Tag Archive for: Bjargarhellir

Bjargarhellir

Gengið var um Strandarhæð ofan við Selvog. Á hæðinni eru nokkrir skútar og smáhellar, auk ýmissa mannvistaleifa. Má þar m.a. nefna Gapa, Strandarhelli og Bjargarhelli.
Selvogsheiði er mikil hraundyngja, sem byggst hefur upp snemma á nútíma. Hraunin hafa breiðst út til allra hliða. Dyngjan er hallalítil og hraunin hafa verið þunnfljótandi, enda er flatamál dyngjunnar um 50 ferkílómetrar.

Gapi-21

Gapi.

Út úr dyngjunni hafa miklar hraunár runnið neðanjarðar og komið upp úr hrauntjörnum, sem nefnast Hellishæð, Vörðufell og Strandarhæð. Á þessa þrjá gíga lítur Jón Jónsson sem aukagíga frá Selvogsheiði, en ekki sem sjálfstæð eldvörp. Telur Jón líklegt að stórir og miklir hellar liggi frá Selvogsheiði og niður að þessum þrem eldvörpum.
Í örnefnaslýsingu fyrir bæi í Selvogi segir m.a. 1840 að “í Selvogsheiði eru 3 hellrar: … Gapi, tekur 60 kindur …” Fjárskjólið tilheyrði Þorkelsgerði. Fyrir framan það er hlaðinn stekkur; Gapastekkur. Mold er í botni fjárhellisins og bein á stangli. Nafnið er sennilega tilkomið vegna þess að opið gapir á móti þeim, sem það nálgast úr suðri, í átt frá Selvogi. Í örnefnaslýsingunni er einnig kveðið á um Gapstekk: „Við ferðamannaveginn sem lá vestur yfir Víðasand og til Herdísarvíkur, er hellir, sem heitir Gapi og var fjárhellir. Við Gapa er Gapastekkur. Þar var rekið að haust og vor úr Útvogi.“

Bjargarhellir

Innan við op Bjargarhellis.

Haldið var til austurs inn á hæðina, að Strandarhelli. Í sömu heimild frá 1840 er kveðið á um fjárskýli í hellinum. Þar segir að Strandarhellir, sem nú er í Eimulandi, hafi verið rúmgóður… Það var góður fjárhellir, tók um 200 fjár.“ Hellirnn er í stóru grónu jarðfalli. Inni í fjárskjólinu eru fyrirhleðslur. Sagnir eru og um göng úr hellinum upp í Hlíðarendahelli undir Hellisbjörgum, en engin slík hafa fundist þrátt fyrir talsverða leit.
Nafngiftin Strandarhellir kemur víða við í rituðum heimildum og yfirleitt er talað um hann í lotningu eins og þar fari einn af stærstu hraunhellum landsins.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Bjargarhellir er sunnan Strandarhellis. Í örnefnalýsingunni frá 1840 segir að Bjargarhellir rúmi 200 fjár…” Fjárskjólið tilheyrði Nesi, austast í Selvogi, miðað við örnefnalýsinguna, en á milli þess og t.d. Nessels undir Hnúkum er allnokkur vegalengd og skera t.d. lönd Eimu, Þorkelsgerðis og Bjarnastaða það svæði.
Jón Vestmann (1769-1959), prestur í Selvogi á árunum 811-1942, nefnir Bjargarhelli er hann svarar spurningum Hins íslenska bókmenntafélags um hella í Selvogsþingi. Jón segir Bjargarhelli álíka stóran og Strandarhelli, sem Jón segir taka 200 fjár.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Engar fornleifar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafa komið í ljós í Selvogi. Erfitt er að spá um upphaf byggðar í Selvogi vegna hinna miklu landspjalla sem þar hafa orðið síðustu aldir. Þar virðast hafa verið tvö hverfi, í kringum Nes og Strönd, og þéttbýli mikið, svo að tún flestra eða allra jarðanna lágu saman. Í kringum Hlíðarvatn og í Herdísarvík eru svo stakar meðaljarðir sem sennilega hafa byggst ívið seinna en býli í Strandar- og Neshverfum.

Hlíðardalur

Tóft Erlends í Hlíðardal.

