Færslur

Þórkötlustaðahverfi

Gengið var um Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Heródes

Heródes.

Árið 1703 voru Þórkötlustaðir eign Skálholtsstaðar. Bærinn hafði selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. Hjáleigur voru; Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Buðlunga og tómthúsið Borgarkot. Ekki er vitað hvar Ormshús eða Borgarkot voru. Áður var hjáleigan kölluð Lundun. Árið 1847 hafði hjáleigan Lambúskot bæst við, en 8. ágúst 1787 og síðan 26. janúar 1791 voru Þórkötlustaðir komnir í þrjá hluta (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). Þríbýli var á Þórkötlustöðum lengst af á 19. öldinni. Heimræði var árið um kring (1703), en enga engjar. Sjórinn gekk á túnið og braut land að framan. Árið 1840 eru túnin stór og slétt, en hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. Þar var og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst á nesinu var fyrrum selalátur frá Þórkötlustöðum. Mikið af landinu er eldbrunnið og bæirnir stóðu austast í landareigninni við sjóinn. Land jarðarinna var frekar mjótt, en nokkuð langt. Lending var dágóð á Þórkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi voru í Nesinu.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Nú eru Þórkötlustaðabæirnir tveir, Miðbær og Vestari-Vesturbær. Áður voru þarna einnig Vesturbær, sem stóð á milli Miðbæjar og Vestri-Vesturbæjar, og síðan Austurbær og Eystri-Austurbær, sem báðir stóðu austan við Miðbæinn.
Áður en Sigmundur Jónasson tók við búi á Þórkötlustöðum á 17. öld voru öll hús á jörðinni skoðuð og metin… “níu vistarverur innabæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, “hornhús”, “hús innar af skála” og eldhús. Útíhús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn fram á nesinu. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir “trosnaðir” og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skrár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlausar og virðast hvorki halda vatni né vindi.”

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Í rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902 segir Brynjúlfur Jónsson að “á Þórkötlustöðum í Grindavík var byggð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Eldfjallaska ofan á gólfskálinni bendir til þess, að bærinn hafi lagst í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má vera að hraunið, sem myndar Þórkötlustaðanes og runnið hefur á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.” Samkvæmt hugmynd Brynjúlfs virðist þarna hafa verið um fornaldaskála að ræða. Nú hefur hlaðan verið rifin og svæðið stendur tilbúið til uppgraftar, þ.e.a.s. ef einhver hefur þá yfirleitt einhvern áhuga á að skoða undirlag svæðisins.

Klöpp

Klöpp – tóftir.

Tóftir eru skammt vestan við Sólbakka. Þær eru nýlegar fjárhúsleifar frá Hofi. Fjárhúsin suðvestan við Vestari-Vesturbæ voru áður fjárhús og fiskverkunarhús frá Vesturbænum. Þar áður voru þarna fiskhús frá Duus-versluninni í Keflavík og Lafollie-versluninni á Eyrabakka skammt vestar. Annars eru þarna gamlir kálgarðar allt um kring. Sunnan við Miðbæinn voru áður fjárhús og saltverkunarhús frá Miðbænum. Austan við þau voru fiskverkunar- og salthús frá Vestari-Austurbæ. Traðirnar liggja þarna niður að sjó milli bæjanna. Vestan í austasta kálgarðinum var fiskverkunar- og salthús frá Eystri-Austurbænum.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Samkvæmt túnkorti frá 1918 var brunnur skammt (40 m) norðan við Miðbæ. Að honum lá gata frá Einlandi. Brunnurinn var notaður af öllum bæjunum. Nú sést móta fyrir brunninum í malbikuðum veginum framan við hliðið að Valhöll (áður en malbikið var endunýjað).
Á milli Valhallar og Miðbæjarins eru tvær bárujárnsklæddar skemmur. Sunnan í syðri skemmunni er hesthústóft. Nyrðri skemman er flór, skv. uppl. Margrétar á Hofi, en sú syðri var ýmist notuð sem fjós eða hesthús.
Kálgarðar eru víða í Þórkötlustaðahverfi, sem fyrr segir. Skv. túnakorti frá 1918 var t.d. kálgarður 50 m vestan við Lambúskot. Garðurinn var frá Eystri-Vesturbæ. Veggirnir hafa verið grjóthlaðnir, þ.e. uppkastið úr túnsléttunni notað til vegghleðslu. Oftast var grjóti, sem týnt var úr móanum, hlaðið í hrauka eða í garða ef því var við komið. Flestar túnbæturnar ofar í hverfinu eru tiltölulega nýlegar því ræktunarmörkin voru til skamms tíma rétt ofan við veginn í gegnum hverfið. Þá var t.a.m. Þórkötludys við mörkin.

Buðlunga

Buðlunguvör.

Klöpp var hjáleiga frá Þórkötlustöðum skv. Jarðabók JÁM 1703. Tóftirnar eru enn greinilegar. Þær eru tvær, báðar vel heillegar. Hleðslur eru úr torfi og grjóti. Grjótið er að einhverju leyti tilhöggvið. Sunnan bæjartóftanna er tröð, um 10 metra langar, suður á kampinn, sbr. síðargreint (austasta sjávargatan).
Móar voru norðan við Einland. Þar eru nú mikar hleðslur um afmarkaða kálgarða. Bærinn var syðst í görðunum. FERLIR mun fljótlega fara með heimamanni um tóftir Móa. Þá verður rústunum þar lýst bæði vel og skilmerkilega. Þegar Móastæðið er skoðað vakti hleðsla, lík sléttum hól, athygli. Hún er um 10 metrum sunnan við eystri kálgarðaþyrpinguna að Móum, í sléttuðu túni. Þar voru fjárhús.

Klöpp

Gamla Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.

Fjárhústóftir eru í túninu austan við Buðlungu. Umhverfis tóftirnar er óslétt tún, en fast sunnan þeirra er stórgrýttur sjávarkambur. Um 6 m austan við tóftirnar er gjóthlaðinn túngarður í norður-suður. Sjávarkamburinn er kominn alveg upp að tóftunum að sunnanverðu.
Í örnefnaskrá AG segir: “Austast á merkjum mót Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás… Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndir Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallending, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi”.

