Færslur

Keilir

Jón Þorkelsson skrifaði eftirfarandi (stytt) um beinakerlingar í Blöndu II:
“Beinakerlingar eru alkunnar hér á landi og hafa leingi verið, og eins gaman það, er kátir menn hafa að þeim hent. Eru það grjótvörður, — sem kallaðar eru kerlingar, — hlaðnar Beinakerling-1upp við alfaraveg, einkum á fjallvegum, og eru til þess ætlaðar, að þeir, sem um veginn fara, skilji eptir í vörðunni ritaða kveðju í ljóðum eða ljóðað ávarp frá kerlingunni til þeirra, er næstir fara um veginn, að sýna henni blíðskap. Visum þessum átti, ef alt skyldi vera í lagi, að koma annaðhvort í sauðarlegg eða stórgripalegg, og stinga leggnum síðan í vörðuna, og því hafa vörður þessar verið nefndar beinakerlingar. Ef menn vissu, hverir næst mundu fara um veginn, var opt sælzt til að nefna þá með nafni í vísum þeim, sem skildar voru eptir handa þeim í vörðunni. Væri margir á ferð í flokki, riðu stundum einhverir hagmæltir og gamansamir menn á undan, og voru þá búnir að koma vísum í kerlinguna handa þeim, sem á eptir voru, þegar þeir komu að vörðunni. Væri konur þeirra, er vísurnar feingu, með í förinni, var beinakerlingin stundum látin biðja þær um að spilla ekki fyrir sér við bóndann:
Beinakerling-2Gleztu ekki við mig, góðin sæl,
Guðrún mín Vigfúsdóttir.

Var gaman þetta í sjálfu sér ógnarlega meinlaust, væri því haldið í hæfilegum skorðum, en út af því gat stundum brugðið heldur en ekki.
Hvernig þessi gamans-siður er uppkominn hér á landi, er alveg óvíst, því að eingin vissa er fyrir því, að hann só leifar af því að reisa mönnum og rista níð, sem mörgum er kunnugt frá fornöldinni. Manni gæti nærri dottið í hug, að siður þessi, eða ósiður, ef mönnum þykir það nafn sanni nær, ætti upptök sín í því, að menn hafi á fyrrum öldum, er fóru yfir öræfi, tekið þann hátt upp að hlaða vörður í öræfunum á stöku stöðum, og lagt þar í nokkur orð um, að þar hafi þeir verið staddir, til leiðbeiningar, ef leit þyrfti að þeim að gera, og hafi þetta síðan orðið að venju á fjallvegum.

varda-221

Þykir og enn ánægja að þvi að finna á öræfum menjar þeirra manna, er áður hafa farið sama sjaldfarinn veg. Ekki verður heldur að svo stöddu með vissu sagt, hvort nokkuð þvílíkt sem beinakerlingar hafi tíðkazt í grannalöndum vorum, svo sem Noregi. Eing er óvíst um það, hve gömul beinakerlingavenjan er hér á landi. Sjálfsagt er hún gömul, en rök fyrir beinakerlingum og beinakerlingavísum hér þekkjast nú ekki eldri en frá síðara hluta 17. aldar. En þá og síðan um hríð hafa beinakerlingavísur og þvílíkt gaman líka verið í algleymingi, eins og sjá má á kveðskap þeirra frænda Jóns biskups og Páls lögmanns Vídalins, og taka beinakerlingavísur Páls yfir árin 1691—1725. Síðan hefir sá kveðskapur haldizt við alla 18. og 19. öld, þótt nú sé það handverk heldur komið í rýrnan, eptir að draga tók úr samgaungum milli fjórðunga á landi, en þær að eflast á sjó.
Beinakerling var einnig á Mosfellsheiði, skamt frá Borgarhólunum. Hún lagðist af nálægt 1880, eptir að sæluhúsið var reist á heiðinni. Frá þeirri kerlingu er þessi vísa:
„Herra minn guð, eg held nú það”
hann Sigurður rendi
…………………..vað,
„mikil skelfing! Vittu hvað”.
Vísan er frá síðara hluta 19. aldar, og kveðin á leið í verið; eru í henni orðatiltæki manns þess, sem hún er kveðin til.”

Heimild:
-Blanda II, bls. 406-411.