Á 11. öld reistu efnaðri bændur og höfðingjar kirkjur og bænhús á jörðum sínum, t.d. á Nesi og Strönd. Aðeins er vitað um eitt bænhús, í Herdísarvík, en líklegt má telja að þau hafi verið víðar. Kirkjurnar sem vitað er um eru á öllum dýrustu jörðunum og eru einnig með nokkuð jöfnu millibili en miðað við fjölda býla eru tiltölulega fáar kirkjur í kringum. Í kringum 1000 bjuggu höfðingjar á Hjalla, Þóroddur goði og sonur hans Skapti lögsögumaður, sem samkvæmt Ara fróða var mesti áhrifamaður á Íslandi í byrjun 11. aldar. Þess hefur verið getið til að undir lok 13. aldar hafi Nes í Selvogi orðið bústaður höfðingja. Maður að nafni Finnur Bjarnason byggði þar nýja kirkju á seinni hluta 13. aldar og var hann af höfðingjaættum: Eftir hann bjó í Nesi Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), faðir Hauks lögmanns og bókagerðarmanns. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 – að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða. Næsta lítið er vitað um byggð í Selvogi á síðmiðöldum.

Bjargarhellir

Bjargarhellir – uppdráttur ÓSÁ.

Margra jarða í Ölfusi er hvergi getið í skjölum fyrr en í jarðabókum 17. aldar og er það óvenjulegt. Skýringin gæti legið í því að mjög margar af jörðunum í Ölfusi, einkum um austanverða sveitina, hafi snemma komist undir Skálholtskirkju – mögulega þegar á 12. eða 13. öld, en jarðabækur stólsins frá miðöldum hafa ekki varðveist. 16. öldin var einskonar blómaskeið Selvogs. Þá bjuggu þar stórhöfðingjar áratugum saman, einkum í Selvogi, og mjög mikið fer fyrir útgerð Skálholtsbiskupa frá Þorlákshöfn, Selvogi og Herdísarvík í skjölum frá þessum tíma. Byggð í Selvogi fór hinsvegar mjög hnignandi í kjölfar 17. aldar. Þar eyddist land vegna sandfoks, tún Strandar og nærliggjandi jarða voru smátt og smátt beinlínis kaffærð í sandi og var öll byggð eydd í Strandarhverfi um 1750.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.
Hér má m.a sjá Fornagarð umlykja neðanverða byggðina.

Í Jarðabók Árna og Páls sem tekin var saman á árunum 1706 og 1708 á þessu svæði er víða getið um hjáleigur og afbýli sem höfðu byggst á seinni hluta 17. aldar. Margar fóru fljótlega í eyði aftur í harðindunum um 1700 eða í kjölfar Stórubólu 1707 en önnur héldust í byggð. Engar heimildir eru til sem gefa ástæðu til að ætla að fyrir utan byggðaeyðingu í Selvogi hafi orðið neinar verulegar breytingar í skipulagi byggðar í Ölfusi eða Selvogi fyrr en á þessari [20.] öld.

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra_eima.htm
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson.

Strandarhaed-30

Strandarhellir

Haldið var í Selvog. Staðnæmst var við Bjarnastaðasel. Einn FERLIRsfélaga hafði greinilega unnið heimavinnuna sína og rætt við heimamenn. Hann gekk rakleiðis að klöppinni Fótalaus suðaustan selsins og benti á stafina “LM”, sem klappaðir voru þar. Upp úr klöppinni stendur landamerkjahornstaur bæjanna Ness og Bjarnastaða. Áletrunarinnar er getið í gömlum heimildum, en erfiðlega hefur gengið að finna hana – þangað til nú. Tóftir eru austan og norðaustan við hraunhól vestan klapparinnar, en það hafði fram að þessu verið merkt sem Bjarnastaðasel (Bjarnastaðaból) á kort. Það reyndist hins vegar ekki rétt þegar betur var að gáð (það er mun ofar í heiðinni).

Árnavarða

Árnavarða.

Haldið var að Árnavörðu á Strandarhæð, en hún er norðan Þorlákshafnarvegarins, svolítið ofan og austan við gatnamótin að Selvogi. Varðan, sem er mjög gömul, var endurhlaðinn af Kristófer Bjarnasyni frá Þorkelsgerði, kirkjuverði í Selvogskirkju til margra ára. Hann hefur áður leitt FERLIRsfélaga um Selvoginn og m.a. boðið þeim í kirkjuna til að heyra sögu hennar og skoða dýrgripina, sem eru allt frá því á 13. öld.
Frá Árnavörðu var gengið að hlöðnu smalabyrgi austan vörðu norðvestan hennar. Þaðan var gengið til austurs og skoðaðir tveir skútar, Stóri-Skolli og Litli-Skolli, sem þar eru; annar undir hraunhellu og hinn ofan í sæmilegum grashól.

Bjargarhellir

Innan við op Bjargarhellis.