Guðsteinn Einarsson segir í lýsingu sinni að “austan við Bótina í klettunum niður af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlunguvör.

Þórkötlustaðanesi

Fiskigarðar ofan Kónga.

Meðan árabátaranir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært vera, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist þegar vélar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.” Ef gengið er suður traðirnar milli Miðbæjar og Vestaði-Vesturbæjar, sem enn standa á Þórkötlustaðatorfunni, fram á kampinn og þá lítið eitt austar, gengur klöpp í suðsuðaustur fram í sjó. Austan við klöppina er lygnara en þar er lendingi í Buðlunguvör.” Engin mannvirki eru þarna við sjóinn önnur en ryðgaðir festarboltar.

Þórkötlustaðahverfi

Sundvarða ofan Þórkötlustaða.

Sundvarðan ofan við Buðlunguvör var neðst í túninu, suðvestur frá húsinu. Sjórinn lagði vörðuna reglulega útaf, en hún var alltaf endurhlaðin á meðan lent var í Buðlunguvör [eða fram til 1929. Buðlunguvör var einkum notuð af Þórkötlustaðabæjunum að sumarlagi]. Nú hefur sjórinn hins vegar tekið vörðuna. Sundvarða í Buðlungu átti að bera í fjós og lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru nöfn boðanna dregin.
Fast norðan við bárujárnsskúr austan við Buðlungu er fjárhústóft, sem nú er orðin jarðlæg.
Randeiðarstígur var gata milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hún farin áður fyrr, en aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna”, segir í örnefnaskrá LJ.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Tóftir Hraunkots eru austast í túninu, við túngarðinn. Götur milli Hrauns og Þórkötlustaða lágu í austur-vestur í gegnum hraunið með stefnu á kotið. Það sér móta fyrir Hraunkotsgötu (sunnar) og Þórkötlustaðagötu (norðar) í hrauninu austan Hraunkots og best í landi Hrauns. Hins vegar eru þær horfnar í túninu vestan kotsins.
Austast á merkjum móti Hrauni er bás inn í klettna er heitir Markbás. Þar utar er tangi er gengur fram í sjó og heitir Slok og upp af honum er Slokahraun. Nafnið er tilkomið af slokrhljóðinu er báran skall undir hraunhelluna á tanganum. Þar ofar er Markhóll, smáhóll upphlaðinn á Leiti milli bæjanna. Þarna eru tveir hólar, grónir í toppinn, alveg á kampinum og er Markhól sá syðri af þeim. Girðing liggur þarna í suður frá Austurvegi með stefnu á hólinn. Umhverfis hólinn er úfið mosagróið hraun. Hann er um 7 m hár og sker sig greinilega frá umhverfinu.
Eyvindarhús voru um 100 m vestan við Búðir. Þar er nú steyptur grunnur á smá bungu í sléttuðu túni. Árið 1703 er getið um Eyvindarhús sem hjáleigu. Árið 1918 er einnig etið um Eyvindarstaði sem kot í norðvesturhorni Þórkötlustaðatúns. Þar stóð síðast timburhús, en það ásamt Miðhúsum var flutt í Járngerðarstaðahverfi um 1950.

Þórkötlustaðahverfi

Valhöll í Þórkötlustaðhverfi. Helgi Andersen stendur þar sem brunnurinn var.

Tómthúsið Borgarkot stóð fyrir norðan bæinn vestasta. Ekki er vitað hvar býlið var, sem fyrr segir, en líklegt er að það hafi staðið vestan við Valhöll, vestan við Brunnskákina svonefndu. Hún var ofan við Þórkötlustaðbrunninn, sem nú er undir malbikinu framan við hliðið að Valhöll. Hann var fallega hlaðinn, en var fylltur möl til að forðast slysum líkt og títt var um slíka brunna.
Tl fróðleiks má geta þess að þurrabúðir eða tómthús voru reist úr jörðum bæjanna, s.s. Hraunkot úr landi Klappar. Vermönnum var gjarnan leift að byggja sér hús í jarðri bæjanna ef það kom ekki niður á landkostum. Þeir ræktuðu skika umhvergis, endurgerðu húsakostinn og smám saman urðu húsin að kotum. Í rauninni eignaðist þurrabúðarfólkið aldrei skikana, en vegna afskiptaleysis afkomendanna má segja að þegjandi samþykki hafi fengist fyrir eignarhaldinu.
Slokahraun er á merkum Þórkötlustaðahverfis og Hrauns. Þar eru leifar fiskigarða og það mikið af þeim. Slokahraun er austan við sjávarkampinn frá Þórkötlustöðum. Það er mosagróið apalhraun.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi.

Garðarnir eru hlaðnir úr hraungrýti og liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið munstur. Þeir eru mosagrónir, en misvel standandi. Hleðsluhæðin er milli 0,5-1,0 m. Garðarnir teygja sig allt austur að Markhól, en eru þá í Hraunslandi.
Á milli Vestari-Vesturbæjar og Miðbæjar eru traðir suður að sjávarkampi. Hlaðnir kálgarðar eru beggja vegna traðanna. Traðrinar eru 30 m langar og um 3 m breiðar, Hleðslurnar eru grjóthlaðnar, en allgrónar á köflum. Traðirnar, eða sjávargöturnar, í Þórkötlustaðahverfi voru þrjár. Sú austasta er beint neðan við elsta Klapparbæinn (flóruð), önnur er neðan við Miðbæ og sú vestasta er framangreind. Gamli Klapparbærinn stóð skammt sunnar og austan sjávargötunnar. Tóftir sjást enn.

Þórkötlustaðir

Heródes – áletrun.

Álagasteinninn Heródes er vestan traðanna, innan garðs Vestari-Vesturbæjar. Sagnir eru um steininn þann að hann megi hvorki færa né raska á nokkurn hátt. Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstaf eða tákn.
Nokkrir kálgarðar eru sunnan Þórkötlustaðabæjanna, flestir hlaðnir. Sunnan þeirra eru fjárhúsin.
Ef við færum okkur svolítið ofar í hverfið verður fyrir Gamla-rétt. Um 350 m norður af bæjarhól í hraunjaðrinum norðvestan við Efra-Land er grasbali inn í hraunið. Í honum, við túngarðinn, er hlaðin kró, sem nefnd er Gamla-rétt. Sunnan við balann er sléttað tún, en hraun norðan við hann. Um hraunið, fast norðan túngarðsins, liggur Austurvegur í austur-vestur. Vel má sjá hann liggja út frá gamla garðhliðinu vestan við Hraun.
Hvammur er um 100 m austan við Efra-Land, fast norðaustan við Þórsmörk.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – ískofi.