Skilaboðavarða

Skilaboðavarða millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Beinakerling

Í Morgunblaðinu árið 2001 segir Árni Björnsson frá beinakerlingum:
“Nokkrar stórar hlaðnar vörður við alfaravegi hafa verið kallaðar beinakerlingar. Sagnir eru um þær meðal annars á Mosfellsheiði, Botnsheiði, Skarðsheiði, Þorskafjarðarheiði, Stóra-Vatnskarði, Vatnahjalla ofan Eyjafjarðar, Smjörvatnsheiði milli Vopnafjarðar og Jökuldals, Fjallabaksvegi og Mýrdalssandi, en nafnfrægastar hafa orðið kerlingarnar á Kaldadal, Stóra-Sandi og Kili. Ekki er öldungis ljóst hvernig nafnið er hugsað. Algengt er reyndar að drangar séu nefndir karl eða kerling og því var nærtækt að gefa uppmjóum vörðum svipað heiti. Athygli vekur að getið er um beinahrúgu við sumar þeirra eða bein sjást enn innan um grjótið.
beinakerling-3Þekktasta skýring er á þá lund að ferðamenn hafi stungið skilaboðum í hrosslegg og komið honum fyrir í vörðunni. Menn gátu verið að láta aðra vita af ferðum sínum, tilkynna um strokufé, segja frá nýmælum eða vara við einhverri hættu. Þá var stutt í að menn í góðu skapi sendu væntanlegum ferðalöngum kersknisvísur á sama hátt. Sá kveðskapur hefur haldið minningu beinakerlinganna lengst á lofti og orðið beinakerlingavísa er löngu farið að merkja groddalega neðanþindarvísu af þeim toga sem nú á dögum virðist ein helsta skemmtun kvenna sem karla í fjölmiðlum og á mannamótum, svo því er líkast sem fólk sé upp til hópa nýbúið að fá hvolpavit.
Önnur túlkunartilraun er á þá leið að hér sé upphaflega ekki um nein dýrabein að ræða, heldur nafnorðið beini í merkingunni hjálp eða greiði, að fá góðan beina, og sagnorðið að beina manni leið í rétta átt. Merkingin hafi því einna helst verið „hjálpsöm kona“. Þeir sem löngu síðar skildu ekki þessa merkingu tóku að búa sér til nýja skilgreiningu.
Þriðja tilgátan gerir beinakerlingar að minjum um heiðinn átrúnað, til dæmis að hörgum frjósemis-gyðjunnar Freyju. Hér hafi dýrum verið blótað henni til heiðurs og beinin séu leifar þeirra. Í samræmi við það hafi átt sér stað frjósemisdýrkun með frjálslegu kynlífi eins og víða eru spurnir af meðal þjóðflokka sem enn eru tengdir náttúrunni á eðlislægan hátt. Eftir kristnitöku hafi kirkjan fordæmt og afskræmt slíkt athæfi og kallað saurlífi. Leifar þessa finnist í blautlegum athöfnum og kveðskap í tengslum við beinakerlingar.
GluggavardaFjórða skýringartilraunin er sú að upphaflega hafi fé eða hestar sem drápust á ferðalögum verið urðaðir og grjóti hlaðið utan um skrokkinn í þrifnaðar- eða hreinlætisskyni svo að hrætætlur fykju ekki út um víðan völl. Þegar skrokkarnir rotnuðu undir grjótinu urðu beinin ein eftir og stóðu út á milli steinanna eða sást í þau inni í hrúgunni. Eftir nokkrar aldir vissi enginn lengur hvernig á þessari beinahrúgu stóð og hugmyndaríkir menn tóku að smíða kenningar.
Fyrsta tilgátan er að sjálfsögðu vinsælust, enda í samræmi við þá lagfæringu á orðum Ara fróða að „hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það heldur, er skemmtilegra reynist“. Elstu varðveittar beinakerlingavísur eru frá lokum 17. aldar. Þær eru oftast ortar í orðastað kerlingar sem ögraði næsta ferðamanni til að sanna henni karlmennsku sína.”
Við þetta má bæta að ekki er ósennilegt að beinakerling, hafi verið hlaðin varða, stök á áberandi hól eða hæð, vegamótum eða á öðrum slíkum stað, þar sem sérstök þörf hafi verið á til að beina vegfarendum rétta leið á annars villgjörnu svæði.

Heimild:
-Morgunblaðið 3. mars 2001, bls. 40.

Skilaboðavarða

Skilaboðavarða millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.