Báðir þessir skútar hafa verið nefndir til sögunnar er minnst hefur verið hinn sögufræga Bjargarhelli, sem Selvogsbúar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu á nýjan leik. Til þess kom þó ekki og var Bjargarhellir notaður sem fjárhellir. Hellirinn er þarna skammt norðaustan við skútana. Opið er í norðanverðu jarðfalli, sem hlaðið hefur verið um að austanverðu. Hellirinn er vel manngengur, en hann átti að geta vistað um 200 rollur. Ljóst er að svo getur vel hafa verið. Mold er á botni hellisins og miklar mannvistaleifar eru í honum. Hlaðið er fyrir vinstra megin þegar komið er inn, einni framundan og mestar eru hleðslurnar hægra megin.

Bjargarhellir

Gasuppstreymisop í Bjargarhelli.

Hraunrás er upp undir lofti gegnt opinu. Virðist hún liggja eitthvað inn undir hraunið. Í sunnanverðu jarðfallinu er op inn í skúta, sem einnig virðist hafa verið notaður sem fjárskjól. Sá hluti er opinn til endanna.
Þarna norðnorðaustur af er Strandarhellir. Hann er einnig í jarðfalli og sýnum stærri. Opið er einnig í norðanverðu jarðfallinu og umhverfis það að ofanverðu er hlaðið gerði. Hellirinn er einnig með moldargólf og vel manngengur. Í honum eru einnig talsverðar mannvistaleifar.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Sagnir eru um að Strandarhellir hafi átt að ná alllangt inn undir hraunið og svo getur vel verið. Í stað grjóts gætu bændur hafa notað sand til að fylla í op, sem þeir vildu ekki að kindur þeirra leituðu inn í. Rás gæti því hæglega leynst þarna undir einhverjum veggnum.
Norðan Strandarhellis er hóll og umleikis það allstórt hlaðið gerði.
Gengið var til suðvesturs að Gapinu, rúmgóðum fjárhelli. Nafnið er tilkomið vegna þess að þegar komið er að hellinum úr suðri gapir opið við viðkomandi. Fyrir sunnan opið er hlaðinn allstór stekkur, Gapstekkur.

Selvogur - Eima

Landamerki Eimu og Strandar.

Loks var haldið niður í Selvog og litið á merki á klöpp austan við Strandarvör. FERLIRsfélaginn glöggi hafði uppgötvað að þar var klappaður stafurinn “M” og virðist merkið vera mjög gamalt. Það er á mörkum bæjanna Strandar og Eimu. Líklega er ekki langt þangað til að Ægi takist að brjóta klöppina eins og annað þarna við ströndina.
Veður var frábært – sól, lygnt og hiti.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Bjarnastaðaból

Gengið var í fylgd Guðmundar Óskarssonar upp frá Hásteinum eftir að tóttirnar undir þeim höfðu verið skoðaðar sem og LM-merkið á landamerkjasteini er skipti löndum Bjarnastaða og Þorkelsgerðis.

Bjarnastaðasel

Stekkur í Bjarnastaðaseli (-bóli).

Komið var í Bjarnastaðaból og skoðaðar tóttirnar þar sem og hlaðinn stekkur vestan við selið. Selið hefur verið nokkuð stórt. Haldið var til vesturs að Þorkelsstaðaseli, en þar er m.a. að finna tóttir fimm húsa og hlaðinn stekk í hraunhól norðan við selið. Þá var lagt í ´ann til norðvesturs um Selvogsheiði, upp í Eimuból þar sem selið var skoðað, eldri tóttir í grónu jarðfalli sem og Eimuhellir. Einn hluti hans hefur verið notaður sem fjárskjól og í öðrum hluta eru miklar hleðslur, líklega fullhlaðinn stekkur. Sá hluti hellisins gæti hafa verið notaður við fráfærur. Skammt austan við Eimuból eru tóttir Vindássels. Norðan þess er hlaðinn stekkur. Selminjarnar eru sumar hverjar greinilegar, en mjög gamlar.