Hraunkot er austast við túngarðinn á Þórkötlustaðabæjunum, fast við fyrrnefndar hleðslur í Slokahrauni. Tóftirnar eru á litlum hól austast á túninu upp við túngarðinn. Efst og austast eru tvær tóftir. Grjóthlaðnar tröppur eru niður í garðinn. Vestan við garðinn miðjan er dálítil dæld í túninu. Hraunkot er ágætt dæmi um þurrabúð eða tómhús í Grindavík. Venjulega gekk það þannig fyrir sig að vermaður fékk leyfi til að byggja sér hús í jaðri jarðar, sem hann grjóthreinsaði í kringum, komst yfir hænu, kind eða kú, eignaðist konu, krakka og kött og allt óx þetta upp í kot. Í rauninni áttu hann aldrei blettinn undir húsinu eða í kringum það, en fékk að vera þar ef það truflaði ekki jarðeigandann. Afkomendurnir urðu hins vera ráðríkir á skikann, endurbætu híbýli og bættu við fé.

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Þórkötlustaðahverfi væri lítils virði án Þórkötlu. Þjóðsagan segir að “Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.”
Í örnefnalýsingum segir að “í túninu austur af bæ er sagt sé leiði Þórkötlu.” Samkvæmt lýsingum elstu heimamanna, s.s. Sigurðar Gíslasonar á Hrauni, er það í öðrum (eystri) að tveimur grashólum í túninu austan við Hof. Staðsetningin passar vel við þá sögn að sú gamla hafi viljað láta dysja sig í túninu þar sem sæi yfir sundið (Bótina).

Eyrargata

Eyrargata.

Járngerðardysin mun vera undir veginum við Hlið og Þórkötludys mun vera á framangreindum stað. Sá, sem vildi raska þeirri sögu með einhverjum hætti, þætti hugaður í meira lagi, ef tekið er mið af þeim brögðum er slíkir menn hafa beitt í gegnum aldir.
Þegar litið er á upplandið er fróðlegt að huga að inum gömlu þjóðleiðum. Þar segir m.a. um Skógfellastig eða Vogaveg: “Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima… Dalahraun. Það hraun eru fremur mishæðalítið, nema þar rís norður allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellavegur, stundum nefndur Vogavegur. Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi”, segir í örnefnaskrá LJ, “en afleggjari er af Skógfellavegi til Hóps og Járngerðarstaðahverfis.
Eyrargötunni var fylgt út á Þórkötlustaðanesið. Hún sést sumstaðar enn. Gömul gata, sem enn sést, liggur og áfram vestur af nesinu um norðanvert Strýthólahraun.

Austur af vitanum á Nesinu er Leiftrunarhóll. Framan af honum er Stekkjarfjara. Upp af Stekkjarfjörunni, á milli Leifrunarhóls og Þórshamars, er Stekkjartún… Það er gróið, en grýtt graslendi, mjög óslétt. Það nær að Flæðitjörn. Í Stekkjartúni eru nokkrar tóftir, einhverjar þeirra eru þó ungar frá því búið var Í Nesinu.

Þórkötlustaðanes

Fiskigarðar á Nesinu.

Vestan Flæðitjarnar eru hlaðnir grjótgarðar, Hraungarðar. Þeir eru í úfu hrauni, uppgrónu að hluta. Hraunsmenn þurrkuðu þar skreið þegar þeir lentu í Nesvör, segir í örnefnalýsingu. Garðarnir liggja þarna um allt og virðast ekki fylgja neinu ákveðnu mynstri. Þeir voru hlaðnir úr hraungrýti, fallnir að miklu leyti.
Skotti er nokkur stór pollur ofan kampsins, norðan Nesvarar, og þar noðrur af er hóll, flattur að ofan með hlöðnum grjótgörðum, kallaður Krabbagerði. Krabbagerði er um 70 m austan við rústir Hafnar, sem var nyrsti bærinn í Nesinu. Hóllinn sjálfur er gróinn og allt umhverfis hann, nema til austurs þar sem stórgrýttur kampurinn skríður inn í landið. Hleðslur eru alveg fallnar og virðist sem grjót hafi verið fjarlægt úr þeim. Af þeim má hins vegar sjá hvernig mynstrið var, þ.e. líklega sex aðskildir garðar í austur-vestur.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Nesvör var niður og norðan við Leiftrunarhól, norðan Stekkjarfjöru. Nesvörin var svo nefnd til aðgreiningar frá Buðlungavör. Upp af Vörinni og norðan við Flæðitjörn er Sundvörðuhóll. Þar stendur Sundvarða. Nesvör er u.þ.b. í miðju Þórkötlustaðanesi austanverðu, um 100 m sunnan rústanna af Höfn, sem var nyrsti bærinn í Nesinu. Guðsteinn Einarsson segir m.a. um Nesið: “Meðan árabátarnir voru, var Buðlungavör notuð, alltaf þegar fært var, en í öllu misjöfnu var lent í Nesinu, sem kallað var. Þegar vélar komu í bátana var eingöngu lent í Nesinu. Þarna eru steyptar leifar bryggjunnar (reist 1932-3), nú uppfullar af grjóti, sem sjórinn hefur rutt upp í þær.
Látrargötur voru slóðar úr vesturenda Stekkjartúns í Látur. Slóðirnir liggja í grónu túni, en einnig móta fyrir þeim í hrauninu sunnan við túnið. Göturnar eru ekki sérlega djúpar, en afar greinilegar, allt að fjórir paldrar saman.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Framundan Krabbagerði í flæðamálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir, nefndar Draugar. Þar norður af er vík, Herdísarvík. Upp af henni í norðurenda eru klettahólar, sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun og inn undir miðju nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn, sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er lægð, sem heitir Gjáhólslægð. Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðri-bót og síðan Heimri-bót. Upp af Heimri-bót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Eftir þeim liggur vegurinn um Nesið. Austur af Heimri-bót taka við Vötnin, svartar klappir. Þar rennur ósalt vatn um fjöru.

