremst á nesinu sér til rústanna af bænum á Básendum; eru þær eigi stórar mjög, en allglöggar. Vör hefir þar verið niður frá bænum út í hinn nyrðra voginn. Litlu ofar á nesinu er rústin af búðar- og vöruhúsinu. Það hefir snúið frá útnorðri í landsuður, hér um bil 11 faðma á lengd, en 7 faðma á breidd, eftir þeim undirstöðum, sem nú sjást. Að vestanverðu við hús þetta hefir verið hlífðargarður, stór og mikill, fyrir hafsjó. Nokkrum spöl ofar á nesinu hefir íveruhúsið verið. Rústir þess sjást og múrsteinabrot á millum, þó ei svo glöggar, að mældar verði, en garður hefir verið um það hér um bil 10 faðma á breidd, en 20 faðma á lengd. Allar þessar rústir sýnast að hafa verið vandaðar og sterklega gjörðar, mest allt hlaðið af hraungrjóti, enda eru hér góð tök í slíku. Undirstöður húsanna eru eins og garðarnir, hrundar mjög og skörðóttar.

Innsigling á Básendum hefir verið vandrötuð og eigi fær fyrir hafskip nema með vissum vindum, enda hafa þar verið mörg sundmerki og nákvæm, sem sum eru enn í manna minnum og sjást, en sum varla eða alls ekki.
Útsker eru eigi fá fyrir framan vogana, en gott, þegar inn kemur. basendar-hringur-221Kaupskipin áttu að hafa legið í syðra vognum. Voru þau jafnan bundin landfestum, svo að ei máttu snúast fyrir vindi; voru af hverju skipi 4 eða 5 festar; það kölluðu þeir svínbundið. Festar þessar sjást enn, og eru 5 á landskerjum eða landi, en 4 á útskerjum. Ég sá eina þeirra aðeins á nesinu, sem fyrr er getið. Er það járnsúla mikil, greypt niður í klöppina og blýi hleypt í kring; gat er á stólpanum og þar í hringur digur og víður. Járnstólpinn er ferskeyttur, á tvo vegu 12 en hina tvo 15 millimet.; hæð hans frá klöppinni var 32 millimeter, diameter hringsins 53½ millim., en yfir um hringinn var digurðin 23 millimeter. Öll þessi járn voru ryðbrunnin mjög. Festar þær, sem í útskerjum voru, gat ég ei skoðað, því enginn bátur var við hendina, enda sagði mér kunnugur maður, að þær væru með sama hætti og umbúningi allar 9. Að öðrum járnstólpa kom ég, og var hann eins og sá, sem þegar er lýst, nemar þar var hringurinn úr. Ég spurði manninn, því svo væri. Hann sagði, að sjómaður einn svarf hann úr með launung, en Stafnesbóndi komst þó að því um það leyti hann var ónýtur orðinn, hringurinn. Varð bóndi þá reiður, kvaðst ei vilja berja manninn, en á meðan hann lifði, mætti enginn hreifa neitt af menjum þessum. Það hefir ei heldur verið síðan.

basendar - ornefni

Yfir þær festar, sem á útskerjum eru, fellur sjór ætíð, og þar ryðbrenna járnin óðum. Við hinn síðarnefnda járnstólpann, sem ég sá, var á klöppina höggið ASS, en á skeri einu var mér sagt, að væru ótal slík fangamörk. Það er að austanverðu við syðri voginn, en þangað komst ég ei, því bát vantaði, en hásjávað var. Um fjöru kvað mega ganga út á það sker. Útskerin eru alltaf umflotin. Landnorðurhallt við nesið sér rúst af kálgarði, eigi alllitlum; þar var brunnur í, djúpur og góður.  Á botni hans segja menn, að verið hafi eikartré slegin í kross, og svo hver tunnan upp af annarri innan í til þess að eigi félli sandur í brunninn. Nú er það allt komið í sand, en sést þó, hvar brunnurinn var, af grjótþúst dálítilli í útsuðurhorni garðsins. Garðurinn liggur móti suður-útsuðri og er skammt frá Básendum. Upp undan syðra vogsbotninum og fyrir nesinu er grasi vaxin flöt, allfríð; það heitir Brennitorfa, því þar áttu kaupmenn að hafa haft brennur. Nokkru sunnar, upp á hrauninu er hóll hár, sem kallaður er Draughóll. Þar átti að hafa verið dys til forna, og rótuðu sjómenn henni alveg um. Þar fundur þeir lítið fémætt. Spölkorn suður þaðan í hrauninu og ekki rétt fram við sjó eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Þá kalla menn Gálgakletta. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt þar menn á, þegar þá greindi mjög á við einhverja. Er það í munnmælum, að beinum enna hengdu hafi verið kastað í gjótu undir annan klettinn og borið grjót fyrir að framan.”

Heimild:
-Magnús Grímsson: Fornminjar um Reykjanessskaga, bls. 255-257.

Básendar

Á Básendum.

Básendar

Básendar var verslunarstaður fyrr á öldum. Nú virðist við fyrstu sýn fátt sem minnir á verslunina, en ef betur er að gáð má sjá ýmislegt henni tengdri, t.d. áletranir á klöppum.
Nefndar áletranir eru flestar í Arnbjargarhólma, vestan Básendahafnar (Brenntorfuvíkur). Á Letursteinn í Arnbjargarhólmaháhólmanum má bæði lesa skrifstafi og ártöl á klöppunum, en auk þess, þegar vel er leitað, má sjá slíkar áletranir á lausum steinum, sem virðast hafa verið á hólmanum áður fyrr, er hann var landfastur og væntanlega gróinn vel, en skolast til þegar sjórinn náði að aðskilja hann fastalandinu og leika frjálslegar um hólmann.
Við skoðun FERLIRs kom m.a. í ljós að á einum lausa steininum stóð nafnið “BERTELANDERS” og ártalið 1700. Á öðrum lausum steini var m.a. áletrað MVL og XX þar sem ör lá upp frá ártalinu 1590. Á klöppum mátti bæði lesa bókstafi er virtust vera upphafsstafir manna og ártöl, s.s. 1640, 1650, 1651 og 1694. Þessar áletranir á þessum stað benda til þess að þarna hafi verið athafnasvæði verslunar danskar kaupmanna, en þeir höfðu höfnina eftir 1602 út af fyrir sig. Þjóðverjar og Englendingar kepptust um hana fram yfir 1532 (Grindarvíkurstríðið) svo áletrunin Bertelanders gæti verið eftir einhvern kaupmanninn á Endunum eða hugsanlega nafn á skipi hans. Fróðlegt væri fyrir sagnfræðinga að reyna að grafa eitthvað upp um þetta.
Líklegt má telja að fleiri áletranir og ártöl kunni að leynast við Básenda er kunna að varpa ljósi á veru framangreindra á staðnum í gegnum aldirnar.

Letursteinn