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

Gengið var til suðurs á Vörðufell þar sem hin mikla Vörðufellsrétt var skoðuð. Þá var litið á Smalavörðurnar og fornt krossmark í steini sunnan undir stóru Vörðufellsvörðunni. Brotnað hefur ofan af steininum, en enn sést vel móta fyrir krossmarkinu. Í örnefnalýsingu er kveðið á um að þarna eigi að vera letrað stafurinn M, sbr. landamerki. Varðan ofan við steininn gegnir hlutverki í lýsingu af viðureign Eiríks galdraprests á Vogsósum og Tyrkja sem og varðan þar fyrir ofan – á Svörtubjörgum.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Strikið var loks tekið niður á Strandarhæð og komið við í Strandarhelli. Hringlaga hleðsla er allt í kringum jarðfallið á Strandarhelli og er hellirinn þar ofan í. Hlaðið gerði er í kringum hól norðvestan við hellinn og einnig er hlaðið stórt hringlaga gerði vestan og sunnan við jarðfallið. Norðan þess eru tveir stórir skútar í hraunhól.
Strandarhellir var skoðaður vel og vandlega. Fyrirhleðslur eru á tveimur stöðum inn í honum. Hægt er að fara yfir hleðslurnar og skríða áfram inn eftir rásunum. Hægri rásin virðist vera vænlegri, en vegna moldar á gólfum var ekki farið þangað innfyrir nú. Þægilegra er að gera það þegar gólfið er frosið um vetur.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Hægra megin í hellinum er hleðsla fyrir mjórri hraunrás. Innan við hleðsluna beygir hún til hægri og stækkar. Hægt er að far inn eftir rásinni, en eftir um 10-15 metra þrengist hún alveg og lokast. Í suðvestanverðu jarðfallinu virðist hins vegar hægt að komast inn undir hraunið og eitthvað áfram. Skríða þarf þar inn, en hvað tekur við þar fyrir innan er ómögulegt að segja. Þetta þarf einnig að skoða nánar. Strandarhellir er í um 15 mín. gangi frá þjóðveginum svo auðvelt ætti að vera að kíkja í hann aftur við tækifæri og þá með viðhlítandi búnað.
Komið var við í Bjargarhelli og hann skoðaður. Fyrirhleðslur eru í honum á tveimur stöðum. (Fjallað hefur verið nokkuð um Bjargarhelli í öðrum FERLIRslýsingum).

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Loks var gengið niður á þjóðveg, framhjá Árnavörðu. Skammt frá henni er hlaðið byrgi fyrir refaskyttu, en þaðan hefur hún haft ágætt útsýni um og niður fyrir Strandarhæð. Skammt norðan vörðunnar liggur gömul þjóðleið vestur og austur um hæðina. Ekki var komið við í Gap (Gaphelli) að þessu sinni, en hann er u.þ.b. 300 metrum vestan við Bjargarhelli. Framan við Gaphelli er Gapstekkur, fallega hlaðinn og heilllegur.
Suðvestan við Bjargarhelli er hola í gróinn hraunhól og þar ofan í er skúti. Sumir segja það þar sé Bjargarhellir, en sú saga fylgir hellinum að í hann hafi fólk úr Selvogi ætlað að flýja ef Tyrkirnir létu sjá sig að nýju. Hella átti að vera við opið, sem hægt var að hylja það með.

Strandarhæð

Strandarhæð – uppdráttur ÓSÁ.

Engin slík hella er á hólnum nú, en gróið gæti hafa yfir hana eða hún tekin í nálæga vörðu. Mold er inni í skútanum, en þrátt fyrir lítið op er innihaldið sæmilega rúmgott. Bjargarhellir hefur þó verið öllu álitlegri til dvalar. Þótt mold sé í botni hans nú er grunnt niður á slétt hraungólfið. Í honum hafa einnig verið vatnspollar, sem gætu hafa komið sér vel, auk þess sem opið er ekki auðfundið ókunnugum.
Suðvestan af hólnum eru tveir litlir skútar – Litli-Skolli og Stóri-Skolli.
Ljóst er að bæði Selvogsheiði og Strandarheiði hafa upp á fjölmarg forvitnilegt að bjóða þeim, sem það nenna að skoða.
Veður var ágætt – hliðarvindur og frískurlegur andblær. Gangan tók u.þ.b. 4 klst.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Vörðufell

Á leið að Strandarhæð var komið við í tóttum bæjarins Fell í Krýsuvík. Tóttirnar eru í gróinni kvos skammt sunnan við Grænavatn, í hæðinni þar sem hún halar til vesturs.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Á Strandarhæð var byrjað á því að skoða Bjargarhelli, helli þann er Selvogsbúar ætluðu að dyljast fyrir Tyrkjum, ef þeir snéru aftur. Skammt austan hans er Gapið, rúmgóður fjárhellir. Umhverfis hann er gerði, Gapstekkur, en umhverfis gerðið er annað ytra gerði. Frá Gapinu var gömlu þjóðleiðinni fylgt þangað til komið var á móts við Strandarhelli. Hann er í norður frá götunni. Hellirinn er gamall fjárhellir, stærstur þeirra, í stóru fjarðfalli. Umhverfis jarðfallið hafa verið hlaðnar miklar hleðslur og umhverfis þær eru vítt hlaðið gerði. Þegar komið er ofan í gróið jarðfallið eru hleðslur fyrir hellismunnanum. Skammt norðan af hellinum er hlaðið stórt gerði umhverfis hól. Þaðan blasir Vörðufellið við. Haldið var í átt að því, en skammt sunnan fellsins er Ólafarsel, mjög gamalt sel í grónum hraunkrika Vörðufellshrauns. Skammt austan við selið er hlaðinn stekkur utan í kletti.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel. Uppdráttur ÓSÁ.