Látrargötur

Látrargötur.

Brunnflatir voru áður söndugar, en eru nú uppgrónar allt vestur í hraunið. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Í norðurnenda Brunnflata, um 100 m sunnan hraðfrystihússins og um 50 m vestan kampsins, er gróin hringlaga gróp, um 1 m í þvermál. Umhverfis hana er talsvert af grjóti, gróið í svörðin. Óvíst er hvort þetta eru leifar brunnsins því skv. örnefnaskrá var hann við kampinn og má vera að hann sé löngu kominn undir hann. Eftir lýsingum elstu núlifandi manna virðist brunnurinn þó enn vera sjáanlegur ofan við kampinn.
Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norðurenda Gjáhólsgjáar, í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata, en lítið markar fyrir henni nú.
Norðarlega í Þórkötlustaðanesi er pípuhlið á veginum sem liggur suður í Nesið. Kálgarðar eru í grónum grýttum tanga, sem gengur þar til austurs.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

Við bryggjuna í Nesvör í Þórkötlustaðanesi eru tvær sundvörður. Vörðurnar eru í grónu, en sósléttu og grýttu túni norðan við rústir Þórshamars, sem er sysða húsarústin í Nesinu. Eystri varðan er fast vestan við leindinguna í Vörina norðaustur af Þórshamri, fast við sjávarkambinn. Sú vestari er um 50 m vestsuðvestur.
Sunnan við Nesvör er gróið en grýtt tún, Stekkjatún. Sunnan og suðaustan við úfið mosagróið hraun. Í hrauninu eru ótal rústir hleðslubyrgja og hleðslugarða. Byrgin virðast vera um 2×2 m að stærð og er skammt á milli þeirra.
Pétur Guðjónsson, skipstjóri, lýsir vel mannvirkjum ofan við Nesvörð í Sjómannablaði Grindavíkur árið 2004. Þar er sérhver ískofi og beitningaskúr tíundaður, lifrabræðslan sem og saltkofar á svæðinu.

Þórkötludys

Þórkötludys.

Kálgarður er sunnan við Þórshamar. Þar er og skrúðgarður. Tóftir eru austan við húsið. Útishúsið stendur þar enn, nokkuð heillegt. Merkasta tóftin er gerði utan um manngerðan hól, sem óvíst er hvað hefur að geyma. Líklegt má telja að þessar minjar sem og þurrkbyrgin í Strýthólahrauni skammt vestar séu með elstu mannvirkjum á Nesinu.
Austnorðaustan við Þórshamar er Flæðitjörn. Meðfram henni sunnanverðir liggur heimreiðin, upphlaðin að hluta, á um 50 metra löngum kafla. Hleðslan er um 2 metra breið.
Minjarnar í Þórkötlustaðahverfi eru “óður um fátækt og óupplýst fólk, sem bjó yfir miklu viti og djúpum tilfinningum.”

Sjá meira undir Þórkötlustaðarhverfi II.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Jarðabók ÁM 1703.
-Fornleifaskráning í Grindavík.
-Jón Árnason IV 231.
-Örnefnalýsing.

Við Þórkötlustaðarétt

Fé við Þórkötlustaðarétt.

Fuglaþúfa
Gengið var um Flekkuvíkurheiði um Miðmundarhóla, Arnarvörðu, Tvívörðuhól og áfram niður og norðvestur heiðina áleiðis að Réttartöngum vestan Keilisness. Gróðureyðingin er nokkur á heiðinni, en þó má víða sjá geldingarhnapp, blóðberg og lambagras vera að festa rætur í moldardældum á vindsorfnum melum. Það sem vekur mesta athygli á þessu svæði eru reglulegar fuglaþúfur, háar og stæðilegar. Þær gefa til kynna að þarna hafi verið kjörlendi mófugla um allnokkurt skeið. Þúfurnar hafa löngum verið yfirlitsstaðir spóa, kjóa, stelks, tjalds og smærri fugla, en auk þess hefur mávurinn nýtt sér aðstöðuna í heiðinni. Stundum hafa þúfur þessar verið nefndar hundaþúfur af einhverri ástæðu.

Keilisnes

Keilisnes – fornleifayfirlit.

Hundaþúfur voru vel kunnar víða. Sennilega er nafnið til komið vegna merkingaráráttu hunda, en fuglaþúfur eru oft hæstu og jafnvel einu kennileitin í móum og á heiðum.
Miðmundarhólar eru skammt ofan við afleggjarann að Flekkuvík. Þetta er rismikil og falleg hólaþyrping er ber við himinn. Hólarnir eru líklega eyktarmark frá Flekkuvíkurbæjum og ofan þeirra eru Miðmundarlágar. Í þeim er Mundastekkur. Á háheiðinni norðvestur af Miðmundarhólum, nær Strandarveginum, er Arnarvarða, eða hluti hennar, á hól, en við hólinn norðanverðan liggur gamli Almenningsvegurinn. Arnarvarða er á mörkum Flekkuvíkur og Kálftjarnar.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Tvívörðuhóll heitir hóllinn rétt niður og vestur af Arnarvörðu, fast við Strandarveginn. Vestan undir honum er Mundastekkur, sem líklega er frá Flekkuvík. Á hól fast upp af og við Tvívörðuhól er braggagrunnur af einni varðstöð stríðsáranna og að henni liggur greinilegur vegarslóði. Tvívörðuhæð er hæðin þarna kölluð, en Tvívörður voru neðan Strandarvegar. Skammt vestan Tvívörðuhóls eru fallnar hleðslur á tveimur stöðum á lágum klapparhól. Þar sem hæðin er hæst skammt vestar er kallað Hæðin. Á henni er Stefánsvarða, neðan vegar. Í línu til norðurs austan í Hæðinni eru þrjár lágar hæðir. Á hverri þeirra eru fallegar fuglaþúfur. Í línu við þær er hrunin varða á lágri klapparhæð. Hún er í línu við aðra vörðu á hæð ofan Strandarvegar með stefnu í Flekkuvíkurvörina. Keilisnesið er ysta nesið til norðurs, en Réttartangar eru vestar, skammt austan við tóftir Borgarkots.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Í skýrslu, sem Jóhann Óli Hilmarsson vann fyrir Hönnun h.f. í mars 2001, “Fuglalíf við Reykjanesbrautina”, segir m.a. að “geta má eins náttúrufyrirbæris, sem tengist fuglum og er alláberandi víða á vegarstæðinu. Þetta eru fuglaþúfur (sbr. Guðrún Á. Jónsdóttir 2001). Fuglaþúfur einkenna íslenskt landslag og þekkjast hvergi annars staðar svo nokkru nemi. Ekki hefur
verið gerð nein sérstök úttekt á þeim við Reykjanesbraut, dreifingu né öðru, en þær eru sérstaklega áberandi nærri Vogaafleggjara, þar sem ein umferðarbrúin mun rísa.”
Skýrslan fjallar m.a. um fuglalíf á svæðinu, fugla í útrýmingarhættu og fjölda fugla á ákveðnum stöðum. Þá er ljóst að ástæða hefur verið til að tiltaka fuglaþúfur sérstaklega, sem aftur bendir til sérstöðu, eða öllu heldur ásýnd þeirra á heildarmynd umhverfisins á þessu svæði.

Keilisnes

Keilisnes – fuglaþúfa.

Til fróðleiks er þess getið að færuskrúfur vex oft í skjóli fuglnaþúfna. Hann er útbreiddur um allt land, þó algengari á Norðurlandi en á Suðurlandi. Hæruskrúfurinn vex gjarnan á jarðvegsþöktum klettum eða steinum, oft við vörður eða fuglaþúfur. Héluvorblóm vex þar einnig. Það er smávaxin jurt með hélugrá stofnblöð, vegna stjörnuhára sem þekja yfirborð blaðanna. Það vex mjög strjált um landið og vex gjarnan uppi á hæðum, hólkollum eða fjöllum, oft við vörður eða fuglaþúfur.
Í nefndri skýrslu kemur fram að “á válista eru skráðir þeir varpfuglar, sem eru í hættu af ýmsum ástæðum
(Náttúrufræðistofnun 2000). Ernir urpu fyrrum í Arnarkletti í Vatnsleysuvík og Afstapahraun mun hafa heitið Arnstapahraun fram eftir 18. öld, þegar nafn þess breyttist. Ekki er nákvæmlega vitað hvar Arnstapinn var og hvort hann stendur enn (Haukur Jóhannesson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson, munnl. uppl.). Ernir hafa smátt og smátt verið að nema land á gömlum varpstöðum og hafa sést á allra síðustu árum, m.a. í
Kúagerði, en sennilega er óróleiki of mikill á þessum slóðum fyrir hina styggu fugla.

Borgarkot

Borgarkot – rétt.

Hrafnar verpa á nokkrum stöðum nærri Reykjanesbraut. Sá staður sem næstur er brautinni er Virkishólar. Tvö hrafnasetur eru í Hrafnagjá og tvö í Vogastapa. (Kristinn H. Skarphéðinsson o.fl. 1990).
Aðrar válistategundir, sem nefndar hafa verið hér á undan á hugsanlegu áhrifasvæði Reykjanesbrautar eru himbrimi, grágæs, fálki, fjöruspói og svartbakur. Ekki þykir ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum fuglum.”

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Ljóst er að vargurinn hefur tekið sér örugga bólfestu í heiðinni ofan við Borgarkot. Leifar af tveimur hlöðnum refagildrum gefa tilefni til að íhuga hvort ekki væri ástæða til að gefa skolla gamla á nýjan leik tímabundinn séns á svæðinu.
Heiðin ofan við Keilisnes virðist hrá og líflaus, en sá sem gengur um hana að kvöldlagi í sól og stillu verður annarrar skoðunar.
Við Borgarkot eru fjölmargar minjar og sumar hverjar einstakar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-http://216.239.59.104/search?
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.
-http://www.natmus.is/thjodminjar/