Á Vörðufelli er Markavarða, landamerkjavarða. Undan henni er fornt krossmark á jarðföstum steini. Marks þessa er getið í mjög gömlum heimildum, en þá sem stafurinn „M“. Ástæðan er sprungur í steininum beggja vegna krossins. Ofar eru Smalavörðurnar, en þeim fylgdi sú þjóðtrú að hlæði smali vörðu á fellinu myndi hann umsvifalaust finna það sem týnt væri.
Á Vörðufelli er líka stór hlaðinn rétt, Vörufellsrétt. Norðan út af henni er hlaðinn leiðigarður. Réttin var lögð af seint á fjórð áratug 20. aldar og önnur nýrri þá hlaðinn ofan við Hellsholtið nokkru ofar í heiðinni.

Eimiból

Eimuból – hleðslu í helli.

Austan við Vörðufell eru þrjú sel. Fyrst er komið að Vindásseli, miklum tóttum á hól. Ofar er Eimuból á bakka jarðfalls. Hefur hellir, sem þar er verið nýttur sem fjárhellir, enda má sjá hringlaga hleðslur á og ofan við opið. Skammt sunnar, í grónu ílöngu jarðfalli, er forn tóft. Við það er fjárhellir. Í honum er hlaðinn stekkur.
Skammt austar er Skyrhellir í hraunhól, en þar var skyr seljafólks geymt fyrrum.
Frábært veður.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Eimuból

Gengið var í fylgd Guðmundar Óskarssonar upp frá Hásteinum eftir að tóttirnar undir þeim höfðu verið skoðaðar sem og LM-merkið á landamerkjasteini er skipti löndum Bjarnastaða og Þorkelsgerðis.

Bjarnastaðasel

Í Bjarnastaðaseli.

Komið var í Bjarnastaðaból og skoðaðar tóttirnar þar sem og hlaðinn stekkur vestan við selið. Selið hefur verið nokkuð stórt. Haldið var til vesturs að Þorkelsgerðisseli, en þar er m.a. að finna tóttir fimm húsa og hlaðinn stekk í hraunhól norðan við selið. Þá var lagt í ´ann til norðvesturs um Selvogsheiði, upp í Eimuból þar sem selið var skoðað, eldri tóttir í grónu jarðfalli sem og Eimuhellir. Einn hluti hans hefur verið notaður sem fjárskjól og í öðrum hluta eru miklar hleðslur. Sá hluti hellisins gæti hafa verið notaður við fráfærur og einng sem stekkur. Skammt austan við Eimuból eru tóttir Vindássels. Norðan þess er hlaðinn stekkur.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt.

Gengið var til suðurs á Vörðufell þar sem hin mikla Vörðufellsrétt var skoðuð. Þá var litið á Smalavörðurnar og krossmarkið í steini sunnan undir stóru Vörðufellsvörðunni. Strikið var loks tekið niður á Strandarhæð og komið við í Strandarhelli. Á leiðinni bættist tvennt í hópinn. Hringlaga hleðsla er allt í kringum jarðfallið á Strandarhelli og er hellirinn þar ofan í. Hlaðið gerði er í kringum hól norðvestan við hellinn og einnig er hlaðið stórt hringlaga gerði vestan og sunnan við jarðfallið. Norðan þess eru tveir stórir skútar í hraunhól.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Strandarhellir var skoðaður vel og vandlega. Fyrirhleðslur eru á tveimur stöðum inn í honum. Hægt er að fara yfir hleðslurnar og skríða áfram inn eftir rásunum. Hægri rásin virðist vera vænlegri, en vegna bleytu á gólfum var ekki farið þangað innfyrir nú. Þægilegra er að gera það þegar gólfið verður orðið frosið í vetur. Hægra megin í hellinum er hleðsla fyrir mjórri hraunrás. Innan við hleðsluna beygir hún til hægri og stækkar. Hægt er að fara inn eftir rásinni, en eftir um 10-15 metra þrengist hún alveg og lokast. Í suðvestanverðu jarðfallinu virðist hins vegar hægt að komast inn undir hraunið og eitthvað áfram. Skríða þarf þar inn, en hvað tekur við þar fyrir innan er ómögulegt að segja. Þetta þarf einnig að skoða nánar.