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Marhálmur

Þegar gengið var um Borgarkot á Vatnsleysuströnd birtist m.a. enn ein hlaðna refagildran frá því fyrr á tímum, æði heilleg.
VatnsstæðiðAð vísu hafði FERLIR fundið aðra slíka skamt ofar í heiðinni, en láðst að færa hana í þar til gerða skrá um fornminjar á Reykjanesskaga. Úr því hefur verið bætt. Í ferðinni var gengið fram á áður óséð vatnsstæði ofan við Réttartanga, sem ekki er getið í heimildum. Í vatnsstæðinu vex bæði hin hvítasta og þéttbýlasta fífa er sést hefur sem og lófótur, öður nafni marhálmur. Marhálmur er mikilvæg fæða fyrir ýmsa fugla af andaætt, einkum margæs og álft. Hann er einnig þýðingarmikill sem búsvæði fyrir þörunga og hryggleysingja og bindur saman leir- og sandbotn, líkt og melgras gerir á þurru landi. Áður fyrr var búfénaði beitt á marhálm þegar heyfengur var rýr. Þá var hann nýttur sem stopp í sængur og dýnur fyrr á öldum.
KirkjugatanÞegar gengið er frá ofanverðum Bakka inn í Borgarkotslandið verður fyrst fyrir gamla kirkjugatan að Kálfatjörn. Hún sést enn greinilega allt þar til komið er inn á tjanarsvæði ofan við Nausthólsvík.
“Frá Gamla-Bakkarústum sveigist ströndin miklu meira til austurs en áður inn að Garðsendaklöpp. Innan (norðan) við klöppina skerst inn lítil vík, Nausthólsvík. Norðan hennar og gegnt Garðsendaklöpp er stór og hár hóll, er Nausthóll heitir, nú laus við land. Sagt er, að héðan hafi fyrr meir verið verstöð frá Krýsuvík og jafnvel Skálholti, en engan sér þess nú staðinn. Örskammt innan við Nausthól (60-80 m) eru sléttar klappir á kampi og grónir balar. Þar heitir Litli-Nausthóll; upp frá honum um 100 m, eru fjárhústóftir, Helgahús, nefnd eftir þeim er lét reisa þau, Helga kenndan við Tungu í Reykjavík, Þau voru reist um 1920.
MarhálmurSkammt austan fjárhústóftanna (um 60-70) er Kálfatjarnar-vatnsstæði. Það er allstórt, um 100 ferm., en grunnt. Þar þrýtur ekki vatn nema í almestu þurrkasumrum. Nokkru sunnar með sjónum eru Réttir, dálítið nef allgróið. Efst á því eru tveir hólar, litlir um sig, en algrónir, Réttarhólar. Fram af Réttum eru Réttartangar og Réttarhnífill þar fram af. Líklegt telur Ólafur [Erlendsson], að réttir hafi áður verið á Réttartanga, en þess sér nú engan stað utan hvað garðlag er þvert yfir tangann framarlega. Gæti það hafa verið aðhald fyrir skepnur og hafa þá réttirnar staðið framar, en þar hefur sjór brotið landið.” Reyndar er réttin enn til, bæði heilleg og fallega hlaðinn efst í Réttartöngum. Erfitt er þó að koma auga á hana því hún kúrir undir lágu holti.
Fífan“Inn með sjónum frá Réttum er allbreiður bakki, er Breiðafit nefnist. Nær hún að Borgarkotstúni. Ofan við Breiðufit miðja eru 2 hólar allstórir hver upp af öðrum og grónir nokkuð upp. Norðan undir þeim, sem nær er bakkanum, er lítið vatnsstæði, það heitir Vatnssteinar. U.þ.b. 30 m norðvestur af Vatnssteinum sést smá rúst. Þar heitir Skothús. Veggir þess stóðu vel fyrst þegar Ólafur man eftir. Í Skothúsinu var legið bæði fyrir tófu og sjófugli. Skothúsið hefur líklega verið byggt um miðja 19. öld. Innan við Breiðufit tekur við Borgarkotstún, dálítill túnblettur, mestur á lengdina, meðfram sjónum, illþýft og hólótt. Bæjarrústirnar í Borgarkoti eru nálægt miðju túni á bakkanum; brýtur sjór nú framan af þeim. Einnig rótar sjór nú í seinni tíð mjög miklu grjóti upp á bakkann eins og reyndar allsstaðar á Vatnsleysuströnd sunnan Keilisness. Borgarkot mun hafa farið í eyði á 18. öld.
StórgripagirðingTildrög þess eru sögð þau, að eitt sinn er Flekkuvíkurbóndi fór til kirkju á aðfangadagskvöld, kom hann að bóndanum í Borgarkoti, þar sem hann var að skera sauð frá honum. Varð það til þess að koma honum undir mannahendur og lagðist býlið í eyði eftir það.”
Hér er hlaupið yfir a.m.k. þrennt; stórmerkilega stórgripagirðingu, sem enn sést ofan Borgarkots, rúningsrétt undir lágum ílöngum klapparhól og stóra vatnsstæðiðið, sem fyrr er nefnt. Í því vex bæði fífa og lófótur (marhálmur). Suðaustan við vatnsstæðið eru grónar hleðslur, líklegt aðhald eða nátthagi. Marhálmur er eina blómstrandi háplantan sem vex að öllu leyti í sjó við Ísland.

Vatnssteinar

Plantan getur orðið allt að 1 m á lengd. Marhálmur er grastegund sem vex í sjó, er oftast 30 til 70 cm á lengd en getur orðið meira en einn metri. Ofan í botnleirnum vaxa jarðlægir stönglar og upp af þeim blaðþyrpingar með reglulegu millibili. Blöðin eru löng og bandlaga og bogadregin fyrir endann. Þau eru 2 til 4 mm á breidd og með einum til þremur æðastrengjum. Blöð marhálms eru dökkgræn á litinn en jarðlægu stönglarnir eru hvítir eða ljósgrænir. Marhálmur er fjölær, vex aðallega á vorin og blómgast um mitt sumar. Fræaxið er í fræhulstri á hulsturblaði sem lítur að öðru leyti eins út og laufblöðin. Marhálmur missir megnið af blöðunum í byrjun vetrar en ný blöð fara að vaxa aftur upp af jarðstönglunum snemma vors. Talið er að marhálmur geti lifað í meira en 50 ár.
RefagildraFífan hvíta hefur löngum fangað auga náttúruunnenda. Þegar litið er yfir þær plöntutegundir, sem lagðar voru til grundvallar vali Íslendinga á þjóðarblómi eða plöntu kom fífan sterklega til greina; hana þekkja flestir, hún er sérstök, stílhrein, sterk í formi og myndrænt séð kjörin sem táknmynd; “eitthvað villt og gróft, sem er svo lýsandi fyrir Ísland”.
Fífa er mjög áberandi planta, ekki síst aldinið, sem má telja eitt fegursta djásn íslenskrar náttúru og skrýðir landið lengur en nokkur önnur plantna, eða frá sólstöðum þar til ullin fýkur burt með haustvindum. Þá skreytir fífa öðrum plöntum fremur jafnt hálendi sem láglendi og hefur í aldanna rás stuðlað að jarðvegsfestu, umfram flestar aðrar plöntur landsins: með þéttriðnu rótarkerfi árþúsunda og rotnandi leifum hennar í raklendi hefur aldrei heyrst getið um landrof í fífuflóa; þannig skapar fífa “táknræna samstöðu um gróðurvernd”.
Refagildra ofan við BorgarkotHve einkennandi fífa er fyrir landið sést best á því hvílíka eftirtekt hún vekur meðal erlendra ferðamanna, en hún er fyrsta og að jafnaði eina plantan sem þeir spyrja hver sé, strax á fyrsta degi ferðar um landið; hún er m.ö.o. flestum erlendum ferðamönnum framandi og þar með eitt af sérkennum landsins; hennar gætir vart annars staðar á byggðu bóli í vestrænni veröld utan nyrstu og strjálustu byggða norðurhvelsins; auk þess er fífa enn þann dag í dag sú íslenska planta sem hve mest er safnað til þurrkunar og híbýlaprýði á vetrum, e.t.v. ómeðvitað sem einskonar minni um birtu og gróanda sumarsins.
skeljarFífan var undirstaða íslensks þjóðlífs í aldanna rás, en í u.þ.b. 1.000 ár af sögu landsins brann á kveikjum hennar svo og stönglum sbr.: “Ljósið kemur langt og mjótt, logar á fífustöngum…”, það eina ljós er birtu bar í drungalegar vistaverur genginna kynslóða; þar með gerði hún íslenskri þjóð kleift að vinna, lesa og skrifa á löngum og dimmum vetrarkvöldum; fífa er þannig undirstaða andlegrar jafnt sem verklegrar menningar landsins og um leið tákn ljóssins í tvöföldum skilningi þar eð hún skrýðir landið einnig umfram aðrar plöntur í nóttlausri voraldarveröld íslensks sumars.

Borgarkot

Borgarkot – krossgarður.

“Rétt norðan við túnið í Borgarkoti, á bakkanum, er hlaðinn garður í kross, nefndur Skjólgarður. Þessir garðar voru hlaðnir svona til þess að fé hefði þar skjól í öllum veðrum, hvaðan sem blés. Þarna eru og gerði eða réttir. Allar þessar hleðslur eru mjög ósjálegar, sumar sokknar í jörð að mestu, aðrar sundurtættar af minkaveiðimönnum. Norðan við Skjólgarðinn mun Borgarkotsvör hafa setið. Þess sér nú lítil merki. Frá Borgarkoti inn að Neskletti er nokkur spölur. Þar heitir Keilisnes. Nesklettur er klettarani, sem gengur í sjó fremst á Keilisnesi. Í honum er svolítið skarfakál. Þar á bakkanum, miðsvæðis, er hringlaga tóft um 4 m að þvermáli. í hana er hlaðinn þverveggur. Kallast hún Þjófabyrgi. Því hefur nú verið umturnað af minkaveiðimönnum.”
Hér hefur refagildran góða, lík vörðu á lágum grónum klapparhól, gleymst. Þegar að var komið virtist vera um einfalda vörðu að ræða, en glöggt augað gaf þegar til kynna að þarna myndi Fífanvarða vera óþörf; mannvirkið varð því áhugaverðara fyrir bragðið. Við nánari skoðun komu í ljós tvær fallhellur austan og vestan í “vörðunni”. Þegar þær höfðu verið fjarlægðar birtist inngangur í refagildru. Gildra þessi hefur fengið að vera í friði af a.m.k. tveimur ástæðum; í fyrsta lagi hafa menn almennt talið að þarna hafi bara  og eigi að vera varða á hól og í öðru lagi sáust engin ummerki um að þarna hafi verið refagildra, fyrr en við nákvæmari skoðun. Þessi gildra bætist við a.m.k. þrjár aðrar í landi Borgarkots. Hún var skráð nr. 41 í landnámi Ingólfs, en með skráningu hinna tveggja eru refagildrunar í raun orðnar 43 talsins. Önnur er nokkur ofar í heiðinni, heilleg og með greinileg op, en hin er við fyrrnefnt vatnsstæði. Henni hefur verið raskað verulega. Þá má sjá leifar af enn einni refagildrunni skammt sunnar, utan í lágu klapparholti (44).
Sjá meira um Borgarkot HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 3. klst og 3 mín.

Borgarkot

Borgarkotsstekkur ofan Borgarkots.

 

 

Borgarkot

Borgarkot eru tóftir býlis austan Bakka og Litlabæjar, skammt austan Kálfatjarnar. Talið er að Borgarkot hafi tilheyrt Viðeyjarklaustri um tíma, eins og svo margar jarðir aðrar á norðanverðum Reykjanesskaganum. Þá mun Krýsuvík um sinn hafa haft þar stórgripi í skiptum fyrir afnot af landi innar á skaganum.

Borgarkot

Nautgripagirðingin ofan við Borgarkot.

Að þessu sinni var ætlunin að fylgja svonefndri stórgripagirðingu til austurs eftir móunum frá hlöðnum görðum ofan við Litlabæ. Girðing þessi eru stórir uppstandandi steinar með reglulegu millibili alveg að landamerkum Flekkuvíkur í austri. Girðingin beygir að vísu í tvígang á leiðinni lítilsháttar til norðurs, en neðan við Hermannavörðuna á landmerkjunum liggur hún í beina stefnu niður að sjávarmáli. Á einum stað, skammt vestan Vatnssteina (Vaðssteina), liggur þvergirðing milli hennar og sjávar.
Í sérhvern stein hafa verið höggvin eða borðuð tvö göt, annað efst og hitt skammt neðar. Í þessi göt hafa verið reknir trétappar. Á trétappana hafa verið hengdir strengir, girðing, sem hefur átt að halda gripunum innan hennar. Víða eru steinarnir fallnir niður, en sumir hafa verið reistir við á ný, svona til að hægt væri að gera grein fyrir stefnunni. Annars er merkilegt að sjá hvernig stóreflis steinum hefur verið velt úr sessi sínum.

Borgarkot

Trétappi og lykkja í einum steini stórgripagirðingarinnar ofan Borgarkots.

Gerð þessarar steinagirðingar hefur kostað mikla vinnu á sínum tíma. Færa og flytja hefur þurft þessa stóru steina um set og reisa þá upp á endann, gera í þá götin og negla í þá teglurnar.

Hvorki er vitað með vissu um aldur girðingarnar né í hvaða tilgangi hún var reist. Þó má álykta að girðingin hafi verið gerð til að halda fyrrgreindum stórgripum, annað hvort frá Viðey eða Krýsuvík. Þá er ekki með öllu útilokað að girðingin geti verið eitthvað yngri. Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn minnist ekki þessar girðingar og hennar er ekki getið í örnefnalýsingum af svæðinu. Fróðlegt væri að heyra frá einhverjum, sem kann skil á tilvist þessarar girðingar. Hliðstæð girðing er norðan og vestan við Minni-Vatnsleysu.
HÉR má sjá viðbótarfróðleik um girðinguna.

Borgarkot

Borgarkot – steingirðing.