Gapi

Gapi.

Strandarhellir er í um 15 mín. gangi frá þjóðveginum svo auðvelt ætti að vera að kíkja í hann aftur við tækifæri og þá með viðhlítandi búnað.
Komið var við í Bjargarhelli og hann skoðaður. Fyrirhleðslur eru í honum innanverðum á tveimur stöðum.
Loks var gengið niður á þjóðveg, framhjá Árnavörðu.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Ekki var komið við í Gaphelli að þessu sinni, en hann er u.þ.b. 300 metrum vestan við Bjargarhelli. Suðvestan við Bjargarhelli er hola í gróinn hraunhól og þar ofan í er skúti. Við opið er hraunhella. Sagan segir að í þennan skúta hafi Selvogsbúar ætlað að flyja ef Tyrkir létu sjá sig. Einnig eru tveir litlir skútar suðvestan af hólnum – Litli Skolli og Stóri Skolli.
Ljóst er að bæði Selvogsheiði og Strandarheiði hafa upp á fjölmarg forvitnilegt að bjóða þeim, sem það nenna að skoða.

Strandarhellir

Strandarhellir – uppdráttur ÓSÁ.

Bjargarhellir

Farið var á ný í Bjargarhelli. Eins og fram kemur í öðrum lýsingum af Bjargarhelli hafði mikið og lengi verið reynt að finna hina þjóðsagnakenndu rás inn úr framhellinum. FERLIR tókst það þó að lokum og með dyggri aðstoð fulltrúa HERFÍs náðist að opna rásina og komast inn í hellinn.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Eftir að hafa skoðað hina nýopnuðu rás inn og niður úr hellinum að þessu sinni var ljóst að gera þurfti ráðstafanir áður en farið væri niður. Fara þurfti í gegnum mikla mold og drullu áður en komið var í gegn. Því var haldið að Vogsósum og hús tekið á Þórarni Snorrasyni. Hjá honum var drukkið kaffi og eftir spjall var heyrúlluplast þegið í eftirrétt. Með því var opið í Bjargarhelli fóðrað áður en haldið var niður. Þegar inn var komið blasti dýrðin við.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Um er að ræða stóran geimi og raða háir dropasteinar sér með veggjum, allt að 60 cm háir. Í innsta hlutanum er hraunstráabreiða niður úr hellisþakinu. Á miðju gólfi eru glæsileg hraundríli. Rósaflúr er á gólfi. Utast er þakið fallið niður. Skriðið var yfir hrunið og var þá komið í víða lokaða hliðarrás. Í henni voru hraunstrá og dropasteinar með veggjum. Rásin virðist lokið handan hrunsins, en hún stefnir í átt að Strandarhelli. Forvitnilegt væri við tækifæri að fara þangað og líta nánar á gólfið í hellinum. Ekki er ólíklegt að þar kunni annað op að leynast.
Ljóst er að Bjargarhellir er með fallegri hellum á Reykjanesskaganum.
Sjá MYNDIR.

Bjargarhellir

Bjargarhellir.

Bjargarhellir

Haldið var að Bjargarhelli á Strandarheiði. Svart sólskinið lék um heiðina, logn og 5 °C hiti. Í myrkrinu var mið tekið af Nesvita í suðaustri og upplýstri Strandarkirkju í suðvestri. Og með FERLIRshúfuna var tiltölulega auðvelt að finna hellinn, sem er í 410 metra fjarlægð frá veginum.

Bjargarhellir

Innan við op Bjargarhellis.

Gömul sögn er um langa hraunrás inn úr Strandarhelli, sem um 400 metrum ofar, en bent hefur verið á þar geti hafa verið átt við Bjargarhelli. Hellar þessir eru nokkuð líkir og því auðvelt fyrir þá, sem ekki voru vel kunnugir á heiðinni, að villast á þeim. Búið var að kanna með hugsanlega rás úr Strandahelli en engin fannst í það sinnið.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Bjargarhellir er nokkuð rúmgóður fjárhellir. Umhverfis gróið jarðfallið, sem hann er í, er gamall jarðlægur garður. Fyrst var hugað að fyrirhleðslu norðaustan til undir vegg hellisins. Ekkert op var þar að finna. Þá var skoðað á bak við langa fyrirhleðslu sunnan og inn í honum. Þar var heldur ekkert op að sjá. Ekki var þörf á að hreyfa við hleðslunum til að ganga úr skugga um þetta. Þá var staldrað við, íhugað og hugsað, eins og svo algengt er í betri FERLIRsferðum.

Bjargarhellir

Gasuppstreymisop í Bjargarhelli.

Bjargarhellir hafði greinilega myndast í miklu gasuppstreymi. Tvö útstreymisop eru greinileg upp undir lofti í vestanverðum hellinum svo augljóst var að gasið hefur komið einhvers staðar inn að neðan og myndað hvelfinguna áður en það fór út aftur.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Þagað var um stund, hugsað og gaumgæft – og sjá. Athugul augu komu auga á að gólfið á einum stað neðan við uppstreymisopið var ekki eins og annars staðar í hellinum. Var því byrjað á að færa til grjót í moldargólfinu.

Bjargarhellir

Grjót í opi neðri hluta Bjargarhellis.

Fljótlega kom í ljós rás, sem greinilega hafði verið fyllt upp í undir veggnum – undir gólfinu. Náðist að hreinsa nokkuð upp frá opinu, en eftir stóðu 3-4 steinar, sem verkfæri þurfti til að ná upp. Sást ofan í rásina þar sem hún liggur undir vegginn til norðnorðvesturs.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Eftir nokkurt erfiði í blautu moldardrullumalli virtist opið inn vera orðið nógu vítt til þess að hægt væri að skríða þar inn þegar búið var að hreinsa upp frá því. Þegar verið var að hreyfa til stóra grjótið, og það hrundi niður, glumdi í eins og í tómri tunnu uns bergmálið dó einhvers inn undir hrauninu – niðri í iðrum jarðar.
Síðar kom í ljós að ályktunin og allt erfiðið reyndist rétt, sbr. meðfylgjandi myndir….
Bjargarhellir

Opið niður í neðri hluta Bjargarhellis er óárennilegt.

Arngrímshellir

Á Reykjanesskaganum eru þekktir um 600 hellar og skjól. Líklega er rúmlega fjórðungur þeirra með einhverjum mannvistarleifum, enda náttúrulegir skútar og skjól jafnan verið notað undir fé eða annað frá upphafi byggðar hér á landi. Einnig má finna í hellum bæli, hleðslur og annað, sem telja má mannanna verk.

Húshellir

Í Húshelli.

Hellarannsóknarfélaginu er kunnugt um alla kunna hella og skjól á svæðinu. Einnig hvað í þeim er að finna. Mörg skjólanna hafa hins vegar aldrei verið skráð sem fornleifar þrátt fyrir skilgreiningu Þjóðminjalöganna, þar sem segir að „til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem byggðaleifar í hellum og skútum, staðir með þjóðsagnahefð og áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum.“
Skv. framangreindu mætti skipta hellum, skútum og skjólum á Reykjanesskaganum í tvo flokka, þ.e. a) án fornleifa og b) með fornleifum sbr. framangreint. Síðarnefnda flokkunum væri síðan hægt að skipta í tvo undirflokka; I) hella með titeknum mannvistarleifum, s.s. hleðslum, áletrunum, bælum o.fl. og II) þjóðsagnakennda hella.

Bjargarhellir

Bjargarhellir – hleðslur.