Tóftir Borgarkots eru nú að mestu að hverfa í sjóinn. Sjá má mun á þeim frá ári til árs. Tóftir eru þó svolítið ofan bakkans. Þá er hlaðinn krosskjólgarður skammt austan þeirra, en tóftirnar eru umlyktar af hlöðnum görðum, nú að mestu jarðlægum.
Móarnir ofan Borgarkots geyma fjölmargar jurtir. Á einum stað mátti t.d. sjá þyrpingu af skarlatbikurum, sumir með gró. Fjaran er margbrotin og í henni margt að sjá. Á kafla er t.a.m. um fallega skeljaföru að ræða.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Ofan við Borgarkot má sjá hlaðnar refagildrur, vatnsstæði og hlaðin gerði. Minkurinn hefur víða komið sér vel fyrir. T.a.m. mátti að þessu sinni sjá hann leggjast á sund frá fjöruborðinu áleiðis út í sker skammt utar þar sem fugl sat og átti sér einkis ills von. Sundhraði minksins var órtúlegur. Slóðir hans í grasinu voru augljósar sem og holur hans.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Keilisnes

Ofan við Borgarkot, milli Kálfatjarnar og Keilisnes, frá vestri til austurs, í aflíðandi bogadregna línu frá suðaustanverðum túngarði Bakka og Litlabæjar, og síðan austast í línu til norðurs, er u.þ.b. 1.340 m löng stórgipagirðing, gerð af uppreistu grjóti, ca. 0.60-1.00 m háu með jöfnu millibili. Ofan á og ofarlega til hliðar eru greiptar holur og í þær reknir trétappar.
Storgripagriding-222Margir steinanna eru reyndar fallnir, en auðvelt er að rekja þá í landinu þessa leið.
“Stórgripagirðing-una tel ég ekki eldri en frá seinni hluta 19. aldar. Á Viðeyjarklaustur-stímum voru  hungraðir stráklingar notaðir sem fjáryfirsetur. Því ekki til nautayfirsetu á Keilisnesi?  Skynsamlegt er að nota til samarburðar  á stórgripaveldi Kálfatjarnar  og nautaeldistíma Viðeyjarklausturs á Mosfellsheiði, en þar gengu naut frjáls en voru rekin til slátrunar í Marardal við Hengil en þar sést enn til mannvirkja varðandi það (sem og áreiðanlegar ritheimildir).
Tel að ef skoðuð er búfjársaga Færeyja mætti finna álíka Stórgripagirðingu og hér er til umfjöllunar.
Storgripagirding-223Skynsamlegt er að horfa vítt til veggja hvað varðar söguskoðun – og láta skynsemi  ráða en ekki óskhyggju.
Líklega hefur Stórgripagirðingin á Keilisnesi verið  byggð af  stórhugamönnum í lok 19. aldar (flott að ná í vír úr Jamestown-strandinu í Höfnum fyrir lítinn pening og fá ríkisstyrk  út á framkvæmdina),  en aldrei nýst sem slík,  nema fyrir kýrnar á Kálfatjörn sem voru tiltölulega fáar og þurftu enganveginn alla Stórgripagirð-inguna,  nema fyrir það að auðveldara var að ná þeim saman að kvöldi til mjalta.  Vinnan við að safna og reisa steinana hefur ekki verðið mikið verk á þeim tímum, menn notuðu vogarafl samhliða mannafli eins og sést víða í Íslandsögunni. Til samanburðar  má nefna alla túngarða Kálfatjarnar þess tíma.
Storgripagirding-225Nútímamenn gera oft lítið úr verkhyggju og mannafli fyrri tíma.”
Ljóst er að girðingin er yngri en túngarðurinn ofan Bakka og Litlabæjar því ekkert grjót úr girðingunni næst honum hefur verið tekið í vegginn. Þá væri tiltölulega auðvelt að aldursgreina einn trétappa eða fleiri og fá þannig áætlaðan aldur girðingarinnar. Ástand þeirra gefa vísbendingu um að girðingin hafi verið seinna tíma mannvirki, að öllum líkindum frá Kálfatjörn. Enda ólíklegt að til hefðu verið nægilega löng reipi til verskins fyrir þann tíma. Skammt austar, vestan Minni-Vatnsleysu, má sjá hliðstætt mannvirki. Í stað trétappanna voru þar notaðir steypustyrktarteinar.
Þorvaldur Örn Árnason, kennari í Stóru-Vogaskóla benti FERLIR á eftirfarandi:

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason við stórgripagirðinguna ofan Borgarkots.

“Ég las í nýútkominni bók um Jamestown-strandið í höfnum að bændur á Vatnsleysuströnd hefðu keypt þar vír og rakið upp í þætti og notað í girðingar.
Við Heiða skoðuðum og tókum myndir 2012 af fornri stórgripagirðingu við Kálfatjörn og Keilisnes. Nú legg ég saman 2 + 2 og fæ út að þarna hafi menn notað vír úr Jamestown – og það fyrir aldamótin 1900!
Á bls.37 í bók Halldórs Svavarssonar, Strand Jamestowns, segir frá vírum og köðlum sem mikið var af. Þar segir:
“Ólafur Ketilsson sagði að faðir sinn hefði keypt allan vírinn og megnið af tóginu sem hann seldi síðan að mestu. Útvegsbændur keyptu tógið og notuðu meðal annars í netateina, stjórafæri og landfestar. Vírinn seldi hann til bænda í Vatnsleysustrandarhreppi sem einkum nýttu hann í túgirðingar. Þetta voru fyrstu vírgirðingarnar í Gullbringusýslu og sennilega á öllu landinu. Þeir Vatnsleysustrandarmenn röktu vírana upp, líklegt að þeir hafi verið þriggja eða fjögurra þátta og hver þáttur snúinn saman af mörgum grennri vírum. Með upprakningunni fengu þeir mjög langan einþættan vír. Eftir þetta var talað um að öll tún á Vatnsleysuströnd væru afgirt með vír.””

Heimild:
-Sesselja Guðmundsdóttir.
-Þorvaldur Örn Árnason.

Borgarkot

Trétappi og lykkja í einum steini stórgripagirðingarinnar ofan Borgarkots.