Undir síðarnefnda aðalflokkinn teljast u.þ.b. 100 fjárskjól á Reykjanesskaganum. Mörg þeirra hafa verið í notkun fram yfir aldamótin 1900. Má þar nefna Strandarhelli, Bjargarhelli, Gaphelli, Eimuból og Strandarselsból á Strandarheiði, Fjallsendahelli, Stekkshellir og Litlalandshelli í Ölfusi, Breiðabáshelli og Seljabótarhelli í Herdísarvíkurhrauni, Arngrímshelli (Gvendarhelli) og Krýsuvíkurhelli í Klofningum, fjárskjól í Bæjarfelli, Arnarfelli, við Vigdísarvelli og Ísólfsskála sem og í Katlahrauni, Fjárhella í Kálffelli, við Hvassahraun, Lónakot, Óttarsstaði, Straum og Þorbjarnarstaði í Hraunum, fjárskjól ofan við Ás og í Kaldárseli, Selgjá og Búrfellsgjá og þannig mætti lengi telja.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Undir fyrrnefnda undirflokkinn teljast t.d. hellar eins og Gíslhellir við Rauðamel, Gullbringuhellir, Húshellir, Skjólið í Strandarheiði, Oddshellir í Kálffelli, Útilegumannahellar og Brauðhellir í Eldvörpum, Hestshellir og Dátahellir í Arnarseturshrauni, Sæluhúsið undir Lat, Loftsskúti og Brugghellir ofan við Hvassahraun, Helluhellir og Smalahellir við Kleifarvatn og t.d. Áni undir Hlíðarfjalli. Annars er letur og áletranir í mjög fáum hellum á Reykjanesskaganum (borgar sig ekki að upplýsa hvar).
Einn stærsti og fallegasti manngerði niðurgangurinn í helli á svæðinu er í Skjólinu í Strandarheiði og í Þorsteinshelli norðan við Selgjá. Óvíst er í hvaða tilgangi Skjólið var notað, en við það er bæði stekkur, tóft og fjárskjól. Gólfið innanvert er slétt og á því miðju er eitt einasta bein – sem segir svo sem ekkert. Þorsteinshellir er hins vegar augljóst tvískipt fjárskjól.
Undir seinni undirflokkinn teljast t.d. Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurhrauni, Draugshellir í Ölfusi, Draugahellir í Valahnúk, Dauðsmannskúti í Kóngsfelli, Litlihellir við Selfjall, Rauðshellir við Helgafell og Strandarhellir, Dúnknahellir við Hraunssand og Smíðahellir við Selatanga og Sængurkonuhellir í Illahrauni.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Ljóst er að mannvistarleifar í hellum á Reykjanesskaganum hljóta að tengjast bæði fjárbúskap og ferðum manna á milli byggðalaga. Auk þess tengjast þeir athöfnum manna, s.s. veiðum, hvort sem um var að ræða rúpna-, refa- eða hreindýraveiðum. Minjar alls þessa má sjá í hellunum. Hellarnir og skjólin eru þess vegna tilvalin rannsóknarefni fyrir áhugasama fornleifa- og/eða þjóðfræðinga á höfðuborgarsvæðinu, sem ekki vilja fara of langt til efnisöflunar.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Minna má á að ekki er langt síðan að FERLIRsfélagar fundu niðurgang í Bjargarhelli. Um slíkan „gang“ er getið í gömlum þjóðsögum og er þá jafnan átt við Strandarhelli, sem er þar skammt frá. Ekki er ólíklegt að ætla að einhverjir hafi ruglað hellunum saman, enda hvorutveggja fjárskjól. Annars væri fróðlegt fyrir einhvern fræðinginn að taka fyrir „nafnafrávikskenninguna“ í tíma og rúmi. Eflaust gæti ýmisleg nýmæli komið út úr því. Margt óþarflegra hefur verið gert í fræðunum í gegnum tíðina. Með rannsókninni væri hægt að sameina hugmyndir og kenningar í ýmsum fræðigreinum.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Gapi

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1930 er hluti „Úr lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna eftir séra Jón Vestmann, 1840“ undir fyrirsögninni „Skýrslur um hella, teknar úr sóknalýsingum presta, frá þvi um 1840“. Þar fjallar Jón um fjárhellana ofan Selvogs, í Selvogsheiði (Strandarhæð), Sængurkonuhelli í Herdísarvíkurhrauni og fjárskjólin í Krýsuvíkurhrauni austan Krýsuvíkur:

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurhrauni.

„Herdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteinsfjöllunum , engir eru þar hellirar eður stórgjár; — þó er þar 1 hellir, kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn; þessi hellir er annars ekki stór.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: a. Strandarhellir, rúmar 200 fjár. b. Bjargarhellir, álíka stór. c. Gapi, tekur um 60 kindur. d. Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug. Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. —

Gvendarhellir

Gvendarhellir – Hús Krýsuvíkur-Gvendar framan við hellismunnann.

Í hengisfönninni framaní bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni framaf berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. — Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. —

Gvendarhellir

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.
Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og al-þiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn. Hlóð af honum með þvervegg. Bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.“

Fjárskjólshraun

Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.

Einhverra hluta vegna gat Jón Vestmann ekki um fjárskjólið góða skammt suðaustan við nefndan helli Arngríms og Guðmundar í Fjárskjólshrauni. Ekki er útilokað, vegna þess hversu stutt er á milli fjárskjólanna, að það austara hafi verið athvarf Arngríms, enda mun nær Krýsuvíkurbergi og aðgengilegra að því þaðan og aðgengi að berginu auðveldara. Inni í fjárskjólinu ú Fjárskjólshrauni er hlaðið athvarf fyrir smala, sem nú hefur að nokkru fallið saman.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1930, Skýrslur um hella, teknar úr sóknalýsingum presta, frá þvi um 1840 – Úr lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna eftir séra Jón Vestmann 1840, bls. 76.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunsskjóli í Fjárskjólshrauni.

Tag Archive for: Bjargarhellir